La Masa, mexíkósk taqueria

Ég er núna staddur á Íslandi til að hjálpa við að opna nýjan veitingastað. Á næsta ári eru 19 ár frá því að ég stofnaði Serrano í Kringlunni, sem náði heldur betur að slá í gegn. Það eru 6 ár síðan að ég seldi Serrano og einbeitti mér að því að reka Zócalo í Svíþjóð og núna eru líka meira en tvö ár síðan að ég seldi Nam frá mér. Ég hef því ekki komið að veitingarekstri á Íslandi í langan tíma.

Ég hef einbeitt mér að því að byggja upp Zócalo í Svíþjóð þar sem við erum með 12 staði (þar af 10 reknir af Franchise aðilum) og 3 staði í Danmörku (sem eru reknir af Franchise aðilum). Það hefur verið ævintýri, sérstaklega síðasta árið í COVID þar sem salan hefur hrunið og sumir staðir hafa verið alveg lokaðir.

—-

Í þessari COVID krísu hef ég hugsað mikið um hvað ég ætti að gera. Ein hugmyndin var sú að prófa að opna öðruvísi konsept á þeim stöðum sem myndu losna þegar að fjöldi veitingastaða myndi loka í Stokkhólmi. Ég byrjaði því að þróa konsept sem myndi passa sérstaklega fyrir eina staðsetningu sem ég hafði augun á á Södermalm. Í miðjum pælingum var haft samband við mig frá Íslandi og á endanum varð það svo að ég ákvað að opna stað á Íslandi í samstarfi við nokkra aðila sem hafa reynslu í veitingabransanum heima. Þess vegna opnuðum við La Masa – mexíkóska taquera í Borg 29 mat höllinni í Borgartúni.

Sagan á bakvið La Masa er nokkuð löng. Ég var 19 ára þegar ég fékk sumarvinnu í Mexíkóborg hjá Chupa Chups. Ég man alltaf eftir fyrsta kvöldinu þegar ég fór á taqueria stað nálægt húsinu þar sem ég bjó og prófaði í fyrsta skipti alvöru tacos. Lyktin af fersku kóríander og nýjum tortillum var æðisleg. Seinna um sumarið flutti ég yfir á annan stað í Mexíokóborg og við hliðiná innganginum í íbúðina var tortilleria, lítið bakarí sem bjó til ferskar maís tortillur á hverjum degi. Lyktin var ótrúlega sterk og góð og ég gat borðað maís tortillur í hvert mál.

Svo liðu árin og þegar ég var búinn í háskóla hafði ég líka kynnst amerískri útgáfu af mexókóskum mat í formi burrito staða einsog Chipotle og Baja Fresh og það var fyrirmyndin að Serrano þegar við opnuðum þann stað í nóvember árið 2002.

—-

Ég hef alltaf á ferðalögum mínum leitað uppi staði sem selja ekta mexíkóskan mat en nánast alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Ég hef fengið virkilega góðar tacos í Madríd og í Ködbyen í Kaupmannahöfn en það eru nánast einu staðirnir. Á öllum hinum stöðunum hefur mér liðið einsog ég gæti gert þetta betur. Fyrir nokkrum árum vorum við fjölskyldan stödd í Miami og beint fyrir framan hótelið var úti staður sem seldir tacos, sem eru án efa bestu tacos sem ég hef fengið utan Mexíkó. Ég fór að grennslast um hvað væri leyndarmálið á bakið staðinn og komst fljótt að því að allt snérust um tortillurnar.

Hugmyndin á bakvið La Masa er einfaldlega að gera bestu tortillur sem við mögulega getum gert. Við flytjum inn Conico Azul maís frá Atlacomulco í stórum sekkjum frá maísekru, sem hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í fimm kynslóðir. Á hverjum degi eldum við maísinn og látum hann svo liggja í bleyti yfir nótt. Daginn eftir mölum við maísinn í stórri maískvörn sem við keyptum frá Mexíkó. Úr því verður deigið – La Masa, þaðan sem nafnið á staðnum er komið. Við setjum svo deigið í tortilla pressu og út koma litlar tortillur sem við síðan grillum þegar að pöntun kemur frá gestum staðarins.

Lykillinn á bakvið góðar tacos eru góðar maís tortillur. Þess vegna verð ég alltaf fyrir vonbrigðum þegar ég fer á metnaðarfulla mexíkóska staði, sem selja frosnar maís tortillur. Á La Masa tökum við þessar fersku tortillur, setjum oná þær kjöt (al pastor svínakjöt, bbq kjúkling, barbacoa lambakjöt), fisk (djúpsteikta löngu) eða portobello sveppi og svo geta gestir bætt við lauk, kóríander og salsa sósum. Auk þess seljum við ferskar djúpsteiktar nachos með fersku guacamole og litlar quesadillas. Til að toppa þetta er seljum við svo bjór á krana, margarítur og margar tegundir af tekíla og mezcal. Planið er að á staðnum verði salsabar þar sem fólk getur valið eigin sósur, lauk, kóríander og slíkt einsog tíðkast á mexíkóskum taquerias, en það er ekki hægt akkúrat núna.

La Masa opnar í Borg 29 mat höll í Borgartúni. Sjá nánar á Instagram: @lamasaiceland og heimasíðunni LaMasa.is

Liverpool er besta lið í heimi!

Liverpool eru enskir meistarar. Loksins loksins loksins. Er það ekki ágætis tilefni til að blogga aftur?

Ég hef áður sagt frá því á kop.is og kannski á þessari síðu líka að mínar fyrstu fótboltaminningar tengdar Liverpool eru allar slæmar.

