Hvalkjöt á diskinn minn (hóst)

Ég get hreinlega ekki lengur verið með línurit sem efstu færslu á þessari bloggsíðu. Verð bara að skrifa…um eitthvað.

Allavegana…

Á miðvikudaginn var ég með útlendinga í mat á Humarhúsinu. Það er ekki frásögu færandi nema fyrir eina staðreynd. Á matseðli Humarhússins er nefnilega boðið uppá hvalkjöt í forrétt (ásamt hrossakjöti – “namminamm” ). Ég hvatti útlendingana til að prófa án teljandi árangurs. Þegar þau svo spurðu mig nánar útí hvalkjötið, þá komst ég að því að ég hafði sjálfur aldrei prófað hval.

Ég hef hins vegar verið undir stanslausum áróðri íslenskra yfirvalda og hvalveiðiáhugamanna nær allt mitt líf. Sá áróður gengur útá tvennt: 1) Hvalkjöt bragðast yndislega, hreinlega einsog besta nautasteik (þetta með nautasteikina hef ég heyrt svona 100 sinnum) – og 2) Hvalkjöt er brjálæðsilega vinsælt og selst alltaf upp í verslunum um leið og það er til.

Ég vissi að seinni punkturinn væri tómt þvaður, en var ekki viss um þann fyrri.

Ég ákvað að prófa matinn. Hvalkjötið kom á borðið að japönskum stíl, hrátt, borið fram með soja sósu og wasabi. Það er skemmst frá því að segja að kjötið var *viðbjóður*. Ekki alveg jafnviðbjóðslegt og [skata](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/23/14.39.38) (sem fólk hafði líka logið að mér að væri yndisleg á bragðið), en samt verulega vont.

*(Ég tek það fram að þetta vonda bragð var svo sannarlega ekki matreiðslumönnum á Humarhúsinu að kenna, enda maturinn þar (með þessari einu undantekningu) algjörlega frábær. Einnig var þjónustan frábær, því um leið og þjónninn sá að ég borðaði ekki kjötið, þá bauð hún mér uppá fulla endurgreiðslu.)*

Hvalkjöt er ekki nálægt því að bragðast einsog “besta nautakjöt” einsog spunameistararnir hafa haldið fram. Já, það lítur svipað út, en bragðið er ekki nálægt því. Ég er hreinlega hættur að taka fólk trúanlega þegar það talar um að þjóðlegur íslenskur matur sé góður. Ég hef því ákveðið að prófa ekki restina af þessu þjóðlega gumsi, sem menn halda fram að sé einsog sælgæti á bragðið. Þetta á því við um hákarl, hrútspunga og allt þetta jukk, sem ég hef ekki prófað síðan að ég bragðlaukarnir mínir þróuðust frá því að þykja sandur góður á bragðið.

p.s. Bendi líka á [þessa grein í Grapevine](http://www.grapevine.is/Undirflokkar.aspx?id=1063), sem fjallar að hluta til um jákvæðar hvalaveiðgreinar á vísi.is

Djammið er dáið!

Ég held að ég hafi komist nálægt því að gefast endanlega uppá íslensku skemmtanalífi í gær þegar ég fór með vini mínum á djammið í miðborg Reykjavíkur. Ég skemmti mér frábærlega, en það var ekki gæðum skemmtistaðanna að þakka, heldur frekar góðum félagsskap. Ég var að enda við að hætta í ör-stuttu sambandi og því fannst mér tilvalið að fara á djammið með vini mínum.

Við reyndum ansi marga skemmtistaði í gærkvöldi í leit að almennilegri blöndu af góðri tónlist, sætum stelpum og góðu andrúmslofti. Sú blanda virðist ekki vera til. Annaðhvort virðist tónlistin vera hryllingur, troðningur alltof mikill eða þá að 90% fólks inná stöðunum var 16-18 ára gamalt.

Þessa staði reyndum við:

Óliver

Byrjuðum á Ólíver. Það er ágætis staður. Flestir inná staðnum voru yfir tvítugt og var reyndar slatti af fólki vel yfir þrítugt. Það virðist vera sem svo að DJ-inn á Ólíver treysti á það að allir þarna inni séu eldri en 35. Allavegana virðist tónlistin vera miðuð við þann aldhurshóp. Á þeim rúmlega klukkutíma, sem við vorum inná Ólíver heyrði ég m.a.: Lag með Boy George, Wake me up before you go-go með Wham, Take on Me með A-Ha og einhver 2-3 Stuðmannalög. Þetta var orðinn svo mikill hryllingur að við gáfumst að lokum upp. Það var þó greinilegt að FULLT af fólki inná staðnum var að fíla tónlistina. Þessu fólki er ekki hægt að bjarga.

