Egyptalandsferð 1: Kaíró

Það eru ansi margir búnir að vara okkur við Kaíró. Við menguninni, umferðinni, öllu fólkinu, skítnum, hávaðanum og öllum köllunum, sem myndu klípa Margréti.

Eflaust er ég ansi mörgu vanur af ferðalögum, en eftir þessa tvo fyrstu daga þá finnst mér Kaíró alls ekki slæm. Í raun er ég mjög skotinn í þessari borg. Vissulega er skíturinn og mengunin mikil, en öll geðveikin er líka ótrúlega heillandi. Kaíró er 11.stærsta borg í heimi með um 18 milljón íbúa, þó að margir segji að hér búi mun fleiri. Hún er langstærsta borgin í Afríku (Lagos í Nígeríu er næst stærst með um helmingi færri íbúa) og hún er sögð vera ein sú versta í heimi þegar að kemur að mengun.

Ég hef lengi verið spenntur fyrir Kaíró. Að ég held alveg frá því þegar að ég sá Raiders of the Lost Ark þar sem að Sallah, vinur Indiana Jones, sýnir honum Kaíró. Þá var Kaíró sennilega meira heillandi en í dag. Í dag er hún á margan hátt lík þeim risaborgum sem ég hef farið til utan Evrópu og Ameríku – yfirfull af fólki og bílum. Bílarnir keyra um á bensíni með blýi í og því er mengunin slæm, auk þess sem umferðin er líka hálf geðveik og ekki ólíkt asískum stórborgum þá byrjar maður á því að labba yfir götu og vonast til að bílarnir stoppi í stað þess að bíða eftir því að gat myndist í umferðinni. Slíkt gerist aldrei.

En borgin er líka gríðarlega heillandi, full af ótrúlegu lífi. Við höfum verið boðin velkomin til Egyptalands sirka 150 sinnum síðan að við komum hingað, í lang, langflestum tilfellum af fólki sem hafði engan áhuga á að selja okkur neitt. Það er erfitt að verða ekki hrifinn af borg þegar að íbúarnir eru jafn gestrisnir.

* * *

Við komum hérna til Kaíró seint á föstudagsnótt eftir flug frá Stokkhólmi (via Amsterdam). Við höfðum skipulagt pick-up frá hótelinu því mér leiðist fátt meira en að díla við leiguílstjóra á flugvöllum í nýjum löndum.

Fyrstu tveim dögunum hérna höfum við eytt á labbi um borgina og í að skoða Egypska safnið.

Í gær eyddum við deginum á labbi um miðbæinn og yfir í íslamska hluta borgarinnar (borgin er jú öll íslömsk fyrir utan smá kristinn hluta en hverfið er samt ennþá kallað þetta). Þetta er ansi langt labb og við erum ekkert voðalega góð í að lesa götuskilti á arabísku, þannig að við villtumst nokkrum sinnum. Inná milli eru götuskilti á ensku líka en það er frekar tilviljanakennt og stundum er götuskiltum bara alveg sleppt. Á þessu labbi frá miðbænum yfir í íslamska hlutann sjást tveir ólíkir hlutar af Kaíró. Allt frá nútímalegum miðbænum yfir í eldgamlar byggingar í íslamska hlutanum. Þar er auðvitað frægust bygginga Al-Azhar moskan, sem í minni upplifun líður fyrir það að jafnast alls ekki á við Umayyad í Damaskus, en hún var byggð í kringum árið 1.000.

Íslamski hluti Kaíró er þó þekktastur fyrir Khan al-Khalili markaðinn, sem hefur verið aðalmarkaður Karíó búa í yfir 600 ár. Þarna er hægt að finna ótrúlegt magn af drasli, en þar er líka sjarmerandi að vera, sérstaklega þegar maður labbar í gegnum kryddhlutana með sterkum lyktum og sér að þetta er ekki bara túristamarkaður, heldur líka markaður þar sem að fólk gerir enn í dag sín innkaup. Við þurftum ekki að labba langt frá Hussein torgi til þess að vera bara meðal innfæddra.

Gærkvöldinu eyddum við svo á egypskum veitingastað þar sem við hlustuðum á fullkomlega óbærilega klassíska egypska tónlist þar sem að fjórir karlmenn með Fez húfur börðu á einhverjar trommur á meðan að gömul kona söng eitthvað lag, sem varla heyrðist útaf trommunum.