Ég var sjö ára þegar að Heysel völlurinn hrundi og 39 stuðningsmenn Juventus dóu. Ég held að ég hafi haldið meira með Juventus af því að Michal Platini var uppáhalds leikmaðurinn minn árið 1985.

Fjórum árum síðar á ég mjög skýra minningu frá því að horfa á Hillsborough slysið í beinni útsendingu og mánuði síðar þegar að Michael Thomas skorar fyrir Arsenal á síðustu mínútu á Anfield og tryggir Arsenal enska titilinn á kostnað Liverpool. Ég man ennþá að ég henti mér yfir sófaborðið í stofunni heima og öskraði NEIIII, 11 ára gamall. Einsog alltaf var ég einn að horfa á leikinn, þar sem pabbi fylgdist ekki með fótbolta og ég man að mamma kom fram og spurði mig hvað í ósköpunum væri að gerast. Ég man bara að ég var miður mín. Ég veit ekki af hverju ég varð Liverpool aðdáandi – ég bara man ekki eftir öðru.

Minningin um Arsenal leikinn er svo skýr í hausnum á mér að ég hélt nokkrum árum seinna að þarna hefði Liverpool tapað sínu síðasta tækifæri á að vinna deildina. En Liverpool vann deildina árið eftir – ég man bara nákvæmlega ekkert eftir því. Ég man að í herberginu heima voru myndir af Peter Beardsley og John Barnes, en einhvern veginn er þessi síðasti titill Liverpool svona ótrúlega óeftirminnilegar fyrir mig.Næstu ár fylltist herbergið mitt af plakötum af Gullit, Riikjard og van Basten og AC Milan var mitt lið, þar sem ég horfði meira á ítalska boltann á Stöð 2. Liverpool var áfram mitt lið en Gullit og van Basten voru einfaldlega miklu flottari fyrir 14 ára strák heldur en Dean Saunders, Mark Walters og Don Hutschinson. En eftir að Gullit var seldur til Sampdoria hvarf áhuginn minn á ítölsku deildinni og Liverpool hefur verið númer 1,2 og 3.

Liverpool hafa svo dóminerað áhuga mínum á fótbolta að önnur lið eru dæmd fyrst og fremst út frá Liverpool líka. Ég hélt einu sinni mikið með Barcelona, en eftir dramað í kringum Suárez og seinna Coutinho þá get ég ekki lengur stutt það lið. Ég held ekki með Real Madrid útaf Owen og McMannaman og þess vegna hef ég síðustu ár haft tilfinningar til Atletico Madrid, en þær hurfu þegar að liðið spilaði við Liverpool núna í ár.

Ég hef skipt um lið í merkilega mörgum íþróttum og deildum. Ég hataði Chicago Bulls þegar að Jordan var að spila fyrir þá. Á hverju ári hélt ég með nýju liði sem var svo slátrað af Bulls í úrslitum. Það var ó-þol-andi. Svo flutti ég til Chicago og byrjaði að halda með Bulls akkúrat þegar þeir byrjuðu að vera ömurlegir. Ég hélt með AC Milan á Ítalíu þangað til að þeir seldu Gullit og byrjaði þá að halda með Sampdoria. Ég hélt með Réð Sox áður en ég byrjaði að fíla Cubs og Stuttgart áður en ég byrjaði að fíla Dortmund.

En einu liði hef ég alltaf verið 100% trúr og það er Liverpool.Árið 2004 stofnuðum við Kristján Atli KOP.is. Síðan var fyrir mig fyrst og fremst staður til að létta á pirringi mínum um Liverpool undir stjórn Gerard Houllier, sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég man að einu sinni í háskóla lamdi ég sjónvarpið þegar ég sá að Emile Heskey var enn og aftur í byrjunarliðinu, svo mikill var pirringurinn. Öll árin sem ég skrifaði á KOP.is buðu uppá góða og slæma kafla. Ég sá Liverpool vinna í Istanbúl og nokkur tímabil voru frábær (sérstaklega Suárez tímabilið) en það var líka svo mikil neikvæðni og tuð tengd liðinu að ég gafst á endanum upp.

Öll árin eyddi ég óstjórnlega miklu púðri í að verja hina ýmsu leikmenn – Kuyt, Lucas, Henderson og fleiri – og umfram allt eyddi ég púðri í að verja núverandi eigendur Liverpool. Furðulega margir stuðningsmenn Liverpool hafa trúað því í gegnum árin að það eina sem gæti bjargað Liverpool væru sykurpabbar frá Mið-Austurlöndum. Ég var alltaf á móti slíkum eigendum því ég vissi að ef enski titillinn myndi vinnast með slíkri aðstoð þá væri það aldrei eins sætt einsog það er núna þegar að titillinn vinnst á því að eigendur Liverpool fjárfesta með skynsemi í réttum mannskap á öllum stöðum í klúbbnum og klúbburinn er sjálfbær.Ég hætti að skrifa reglulega á KOP.is vorið 2015. Það var síðasta heila tímabilið hans Brendan Rodgers. Suárez var farinn og Liverpool liðið var hræðilega lélegt og endaði í sjötta sæti, 25 stigum á eftir Chelsea. Ég var orðinn þreyttur á að rífast um Henderson og Lucas og Mignolet. Í síðustu leikskýrslunni minni voru Emre Can, Dejan Lovren og Alberto Moreno í vörninni með Joe Allen á miðjunni og Jordon Ibe frammi. Þetta var hörmung. Svo um sumarið fór Sterling og árangurinn varð bara enn verri.

