Mikið er ég sammála því sem Sigurjón [segir](http://blog.sigurjon.com/?p=1732) og Kristján [vitnar í](http://blog.kristjanatli.com/2007/01/04/bloggablogg/#respond)
“Moggabloggið verður að teljast sem nýju “Teljara-Ólympíuleikarnir” á netinu. Hellingur af spöðum sem þrá athygli og ást fólksins í landinu hafa hent upp síðum hjá Mogganum og blogga nú um fréttirnar sem þar eru skrifaðar eins og þeir eigi lífið að leysa. Þeir linka á skoðanir hvors annars í von um góð eða slæm viðbrögð, skiptir þá ekki máli bara svo framarlega sem þeir fá fleiri heimsóknir. Sumir síðueigendur hafa meira að segja gengið svo langt að frame-a síðuna sína inn í Moggabloggið svo þeir geti nú fengið aðeins meiri athygli. Þetta er orðið svo vinsælt að Bill O’Reilly þótti það tímabært að koma því á hreint að hann fann upp bloggið.”
Sjáið t.d. [þetta blogg](http://gislifreyr.blog.is/), sem einhver hægrimaður heldur uppi á Moggablogginu (tek þessa síðu sem dæmi þar sem hún var efsta bloggið á mbl.is þegar ég kíkti inn). Þessi aðili vísar á fréttir á MBL.is við hverja bloggfærslu. Í flestum tilfellum hefur efni færslu hans nákvæmlega ekkert með upphaflega frétt að gera og gerir því það eitt gagn að pirra lesendur mbl.is, sem smelltu á þær í góðri trú um að færslurnar bættu einhverju við efni upphaflegrar fréttar.
Sem dæmi, þá eru þetta færslur af forsíðunni og svo þær fréttir sem hann vísar í:
**Frétt**: Verðmætum páfagauk stolið
**Blogg**: Vangaveltur um CSI og aðra lögguþætti
**Frétt**: Eldur kviknaði í Engey en var slökktur með hraði
**Blogg**: Guðmundur Steingrímsson er ömurlegur
**Frétt**: Leki kom að báti í Suðureyrarhöfn
**Blogg**: Kristrún Heimisdóttir er ömurleg
**Frétt**: Vakt hjá Orkuveitunni um jólin
**Blogg**: Hannes Hólmsteinn er skemmtilegur
Hvernig er hægt að skýra þetta með öðru en að margir MBL bloggarar séu með ólíkindum athyglissjúkir. Ég er hættur að nenna að smella á bloggvísanir út frá fréttum, vegna þess að þær enda flestar á vísunum í eitthvað bull. Frekar kýs ég að hafa RSS vísanir hjá mér á þá moggabloggara, sem ég les reglulega. (Gummi Steingríms, Árni M, Ómar Valdimars, Steingrím S, Kratabloggið, Magnús Már, Hux og Sigmar G).
Miklu nær væri fyrir mbl.is að hleypa á vísanir frá öllum vefsíðum í fréttir á mbl.is fréttir (bæði pólitískum vefritum, sem og bloggum utan mbl.is) og leyfa notendum að flagga þá sem eru að misnota þessar vísanir. Mbl.is ættu svo að taka sig til og banna þeim að vísa á fréttir, sem að misnota það ítrekað.