Hitabylgja

Hér í Stokkhólmi er heitt. Og hérna hefur fullt skemmtilegt gerst síðustu daga.

  • Við skrifuðum á föstudaginn undir samning um leigu fyrir Serrano stað númer tvö í Svíþjóð. Sá staður er í nýrri byggingu í Sundbyberg, sem er úthverfi Stokkhólms – þó talsvert nær miðbænum heldur en staðurinn í Vallingby. Þetta verður stór og flottur staður, sem við stefnum á að opna í síðasta lagi í janúar á næsta ári. Staðurinn er í nýrri skrifstofubyggingu, sem liggur við lestarstöðina sem er bæði neðanjarðarlestarstöð (T-Bana) og almenn lestarstöð (pendeltåg), þannig að þarna er líf og fjör.
  • Ég var að skipta um skrifstofu. Ég þurfti að leita í talsverðan tíma eftir að hafa misst skrifstofu rétt hjá Östermalmstorg. Ég er núna að leigja með öðru fyrirtæki á Drottninggatan, sem er í miðbæ Stokkhólms. Frábær staðsetning með fullt af skemmtilegum veitingastöðum og slíku í kring. Eini gallinn er að skrifstofan er svo heit þessa dagana að þar er varla líft eftir hádegi.

    Því þarf ég vanalega að koma heim tiltölulega snemma, skipta úr vinnugallanum yfir í stuttbuxur og klára vinnuna svo heima í eldhúsi þar sem hitinn er aðeins minni.

    Það er ágætt að hafa svona hita í útlöndum þegar maður er að ferðast, en þegar maður vill vera sæmilega klæddur í vinnunni útaf fundarhöldum og slíku þá getur þetta verið aðeins erfitt.

  • Hérna heima er íbúðin að komast í lag eftir að við vorum með iðnaðarmenn að klára nokkra hluti. Við fáum víst teppi á svefnherbergið á morgun og eftir það þá er þetta farið að líta helvíti vel út.
  • Margrét er svo í fríi um helgina. Það verður ábyggilega gaman.

Jæja – ég er orðinn sveittur á því að sitja fyrir framan tölvuna, ég ætla að drífa mig út að hlaupa.

Midsommar í Stokkhólmi

Af því að ég hef ekki bloggað lengi, þá nokkrir punktar.

* Hérna í Svíþjóð er midsommar-helgi, sem er merkiðsviðburður á hverju ári. Stokkhólmur breytist í draugaborg þegar að allir sem mögulega geta, flýja borgina uppí sveit. Við Margrét urðum eftir. Þegar ég fór með plast útí endurvinnslugám var afskaplega skrýtið að labba um Götgötuna. Gatan sem við búum við er nefnilega full af lífi alla daga og alla nætur. En ekki í dag. Nánast allt lokað og fáir á götunni.
* Við nýttum okkur þetta frí í að taka íbúðina í gegn. Við vorum að fá nýjar innréttingar, sem við tókum uppúr kössum. Svo setti ég saman svefnsófa í aukaherbergið þannig að næstu gestir hérna munu fá almennilegt rúm til að gista í. Við tókum líka til í allri íbúðinni, hentum gríðarlegu magni af rusli og slíku. Ég er hálf uppgefinn eftir þetta allt. Ætla að fá mér bjór í verðlaun fyrir allt þetta umstang.
* Við erum búin að sjá tvær grínmyndir í bíó síðustu tvær vikur: I love you Man og The Hangover. Sú fyrri er talsvert betri, en þær eru báðar góðar. Það er svo sjaldgæft að ég hlæji mikið í bíó þannig að það var ánægjulegt að sjá tvær grínmyndir með svo stuttu millibili. Í gær reyndum við að horfa á The Darjeeling Limited í sjónvarpinu með slæmum árangri. En ég fatta heldur ekki Wes Anderson myndir. Kannski er ég ekki nógu klár.
* Ég er búinn að uppfæra iPhone-inn minn í 3.0 stýrikerfið. Þetta er engin bylting, en samt þá er þetta fín uppfærsla, sem að býður kannski uppá fleiri möguleika þegar að hin ýmsu fara að nýta sér möguleikana til fulls (einsog það að geta notað Maps inní sjálfu forritinu – einn af þessum litlu hlutum sem skipta svo miklu máli fyrir forrit einsog það sem ég nota fyrir metró- og strætókerfið hérna í Stokkhólmi). Fyrir utan það sem allir hafa talað um (copy, paste), þá var ég aðallega spenntur fyrir litlu hlutunum, einsog að kerfið höndlar wi-fi heita reiti (einsog Telia HomeRun) mun betur en áður. Eins virðist Safari vera hraðvirkari, sérstaklega í JavaScript þungum síðum einsog Gmail og Google Apps.