En svo næsta haust kom Jurgen Klopp og síðan þá hefur það verið yndislegt að vera Liverpool stuðningsmaður. Við unnum Meistardeildina í fyrra, en fyrir tímabilið í fyrra var ég samt farinn að telja sjálfum mér trú um að Manchester City yrðu aldrei sigraðir í ensku deildinni. Þeir voru einfaldlega með of gott lið, of góðan þjálfara og of ríka eigendur. En FSG og Klopp hlustuðu ekki á slíkt tuð, heldur bættu allt sem þeir gátu bætt og hérna erum við – Liverpool eru Englandsmeistarar.

Og það með lið sem er svona yndislegt. Hvernig er hægt að elska ekki Jurgen Klopp og þetta stórkostlega samansafn af leikmönnum sem eru hógværir, heiðarlegir og frábærir. Ég hef varla elskað Liverpool leikmann jafnmikið og Mo Salah, en í þessu liði elska ég nánast hvern einasta leikmann. Allison, Trent, Robbo, van Dijk, Gomez, Henderson, Gini, Ox, Milner, Keita, Fabinho, Salah, Firmino og Mane. Shaqiri, Matip, Lovren, Origi og Adrian. Þetta lið var fullkomið og þetta tímabil var fullkomið.

En svo breyttist þetta allt kvöldið sem við töpuðum fyrir Athletico Madrid og heimurinn breyttist útaf Corona. NBA deildinni var hætt og næstu daga beið maður stressaður yfir því sem myndi gerast með ensku deildinni. Fyrst var henni frestað og fljótlega fóru alls konar vitleysingar að krefjast þess að deildinni yrði aflýst. Að það væri á einhvern hátt fáránlegt að spila fótbolta þegar að faraldur væri að geysa í samfélaginu. En sem betur fer þá byrjaði deildin aftur og Liverpool kláraði deildina og stendur núna uppi sem meistari með 99 stig. Í fyrra fengu Liverpool 97 stig og núna 99 stig.

Á síðustu 13 mánuðum hef ég horft á Jordan Henderson lyfta bikarnum í Meistaradeildinni, Super Cup, Heimsmeistarakeppni félagsliða og núna loksins loksins Ensku Úrvalsdeildinni. Ég reyndi að segja krökkunum mínum í fyrradag hversu magnað þetta er en þau skilja auðvitað ekki neitt þótt þau séu auðvitað Liverpool aðdáendur líka. Þetta ár verður sennilega aldrei toppað, en ég vona að krakkarnir mínir muni upplifa eitthvað í líkingu við þetta ár aftur.

YNWA.

Coronakrísa

Þessir síðustu 6 dagar hafa verið svo sturlaðir að það nær ekki nokkurri átt. Síðasta miðvikudagskvöld pantaði ég mér þriðja bjórinn eftir að Firmino skoraði gegn Atletico og var tilbúinn að fagna. En svo skoruðu Atletico mörk og mér líður einsog heimurinn hafi bara hrunið eftir það. Ég kom heim alveg ruglaður og gat ekki sofnað þar sem ég las um bandaríska pólitík á Twitter þar sem allt virtist vera að fara til fjandans.

Svo fór ég með krakkana í skólann daginn eftir og mætti svo uppá skrifstofu þar sem ég settist fyrir framan rekstrarstjórann á Zócalo og slæmu fréttirnar dældust yfir okkur. Almennt smit var byrjað í Stokkhólmi og á einum sólarhring höfðu nánast allir Zócalo staðir tæmst af fólki. Sérstaklega þeir í stærstu borgunum á Norðurlöndunum, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Svo hringdi leikskólinn og sagði mér að Einar Friðrik væri ekki nógu brjálæðislega hress til að fá að vera á leikskólanum útaf nýjum kröfum. Þannig að ég fór og sótti hann og reyndi að vinna í símanum á meðan að ég lék við hann.

Svo hefur þetta bara orðið verra og verra. Aðgerðirnar í Danmörku hafa smám saman þrengt að staðnum okkar þar og salan minnkaði um 85% á milli vikna. Í kvöld er Zócalo eini staðurinn sem enn er með opið í Tivoli Food Hall, þar sem voru fyrir viku 15 staðir opnir. Við seljum bara mat til að taka með. Enginn má sitja á staðnum. Það er eflaust ekki langt í að við lokum.

Í Stokkhólmi eru okkar stærstu staðir annars vegar í verslunarmiðstöðvum einsog Mall of Scandinavia, þar sem fáir vilja vera, eða í miðbæ Stokkkhólms þar sem við treystum á viðskipti frá fólki sem vinnur í nágrenninu. Aðalskrifstofur Spotify erum við hliðiná einum staðnum og þegar Spotify yfirmenn tóku þá skiljanlegu ákvörðun að hvetja alla til að vinna heima þá hrundi salan hjá okkur. Núna vilja sænsk yfirvöld að allir vinni heima og því má búast við að salan hrynji enn meira.

Við höfum reynt að gera okkar besta – fókusera á take-away og heimsendingar, en það hefur takmarkað gagn þegar að flestir þurfa að komast að stöðunum með almenningssamgöngum einsog lestum, sem margir vilja ekki snerta þessa dagana.