Plúsar og mínusar við Ólíver:

+ Mjög sætar stelpur
+ Fólk yfir tvítugt

– Hryllilegasta tónlistin í bænum.
– Troðningur á dansgólfi. Ekki það að ég hafi haft nokkra löngun til að dansa við Wham.

Vegamót

Löbbuðum yfir á Vegamót í vissu um að tónlistin yrði betri. Það reyndist rétt. Vegamót er fínn staður, einsog alltaf…. Eeeeen hins vegar, þá var reyklyktin og myrkrið að fara með mig. Ég sé lítið í svona myrkri og reyk og því get ég varla greint hvernig fólkið á næsta borði lítur út. Það er ekki gott. Nenni ekki að vera með gleraugu á djamminu. Einnig komu nokkur fáránlega asnaleg lög. Aldurs-samsetningin var ein sú besta á stöðunum, allavegana einsog ég vil hafa hana.

+ Skárri tónlist en á Ólíver
+ Fólk yfir tvítugt

– Myrkur og reykur
– Troðningur (reyndar ekki í gær)

Prikið

Við ákváðum eftir Vegamót að reyna að fara á staði, sem við förum nær aldrei á. Fórum því á Prikið. Prikið er staður, sem ég hef aldrei skilið. Gærkvöldið breytti því ekki. Troðningurinn á Prikinu var nánast óbærilegur og svo var aldursamsetningin svipuð og á 3. bekkjarkvöldi í Verzló. Ég held að ég og vinur minn höfum verið svona 10 árum eldri en næst elstu einstaklingarnir þarna inni.

Prikið bauð hins vegar uppá langbestu tónlistina. Old skúl hip hop. Krakkarnir þarna inni voru sennilega enn í leikskóla þegar Doggystyle kom út. Það er magnað.

+ Frábær tónlist

– Viðbjóðslegur troðningur
– Að undanskildum okkur og barþjónunum var enginn þarna inni eldri en 18.
– Troðningur
– “Karlaklósettið” – það kann að vera að einhverjum finnist gaman af því að láta fólk horfa á sig pissa. Ég er ekki einn af þeim.
– Troðningur

Sirkus

Já, Sirkus. Við ákváðum að prófa að fara á Sirkus. Sú tilraun misheppnaðist hrapallega. Beisiklí, þá biðum við í óskipulögðustu biðröð á Íslandi í sirka 30-40 mínútur. Biðröð er í raun rangnefni, því þetta var biðhrúga. Ekkert skipulag. Þeir frekustu komust áfram. Dyravörðurinn var stelpa, sem er athyglisverð tilbreyting. Mér heyrðist tónlistin vera ágæt, en ég heyrði hana bara rétt þegar hurðin opnaðist á sirka fimm mínútna fresti.

Við gáfumst upp eftir 40 mínútur í rigningunni. Get ekki ímyndað mér að staðurinn sé virði lengri biðar.

+ Held að þarna sé góð tónlist
+ Myndavélar eru bannaðar á staðnum. Það er frábær regla.

– Biðhrúgan
– Komumst actually ekki inn. Það var ókostur.

Hverfisbarinn

Á þessum punkti höfðum við fáar hugmyndir. Það var búið að loka Ólíver og við ætluðum að fara á 11, en þar voru hins vegar 50 manns í biðröð. Af hverju veit ég ekki. Við fórum því yfir á Hverfisbarinn, enda var enginn í biðröð þar. Þar inni eyddum við heilum 10 mínútur. Heyrðum allavegana eitt leiðinlegt lag.

+ Lang-sætustu stelpurnar af öllum stöðunum.

– Ekkert aldurstakmark. Ef það er aldurstakmark, þá er það sennilega 14 ára.
– Troðningur á dansgólfinu. Hvernig á maður að dansa þegar maður þarf sífellt að vera að ýta fólki frá sér?
– Myndavélar. Ég held að ég hafi lent á einhverjum þrem myndum á staðnum. Það var ekki beint verið að taka mynd af mér, þó að ég haldi að eitt skiptið hafi myndavélinni verið beint að mér. Ég veit ekki hvort það þýðir að myndin lendi í fjölskyldualbúmi í Breiðholtinu eða á netinu. En ég þoli ekki þessar myndavélar á djamminu. Ég lít ekki vel út klukkan 4 á djamminu eftir 10 screw-drævera og hef engan áhuga á að fá myndir af mér birtar.

