Stjórnarslit?

Þettta stendur í frétt 24 stunda:

Innan Samfylkingarinnar eru þrjú atriði helst rædd sem hugsanlegar lausnir á efnahagskreppunni: a) að lýsa yfir vilja til að sækja um aðild að ESB b) sækja um neyðarlán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og c) reka Davíð Oddsson. Báru samfylkingarmenn þá von í brjósti fram eftir degi í gær að forsætisráðherra myndi í stefnuræðu sinni boða einhverjar lausnir.

Má ég biðja um allavegana a) og c)? Og b) væri sennilega ekki óvitlaust heldur.

Gallinn er bara að þrátt fyrir alla galla Sjálfstæðisflokksins, þá væri ástandið varla betra með stjórnarandstöðuflokkunum við stjórnvölinn. Það er vandi Samfylkingarinnar.

Sækjum um ESB aðild strax!

Mið-Austurlandaferð – Eftirmáli 1: Vinstri menn og Mið-Austurlönd

Ferðalagið mitt til Mið-Austurlanda kveikti í mér löngun til að skrifa nokkrar greinar um svæðið útfrá reynslu minni þar. Greinar, sem féllu kannski ekki beint undir ferðasöguna. Allavegana, hérna kemur fyrsta (og miðað við fyrri afköst, hugsanlega eina) greinin. Hún er nokkuð löng og fjallar um afstöðu Íslendinga (og þá aðallega vinstri manna) til Ísraelríkis. Þessi grein birtist í nýjasta tölublaði Herðubreiðar undir heitinu: “Um yndislegt fólk og góðan málstað”.

* * *

Frá því að ég byrjaði að ferðast á eigin vegum hef ég alltaf ferðast til að læra eitthvað nýtt. Ég hef aldrei almennilega skilið ferðalög fólks í kringum mig, sem kýs vikur á sólarströnd umfram fjölmennar borgir og merkilegar fornleifar í framandi löndum. Á þessum ferðalögum er sagan oft ansi lifandi fyrir framan mann, oft skýr og óumdeild. Þegar ég stóð inní S-21 fangelsinu í Kambódíu eða í Helfararsafninu í Washington DC þá var ég ekki í neinum vafa um grimmd Rauðu Khmeranna eða Nasista. Sagan var skýr, enginn vafi var á því hverjir vondu kallarnir voru.

* * *

Á sex vikna ferðalagi mínu í vor um Sýrland, Líbanon, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu flæktust hlutirnir umtalsvert. Á þessum slóðum eru sögulegir atburðir að gerast akkúrat núna. Þarna eru engin söfn, sem sögðu mér hvernig hlutirnir gerðust í raun og hver var sekur, heldur þurfti ég sem ferðamaður að meta ástandið sjálfur – tala við innfædda, lesa blöðin og fylgjast með því sem er að gerast fyrir framan augun á mér. Ég reyndi að láta fyrirfram ákveðnar skoðanir ekki hafa of mikil áhrif á mig og umfram allt að sleppa því að láta tilfinngasemi koma í veg fyrir skynsama sýn á stjórnmál og samfélögin í kringum mig.

Hvernig á ég til dæmis að skilgreina Sýrland? Mér er til efs um að ég hafi nokkurn tímann hitt jafn stórkostlegt fólk og Sýrlendinga. Hvergi hef ég fundið jafn vinalegt og skemmtilegt fólk, sem er jafn laust við alla tilgerð og ég hitti daglega á götum Hama, Aleppo og Damaskus. Fólkið bauð mér uppá te, sagði ítrekað hversu vænt þeim þætti um heimsókn mína til þeirra heimalands og bauð mig ítrekað velkominn. Þetta var líka fólk sem hafði vit á því að dæma bandarískar vinkonur mínar út frá því hvernig þær höguðu sér en ekki hvernig bandaríska ríkisstjórnin hagar sér.

Þetta er skynsamleg hegðun hjá Sýrlendingum. Ég lærði nefnilega í þessari ferð enn betur að aðskilja þá einstaklinga, sem ég kynnist, frá því samfélagi sem þessir einstaklingar mynda. Margir kjósa að verja alltaf ákveðna hópa eða þjóðir sökum þess að einstaklingar, sem tilheyra þessum hópum og þeir hafa kynnst, er indælis fólk. Hvernig er til dæmis hægt að gagnrýna Sýrlendinga þegar að þjóðin samanstendur af öllu þessu yndislega fólki? Til þess að geta gert það verða menn einfaldlega að aðskilja álit sitt á einstaklingunum og því samfélagi sem þeir mynda.

Sýrlendingar eru vissulega gott fólk. Það breytir þó ekki því að þeir mynda samfélag, sem að styður hryðjuverkamenn, elur á Gyðingahatri (í einni bókabúð í Damaskus fann ég í gluggaframstillingu bæði “Mein Kampf” og falsritið “Protocols of the Elders of Zion”) og neyðir kvenfólk til að hylja bæði andlit með sjali og líkamsburði með forljótum og þykkum kápum. Ekki er hægt að kenna eingöngu einræðisstjórn Bashar al-Assad um þetta allt, því þetta eru allt hlutir sem eru útbreiddir um mörg Arabalönd og myndu sennilega ekki breytast þótt að hann léti af völdum seinna í dag.

