Jólaþynnka

Æ!

Er svona um það bil að ná mér eftir frekar slæman þynnku dag. Þegar Eldsmiðjupizzan kemur eftir hálftíma, held ég að ég nái fyrri styrk. Var í matarboði með góðum vinum í gær. Það var helvíti skemmtilegt. Allir strákarnir urðu allavegana nokkuð ölvaðir og vorum við gríðarlega hressir til svona 4-5 um morguninn þegar ég fór heim. Fór ekki einu sinni í bæinn, sem telst til tíðinda.

Horfði á Liverpool vinna í morgun. Öskraði þegar Mellor skoraði og það var nú ekki beint til að bæta hausverkinn. Ákvað að leggja mig eftir leikinn.

Er að reyna að berja í mig eitthvað jólaskap, en það gengur erfiðlega. Hér eru hvorki skreytingar né jólatré, en ég er búinn að vera að spila jólalög og borðaði eitthvað af smákökunum, sem mamma bakaði. Samt, kemst ekki í stuð. Er ekki búinn að kaupa eina jólagjöf og sýnist allt stefna í að ég kaupi jólagjafirnar á Þorláksmessukvöld einsog svo oft áður.

Já, og ég er bara kominn með [35 rétt svör](http://www.xfm.co.uk/Article.asp?b=multimedia&id=55665). Ferlega er þetta erfitt.

Jakkafataþreyta

Ok, ég er búinn að komast að stórmerkilegum hlut. Málið er nefnilega að ég verð örmagna af þreytu af því einu að vera í jakkafötum allan daginn. Ég segi bara Guði sé lof fyrir að ég vinn ekki í banka.

Sem betur fer er það svo að í vinnunni minni þarf ég ekki að vera í jakkafötum nema við hátíðleg tilefni, svo sem þegar ég tek á móti útlendingum eða þegar ég fer í heimsóknir til útlanda. Það skrítna við þessi skipti, sem ég fer í jakkaföt, er að ég verð alltaf gjörsamlega örmagna í lok dags.

Dagurinn í dag var t.d. ósköp venjulegur. Ég var mættur í vinnu aðeins seinna en vanalega og var þá með konu, sem var í heimsókn hjá okkur. Við funduðum nokkuð lengi, ég komst í ræktina og svo var ég í vinnunni til 5, sem er mjög stuttur vinnudagur. En þegar ég kom heim var ég alveg búinn. Ég settist niður og var nánast sofnaður. Þurfti þó að berja í mig hressleika því ég fór áðan útað borða. Fór á Vox, sem er æði.

Allavegana, ég get ekki séð hvernig þessi dagur hefur verið öðruvísi en aðrir dagar, nema fyrir þá staðreynd að ég var í jakkafötum. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað við þann fatnað, sem gerir þetta að verkum. Ég fíla reyndar að ganga í jakkafötum, svona öðru hvoru. Maður fær hrós fyrir að líta vel út og þetta er ágætis tilbreyting við gallabuxurnar, sem ég geng í dags daglega. En þetta þreytu dæmi er verulega þreytandi. Já, eða eitthvað svoleiðis.

Ég er til dæmis svo þreyttur núna að þessi færsla er eintóm vitleysa.

En svona til að segja eitthvað af viti, þá vil ég vinsamlega benda fólki á að “Sooner or Later” með Bob Dylan er fokking snilld!

Já, og svo er það leiðinlegt að [Toggi](http://www.toggipop.blogspot.com/) skuli vera hættur að blogga. Ég þarf að fara að finna mér nýjar síður til að lesa víst að bæði hann og Járnskvísan eru dottin útúr daglega blogg rúntinum mínum.

Pósturinn minn.

Nei, nú segi ég stopp. Þetta pósthólf hérna á Hagamelnum hlýtur að vera leiðinlegasta pósthólf í heimi.