* * *

Hápunktur dagsins í dag var svo heimsókn á Egypska safnið. Á því safni er stórkostlegt samansafn af egypskum fornleifum. Það er jú sennilega fáar þjóðir, sem geta státað af jafn ótrúlegu safni af fornleifum og Egyptar. Vissulega er eitthvað af þessum fornleifum í dag á Metropolitan, British Museum eða öðrum evrópskum söfnum, en stærsti hlutinn er þó hér í Kaíró. Safnið er fyrir löngu búið að sprengja utanaf sér húsnæðið og það er í raun með ólíkindum að koma þarna inn og sjá sumum fornmununum nánast staflað uppá hvorn annan. Fornleifar sem í öllum öðrum löndum myndust teljast stórkostlegir eru lítið annað en uppfyllingarefni á Egypska safninu.

Safnið er þekktast fyrir Dauðagrímu Tutankhamun, stórkostlega 11 kílóa gullgrímu, sem fannst í Dali Kónganna. Sá fornleifafundur er einn sá merkasti í veraldarsögunni og góður hluti safnsins inniheldur muni úr þeim uppgreftri og þar frægasta grímu Tutankhamun.

Auk þessa er stórkostlegt safn af munum, sem hafa fundist um Egyptaland á safninu og þar er líka hægt að sjá múmíur kónga sem voru uppi fyrir 3-4.000 árum. Að standa fyrir framan hauskúpur fólks sem var uppi 2.000 árum fyrir Krist er ótrúlegt.

* * *

Auk Egypska safnsins höfum við í dag skoðað Kristna hluta Kaíró, þar sem við skoðuðum kirkjur Kopta. Þetta er svo skrifað á netkaffihúsi (undir bænakallslhljóðum frá moskunni hér við hliðiná) á eyjunni Gezira í Níl á þar sem við höfum labbað um Zamalek hverfið.

Á morgun ætlum við svo að skoða hið eina sem eftir stendur af hinum uppaflegu sjö undrum veraldar, Píramídann Mikla í Giza.

*Skrifað í Kaíró, Egyptalandi klukkan 18.14*

Síðustu dagar + Egyptalandsferð

Þessir síðustu dagar í Stokkhólmi hafa verið frábærir. Ásgeir og Hulda vinir okkar voru hérna í heimsókn um síðustu helgi, sem var frábært. Við borðuðum fáránlega góðan mat, bæði heimalagaðan og á Kungsholmen og Pet Sounds Bar; við fórum á djammið, skoðuðum Stokkhólm í vorveðri, horfðum á Liverpool og ég og Ásgeir spiluðum Fifa. Algjörlega frábær helgi.

Núna er ég á skrifstofunni að klára vinnumál áður en ég fer í páskafrí á morgun. Seinni partinn eigum við Margrét flug frá Stokkhólmi til Amsterdam og svo þaðan til Kaíró. Þar munum við lenda um miðja nótt.

Planið er að vera í Kaíró í fjóra daga, skoða píramídana og borgina. Fara svo í tvo daga til Alexandríu og þaðan til Sharm El-Sheikh þar sem við ætlum að fara uppá Sinai fjall, kafa og njóta lífsins í sólinni. Stokkhólmur er reyndar talsvert meira heillandi núna í sól og vorveðri en borgin var í kuldanum í janúar þegar við pöntuðum ferðina – en ég er samt sem áður að farast úr spennu. Ég hef ekki verið svona spenntur fyrir ferðalagi lengi, þessi vetur hefur verið svo kaldur hérna.

Allavegana, ég mun reyna að blogga eitthvað úr ferðinni einsog vanalega.

Fótbolti

Þessi vetur hefur verið afleitur fyrir mig sem Liverpool aðdáenda. Algjörlega og fullkomlega afleitur. Í gærkvöldi ákvað ég að sleppa Liverpool leik án þess að þurfa þess í annað skipti á leiktíðinni. Í fyrra skiptið sem að það gerðist þá unnu Liverpool Tottenham 2-0 og í gær skoruðu þeir fjögur mörk í 4-1 sigri á Portsmouth. Nú veit ég að gjörðir mínar hafa ekki bein áhrif á gengi liðsins, en maður verður samt pínu hræddur við að horfa á liðið næst.

