Spurning dagsins

[Þessi síða](http://ungvest.com/html/stelpurnar.html) er

a) Auglýsing fyrir Coke Light
b) Síða tileinkuð keppninni um Ungfrú Vesturland

Svar óskast.

[Eru](http://ungvest.com/Fanney_light_1b_300.jpg) [menn](http://ungvest.com/Iris_light_2_tilbuin.jpg) [ekkert](http://ungvest.com/stulka_light_200.jpg) [að](http://ungvest.com/stulka_8_tilraun_3.jpg) [grínast](http://ungvest.com/Heidur_light_1_450.jpg)?

Er verið að velja fallegustu kókflöskuna, eða fallegustu stelpuna?


Annars var ég í tvítugsafmæli hjá frænku minni í gær, sem var haldið á Pravda. Ljómandi skemmtilegt alveg hreint. Hitti gamlan handboltaþjálfara, sem hélt að pabbi væri af minn og sagði að ég hefði greinilega eitthvað stækkað og breyst síðan ég var 14 ára. Magnað.

En afmælið var fínt. Ótrúlega mikið af sætum stelpum, enda frænka mín bæði Garðbæingur og Verzlingur, sem eru einmitt miklar uppsprettur af sætum stelpum.

Fyrr um kvöldið hafði ég fengið þá snilldar hugmynd að leggja mig aðeins eftir vinnu. Var nefnilega að vinna til klukkan 7 og var frekar þreyttur þegar ég kom heim. Sannfærði sjálfan mig um að ég myndi aðeins sofa í nokkrar mínútur, en ég rumskaði ekki fyrr en klukkan var orðin 11 um kvöldið. Þá dreif ég mig út og labbaði niður í bæ. Náði mér þó aldrei á strik þrátt fyrir frítt áfengi og fór heim um hálf tvö.

Einsog undanfarna laugardaga byrjaði ég daginn uppí Kringlu og ákvað svo að ég myndi ekki fá neitt samviskubit yfir því að vinna ekki neitt um helgina. Held þó að það líti út fyrir að ég þurfi að vinna eitthvað í páskafríinu. Það er ekki einsog ég hafi eitthvað merkilegra að gera, þannig að það er ágætt að nýta það í að klára hluti, sem ég hef dregið lengi.

Á morgun: [Liverpool – Everton](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/03/19/14.44.39/). Ég vorkenni öllum þeim, sem þurfa að umgangast mig næstu daga ef að Liverpool tapa þessum leik.


Já, og ég mæli aftur með Hamborgarabúllunni og Krua Thai. Búinn að borða á báðum stöðunum í vikunni og er alltaf jafn hrifinn. Svo mæli ég líka með Serrano, en það er annað mál.

Gleraugnakaup

Ok, ég keypti mér semsagt gleraugu í vikunni. Fékk mér Oakley gleraugu. Ég er verulega sáttur við þau og er svona aðeins að venjast þeirri tilhugsun að vera með gleraugu.

Ég þarf þó alls ekki að vera með þau daglega. Einungis þegar ég er að horfa á sjónvarpið, á fundum og slíkt. Svo er aldrei að vita nema maður tefli þessum gleraugum fram sem leynivopni í viðræðum við bankastjóra og aðra virðulega menn í þeirr von að ég líti út fyrir að vera eldri og gáfaðari en ég er í raun. Allavegana, svona lít ég út í dag (smellið til að fá eeeennn stærri mynd) 🙂


Það er svo sem ekki oft, sem ég rekst á nýjar bloggsíður, sem ég bæti við [RSS](https://www.eoe.is/rss/) listann minn. En þessi síða:  [Magga H og hausinn hennar](http://maggabest.blogspot.com/) er snilld.


Spurning dagsins: Af hverju eru aldrei sætar stelpur í Vesturbæjarlauginni (a.m.k. ekki þegar ég er þar). AF HVEJRUUUUUUUU?

"I've been chatting online with babes all day"

Einhvern veginn líður mér einsog það sé mið nótt því ég er eitthvað undarlega þreyttur. Var alveg að sofna áðan en ákvað að fá mér einn Tuborg í tilefni dagsins og er aðeins að hressast við það.

Var í matarboði í gær en drakk ekkert, þannig að ég var voðalega hress í morgun. Var vakinn útaf einhverju veseni á Serrano, sem ég komst að eftir 5 símtöl að var í raun ekkert vesen. Kíkti samt í Kringluna til að sjá hvort ekki væri allt í lagi. Fór svo uppá X-FM, þar sem ég fór í [Liverpool viðtalið](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/03/11/18.49.01), sem mér fannst heppnast vel.