* * *

Í Palestínu kynntist ég líka yndislegu fólki, sem gaf mér te, bauð mér heim til sín og stoppaði mig útá götu til að hjálpa mér eða bara til að spjalla. Ég eyddi tveimur dögum með Tariq, leigubílstjóra frá Jeríkó á ferð um Jeríkó, Nablus, Ramallah og fleiri þorp þar í kring. Fyrir honum var ekki nóg að keyra mig um, heldur stoppuðum við hjá vinum hans í hverjum smábæ. Þar var mér ávallt tekið einsog þjóðhöfðingja. Enginn spurði mig um stjórnmálaskoðanir mínar, heldur bauð fólk mér bara heim til sín í te þar sem við ræddum um ýmsa hluti. Á Austurbakkanum í Jórdaníu eyddi ég svo tveimur heilum kvöldstundum inná skrifstofu Fayez, eiganda lítils hótels í Amman, þar sem hann sagði mér frá raunum sínum og ferðalögum á milli þess sem við drukkum nánast ódrykkjarhæft arabískt kaffi og reyktum nargileh.

Þessi gestrisni breytir því þó ekki að í heimsókn til eins palestínsk manns þurfti að fela allar konurnar þegar að ég fór inní íbúðina til að fara á klósettið. Það breytir því heldur ekki að í Nablus er miðbærinn nánast veggfóðraður með myndum af unglingsstrákum með vélbyssur, sem hafa sennilega unnið sér það eitt til frægðar að hafa reynt eða tekist að myrða saklausa Ísraela.

Í Ísrael átti ég hins vegar mun erfiðara með að kynnast fólki. Ísraelar eru talsvert lokaðri heldur en Arabar, stelpurnar storma framhjá manni með stór sólgleraugu líkt og þær séu þjálfaðar í því að vera eins svalar og þær geta mögulega verið og ég gat staðið lengi útá götu án þess að fá nokkra aðstoð við að finna safnið, sem ég var að leita að. En Ísraelar mynda hins vegar samfélag sem virðir réttindi samkynheigðra, hefur öflugt dómskerfi (forsætisráðherrann þarf þegar þetta er skrifað að verjast ákærum um spillingu, nokkuð sem væri óhugsandi í flestum Arabalöndum), virðir málfrelsi og síðast en ekki síst veitir konum sömu réttindi og körlum.

Þrátt fyrir að vinstri menn styðji í dag flestir lýðræði og kvenréttindi, þá láta flestir einsog að þau mál skipti engu þegar að kemur að því að tala um Ísrael. Bandaríkjamenn, þar á meðal vinstri menn, horfa margir hverjir í gegnum fingur sér þegar talað er um slæmu hlutina, sem að Ísrael gerir í samskiptum sínum við Palestínumenn, eingöngu vegna þess að þeir telja Ísrael vera einu vonina í Mið-Austurlöndum þegar að kemur að lýðræðis-, réttar- og kvenfrelsismálum. Ansi margir evrópskir vinstri menn virðast hins vegar láta það sig litlu varða að í Ísrael sé virkt lýðræði þar sem að vinstri og hægri flokkar hafa skipst á völdum og að þar sé konum frjálst að vinna við það sem þær vilja, klæðast því sem þær vilja og giftast þeim sem þær kjósa.

* * *

Ég hef oft lent í umræðum um ástandið í Mið-Austurlöndum og án efa oftar en einu sinni gerst sekur um að fullyrða um hluti sem ég hafði ekki nógu mikið vit á. Það skrýtna við þær umræður er sú staðreynd að inntak og áherslur ummæla minna breytist oft eftir því hvar ég er staddur eða við hvern ég er að tala.

Þegar að kemur að málefnum Ísraels og Palestínu þá hef ég alltaf talið að mínar skoðanir séu hófsamar. Ég trúi á tveggja ríkja lausn og takmarkaða endurkomu palestínskra flóttamanna. Ég trúi á nauðsyn þess að Gyðingar eigi sitt eigið ríki. Ég trúi því að Jerúsalem eigi að vera skipt og að hún eigi að vera höfuðbrorg tveggja sjálfstæðra ríkja. Ég trúi því að Ísraelsmenn eigi að uppræta landnemabyggðir á Vesturbakkanum, nema rótgrónustu byggðirnar, sem voru undanskildar í Camp David samkomulaginu. Til að vega upp fyrir þær eigi Ísrael að gefa eftir önnur landsvæði. Á móti þurfa Palestínumenn að tryggja það að á Ísrael verði ekki ráðist líkt og gerðist ítrekað þegar að Vesturbakki Jórdan árinnar var undir stjórn Jórdaníu.

Ég trúi því að afstaða Hamas sé óásættanleg, að ekki sé hægt að semja við samtök sem viðurkenna ekki tilvistarrétt Gyðingaríkis í Ísrael. Ég trúi því að ekki eigi að verðlauna hryðjuverk við samningaborðið. Ég trúi því að Ísrael eigi ekki að skila Golan hæðunum nema að tryggt sé að raunverulegur friður komist á og að Sýrlendingar hætti afskiptum af stjórnmálum í Líbanon. Ég trúi því að Ísrael hafi skilyrðislausan rétt til að verjast árásum á landið. Ég trúi því að Ísrael og önnur lönd eigi að gera allt sem þau geta til að Palestína verði sjálfstætt og farsælt land, meðal annars með því að tryggja að samskipti og samgöngur á milli Gaza og Vesturbakkans verði með besta móti (til dæmis með lest eða öruggum og opnum hraðbrautum á milli svæðanna) og á ferðalagi mínu styrktist sú trú mín að Ísraelar og Palestínumenn séu upp til hópa yndislegt fólk, sem vill frið í sínum löndum. Fólk sem hefur flest nokkuð hófsamar skoðanir, sem eru ítrekað kæfðar í umræðunni af öfgamönnum á báðum hliðum.