Ég fór annars í fóbtolta í gær í fyrsta skiptið síðan sennilega í desember 2008. Það er næstum því eitt og hálft ár síðan (fyrir utan örstuttan fótbolta í steggjapartí um áramótin). Ég hef ekki verið í fótbolta síðan að ég flutti hingað út en heima var ég að spila alltaf tvisvar í viku. Það er magnað að taka sér svona langt frí frá þessari íþrótt, sem ég elska. Niðurstaðan frá því í gær var að þessi hvíld hefur ekki gert mér gott. Þrátt fyrir að ég sé í ágætis formi eftir Cross Fit æfingar, þá er hlaupa-spretts formið sem maður þarf fyrir fótbolta ekki svo gott. Og ég virðist líka vera svona sekúndu á eftir öllu, sem skýrist kannski að hluta af því að þetta var á gúmmígólfi, en ekki gervigrasi einsog ég var vanur heima.

Ég held allavegana að það sé ágætt að taka ekki aftur svona langa hvíld aftur frá fótbolta.

Um uppþvottavélar

Í dag sá ég á New York Times grein sem vakti athygli mína, enda hef ég yfirumsjón með uppþvottavélum og þvottavélum á okkar heimili. Einhvern veginn varð verkaskiptingin á heimilinu þannig að ég hef frá byrjun séð um að þvo föt. Þvottahúsið er niðri í kjallara og mér þykir ágætt að dunda mér við þvottinn þar, hlustandi á bækur eða útvarpsþætti.

Ég hef sennilega líka verið virkari í að nota uppþvottavélina. Ég man alltaf að það var fyrsta verk pabba á morgnana að taka úr uppþvottavélinni og ég er kominn inní það hlutverk á mínu heimili líka. Ég furðulega oft átt í umræðum við fólk um það hvernig maður á að undirbúa diska í uppþvottavél. Sumir vilja skola þá gríðarlega vel, þannig að þeir fari nánast hreinir í uppþvottavélina.

Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að diskar eigi að fara skítugir í vélina. Ég man að í Bandaríkjunum sá ég auglýsingu þar sem að kökudiskur með heilli köku á var settur í uppþvottavélina og eftir smá tíma kom kökudiskurinn hreinn út og kakan horfin. Ég held að aldrei hafi auglýsing haft jafn djúpstæð áhrif á mig.

Allavegana, í þessari grein í New York Times er nefnilega nokkuð sem staðfestir að ég hef rétt fyrir mér:

>”Also, remove baked on food and large chunks, but for the most part, everyone I spoke to said prerinsing dishes before putting them in the dishwasher was not only unnecessary, it wasted thousands of gallons of water and could actually result in dirtier dishes.”

Semsagt, þeir sem að hreinsa diskana áður en þeir fara í uppþvottavélina eru að skemma umhverfið **og** fá skítugri diska. Ég lýsi hér með yfir fullnaðarsigri.

Næsta stopp: Egyptaland

Þar sem að ég sit núna heima með kvef, hálsbólgu og slíkt og úti í morgun var 22 stiga frost í Stokkhólmi þá er ekki laust við að manni dreymi um aðeins meiri hita og sumar. Þessi vetur hérna í Stokkhólmi er búinn að vera með eindæmum slæmur, sá verst í 25 ár heyrði ég einhvers staðar.

Það er allavegana ljóst að veturinn er umtalsvert harðari en sá síðasti. En það er vonandi að sumarið bæti þetta upp því við Margrét hyggjumst eyða sumrinu í Svíþjóð og fara ekki í lengri ferðalög einsog við gerðum í fyrra, heldur njóta Stokkhólms og fara kannski í styttri ferðir.

En í janúar þegar ég var um það bil að verða geðveikur á myrkrinu og kuldanum þá ákváðum við að panta okkur ferð til Egyptalands um páskana. Til að byrja með var hugmyndin að fara bara í einhverja pakkaferð á sólarströnd. Svo örvæntingarfullur var ég orðinn eftir sól að mér fannst það vera farið að hljóma einsog góð hugmynd.

