Ömurlegheit

Ég er með stíflað nef og kvef.
Af því leiðir að ég er með hræðilegan hausverk
Og augun á mér eru þurr.
Og rauð og sjúskuð.
Og íbúðin mín er skítug
Og to do listinn minn í vinnunni er komin yfir heila blaðsíðu og stækkaði í dag þrátt fyrir að ég hafi verið á fullu.
Og mér leiðist.
Og ég nenni ekki að taka til,
en verð eiginlega samt að gera það í dag
Oooooooooooo

There, I said it…

Það hefur áður verið [skjalfest hér](https://www.eoe.is/gamalt/2003/07/10/22.27.06/) að ég tek veikindum ekkert alltof vel. Ég fer niður í alveg ömurlega sjálfsvorkunn og gleymi öllu því góða og sannfærist um að allt sé ömurlegt.

En þessi veikindi eru allavegana ekkert miðað við hin stórkostlegu [ömuglegheit sem ég upplifið í síðustu veikindum](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/30/7.45.21/). Sjitt hvað það var leiðinlegt. Og vá hvað þessi færsla er leiðinleg. Góðar stundir.

Salsa!

Á meðan Emil félagi minn á Serrano var uppá fæðingardeild þar sem hann og Ella eignuðust litla stelpu (**til hamingju!!!**) var ég í fyrsta tímanum mínum á salsa námskeiði.

Ég er lengi búinn að ætla að fara á námskeið í salsa, en mig hefur alltaf vantað dansfélaga þangað til nú.

Ég lærði að dansa salsa og (aðallega) merengue þegar ég var skiptinemi í Venezuela. Systir mín í Venezuela kenndi mér þessa dansa á stofugólfinu í íbúðinni okkar í miðbæ Caracas. Hún var reyndar ekki mjög formleg í kennslunni, heldur fólst kennslan aðallega í því að kenna mér sveiflur og kalla á mig að hreyfa mjaðmirnar, sem er oftast aðalvandamál okkar hvítra karlmanna þegar við dönsum þessa dansa.

Ég sakna enn þann dag í dag partíanna í Venezula. Partí útí garði þar sem tónlistinn var sett á og allir dönsuðu allt kvöldið. Ég sakna líka ferðanna á klúbbana í Caracas þar sem maður dansaði allt kvöldið við venezúelskar stelpur, sem eru á eftir íslenskum stelpum fallegasti kvennahópur í heimi.

Danstíminn í gær opinberaði það nokkuð greinilega að ég er ekki jafngóður dansari og ég hélt. Ég var góður í því að fylgja eftir reyndum suður-amerískum stelpum, sem rifu mig áfram og stjórnuðu dansinum, enda fyllast þær vorkunnsemi þegar þær sjá ljóshærða stráka einsog mig, sem eiga erfitt með að hreyfa mjaðmirnar.

Núna í gær var ég með íslenskri stelpu, sem var óreynd í salsa og því var þetta miklu erfiðara fyrir mig, auk þess sem ég var ákveðnari í að læra réttu sporin og ruglaðist því miklu oftar en ég gerði á troðnu dansgólfi í Suður-Ameríku, þar sem ég spáði minna í sporunum.

En þetta kemur allt. Námskeiðið er 6 vikur og ég er viss um að við tvö eigum eftir að vera stórkostlegir dansarar þegar þetta er búið. 🙂

41

Síðan klukkan 21 er ég búinn að senda út 41 mismunandi email. Þessi dagur byrjaði ekki vel, en hann hefur skánað verulega og núna er ég loksins að fá fullan vinnustyrk. 🙂

Núna eru bara 17 dagar í að við opnum Serrano Hringbraut. Þetta verða ábyggilega skrautlegir dagar.

Þunglyndi

Í gærkvöldi lét ég í fyrsta skipti í langan tíma fótboltaleik eyðileggja algjörlega fyrir mér kvöldið. Ég var svo dapur yfir úrslitunum að ég fór að sofa leiður og vaknaði í morgun í vondu skapi. Ég er enn að láta úrslitin hafa áhrif á mig.

