Nýtt útlit

Ég held að ég geti óhræddur haldið því fram að ég er mjög íhaldssamur þegar að kemur að útliti þessarar síðu. Ég hef haldið úti bloggsíðu í yfir 7 ár, en aðeins breytt um útlitið 4-5 sinnum.

Fyrir nokkru færði ég mig frá MovableType yfir í WordPress. Ég reyndi að kópera gamla útlitið og fylla inn WordPress eiginleikana í það skjal. Það gekk hins vegar afleitlega og margir hlutir hafa ekki virkað.

Ég ákvað því að henda alveg gamla útlitinu, finna útlit sem ég fílaði og breyta því aðeins til að gera það að mínu. Ég fann þetta útlit, breytti litaþemanu, myndum og einhverju fleiru og er orðinn verulega sáttur við þetta nýja útlit. Til að breyta CSS skránni notaði ég þetta ótrúlega æðislega forrit.  Ég get varla lýst því hvað þetta forrit er mikil snilld.

En allavegana, endilega látið mig vita hvernig þetta lítur út og hvort að eitthvað sé í ólagi. Ég mun sennilega halda áfram að laga þetta eitthvað til, en ég held að þetta sé voðalega flott fyrir nýtt ár.

Skemmtilegt!

Samkvæmt MBL.is þá eru þetta 5 af 10 vinsælustu bloggfærslunum á blog.is – eða allavegana 5 af 10 “heitustu umræðunum”.

[1](http://hydroman.blog.is/blog/hydroman/entry/381097/) – [2](http://maggao.blog.is/blog/maggao/entry/379875/) – [3](http://gislibal.blog.is/blog/gislibal/entry/380571/) – [4](http://eddaagn.blog.is/blog/eddaagn/entry/380521/) – [5](http://harpao.blog.is/blog/harpao/entry/379894/)

Ég officially skil ekki þetta Moggablogg.

Feisbúk

Sigurjón segir allt sem segja þarf um Facebook forrit.

Ég gjörsamlega fatta ekki þetta Facebook dæmi. Einhverjir, sem þorðu ekki að skrá sig á MæSpeis af því að það var svo gelgjulegt, hafa skráð sig á Facebook þar sem þeim þykir það meira fullorðins.

Svo eyðir þetta fólk öllum sínum tíma í einhverjar pointless skoðanakannanir um sjálft sig og zombie forrit og hvað þetta dót heitir allt, í stað þess að tala saman einsog fólk virðist þó vera að gera á MySpace. Á Facebook er fullt af fólki að bæta manni við, án þess að segja svo neitt. MySpace hefur allavegana þann kost að fólk finnur hjá sér þörf fyrir samskipti í stað þess að setja bara inn einhver kjánaleg forrit.  Ég hef kynnst fulltaf góðu fólki í gegnum MySpace, en í gegnum Facebook hef ég eingöngu verið bitinn af uppvakningum og lært allt um það hversu líkur ég er einhverjum á vinalistanum mínum.

Punktar

Punktar

  • Ég get svarið það að sumt fólk á Facebook vinalistanum mínum er í fullu starfi við að senda út tilkynningar um alls konar dót sem það er að prófa. Það passar hreinlega ekki að þetta fólk sé í annari vinnu.
  • Smá hint til mannsins sem tekur við af Steve McClaren. Ef þú vilt prófa nýjan mann í stöðu markvarðar, þá skaltu leyfa honum að spila allavegana heilan æfingaleik til að byrja með. Ekki setja hann í byrjunarliðið í mikilvægasta leik síðustu 2 ára á rennblautum heimavelli gegn besta liðinu í riðlinum. Ég hélt að þetta væri common sense, en það er það greinilega ekki fyrir 2nd choice Steve.
  • Nýi Foo Fighters diskurinn er verulega góður. Hann er búinn að halda mér í gangi í ræktinni undanfarna daga.
  • Mér sýnist þetta ár ætla að vera miklu betra en 2006 hvað varðar tónlist. Ég var að skoða listann minn yfir bestu plötur síðasta árs og af þeim lista hlusta ég bara á eina plötu enn í dag, Futuresex/Lovesounds með Justin Timberlake. Ég held að bara tvær efstu plöturnar á þeim lista, Dylan og Timberlake kæmust inná listann yfir topp 10 bestu plötur þessa árs að mínu mati.
  • Nýji Places fídusinn í Flickr er æðislegur. Þar geturðu flett upp nafni staðar og fengið myndir þaðan. Sjá t.d. Reykjavík, Roatan, Goa, Dhaka og svo framvegis. Mjög sniðugt til að skoða staði fyrir ferðalög.
  • Fyrir þá sem vilja gera lítið úr átaki Steinunnar Valdísar (t.d. allir sem hringdu inn í Reykjavík Síðdegis áðan) fyrir því að taka upp kynlaus starfsheiti, þá er þessi pistill góður.