Annars getum við vonandi nýtt helgina í einhverja útiveru því að veðrið hérna undanfarna daga hefur ekki verið skemmtilegt. En það á víst að breytast á sunnudaginn, en frá og með þeim degi á að vera sól og 20 stiga hiti marga daga í röð. Það verður skemmtileg tilbreyting. Við förum í matarboð á morgun, en annars er helgin ótrúlega lítið skipulögð sem er nýtt fyrir okkur því að vanalega er annaðhvort Margrét að vinna, eða við þá búin að skipuleggja dagskrá. Það verður fínt að njóta lífsins í rólegheitunum.

Ísland 2.0

Ég er staddur á Íslandi. Verð hérna fram á næsta þriðjudag. Er búinn að hitta ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki, borða fáránlega mikið af mat og njóta lífsins í botn.

Ég blogga seinna.

Sunnudagur, Madríd og Eurovision

Ég er snillingur í að eyða sunnudögum í ekki neitt. Ég ætla að rembast við að breyta því eitthvað í dag. Margrét er að vinna, þannig að ég sit hérna í eldhúsinu og hlusta á Ghost of Tom Joad. Það eru ekki nema rétt rúmar tvær vikur í Springsteen tónleikana og ég er ótrúlega spenntur.

Ég er búinn að vera að rúlla í gegnum allt Springsteen safnið mitt. Ég er m.a.s. farinn að hlusta aftur á Born in the U.S.A., sem ég hafði einhvern veginn útilokað þar sem ég fékk svo mikið ógeð á titillaginu. En mikið afskaplega eru lög einsog No Surrender og Downbound Train frábær. Springsteen er snillingur og ég hef ekki verið svona spenntur fyrir tónleikum síðan ég sá Radiohead í Chicago.

* * *

Ég var í Eurovision grilli og partíi í gær í úthverfi Stokkhólms. Ég held að Íslendingar hafi haft gott af þessu kvöldi. Miðað við umræðuna mætti áætla að ansi margir heima haldi að allir í Evrópu hati okkur, en ég held að það sé ansi fjarri sannleikanum. Vissulega hefur orðspor okkar í viðskiptum farið ansi neðarlega, en almennt held ég að ástandið sé ekki svo slæmt. Mig minnir að ég hafi gefið portúgalska laginu hæstu einkunnina – ég verð sjálfkrafa meira hrifinn af lögum þegar þau eru ekki sungin á ensku.

* * *

Ég og Margrét fórum í helgarferð til Madríd um síðustu helgi. Einn af kostunum við að búa í Stokkhólmi er að héðan er auðvelt að taka bein, ódýr flug til allra mögulega borga. Það er nánast frelsandi að þurfa ekki að treysta á Icelandair og millilendingu á helvítis Heathrow til að komast leiða sinna.

Ég hef einu sinni áður komið til Madríd. Það eru þó um 10 ár síðan og ég man ekki mikið frá þeirri ferð. Ég fór þú á Molotov tónleika, sem var upplifun og svo fékk ég heiftarlega matareitrun af því að borða baguette með beikoni. Það var eiginlega mér að kenna því auðvitað á maður ekki að panta baguette með neinu öðru en skinku í Madríd.