Þetta er rosalegt. Mér leið í morgun einsog eitthvað stórt hefði gerst í mínu lífi og ég var svo dapur þegar ég vaknaði að ég var sannfærður um að eitthvað svakalegt hefði komið fyrir. En allt var þetta útaf fótbolta. Ef ég hefði ekki þurft að fara á fund, þá hefði ég ábyggilega farið að sofa aftur.

Úff.

Áramóta-ávarp 2006

Ok, árið um það bil að klárast. Þarf maður þá ekki að skoða sitt líf?

Þetta er búið að vera furðulegt ár. Ég hef lent í hlutum sem mig hefði aldrei grunað í byrjun árs, flesta þá ræði ég ekki hér. Ég lenti í frábæru en ótrúlega furðulegu sambandi, ferðaðist til Asíu, hætti í vinnunni minni eftir þriggja ára starf, sat ástfanginn fyrir framan Eiffel turninn, kynntist skemmtilegu fólki, sá Evrópuleiki á Anfield og á Camp Nou, áttaði mig betur á því hvað ég vil gera í framtíðinni og ferðaðist til ellefu landa: Tælands, Dubai, Víetnam, Kambódíu, Laos, Slóveníu, Frakklands, Spánar, Þýskalands, Svíþjóðar og Englands.

Á endanum var þetta ekki jafnmikið ár breytinga einsog ég [átti von á](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/30/20.21.23). Aðalástæðan var sú að ég samdi um að vera lengur í vinnunni minni en mig langaði upphaflega til. Þannig að meirihluta ársins eyddi ég í starfi, sem mér fannst hvorki spennandi né krefjandi lengur. En það var þó ákvörðun sem ég tók sjálfur og lítið yfir því að kvarta.

Þegar ég var útí Asíu hafði ég mikinn tíma með sjálfum mér og eyddi tíma í að hugsa hvað ég vildi gera varðandi sjálfan mig, bæði varðandi vinnu og einkalíf. Einhvern veginn hef ég verið of upptekinn eftir að ég kom heim til að koma einhverju af því í verk. Ef ég verð á Íslandi um næstu áramót þá ætla ég að vera sáttur við að vera hérna. Núna hef ég ekki lengur hluti sem binda mig og því þarf ég að gera upp við sjálfan mig hvar ég vil vera.

Eitt af því sem er þó breytt frá síðust áramótum er að ég er sáttur við og kann nokkuð vel við að vera single. Kannski var það eitthvað við þessi sambönd á árinu eða þá við Asíuferðina eða eitthvað annað. En ég hef haft lúmskt gaman af þessu lífi að undanförnu.

Það sem mig vantar hins vegar núna eru fleiri vinir. Ég er nefnilega í þeirri aðstöðu að eiga fulltaf vinum, sem eru á allt öðrum stað í lífinu en ég. Þeir eru að eignast börn, hugsa um fjölskylduna sína og slíkt. Eflaust fínt fyrir þá, en þetta eru hlutir sem ég hef engan áhuga á akkúrat núna. Þetta er ekki gagnrýni á þá, heldur frekar viðurkenning á þeirri staðreynd að við eigum minna sameiginlegt nú en fyrir nokkrum árum.

Og ég hef uppgötvað að það er líklegra til árangurs að kynnast nýju fólki heldur en að reyna að breyta fólkinu í kringum mig. Ég þarf að kynnast fólki, sem er single eða sem nennir að djamma og fara útúr húsi. Þetta hljómar kannski skringilega sorglega, en svona er þetta bara. Ég er nýhættur á vinnustað þar sem mínir helstu samstarfsmenn voru allir komnir yfir fertugt og vinn núna á vinnustað þar sem flestir starfsmennirnir eru undir tvítugt. Því eru ekki margir staðir þar sem maður getur kynnst nýju fólki. Ég fór líka í háskóla í Bandaríkjunum og því eru margir af mínum bestu vinum einfaldlega búsettir í öðrum löndum. Og svo hefur það æxlast þannig að allir mínir bestu vinir hérna heima hafa verið í samböndum í langan, langan tíma.