Tölvupóstur hefur fyrir löngu séð til þess að maður er hættur að fá skemmtilegan póst. Núna fæ ég bara endalausa reikninga og auglýsingapóst. Ég er svo heppinn að fá líka alla reikninga fyrir Serrano heim til mín, sem þýðir að ég fæ heilan haug af reikningum á hverjum degi. Ég er líka ýmsu vanur í ruslpósti, en ég er gjörsamlega að farast yfir þessum endalausu auglýsingabæklingum. Einhvern veginn eru þeir allir uppfullir af vörum, sem ég hef engan áhuga á. Í dag fékk ég 5 auglýsingabæklinga.


Ég fór til útlanda í gær. Í fyrsta skipti, sem ég fer til útlanda í minna en sólahring. Fór út til Osló kl 7 og kom aftur fyrir klukkan 11 um kvöldið. Mætti svo í vinnuna gríðarlega hress í morgun, en er núna alveg búinn.

Ég komst endanlega að því að tollurinn er í samsæri gegn mér. Þar sem ég var á fundi var ég í jakkafötum og ég er nýbúinn í klippingu, þannig að ég lít út einsog 18 ára kórdrengur. Auk þess var ég bara með bakpoka, en engan farangur. En SAMT var ég tekinn í tékk í tollinum. Það er greinilegt a þegar ég tek uppá því að smygla kókaíni til landsins, þá munu jakkaföt ekki duga til að gabba tollarana.

23:23

Mikið afskaplega hefur þetta verið róleg helgi, sem nær svona nokkurn veginn hámarki þegar maður er á netinu á laugardagskvöldi. En þetta var jú allt planað. Ég var ákveðinn í að djamma ekki, heldur reyna að taka lífinu rólega. Veitir víst ekki af.

Í gær var ég uppí [HR](http://www.ru.is/), þar sem ég horfði á nemendur í MBA námi flytja lokaverkefni sitt. Verkefnin tengdust ákveðnu vörumerki, sem ég hef umsjón með í vinnunni og því var ég fenginn sem “sérfræðingur” og átti að spyrja nemendur spurninga. Það var bara nokkuð fínt.

Þetta er búin að vera frekar mikil stress vika og eitthvað gerði það að verkum að þegar ég kom heim úr vinnunni í gær var ég gjörsamlega úrvinda. Ég lagðist uppí sófa, en sá að ég væri ekki alveg að höndla þetta allt saman og fór því að sofa. Vaknaði reyndar aftur um kvöldmat og lá uppí sófa í annarlegu ástandi það sem eftir lifði kvöldsins.

Ef það er einhver, sem er snillingur í að sóa lagardögum í ekki neitt, þá er það ég. Ég svaf til hádegis, horfði svo á fótbolta, fór uppá Serrano, horfði á meiri fótbolta þegar ég kom heim og spilaði Halo2. Pantaði pizzu og reyndi að horfa á Charlie’s Angels 2, en mikið djöfull er hún nú leiðinleg. Spjallaði svo við gamlan vin, sem býr í Tælandi. Ég er byrjaður að láta mig dreyma um að heimsækja hann í Bangkok á næsta ári. Verð þó að passa mig á því að hugsa ekki um ferðalög á þessum tíma árs.

Allavegana, mér finnst þetta alveg [fáránlega fyndin markaðsherferð](http://www.elitedesigners.org/) (via [MeFi](http://www.metafilter.com/mefi/37488))

Einnig: [The Onion: Iraq adopts terror alarm system](http://www.onion.com/news/index.php?issue=4048)

Matarboð

Nýja U2 platan er gargandi snilld. Einu sinni þótti mér flott að kalla U2 leiðinlega hljómsveit, en í dag eru þeir æði. Síðustu tvær plötur eru frábærar.


Er búinn að vera í tveim massívum matarboðum síðustu tvo daga. Fór í jólahlaðborð með vinnunni í Skíðaskálanum á föstudagskvöld. Ég er ekki mikið fyrir þessi jólahlaðborð, en steikarborðið reddaði mér fyrir horn.