Kaffi Kúltúr

Æ heitir þetta ekki Kaffi Kúltúr, þarna kaffistaðurinn í Alþjóðahúsinu? Við heyrðum einhverja suðræna tónlist þegar við löbbuðum framhjá og ákváðum að fara inn. Tónlistin versnaði gríðarlega þegar inn var komið og einnig virtist ekki vera mikið af fólki þarna inni.

+ Eh, veit ekki

– Sá engar sætar stelpur
– Tónlistin ekki góð.

* * *

Þannig lauk þessu kvöldi. Niðurstaðan að enginn af þessum skemmtistöðum stóðst væntingar okkar. Ef ég ætti að velja þá væri Vegamót sennilega besti staðurinn. Ég stefni á að halda áfram að prófa nýja staði á næstunni. En ég er farinn að hallast að því að íslenskt skemmtanalíf bjóði ekki uppá staði, sem ég fíla. Ég skil ekki af hverju það er.

Af hverju er ekki hægt að biðja um svona stað:

  • Sæmilega stór staður, með flottum innréttingum.
  • Fleiri en einn bar
  • Aldurstakmark, sem fylgt er eftir. Það er allt í lagi að einhverjir staðir hleypi framhaldsskólafólki inn. En þurfa virkilega allir staðir á landinu að gera það? Stelpa, sem ég var að deita kvartaði yfir því að á Hverfisbarnum væri mikið af krökkum. Og hún er 21 árs! Hugsið ykkur: 21 árs stelpa kvartar yfir því að á skemmtistöðum sé of mikið af krökkum.
  • Góð tónlist. Blanda af þeirri tónlist, sem er vinsæl í dag og almennilegu hip-hopi eða danstónlist. Ekkert 80’s crap eða Stuðmenn eða Grýlurnar eða Laddi eða önnur vitleysa.
  • Sætar stelpur (uppfært: Að innan sem utan! Já, og skemmtilegt fólk! Og fólk, sem ég þekki!)
  • Stórt dansgólf! Dansgólf þar sem maður hefur pláss og þarf ekki að rekast utan í fólk á 10 sekúndna fresti.
  • Engar myndavélar! Engar asnalegar fyllerísmyndir birtar á vefsíðum.
  • KLÓSETT SEM VIRKA! Og jafnvel fleiri en eitt klósett.

Ég hef farið inná svona staði í nánast öllum stórborgum, sem ég hef djammað í. Af hverju ekki í Reykjavík?

Sverige

Ég held því fram eftir þennan dag að ég viti meira um barnamat en þú!

* * *

Hitti systur mína og fjölskyldu í gær í Köben. Mikið var það næs. Eyddi deginum í spjall, lét litla frænda minn rústa mér í Playstation og slíkt. Mjög gaman. Tók svo lest yfir til Malmö og hélt að ég myndi sjá Stórabeltisbrúna, sem við fórum víst yfir. Einhvern veginn tókst mér að missa af henni. Veit ekki alveg hvernig það gerðist.

* * *

Þrátt fyrir að ég hafi lært dönsku í 8 ár, þá skil ég ekki orð í talaðri dönsku. Ég skil hins vegar fullt í sænsku. Það þykir mér magnað.

* * *

Á þessari síðu geturðu séð hin ýmsu [svipbrigði Paris Hilton](http://parisfacial.ytmnd.com/). Nokkuð magnað, eh?

Út!

Jæja, fyrsta utanlandsferðin mín í ár er plönuð á morgun. Ætla að eyða næstu dögum í sæluríki jafnaðarmannastefnunnar, Svíþjóð.

Á að fljúga til Köben, þar sem ég ætla að hitta systur mína og fjölskyldu. Þaðan er planið að fara til Malmö á tveggja daga fund. Svo ætla ég að njóta lífsins í Stokkhólmi yfir helgina.

Jei!

Tilraun dagsins

Í tilraun dagsins ákvað ég að prófa að setja iPod Nano í þvottavél og kanna hvort hann myndi lifa af einn klukkutíma í 40 gráðu heitu vatni.

Niðurstaðan: **Nei**, hann þolir það ekki.

Fokk, fokk ,FOOOOKKKK!


