Í dag

Dagurinn í dag er búinn að vera skemmtilegur. Ég fíla svona daga í stressi fyrir opnun á nýjum Serrano stað. Vissulega tekur það á að vera að ýta á eftir fólki, rífast við aðra og með símann uppað eyranu allan daginn á flakki um bæinn.

En ef ég ætti að velja milli svona daga og þess að vera inná skrifstofu allan daginn, þá væri valið ekki erfitt.

* * *

Við munum semsagt opna Serrano staðinn í Dalshrauni 11 (sjá [kort](http://serrano.is/kort-hfj.jpg)) núna á föstudaginn klukkan 11. 100 fyrstu viðskiptavinirnir munu fá ókeypis burrito.

Staðurinn er að taka á sig [mynd](http://www.flickr.com/photos/82127547@N00/2437349702/).

* * *

Ég er búinn að ná mér eftir áfall gærdagsins. Ég held að Liverpool taki þetta í seinni leiknum.

Jesús almáttugur hvað þessi Man U – Barceona leikur var svo leiðinlegur.

* * *

Ég er búinn að skipuleggja flest sem kemur að ferðinni í næstu viku. Er búinn að útvega mér nýtt vegabréf. Hið gamla lenti í þvottavélinni og því máðust allir stimplarnir út. Ég var hræddur um að sýrlenskir landamæraverðir tækju það sem tilraun mína til að fela ferðir til Ísrael, þannig að ég ákvað að fá mér nýtt og fínt vegabréf.

Fór svo í eina sprautu og er því að mestu tilbúinn í ferðina. Sé reyndar fram á að síðustu dagarnir í vinnunni verði nokkuð þéttir, en það er líka bara ágætt.

Aftur af stað!

Vegna ýmissra ástæða í mínu lífi hef ég ekki farið í frí mjög langan tíma. Síðasta ár var ár mikils uppgangs hjá Serrano og ákveðin starfsmannamál þar gerðu mér ómögulegt um að fara í frí. Fyrir utan stuttar ferðir til Liverpool og Edinborgar, þá má segja að ég hafi ekki farið í frí síðan ég fór í ferðina til [Suð-Austur Asíu](http://eoe.is/ferdalog/#sud-a-asia) í september-október 2006.

Sú ferð var bæði góð og slæm. Ég var nýkominn útúr mjög erfiðum sambandsslitum og ég var að reyna að ná mér af þeim mestalla ferðina – og í raun má segja að ferðin hafi verið farin til að komast yfir þau. Það reyndist hins vegar oft erfitt. Ég var jú einn á ferðalagi og ég veiktist nokkrum sinnum illa og því var partur af ferðinni uppfullur af sjálfsvorkunn, ælandi inná einhverjum ódýrum hótelum í Phom Penh og öðrum álíka borgum.

En ferðin var líka æðisleg. Ég sá Bangkok, hið stórkostlega Angkor og Ha Long Bay í Víetnam. Ég borðaði hundakjöt, stakk mér til sunds í Tonkin flóa og lét [apa ráðast á mig](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274461853/in/set-72157594326242587/). Ég djammaði í Vientiane, Bangkok, Phnom Penh og Saigon, kynntist fulltaf fólki og fræddist um ótrúlega sögu þessara landa.

En ég var líka ákveðinn í því að fara ekki aftur í svona ferð einn. Allavegana ekki ef að öll mín mál væru jafn óleyst og þau voru þá.

* * *

En núna 18 mánuðum síðar er ég á leið út aftur.

Ég ætla að ferðast einn í 6 vikur en ég tel samt að mín mál séu í miklu betri stöðu núna og ég geti einbeitt mér að því að njóta lífsins í ókunnugu landi án þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast heima á Íslandi.

líbanskar stelpurEftir 10 daga mun ég fljúga til London og þaðan til Beirút í Líbanon. Ég ætla svo að eyða 6 vikum á ferðalagi um Líbanon, Sýrland, Jórdan og Ísrael. Upphaflega planið mitt var að fara til Mið-Ameríku, en fyrir tveimur vikum ákvað ég að mæta niðrí Eymundson með opnum hug og ákveða þar hvert mig langaði að fara. Þegar ég tók upp bókina um Ísrael og Palestínu fékk ég strax fiðring í magann og síðan þá hef ég vart hugsað um annað en þessi lönd.