KOP.is, fávitar og lesbíur

Nú er hætt við að ansi margir sleppi því að skrifa “eoe.is” oft á dag, því að í fyrsta skipti er Liverpool Bloggið ekki lengur undirsíða af þessu bloggi, heldur er það komið með sitt eigið lén, [KOP.is](http://www.kop.is).

Auðvitað var það orðið hálf hallærislegt að lénið á Liverpool blogginu væri eoe.is/liverpool, þar sem þetta er ekki mín einkasíða. Þetta var skyndilausn þegar að við Kristján stofnuðum þetta fyrir einhverjum árum, en núna er síðan orðin miklu stærri en hún var áður. Þannig að núna er umfjöllun um Liverpool endanlega lokið á eoe.is.

* * *

Og að lokum tvær SNILLDARSÍÐUR

Fyrst: [Hot chicks with Douchebags](http://www.hotchickswithdouchebags.com/). Mjög þarft framtak.  Þyrfti nauðsynlega að búa til íslenska útgáfu.

Og svo : [Karlmenn, sem líta út einsog gamlar lesbíur](http://menwholooklikeoldlesbians.blogspot.com/).

Klám

Þetta er besta grein, sem ég hef lesið gegn klámi. Hún er skrifuð af Naomi Wolf fyrir fjórum árum, en ég hafði ekki séð hana fyrr en í þessari viku: The Porn Myth

Ég mæli með því að allir lesi greinina, en megininntakið er að í stað þess að klám geri karlmenn að kynóðum nauðgurum (einsog furðu margir halda fram), þá telur Wolf það vera líklegra að klám geri menn að daufyflum, sem falli ekki lengur fyrir “venjulegum” konum, sem að þeir telji ekki jafnast á við klámstjörnur í Los Angeles.

Í tengslum við klámráðstefnuna, sem var ekki haldin hér á landi, þá féllu ansi margir í þá fúlu gryfjur að gera ráðstefnugestum upp miklu verri sakir en þeir höfðu unnið sér fyrir. Þeir voru sakaðir um mansal og barnaklám, þrátt fyrir að engar sannanir væru fyrir slíku. Þetta fór í taugarnar á mér og ansi mörgum öðrum.

Það er nefnilega vel hægt að mæla gegn klámi án þess að reyna að sverta ímynd fólksins sem tengist bransanum enn frekar með dylgjum. Það hefði verið miklu fróðlegri umræða að ræða kosti og galla klámsins og klámvæðingarinnar, sem við sjáum á hverjum degi. Þessi grein hjá Wolf væri allavegana gott veganesti í þeirri umræðu.

Chocolate Raaain!

Ég er kominn heim frá Skotlandi. Skrifa kannski ferðasögu seinna. Skotland var ljómandi.

En í millitíðinni, þá er hérna [nýja uppáhaldslagið þitt](http://youtube.com/watch?v=EwTZ2xpQwpA)! Ef þú hefur nægilegt úthald til að hlusta á þetta lag í gegn, þá munt þú ekki losna við það úr hausnum á þér í marga, marga daga. Þvílík snilld!

Chocolate Raiiiiin!

Apple menn voru að uppfæra iMac tölvurnar sínar í dag. Þær [nýju](http://www.apple.com/imac/) eru enn fallegri en þær gömlu. Ég hreinlega get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju fólk ætti að kaupa einhverjar tölvur aðrar en Apple. Ég átti einu sinni kærustu, sem þoldi ekki Sigur Rós og vildi ekki kaupa Apple tölvu þrátt fyrir gríðarlegan þrýsting frá mér. Ég gat reynt að skilja flestallt við þá flóknu stelpu, en ég komst aldrei almennilega yfir þessa tvo hluti.