Og svo hef ég ekki hugmynd um hvað þetta endist lengi. Veira hefur fullkomlega kippt öllum rekstrargrundvelli undan veitingastöðum, sem voru allir reknir með hagnaði á síðasta ári, eru fullir af frábæru starfsfólki og reknir af sérleyfishöfum sem hafa lagt sína peninga, hjarta sitt og sinn tíma í að reka Zócalo staði.Það að reka veitingastað er að mörgu leyti hálf sturlað. Á hverjum degi byggir maður reksturinn sinn á því að 100-400 manns velji þann daginn að koma inná nákvæmlega þennan stað af öllum þeim hundruðum staða sem hægt er að velja um. Þetta þýðir að bransinn er aldrei leiðinlegur, en það þýðir líka að þegar að fólk hættir allt í einu að koma þá fer allt í fokk strax.

Ég er ekki að kvarta – það eru bransar sem hafa það enn verra. Ég myndi ekki vilja skipta á djobbi við framkvæmdastjóra SAS eða Norwegian akkúrat núna (þrátt fyrir að launin myndu margfaldast) eða reka hótel, bar eða næturklúbb. Þá er skárra að eiga skyndibitastað.

Þar sem Margrét er að klára ritgerðina sína þá hef ég séð um krakkana að langmestu leyti síðustu daga. Alla þessa viku hefur að minnsta kosti Einar Friðrik verið veikur og því hef ég þurft að vinna þegar hann sefur og svo á kvöldin þegar allir eru sofnaðir og maður er hálf uppgefinn eftir að hafa skemmt, eldað fyrir og svæft þrjá krakka. En kannski hefur þetta líka hjálpað við að komast í gegnum þetta. Bankahrunið á Íslandi var barnaleikur á Serrano miðað við þetta ástand.

Það er búið að vera ótrúlega furðulegt að vera svona mikið heima með krakkana á meðan að það er algjört hrun á veitingastöðunum. En kannski er það ágætt að verða að hugsa um krakkana stóran hluta dagsins í stað þess að velta sér endalaust uppúr veltutölum og fréttum. Það gefur eflaust smá betri yfirsýn í lok dags. 

Núna verður maður að halda í vonina að eitthvað breytist. Við fjölskyldan erum bara hress. Við Margrét hjólum alltaf yfir á Södermalm, þannig að við sleppum við almenningssamgöngur, og ég hef unnið smá á skrifstofunni og þegar ég er heima þá lærir hún þar. Krakkarnir tala mikið um Coronavírusinn, en þau fá ennþá að fara í skóla og í dag gat Einar Friðrik loksins mætt aftur á leikskólann. Ætli hann fái ekki að fara í nokkra daga og svo verði öllu lokað. Ég vona að þið séuð öll hress – þvoið á ykkur hendurnar og hugsið vel um hvort annað.  ❤️😄

Tveim árum síðar

Ég hef ekki skrifað á þetta blogg í tvö ár.

Ég hugsa stundum um eitthvað voðalega sniðugt sem væri betra að skrifa hér heldur en að skrifa bara á Facebook eða sleppa því einsog gerist oftast.

En svo líður tíminn og alltaf verður lengra frá síðustu færslu og aldrei finn ég eitthvað nógu merkilegt til að skrifa um. Kannski hjálpar þetta.

Áramót 2014

Þvílíkt ár!

Fjölskyldumyndataka 2014

 • Við Margrét eignuðumst okkar annað barn í maí. Björg Elísa er algjör snillingur. Hún er í góðu skapi allan daginn og ég hef aldrei vitað um barn sem er jafn auðvelt að fá til að brosa og hlæja. Jóhann Orri var smá pirraður í upphafi yfir því að vera ekki lengur einn, en eftir smá vesen í byrjun er hann alveg frábær stóri bróðir, sem vill alltaf vera nálægt litlu systir sinni, knúsa hana og halda í höndina á henni. Hinn 2 ára og 8 mánaða gamli Jóhann Orri er svo núna byrjaður að mata 7 mánaða gamla systur sína.

 • Að eiga tvö lítil börn er auðvitað smá erfitt, en það hefur hjálpað ótrúlega mikið hversu auðveld þau hafa verið á þessum tíma. Maður venst þessu merkilega fljótt og í dag finnst mér það vera skítlétt þegar að maður þarf “bara” að sjá um eitt barn.

 • Ég seldi hlut minn í Serrano á árinu. Ég stofnaði Serrano ásamt Emil fyrir 13 árum en eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég alltaf komið minna og minna að rekstrinum heima og því fannst mér þetta vera ágætis tímapunktur til að selja og einbeita mér að því sem ég er að gera í Svíþjóð. Einnig eftir að við breyttum nafninu á stöðunum okkar í Svíþjóð í Zócalo hafa konseptin verið að fjarlægjast hvort annað og því gat ég minna beitt mér í málum tengdum Serrano, enda hvorki auðvelt né æskilegt að stýra þessu frá öðru landi. Og Emil, sem að keypti minn hlut, er auðvitað besti aðilinn til að reka Serrano áfram, þannig að þetta barn mitt er í góðum höndum.

 • Við Margrét keyptum okkur svo inní Spaksmannsspjarir, sem að Björg tengdamamma mín á með okkur. Það er að okkar mati frábært fyrirtæki sem á mikla möguleika. Fyrirtækið hannar og framleiðir hágæða föt, sem að endast lengi og við teljum vera mikla framtíð í fatamerkjum, sem leggja áherslu á sjálfbærni. Það eru líka ný tækifæri í öllum heiminum í kringum netverslun og lítil búð á Íslandi getur auðveldlega selt sína vöru útum allan heim.

 • Við stofnuðum Zócalo stað í Malmö og salan á Zócalo var á árinu 2014 yfir 40% hærri en 2013 og 160% hærri en árið 2012 svo að hlutirnir eru að fara í rétta átt. Á næsta ári munum við opna stað í stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna, Mall of Scandinavia, sem opnar næsta haust – og vonandi einhverja aðra staði líka.