Madríd er skemmtileg borg. Hún er ekki jafn falleg og Barcelona (sem ég hef komið 7-8 sinnum til), en hún er umtalsvert stærri og öðruvísi. Allavegana, við vorum þarna í fjóra daga og skoðuðum helstu túristastaði. Við löbbuðum í kringum Plaza Mayor og Plaza del Oriente þar sem að konungshöllin er. Við skoðuðum Reina Sofia þar sem að Guernica eftir Picasso er til sýnis og svo skoðuðum við Prado safnið, sem er auðvitað ótrúlegt listasafn þar sem að flestöll verk eftir Velazquez og Goya eru geymd.

Við borðuðum líka ótrúlega góðan mat. Ég gjörsamlega elska Jamón Iberico og held að mér hafi tekist að borða það fjórum sinnum í ferðinni. Svo borðuðum við á nokkuð authentic mexíkóskum stað, á frábærum tapas börum og öðrum góðum stöðum. Og við fórum á djammið á klúbbunum í Madríd þar sem Margrét afrekaði það að tala sig fram fyrir röð á tveim stöðum þar með talið einum þar sem við komumst að því að var hommakvöld (við föttuðum ekki að það voru bara strákar í 50 manna röðinni).

Frábær ferð og ég setti inn nokkrar myndir á Flickr.

* * *

Á föstudaginn förum við svo í heimsókn heim til Íslands og verðum þar í 10 daga. Ég er spenntur fyrir því.

Páskahelgin

Páskarnir hérna í Stokkhólmi byrja vel. Veðrið hérna er hreinlega æðislegt, fínn hiti og sól og borgin full af fólki. Reyndar er hérna minna af fólki en síðustu daga þar sem að slatti af Stokkhólmar-búum fer alltaf uppí sveit um svona fríhelgar.

Margrét er að vinna í dag, en ég er búinn að fara á Serrano í Vällingby til að fá mér quesadilla að borða, sem er klárlega 45 mínútna lestarferðar virði. Og svo verslaði ég eitthvað smá í íbúðina okkar. Margrét er hins vegar í fríi á morgun og páskadag, svo að við ætlum að gera eitthvað skemmtilegt hérna í borginni.

Ég sit uppí sófa inní íbúðinni okkar, sem er að taka á sig mynd. Úti er sól og ég ætti að vera útá svölum, en ég nenni því ekki alveg þessa stundina. Við erum búin að fá allt dótið okkar frá Íslandi og erum byrjuð að vinna í því að koma því fyrir á sína staði. Okkur vantar ennþá eldhúsborð, skrifborð og allar hillur í íbúðina, þannig að skiljanlega eru fáir staðir til að setja dótið á. En þetta kemur smám saman.

* * *

Ég er annars orðinn nánast 100% hress. Sjónin er alveg komin og ég er nánast hættur að rekast á hluti. Ég er byrjaður að hlaupa úti og ég get varla sleppt því að hlaupa úti á eftir í þessu yndislega veðri.

Já, og ég breytti “um mig” síðunni eftir ítrekaðar kvartanir frá Margréti. Ég bý víst ekki lengur með vinum mínum í miðbæ Reykjavíkur, heldur með kærustunni minni í miðborg Stokkhólms. Rétt skal vera rétt.

Framhaldið

Fyrir það fyrsta, þá verð ég að nýta tækifærið og þakka öllum kærlega, sem hafa sent mér kveðju á Facebook, í gegnum email, síma eða hér á blogginu. Ég mun reyna að svara öllum, en það mun bara taka smá tíma.

Það er núna rétt rúm vika síðan að ég fékk heilablóðfallið og ég hef það ótrúlega gott. Það gott að ég var útskrifaður af spítalanum á mánudaginn. Ég hitti tvo íslenska lækna þann daginn og þau voru sammála um að erfitt væri að útskýra þetta heilablóðfall. En svona eru hlutirnir stundum – þeir bara gerast án skýringa. Sama þótt ég væri ekki í neinum af áhættuhópunum þá bara gerðist þetta.

