Hugo

<img src="/myndir/hugo.jpg” border=”1″>Í morgun þegar ég var að fara yfir tölvupóstinn minn þá fékk ég póst frá vini mínum frá Venezuela. Í bréfinu stóð:

Amigos se cayo el Gobierno de Chavez!!!!

Saludos a todos y felicitaciones

Þetta þýðir nokkurn veginn: Ríkisstjórn Chavez er fallin. Til hamingju!! Bið að heilsa öllum.

Þetta segir kannski eitthvað um ástandið í Venezuela en ég bjó þar fyrir nokkrum árum. Ég hef heilmikið um þetta allt að segja og ætla að skrifa um þetta hér á síðunni seinna.

Ókeypis til Ísrael

Það er greinilegt að ferðamálaráðið í Ísrael er í ham þessa dagana. Jens PR bendir á kynningu á sólarlandaferðum til Ísrael á Íslandi. Í skólanum mínum var í gær verið að kynna ferðir til Ísraels. Öllum gyðingum á milli 18 og 26 er boðið í ókeypis ferðalag í 10 daga til Ísrael.

Nokkrir af mínum bestu vinum hérna eru gyðingar en ég efast um að þeim langi mikið til Ísrael akkúrat þessa stundina.

Ég er ennþá í þjóðkirkjunni, sem er víst lúterstrúar. Mér finnst að lúterska kirkjan ætti að bjóða mér ókeypis til Þýskalands.

Kólumbíski herinn í stuði Ed

Ed Gibson, kennarinn minn í Suður-Amerískum stjórnmálum benti mér á þessa grein á BBC. Hann sagði að þetta myndi ábyggilega ylja manni um hjartarætur.

Þessi uppblásni hermaður er nýjasta tæki kólumbíska hersins í baráttunni við skæruliða.

Á þeim svæðum, sem FARC ræður yfir er fólk afar hrætt við ofbeldi og því notar herinn þennan uppblásna hermann, sem gengur ekki með byssu, til að fá upplýsingar út úr fólki varðandi staðsetningu skæruliðanna.

Fyrirlitning á frjálshyggju

Af einhverjum ástæðum er síðan Nöldur á RSS listanmum mínum, þannig að ég rekst þangað inn öðru hverju.

Ég held að ég hafi sjaldan lesið annan eins pistil og þann, sem Ragnar Torfi setur inn í dag.

Fyrirlitning þessa manns á öllu, sem tengist frjálshyggju er mögnuð. Hann legst niður á ótrúlega lágt plan með því að kalla þá, sem eru honum ósammála í stjórnmálum, öllum illum nöfnum, einsog: “Frjálshyggjuasnarnir, fæðingarhálfviti, Frjálshyggjufíflin, frjálshyggjuskrúðhænsni, frjálshyggjupáfuglar, frjálshyggjurugludallar, Frjálshyggjuaularnir, einfaldir, fáfróðir og vanhugsandi, heimska, frjálshyggjulúða og frjálshyggjufávita.” Svona pistlar eru náttúrulega ómarktækir.

Einnig segir Ragnar, sem býr víst í Banradíkjunum að menning í þessu landi sé: “að öllu leyti sú allra ömurlegasta lágmenning sem hægt er að ímynda sér”. Ég flokka þetta undir marklaust Evrópublaður um Bandaríkin. Það að halda því fram að engin menning sé í Bandaríkjunum er fásinna.

Kólumbía og gamlir kommúnistar

Ástandið í Kólumbíu þessa dagana er afar athyglisvert. Loksins, eftir þriggja ára samningaviðræður við FARC ákvað Andres Pastrana forseti að ráðast á bækistöðvar skæruliðana.

Fyrir rétt rúmri viku höfðu leiðtogar FARC samið við ríkisstjórnina um vopnahlé en aðeins nokkrum tímum seinna höfðu þeir sprengt sprengjur í borgum og rænt flugvél með þingmanni.

FARC eru gömul og afskaplega ómerkileg samtök. Einu sinni fyrir langa löngu börðust þeir einsog Ché og fleiri fyrir marxískri byltingu í Kólumbíu en sá draumur er löngu dauður og eyða þeir því tímanum aðallega við að smygla eiturlyfjum og ræna fólki. Pastrana gerði allt, sem hann gat til að semja um frið og gaf FARC meira að segja land á stærð við Sviss, þar sem þeir gátu verið í friði. Þrátt fyrir allt þetta hafa þeir svikið öll loforð um vopnahlé.

Í dag flaug Pastrana inná yfirráðasvæði FARC, tók niður FARC fána á aðaltorginu og henti honum í ruslatunnuna. Mjög táknrænt.

Vonandi að þessir 20.000 gömlu kommúnistar geti ekki haldið þessari ágætu þjóð í gíslingu lengur.