Auðvitað er það ekki mitt að dæma hversu hófsamar þessar skoðanir mínar eru. En þær hafa verið tiltölulega óbreyttar í gegnum árin og trú mín á þær efldust á ferðalagi mínu um þessi svæði. Ég hef alltaf reynt að sjá málin frá báðum hliðum, sem veldur því að ef þú bæðir vin minn í Bandríkjunum og vin minn á Íslandi að lýsa skoðunum mínum á þessu eilífa deilumáli, þá fengir þú afar ólík svör. Þetta er allt afleiðing af því hversu lituð umræðan um Ísrael og Palestínu er. Þú annaðhvort “heldur með” Ísrael eða Palestínu og skoðanir margra mótast af því. Það að fólk skiptist í svo einstrengislega hópa gerir umræðuna um þetta málefni erfiða og ýtir undir það að öfgafullar skoðanir fái brautargengi.

* * *

Vinur minn í Bandaríkjunum myndi eflaust kalla mig “stuðningsmann Palestínu”. Ég eyddi ótal klukkutímum á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum í að hneykslast á oft einstrengislegum skoðunum margra innfæddra á málefnum Ísrael og Palestínu. Ég pirraði mig auðvitað á þeim allra öfgafyllstu, sem birtust á sjónvarpsskjánum reglulega og ekki er hægt að taka mark á ef að friður á að nást. Fólk, sem kýs að kalla Vesturbakkann Júdeu og Samöru og neitar að viðurkenna tilvistarrétt Palestínu. Fólk sem að vitnar í 2.000 ára gamla bók til réttlætingar á þeirri skoðun sinni að Ísraelar eigi aldrei nokkurn tímann að gefa eftir einn einasta hektara af landi til Palestínumanna. Þetta fólk vill ekki frið.

Auk þess mótmælti ég líka á fólki, sem litaði alla Palestínumenn sem hryðjuverkamenn. Fólk sem sá myndirnar frá Palestínu eftir 11.september 2001 og ákvað út frá því að allir Palestínumenn gleddust yfir dauða 3.000 saklausra borgara og heldur að svarthvítur klútur lýsi yfir stuðningi við hryðjuverk. Þessu fólki mótmælti ég hvar sem ég gat.

* * *

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þar held ég fram sömu grunn hugmyndunum og ég hélt fram í Bandaríkjunum, en fyrir það hef ég verið kallaður “stuðningsmaður Ísraels” auk þess sem ég hef verið kallaður niðrandi nöfnum fyrir skoðanir mínir, þar á meðal Síonisti (þrátt fyrir að ég trúi því ekki að það sé neikvætt orð, þá var það ekki vel meint) og rasisti (sennilega vegna gagnrýni minnar á múslimska hryðjuverkamenn).

Hérna á Íslandi eru vinir mínir talsvert vinstri-sinnaðri en þeir voru í Bandaríkjunum og þeir sem ég hef kynnst í gegnum störf mín í Samfylkingunni hafa nánast allir skoðanir sem eru afskaplega hliðhollar málstað Palestínumanna og gera lítið úr nauðsyn þess að Ísraelsríki geti varist árásum, sem og þeirri staðreynd að Palestínumenn hafa oftar en einu sinni hafnað sjálfstæðu ríki.

Afstaða vinstri manna á Íslandi til hryðjuverka er líka afar ólík skoðunum sem eru ríkjandi í Bandaríkjunum. Hvort sem það er vegna þess hversu hryðjuverk eru fjarlæg Íslendingum eða vegna einhverra annarra ástæðna skal ósagt látið. Við vinstri menn eigum það kannski sameiginlegt að við reynum að vera eins víðsýn og mögulegt er. Í stað þess að gagnrýna hryðjuverk án athugasemda, þá viljum við oft kryfja málin frekar. Við viljum vita “af hverju” menn grípa til hryðjuverka? Það er vafalaust réttlætanlegt viðhorf. Er ekki í lagi að spyrja hvað í ósköpunum fær fólk til að hlaða sig sprengjuefni, labba inná skemmstistað fullan af ungu og saklausu fólki og sprengja sig í loft upp?

Margir komast að þeirri niðurstöðu að bara örvæntingarfullt fólk geti framkvæmt slík voðaverk. Þegar að ungir Vesturlandabúar ráðast inní skóla alvopnaðir og skjóta unga nemendur, þá fyllist fólk hryllingi og veltir fyrir sér samfélaginu í kringum þá menn. En á endanum þá er bara hægt að kenna samfélaginu um hluta af slíkum voðaverkum. Þegar um múslimska hryðjuverkamenn líkt og þá Palestínumenn, sem sprengja sig í loft upp inní almenningsbifreiðum, er að ræða þá vilja samt margir gera samfélagið og umhverfið að aðalsökudólginum. Þannig að í stað þess að fordæma hryðjuverk Palestínumanna, þá eru eingöngu aðgerðir Ísraela fordæmdar. Menn komast að því að hryðjuverkin séu í raun Ísraelum að kenna. Þeir hafi kallað þau yfir sig.