Sjónin í mér er ennþá dálítið brengluð (ég er með lepp þegar ég skrifa þetta), minnið er smá skrýtið og jafnvægisskynið er enn í ólagi (ég held áfram að rekast á hluti, sem eru hægra megin við mig) – en ég get varla kvartað. Ég er allavegana ótrúlega heppin hvað ég slapp vel útúr þessu áfalli. Emil er hérna úti til að hjálpa við daglega reksturinn á Serrano í Svíþjóð og það hjálpar líka hvað íslensku stelpurnar tvær, Sandra og Elínborg, sem sjá um að reka staðinn í Vällingby eru traustar.

* * *

Ég byrja hjá sjúkraþjálfara í endurhæfingu á föstudaginn. Þangað til má ég lítið hreyfa mig fyrir utan göngutúra. Í næstu viku má ég vonandi byrja að hlaupa úti, en ég þarf líklega að bíða í 4-5 vikur eftir því að ég geti byrjað að lyfta lóðum aftur. Læknarnir voru svo sammála um að Íslandsferðin, sem við Margrét höfðum skipulagt um páskana, kæmi of stuttu eftir áfallið og því urðum við að aflýsa henni.

Við munum því eyða páskunum hérna í vor-stemningunni í Stokkhólmi. Það er ekki slæmt því að við fluttum inní íbúðina okkar í gær. Það er reyndar verið að mála hana, þannig að við getum lítið unnið í henni fyrr en á föstudag. En við borðuðum allavegana fyrstu máltíðina þar í gær. Það var pizza, sem við borðuðum ásamt Emil á gólfinu í eldhúsinu.

Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessari nýju íbúð. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem ég er að flytja inná stað sem ég er að tryllast úr spenningi fyrir. Allir aðrir staðir sem ég hef búið á síðustu 10 árin hafa annaðhvort verið skammtíma leiguíbúðir eða þá íbúðin mín í Vesturbænum sem ég var aldrei neitt sérlega spenntur fyrir. Það er því dálítið ný lífsreynsla hjá mér að láta mig það varða hvernig hlutirnir inní íbúðinni líta út.

Ég fæ heilablóðfall

Lífið er skrýtið.

Á þriðjudagsmorgni er ég á fullu í vinnunni. Ég byrja daginn í sænskukennslu og fer svo yfir á skrifstofuna á símafund um nýtt innstimplanakerfi fyrir starfsfólk Serrano.

Og núna ligg ég allt í einu á föstudagsmorgni inná þriggja manna stofu á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Ég er með leppa fyrir auganu og við hliðiná mér er verið að skipta á bleijum á einum sjúklingi á meðan að hinn kallinn í stofunni kvartar. Hvernig í ósköpunum gerðist þetta?

* * *

Um tvö leytið á þriðjudaginn var ég með mann á fundi á skrifstofunni minni. Hann hafði lýst yfir áhuga á því að opna Serrano stað í öðru bæ í Svíþjóð og óskaði eftir nokkrum mínútum með mér til að kynna sig og sínar hugmyndir. Þegar hann hringdi stökk ég niður og opnaði fyrir honum og hoppaði svo aftur upp tröppurnar á meðan ég spurði hvernig hann hefði það.

Um leið og ég kom inná skrifstofuna byrjaði mér að líða sérkennilega. Ég bauð manninum uppá kaffi en hann vildi bara vatn, svo ég hellti honum í glas. Mér svimaði hins vegar svo mikið og leið svo einkennilega að ég ákvað að drekka sjálfur vatnsglasið og hellti honum svo í annað.

Hann tók þá eftir því hvað ég var einkennilegur, svo ég baðst afsökunnar á því hve furðulegur ég væri á meðan ég settist. Ég gerði svo nokkrar tilraunir til að hefja fundinn með því að segja aðeins sögu Serrano. Sögu sem ég hef sagt 100 sinnum og kann utanbókar, en gat samt ekki komið upp neinu heillegu. Ég lokaði augunum og reyndi að segja honum söguna þannig, en allt var í rugli. Að lokum spurði hann mig hvort ég vildi ekki bara fresta fundinum og gera þetta seinna. Ég þáði það boð, en hafnaði því þegar hann bauðst til að hringja á sjúkrabíl.