En þegar við fórum að spá betur í þessu þá ákváðum við að fara í aðeins metnaðarfyllri ferð. Við munum því yfir páska vera í 10 daga í Egyptalandi. Við byrjum á því að fljúga til Kaíró (via Amsterdam) þar sem við verðum í 4 daga, sem ætti að vera passlegur tími til að sjá Píramídana og allt það helsta í þeirri borg. Þaðan tökum við rútu til Alexandríu þar sem við ætlum að vera í 2 daga og svo munum við enda á 5 dögum í túristabænum Sharm El-Sheikh. Þar er aðalspennan fyrir köfun, enda þykir köfun í Rauða Hafinu þar í kring vera frábær. Einnig er hægt að fara í ferðir uppá Sinai fjall, svo að það er nóg að sjá.

Þetta er planið. Við spáðum í því að reyna að sjá enn meira (Luxor og nágrenni til dæmis) en ákváðum að hafa einhvern tíma á ströndinni líka. Þetta er ágætis blanda af menningu og strönd.

Ef einhverjir hafa punkta um Kaíró og þessa staði sem við nefnum þá væru þeir vel þegnir. Ég hef auðvitað ekki komið til Egyptalands, en ég hef verið ansi aktívur í múslimalöndum að undanförnu (síðustu tvö stóru ferðalög hafa verið til Sýrlands, Jórdaníu, Líbanon, Ísrael og Indónesíu).

Mynd fengin héðan.

Punktablogg

Ég sit hérna uppí stofa inní stofu, fáránlega uppgefinn. Tími fyrir punktablogg.

* Ég er upptekinn af því að ég hef farið tvisvar í CrossFit á 20 tímum. Það var svívirðilega erfitt. Hendurnar á mér virka ekki alveg þar sem ég gerði ansi mikið af æfingum sem krefjast þess að maður hangi (upphýfingar og fleira skemmtilegt.)
* Veðrið úti er ekki skemmtilegt. Ég var að kvarta yfir snjónum í gær, en í nótt varð þetta enn verra því að það bættust við 20-30 cm af snjó. Auk þess er úti sirka 10 stiga frost. Ég er ekki beint æstur í að fara útúr húsi í svona veðri. CrossFitið í morgun hjálpaði líka ekki. Þetta var svo slæmt að í gær þá fór neðanjarðarlestin hérna í eitthvað rugl og ég þurfti að bíða í heilar 5 mínútur á Hötorget til að komast heim úr vinnu. Neðanjarðarlestakerfið hérna í Stokkhólmi er frábært og lestarnar eru ávallt á tíma, þannig að það heyrir til tíðinda þegar að þær ganga ekki á tíma.
* Ég á bestu kærustu í heimi einsog hefur komið fram áður. Hún bauð mér útað borða í gær á Roxy, stað sem liggur rétt hjá Nytorget hér á Södermalm. Það var mjög góður staður og ég borðaði nautasteik í fyrsta skipti í langan, langan tíma. Mikið rosalega getur það verið góður matur. Og mikið rosalega smakkast kaldur bjór vel á föstudegi rétt eftir CrossFit tíma og langa vinnuviku.
* Eftir mat fórum við á Shutter Island. Við vorum frekar ósammála um gæði þeirrar myndar. Mér fannst hún verulega góð, en Margrét var ekki hrifin. Það virtist vera í ágætis samræmi við þá umsögn sem hún fær hjá gagnrýnendum – menn einsog Roger Ebert fíla hana, en hún fær útreið í New York Times. Hún byrjar rosalega vel og fyrsti klukkutíminn er frábær – svo missir hún kannski aðeins flugið, en mér fannst hún góð. Ég mæli með henni þótt hún sé eflaust ekki fyrir alla.

Þetta er gott í bili.

Kvöldverður á Edsbacka Krog

Við Margrét áttum 1,5 árs afmæli í síðasta mánuði.  Af því tilefni borðuðum við á einum albesta veitingastað sem ég hef nokkurn tímann borðað á, Edsbacka Krog í Sollentuna (sjá myndir sem við tókum). Edsbacka Krog er einn af aðeins tveimur veitingastöðum í Svíþjóð sem er með 2 Michelin stjörnur.  Hinn staðurinn er veitingasstaður Mathias Dahlgren í Stokkhólmi (á hinum Norðurlöndunum er einn 2 stjörnu staður í Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Ég hef aðeins einu sinni afrekað að fara á 2 stjörnu Michelin stað og það var Bagatelle í Osló.  Oaxen Krog hérna í Svíþjóð þar sem við fórum síðasta sumar og er talinn vera einn af bestu veitingastöðum heims fær ekki Michelin stjörnu þar sem hann er sveitastaður og Michelin fókuserar á borgir.