  Þetta hefur alls ekki verið auðvelt ár vinnulega séð, en ég er þó sæmilega sáttur við hvernig staðan er í dag og er bjartsýnn fyrir 2015.

 • Það besta við þetta ár vinnulega séð er þó að ég hef ekki þurft að vinna of mikið. Ég fer aldrei í vinnuna fyrir klukkan 9 og er oftast búinn um fjögur. Það þýðir að ég hef geta verið ótrúlega mikið með börnunum mínum og Margréti.

  Að ala upp lítil börn í Svíþjóð með alla fjölskylduna á Íslandi er auðvitað ólíkt því að gera það á Íslandi. Við fáum sjaldan pössun svo að við erum rosalega mikið með börnunum, sem er auðvitað ótrúlega gaman þegar þau eru á þessum aldri. Félagslífið er minna, en ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir það tækifæri að vera svona mikið með krökkunum á þessum aldri.

 • Jóhann talar bæði sænsku og íslensku og skiptir á milli tungumálanna án þess að hugsa um það. Hann er algjörlega frábær strákur, sem er fullur af fjöri og með mikið ímyndunarafl en getur líka setið heilu tímana og leikið sér í Dublo, ekki ólíkt því sem ég gerði þegar ég var lítill.

 • Við ferðuðum slatta á árinu. Áður en Björg kom í heiminn fórum við til Dubai og í haust fórum við til Flórída, Kúbu og Mexíkó einsog ég hef skrifað um á þessa síðu.

 • Við eyddum sumrinu á Íslandi og fórum meðal annars í tvö brúðkaup hjá góðum vinum okkar, héldum nafnaveislu fyrir Björgu, opnuðum Nam veitingastað, fórum í sumarbústaði í nokkrum landshlutum og áttum góða daga í Flatey.

 • Við höfum svo eytt jólunum hérna í Stokkhólmi í fyrsta skipti með allri fjölskyldu Margrétar, sem hefur verið frábært.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þetta ár og þessa litlu fjölskyldu, sem ég á.

Áramót 2013

Þetta ár hefur verið magnað.

 • Jóhann Orri hefur breyst úr smábarni í lítinn og ótrúlega skemmtilegan strák á árinu. Hann er í dag 20 mánaða gamall, hleypur útum allt, klifrar uppá allt (þó það tímabil sé reyndar eitthvað að líða undir lok í bili allavegana) og getur sagt fulltaf orðum og skilið flestallt sem við segjum við hann auk þess sem hann hefur sjúklega mikinn áhuga á lyklum og bílum.

  Hann er nánast alltaf í góðu skapi og fer létt með að heilla ömmur, afa og heilu boðin full af fólki með því að vera hress, skemmtilegur, forvitinn og áhugasamur um annað fólk.

 • Við opnuðum Zócalo á árinu. Við breyttum 5 Serrano stöðum í Zócalo á tveim vikum í apríl og opnuðum svo 3 nýja staði síðasta sumar, alla í miðbæ Stokkhólms. Það eru núna 3 stærstu staðirnir okkar. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt en lika skemmtilegt. – Zócalo hefur fengið góðar viðtökur, salan er meira en tvöfalt meiri í nóvember en hún var í mars, svo að við getum ekki verið annað en ánægð. Við fengum svo í september verðlaun sem skyndibitastaður ársins í Svíþjóð samkvæmt FastFood Magazine. Við fengum einnig inn tvo sænska fjárfesta í fyrirtækið.
 • Þetta ár hefur því verið algjör rússibanaferð vinnulega séð. Plús það að við opnuðum Serrano stað á Akureyri og í byrjun næsta árs munum við opna Serrano og Nam staði. Þannig að á einu ári verðum við búnir að opna 11 veitingastaði.
 • Kottke segir að bloggið sé dautt. Ég hef skrifað þrisvar sinnum á þessa síðu á árinu, þannig að hvað mig varðar hefur hann nokkuð rétt fyrir sér.
 • Við höfðum uppi stór plön með frí. Fyrir árið vorum við ákveðin að fara í brúðkaupsferð á árinu og í sumar vorum við ákveðin að ferðast um Alpana. En hvorugt varð að veruleika, aðallega vegna anna í vinnu. Við eyddum þó góðum tíma á Íslandi og fórum þrjú saman til Istanbúl um páskana. Það er algjörlega frábær borg, sem ég mæli hiklaust með. Ég var í Istanbúl 2005 og sá besta fótboltaleik allra tíma, en hafði lítinn tíma til að skoða borgina. Núna gátum við Margrét og Jóhann Orri hins vegar notið borgarinnar. Skoðuðum Topkapi höllina, Aya Sofia, Bláu moskuna, nutum mannlífisins og borðuðum ótrúlega góðan mat. Frábær borg.
 • Það sem er þó besta við þetta ár var alltaf að sækja Jóhann Orra á leikskólann. Að sjá hann lifna við og hlaupa í áttina til mín þegar ég kom og sótti hann er einfaldlega eitt það allra magnaðasta við það að vera pabbi. Ég elska þessar stundir okkar.
 • Og það er líka ótrúlega frábært að eftir erfiða daga í vinnunni að geta komið heim til bestu eiginkonu í heimi, sem er alltaf til í að hlusta á mig kvarta um það sem hefur gengið illa eða gleðjast þegar að vel gengur. Ég er óendanlega heppinn að eiga Margréti Rós og Jóhann Orra.
 • Og til að bæta oná þetta allt þá eigum við Margrét Rós svo von á okkar öðru barni í maí. Það verður fjör. Lífið er gott og aldrei betra en í kringum jólin þegar við eyðum hverjum degi og hverju kvöldi með okkar vinum og fjölskyldu hérna heima á Íslandi.