Þegar ég var orðinn einn á skrifstofunni lokaði ég tölvunni minni og svo var einsog allt færi í rugl. Ég staulaðist á milli stólsins míns og skrifborðsins og gat hvorki séð neitt skýrt né staðið á fótunum Ég datt á gólfið og það leið sennilega yfir mig oftar en einu sinni. Ég eyddi ábyggilega einhverjum 10 mínútum að reyna það einfalda verkefni að taka tölvuna mína og setja hana í töskuna mína. Einhvern veginn tókst mér það og næsta verkefni var því að slökkva ljósin á skrifstofunni og koma mér út. Skrifstofan okkar, sem við deilum með íslensku fyrirtæki sem rekur tískuverslanir hérna í Stokkhólmi, er pínkulítil. En samt þá tókst mér að gleyma algjörlega hvar væri hægt að slökkva á ljósunum. Ég rembdist við það í nokkrar mínútur að samhæfa þá aðgerð að taka upp töskuna, slökkva ljósin og opna hurðina. Allt í kringum mig virtist snúast á 100 kílómetra hraða.

Ég komst út, datt næstum því í tröppunum og labbaði útá götu. Grev Turegatan er nokkuð vinsæl gata. Hún er göngugata og á henni eru vinsælir barir og veitingastaðir. Þegar ég labbaði útá götu þá gat ég bara farið í eina átt, til hægri. Ég endaði því með líkamann uppað búðunum hægra megin götunnar. Strax kom uppað mér strákur, sem spurði hvað væri að. Mér tókst að koma uppúr mér einhverju um að ég væri í lagi og þyrfi bara að leggja mig. Ég gat ekki komið setningunum almennilega uppúr mér og sum orðin komu fáránlega út auk þess sem það var hroðalega erfitt að reyna að halda fókus á andlitinu á stráknum. Loks tókst mér að komast frá honum og ég stönglaðist niður götuna, einhverja 50 metra. Þar lenti ég inní húsasundi, þar sem ég gat hvílt mig en ég var algjörlega örmagna eftir þetta 50 metra labb. Loks komu þar að mér tveir gaurar sem sannfærðu mig um að það væri vitlaust að ætla að taka strætó og þess í stað þyrfti ég leigubíl. Þeir náðu í einn og sannfærðu í leiðinni leigubílstjórann um að ég væri ekki fullur og sennilega ekki á neinum eiturlyfjum heldur.

* * *

Leiðin heim á Södermalm er um 15 mínútur í traffíkinni um miðjan dag í Stokkhólmi. Ég reyndi á þeim tíma áfram að hringja í kærustuna mína. Ég er með iPhone – á þeim síma þarf maður að ýta á 3 takka til að hringja í Margréti, sem er efst á hraðvalslistanum. En sama hversu mikið ég reyndi, þá gat ég ekki hringt í hana. Það besta var að mér tókst að hringja í mann sem vinnur með mér en þegar hann svaraði vissi ég ekki hvað ég átti að segja þannig að ég hlustaði bara á hann spyrja hver þetta væri á meðan að ég starði útí loftið.

Þegar við vorum rétt hjá íbúðinni okkar á Söder spurði bílstjórinn hvort við værum komin. Ég sagði já, þótt að við værum ennþá um 100 metra frá henni. Einhvern veginn þótt mér það alltof flókið að útskýra það fyrir honum að íbúðin mín væri 100 metrum lengra niður sömu götu.

Ég fór því útúr bílnum og einsog áður leitaði ég alltaf til hægri og klesstist því uppað búðargluggunum. Í einni búðinni voru tveir stólar fyrir utan búðina og þar sem ég sá nánast ekki neitt þá klessti ég beint á þá og datt næstum því. Strákur kom uppað mér og vildi ekki sleppa mér fyrr en ég hafði sagt við hann 10 sinnum að ég byggi þarna rétt hjá.