Nautakjötið

Allavegana, Edsbacka Krog mun loka í febrúar.  Eigendur staðarins voru búin að fá nóg af rekstrinum og vildu gera eitthvað nýtt.  Það er auðvitað gríðarlegt stress fólgið í því að reka Michelin stað og því ákváðu þeir að loka staðnum og gera eitthvað annað.  Ég las um þetta í nóvember og fannst ég ekki geta sleppt því að borða á þessum stað áður en hann lokaði og ákvað að panta borð fyrir janúar.  Mér tókst að fá borð, sem hafa síðan öll verið upppöntuð síðan í byrjun desember.

Við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast á Edsbacka.  Ég er ekki alltaf ánægður á dýrum veitingastöðum – oft er maturinn tilgerðarlegur, uppfullur af dóti sem ég ekki fíla – og ég er alveg eins líklegur til að elska matinn á götustað í Mexíkó einsog á fínum og dýrum stað.

Margrét með konfektmola

En Edsbacka Krog var frábær upplifun.  Maturinn, þjónustan, allt var frábært. Staðurinn býður í dag bara uppá fastan matseðil – annars vegar 9 rétta og hins vegar 5 rétta, sem að við pöntuðum.  Auk þeirra voru svo bornir fram litlir smakk-réttir á milli mála og svo (ótrúlega gott) brauð.  Svona leit þetta út (nota bene, ég hef aldrei heyrt um hluti sem voru bornir fram í rétt 1 og 3 – ekki von að við höfum ekki fattað hvað það var þegar að sænskur þjónninn sagði okkur frá því – ég fann orðin á orðalista Gestgjafans, sem er snilldarsíða.).

  1. Salat með kjúklingi, vætukarsa og gúrku.
  2. Humarsúpa.
  3. Nautakjöt með lauk, nautasoði og svarthreðku.
  4. Mygluostur með ávaxta- og hnetubrauði og beikon ís.
  5. Brioche, kókos sorbet og grænt te.
  6. Himneskt Konfekt.

Þetta var algjörlega frábært, borið fram með tilheyrandi vínum.  Humarsúpan var kannski það hefðbundnasta á seðlinum, annað mjög frumlegt og ótrúlega gott – sérstaklega nautakjötið.  Meira að segja beikon ísinn var góður.  Það eina sem ég gat ekki borðað voru mygluostarnir, Margrét sá um þá.

Bíðandi eftir strætó fyrir utan staðinn í snjónum.

Að fara út að borða á góðum veitingastað er með því skemmtilegasta sem ég geri, en það gerist ekki oft að maður fari á veitingastaði þar sem að upplifunin öll er svona fullkomin. En svona kvöld eru ógleymanleg.

1 ár

Kærastan mín bendir á að í dag er eitt ár síðan að hún flutti hingað til Svíþjóðar og við byrjuðum í raun að búa saman. Við höfðum jú búið saman í kommúnunni á Njálsgötu með vinum okkar, en hlutirnir breyttust vissulega þegar við byrjuðum að búa saman ein hérna í Stokkhólmi. Þetta er búið að vera frábært ár.

* * *

Byggingarvinnan á staðnum í Sundbyberg gengur mjög vel og við áætlum að opna 27.janúar. Það eru rétt rúmar tvær vikur þangað til og ég held að sú dagsetning muni bara standast. Ég skrifa kannski meira um þær breytingar sem verða þegar að nær dregur að opnun, en ég og Anders rekstrarstjóri vorum útí Sundbyberg í dag og þar tók ég nokkrar myndir, sem ég setti inná Flickr.

Eini gallinn er að við munum ekki geta selt áfengi frá fyrsta degi þar sem að ég þarf að sækja *þriggja daga* námskeið um sölu á áfengi áður en við fáum áfengisleyfi. Það verður ábyggilega hressandi.

* * *

Annars er lífið hérna í Stokkhólmi búið að vera fínt síðan við komum heim frá Íslandi. Margrét er á fullu að læra undir próf og ég á fullu við að undirbúa opnunina. Á kvöldin hef ég svo tekið því frekar rólega, enda þurfti ég á allavegana mánaðarlangri afvötnun að halda eftir þessa Íslandsferð. Eini gallinn við þennan tíma hérna í Stokkhólmi er þessi mikli kuldi sem hefur verið hérna. Ég hef ekki enn treyst mér út að hlaupa og labbið á skrifstofuna er ansi hreint kalt í þessu veðri. En það er sennilega nóg að ég kvarti yfir þessu veðri á Facebook – þetta er nú ekki svo alvarlegt.