Ég hef lengi haft gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum á þessu svæði og þá sérstaklega í Líbanon og Ísrael. En það er ekki bara stjórnmálin, sem gera þessi lönd heillandi því þau eiga sér gríðarlega merkilega sögu og fyrir ferðamenn er ótrúlegur fjöldi merkra staða til að sjá. Nægir þar að nefna Baalbek í Líbanon, Damascus í Sýrlandi, Jerúsalem og Petra í Jórdaníu.

Einsog áður hef ég ekki ákveðið nákvæmlega hvernig ferðin á að vera, en þó er beinagrindin tilbúin. Þá á bara eftir að ákveða hversu lengi ég verð á hverjum stað og hvaða staði utan helstu staðanna ég fer á. Þegar ég er á þessum bakpokaferðalögum mínum vil ég geta breytt áætlunum á staðnum eftir því hvort ég kann vel við staðina eða ekki.

Allavegana, ég ætla að byrja í Beirút. Samkvæmt áætlun ætti ég að lenda í Beirút á föstudagsmorgni 2.maí og get því vonandi kynnt mér hið fræga næturlíf í Beirút. Svo er planið að sjá allavegana Tyre, Tripoli, Byblos og Baalbek í Líbanon. Þaðan yfir til Sýrlands, til Damascus og upp til Aleppo áður en ég fer svo suður til Bosra og þaðan yfir til Jórdaníu. Þar ætla ég að stoppa sutt í Amman og skoða svo Dauða Hafið og svo auðvitað niður til Petra og Wadi Rum. Þaðan svo yfir til Eilat í Ísrael og baða mig í Rauða Hafinu. Svo upp til Jerúsalem, Tel Aviv og Haifa. Svo vil ég líka reyna að ferðast eitthvað um Vesturbakkann, en ég veit ekki almennilega hvernig ástandið er fyrir ferðamenn þar. Það er sennilega eitthvað sem ég mun skoða þegar ég kem til Jerúsalem.

Ég ætla svo sennilega að fljúga til London aftur frá Tel Aviv.

* * *

Einsog áður, þá væri frábært að heyra frá fólki, sem hefur farið á þessa staði og getur mælt með því hvað ég eigi að gera.

Ha?

Ha? Hvað?

* * *

Í gær talaði ég spænsku í fyrsta skipti í sennilega ár þegar að ég hitti gamla vinkonu frá Venezuela á kaffihúsi í miðborginni. Ég gat varla stamað útúr mér fyrstu setningunni, en svo gekk þetta bara ágætlega. Ég er einmitt alvarlega að spá í að fara á spænsku slóðir á næstu vikum. Meira um það síðar. Nógu andskoti langur tími hefur liðið síðan ég fór í frí.

* * *

Ég tók svo að mér að hjálpa til við Vísindaferð hjá stjórnmálafræðinemum, sem komu í heimsókn til Samfylkingarinnar í gær. Ég hélt stutta tölu um UJ og drakk svo bjór með fólki. Þetta var einmitt í fyrsta sinn á ævinni sem ég upplifi vísindaferð. Ég var auðvitað í háskóla erlendis og svo hef ég ekki unnið hjá fyrirtækjum, sem bjóða uppá slíkar móttökur.

* * *

Á þessari yndislega síðu geturðu fundið hvaða lag var númer eitt á Bilboard listanum daginn sem þú fæddist (eða hvaða annan dag, sem þér dettur í hug). Þann 17.ágúst 1977 var það þessi yndislega groovy smellur: Best of my Love með The Emotions. Ég er að fíla þetta!

* * *

Æ, ég verð að drífa mig útúr húsi. Það er ekki hægt að vera heima í svona veðri. Andskotans vesen að snjóbrettafélagi minn skuli ekki vera á svæðinu. Annars hefði þetta verið fullkominn dagur til að eyða í Bláfjöllum. Kíki bara í miðbæinn í staðinn og les Lonely Planet bækur.

Að hoppa?

Ég algjörlega elska þetta atriði úr High Fidelity

Ég hef skrifað áður um bókina High Fidelity, sem er sennilega mín uppáhalds bók. Ég sá myndina fyrst þegar hún kom í bíó og hafði ekkert rosalega gaman af henni. Aðallega fannst mér gaman að tengja við alla staðina í Chicago, sem hún gerðist á.

En nokkrum árum seinna þá var ég talsvert lífsreyndari og las þá bókina og hún höfðaði ótrúlega mikið til mín. Síðan ég las hana hef ég horft á bíómyndina þrisvar. Síðast gerði ég það með vinkonu minni fyrir einhverjum mánuði og ég held að ég hafi aldrei haft jafn gaman af myndinni. Ræðan í upphafi atriðsins hér að ofan er auðvitað frábær þegar að Rob veltir fyrir sér:

>So what am I gonna do now? Just keep jumping from rock to rock for the rest of my life until there aren’t any rocks left?

