Vegna ýmissra ástæða í mínu lífi hef ég ekki farið í frí mjög langan tíma. Síðasta ár var ár mikils uppgangs hjá Serrano og ákveðin starfsmannamál þar gerðu mér ómögulegt um að fara í frí. Fyrir utan stuttar ferðir til Liverpool og Edinborgar, þá má segja að ég hafi ekki farið í frí síðan ég fór í ferðina til [Suð-Austur Asíu](http://eoe.is/ferdalog/#sud-a-asia) í september-október 2006.
Sú ferð var bæði góð og slæm. Ég var nýkominn útúr mjög erfiðum sambandsslitum og ég var að reyna að ná mér af þeim mestalla ferðina – og í raun má segja að ferðin hafi verið farin til að komast yfir þau. Það reyndist hins vegar oft erfitt. Ég var jú einn á ferðalagi og ég veiktist nokkrum sinnum illa og því var partur af ferðinni uppfullur af sjálfsvorkunn, ælandi inná einhverjum ódýrum hótelum í Phom Penh og öðrum álíka borgum.
En ferðin var líka æðisleg. Ég sá Bangkok, hið stórkostlega Angkor og Ha Long Bay í Víetnam. Ég borðaði hundakjöt, stakk mér til sunds í Tonkin flóa og lét [apa ráðast á mig](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274461853/in/set-72157594326242587/). Ég djammaði í Vientiane, Bangkok, Phnom Penh og Saigon, kynntist fulltaf fólki og fræddist um ótrúlega sögu þessara landa.
En ég var líka ákveðinn í því að fara ekki aftur í svona ferð einn. Allavegana ekki ef að öll mín mál væru jafn óleyst og þau voru þá.
* * *
En núna 18 mánuðum síðar er ég á leið út aftur.
Ég ætla að ferðast einn í 6 vikur en ég tel samt að mín mál séu í miklu betri stöðu núna og ég geti einbeitt mér að því að njóta lífsins í ókunnugu landi án þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast heima á Íslandi.
Eftir 10 daga mun ég fljúga til London og þaðan til Beirút í Líbanon. Ég ætla svo að eyða 6 vikum á ferðalagi um Líbanon, Sýrland, Jórdan og Ísrael. Upphaflega planið mitt var að fara til Mið-Ameríku, en fyrir tveimur vikum ákvað ég að mæta niðrí Eymundson með opnum hug og ákveða þar hvert mig langaði að fara. Þegar ég tók upp bókina um Ísrael og Palestínu fékk ég strax fiðring í magann og síðan þá hef ég vart hugsað um annað en þessi lönd.
Ég hef lengi haft gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum á þessu svæði og þá sérstaklega í Líbanon og Ísrael. En það er ekki bara stjórnmálin, sem gera þessi lönd heillandi því þau eiga sér gríðarlega merkilega sögu og fyrir ferðamenn er ótrúlegur fjöldi merkra staða til að sjá. Nægir þar að nefna Baalbek í Líbanon, Damascus í Sýrlandi, Jerúsalem og Petra í Jórdaníu.
Einsog áður hef ég ekki ákveðið nákvæmlega hvernig ferðin á að vera, en þó er beinagrindin tilbúin. Þá á bara eftir að ákveða hversu lengi ég verð á hverjum stað og hvaða staði utan helstu staðanna ég fer á. Þegar ég er á þessum bakpokaferðalögum mínum vil ég geta breytt áætlunum á staðnum eftir því hvort ég kann vel við staðina eða ekki.
Allavegana, ég ætla að byrja í Beirút. Samkvæmt áætlun ætti ég að lenda í Beirút á föstudagsmorgni 2.maí og get því vonandi kynnt mér hið fræga næturlíf í Beirút. Svo er planið að sjá allavegana Tyre, Tripoli, Byblos og Baalbek í Líbanon. Þaðan yfir til Sýrlands, til Damascus og upp til Aleppo áður en ég fer svo suður til Bosra og þaðan yfir til Jórdaníu. Þar ætla ég að stoppa sutt í Amman og skoða svo Dauða Hafið og svo auðvitað niður til Petra og Wadi Rum. Þaðan svo yfir til Eilat í Ísrael og baða mig í Rauða Hafinu. Svo upp til Jerúsalem, Tel Aviv og Haifa. Svo vil ég líka reyna að ferðast eitthvað um Vesturbakkann, en ég veit ekki almennilega hvernig ástandið er fyrir ferðamenn þar. Það er sennilega eitthvað sem ég mun skoða þegar ég kem til Jerúsalem.
Ég ætla svo sennilega að fljúga til London aftur frá Tel Aviv.
* * *
Einsog áður, þá væri frábært að heyra frá fólki, sem hefur farið á þessa staði og getur mælt með því hvað ég eigi að gera.