Þannig að við þessi áramót ég er sáttur við sumt, en ósáttur við annað.

En ég ætla að breyta mörgu á næsta ári. Ég held að það ár verði spennandi þegar að kemur að atvinnumálum mínum. Ég hef tekið mér ákveðinn tíma í ákveðið verkefni og það verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast. Svo veit ég vel að ferðalöngunin á eftir að koma yfir mig þegar að tekur að vora og þá er ég einna helst að líta til suður hluta Mið-Ameríku, eða þá til Indlands.

2007 skal vera gott ár.

Gleðiðlegt ár. Takk fyrir að lesa.

Næstsíðasta laugardagskvöld fyrir jól

Fyrir 364 dögum skrifaði ég [eftirfarandi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/17/23.44.37/):

>Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

>Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

>Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Núna er klukkan að verða 11 á laugardagskvöldi og ég sit inní stofu, algjörlega uppgefinn og hlusta á Ghostface Killah og reyni að slappa af. Ég eyddi einmitt þessu næstsíðasta laugardagskvöldi fyrir jól uppá Serrano.

Og viti menn, dagurinn í dag var stærsti dagur í sögu staðarins. Við bættum fyrra met um 16% og þrátt fyrir það að núna sé á Stjörnutorgi miklu meiri samkeppni (Sbarro í stað Bagel House). Vann frá 15-23, sem var ágætt.

Ég er ekki kominn í jólaskapið og ekki byrjaður að pæla í jólunum. Langar ekki í neitt sérstakt í jólagjöf, en mig hlakkar þó til að velja nokkrar jólagjafir. Því yngri sem þiggjendurnir eru, því skemmtilegra er valið. Svo á ég eftir að skrifa jólakort. Þau verða fleiri en í fyrra, sem er gaman.

Ég á oft á tíðum erfitt með að vera í afgreiðslunni á Serrano. Ég á mestan heiðurinn af þeim réttum sem við bjóðum uppá og því verð ég alltaf hálf svekktur þegar fólk er að breyta útaf þeim réttum sem við bjuggum til. Auðvitað er það ekkert nema sjálfsagt, en það er alltaf eitthvað innra með mér sem kippist við þegar að fólk vill sleppa svörtum baunum (sem eru æðislegar) eða breytir frá því að kaupa þá sósu sem ég lagði til að yrði notuð á viðkomandi burrito.

Ég las einhvern tímann vefsíðu þar sem mun betri kokkar en ég svekktu sig yfir fólki, sem kom á fínu veitingastaðina þeirra – pantaði flotta rétti, sem þeir höfðu eytt árum í að fullkomna, og bað svo um salt og pipar eða soja sósu eða tómatsósu og setti yfir réttinn. Það þótti kokkunum ekki gaman.

Alls ekki misskilja mig. Mér finnst þetta í góðu lagi hjá okkar viðskiptavinum og vissulega er það kosturinn við Serrano að það er hægt að breyta hlutunum og að sumum fólki finnst aðrar sósur betri en mér. En mér finnst þetta samt alltaf pínu erfitt. Stelpurnar, sem vinna með mér, geta hlegið af því hversu nærri mér ég tek þetta. 🙂

En núna ætla ég að sofa út á morgun og svo reyna að kíkja út og kaupa jólagjafir.

Á leiðinni heim úr Kringlunni hlustaði á á einhverja útvarpsstöð þar sem að DJ-inn spilaði fyrst *Suspicious Minds* með Elvis Presley og svo *Gone Daddy Gone* með Violent Femmes. Ég söng svo hátt í bílnum mínum að það var sennilega nær öskrum en söng.

3 speed

>life is funny
but not ha ha funny
peculiar I guess
you think I got it going my way
then why am I such a fuckin’ mess?

Af einhverjum ástæðum líður mér einsog það sé sunnudagskvöld. Ég er ógeðslega þreyttur, ennþá þunnur og lyktin af pizzunni sem ég pantaði er ógeðsleg (*note to self: Þér finnst pepperoni pizza frá Domino’s ekki lengur góð!*).

