Viðbjóður!

Sé að siðustu 8 færslur hafa fjallað um bandarísk stjórnmál. Ég er enn fúll yfir þessum úrslitum, en nenni ekki að skrifa um þau í bili.

Annars á kosninganóttina þá fór ég á kosningavöku í boði bandaríska sendiráðsins í Listasafni Reykjavíkur. Jens hafði reddað okkur Emil á boðslistann þar. Það partí var svosem fínt. Budweiser bjór og pizzur í boði, svo ég var alsæll.

Þar sem ég var með útlending í heimsókn í vinnunni og hafði ekki komist heim á milli, þá mætti ég á staðinn einsog besti SUS-ari *í jakkafötum*. Við entumst þó ekkert voðalega lengi þarna. Magnaða við þetta allt var þó að það var *fullt* af sætum stelpum þarna. Hvern hefði grunað?


Annars er ég að fara til útlanda á laugardaginn. Fer til Manchester í boði S1, þar sem ég mun horfa á viðbjóðinn frá Manchester spila við Manchester City á Old Trafford. Verð þarna í þrjá daga. Ljómandi skemmtilegt alveg hreint. Sjá nánar um þessa ferð [hér](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/11/04/22.14.07/)


Annars fékk ég email frá góðum bandarískum vini mínum í dag. Það var stutt og laggott: “there goes any possibility of convincing anyone that Americans aren’t selfish, ignorant fucks. what’s the reaction there like?”

Jammm…

Hárið mitt, Dylan og Justin

Hólí fokking kreisí krapp hvað Blonde on Blonde er fáránlega góð plata. Þetta er ekki fokking hægt. Ok, ég er búinn að þylja þetta upp áður, en hvernig gat ég ekki uppgötvað Bob Dylan öll þessi ár. Undanfarið hef ég tekið algjört kast á Sad Eyed Lady of the Lowlands og hlustað á það áður en ég fer að sofa í nokkrar vikur. Núna er það Sooner or Later (rokk og ról, sko)… og I Want You er svoooooo mikið æði. Þetta er ekki hægt. Ég er farinn að halda meira uppá það en I Want You með Elvis Costello. Í alvöru talað.

Ég er að reyna að rifja það upp hvernig það var þegar ég uppgötvaði Bítlana fyrst. Jú, það var æði, en samt ekki jafn rosalegt og þessir síðustu “Bob Dylan uppgötvunarmánuðir” hafa verið.

Það magnaða við þetta er að ég hef hlustað nánast non-stop á Bob Dylan undanfarnar vikur (með einstaka undantekningum einsog Quarashi og Streets), en samt er ég ekki kominn með ógeð á einu einasta lagi og ekki einni einustu plötu. Í raun er ég bara almennilega búinn að hlusta á Blonde on Blonde og Blood on the Tracks. Hinum er ég búinn að renna svona 2-10 sinnum í gegn, en hef ekki hlustað þær í tætlur einsog þessar tvær. Hann er búinn að gefa út svo ótrúlegt magn af góðu efni.

Þvílíkur snillingur!


Ég fór í klippingu um síðustu helgi. Það eru auðvitað stórtíðindi á þessari síðu, enda þykir fólki fátt skemmtilegra en að lesa skrif um hárið mitt.

Sko, ég er með frekar krullað hár, sem virðist í einhverju alheimssamsæri verða krullaðara með hverju árinu. Allavegana, þegar ég teygði úr toppnum í síðustu viku, þá náði hann niðrá miðjan kinn og ákvað ég að það væri nógu sítt. Ég hélt því einu sinni fram að ég gæti alltaf lýst hárgreiðslunni minni með að vitna til einhvers Liverpool leikmanns. Það má í raun segja að ég hafi verið orðinn hálfger McMannaman og ákvað því að fara í klippingu.

Ég settist því í stólinn og sagði, “ég er búinn að fá nóg, taktu slatta af”. Ég var nefnilega búinn að fá mig fullsaddan af þessu. Ef það er eitthvað, sem fer í taugarnar á mér, þá er það að hafa áhyggjur af hárinu. “Bíddu, er í lagi með hárið á mér núna? Er það ekki allt í einhverju rugli?” Ég vil bara greiða mér og hafa svo ekki frekari áhyggjur það kvöldið.