Alþjóðavæðing, þriðji hluti

Ja hérna, Múrinn bara svaraði greininni minni. Þessu bjóst ég nú ekki við. Þeir hefðu þó mátt tengja á síðuna mína, því þá hefði ég ábyggilega fengið fullt af heimsóknum. Sjá greinar

  1. Alþjóðavæðing fyrir byrjendur eftir Stefán Pálsson
  2. Alþjóðavæðing fyrir lengra komna svar mitt við greininni á Múrnum
  3. Alþjóðavæðing fyrir spekinga svar Múrsins við grein minni, eftir Steinþór Heiðarsson

Steinþór svarar svari mínu í dag. Tititilinn var framhald af hinum tveim. Nú er þessi umræða sem sagt komin á plan spekinga. Ég er hálf hræddur við að svara slíku, enda tel ég mig ekki vera neinn speking á sviði alþjóðaviðskipta.

Steinþór svarar aðallega greininni minni með að halda því fram að alþjóðleg fyrirtæki hafi oft notið góðs af ISI stefnunni. Þetta er hárrétt hjá honum. Málið var að þessi fyrirtæki höfðu mörg sett upp starfsemi áður en ISI stefnan var stett á laggirnar. Þegar þessi verndarstefna var svo sett upp reyndu fyrirtæki náttúrulega að njóta góðs af þessari stefnu. Það er eðlilegt að fyrirtæki reyni að hámarka hagnað sinn.

Ég sé í raun ekki hverju það breytir að alþjóðleg fyrirtæki hafi notið góðs af þessari stefnu. Það, sem eftir stendur er að stefnan var röng og afleiðingar hennar voru slæmar. Þrátt fyrir að sum erlend fyrirtæki hafi hagnast á verndarstefnunni og hagfræðingar á vegum Sameinuðu Þjóðanna mælt með henni, þá er ekki hægt að horfa framhjá því að ríkisstjórnir viðkomandi landa komu á verndarstefnunni. Hagfræðingar, jafnvel þótt þeir séu bandarískir, hafa ekki alltaf rétt fyrir sér.

Það fríar hins vegar engan veginn ríkisstjórnir viðkomandi landa frá ábyrgð við stefnumörkun í efnahagsmálum. Því stend ég við það að þjóðirnar í Suður-Ameríku hafi af flestu leyti komið sér sjálf í vandræði. Jafnvel þótt þessi lönd hafi verið gríðarlega rík af náttúruauðlindum (t.d. olíu) þá tókst stjórnmálamönnum að klúðra flestu varðandi efnahagsmál. Þeir klúðruðu þessum efnahagsmálum án aðstoðar frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Steinþór nefnir fræga dæmið um brasilísku bleijurnar, sem Johnson&Johnson framleiddu. Hann segir réttilega frá því hvernig gæði brasilískra bleija voru mun lægri heldur en bleija í öðrum löndum. Þetta var fyrst og fremst vegna þess að brasilísku bleiju iðnaðurinn var verndaður af brasilísku ríkisstjórninni.

Þarna rekst Steinþór (kannski af tilviljun) á ein helstu rökin fyrir frjálsri samkeppni og sjálfri alþjóðavæðingunni. Málið var að undir ISI var markaðurinn fyrir Johnson&Johnson bleijur í Brasilíu verndaður. Johnson & Johnson hefði getað reynt að flytja út vörurnar og þar með notað framleiðsluaukninguna til að hagræða. Hins vegar hafði verndastefnan gert vörur Johnson & Johnson, sem og annarra fyrirtækja í Brasilíu, ósamkeppnisfærar. Árið 1990 var gerð könnun á 220 fyrirtækjum í Sao Paulo og sýndi hún að flest fyrirtækin voru allt að hundrað sinnum óhagkvæmari í framleiðsluferlinu en nauðsynlegt hefði verið til að geta keppt á heimsmarkaði (sjá The Silent Revolution eftir Duncan Greeen bls.14).

Þannig að ríkisverndin og ríkisstyrkirnir höfðu dregið algerlega úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þegar markaðir voru svo opnaðir voru fyrirtæki ófær um að keppa.

Hins vegar má deila um það hvort að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi brugðist rétt við eftir skuldakreppuna 1982. Ólafur Bjarki vitnar einmitt í grein í The Economist, sem ég ætlaði að vitna í (hún heitir því viðeigandi nafni Blame Game)

The IMF is always in a dilemma in such crises. If it provides help to a country whose policies are insufficient, in the Fund’s view, to stabilise the economy, it is failing its duty to member governments and, ultimately, the taxpayers around the world who underwrite its resources. But if it withholds support, it risks driving the economy into an even deeper slump, for which it will surely get the blame. The Fund is in a no-win situation.

Málið er að tæki IMF hafa ekki alltaf virkað. Ef þau hafa virkað þá hefur sjóðurinn verið gagnrýndur fyrir tímabundin slæm áhrif, sem umbæturnar hafa valdið. Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki er hægt að ætlast til að sjóðurinn komi inn og umbreyti þjóðfélaginu til hins betra án allra fórna. Það hefur hins vegar sýnt sig að alþjóðavæðing er það kerfi, sem hefur reynst flestum þjóðum best. Þrátt fyrir það hafa vissar þjóðir í þróunarlöndunum átt erfitt með að aðlaga sig að nýrri heimsmynd og alþjóðavæðingunni.