Í gærkvöldi var ég með vini mínum á Ólíver og skemmtum við okkur frábærlega. Í dágóðan tíma var stelpa að reyna við mig. Eftir nokkrar mínútur breyttist hún þó aðeins og sagði að það væri sennilega ekki sniðugt að hún væri að reyna við mig, þar sem ég væri “alltof ungur”.

Ég og vinur minn sprungum úr hlátri. Eftir smá tal komumst við að því að hún væri jafngömul og ég, það er 28. Hún hélt hins vegar að ég væri 23 ára(!)

Í framhaldinu hélt ég því fram að ég væri ekki enn kominn á þann aldur að ég yrði eitthvað sérstaklega uppveðraður af því að vera talinn yngri en ég er (sem ég er nánast alltaf). Mér finnst það oft skemmtilegt, en ég efast um að ánægjan sé jafn einlæg og hún yrði hjá 28 ára stelpu, sem myndi lenda í svipaðri aðstöðu. Viðstaddir trúðu mér ekki.


Áður en við fórum niður í bæ horfðum ég og vinur minn á nokkra þætti í fyrstu seríu af Arrested Development. Þessir þættir eru einfaldlega stórkostlegir. Og ég er ekki frá því að þeir batni tífalt við það að maður horfi á þá í félagsskap og undir áhrifum áfengis. Ég hef allavegana ekki hlegið svona mikið lengi.


Á konakt-listanum mínum í MSN eru tvær stelpur með mynd af sér með Quentin Tarantino. Þær tengjast (svo ég viti) ekki neitt. Þetta finnst mér mögnuð tilviljun. Quentin hefur greinilega farið víða í Íslandsför sinni.


Í kvöld klukkan 10 á Sýn: CHICAGO BEARS [á móti](http://sports.espn.go.com/nfl/playoffs05/series?series=carchi) carolina panthers í úrslitakeppni NFL í beinni frá Chicago. Jessss!

2006

Á árinu ætla ég að…

– Læra nýtt tungumál
– Verða betri salsa dansari en ég er í dag
– Læra box
– Eyða minni tíma á netinu
– Hitta vini mína oftar en á síðasta ári
– Ferðast

Eru þetta ekki ágætis áramótaheit?

Punktar í upphafi árs

Af því að ég hef ekki nægt efni í heila færslu um eitt málefni:

– Ég get ekki gert upp við mig hvort sé merkilegra: 1. Hversu hryllilega lélegt þetta Áramótaskaup var – eða 2. Að fulltaf fólki í fjölmiðlum finnist það hafa verið æði. Ég passa ekki lengur inní þetta land.
– Ég fór á Players í dag til að horfa á fótboltaleik og fékk hausverk útaf sígarettureyk. Ég get bókað tvennt þegar ég fer á Players. 1. Ég þarf að setja öll föt í þvott og 2. Ég fæ hausverk útaf tóbaksreyk.
– Ég skipti annarri af tveim jólabókunum mínum í Rokland með Hallgrími Helga. Er kominn nokkuð langt með hana. Hún er góð. Enda Hallgrímur snillingur
– Ef ég væri búinn að vera forstjóri í fyrirtæki í 30 ár og fengi skitnar 160 milljónir í starfslokasamning á meðan að arftaki minn, sem hefði unnið í 5 mánuði fengi 130 milljónir, þá yrði ég brjálaður. Ég er hins vegar ekki í þessari stöðu, þannig að þessi reiði mín skiptir litlu máli.
– Í gær horfði ég á Dodgeball og komst ekki hjá því að velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum Ben Stiller fær borgað fyrir að leika í kvikmyndum. Horfði líka á Der Untergang, sem er góð.
– Ég hlusta alveg fáránlega mikið á þessi lög þessa dagana: Chicago – Sufjan Stevens, Things the Grandchildren should know – Eels, Geislinn í Vatninu – Hjálmar.
– Hérna geturðu reynt þig í [fánum heimsins](http://www.flag-game.com/). Ég var einu sinni sérfræðingur í fánum og höfuðborgum. Ég og Gunni vinur minn kepptumst um að vita sem mest um þetta tvennt. Í teikningu hafði ég svo gaman af því að teikna upp alla heimsins fána. Landafræði var mitt uppáhaldsfag. Þegar ég hugsa aftur til þessa þá sé ég það að ferðalög hljóta að vera í blóðinu víst ég var svo fljótt með kominn með áhuga á þessu.
– Ef þú ert með PC þig vantar forrit til að halda utanum myndirnar þínar, þá mæli ég með [Picasa](http://picasa.google.com/index.html), sem er ókeypis forrit frá Google. Ég var að setja þetta uppá tölvunni hennar mömmu áðan og þetta virkar ferlega einfalt og skemmtilegt. Ég hélt 10 mínútna tölu um það af hverju mamma ætti að standa í því að merkja allar myndirnar. Veit ekki hvort það hafi smogið í gegn. Ég er fanatískur á að merkja myndirnar mínar. Ég skýri allar myndirnar og svo set ég “tags” á allar myndir, þannig að ég get ávallt leitað að myndum af ákveðinni persónu eða stað.
– Ég er búinn að setja [myndir frá Belize](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/) inná myndasíðuna. Á þeim myndum má meðal annars sjá af hverju ég reyni öllu jöfnu ekki að safna [skeggi](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/gallery/g-og-anja.php) :-).