Ég fattaði líka að þessar krullur í hárinu gerðu útum vonir mínar um ákveðna greiðslu. Ég var nefnilega að safna hárinu með ákveðið í huga. Þegar ég var kominn með rétta sídd, þá liðaðist allt hárið til andskotans og allt fór í fokk. Þannig að ég ákvað að færa síddina aftur í tímann. Er eiginlega núna kominn með frekar stutt hár, svona [hálfum sentimeter styttra en það er á þessari mynd, sem var tekin fyrir mánuði](https://www.eoe.is/gamalt/jasv.jpg).

En allavegana, fíla hárið á mér núna. Það versta við þetta er að gellan á stofunni klippti heilmikið af hári að aftan. Málið er nefnilega að ég og tveir vinir mínir stofnuðum “með sítt að aftan” klúbb fyrir nokkrum mánuðum. Var það takmarkið að vera með sem síðast að aftan. Einn vinur okkar (sem ég ætla ekki að nefna á nafn, en við getum kallað hann PR) klikkaði eftir einhverjar vikur, en við hinir tveir héldum út ansi lengi. Eigilega alveg þangað til um síðustu helgi. Ég er ennþá með svona 3-4 sentimetra að aftan, en ég er ekki viss hvort það sé nóg til að tolla í klúbbnum.


Bara ein spurning að lokum: Ef ég brýt saman þvottinn minn á meðan að ég hlusta á Justin Timberlake, er ég þá gay? Ætti ég kannski ekki að spyrja svona spurninga? 🙂

Kjúklingagötu- samlokudraumur

Ja hérna, ég er farinn að birtast [í draumum annarra](http://www.katrin.is/?nid=4748).


Athyglisverð [grein á Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1416&gerd=Frettir&arg=5). Er mjög sammála punktinum um að það sé ósmekklegt hjá þessum Íslendingum að gera grín að árásinnu, þar sem þar dóu nokkrir aðilar.


Það er fyndið hversu fólk getur sagt mikið á bloggi án þess að segja í raun neitt. Til dæmis er ég alltaf að skoða blogg hjá stelpu, sem ég er enn ekki búinn að fatta hvort sé á lausu. 90% færslna virðast gefa það til kynna, en svo koma alltaf geðveikt ruglinslegar færslur, sem rugla mann í ríminu. Það er magnað að geta skrifað jafnmargar færslur án þess að maður fái á tilfinninguna hvort fólk sé á lausu eður ei.

Jamm, þetta er erfitt líf.


Til að bæta aðeins við veitingahúsarýnina, þá mæli ég með cajun bbq samlokunni á Vegamótum.


Já, og svo mæli ég með þessu [ljómandi skemmtilega myndbandi](http://www.hugi.is/hahradi/bigboxes.php?box_id=51208&f_id=1063)

Fótbolti, tónlist og vinna

Liverpool Bloggið: [Eins og rottur á sökkvandi skipi…](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/10/29/19.11.21/)

Okkar álit á Chelsea og Adrian Mutu.


Þessi vika er búin að vera hreinasta geðveiki. Vinnan hefur engan enda tekið. Það var því ótrúlega mögnuð þegar ég var að fara útúr vinnunni um 6 leytið í dag að sjá tómt skrifborð. Ég var búinn að klára mín mál, get byrjað nýja viku með hreint borð. Mikið er það þægileg tilfinning eftir alla geðveikina.

Ætli ég sinni ekki [hinni vinnuni](http://www.serrano.is/) um helgina.


Keypti mér nýju Quarashi plötuna í vikunni og AUÐVITAÐ er hún snilld. Hún er búin að halda mér á floti í líkamsræktinni síðustu daga.

Payback er besta rokklag, sem þeir hafa gert, Stars, Dead Man Walking og Stun Gun eru öll fáránlega grípandi og það má reyndar sama segja um Straigt Jacket. Fokk, öll lögin eru snilld. Þetta er snillingar. Snillingar! Tiny er frábær. Hann er kannski enginn texta snillingur einsog Eminem, en flæðið er nánast jafngott og hjá Eminem og það er magnað. Hann smellpassar inní bandið.