Fór svo í bæinn með fulltaf fólki úr vinnunni. Val á skemmtistöðum var vægast sagt einkennilegt fyrir djamm hjá mér. Byrjaði á einhverjum stað, sem heitir víst Vínbarinn og er rétt hjá Skólabrú. Fór síðan á Thorvaldsen. Á báðum stöðum leið mér einsog ég væri yngsti einstaklingurinn þar inni. Jú, það var geðveikt sæt stelpa að bera fram drykki á Thorvaldsen, en þetta er ekki alveg mitt krád. Ekki enn allavegana.

Fór á tóman Hverfisbar, þar sem tvær viðbjóðslega fullar stelpur tóku upp hálft dansgólfið og urðu til þess að ég hellti bjór á nýju jakkafötin mín. Þetta var í raun önnur helgin í röð, þar sem ég var á djamminu í jakkafötum. Það er frekar skrítið. Mér leið svona eiginlega einsog ég væri kominn aftur í framhaldsskóla þegar maður hélt að maður væri rosa svalur í jakkafötum, reykjandi vindla inná Skuggabarnum. Mikið var samt gaman þá.

Lét svo draga mig á Sólon en þegar þangað var komið nennti ég þessu ekki lengur. Vikan er búin að vera bilun í vinnunni og ég var orðinn frekar þreyttur.

Þreytan kom svo bersýnilega í ljós í gær þegar ég svaf (með tveggja tíma vökuhléi) til klukkan 6. Dreif mig þá í annað matarboð, sem var “Thanksgiving” matarboð, sem matarklúbburinn minn hélt. Ljómandi skemmtilegt alveg hreint. Einhvern veginn lendum við alltaf í sömu umræðinnu í þessum klúbb og svo fékk ég einhver svakalegustu skot, sem ég hef fengið, frá vinkonu minni, en þetta var samt frábært.

Ég var reyndar svo slappur þegar ég mætti í veisluna að ég gat varla borðað neitt, sem er þvílík synd, þar sem maturinn var æði. Kalkúnn með meðlæti er uppáhaldsmaturinn minn og ég fæ þann mat bara tvisvar á ári, þannig að það var synd að ég var svona slappur. En allavegana, þessar umræður, sem við dettum alltaf í í klúbbnum snúast rosalega oft um byggðamál á höfuðborgarsvæðinu, nokkurs konar togstreita milli miðbæjarins og Kópavogs. Ég ætla að skrifa aðeins um þetta hér á síðunni þegar ég nenni.

Núna eftir 45 mínútur er það Liverpool Arsenal. Tveir vinir ætla að kíkja í heimsókn og ég vona geðheilsu minnar vegna að Liverpool vinni!

Spurning?

Ferðin til Danmerkur var fín. Við eyddum mestum tímanum í smábæ um klukkutíma frá Kaupmannahöfn. Við höfðum líka smá lausan tíma í Kaupmannahöfn. Ég heimsótti systur mína og fjölskyldu hennar, en þau búa í útjaðri Kaupmannahafnar. Tapaði m.a. 15 sinnum fyrir litla frænda mínum í Mario Kart.

Svo labbaði ég um Strikið, verslaði eitthvað og fór svo í þunglyndi þegar ég sá að Liverpool hafði tapað og Luis Garcia væri meiddur.

En tilefni þessarar færslu var ekki ferðasaga, enda er ferðasagan frekar ónýt. Nei, spurning mín er þessi:

”Er hægt að taka mark á fólki, sem finnst Britney Spears ekki sæt?”

Un, dos, tres, CATORCE!

Helgin…

Þetta er búin að vera frábær helgi. Á föstudaginn héldum við tveggja ára afmæli Serrano á Pravda. Við héldum aldrei opnunarpartý og ekki heldur uppá eins árs afmælið og því bættum við úr því á föstudaginn.

Allavegana, við buðum fulltaf fólki, starfsmönnum, vinum og fjölskyldum og þetta var meiriháttar. Í gær fór ég svo með vini mínum á jólakynningu Skífunnar, þar sem m.a. Quarashi spiluðu. Þar var gríðarlegt magn af áfengi og nýttum við okkur það til hins ítrasta. Þegar partíið var búið fórum við tveir niðrí bæ. Fórum fyrst á Bar Bianco. Sá staður er snilld! Síðan kíktum við yfir á Hverfisbarinn. Frábært kvöld.