Þetta var að ég held í þriðja skiptið á ævinni, sem ég er í útvarpi. Fyrsta skiptið var þegar PR tók viðtal við mig fyrir Útvarp Verzló, þar sem ég tjáði mig um félagslífið einsog mikill speningur. Svo fórum ég og Emil í viðtal í viðskiptaþættinum á Útvarp Sögu fyrir rúmu ári.


Kíkti svo í göngutúr. Fór uppí Háskóla þar sem átti að vera eitthvað dæmi á vegum ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, en ég virtist vera of seinn. Labbaði því aðeins um skólalóðina í svona um það bil 35 stiga frosti.


Það gerist æ oftar að ég hlusti á tónlist eða horfi á bíómynd, sem er mælt með af öðru fólki á netinu. Einhvern veginn virkar það oft sterkar á mig en góð gagnrýni í fjölmiðlum. Til dæmis hef ég hlustað á fulltaf tónlist, sem að Dr. Gunni, Gummijóh eða hagfræðingurinn ónefndi hafa mælt með á heimasíðum sínum.

Ég horfði áðan á [Napoleon Dynamite](http://kvikmyndir.is/?mynd=napoleondynamite), sem ég varð spenntur fyrir eftir að hafa lesið [þetta á MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/40123). Allavegana, myndin er ekki eins frábær og margir tala um, en hún er vissulega fyndin á köflum.

*”I’m Rex, founder of the Rex Kwan Do self-defense system! After one week with me in my dojo, you’ll be prepared to defend yourself with the strength of a grizzly, the reflexes of a puma, and the wisdom of a man.”*


Annað dæmi um að ég hafi hrifist af umfjöllun á netinu er ákveðið lag. Málið er nefnilega að fyrir nokkru fór ég að taka eftir greinum, þar sem skynsamlegt fólk var að hrósa lagi með *Kelly Clarkson*, sem vann víst American Idol fyrir einhverjum árum. Eftir að hafa lesið umfjöllun [hér](http://www.kottke.org/05/03/earworm), [hér](http://a.wholelottanothing.org/2005/03/this_weeks_best.html) og [hér](http://www.livejournal.com/users/merlinmann/311286.html) varð ég verulega forvitinn og ákvað að nálgast lagið, sem heitir Since U Been Gone. Ég setti það í spilun og hlustaði á það 3-4 sinnum og hætti svo. Viti menn, nokkrum klukkutímum var ég kominn með þetta á heilann og næ því ekki svo auðveldlega úr hausnum á mér.

Ég hvet alla til að prófa þetta. Sérstaklega þá, sem telja sig hafa hinn fullkomna tónlistarsmekk og eru of miklir töffarar til að fíla popp. Ég þori að bóka það að þið munið fíla lagið (þrátt fyrir að þið þorið kannski ekki öll að viðurkenna það). 🙂

Don't think twice, it's all right

Af því að ég er svo góður, þá ætla ég að deila með ykkur uppáhaldslaginu mínu í dag:

[Bob Dylan – Don’t think twice, it’s all right](http://Www.eoe.is/stuff/dont-think-twice.mp3) (MP3 – 5,13 mb)

Á rólegum sunnudagskvöldum er hægt að spila þetta á rípít allt kvöldið. Ég elska Dylan. Vil að það komi fram.

Annars er þessi dagur búinn að fara í fáránlega tímaeyðslu. Talaði við vin minn í hálftíma í síma og fór í mat til mömmu og pabba og spjallaði við þau. Það er án efa það gagnlegasta, sem ég hef gert í dag. Restin af deginum hefur farið í labb um Vesturbæinn, ís-át, sjónvarpsgláp og netráp.

Var í partíi í gær. Afmæli hjá tveim stelpum. Partýið var grímubúningapartý og ég mætti sem hafnaboltamaður. Ég var við það að hætta við að mæta í búning þegar ég fattaði að ég átti allar græjur til að líta út einsog sæmilegur baseball leikmaður. Partýið var skemmtilegt og ég kíkti svo niður í bæ á eftir. Voða fínt.

