Endasprettur

Þá er ég búinn í þremur prófum af fjórum. Vaknaði klukkan fimm í morgun til að renna yfir 15 blaðsíður af fjármála/stærðfærði formúlum. Tók síðan stærðfræðiprófið klukkan 9. Eftir próf kláraði ég svo félagsfræðiritgerðina mína um Procter & Gamble. Þér, lesandi góður, finnst kannski ekki gaman að lesa um próflestur minn… mér finnst líka ekki heldur gaman að læra stærðfræðisannanir, þannig að við erum jafnir.

Ég er svo búinn að vera að vesenast í ýmsu dóti. Fór m.a. og sótti um bílastæðaleyfi fyrir næsta ár. Nokkuð gaman að miðinn, sem er í framrúðinni hefur breyst. Áður var á miðanum teikning af lítilli götu hér í borg, en núna er í staðinn kominn bandaríski fáninn og frasinn “united in liberty – city of Evanston”. Menn þreytast seint á þessum fána.

Annars er það bara hagfræðipróf á fimmtudag (Industrial Organizations) og þá er ég búinn.

Ísland

Það er nokkuð skrítið að það eru ekki nema fimm dagar þangað til að við Hildur förum heim. Við höfum verið hérna alveg síðan annan janúar. Ég hef lítið verið heima á Íslandi síðustu ár, en samt hef ég bara einu sinni áður verið svona lengi erlendis í einu.

Síðasta vikan hérna verður strembin. Ég er að fara í próf á mánudag, þriðjudag og fimmtudag, auk þess, sem ég á eftir að skila inn félagsfræðiritgerð. Síðasta prófið, sem er hagfræði er búið á fimmtudag klukkan 11. Þrem tímum síðar eigum við svo flug til Boston, þaðan sem við eigum flug til Keflavíkur.

Allavegnaa, þá er okkur farið að hlakka til að koma heim um jólin. Hildur ætlar að sofa og verlsla í fríinu, en ég verð sennilega að vinna eitthvað í vefmálum. Samt ætla ég að vinna minna heldur en um síðustu jól, en þá vann ég alla dagana frá 8-10 um kvöldið.

Dýrt kaffi?

Ágúst hrósar nemendafélaginu í HR fyrir að lækkar verð á kaffi niður í 50 krónur.

Það er augljóst að við Northwestern nemendur lifum ekki við slíkan lúxus. Kaffið í Norris stúdentamiðstöðinni (Seattle’s Best) kostar 160 krónur.

Annars legg ég til að fólk hætti að birta niðurstöður úr prófum, sem það var að taka á netinu.

Klipping og fleira

Ég komst því miður ekki að sjá vitleysinginn Pat Buchanan tala á þriðjudag. Um 300 manns komust ekki inn, svo vinsæll var hann. Ég eyddi því kvöldinu bara í að lesa meira um leikjafræði (nánar tiltekið uppboðsfræði).

Það var fjallað um Buchanan í Northwestern dagblaðinu í gær. Greinarhöfundur segir að Buchanan hafi endað með smá sögu um hlutverk hans í forsetakosningunum 2000. Buchanan segist fyrir kosningar hafa beðið til Guðs um að framboð hans yrði ekki til þess að Al Gore yrði kosinn forseti. Buchanan sagði:

“God said to me, I’m going to have Jews and Blacks go out to the polls and think they’ve voted for Al Gore and they’ll vote for you. But Pat, don’t ever try a stunt like this again.”

Ég fór í klippingu í dag. Sá sem klippti mig var karlmaður, um sextugt, með hvítt, sítt, krullað hár. Mér leist ekkert á hann til að byrja með, en hann stóð sig bara ágætlega.

Hiti

Hver hefði trúað þvi? Það er 22 stiga hiti í miðjum nóvember í Chicago.

Ég fer sko á stuttermabol í skólann í dag.

GWU

Eftir að Björgvin var að tala um George Washington fótboltaliðið fór ég og skoðaði síðuna þeirra, sem hefur tekið miklum framförum frá því að ég kíkti síðast.

Þar er m.a. stutt lýsing á varnarjaxlinum Friðrik Ómarssyni. Í stuttu æviágripi á síðunni kemur fram eftirfarandi:

AT GW: A strong left-footed player…can play outside midfielder or defender…provides attacking speed down the flank..scored first collegiate goal against Georgetown (9/4/00)
PERSONAL: Born April 14, 1977 in Reykjavik, Iceland…son of Omar and Aslaug Omarsson…has one brother, Thorunn (29) and a sister, Elisabet (17)…international business major.