Þetta vita hryðjuverkamenn í Palestínu. Þeir vita að Ísrael er lýðræðisríki og að óvinsælar ríkisstjórnir eru felldar í kosningum. Því vita þeir að hryðjuverk þeirra munu neyða Ísraela til að bregðast við. Engin ríkisstjórn getur réttlætt það fyrir borgurum sínum að gera ekki neitt í kjölfar sí-endurtekinna hryðjuverkaárása. Þess vegna bregðast Ísraelsmenn við og þurfa að ráðast gegn hryðjuverkamönnum, sem fela sig á meðal óbreyttra borgara. Hvort sem aðgerðirnar eru of stórar eða hófsamar, þá deyja oft saklausir borgarar í aðgerðunum og þeim myndum er hægt að halda á lofti fyrir allan umheiminn til að sýna meinta grimmd Ísraelsmanna. Á endanum eru það því í hugum margra ekki hryðjuverkamennirnir sem eru sekir, heldur landið og fólkið sem þeir ráðast gegn.

* * *

Í Evrópu hefur á undanförnum árum borði meira á áróðri gegn Gyðingum. Margir afsaka það með staðhæfingum um að þetta endurnýjaða Gyðingahatur sé eingöngu hægt að rekja til framgöngu Ísraelsmanna. Það er þó langt frá sannleikanum. Amos Oz, ísraelskur rithöfundur, skrifaði einu sinni:

“Þegar pabbi minn var ungur maður í Vilnius, þá stóð á hverjum vegg, “Gyðingar, farið heim til Palestínu”. Fimmtíu árum seinna þegar hann fór í heimsókn aftur til Evrópu, þá stóð á veggjunum, “Gyðingar, farið útúr Palestínu”.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að gagnrýni á Ísraelsríki er fullkomlega réttlætanleg. En til þess að svo sé þarf hún samt sem áður að uppfylla ákveðin skilyrði og þar er einna mikilvægast að hún sé ekki byggð á almennum Gyðingafordómum. Í bókinni “The Case for Peace: How the Arab-Israel conflict can be resolved” leggur Alan Dershowitz til ágætis skilgreininga-atriði um það hvernig aðgreina skuli lögmæta gagnrýni á Ísraelsríki frá gagnrýni sem er byggð á Gyðingafordómum. Meðal þeirra 20 atriða sem hann segir gefa til kynna að gagnrýni á Ísrael sé byggð á Gyðingafordómum nefnir hann:

  • Þegar aðgerðum Ísraela er líkt við Nasista
  • Að vilja refsa Ísraelum einum fyrir hluti sem viðgangast í mörgum löndum og að gera þá kröfu að Gyðingar séu á einhvern hátt betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba.
  • Að halda því fram að Ísraelar séu verstir allra þjóða í einhverju jafnvel þótt það sé fjarri sannleikanum.
  • Að kenna Ísrael um öll vandamál heimsins og ýkja áhrif deilnanna í Ísrael og Palestínu á alþjóðastjórnmál.
  • Þegar ákveðnar steríótípur sem oft eru notaðar af Gyðingahöturum eru notaðar til að lýsa öllum stuðningsmönnum Ísraelsríkis. Svo sem þegar mikið er gert úr völdum Gyðinga um allan heim (t.d. í Bandaríkjunum) eða þeir eru teiknaðir sem grimmir og ljótir gamlir menn með löng nef.

Eflaust má rökræða um sum þeirra 20 atriða, sem að Dershowitz nefnir, en ég tel þó að þessi ofarnefndu atriði bendi oftast til að röksemdafærslan mótist af fordómum.

* * *

Á Íslandi er oft talað á furðulegan hátt um Gyðinga. Þegar að illa er talað um múslima rísa, sem betur fer, margir upp og mótmæla. Þegar að hins vegar er illa talað um Gyðinga og Ísrael, þá er oft einsog allt sé leyfilegt.

Hér sjást oft merki um Gyðingahatur og fordóma, sem ég hef aldrei skilið ræturnar á. Fyrir uppáhalds fótboltaliðið mitt á Englandi spilar ísraelskur landsliðsmaður. Hann er sá eini, sem ég hef heyrt blótað vegna trúarbragða sinna. Þegar hann klúðrar færum hef ég á sportbörum heyrt “helvíts Gyðingurinn” – og sjaldan er kvartað undan slíkum ummælum. Önnur birtingamynd þessa er sú að fæstum virðist þykja mikið til þess koma þegar að ákveðin hegðun fólks er tengd við Gyðingdóm. Þannig þykir mörgum ekkert óeðlilegt við að kalla fólk “Gyðing” vegna þess að það er nískt. Þetta eru þó grófir fordómar, sem byggjast á aldagamalli steríótípu um það hvernig hinn illi, grimmi og níski gyðingur misnotaði aðstöðu sína.

Þessar steríótípur lifa enn vel í Mið-Austurlöndum þar sem það er alls ekki óalgengt að Gyðingar séu teiknaðir í blöðum sem ljótir gamlir kallar með langt nef og langa höku. Í fréttatíma á Stöð 2 fyrir nokkrum mánuðum þótti Katrínu Pálsdóttur af einhverri ástæðu eðlilegt að enda frétt um ferð Barak Obama til Ísraels á þessum orðum:

>”Gyðingar eru áhrifamiklir í Bandaríkjunum og meðal annars eiga þeir og reka flesta fjölmiðla þar í landi.”