Áramóta-ávarp

perquin.jpgAf einhverjum ástæðum hef ég undanfarna daga hlustað nær stanslaust á síðasta lagið á nýju(stu) Eels plötunni, “Things the grandchildren should know”. Þetta er án efa besta lag plötunnar og einhvern veginn finnst mér það passa svo vel við þessi áramót. Allavegana 1 eða 2 punktar í laginu eiga vel við það hvernig mér líður núna um áramótin.

I tried to make the most of my situations
And enjoy what i had
I knew true love and i knew passion
And the difference between the two
And I had some regrets
But if i had to do it all again
Well, it’s something i’d like to do

Þetta ár hefur verið skrýtið á svo ótal marga vegu. Svo innilega viðburðalaust, en samt skringilega fullt af spennandi hlutum. Ég hef upplifað æðislegar stundir, en einhvern veginn eru þær nær allar tengdar útlöndum. Hérna heima finnst mér lítið skemmtilegt hafa gerst. Einhvern veginn virkar allt betra í útlöndum. Stelpurnar eru skemmtilegri, hlutirnir meira spennandi og mér líður betur.


Ég hugsa sennilega alltof mikið á áramótum. Reyni að gera upp árið hjá sjálfum mér og hvort ég sé sáttur við lífið og tilveruna. Allt frá því hversu duglegur ég var í ræktinni til þess hvernig ég hef verið við fólkið í kringum mig.

Ég hef ferðast umtalsvert á þessu ári og fyrir það getur árið ekki annað en talist gott. Hef sennilega ferðast umtalsvert meira en flestir í kringum mig og fyrir það get ég ekki annað en verið þakklátur. Ég er heppinn með vinnu í þeim skilningi, en ég sleppi líka umtalsverðu úr hefðbundnu lífsgæðakapphlaupi hér á Íslandi til að geta “eytt” meiri pening í ferðalögin mín, því þau eru það sem gefa mér langmesta lífsfyllingu.

Hef ekki enn getað skilið eina fyrrverandi kærustu mína, sem kvartaði yfir því að sjónvarpið í stofunni minni væri svo hrikalega lítið miðað við sjónvarpið sem hún og hennar fyrrverandi höfðu átt. Þau áttu 300.000 króna sjónvarp í stofunni, sem þau höfðu fjárfest saman í. Hins vegar höfðu þau bara einu sinni á einhverjum 5-6 árum, sem þau voru saman, farið til útlanda. Auðvitað er það þeirra val og allt gott um það að segja. En það þýðir samt ekki að ég geti skilið svona lagað.


Ég sá Liverpool verða Evrópumeistara í Istanbúl í besta úrslitaleik allra tíma. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur og geri mér góða grein fyrir því hversu stórkostlega heppinn ég var að upplifa þetta. Ég get allavegana strokað “sjá Liverpool verða Evrópumeistara” útaf listanum yfir hluti, sem ég ætla að gera áður en ég dey. Ég væri þó alveg tilbúinn að endurtaka þetta einhvern tímann aftur. Þess vegna strax á næsta ári.

Ferðalögin hafa líka oft bjargað mér frá leiðindum hérna heima. Oft hefur mér fundist ég vera að gera lítið spennandi hluti, en utanlandsferðir, hvort sem þær voru tengdar vinnu eða öðru, komu mér í gang aftur. Kannski á þetta sérstaklega við London ferðina í ágúst þar sem ég eyddi fjórum dögum með sjálfum mér, hugsandi minn gang. Eftir þá ferð skrifaði ég ferðasögu, sem ég hef þó aldrei haft geð í mér að birta hér því ég var ekki alveg viss hvernig mér leið.