Íbúðin er í drasli og mér líður asnalega.

Ég er með hundruðir klukkutíma af sjónvarpsefni á mynd-diskum, en einhvern veginn finn ég ekkert sem mig langar að horfa á. Og því er ég að hlusta á Electro-shock blues með Eels, sem er ein af mínum uppáhaldsplötum, en svosem ekki plata sem maður grípur vanalega í á laugardagskvöldum.

Þegar ég kom heim í morgun fattaði ég að lyklarnir mínir voru ekki í jakkanum mínum. Ég veit ekki enn hvað varð um þá. Hvort að einhver fáviti hafi stolið þeim eða hvort mér hafi tekist að missa þá einhvers staðar.

Allavegana, ég þoli ekki að vera til vandræða og vildi því ekki hringja í mömmu um miðja nótt til að fá hennar eintak. Þannig að ég fór útá Hótel Sögu og ætlaði að fá mér hótelherbergi. Ég var orðinn svo örmagna af þreytu og mér var hálf óglatt eftir þennan laukfyllta Hlöllabát sem ég hafði borðað, að ég hefði borgað hvaða upphæð sem er fyrir hlýtt herbergi og mjúkt rúm.

En það var fullbókað á Sögu, þannig að stelpan í afgreiðslunni lagði til að ég myndi hringja á lásasmið. Og hann kom og kom mér inn, þurfti að brjóta upp lásinn og setja nýjan á íbúðinni minni.

Ég fór svo að sofa og mér dreymdi svo fáránlega asnalega og leiðinlega drauma að ég hef eiginlega ekki náð mér í allan dag. Það er fáránlegt hvað manni getur liðið æðislega fabjúlöss þegar maður er vel til hafður á skemmtistað í Reykjavík – og svo liðið svona ferlega asnalega heima hjá sér, þunnur í íþróttagalla, daginn eftir.

Ég er farinn að sofa.

**Uppfært (sunnudagsmorgunn)**: Óttalegt væl er þetta. Mér líður æðislega. Ég held að ég hafi ekki sofið betur í margar vikur. 🙂

Greyið ég!

Er ekki gaman að lesa færslur sem byrja á “Sjiiiiiii, ég er þunnur”?

Allavegana, ég er fáránlega þunnur eftir að hafa djammað í gær. Ég fór með fyrrverandi vinnufsfélögum á Domo í mat. Sá staður er algjörlega frábær. Ég var þarna síðasta laugardagskvöld á djamminu og var ekkert rosa hrifinn af Domo sem skemmtistað, en sem veitingastaður þá er þetta frábær staður. Með bestu veitingastöðum sem hafa opnað í Reykjavík síðustu ár.

Annars þá hef ég verið alveg lygilega duglegur við að fara útað borða síðustu tvær vikur. Ég hef borðað á eftirfarandi stöðum: Hressó, Tívolí, Sólon, Vegamót, Apótek, Galíleó, Kaffibrennslan, Domo, Krua Thai, Sbarro, Hamborgarabúllan, Players, Wok Bar og auðvitað Serrano. Þetta gera 14 veitingastaðir á 14 dögum. Það hlýtur að teljast ágætis árangur.

Svo hef ég drukkið fleiri en einn kaffibolla á Kaffitár Bankastræti og Kaffi Roma og drukkið bjór á Players, Vegamótum, Ólíver, Sólon, Pravda, Kaffibrennslunni og Rex.

Þetta er komið ágætt í bili. Í kvöld ætla ég að liggja heima einsog haugur og horfa á sjónvarpið í óveðrinu.

Hryllileg djammtónlist

Ég fór á djammið í gær. Skemmti mér virkilega vel, *þrátt* fyrir gæði íslenskra skemmtistaða. Ég veit að ég er búinn að pirra mig á þessu oft áður, en ég bara verð. Kvöldið niðrí miðbæ hófst á Hressó þar sem ég stoppaði í tvær mínútur. Þar var hljómsveit að spila og einhver fullur gamall karl í jakkafötum að tapa sér fyrir framan hana með hálf einkennilegum danssporum. Ég ákvað að þetta væri ekki málið.