Hvaðan Katrín fær þessar upplýsingar eða hvaða máli þær skipta, veit ég ekki. Tilgangurinn getur vart verið annar en sá að ýta undir aldagamlar steríótípur um valdamiklu Gyðingana sem að öllu stjórna á bakvið tjöldin.

Eftir ferð Alþingismanna til Ísrael og Palestínu árið 2005 tók Jónína Bjartmarz í viðtali á vísi.is undir þau orð Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að múrinn, sem að Ísraelsmenn höfðu byggt á Vesturbakkanum, minnti helst á gettóin á tímum Nasista!

Eins fráleit og þessi samlíking er fyrir hvern þann sem hefur lesið sögubækur eða heimsótt Vesturbakkann og svo Helfararsafnið á Yad Vashem hæðinni í Jerúsalem, þá þjónar hún þem tilgangi að fríja Evrópubúa undan ábyrgð á Helförinni. Þegar aðgerðum Ísraela er á jafn fráleitan hátt líkt við aðgerðir Nasista þá er undirtónninn alltaf sá sami: “Sjáiði hvað Gyðingarnir gera þegar þeir hafa völdin! Þeir eru alveg jafn slæmir og Nasistarnir sem ofsóttu þá”.

* * *

Á ferðalagi um Vesturbakkann átti ég oft á tíðum erfitt með að gera mér grein fyrir því af hverju svo margir vinstri menn í Evrópu setja baráttuna fyrir Palestínu ofar flestum öðrum baráttumálum. Hvað er það sem gerir raunir Palestínumanna að svona heitu máli? Það var vissulega margt sem mér misbauð á þeim dögum sem að ég eyddi á Vesturbakkanum. Ísraelskar landnemabyggðir (þótt að sumar eigi sér mjög langa sögu) eru margar hverjar nýlegar og umfang þeirra og öryggissvæði í kringum þær gera ferðalög um Vesturbakkann afskaplega erfið. Hvað eftir annað þurftum við að fara framhjá vegatálmum, þar sem við vorum stoppuð á palestínskum bíl á meðan að bílar með ísraelsk númer fengu að keyra áfram. Það er ekki erfitt að ímynda sér hversu niðurlægjandi það er fyrir Palestínumenn. Fyrir Evrópubúa sem heimsækir Ísrael og Palestínu beint frá Evrópu er líka eflaust margt sem að stingur í augað. Ástandið í Palestínu er vissulega umtalsvert verra en í Ísrael, vegirnir eru verri, húsin hrörlegri, búðirnar fátæklegri og svo framvegis.

Hafi maður hins vegar heimsótt önnur Arabalönd, þá lítur ástandið öðru vísi út. Í Líbanon er öryggisgæslan miklu öflugri – þar var ég stöðvaður 10 sinnum á stuttu ferðalagi á milli Baalbek og Beirút og hvað hið almenna ástand varðar, þá er afskaplega erfitt að greina á yfirborðinu mikinn mun á efnahagslegum lífsgæðum í Palestínu og stórum hluta Sýrlands. Sem ferðamaður sér maður auðvitað aðeins hluta sannleikans, en ég tel þó að minn ferðamáti leyfi mér að sjá betur ástand almennra borgara. Miðað við Ísrael er ástandið vissulega slæmt, en sé ástandið í Palestínu miðað við Jórdaníu eða Sýrland, þá virðist munurinn (allavegana á yfirborðinu) ekki vera mikill. Þessi aðstöðumunur og meint kúgun Ísraela skýrir það heldur ekki af hverju Palestínumenn fá samúð evrópskra vinstri manna umfram til dæmis Kúrda í Sýrlandi eða aðrar kúgaðar og landlausar þjóðir um heim allan, sem búa við umtalsvert verri aðstæður en Palestínumenn án þess þó að hafa gripið til hryðjuverka.

* * *

Samfylkingin er, einsog í mörgu öðrum málaflokkum, í erfiðri stöðu þegar að kemur að málefnum Ísrael og Palestínu. Til vinstri við flokkinn eru Vinstri Grænir sem hafa sterk tengsl við málstað Palestínu og samtök einsog Ísland-Palestína. Það er því alveg ljóst að sama hversu hliðholl afstaða Samfylkingarinnar verður Palestínumönnum að þeir allra rótækustu meðal stuðningsmanna málstaðar Palestínumanna munu alltaf geta fundið sig betur innan Vinstri Grænna. Hvernig er annað hægt þegar að Ögmundur Jónasson telur Ismail Haniya, leiðtoga Hamas, vera friðarsinna?!

Meðal þeirra sem styðja málstað Ísraela eru svo meðlimir sértrúarhópa orðnir ansi háværir á Íslandi. Á Omega eru til að mynda sjónvarpsþættir þar sem “vinir Ísraels” koma saman til að ræða um ástandið. Þessir vinir landsins eru þó margir eingöngu vinir landsins á þeim forsendum að Ísrael gefi aldrei eftir land til Palestínu og að með því rætist spádómar úr Biblíunni. Með slíka vini þarf Ísrael varla óvini.