Kannski er það réttmæt gagnrýni hjá ýmsum andstæðingar alþjóðavæðingar að IMF leggi alltaf til sömu lausnirnar. Hins vegar hafa þessar lausnir virkað vel fyrir vesturlönd og menn hafa ekki ennþá fundið aðrar lausnir, sem virka betur fyrir þróunarlöndin.

Öruggt er þó að lausin fyrir þessi lönd er alls ekki að loka sig af og hafna alþjóðavæðingunni.

Alþjóðavæðing fyrir lengra komna

Stefán Pálsson skrifar í dag grein á Múrinn um alþjóðavæðingu.

Greinin er í raun ekki galin, þar sem hún í raun bara nefnir nokkrar tölur um það hvernig hagvöxtur hefur farið minnkandi í ýmsum fátækari löndum heimsins, svo sem Suður-Ameríku og gefur í leið í skyn að vandamálin séu alþjóðavæðingu að kenna.

Stefán talar um efnahagskerfi Suður-Ameríku frá 1960-1980. Á þeim tíma (og reyndar mun fyrr, alveg frá lokum Kreppunnar) var kerfið byggt uppá því, sem kallast “Import Substituted Industrialization” (ISI). Hugmyndin var sú að þessar þjóðir myndu byrja að framleiða flestar neysluvörur sjálfar. Með því yrðu þær ekki eins háðar öðrum þjóðum. Varð þessi hugmynd vinsæl vegna þess að margar þessar þjóðir höfðu horft fram á hrun í hagkerfunum þegar verð á einstökum vörum duttu niður. Þannig kom t.d. Brasilía mjög illa út úr því þegar verð á gúmmíi og kaffi duttu niður. Lausnin var að mati stuðningsmanna ISI að leggja tolla á innfluttar vörur og nota tollapeningana til að styrkja innlendan iðnað.

Hugmyndin við ISI kann að hafa virkað nokkuð góð í upphafi en hún virkaði einfaldlega ekki. Vandamálið var fyrst og fremst að þessar þjóðir urðu með ISI enn háðari erlendum þjóðum vegna þess að þær þurftu að kaupa vélar og tækni frá þróaðri þjóðum.

ISI lofaði í fyrstu góðu og nutu menn einsog Perón í Argentínu og Vargas í Brasilíu góðs af hagvextinum. Vandamálið var hins vegar að skuldir þjóðanna jukust jafnt og þétt. Gripu margir leiðtogar því til þessa ráðs að prenta peninga til að borga skuldir. Leiddi þetta til óðaverðbólgu í mörgum löndunum (verðbólga í Bólivíu varð eitt árið 22.000 prósent!).

Það, sem Stefán minnist ekkert á er af hverju þjóðir hættu að notast við þetta kerfi, sem hann gefur í skyn að sé svo gott. Ég ætla að rifja það upp fyrir honum. Árið 1982 gerðist það nefnilega að stjórnvöld í Mexíkó sögðu einfaldlega að þau hefðu ekki lengur efni á að borga skuldirnar sínar. Landið hafði viðhaldið hagvexti með stöðugum lántökum (mikið af olípeningunum frá OPEC ríkjunum voru lánaðir til ríkja í Suður-Ameríku). Kreppan, sem fylgdi í kjölfarið er oftast nefnd “debt crisis”. Bankastofnanir fóru allt í einu að óttast um innistæður þróunarlanda og sáu menn nú að þessar skuldasafnanir gengju ekki endalaust.

Til að bjarga efnahagnum í Mexíkó kom alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lagði fram stærsta lán í sögunni. Það var náttúrulega öllum augljóst að bankinn ætlaði ekki bara að lána Mexíkó peningana til að þeir gætu haldið aftur á sömu braut, heldur fylgdu láninu ýmis skilyrði, sem áttu að tryggja að skuldir landsins myndu minnka. Var þetta upphafið að mikilli frjálshyggjubylgju í Suður-Ameríku.

Ég skal vel viðurkenna að alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er alls ekki fullkominn, langt því frá. Til dæmis hefur sjóðnum misstekist að bjarga efnahag ríkja í Suður-Ameríku. Hins vegar má benda á það að sjóðurinn neyðir engar þjóðir til að þiggja peninga. Þjóðir koma til sjóðsins vegna þess að þær eru búnar að koma sér í vanda. Vandinn er langoftast heimatilbúinn.

Það er rangt að gefa það í skyn að lækkun hagvaxtar í Suður-Ameríku sé einhvern veginn afleiðing alþjóðavæðingar. Málið er miklu flóknara en svo. Það er hins vegar auðvelt fyrir marga andstæðinga alþjóðavæðingar að benda á dæmi Suður-Ameríku, einsog margra annara landa og halda því fram að vandamál þeirra landa séu alþjóðastofnunum að kenna. Í langflestum tilfellum skapa alþjóðastofnanir ekki vandann heldur þjóðirnar sjálfar. Þegar svo alþjóðastofnunum mistekst að bjarga þjóðum úr slæmum stöðum er stofnunum kennt um og allir verða vitlausir.