Icesave og Íslandsferð

Vilhjálmur Þorsteinsson segir allt sem ég vil segja um þetta magnaða útspil forseta Íslands í morgun.

Ég mæli með að fólk lesi alla greinina. Niðurlagið er ágætt:

>Ég reyni að vera orðvar maður almennt, en ég verð að segja það hreinskilnislega, að mér finnst ákvörðun forsetans forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð.

Gauti Eggertsson veltir svo fram ágætis punkti:

>Það á enn eftir að útskýra fyrir mér — útfrá almennum sjónarmiðum — hvernig milliríkjadeilur um greiðslur tiltekinna skulda geta verið útkljáðar með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þetta mál er svo fáránlegt og þessi ákvörðun svo vitlaus að það nær ekki nokkurri átt – og sú staðreynd að hann hyggst flýja til Indlands á miðvikudaginn gerir þetta enn ömurlegra. Ég er þó búinn að tala um þetta nóg við vini í dag svo að ég nenni ekki að skrifa meira.

* * *

Þessi Íslandsferð hjá okkur Margréti er búin að vera stórkostleg. Við erum búin að hitta alla okkar vini og fjölskyldu oft og mörgum sinnum og höfum skemmt okkur ótrúlega vel. Ég hef horft á sjónvarp í samtals 2 klukkutíma (3 Fangavaktarþætti og áramótaskaup) sem sýnir kannski hversu upptekin við höfum verið við annað.

Við höfum farið í æðislegt brúðkaup og ég í frábæra steggjun. Við höfum haldið partí og heimboð, mætt á tónleika, fjöldan allan af fjölskylduboðum og partíum og ég hef horft á Liverpool leiki með vinum mínum. Síðustu daga hef ég verið fullbókaður allan daginn. Þetta er einfaldlega búið að vera hið fullkomna jólafrí frá A-Ö.

Við erum á leið til Stokkhólms í fyrramálið og næsta Íslandsferð hefur enn ekki verið plönuð. En við kveðjum allavegana Ísland með söknuði þótt að við séum hálf feginn að sleppa við það að hlusta á Icesave umræður allan daginn næstu mánuði. Það er án efa einn stærsti kosturinn við það að búa í Svíþjóð þessa dagana.

Takk fyrir okkur!

Áramótaávarp 2009

Þetta er búið að vera frábært ár.

Þetta er búið að vera ár mikilla breytinga í mínu lífi. Ég flutti til útlanda, við stofnuðum veitingastað í öðru landi, ég fékk heilablóðfall, við Margrét ferðuðumst til margra landa og við eignuðumst okkar eigið heimili. Þegar ég horfi tilbaka get ég ekki annað en verið ótrúlega ánægður með þetta ár.

* * *

Stærsta breytingin er auðvitað sú að við Margrét fluttum til Svíþjóðar. Það var búið að vera ansi lengi á dagksrá hjá mér að flytjast frá Íslandi. Ég hafði byrjað að pæla í þessu nokkrum árum áður þegar að lífið mitt var mjög ólíkt því sem það er í dag. Það var í raun bara tilviljun að ég flutti frá Íslandi þegar að allt var við suðumark í janúar á Íslandi. Allt þetta ár hef komið þrisvar til Íslands í mislangar heimsóknir, en annars hef ég bara fylgst með ástandinu á netinu. Það hefur verið dálítið skrýtið, en það er líka hálf furðulegt hversu vel maður getur verið inní umræðunni með því að fylgjast með bloggsíðum og Feisbúk statusum hjá vinum sínum.

Dvölin í Svíþjóð hefur verið frábær. Við bjuggum fyrst í lítilli leiguíbúð við Folkungagötuna á Södermalm en í byrjun apríl fluttum við inní íbúðna okkar á Götgötunni. Sú íbúð er algjörlega frábær. Hún er í húsi frá 1890 á allra besta stað á Södermalm, sem er uppáhaldshverfið mitt í Stokkhólmi. Íbúðin okkar vísar inní garð, en um leið og við förum útum útidyrahurðina þá erum við komin í iðandi mannlíf fullt af verslunum, veitingastöðum og börum. Þetta er hverfi sem mér líkar afskaplega vel við að búa í.