Samfylkingin þarf að hundsa á öfgamenn á báðum hliðum, hvort sem þeir verja kosningu Hamas eða krefjast þess að Vesturbakki Jórdan-ár verði ávallt hluti af Ísrael. Í stað þess þarf flokkurinn að fylgja eftir hófsamri stefnu sem að fordæmir ávallt hryðjuverk og reynir ekki að afsaka hryðjuverkamenn vegna þeirra aðstæðna sem þeir eru í, byggir á tveggja ríkja lausn einsog lögð var til í Camp David og krefst þess að kvenrétti, málfrelsi, lýðræði og réttindi samkynheigðra séu virt – alltaf, alls staðar – alveg sama hver hefðin eða trúarbrögðin eru.

McCain, Palin og fóstureyðingar

Andrew Sullivan, Repúblikani og íhaldsmaður, skrifar af hverju John McCain á ekki að verða næsti forseti Bandaríkjanna.  Mæli með þessari grein fyrir þá sem hafa áhuga á stjórnmálum í USA.

Sullivan hittir akkúrat naglann á höfuðið yfir þessari mögnuðu tilefningu Söruh Palin sem varaforsetaefni Repúblikana.  Ástæðan er einföld – að æsa upp Kristna Repúblikana til að mæta á kjörstað – og það gerir hann með því að velja konu, sem er nógu harður andstæðingur fóstureyðinga fyrir þá. Palin er mótfallin fóstureyðingum, jafnvel þótt um sé að ræða sifjaspell eða nauðganir.  Einsog Sullivan segir:

And then, because he could see he was going to lose, ten days ago, he threw caution to the wind and with no vetting whatsoever, picked a woman who, by her decision to endure her own eight-month pregnancy of a Down Syndrome child in public, that he was going to reignite the culture war as a last stand against Obama. That’s all that is happening right now: a massive bump in the enthusiasm of the Christianist base. This is pure Rove.

Yes, McCain made a decision that revealed many appalling things about him. In the end, his final concern is not national security. No one who cares about national security would pick as vice-president someone who knows nothing about it as his replacement. No one who cares about this country’s safety would gamble the security of the world on a total unknown because she polled well with the Christianist base. No person who truly believed that the surge was integral to this country’s national security would pick as his veep candidate a woman who, so far as we can tell anything, opposed it at the time.

McCain has demonstrated in the last two months that he does not have the character to be president of the United States. And that is why it is more important than ever to ensure that Barack Obama is the next president. The alternative is now unthinkable. And McCain – no one else – has proved it.

via Talkinpointsmemo

Sullivan talar líka um viðbjóðslegar auglýsingar, sem að McCain herferðin hefur sýnt að undanförnu í Bandaríkjunum.  Þær eru hreinlega með ólíkindum, sérstaklega þar sem margar þeirra eru byggðar á stórkostlegum ýkjum eða hreinlega lygum.

Til dæmis þessi auglýsing, þar sem menn Obama eru tákngerðir sem úlfar, sem að ráðast á greyið Söruh Palin.  Talað er um að þeir hafi sent með flugi 30 lögfræðinga til að grafa upp skít um Palin.  Vandamálið er bara að þessi lögfræðingafullyrðing er lygi.  Sjá hér.

Hérna er svö allra ömurlegasta auglýsingin þar sem að McCain heldur því fram að eina sem að Obama hafi haft fram að færa í skólamálum sé það að hann hafi barist fyrir því að leikskólabörnum væri kennt um kynlíf áður en þau lærðu að lesa.  Einsog textinn í auglýsingunni segir: “Learning about sex before learning how to read?  Barak Obama – wrong on education – wrong for your family”

Þeir sem eru ekki hálfvitar geta væntanlega gefið sér að þetta er ekki satt, einsog hægt er að lesa um hér.  Obama studdi að það væri kynnt fyrir leikskólabörnum eftir hverju þau ættu að líta varðandi ókunnuga, svo sem einsog óviðeigandi snertingar.  Þessu snúa McCain og félagar uppí það að Obama vilji kenna börnum um kynlíf.

Sorglegt.

(smá viðbót: Palin hefur m.a. afrekað það að ljúga sjö sinnum opinberlega um sama hlutinn eftir að hún var tilnefnd).

Demókratar og Repúblikanar

Þetta graf sem fylgir með [þessari](http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/story/2008/06/09/ST2008060900950.html) Washington Post frétt sýnir greinilega hvar áherslur manna liggja í bandarískum stjórnmálum.

Grafið sýnir það hvernig skattatillögur frambjóðendanna munu koma við fólk í mismunandi innkomu-hópum í Bandaríkjunum.

Skattabreytingar McCain og Obama

Tillögur McCain koma best við þá sem eru með meira en **233 milljónir króna í árslaun** en Obama þeim best sem eru með minna en 1,5 milljón í árslaun.

(via Daily Kos)

Annars hlytur fyndnasta fréttin úr bandarísku kosningabaráttunni að vera sú að McCain, sem hefur gert allt til að láta Obama líta út sem hann sé úr tengslum við bandarískan raunveruleika, gat ekki svarað því **hversu mörg hús hann sjálfur á!** Samkvæmt heimildum Politico á McCain 8 stykki.

Biden

Mikið afskaplega er ég ánægður með [þetta val hjá Obama](http://www.nytimes.com/2008/08/24/us/politics/24biden.html?hp).  Biden var að mínu mati klárlega besti kosturinn í stöðunni, bæði væri hann líklegastur til að hjálpa Obama til að vinna og svo væri hann sennilega besti varaforsetinn af þeim sem komu til greina.

Hérna er ágætis pistill frá David Brooks (sem er íhaldsmaður) um það af hverju Biden sé góður valkostur fyrir Obama.