Annars var ég að fjárfesta í nýjum iPod, þar sem að sá sem ég [missti](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/26/19.44.43/index.php) í götuna, er ónýtur. Núna á ég [60GB iPod photo](http://www.apple.com/ipodphoto/). Hann var keyptur fyrir mig í Bandaríkjunum og kostaði mig 27 þúsund kall. Helvíti góður díll það. Þessi iPod er með litaskjá og tvöfalt stærri disk en sá gamli. Æðisleg græja. Ég er fullkomlega háður því að eiga iPod. Á ferðalögum, í bílnum og í ræktinni er þetta algjörlega ómissandi.

Fótbolti og geðheilsa mín

Það er ekki einsog ég hafi þurft frekari sannanna við, en það er alveg ljóst að gengi Liverpool hefur gríðarleg áhrif á skap mitt.

Ég vaknaði frekar snemma í morgun, fékk mér Weetabix og stökk útúr húsi í voða fínu skapi. Fór niður á Laugaveg, labbaði aðeins þar um og kíkti svo í Kringluna. Allt brjálað að gera á Serrano, svo skapið batnaði enn frekar. Fór svo í Smáralind þar sem ég ákvað hvaða gleraugu ég ætlaði að kaupa. Labbaði svo aðeins um og kíkti svo heim.

Ég varð nefnilega að vera kominn heim fyrir klukkan þrjú því þá átti Liverpool leik. Ég settist því niður fyrir framan sjónvarpið og byrjaði að horfa á uppáhaldsliðið mitt.

Ég sat svo og [þjáðist næstu tvo klukkutímana](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/03/05/17.01.03/). Þetta var svo ömurlega hræðilegt að ég var aðframkominn í lok leiksins. Lamdi í sófann að minnsta kosti fimm sinnum og eftir leikinn var ég kominn með dúndrandi hausverk og var í hræðilegu skapi.

Fyrir leikinn var ég hress og í góðu skapi. Eftir leikinn var ég með hausverk og í vondu skapi.

Ég var svo fúll að ég ákvað að labba útí Vesturbæjarlaug, þar sem ég var í sundi í klukkutíma og reyndi að gleyma leiknum. Það tókst ekki.

Er þó að jafna mig. Er að fara í partí á eftir. Verð kominn í gott skap þá 🙂

Af hverju ertu ekki á föstu?

*Ok, þetta er ekki [færslan](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php), en eflaust tengt henni. Eflaust eiga einhverjir vinir mínir eftir að hneykslast á því að ég skuli tala um þetta hér. En mér er nokk sama. Læt þetta bara flakka.*


Eftir að hafa lesið aftur [nýlega færslu](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php) og viðbrögð við henni hef ég verið að hugsa… Gæti ástæða þess að mér finnist ég vera minna persónulegur á þessari síðu verið sú að það sé einfaldlega minna að gerast í mínu einkalífi og að ég hafi minni áhyggjur af mínum málum?

Ég get ekki losnað við þá tilfinningu að kannski sé ég bara orðinn vanur þessu hversdagslífi og sáttur við það allt. Sáttur við það hvað ég er að gera, sáttur við að vera single, sáttur við að búa í Vesturbænum. Tíminn er farinn að líða svo fáránlega hratt að mér bregður þegar ég horfi á dagatalið. Ég meina það er kominn mars! Tíminn í mínu lífi líður hratt þegar ég geri sama hlutinn dag eftir dag, viku eftir viku. Það hægist ekki á honum nema ég sé erlendis, hvort sem er í viðskiptaerindum eða í fríi.


Það fara að nálgast þrjú ár síðan ég hætti í langa sambandinu mínu, þrjú ár síðan ég útskrifaðist úr háskóla, þrjú ár síðan ég flutti heim, þrjú ár síðan ég flutti í Vesturbæinn. Ég hef gert meira í vinnunni en mig hefði órað fyrir, en stundum bregður mér þegar ég hugsa til þess hversu lítið hafi gerst utan vinnu.

Þegar ég les skrif mín á þessa síðu frá því fyrir um ári, þá var ég með stelpur á heilanum. Mér fannst ég ekki getað lifað án þess að vera í sambandi. Ég hafði vanist því að vera alltaf með einhverja stelpu á heilanum, alveg frá því ég man eftir mér.

Var í fyrsta alvöru sambandinu 17 ára. Varð ástfanginn í fyrsta skipti 19 ára. Í Verzló var ég með stelpu á heilanum, svo aðra og svo byrjaði ég með stelpu, sem ég var með í 5 ár. Eftir að það endaði, byrjaði ég svo strax með annarri stelpu. Þegar ég kom heim fékk ég aðra stelpu á heilann, sem varð til þess að ég endaði sambandið.