Mér tókst svo að komast upp tröppurnar að byggingunni og einhvern veginn komst ég líka uppá 4. hæð að íbúðinni okkar. Þar rembdist ég við það í 2-3 mínútur að opna hurðina með lyklinum. Það var nánast óbærilega erfitt þar sem að allt var svo óskýrt og mér leið hálfpartinn einsog það væri líka einhver að elta mig allan tímann. Ég var reyndar á tímabili viss um að gaurinn sem ég hitti á fundinum hefði eitrað fyrir mér og svo elt mig og ætlað að ræna mér.

En að lokum opnaði ég hurðina, læsti á eftir mér, stönglaðist einhvern veginn í gegnum íbúðina og uppí rúm. Þar fór ég að sofa

* * *

Ég svaf með iPhone heyrnartólin í eyrunum en þrátt fyrir það þá vaknaði ég ekki við það að Margrét hringdi 6 sinnum í mig.

Ég var loks vakinn þegar að hún kom heim 4 tímum eftir að ég hafði sofnað uppí rúmi. Hún reyndi að tala við mig en þegar ég gat ekki komið almennilegum setningum útúr mér, þá brá henni gríðarlega og hún hringdi á sjúkrabíl. Stuttu seinna kom sjúkrabíllinn og sjúkraliðarnir gerðu einver próf á mér og ákváðu svo að fara með mig í burtu á Karolínska sjúkrahúsið, sem er rétt fyrir norðan miðbæ Stokkhólms. Þar er ég nú.

Eftir að ég kom þangað man ég hlutina ekkert sérlega skýrt. Ég man eftir Margréti grátandi og hringjandi í ættingja og ég man þegar að ég kom inná neyðarmóttökuna. Ég man svo eftir frábærum lækni, sem talaði við mig og reyndi að fá eitthvað af viti útúr mér. Þrátt fyrir að ég væri allur af vilja gerður þá kom oft ekkert nema bull útúr mér. Ég kvartaði yfir hausverk og yfir því að gosbrunnarnir í andlitinu á mér væru á fullu og talaði svo um að ég hefði labbað á fimm ísskápa. Og annað var eftir þessu. Ég man svo eftir að vera tekinn í cat scan og einhverjar fleiri prufur. Ég man þegar að vinir okkar komu og hjálpuðu Margréti og ég man eftir því hversu ruglaður ég var og þegar að ég tók svefntöflur um tíu leytið.

* * *

Morgunin eftir vaknaði ég um sjö leytið með Margréti við hliðiná mér. Hún sagði mér betur frá því sem hefði gerst kvöldið áður, í hverja hún hafði hringt og hverjum hún hefði heyrt frá. Hún sagði mér líka frá því að mamma og pabbi væru á leið til Stokkhólms þá þegar um morguninn.

Síðustu dagar hafa því verið nokkurn veginn eins. Margrét hefur verið hjá mér mestallan tímann, dekrað við mig og haldið mér á lífi hér meðal gamla fólksins. Mamma og pabbi voru hérna hjá mér báða dagana, en þau fóru svo heim til Íslands þegar að það leit út fyrir að það versta væri afstaðið.

Næturnar hérna voru hálf erfiðar. Fyrstu nóttina var ég á nokkurs konar gjörgæsludeild þar sem að blóðþrýstingurinn var tekinn á mér á klukkutíma fresti og sífellt fólk að fara inn og útaf stofunni. Seinn var ég svo færður á rólegri deild þar sem ég ligg núna ásamt tveimur gömlum köllum. Annar þeirra reyndi að brjóta niður skilrúmið hjá mér í fyrri nótt þar sem hann ímyndaði sér að þar lægi klósettið – og hinn hóstar svo skelfilegum hósta á korters fresti að ég get varla komist hjá því að kúgast.

En ég get varla kvartað. Svona er þetta bara. Ég þakka Guði fyrir að hafa veikst á Norðurlöndunum, þar sem hérna er heilbrigðiskerfið stórkostlegt og eingöngu er tekið á móti manni á allra besta hátt þótt að ég hafi bara búið hérna í 3 mánuði og geti varla bjargað mér á sænsku.