Ótrúlegt en satt, tvö æðisleg djömm á einni helgi. Hef sjaldan skemmt mér jafnvel á djamminu og um þessa helgi.


[Þessi slagsmál](http://establishedboard.com/brawl/brawl.html) eru svakaleg. Fyrrverandi Chicago leikmaðurinn (og sækóinn) Ron Artest stekkur uppí stúku og lemur áhorfendur. Ótrúlega magnað!


Ég er á leiðinni til Köben á eftir. Við erum tveir að fara í heimsókn til Haribo, sem er nálægt Kaupmannahöfn. Verðum þar fram á miðvikudag og höfum m.a. smá lausan tíma, sem ég ætla að nýta til að hitta systur mína og fjölskyldu hennar, sem býr í Köben.

Hausverkur

Ég er á því að byrjunin á “[This is my truth, tell me yours](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B00000J5ZX/qid=1100294444/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl15/104-9763278-7189558?v=glance&s=music&n=507846)” sé flottasta byrjun á rokkplötu í sögunni. Tvö fyrstu lögin (The Everlasting og If you tolerate this) myndu bæði komast á topp 20 yfir mín uppáhaldslög. Þvílík snilld. Reyndar er ég tengdur svo sterkum tengslum þessum lögum að þau minna mig alltaf á sömu staðina og sömu hlutina.

Allavegana, ég er veikur og búinn að vera það í allan dag. Það skýrir kannski þennan pirring, sem ég hef verið með alla vikuna. En er búinn að vera með hausverk í allan dag. Er að reyna að telja mér trú um að þetta verði allt farið á morgun. Þoli ekki hausverk. Hann hefur í för með sér allsherjarþunglyndi og mér finnst allt ómögulegt. Úff úfff.

Ég HATA SNJÓ!

Eruð þið ekki að grínast með þetta veður?

Ég get ekki annað en tárast þegar ég hugsa til þess að þessi mynd var tekin fyrir minna en tveim mánuðum.

Ef ég þarf að skafa bílinn minn í fyrramálið þá tapa ég mér. Ég er búinn að vera ferlega pirraður í vinnunni alla vikuna og þetta er ekki til að bæta ástandið. Mikið er ég samt glaður að það er allavegana að koma föstudagur…

Take me home…

Manchester ferðin var bara helvíti fín. Ég var þarna með hópi af fólki frá Íslandi, sem Skjár Einn hafði boðið. Við djömmuðum tvisvar, á laugardaginn á [þessum stað](http://www.tigertiger-manch.co.uk/) og svo aftur á sunnudagskvöldið.

Já, og fórum auðvitað á Old Trafford og [rek ég á Liverpool blogginu söguna af leiknum](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/11/09/19.46.12). Þar er líka nokkrar myndir, þar á meðal tvær hræðilegar myndir af mér. Allavegana, þrátt fyrir að þetta hafi nú verið Old Trafford þá var þetta rosalega skemmtilegt. Núna er auðvitað stefnan að fara næst á Anfield.


Það er ekkert eðlilega erfitt að skilja Manchester búa. Á seinna djamminu lenti ég á spjalli við stelpu frá borginni og þurfti hún að endurtaka allar setningar að minnsta kosti þrisvar til að ég gæti skilið hana.

Eigandi World Class var með í ferðinni og kom ég á framfæri umkvörtunarefni mínu varðandi þá stöð. Það er að það væri ekki nógu mikið af sætum stelpum á aldrinum 17-27 ára í hádeginu.


Mikið svakalega er mikill munur á kvenfólki á Íslandi og Englandi. Strax þegar ég kom aftur uppí flugvél eftir að hafa djammað tvo daga á Bretlandi gat ég ekki annað en glaðst yfir því að vera Íslendingur.


Samkvæmt auglýsingu frá Íslandsbanka er ég 100% manneskja. Það er náttúrulega frábært!