Gleymdi svo stelpunni, en fékk aðra stelpu á heilann. Hugsaði alltof mikið um hana þangað til að ég kynntist annarri stelpu á skemmtistað. Var með henni í einhvern tíma. Hættum saman, náði mér á því. Fékk aðra stelpu á heilann, er eiginlega enn skotinn í henni.

Á Vegamótum síðasta sumar skrifaði ég sjálfum mér sms þegar ég var blindfullur og sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum varðandi þessa stelpu. Fimm mínútum eftir að ég sendi sms-ið hitti ég aðra stelpu. Við kysstumst og ætluðum á deit daginn eftir.

Það fór einhvern veginn allt til fjandans. Áttaði mig aldrei á af hverju, en það varð bara þannig. Var dálítið erfitt fyrir mig að sætta mig við það. Fann svo út að hin stelpan, sem ég sendi sms útaf, var komin á fast. Stuttu seinna heyrði ég að Vegamótastelpan væri komin á fast.

Fór út til Bandaríkjanna, kom heim. Uppgötvaði stelpu, sem ég þekkti fyrir. Varð hrifinn, þrátt fyrir að hún væri á föstu. En gafst upp eftir einhvern tíma, þar sem ég fann alltaf einhverjar ástæður til að gera ekki neitt.


Þetta gerðist í desember og svo er hægt að bæta við öllu því, sem skildi ekki eftir nein för, öllu því sem skiptir mig í dag engu máli.

Síðan í desember hefur hins vegar *ekkert* gerst. Ég er ekki skotinn í stelpu (allavegana ekki neinni, sem ég leyfi mér að vera skotinn í), ég hef ekki hitt neina stelpu, sem ég hef heillast af, enga til að hafa á heilanum. Ég hef hvorki reynt við stelpu á skemmtistað, né annars staðar. Ekki neitt. Það er engin stelpa í mínu lífi og ég hef ekkert gert til að breyta því. Það furðulega er að mér finnst það allt í lagi.

Ég er alltaf að fá spurninguna af hverju ég sé ekki á föstu. Hvernig á ég að svara? Hver er ástæðan?

Ég veit það ekki. Sennilega af því að í lífi mínu kemst ég ekki oft í kynni við nýtt fólk. Og ég get ekki myndað tilfinningatengsl við stelpur á skemmtistöðum. Bara get það ekki. Öllu mikilvægari er þó sú staðreynd að ég er líka hræddur um að stelpa muni neyða mig til að breytast í einhverja þá átt, sem mig langar ekki til að breytast. Ég er ekki fullkomlega sáttur þar sem ég er í dag og ég vil ekki að stelpa festi mig niður á þeim stað eða á öðrum stað, sem ég myndi ekki vilja vera á.

Með öðrum orðum, mig langar ekki að verða ástfangin af stelpu, sem langar svo að byrja að eignast börn og flytja í úthverfin. Ekki að það sé neitt að því. Ég er ekki svo mikill asni að gera lítið úr því. Það er bara ekki það, sem *ég* vil núna. Kannski seinna, hver veit? En *ekki núna*. Því velti ég því fyrir mér hverjar séu líkurnar á að hitta sæta stelpu á skemmtistað í Reykjavík, sem deilir með mér sömu ævintýraþrá, sömu þránni á að verða ekki gamall alveg strax? Stelpu, sem langar að prófa nýja hluti, búa á nýjum stöðum, sem langar ekki að festa sig niður á ákveðinn stað alveg strax.

Líkurnar eru sennilega ekki miklar.


En hver svo sem ástæðan er, þá hugsa ég minna um stelpur en áður. Ég er orðinn dálítið hræddur við að mér finnist það of þægilegt að vera single. Áður fyrr þá átti ég aldrei von á að vera single mikið eitthvað fram í tímann. Núna er ég að skipuleggja ferðalög uppá eigin spýtur marga mánuði fram í tímann.

Kostur a) væri alltaf að finna þessa stelpu, sem hugsaði svipað og ég, sem væri til í að breyta til, til í að gera nýja hluti. Hinir möguleikarnir eru að b) gera hlutina uppá eigin spýtur eða c) leyfa stelpu að breyta plönunum. Ég veit að möguleiki a) er sá besti, en ég er ekki viss um hvort ég vildi fórna b) fyrir stelpu. Þess vegna er ég pínulítið hræddur við að hitta stelpu og verða ástfanginn. Kannski er það hluti ástæðunnar.