Gyðingafordómar á Moggablogginu

Þessi grein eftir mig birtist á Vefritinu.

* * *

Þegar ég var að vinna að lengri grein fyrir næsta tímarit Herðubreiðar lenti ég í spjalli við vini mína um almennt viðhorf á Íslandi gagnvart Gyðingum og Ísraelsríki. Almennt séð virðist það viðhorf vera afskaplega neikvætt. Þegar ég reyndi aðeins að kynna mér þetta á bloggsíðum hjá fólki virtist oft vera ansi grunnt á stækum Gyðingafordómum.

Margir halda því fram að aukning á Gyðingafordómum megi eingöngu rekja til aðgerða Ísraels-ríkis.  Sú fullyrðing er fáránleg.  Í raun eins fáránleg og þegar að verjendur Ísraels ríkis halda því fram að öll gagnrýni á Ísrael sé sprottin út frá Gyðingahatri. Því fer fjarri, enda hefur Ísraels-ríki gert sig sekt um fjölmarga hluti sem réttmætt er að gagnrýna.

En hvernig er hægt að greina lögmæta gagnrýni á Ísrael frá gagnrýni sem er að vissu leyti byggð á Gyðingafordómum? Alan Dershowitz leggur í bók sinni The Case for Peace: How The Arab-Israeli Conflict Can Be Resolved til skilgreiningar á því hvernig greina megi þar á milli. Á meðal þeirra atriða sem Dershowitz segir benda til þess að gagnrýnin sé komin til vegna Gyðingafordóma nefndi hann:

  • Að halda því fram að Ísraelar séu verstir allra þjóða í einhverju jafnvel þótt það sé fjarri sannleikanum.
  • Þegar aðgerðum Ísraela er líkt við Nasista
  • Að vilja refsa Ísraelum einum fyrir hluti sem viðgangast í mörgum löndum og að gera þá kröfu að Gyðingar séu á einhvern hátt betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba.
  • Að kenna Ísrael um öll vandamál heimsins og ýkja áhrif deilnanna í Ísrael og Palestínu á alþjóðastjórnmál.
  • Þegar ákveðnar steríótípur sem oft eru notaðar af Gyðingahöturum eru notaðar til að lýsa öllum stuðningsmönnum Ísraelsríkis. Svo sem þegar mikið er gert úr völdum Gyðinga um allan heim (t.d. í Bandaríkjunum) eða þeir eru teiknaðir sem grimmir og ljótir gamlir menn með löng nef.

Í tengslum við greinina eyddi ég smá tíma í að skoða bloggfærslur tengdar fréttum af Ísrael og Palestínu á MBL.is. Margar þessara frétta virtust vera frétta-tilkynningar frá samtökunum Ísland-Palestína, þar sem sagt var af ævintýrum sjálfboðaliða þeirra samtaka. Aðrar voru helst af ferðalagi Barak Obama um svæðið og nýlegum árásum á Gaza.

Hérna fylgja með nokkur ummæli sem sýna að umræðan um Ísrael er oft ekki á háu plani á íslenskum vefmiðlum. Hugsanlega er hægt að finna svipuð komment um Palestínumenn, byggð á öðruvísi fordómum. Þar sem að um það hefur m.a.s. verið skrifuð bók þá ákvað ég að velja Gyðingahliðina á umræðunni. Tilvitnanirnar eru orðréttar og því hafa stafsetningarvillur ekki verið leiðréttar.  Tilvitnanirnar fann ég allar á á um tveggja klukkustunda rápi um Moggabloggið með aðstoð Google.


Fyrst er það mýtan um hina almáttugu Gyðinga, sem allir þurfa að beygja sig undir í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að Gyðingar séu í raun aðeins 2,5% af íbúum Bandaríkjanna.

Óskabarn BNA engu skárri en fyrri forsetar

Barack Hussein Obama er greinilega á sömu bylgjulengd og fyrri foreldrar Ísraels og ætlar hann sér að halda uppi þessari arfleyfð sem ætlar að vera seindræpari en Rasspútín. Ef marka má orð hans og gjarðir er hann mikill vinur lobbíista gyðinga í Bandaríkjunum sem eru jú þeir sem krefjast þess hvað mest að Ísrael sé verndað gegn öllum sem ætla sér að vinna eitthvað gegn Ísrael. Það er líka vitað að það er nánast ógjörningur að verða forseti Bændaríkjanna án þess að hafa stuðning gyðinga og er þetta sagt án allra fordóma. Þetta virðist bara vera svona. Má vera að þessi fullyrðing virðist fordómafull en það er hún ekki, með henni er aðeins verið að sýna hve mikil völd gyðingar í Bændaríkjunum hafa. Þeir eiga gríðarlegt fjármagn, stjórna mörgum stórum fyrirtækjum og blöðum svo fátt eitt sé nefnt.

Ekki séns!

þetta hlýtur að vera ein allsvakalegasta sýndarmennska sem til er. Bandarísk yfirvöld munu aldrei sjá til þess að Palestína öðlist sjálfstæði, og þar af leiðandi, sín eigin viðurkenndu landamæri. Ísraelar hafa í gegnum tíðina haft gríðarlegt tangarhald á bandarískum yfirvöldum. Peningarnir eru bara of stórir í þessum bransa…

Ofbeldi ísraela tekur á síg ótrúlegustu myndir

Ég heyrði því fleygt að nokkrir þeirra “vina Villa vitlausa í Köben” sem skrifa undir “(IP-tala skráð)” af því að það er búið að loka hjá þeim aðganginum að Mbl.is/blogg, séu á launum. Það væri gaman að heyra hvort þeir peningar koma frá Köben, New York eða beint frá Ísrael!