Gleðilegt ár.

Áramótaávarp 2012

Dálítið seint þar sem ég hafði engan tíma á gamlársdag

2012 hefur verið ótrúlegt ár.

 • Við Margrét eignuðumst lítinn strák í apríl, sem við nefndum Jóhann Orra.
 • Jóhann Orri er snillingur og nánast allt í okkar lífi hefur breyst við komu hans. Á þessum átta mánuðum sem hann hefur verið með okkur hafa tilfinningar mínar í hans garð bara orðið sterkari og sterkari. Mér þótti vænt um hann frá því að ég sá hann á spítalanum í Danderyd. En með mánuðunum þá hafa tilfinningarnar mínar breyst. Þegar hann fór að brosa til mín, fatta hver ég var og sýna viðbrögð þá urðu tilfinningarnar svo miklu sterkari.
 • Jóhann Orri situr við hliðiná mér þegar ég skrifa þetta. Hóstar af því hann er veikur, lítur svo upp og brosir til mín. Þetta barn!
 • Sonur okkar hefur kúkað í klósett síðan hann varð 6 mánuða gamall. Það er algjörlega fáránlegt hversu ótrúlega miklu stolti maður getur fyllst við að sjá strákinn sinn kúka í klósett. Að vera pabbi er svo ótrúlega gefandi útaf öllum þessum litlu sigrum.
 • Gaurinn sem endar steggjapartí niðrá Hlölla á Lækjartorgi talandi við vini sína um hversu æðisleg barnið sitt er – það er núna ég.
 • Við Margrét prófuðum að vera fullorðin og fara í frí til Tenerife og gista á all-inclusive hóteli. Sú tilraun misheppnaðist. Við erum ekki tilbúin í þann pakka. Næsta ferðalag verður frumlegra.
 • Ég fór í tvær frábærar ferðir til Liverpool og sá Liverpool ná heilu stigi útúr þeim tveimur leikjum. En ferðirnar snérust um frábæra vini miklu frekar en þetta blessaða fótboltalið sem hefur gert mér lífið leitt á árinu.
 • Við Margrét seldum gömlu íbúðina okkar í Stokkhólmi og fluttum í nýja íbúð, sem hentar betur fólki með lítið barn, barnavagn og því sem tilheyrir. Við búum enn á eyjunni Södermalm af því við erum enn ung og hipp og kúl. En samt orðin mamma og pabbi og vöknum klukkan 8 á laugardagsmorgnum og allt það.

Við enduðum árið 2012 á Íslandi þar sem ég afrekaði á 14 dögum að fara í tvær 15 klukkutíma langar steggjanir, tvö frábær brúðkaup, innflutningspartí, tvö matarboð, vera þunnur eftir tvö brúðkaup, innflutningspartí og tvær steggjanir, fara í boð á aðfangadag, jóladag og annan í jólum. Fara í partí á annan í jólum, spila pool með vinum, horfa á Liverpool með vinum mínum og fara í löng brunch-boð þrisvar sinnum. Svona eru þessar Íslandsferðir – þvílík dagskrá – en þær eru samt alltaf frábærar.

Á árinu 2013 verður mikið nýtt að gerast í tengslum við Serrano í Svíþjóð og við Margrét stefnum á að fara loksins í brúðkaupsferð. Það verður fjör.

Gleðilegt ár!

35

Í dag er ég 35 ára. Það eru nákvæmlega 5 ár síðan ég skrifaði þetta á þrítugs afmælinu mínu.

Ég hugsaði aðeins hvað ég ætti að skrifa á þessa bloggsíðu við þetta tilefni. Hvar stend ég í dag? Hvernig er mitt líf? Ég gæti skrifað færslu um það að á síðustu fimm árum hef ég ferðast til Mið-Austurlanda, Egyptalands, Indónesíu, Indlands og fleiri landa. Serrano staðirnir, sem voru tveir fyrir fimm árum, verða eftir um mánuð orðnir sjö á á Íslandi og fimm í Svíþjóð. Ég hef flutt til Stokkhólms og bý á frábærum stað í miðri borginni.


En það sem skiptir máli varðandi þessi fimm ár er auðvitað að ég hef kynnst ótrúlega mörgu frábæru fólki. Fólk, sem ég þekkti varla fyrir fimm árum, eru meðal minna bestu vina í dag. Og jú þetta…

17.ágúst 2007 vaknaði ég einn í herberginu mínu á Hagamel. 17.ágúst 2012 var ég vakinn af Margréti Rós. Það að hitta hana fyrir rúmum fjórum árum er það besta sem hefur komið fyrir mig. Við giftum okkur fyrir rúmu ári á besta dagi lífs míns. Og við hliðiná henni lá Jóhann Orri, rétt tæplega 4 mánaða strákur, sem mér þykir alveg ofboðslega vænt um og sem kemur mér á óvart á hverjum degi.

Því þegar að illa gengur í vinnunni, þegar að liðið manns tapar og þegar veðrið er vont, þá skiptir það mestu máli hverjir bíða manns heima. Þau tvö bíða mín og því get ég stoltur sagt að þessi síðustu fimm ár hafi verið frábær og að ég hafi gert ansi margt rétt. Fyrir það er ég þakklátur.