Fór því með mínum hóp upp Laugaveginn þar sem við enduðum inná Sólon. Þar var fínt. DJ-inn spilaði m.a. Barfly, sem er náttúrulega lag ársins og ótrúlega skemmtilegt lag til að hlusta á á djamminu. En aðrir aðilar úr hópnum höfðu farið á Óliver og ákváðum við því að hittast þar. Okkur var hleypt framfyrir röð og eftir stutta stund vorum við komin á dansgólfið.

Hvar á ég að byrja?

Í fyrsta lagi var ég ekki búinn að vera lengi á dansgólfinu þegar ég var skallaður af einhverjum haug. Samkvæmt þeim, sem voru að dansa með mér þá var gaurinn laminn svo fast í hausinn að hausinn hans skallaði ennið á mér. Það þótti mér ekki góð byrjun.

Svo kom eitthvað lag, sem ég fílaði og ég reyndi að dansa með hópnum. Það gekk alveg fáránlega illa vegna þess að það voru svona 300 manns á þessu örsmáa dansgófli. Ég sá í raun ekki um danshreyfingarnar, heldur réðust þær af fólkinu, sem rakst í mig úr öllum áttum. Sem hefði verið í lagi ef…

… DJ-inn hefði ekki fengið einhverja skringilega löngun til að spila asnaleg lög. Eftir 2-3 sæmilega heilbrigð lög, sem hægt var að dansa við, þá byrjaði hann á íslenskri syrpu, sem byrjaði á Fjólublátt ljós við barinn (er það ekki með Helgu Möller). Ég snarstoppaði, en sá að einhver sæt stelpa uppá sviði söng af innlifun við lagið. Ég hugsaði með mér að hún hlyti að vera eldri en hún sýndist. Þegar þetta “skemmtilega” lag var búið tók svo við “Diskó Friskó”. Það virðist vera óskráð regla að það lag sé spilað hvert einasta kvöld inná þessum stað.

Þegar Diskó Friskó byrjaði ákvað ég að nóg væri komið og hvatti fólk til að skipta um stað. Við ákváðum að fara á næsta stað, sem er Barinn. Fórum þar strax uppá næstu hæð þar sem ég fór með einum strák á barinn. Stökk síðan uppá klósett og ætlaði svo niður á aðra hæð til að dansa. En, þegar ég var á leiðinni niður heyrði ég að DJ-inn var að spila…

…**SÚPERMANN MEÐ LADDA**!! Í fokking alvöru talað, af hverju er þetta lag spilað á skemmtistað fyrir fullorðið fólk? Getur einhver sagt mér það? Það getur enginn heilvita einstaklingur fílað það að dansa við þetta. Einu aðstæðurnar, sem ég get ímyndað mér að fólk fíli þetta er þegar það er gjörsamlega ofurölvi og finnst æðislega sniðugt og flippað að vera að dansa við Súpermannn. Ég var hins vegar ekki ofurölvi, heldur bara temmilegur þannig að ég neitaði að dansa.

Næsta lag var eitthvað Michael Jackson lag, þannig að ég fór á dansgólfið. Ég þarf nefnilega actually að hafa tónlist til að dansa við. En þetta stóð ekki lengi yfir, því næsta lag á eftir Jackson var…

…**HIPP-HOPP HALLI**! Ég ákvað að fara út.

Fórum næst á Vegamót, sem var hápunktur kvöldsins. Sá staður virðist leggja metnað í að hafa almennilega tónlist, en ekki vera með eitthvað leiðinda flipp eða sniðugheit einsog aðrir staðir. Fengum strax borð við innganginn og skemmtum okkur vel þar. En málið með Vegamót er náttúrulega einsog alþjóð veit að þar er minnsta dansgólf norðan Alpafjalla.