Ég er svo búinn að fara í milljón próf. Síðast í dag í einhvers konar sónarskoðun á hjarta og svo í MRI. Og niðurstöðurnar eru komnar. Ég fékk heilablóðfall. Læknirinn segir að það hafi verið vægt en enn er ekki vitað hverjar orsakirnar eru. Ég ætti að vera langt frá áhættuhópnum. Ég er ungur, ég stunda líkamsrækt nánast á hverjum degi, ég borða hollt, ég reyki ekki og svo framvegis. Þannig að ennþá hafa læknarnir ekki fundið neina augljósa skýringu á þessu öllu.

Ég sé ekki alveg einsog ég sá áður. Allir hlutir eru tvöfaldir þegar að ég er með bæði augun opin og því þarf ég að vera með sjóræningjalepp á öðru hvoru auganu ef ég vill lesa eða horfa á sjónvarp. Einnig er jafnvægisskynið ekki gott. Alveg einsog þegar það versta gekk yfir, þá halla ég alltaf til hægri, en það er þó 20 sinnum betra í dag. Læknirinn, sem er íslenskur, segir að það muni lagast ásamt sjóninni á smá tíma.

Þannig að núna er ég á leið heim aftur. Það hittir akkúrat þannig á að við Margrét erum að flytja í nýju íbúðina okkar á mánudaginn. Ég mun því miður ekki taka mikinn þátt í því, en það er gott bara að komast aftur heim og geta sofið eðlilega.

* * *

Og hvað kemur svo útúr öllu þessu? Jú, ég get ekki lýst því hvað það hjálpaði mér mikið að heyra frá vinum og ættingjum. Margrét sá um að senda öllum póst um líðan mína og það að heyra aftur í fólki, hvort sem það var á pósti eða í síma, eða bara að heyra af því að það forvitnaðist um mig, var ómetanlegt. Og það var frábært að fá foreldra mína hingað í heimsókn.

Takk ÖLL!

Og það sannaðist það sem mig hafði grunað áður: Ég á bestu kærustu í heimi. Ég hef kannski ekki eytt púðri í það á þessari síðu að tíunda hversu ótrúlega kærustu ég á, en ég get vart lýst því hvað ég er ástafanginn. Hún er stórkostleg persóna, fáránlega skemmtileg, ótrúlega falleg og líka yndislega góð og hugulsöm. Ég veit ekki hvernig ég hefði getað komist í gegnum þetta án hennar.

Eurovision, Che og ferðalög

Við erum víst komin til Stokkhólms eftir frábæra viku á skíðum í Frakklandi. Ég og Margrét eyddum líka hálfum degi í Genf þar sem við skoðuðum 2-3 túristastaði og hittum fyrir tilviljun Evu vinkonu okkar á kaffihúsi (sjá myndir). Þetta var algjörlega frábært frí.

Helgin áður en við fórum á skíði var líka frábær. Ég djammaði með nokkrum strákum á Hotellet og Solidaritet á föstudagskvöldinu og svo fórum við á Árshátíð Íslendingafélagsins í Stokkhólmi á laugardagskvöldinu, sem var líka afskaplega skemmtilegt. Þessi helgi er búin að vera eitthvað rólegri. Við Margrét fórum á Che í bíó í gær. Hún var nokkuð góð. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrir myndina, en hún er víst í tveimur hlutum og kemur seinni hlutinn ekki í bíó fyrr en eftir mánuð. En fyrri hlutinn er góður, allavegana fyrir áhugamenn um Suður-Ameríska byltingaleiðtoga einsog mig. Eftir bíóið kíktum við svo ásamt vinum á einn bar hérna á Söder. Í kvöld ætla ég að taka því rólega á meðan að Margrét fer á djammið.

* * *

Það er visst afrek að mér skuli hafa tekist að flytja frá Íslandi til lands þar sem Eurovision áhuginn er enn meiri og geðveikari. Hérna í Svíþjóð er áhuginn fyrir undankeppni Eurovision, sem heitir Melodifestivalen, með ólíkindum. Öll blöð eru full af fréttum um keppendurna og þetta er langvinsælasta sjónvarpsefnið hér. Ég held að undankeppniskvöldin hafi verið allavegana 10, en árangurinn var ekki eftir því. Eftir allt þetta umstang og áhuga, þá er niðurstaðan sú að þetta lag verður framlag Svía.

Ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu lagi.

* * *

Chelsea, Man United og Everton töpuðu ÖLL í leikjum í dag. Af hverju geta ekki allir dagar verið svona?

Á skíðum

Ég er staddur í litlu fjallaþorpi í Ölpunum með Margréti og góðum vinum.  Hef verið hérna á skíðum síðustu fimm daga í frábæru veðri og færi.  Ég hef ekki farið í svona skíðaferðir síðan ég var lítill strákur, þannig að ég var búinn að vera með verk í maganum fyrir ferðina.

Það er í raun svo langt síðan ég fór á skíði að ég hafði aldrei áður prófað carving skíði, sem allir virðast nota í dag.  En þrátt fyrir að ég hafi sennilega ekki skíðað í 10 ár þá var þetta ekkert mál og ég var tiltölulega fljótur að rifja upp gömlu taktana.

Við fórum í snjóbrettakennslu í gær, sem gekk sæmilega.  Ég datt sirka 50 sinnum, er aumur í höndunum, reif næstum því á mér nárann og sitthvað fleira.  Okkur fannst það þó hálfgerð sóun að eyða tímanum í barnabrekkunum á snjóbretti þegar að við gátum verið að skíða um allt svæðið.  Síðasti dagurinn á skíðum er á morgun og svo förum við aftur til Svíþjóðar á sunnudaginn.

Dagurinn í dag

Þetta er búinn að vera góður dagur í Stokkhólmi. Margrét var loksins í fríi í vinnunni og því gátum við túristast aðeins um borgina. Við tókum strætó yfir á Gamla Stan (sem er reyndar í göngu-fjarlægð frá íbúðinni, en það er kalt) og löbbuðum þar um og skoðuðum bæinn. Löbbuðum svo yfir á Skeppsholmen, þar sem við fórum á Moderna Museet. Þar var í gangi frábær ljósmyndasýning með myndum eftir Andreas Gursky. Sú sýning var afskaplega skemmtileg.

Við kíktum aðeins á varanlega hluta safnsins áður en við löbbuðum yfir á Norrmalm þar sem við fengum okkur kaffi í NK. Liverpool gerðu reyndar sitt besta til að reyna að eyðileggja góða skapið mitt, en það mun ekki takast hjá þeim. Átta komment hjá mér á Kop.is var ágætt til að ná pirringnum úr mér.

Í kvöld eigum við svo pantað borð hér og svo ætlum við að kíkja á djammið.

* * *

Vissulega er það ánægjulegt fyrir Samfylkinguna að Jóhanna verði forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum. En ég verð að játa það að ég er ekkert rosalega spenntur fyrir því að enginn nema Ingibjörg og Össur ætli að sækjast eftir sæti 2 og 3 í Reykjavík. Ég hefði nú talið æskilegt að fá aðeins ferskara fólk inn þar. Það væri nú ekki beint rosalega hresst að hafa Jóhönnu, Ingibjörgu, Össur, Mörð og Ástu Ragnheiði í efstu fimm sætunum miðað við endurnýjuna hjá öðrum framboðum.

Ætli ég skrifi ekki meira um þetta prófkjör seinna, en ég hvet allavegana alla til að kjósa Önnu Pálu í fimmta sætið. Anna Pála er afskaplega skemmtileg og klár stelpa. Hún er líka án efa með bestu framboðssíðuna, sem útskýrir á einfaldan hátt hver hennar pólitík er og kynnir hana sem persónu á skemmtilegan hátt.

Ég þekki Önnu Pálu persónulega og mæli klárlega með henni í þessu prófkjöri.

* * *

Ég er búinn að borða á svo mörgum skemmtilegum veitingastöðum hér í Stokkhólmi að ég er að spá í að koma mér upp einhverju kerfi til að halda utanum þá alla á þessari vefsíðu, þannig að fólk geti gengið að þeim stöðum sem ég mæli með. Ef einhver veit um einhverja sniðuga leið til að halda utanum þetta í WordPress, þá væri ég þakklátur.