Ég er nú búinn að þekkja Friðrik lengi og ég er nokkuð viss um að hann eigi engan bróður.

Ég er líka nokkuð viss um að mamma hans Friðriks heitir ekki Áslaug Omarsson.

Merkilegar myndir

Ég ætla einhvern tímann að setja inn fullt af myndum frá hinum ýmsu ferðalögum mínum, hérna inná síðuna.

Í gær var ég eitthvað að fara í gegnum gamlar skrár á harða disknum mínum og þá rakst ég á þessa mynd, sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum frá Suður-Ameríku ferðinni. Þarna á myndinni eru Sölvi Blöndal, Borgþór Grétarsson, Emil H. og (fyrir aftan Emil) Friðrik Ó.

AArrrrrrrggggggggghhhhhhh!!!!!!!!!!!

Bíllinn var dreginn í morgun. Ég hafði lagt honum í götunni minni í gær en í morgun var verið að þrífa götuna, svo hann var dreginn í burt. Tekið skal fram að í gær voru ENGAR viðvaranir á götunni um það að það ætti að fara að hreinsa hana.

Ég er svo reiður að ég gæti öskrað. Reyndar er ég búinn að öskra. Svo að Hildur þurfi ekki að þola fleiri öskur, þá ætla ég að öskra á netinu: DJÖFULL OG DAUÐI!!!!!!!!!!!!

Ah, nú líður mér aðeins betur.

Það kostar einmitt 110 dollara að fá bílinn aftur. Ég verð brjálaður að hugsa um hversu skemmtilegra væri að nota 110 dollara í eitthvað annað.

Síðasta helgi – Purdue football

Ætli það sé ekki merki um að maður hafi haft mikið að gera undanfarið að ég sé að skrifa um síðustu helgi á fimmtudegi. Ég var að klára tvö miðsvetrarpróf í þessari viku og nú ætti að vera frekar rólegt í skólanum næstu viku.

Allavegana, þá fór ég á föstudaginn með Dan vini mínum, Becky og Elizabeth vinkonum mínum til Lafayette í Indiana. Við keyrðum þangað, um þriggja tíma leið, á bílnum hans Dan, sem er ’85 árgerð af Volvo, sem er keyrður meira en 300.000 kílómetra. Í Lafayette gistum við hjá frænku Elizabeth. Ástæðan fyrir þessari ferð okkar var sú að í Lafayette er einmitt Purdue háskóli og Northwestern fótboltaliðið (amerískur fótbolti) var að spila við Purdue.

Við komum til Lafayette um 8 leytið og fórum út að borða og kíktum svo aðeins á campusinn og niður í miðbæ. Við vorum þó ekkert að djamma, því að morguninn eftir vöknuðum við klukkan hálf níu og frænka Elizabeth keyrði okkur út á völl. Þar á bílastæðunum eru svo allir mættir snemma að bandarískum sið fyrir það, sem þeir kalla “tailgating”. Það hittast allir útá bílastæðum, setja þar upp grill og borð og stóla og eru með alls konar mat (og alls konar bjór). Við vorum þarna með frænku Elizabeth og vinum hennar (flest á fimmtugsaldri). Þau buðu uppá allavegana 10 tegundir af snakki, samlokum, hamborgurum og ég veit ekki hvað. Við byrjuðum á að fá okkur kaffi og baily’s og svo bjór og samlokur. Eftir að hafa borðað þarna stanslaust í tvo tíma fórum við svo inná völlinn.

Völlurinn tekur um 70.000 manns og var hann troðfullur. Frænka Elizabeth gaf okkur miða og vorum við Dan í fjórðu röð, á meðal hörðustu Purdue stuðningsmannana. Þetta var ekkert smá gaman. Við náttúrulega reyndum að vera eins háværir og við gátum þegar Northwestern skoruðu og veifuðum Northwestern fánanum okkar. Því miður töpuðu Northwestern leiknum naumlega eftir nokkur aulamistök í síðasta leikhlutanum (Purdue er einn af allra sterkustu skólunum). Purdue aðdáendurnir höfðu líka einstaklega gaman af því að gera grína að okkur þegar að Purdue voru yfir.

Svo eftir leikinn var aftur haldið útá bílastæði, þar sem maður borðaði meira en við keyrðum svo aftur til Chicago um kvöldið.