Ólíver og Barinn geta alveg verið fínir staðir. En þá verða menn bara að skilja að það er ekki fyndið né skemmtilegt að spila Súpermann eða Hipp-Hopp Halla. Það er einfaldlega leiðinlegt, fælir fólk af dansgólfinu (einsog gerðist greinliega á Barnum) og eina fólkið, sem fílar þetta er svo ofurölvi að það myndi finnast það æðislega sniðugt að hlusta á “Ég sá mömmu kyssa jólasvein” á dansgólfinu.

En jæja, um næstu helgi er ég að fara í brúðkaup (treysti því að þar verði spiluð betri tónist) og svo eftir tvær vikur stefni ég á að djamma í Bangkok. Býst svosem ekki við góðri tónlist á því djammi, en ég mun vonandi sleppa við að hlusta á Súpermann.

Efsta stig þynnku

Undanfarnar tvær helgar hefur þynnkan hjá mér náð ákveðnu hámarki. Vanalega hefur þynnkan lýst sér í nokkuð slæmum hausverk, sem sæmilega auðvelt er að losna við. Í gær og síðasta sunnudag var þó toppnum náð. Þynnkan var svo slæm að **ég gat ekki horft á leik með Liverpool!**

Fyrir ykkur, sem þekkið mig persónulega þá ættuð þið að vita að það þarf eitthvað ansi magnað til að halda mér frá því að horfa á leik með uppáhaldsliðinu mínu. Ég skipulegg vanalega minn tíma til að þurfa ekki að missa af einum einasta leik. Bæði í gær og síðasta sunnudag stillti ég vekjaraklukkuna mína samviskusamlega rétt fyrir leik og fór fram og kveikti á sjónvarpinu. Yfir Chelsea leiknum entist ég í 60 mínútur, en í gær entist ég bara fyrri hálfleikinn. Í bæði skiptin leið mér einsog ég væri að deyja áður en ég skreið aftur uppí rúm.

Ég komst ekki útúr húsi fyrr en um 6 leytið í gær. Labbaði þá útí Vesturbæjarlaug og sat í heita pottnum í hálftíma (n.b. það vantar fleiri sætar stelpur í Vesturbæjarlaugina! Þetta er lykilatriði!) og labbaði svo niður á Hamborgarabúllu þar sem hamborgari í kvöldmat var fyrsta fasta fæðan mín þann daginn.


Tvær síðustu helgar hef ég byrjað djammið á Barnum. Er ekki alveg að fatta þann stað. Hef líka heimsótt Q-bar, Celtic Cross, Hressó, Hverfisbarinn, Sólon, Sólon aftur, 11 og Vegamót á þessum tveim djömmum. Það sýnir manni væntanlega að ég er ekki að fíla neinn einn stað neitt alltof vel.


Annars hljóta þessar fyrstu vikur eftir að samband endar að vera einhverjar verstu vikur í lífi manns. Þessar síðustu hafa allavegana verið afskaplega slæmar. Maður þarf að venjast því að búa aftur einn, að sofa einn, að hafa ekki alltaf einhvern til að tala við. Ég þarf að venjast þögninni aftur og einhvern er erfitt að finna “silver-lining” á þessu öllu saman.

Æji fokkit, þetta hlýtur að batna með dögunum eða vikunum. Svo er ég líka að fara í frí eftir stuttan tíma. Ég er reyndar búinn að breyta öllu varðandi það frí, svona í ljósi breyttra aðstæðna í mínu einkalífi. Skrifa um það á næstu dögum.


Fyrir einhverjum dögum var ég að kvarta yfir því að mig vantaði nýjan sjónvarpsþátt til að horfa á. Jæja, ég fann hvorki meira né minna en mestu snilld í amerísku sjónvarpi: [Entourage](http://www.hbo.com/entourage/), sem sýndir eru á HBO. Þátturinn fjallar um þrjá stráka, sem eru á sama aldri og ég og bróður eins þeirra. Einn af strákunum er kvikmyndastjarna í Hollywood en hinir þrír “vinna” fyrir hann.

Þetta eru svo lygilega skemmtilegir þættir að ég verð að hemja mig frá því að horfa ekki á marga í röð. Er búinn að horfa á fyrstu 10 af 33.