Og svo var Mið-Ameríkufríið mitt líka stór upplifun. Átti þar frábærar 5 vikur í æðislegum löndum. Kynntist frábæru fólki, skemmti mér stórkostlega og naut þess að upplifa nýja hluti í nýjum löndum.

Og svo kynntist ég þar stelpu. Sambandið endaði reyndar tveim mánuðum seinna vegna fjarlægðar og annarra hluta. En enn og aftur fann ég ástina hjá útlenskri stelpu. Það er einsog ég laði að mér skrýtnar íslenskar stelpur, sem eru fullar af vandamálum, bjánalegum afsökunum og öðru veseni. Kannski er þetta tilviljun en utan eins sambands, þá hafa öll mín sterkustu og skemmtilegustu sambönd verið með útlenskum stelpum. Í þeim samböndum hefur verið minnsta vesenið og ég hef ekki þurft að glíma við nein af þeim vandamálum, sem ég hef þurft að glíma við í mínum samböndum og sambandstilraunum með íslenskum stelpum.

Kannski er þetta bara ein stór og skrýtin tilviljun. Ég veit ekki. En ég er eiginlega búinn að fá nóg af vissu leyti.


Næsta ár verður ár breytinga í mínu lífi, á því er ekki nokkur einasti vafi. Ég er sæmilega ánægður við þessi áramót. Ég lít ágætlega út, er í besta formi ævi minnar og mér gengur ágætlega í vinnutengdum málum. En það er samt svo mikið sem mér finnst ekki í lagi.

Því ætla ég að breyta og er í raun strax byrjaður að huga að breytingunum og hef stigið fyrstu skrefin í átt að nokkrum. Það hefur gefið mér aukinn kraft að undanförnu.

En ég mun þó halda áfram að skrifa hér á þessari síðu. Þrátt fyrir að margir skilji ekki þörf mína fyrir að opinbera smá hluta af mínum tilfinningum á vefnum, þá fæ ég furðu mikið útúr því. Ég fæ vissa útrás með því að halda dagbók, en ég þarf líka mína útrás á þessari síðu. Og ég held þessu úti að langstærstu leyti af því að þetta veitir mér ánægju.

Ég vona að þið eigið eftir að eiga gott ár á næsta ári.

E, take it away:

I do some stupid things

but my heart’s in the right place

and this I know

Gleðilegt ár!

Heimsótt lönd á árinu

world2005-des.gif

Þetta ár hefur verið ágætt að sumu leyti en slæmt að öðru leyti fyrir mig persónulega. Eitt það ánægjulegasta er að ég hef getað ferðast talsvert á árinu. Til að halda utanum þetta í anda [Flygenrings](http://www.semsagt.net/s/2005/12/26/14.08.38.html) eru hérna þau lönd, sem ég heimsótti á árinu:

Pólland x2 (Varsjá), Þýskaland x2 (Köln), Tékkland (Prag), Holland x2 (Amsterdam, Breda), Svíðþjóð (Stokkhólmur og Gautaborg), Tyrkland (Istanbúl), England x2 (London, Liverpool, York Kettering), Mexíkó, El Salvador, Hondúras, Gvatemala, Belize, Bandaríkin.

Highlight: Istanbúlferðin og Hondúras.

Af þessum löndum var ég að heimsækja Pólland, Tékkland, Svíþjóð, Tyrkland, El Salvador, Hondúras, Gvatemala og Belize í fyrsta skiptið á ævinni. Því lítur landalistinn minn svona út í dag:

**Norður-Ameríka**: Kanada, Mexíkó, Bandaríkin
**Mið-Ameríka & Karabíska Hafið:** Belize, Kúba, El Salvador, Gvatemala, Hondúras, Bahamas
**Suður-Ameríka**: Argentína, Bólivía, Brasilía, Chile, Kólumbía, Ekvador, Paragvæ, Perú, Urugvæ, Venezuela
**Evrópa**: Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Lúxembúrg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bretland
**Afríka**: Ekkert
**Mið-Austurlönd**: Tyrkland
**Asía**: Ekkert

Samtals 39 lönd.

Jól

Jæja, þá er ég búinn að eyða öllum morgninum með Emil við að keyra út gjafir til starfsmanna Serrano. Næst er það svo að leita að leiðum niðrí Fossvogskirkjugarði. Það þýðir víst að það eru komin jól.

Ég segi því bara Gleðileg Jól, öll. Verið góð.