Ég hef áður látið stelpur stjórna ansi miklu í mínu lífi. Hvert ég hef farið, hvað ég hef gert. Þess vegna er ég dálítið hræddur við að það gerist aftur.

En hvað sem það er, þá pæli ég minna í þessum málum.
Hef ekki jafn miklar áhyggjur. Er sáttari við það hver ég er. En það er samt pínu skrítið að vera ekki með neina stelpu á heilanum. Ég held að ég vilji ekki venjast því.

I want to fly and run till it hurts

Í janúar í einhverju mellonkollí ástandi byrjaði ég að skrifa færslu á þessa síðu um hvar ég stæði og hvað mig langaði að gera í þessu lífi. Á sunnudagskvöldum langar mig alltaf til að bæta við þá færslu, en geri samt alltaf lítið í því.

Hef aðeins sagt einum vini mínum frá efni þessarar færslu. Hann virtist skilja mig vel og þetta kom honum m.a.s. ekki svo á óvart. Kannski er það greinilegt að ég er ekki jafn sáttur við lífið og tilveruna og maður reynir að láta líta út fyrir.

Ég hef samt hikað við að setja skrifin inn á þessa síðu. Ég er nefnileag farinn að hugsa alvarlega um það hvað ég get skrifað á þessa síðu. Ég hef komist að því að fólki, sem mér líkar ekkert sérstaklega vel við, les þessa síðu nokkuð reglulega. Og eflaust líka fólk, sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig vegna einhvers, sem hefur gerst í raunheimum.

Það finnst mér óþægilegt.

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég pottþétt miklu opinskárra um mitt einkalíf og sérstaklega hugsanir mínar um stelpur og þau áhrif, sem þær hafa á mitt líf. Mér fannst það þægilegt og ég fékk nokkra útrás með þeim skrifum. Mér var nákvæmlega sama þótt að vinir mínir, kunningjar, fjölskylda og ókunnugir læsu þetta. En þegar fólk, sem mér líkar ekki vel við, les þetta líka, þá horfir öðruvísi við. Það kom mér reyndar á óvart að viðkomandi einstaklingar skyldu lesa síðuna. En oft finnst manni einsog bara þeir sem kommenti séu að lesa, en auðvitað eru svo margir auk þeirra, sem lesa síðuna. Viðkomandi hafa aldrei kommentað á síðuna, svo það kom mér á óvart að þeir skyldu lesa hana.

Skrif mín gera mig nefnilega meira “vulnerable” því þau opinbera ansi margt um mig og innihalda sennilega fullt af hlutum, sem þeir sem mér líkar ekki vel við, geta nýtt sér gegn mér. Það þykir mér óþægilegt og þess vegna hef ég hætt við skrif á mörgum pistlum hérna.

Hingað til hefur mér einfaldlega fundist þessi síða gefa mér það mikið að það sé áhættunnar virði. Ég fæ ótrúlega mikið út úr því að skrifa hérna og enn meira út úr því, sem fólk kommentar á síðunni. Það vill maður ekki gefa eftir. Samt finnst mér einsog að undanförnu hafi ég þurft að endurskoða hvar ég dreg línurnar í skrifum mínum.

Þess vegna finnst mér einsog skrif mín séu ekki jafn góð né spennandi og þau voru fyrir einhverjum mánuðum þegar ég hugsaði minna um hverjir væru að lesa.


Og já, ef menn geta ekki lesið það af skrifunum þá [töpuðu]( https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/02/27/18.36.53/) Liverpool. Hagnaðurinn segir allt sem [segja þarf um Mourinho]( http://haukurhauks.blogspot.com/2005_02_01_haukurhauks_archive.html#110953427713216380).

Gleraugu

Ok, prófaði að taka mynd af mér með gleraugun. Það er eitthvað yndislega sorglegt að vera að velta fyrir sér gleraugnakaupum á laugardagskvöldi, en hverjum er svo sem ekki sama 🙂

Allavegana, þetta eru önnur af tveim gleraugum, sem koma til greina. Fékk þau lánuð og miðarnir eru enn á glerjunum, þannig að það skemmir aðeins fyrir.

gleraugu.jpg

Hmmmm… Er þetta ég? Veit ekki alveg. Finnst ég virka eldri og gáfaðari en vanalega. Veit ekki hvort það sé gott.