>Should I bolt every time I get that feeling in my gut when I meet someone new? I’ve been thinking with my gut since I was 14 years old, and frankly speaking, I’ve come to the conclusion that my guts have shit for brains.

Það er ekki furða að mér finnist stundum einsog þessi mynd sé skrifuð um mig.

Föstudagur

Á hverjum föstudegi þegar ég kem heim úr vinnunni þá slökknar vanalega algjörlega á líkamanum, ég verð alveg uppgefinn og enda á því að sofa í 2-3 tíma. Það gerðist í dag og ég er nývaknaður aftur og líður afskaplega einkennilega einsog alltaf þegar að ég sef á daginn.

* * *

Allavegana, ég setti loksins ferðasögurnar frá Rússlandi inná ferðalagasíðuna mína. Rússlands ferðasöguna, sem er frá árinu 2003, má nú nálgast hérna. Vinsælasta myndin mín á Flickr var einmitt tekin í þeirri frábæru ferð.

Þetta blogg hefur gefið mér ansi margt í gegnum árin og eitt af því er að ég á sæmilega frásögn af öllum helstu ferðalögunum mínum. Auðvitað er sú ferðasaga sem birtist hér á þessari síðu ekki endilega sú saga sem ég segi vinum mínum, enda er oft margt ekki birtingarhæft, en ég verð samt að viðurkenna að ég hef farið nokkrum sinnum og lesið yfir þessar ferðasögur og þær kveikja alltaf í mér ferðaáhugann og rifja upp fyrir mér góðar stundir.

* * *

Í dag eru tvær vikur þangað til að við opnum Serrano í Hafnarfirði.  Ég tók nokkrar myndir á miðvikudaginn (afgreiðsla og salur), en ansi margt hefur breyst síðan þá.  Í gær settum við afgreiðsluborðið inná staðinn og það var ansi skrautlegt.  Afgreiðsluborðið, sem er sennilega um 800 kíló og kom í einu lagi, komst ekki í afgreiðsluna þar sem smiðirnir höfðu misreiknað plássið inná staðnum.  Við þurftum því að lyfta því yfir þær innréttingar, sem voru komnar fyrir á staðnum.  Það tókst á einhvern ótrúlegan hátt með hjálp tjakks og 10 manna.

Ég geri þó ráð fyrir því að opnunin ætti að vera á föstudaginn eftir tvær vikur og að stressið verði talsvert minna en það var í Smáralindinni.

* * *

Undanfarnar vikur hef ég verið að hlusta á Either Or með Elliott Smith.  Ég hef lengi ætlað mér að hlusta á tónlistina hans, en einhvern hefur aldrei komið að því þangað til núna.  Þessi plata er algjörlega frábær og nær hápunkti í einstöku lokalagi, Say Yes.  Mæli hiklaust með þessari plötu.  Hérna er hægt að sjá Smith taka Say Yes á síðustu tónleikunum áður en hann framdi sjálfsmorð.

Breskar stelpur og Macbook Air

Þetta er helvíti sniðugt.

* * *

Ég er furðu hress núna miðað við að hafa ekki farið að sofa fyrr en klukkan 6 í morgun.  Var í algjörlega frábæru innflutningspartíi í gær og fór svo niðrí bæ með skemmtilegu fólki þar sem ég var fram eftir morgni.  Frosnaði svo næstum því í hel hlaupandi heim.  Ég var í jakka, með trefil og vettlinga en mætti akkúrat á leiðinni strák í stuttermabol.  Ég á oft bágt með að skilja klæðaburð íslenskra karlmanna á djamminu.

* * *

Ég skrifaði aldrei um Liverpool ferðina sem ég fór í með vinum mínum í janúar.  Sú ferð var algjörlega frábær.  Auðvitað var leikurinn skemmtilegur og allt í kringum það, en einnig var það frábært að fara útað skemmta sér með vinahóp sem er ekki beint sá virkasti á djamminu lengur.

Þar sem ég skrifaði aldrei um ferðina þá skrifaði ég aldrei um aðdáun mína á bresku kvenfólki.  Líkt og margir íslenskir karlmenn, þá virðast breskar stelpur einmitt þola allt veður.  Við vorum þarna í janúar í reyndar nokkuð góðu janúar veðri.  En um kvöldið var nokkuð kalt og ég fór um djammið í úlpu.  Norður-ensku stelpurnar voru hins vegar allar klæddar einsog þær væru á strandbar í karabíska hafinu.  Þær voru nánast án undantekningar í pilsum og ég sá varla nokkra stelpu í jakka eða nokkurri yfirhöfn.