En ég mæli semsagt með Guerilla Disco fyrir alla. Það er hreinlega ekki hægt að finnast platan ekki skemmtileg. Ég bara trúi því ekki.

Veitingahúsarýni Einars

Þar sem að eldhúsið er að komast í lag og ég eldaði mínu fyrstu máltíð í langan tíma í kvöld, þá er ekki úr vegi að gera upp veitingastaðaflakk mitt á síðustu 3 vikum.

Ég er kannski að fara útá hálan ís, þar sem ég á sjálfur veitingastað en so be it. Tel mig vera ágætlega hæfan til að segja álit mitt á veitingastöðum, þrátt fyrir hagsmunatengsl 🙂

**Indókína**: Helvíti góður matur. Pantaði mér karrí eitthvað og núðlur. Núðlurnar voru sirka 300 sinnum betri en á Nings. Mæli með því

**Shalimar**: Ágætu indverskur matur, en samt ekki nógu gott. Eitthvað ódýrara en Austurlandahraðlestin, en verðmunurinn er ekki nógur til að vega upp gæðamuninn.

**Austurlandahraðlestin:** Æði. Rosalega dýrt, en það breytir litlu. Eina pirrandi er að það er ekki heimsending.

**McDonald’s**: Ég elska McDonald’s, en nýja Caprice samlokan er djók. Fáránlega lítil og ekki góð á bragðið. Svei mér þá ef þetta er ekki eini vondi rétturinn á McDonald’s, fyrir utan fiskborgara.

**Eldsmiðjan**: Pollo Loco pizzan er æði. ÆÐI! Besta pizza á Íslandi.

**Krua Thai**: Uppgötvun síðustu vikna. Fór þarna á leiðinni heim úr vinnu og keypti tvo rétti, sem ég man ekki nafnið á, en þeir voru báðir snilld.

**Pret-A-Manger**: Tók með mér samloku af Heathrow og ætlaði að borða í flugvélinni, en endaði á því að borða hana hérna heima, þannig að það telur með. Frábærar samlokur

**Quizno’s**: Fór þangað í fyrsta skipti í 3 ár. Umtalsvert betra en í minningunni. Bestu skyndibita samlokur á Íslandi, segi ég og skrifa.

**Salatbar 10-11**: Borðaðið þarna 4-5 sinnum. Fínt. Prófaði einnig nýjar Júmbó samlokur, sem voru góðar.

**Subway**: Veit ekki almennilega af hverju ég dýrkaði einu sinni Subway. Jú, þetta eru ágætis samlokur, en samt ekkert stórkostlegt. Kannski fékk ég bara leið. Allavegana, finnst Quizno’s núna betra.

**Serrano**: Ókeypis matur, sem er alltaf plús. Einhvern veginn þá fæ ég ekki leið á matnum á Serrano. Fyrir utan utanlandsferðir hafa aldrei liðið meira en 3 dagar á milli máltíða minna á Serrano. Alltaf jafngott 🙂

**Apótekið**: Frábær staður. Fékk lax og kálfakjöt. Snilld.

**Vox á Nordica**: Snilld. Með betri máltíðum, sem ég hef fengið á Íslandi.

Þannig er nún það. Fyrir þá, sem hafa ekki prófað þá, þá mæli ég með Hraðlestinni og Krua Thai.


Ágætis ástæða [til að kjósa John Kerry](http://www.ivillage.com/ivillage/election2004/pages/0,,613975_632829,00.html?arrivalSA=1&cobrandRef=0&arrival_freqCap=2):

>Favorite movie of the past year: Old School

[Old School](http://www.imdb.com/title/tt0302886/) er ekkert eðlilega fyndin mynd.


Skjár Einn er í ónáð hjá mér, þar sem þeir hafa þrjár vikur í röð lofað nýjum Queer Eye en svo sýnt gamla þætti. Legg til að við förum í kröfugöngu útaf þessu hræðilega óréttlæti.

Sjö tannburstar og sex rakvélar

O.C. er snilldarþáttur.


Þessi helgi var frekar róleg. Fór í afmæli hjá vinkonu minni og þaðan á Vegamót. Samt, frekar edrú þar sem ég þurfti að vinna daginn eftir. Vakti langt fram eftir á laugardeginum til að horfa á Boston Red Sox vinna viðbjóðinn frá St. Louis í úrslitum hafnaboltans. Staðan er núna 2-0 fyrir Boston.