Ég, pabbi

Ég og sonur minn útá svölum
Ég og sonur minn útá svölum
Litli strákurinn okkar Margrétar á 6 vikna afmæli á morgun. Hann fæddist á Danderyd spítala í úthverfi Stokkhólms þann 29. apríl klukkan 15.

Fæðingin gekk hratt fyrir sig. Margrét vakti mig klukkan 9 um morguninn og hafði þá misst vatnið. Við byrjuðum því að undirbúa okkur og áttum að vera mætt uppá spítala klukkan 13. Hins vegar voru hríðirnar orðnar það miklar að við þurftum á endanum að stökkva út úr húsi á mettíma án þess að ná að klára allt – ég kláraði að borða morgunmatinn minn í leigubíl uppá spítala.

Margrét fæddi á BB deildinni á Danderyd, sem líkist Hreiðrinu á Íslandi. Allt er gert til þess að staðurinn líkist ekki spítala og okkur leið vel þarna allan tímann. Fæðingin gekk ótrúlega vel. Við höfðum æft hvað ég ætti að gera í fæðingunni og sá undirbúningur kom sér vel. Ég hafði ætlað að vera til staðar – vera rólegur – og gera það sem ég gat gert til að hjálpar. Ég hef auðvitað aldrei séð Margréti líða aðrar eins þjáningar, en mér fannst ég aldrei vera eins gagnslaus og ég hafði verið hræddur við – langt í frá, því mér leið eftirá einsog ég hefði í alvörunni hjálpað til. Margrét stóð sig massíft vel í fæðingunni. Hún hafði ákveðið fyrirfram að nota enga deyfingu og það tókst henni að standa við.

Það er ekkert sérstaklega merkilegt við að það fæðist barn á einhverjum spítala í úthverfi Stokkhólms. En að við Margrét höfum skapað þetta barn saman og fá hann svo nýfæddan og leggja hann á bringuna á mér var ótrúlega magnað. Þetta ferli allt saman varð einhvern veginn allt raunverulegt.

Við vorum á spítalanum í tvo daga og sváfum þrjú saman í herbergi á meðan að Margrét komst í gang með brjóstagjöf og við lásum kveðjur sem við fengum á sms og Facebook. Tókum þessu rólega og vöndumst tilfinningunni að nú værum við orðin lítil fjölskylda.

* * *

Fyrstu vikurnar átti ég svo sem ekkert alltof langar stundir með stráknum. Hann vaknaði, borðaði og sofnaði aftur. Ég hélt varla á honum nema að hann væri sofandi. Og í raun voru einu stundirnar okkar saman þegar að ég skipti á bleyjum eða klæddi hann. Eins skrýtið og það kann að hljóma, fyrir þá sem eiga ekki barn, þá fannst mér bleyjuskiptin merkilega skemmtileg. Tilhugsunin við að skeina einhverju barni út í bæ er ekki spennandi en þegar að um son minn er að ræða þá eru bleyjuskiptin allt í einu orðin að stund þar sem við feðgarnir erum einir saman og getum myndað tengsl.

Eftir viku tvö eða þrjú hefur stundunum okkar saman farið fjölgandi því núna er hann meira vakandi og getur legið hjá mér. Smám saman fær maður sem pabbi tilfinninguna fyrir því að maður hafi raunveruleg áhrif. Það er ótrúlega góð og merkileg tilfinning að einhver lífvera sé svona háð manni. Að það eitt að taka hann upp úr rúmi og faðma hann geti fengið hann til að hætta að gráta er yndislegt.

Það er líka dálítið skrítið þegar að maður hugsar út í það að maður hafi ekki fengið neina sérstaka þjálfun fyrir þetta foreldrahlutverk. Það er magnað að sjá konuna manns allt í einu breytast í mömmu og sjá hana brillera í því hlutverki frá degi eitt. Ég þorði varla að halda á börnum fyrir nokkrum vikum síðan, en núna finnst mér ekkert mál að halda á stráknum með annari hendi þegar að við fikrum okkur inná klósett í myrkrinu til að skipta á bleyju.

* * *

Karlmenn segja oft að besti dagur ævi þeirra hafi verið fæðingardagir barna sinna. Oft segja menn þetta þegar þeir eru hræddir við að gera of mikið úr einhverju sem skiptir ekki of miklu máli – sigri á fótboltamótum eða öðru slíku. Þá má ekki segja að sigur liðsins í Meistaradeildinni hafi verið besti dagur ævinnar og því redda menn sér oft með því að segja “já, nema auðvitað dagurinn sem að barnið mitt fæddist”.

Dagurinn sem að sonur okkar fæddist var ekki besti dagur ævi minnar, þannig séð. Brúðkaupsdagurinn okkar Margrétar toppar allt og mun eflaust gera lengi.

En vissulega var þetta stórkostlegur dagur því þetta var byrjunin á einhverju frábæru – þetta var í raun dagurinn sem að allt breyttist. Mér finnst í raun allir dagarnir síðan hafa verið enn betri en fæðingardagurinn vegna þess að ótrúlegustu hlutir verða betri núna. Það er betra að fara að sofa með hann í vöggu við hliðiná rúminu okkar. Það er skemmtilegra að labba um Södermalm með hann í vagni. Það er skemmtilegra að vakna á morgnanna og sjá hann sofa við hliðiná Margréti.

Ég var alltaf smá stressaður yfir því hvort ég væri tilbúinn í þessar breytingar á mínu lífi. Var ég tilbúinn að fórna því frelsi sem maður hafði áður? Frá því að strákurinn fæddist hef ég ekki efast um það í eina sekúndu að ég var tilbúinn. Auðvitað er frelsi manns minna, en það er svo margt annað nýtt sem lítið barn færir manni. Þannig að jafnvel þegar að hann liggur öskrandi með magaverki uppí rúmi við hliðiná manni klukkan 5 um morgun þá efast maður ekki í eina sekúndu um hversu frábært það er að eignast barn.