Ég er ofboðslega veikur fyrir pilsum og því var ég nokkuð hrifinn af stelpunum í Liverpool einsog ég hef reyndar komið inná áður.  Þessir fordómar Íslendinga gagnvart bresku kvenfólki eiga sér oft litla stoð í raunveruleikanum.

* * *

Ég fór líka á djammið á miðvikudaginn og held að þetta sé orðið ágætt í þessu páskafríi.  Á morgun er auðvitað stórleikur í enska boltanum og ég skrifaði í gær heillanga upphitun fyrir hann.  Á mánudaginn er ég svo að vonast til að komast á bretti.  Talandi um Liverpool bloggið þá minnir mig að í gær hafi strákur kysst mig á 11-unni fyrir það að vera með bloggið.  Það er án efa mest hressandi kveðja sem ég hef fengið á djamminu útaf þeirri síðu.  🙂

* * *

Hérna er pistill frá meistara Paul Krugman, sem hann skrifaði fyrir 5 árum við upphaf Íraks-stríðsins.  Hann hafði rétt fyrir sér.

* * *

Macbook Pro tölvan mín er núna orðin 18 mánaða gömul og það magnaða við hana er að hún uppfyllir enn allar mínar kröfur alla daga vikunnar.  Vanalega er ég ótrúlega spenntur að skipta um tölvu sirka tveim mánuðum eftir að ég kaupi hana, en þessi tölva hefur elst gríðarlega vel.

Ég verð þó að játa að ég verð alltaf spenntari og spenntari fyrir því að kaupa mér Macbook Air (sjá ágætis umfjöllun um mann sem skipti úr Pro yfir í Air).  Ég hef átt tvær tölvur að undanförnu.  Annars vegar mjög gamla og slappa iMac sem er heima hjá mér og hýsir alla tónlistina, myndir, myndbönd og slíkt.  Og svo er ég með Macbook Pro, sem er vinnutölvan mín og sú tölva sem ég eyði langmestum tíma fyrir framan.

Mestöll vinnan sem fer fram á þessari tölvu er netráp, vinna í Keynote, OmniFocus, Mail, Excel og Word.  Fyrir slíka vinnu er Macbook Air alveg nógu öflug tölva.  Og það sem heillar mig við hana er stærðin.  Ég er nefnilega með tölvuna á mér allan daginn í hliðartösku.  Eftir að hafa höndlað Macbook Air í nokkur skipti þá finnur maður klárlega hvað hún myndi létta manni það að bera tölvu allan daginn.  Einnig virðist hún gefa frá sér minni hita, sem mér finnst mjög mikilvægt.

Æji, ætli ég haldi þetta samt ekki út þangað til að Air fær sína fyrstu uppfærslu.  Það er erfitt að réttlæta það að skipta um tölvu þegar að núverandi tölva sinnir sínu starfi.  En mér hefur svo sem tekist að sannfæra mig um vitlausari hluti.

Skrifstofan mín og gengismálin

Nota bene, ég skrifaði þetta á undan Dylan pistlinum, en birti ekki strax. Það skýrir byrjunina.

Ja hérna. Ein vika án þess að uppfæra þessa blessuðu síðu. Það mætti halda að hræðilega margt merkilegt hefði gerst í mínu lífi. Eða þá nákvæmlega ekkert.

Ég hef allavegana fátt til að skrifa um.

Jú, ég er kominn inná skrifstofu í fyrsta skipti í sögu Serrano. Hingað til höfum við bara haft litla holu fyrir ofan staðinn okkar í Kringlunni, þar sem ég hef reynt að koma mér fyrir ásamt verslunarstjóra, rekstrarstjóra og starfsfólki Kringlunnar sem vill tala við okkur. Sú hola er sennilega um 2-3 fermetrar, með litlu skrifborði þannig að ég hef oft setið í tröppunum eða á stól með tölvuna í fanginu.

Nú eða þá að ég hef bara unnið á kaffihúsum borgarinnar. Núna erum við hins vegar komin með skrifstofu í turninum í Smáralind. Ég er svo glaður að ég tók mynd af mér á nýju skrifstofunni. Jibbí jei!