Fékk einhverja flensu í gær og ákvað að taka til á baðinu. Hreinsaði úr öllum skápum í fyrsta skipti eftir að ég flutti inn. Hvað fann ég svo í baðherbergisskápunum, sem mér hefur einum tekist að fylla á þessum tveim árum, sem ég hef búið hérna í Vesturbænum? Jú:

  • 30 Evrur
  • 7 (SJÖ) tannbursta fyrir utan rafmagnstannburstann, sem ég nota alltaf
  • 6 (SEX!!!) Gillette rakvélar. Ég nota bara þá nýjustu.
  • 8 tegundir af rakspíra og ilmvötnum.
  • 5 tannkremstúbur

Hvað í andskotanum ég er að gera við allt þetta drasl er ofar mínum skilningi. Til dæmis hef ég varla þann skeggvöxt að ég þurfi 6 mismunandi rakvélar til að halda honum niðri. Ekki það að ég vilji ræða skeggvöxt minnn ítarlega, en ég get þó sagt að ég hef ávallt verið þakklátur fyrir þá staðreynd að alskegg er ekki í tísku.


Borðaði á Apótekinu í gær með útlending. Ji hvað ég elska Apótekið. Án efa uppáhalds veitingastaður minn á Íslandi fyrir utan alla mexíkóska skyndibitastaði í Kringlunni.

Bleeeeeh!

Kominn heim frá París. Nú er sú trú mín bjargföst að Charles De Gaulle flugvöllur í París sé sá lélegasti í heimi. Í öðru sæti er Heathrow vegna þess að það er furðu þreytandi að fljúga í hringi yfir Lundúnum.

Annars var þetta tíðindalítið. Vorum á flugvallarhóteli og vorum því algjörlega einangraðir. Fórum bara á sýningu og borðuðum svo og drukkum á hótelinu. Fínt svosem. Gat ekkert farið inní París vegna tímaskorts.


Þessi heimasíða var meira og minna í rugli á meðan ég var í burtu. Það getur verið að einhverjir hafi reynt að kommenta en að þau komment hafi farið fyrir lítið. Sama var uppá tenginnum með Liverpool bloggið, en það ætti að vera komið í lag núna. Þetta var ekki mér að kenna, heldur tölvuköllum, sem voru að fikta við serverinn, sem síðurnar eru hýstar á.


Var að koma úr fótbolta, þar sem ég næstum því rotaðist eftir að hafa fengið helvíti öflugt olbogaskot á ennið. Mikið var það hressandi. Hérna heima er eldhúsinnréttingin komin upp. Það þýðir að brátt fara veitingastaðir Reykjavíkur að taka eftir minnkandi tekjum þegar ég byrja að elda í mínu nýja og glæsilega eldhúsi.

Er að reyna að gera það upp við mig hvort ég eigi að vaka í kvöld og horfa á Red Sox reyna að knýja fram leik 7 gegn hinu illa veldi New York Yankees. Ef þeir tapa ætla ég að löðrunga alla, sem ég sé með New York Yankees húfu á morgun.

**Uppfært**: Red Sox unnu. Fólki með Yankees húfur er óhætt, að minnsta kosti í dag.

Laugardagskvöld með Einari Erni…

Voðalega er það huggó að vera svona heima á laugardagskvöldi, hlusta á Dylan og taka til.

Er að fara út til Parísar fáránlega snemma á morgun í rómantíska helgarferð með ofurmódeli vinnuferð. Verð þarna í þrjá daga á flugvellinum og þar í kring. Fer því ekkert inní borg.

Það verður í annað skiptið, sem ég hef komið til Parísar án þess að gera nokkurn skapaðan hlut í sjálfri borginni. Er ekki hvort eð er ósköp lítið að gera þar? 🙂


Einsog ég hef oft sagt áður, þá er [John Stewart snillingur](http://junk.haughey.com/Crossfire-John_Stewart.wmv) (35mb myndband – skylda fyrir alla, sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum)


Ef þið eruð ekki nú þegar hrædd við ríkisstjórn Bandaríkjanna, þá ætti [þessi grein í New York Times](http://www.nytimes.com/2004/10/17/magazine/17BUSH.html?oref=login&oref=login&pagewanted=all&position) að hjálpa. Mæli sterklega með henni.