Á sama hátt er ég sannfærður um að skemmtilegustu stundirnar séu allar eftir. Ég get ekki beðið eftir því að fá að tala við son minn, sýna honum það sem mér finnst skemmtilegt og mikilvægt og með tímanum kynnast honum sem einstaklingi og læra af honum. Ég get ekki beðið.

36 vikur

Í dag er 17.apríl.  Ef að allt gengur vel munum við Margrét á næstu dögum eða vikum eignast son.

Ég er orðinn 34 ára gamall.  Hérna í Stokkhólmi þykir það ekki hár aldur til að vera barnlaus, en á Íslandi er það svo að flestir jafngamlir vinir mínir eiga að minnsta kosti eitt barn.  Pabbi átti þrjú börn á sama aldri og bróðir minn líka.  Þegar ég skoða fólk sem eru kunningjar mínir frá því í barna- eða framhaldsskóla þá finnst mér stundum einsog það fólk sé 10 árum eldri en ég.  Fjölskyldufólk með börn í skóla, sem sækir krakka í fiðlutíma og á fótboltaæfingar.

Lengi vel þótti mér það líf ekki spennandi.  Ég var jú á lausu þangað til að ég varð 31 árs gamall.  Á stundum dreymdi mig um aðeins meiri stöðugleika í mínu lífi með góðri konu, en ég naut þess líka að vera single.  Ég naut þess að ferðast um heiminn, ég setti af stað fyrirtæki og vann tvær vinnur á löngu tímabili.  Ég gerði það sem mér fannst ég þurfa að gera áður en ég var tilbúinn til þess að róast aðeins.

Svo breytist maður, eldist og allt það og einn daginn finnst manni allt í einu spennandi að eignast börn og stofna fjölskyldu.  Ég hef alltaf vitað að mig langaði að eignast börn, en það var alltaf eitthvað sem ég sá fyrir mér í einhverri óskilgreindri framtíð.  Svo bara smám saman varð þessi framtíð að veruleika.  Og ég var búinn að finna hina fullkomnu stelpu til að giftast og stofna fjölskyldu með.  Þannig að þetta passaði.

* * *

Margrét er núna gengin aðeins yfir 36 vikur og þetta óléttutímabil hefur verið gott.  Einsog ég bjóst við þá er maður sem karlmaður auðvitað í öðru sæti á þessu tímabili.  Það er jú konan sem gengur með þetta barn og það verður engin breyting á mínum líkama.  Þannig að ég hef lítið geta gert nema að reyna að hjálpa eins mikið og ég hef getað.  Elda oftar, þrífa meira og svo framvegis.  Verkefnunum er vanalega nokkuð jafnt skipt á okkar heimili, en ég hef reynt að taka yfir stærri hluta af verkefnunum en ég geri vanalega.  Og maður reynir að vera extra tillitsamur, því verkefninu er jú fáránlega misskipt.  Við ákváðum saman að eignast þetta barn og líf mitt hefur haldið áfram einsog vanalega síðustu mánuði á meðan að Margrét hefur ekki farið í crossfit í 4 mánuði og á tímabili mátti hún ekki fara útúr húsi og lá uppí sófa mestallan daginn.

Því er það besta sem maður getur gert bara að vera til staðar.  Mæta í alla tíma sem maður er boðaður í án þess að spyrja – jafnvel þótt það þýði fæðingarnámskeið á nákvæmlega sama tíma og Liverpool mætir Everton í úrslitum FA bikarsins.  Miðað við þær fórnir sem að maki manns færir þá er það ekki merkilegt.

En það er samt ekki hægt að komast framhjá því að líkt og með öðru í óléttunni, þá erum við karlar bara í áhorfendasæti.  Það er jú gaman að finna fyrir sparkinu á maganum á Margréti, en Margrét er hins vegar að upplifa það að það er einstaklingur inní maganum á henni!!!  Mér finnst það magnað þegar að ég verð svangur og eitthvað loft hreyfist til í maganum á mér.  Mér fannst líka einu sinni magnað að kaupa svona nammi sem að sprakk í munninum á manni.  Hvernig tilfinning er það þá að hafa lífveru inní maganum á sér, sem hreyfir sig allan daginn? Það hlýtur að vera alveg stjarnfræðilega furðulegt og því varla undarlegt að stelpur verðu mun uppteknari af óléttunni og séu á óléttutímanum búnar að bindast barninu sterkari böndum en við karlar.

* * *

Ég hef hugsað mikið um það undanfarna mánuði hvernig ég var alinn upp og hvernig samband mitt við foreldra mína var.  Sumir hlutir breytast bara af því að við erum af annarri kynslóð.  Ég held einhvern veginn að uppeldi okkar Margrétar verði allt öðruvísi en mitt uppeldi var.  Ekki af því að mér finnist foreldrar mínir hafa gert neitt vitlaust, heldur eru bara breyttir tímar.  Og ég hef áttað mig á þeim hlutum sem mér langar að hafa öðruvísi í sambandi mínu við minn son.

Hvernig sem hann verður, þá vonandi tekst okkur vel upp.  Vonandi gerum við ekki of mörg mistök og vonandi verða mistökin okkar ekki of alvarleg svo að við getum ekki bætt úr þeim.

Ég veit allavegana að ég hef aldrei á ævinni verið jafn spenntur fyrir neinu verkefni og þessu.