Einar Örn fer næstum því á Idol

Í gærkvöldi fór ég næstum því á Idol. Málið er að ég er í stjórn starfsmannafélagsins í vinnunni og við skipulögðum ferð á Idol fyrir allt fólkið. Ég ætlaði ekki að fara, en það var skotið mikið á mig þar sem að ég væri ekki að mæta á atburði, sem ég hjálpaði við að skipuleggja.

Allavegana, ég mætti í mat á Pizza Hut og síðan var planið að fara á Idol. Svona 5 mínútum áður en þetta byrjaði leit ég á miðann og röðina og hugsaði svo með mér: Nei andskotinn, ég get ekki setið í gegnum þetta.

Ég hef aldrei getað horft á meira en 10 mínútur af þessum Idol þætti og mér leist hreinlega ekkert á að sitja undir þessu í einhverja klukkutíma. Ég fór því heim. Rölti seinna um kvöldið á skemmtun hjá Ungum Jafnaðarmönnum, sem var fín. Kíkti svo með [PR](http://www.jenssigurdsson.com/), Litlu PR og fleira fólki á Ara í Ögri. Að ég held í fyrsta skipti, sem ég fer á þann stað síðan ég útskrifaðist úr Verzló.

Mig minnir að við höfum aðallega farið á þann stað vegna þess að við komumst alltaf inn og það var aldrei neinn þarna inni og því gátum við alltaf fengið borð. Allavegana, þá virðist staðurinn hafa breyst mikið og hann kom mér á óvart. Allt stappað og fullt af sætum stelpum. Þegar ég var að labba heim missti ég iPodinn minn í götuna og því er hann bilaður í annað skiptið á fjórum vikum. Ég er hálfviti!

Fór svo í gleraugnakaup í dag og fékk ein gleraugu lánuð heim. Ætla að prófa þau yfir helgina, þar sem ég erfitt að venjast þeirri tilhugsun að vera með gleraugu.

Á morgun er það [úrslitaleikur í deildarbikarnum](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/02/26/16.09.16/). Get ekki beðið!

Merkilegir hlutir

Í dag gerði ég nokkra merkilega hluti:

* Ég keyrði uppí Grafarvog! Jei! Það gerist varla nema við hátíðleg tilefni að ég fari þangað.

* Ég fór í klippingu. Það telst vissulega til stórtíðinda á þessari síðu, enda leiðist mér ekki að tala um hárið á mér. Núna er ég með sítt að aftan og talsvert styttra að framan. Loksins hitti ég á klippikonu, sem ég fílaði. Hún sagði að ég ætti að sættast við krullurnar mínar. Ég mun hér eftir reyna það. Mikið líður mér vel núna. Við klippikonan gátum meira að segja talað heillengi saman um afar skemmtilegan hlut, það er hárið á mér. Gaman gaman!

* Sá Liverpool vinna 3-1 á Players ásamt vini mínum. Mikið afskaplega var það gaman. Þetta er í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér að ég horfi á leik með Liverpool í útsláttarhluta Evrópukeppni Meistaraliða/Meistaradeildarinnar. Þeir sem segja að Liverpool sé eins-manns-lið mega núna officially hoppa uppí rassgatið á sér.

Fór svo í fótbolta eftir leikinn og núna er ég alveg búinn. Ég hélt að ég sæi fram á ögn rólegri tíma í vinnu, en svo breyttist allt í dag, þannig að sumum verkefnum verður enn frekar slegið á frest. Það er ekki gott.


[Þessi hugrakki einstaklingur](http://www.coudal.com/abbavideo.php) hlustaði á Dancing Queen með Abba í fimm klukkutíma á meðan hann keyrði til kærustunnar sinnar.


Fyrir þá, sem ekki vissu, þá tilkynnist það hér með að Jay-Z er SCHNILLINGUR! Einsog vanalega þá er ég nokkrum árum á eftir í hip-hopinu og því fattaði ég ekki Jay-Z fyrr en fyrir svona 2 árum. Hef smám saman verið að vinna mig í gegnum efnið hans. Undanfarið hef ég verið að hlusta á [Unplugged](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B00005UDK5/qid=1109116747/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8044272-2173707?v=glance&s=music&n=507846) plötuna með honum. Hún er æði. ÆÐI!