Íbúðin hefur svo smám tekið á sig mynd. Margrét hefur auðvitað frábæran smekk og hún hefur stjórnað innkaupum á því dóti sem við höfum smám saman sankað að okkur. Það hefur kannski gengið hægt, en smám saman er íbúðin að verða einsog eftir okkar höfði. Enn er til dæmis álpappír í gluggunum á svefnherberginu, en það mun vonandi lagast á næsta ári.

* * *

Það hefur verið afskaplega fróðlegt að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Þetta fór allt saman rólega af stað, en sérstaklega frá því í haust hafa hlutirnir gengið hraðar fyrir sig og akkúrat núna erum við á fullu við að undirbúa opnun á stað númer 2, sem mun opna í Sundbyberg í lok janúar. Það verður glæsilegur staður með sætum fyrir um 40 manns. Það að opna í öðru landi hefur kennt mér ansi margt varðandi fyrirtækjarekstur, en það hefur hjálpað að ég hef haft frábær fólk í kringum mig, sem hefur komið mér í gegnum þetta ár – sérstaklega þegar að hlutirnir gengu ekki sem best. Næsta ár verður klárlega spennandi ár í rekstri Serrano í Svíþjóð.

Hérna heima hefur Serrano gengið gríðarlega vel og árið 2009 var langbesta ár okkar í sögunni.

* * *

Ég fékk heilablóðfall í mars. Ég gerði því ágætis skil í blogg-greininni sem ég vísa á. Ég hef, að því er virðist, náð mér fullkomlega. Allavegana líður mér alveg jafn vel og fyrir áfallið, sem eflaust breytti einhverju í mínu lífi. Ég kann enn betur að meta hversu yndislega kærustu ég á og líka vini og fjölskyldu.

Ég breytti líka aðeins líkamsræktinni minni í kjölfarið á heilablóðfallinu. Læknirinn minn skipaði mér að hætta að lyfta lóðum, allavegana í einhvern tíma og í stað þess að hanga í líkamsræktarsal, sem mér fannst fáránlega leiðinlegt – þá byrjaði ég í vor að hlaupa á næstum því hverjum degi og í sumar hljóp ég hálfmaraþon. Í haust byrjaði ég svo í CrossFit, sem er án efa skemmtilegasta líkamsrækt sem ég hef stundað (fyrir utan boltaíþróttir). Margfalt skemmtilegra en að lyfta í lyftingasal og ég er líka í betra formi en ég hef verið af lyftingum.

* * *

Við Margrét höfum líka ferðast ótrúlega mikið í ár. Við fórum í frábært skíðaferðalag með vinum okkar, í frábæra helgarferð til Madrídar, í mjööö skemmtilegar Íslandsheimsóknir, til San Francisco, Færeyja og svo í mánaðarlanga ferð til Indónesíu, sem var algjörlega frábær.

Svo höfum við endað þetta ár með vinum okkar og fjölskyldu heima á Íslandi. Dagskráin hefur verið ótrúlega þétt, en jafnframt fáránlega skemmtileg. Við höfum flakkað á milli matarboða, partía og fjölskylduboða á síðustu vikum og skemmt okkur frábærlega. Þrátt fyrir að við kunnum rosalega vel við okkur í Stokkhólmi þá er alltaf ótrúlega gaman að koma heim til Íslands og njóta lífsins hér. Næstu dagar verða líka jafn uppfullir af skemmtilegum hlutum. Næsta ár mun byrja með brúðkaupi og svo erum við búin að skipuleggja partí og matarboð alla daga fram að brottför aftur til Svíþjóðar.

Ég veit að alveg einsog í fyrra hefur þetta blogg legið á hakanum ansi mikið. Ég kann ágætlega við það þannig. Að ég geti gripið í það þegar mig langar til að skrifa um eitthvað skemmtilegt, en jafnframt þá er það ekki lengur svo að mér líði einsog ég verði að uppfæra það reglulega. Þannig er ágætt að hafa það.

* * *

Ég er mjög hress við þessi áramót. Mér líður ótrúlega vel í mínu starfi, ég á frábæra vini, fjölskyldu og langbestu kærustu í heimi. Það er allt sem skiptir máli.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.