* * *

Ég verð að játa að ég er ekkert alltof hrifinn af þessum gengismálum. Ég er ekki alveg að fíla það að eignir mínar, sem eru jú metnar í krónum, skuli hafa minnkað um fjórðung á nokkrum vikum. Ef þetta væri almennilegt land, þá væri búið að sparka Seðlabankastjóra landsins úr starfi sínu. Og við værum líka gengin í ESB. En auðvitað þurfa Sjálfstæðismenn að ríghalda í “sjálfstæða peningastefnu” og “fullveldi” landsins á meðan að eignir landsmanna hrynja í verði. Sveiflurnar í þessu hagkerfi eru svo fáránlegar að það er varla hægt að tala um þessi mál ógrátandi. Ísland í ESB, núna strax!

* * *

Í morgunþættinum Zúber í gærmorgun var fólk að hringja inn sem var í vandræðum útaf þessum gengisbreytingum. Meðal annars hringdi kona, sem átti 5,5 milljón króna bíl sem hún keypti með því að taka 70% lán í erlendri mynt. Nú er ég ekki einn af þeim sem gleðst yfir óförum annarra eða hlakka yfir því að bankastarfsmenn séu með allt niðrum sig. Langt því frá. En ég get einfaldlega ekki vorkennt fólki sem tekur 70% lán í erlendri mynt meðan krónan er í lágmarki til að kaupa sér bíl uppá 5,5 milljónir. Nú ek ég á 5 ára gamalli Nissan druslu, svo ég geri mér ekki grein fyrir því hvað nýjir bílar kosta, en samkvæmt stuttu tékki á toyota síðunni, þá getur maður keypt LandCruiser fyrir þannig pening. Sumar holur grefur fólk sér einfaldlega sjálft.

Af hverju finnst mér líka alltaf fólkið sem kvartar mest yfir bensínverðinu vera fólkið, sem er á eyðslumestu bílunum (og þá undanskil ég vitanlega atvinnubílstjóra)?

* * *

Á myndinni sem ég minntist á áðan má líka sjá að ég er kominn með stutt hár eftir að hafa verið með frekar sítt að aftan og framan í langan tíma. Þessi nýja stutta klipping gerir það að verkum að hárið á mér krullast allt upp, sem er mjög hressandi. Að ég held í fyrsta skipti á ævinni, þá klippti strákur hárið á mér.

Jú, og ég fór á bretti í annað skiptið á ævinni með vinkonu minni um helgina. Ég tók einhverjum framförum frá fyrsta skiptinu, en samt ekkert rosalega miklum. Og svo borðaði ég á Austur-Indíafélaginu, sem er alveg fáránlega góður veitingastaður ef að það hefur ekki komið nógu skýrt fram áður.

Helgin, Zapatero og hræðsluáróður

Það er magnað hvað mér tekst alltaf að fokkar upp allri rútínu þegar ég fer út fyrir landsteinana. Allt mataræði, líkamsrækt, etc fer í algjör royal fokk. Ég þarf alltaf nokkra daga til að koma mér á rétta braut.

Ég átti mjög góða helgi samt. Gerði reyndar ekkert voðalega mikið eða merkilegt. Lá í leti heima á föstudagskvöldið og það stefndi allt í það að eins yrði á laugardeginum. En þá heyrði ég í einum vini mínum og við ákváðum að hittast. Þannig að ég drakk eitthvað af þessum vodka-birgðum sem ég á uppí skáp og svo kíktum við á Ölstofuna þar sem við hittum fullt af skemmtilegu fólki og þaðan fórum við á 11-una, þar sem við skemmtum okkur konunglega þar til að staðnum var lokað.

Sem gerðist eftir klukkan 6 þannig að ég eyddi mestöllum sunnudeginum sofandi. Kíkti svo um kvöldið á tónleika á Nasa þar sem að Guffi, sem er með mér í stjórn UJR, spilaði með hljómsveitinni sinni For a Minor Reflection. Kíkti svo á Thorvaldsen eftir tónleikana.

* * *

 

Ég skrifaði stutta færslu inná UJR.is, þar sem ég fjalla um farsakenndan hræðsluáróður þeirra sem voru á móti aðild Íslands að EES. Nokkrir eru farnir að nota sömu rökin í baráttu sinni gegn væntanlegri ESB aðild okkar.

* * *

Hérna er mikið magn af efni með Leoncie. Mjög hressandi!

* * *

Zapatero vann á Spáni. Það eru frábærar fréttir!

Já, og hérna er algjörlega æðislegt lag með hljómsveit með stórkostlegt nafn:  Dark end of the street með The Flying Burrito Brothers.