Já, og fyrir ykkur, sem vissuð ekki þá er [Osama í Kína](http://www.informationclearinghouse.info/article7077.htm)

Kappræður & djamm

Kláraði að horfa á Bush-Kerry kappræðurnar. Bush var umtalsvert betri en í fyrra skiptið, en að mínu áliti vann Kerry þetta aftur nokkuð örugglega. Bush var á tíðum pirraður og reyndi ítrekað að vera fyndinn, sem virkaði ekki alveg.

Gunni vinur minn benti á að Bush hefði virkilega vantað trommuleikara með sér. Þannig að í hvert skipti, sem hann reyndi að vera fyndinn hefði komið: “Da dam Tjissss”. Hann sagði alltaf brandarann og beið svo eftir að einhver myndi hlægja. Mjög fáir hlógu að bröndurunum, en þeir hefðu kannski virkað betur með trommunum.


Annars fór ég í gærkvöldi með vinum mínum útað borða og svo á Hverfisbarinn. Mjög skemmtilegt kvöld. Talaði við fullt af skemmtilegu fólki, þar á meðal [Soffíu](http://www.voffvoff.blogspot.com), sem ég hafði aldrei hitt áður og [Óla](http://www.obalogy.com/), sem ég held að ég hitti í hvert skipti, sem ég fer á Hverfis. Ég fékk mér nokkra bjóra í fyrsta skipti í langan tíma og fann aðeins á mér, en ekki alvarlega. Að lokum vil ég enn endurtaka þá kröfu mína um að stelpur á föstu verði sérstaklega [merktar](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/index.php) á íslenskum skemmtistöðum. Það væri mun þægilegra að fá að vita það fyrirfram í stað þess að það komi fram í [miðri setningu](https://www.eoe.is/gamalt/2003/08/15/23.07.50/index.php). Myndi án efa spara tíma og fyrirhöfn.

Nöldur og Leh-Nerd Skin-Nerd

Þýðendur á RÚV eru margir hverjir snillingar. Til dæmis var þátturinn af “That 70s Show” áðan stórskemmtilegur.

Til að byrja með var orðið **”Burrito”**, sem ég þekki ágætlega, þýtt sem **”Hlöllabátur”!!!** Og nei, ég er ekki að grínast.

Einnig var setningin “Chap stick is not lipstick” þýtt sem **”Prjónn er ekki varalitur”**. Ætli þýðandinn hafi lesið yfir þessa þýðingu? Chap stick þýðir auðvitað varasalvi. “Chop Sticks” eru hins vegar prjónar notaðir til að borða mat.

Þetta var nöldur dagsins.


Mjög gott kvöld framundan. Hvað er betra til að koma sér í stuð en að hlusta á Lynyrd Skynyrd? Ég veit það ekki. Mæli með “I ain’t the One” af [Pronounced Leh-Nerd Skin-Nerd](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B00005RIKI/qid=1097350035/sr=8-1/ref=sr_8__i1_xgl15/102-9937534-5255347?v=glance&s=music&n=507846), algjör snilld. Rokk gerist ekki mikið betra. I ain’t the One og Simple Man eru bæði stórkostleg lög og svo líka lokalagið. Hvað heitir það aftur? Já, [Freeee Bird](https://www.eoe.is/myndir/NewOrleans/source/zmyndir22.html)!

Er að klára að horfa á kappræður Bush og Kerry áður en ég fer út. Bush átti m.a. eitt snilldarkvót:

>There’s rumors on the internet**s**

Jammm, Bush er snillingur. Meira um þetta síðar.


Boston RedSox eru [komnir áfram](http://www.mlb.com/NASApp/mlb/bos/news/bos_gameday_recap.jsp?ymd=20041008&content_id=887527&vkey=recap&fext=.jsp) í bandaríska hafnaboltanum. Það er gott mál, enda eru þeir nú mitt lið eftir að Cubs duttu úr leik. Vonandi komast Yankees líka áfram, svo Boston geti unnið þá líka. Þá verða margar andvökunætur framundan hjá mér…