Hvenær drepur maður börn?

Ísraelski herinn og Mossad leyniþjónustan eru tæknivæddustu og fullkomnustu drápsvélar heimsins í dag dyggilega studdum af bandarískum gyðingum


Næst er það algengt stef um að Gyðingar telji sig vera yfir aðrar þjóðir hafna. Menn mistúlka “Guðs útvalda þjóð” einsog það þýði að Gyðingar telji sig öðrum betri.

Framferði ísraela

Gyðingar segjast eiga rétt á landsvæðinu sem var tekið frá Palestínumönnum, því;

1. Þeir séu guðs útvalda þjóð 2. Guð gaf þeim landið (má ég sjá afsalið?).

[og]

Þeirra framferði er íslensku þjóðinni til skammar því við erum með stjórnamálasamband við þessa villimenn

Það minnkar einmitt árásirnar!

Ísraelar eru hálfvitar

[og]

Ég hef ekkert á móti gyðingum sem slíkum, en Ísralesstjórn sýnir djöfullegan hroka og fíflaskap haldandi því fram að þeir séu hin guðsvalda þjóð og ég veit ekki hvað og hvað

fordómar ísraela

Það er dagljóst að ísraelsmenn eru uppfullir af fordómum gagnvart öðrum þjóðum og telja sig öðrum þjóðum æðri. Þeir vilja ekki fyrirgefa og fyrirgefa ekkert.. Þeir hanga á gamla testamentinu eins og heilögum sannleika og nota hana til þess að fá afsökun til þess að misþyrma nágrannþjóðum sínum. Israelar eru aumkunnarverð þjóð í alla staði.

[og]

Maður gæti alveg huxað sér heiminn án ísraelsríkis 🙂

Skyldi vera reiði í Ísrael yfir palestínsku börnunum…

Ah, auðvitað ekki, fyrir Ísraelsmönnum eru Palestínumenn óæðri og þar af leiðandi óþarfi að gráta óæðri börn, drepin af Guðs útvöldu þjóð.

Af einhverjum ástæðum hef ég akkúrat enga samúð með Ísraelsmönnum þegar ógæfan dynur á þeim.

Guðs útvalda þjóð?

Ég efast um að israelar séu guðs útvalda þjóð þar sem þeir eru morðingjar og glæpamenn þeir munu brenna í heilögum hreinsunnareldi guðs,þegar palestínumenn hrekja þá úr landi sínu þó handklæðahausarnir séu vondir þá munu þeir aldrei verða jafn slæmir og israelarnir.


Þá að samlíkingunni við Nasista og þegar tengslin við Helförina eru dregin upp – og að Gyðingar eigi að vera betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba meðal annars í Helförinni.

Gyðingar fyrr og nú

Gyðingar voru ofsóttir fyrr á öldum en núna eru það þeir sem ofsækja aðra. Þeir hafa greinilega ekkert lært á því hvernig það er að vera “fórnarlamb”

Ætli þetta brjálæðislega hatur hermannanna sé tilkomin vegna þess að þeir voru allir umskornir í æsku?

Höfuðlaus her

Fyrir nokkrum árum sagði einn góður kunningi minn að það, versta sem Hitler gerði á sínum tíma var að kenna Gyðingum hvernig á að standa í útrýmingu minnihlutahópa. Ég held að þessi kunningi minn hafi haft nokkuð til síns máls þó hann hafi fengið að heyra hversu mikill rasisti hann væri. Því miður njóta Ísraelsmenn ennþá mikillar samúðar vegna helfararinar í síðari heimstirjöldini.

Gæta skaltu bróður þíns

Já Ísraelsmönnum hefur liðist meira í gegnum tíðina en öðrum. Heimsbyggðin telur sig þurfa að hafa slæma samvisku gagnvart þeim fyrir helförina. Og það launa þeir með því að nýta sér allt sem þeir lærðu í helförinni og haga sér eins gagnvart nágrönum sínum


Og að lokum, hér er gefið í skyn að verk Gyðinga og Ísraela markist af einstakri grimmd og hryðjuverk Palestínumanna eru afsökuð sökum kúgunnar.

Félagi Jesús og júðarnir

Annars hafa blessaðir júðarnir stundum verið hálf svo einkennilegir í tiltektum sínum. Það er til dæmis ógleymanlegt hvernig þeir fóru með lækninn og sósíalistann, félaga Jesús frá Nasaret; þeir létu sér ekki muna um að krossfesta þann góða dreng fyrir kjafthátt og útborutilhneigingar. Öldum síðar myrtu taglhnýtingar peningahyggjunnar, félaga Che Guivara, en hann var líka læknir og sósíalisti.

15 sekúndur … II

Börn drepin, bara svona af þau lágu vel við höggi.

Skotheld heimild?

Það er að sjálfsögðu ekki réttlætanlegt að drepa saklausa borgaraa en þegar fólk elst upp sem fangar í eigin heimkynnum þá er skiljanlegt að það reyni að spyrna á móti með einu aðferðinni sem er í boði

Hvar er Sderot?

Þá kann einhver að segja að það sé ansi lágt lagst að ráðast á leikskóla en því er til að svara að þessar heimatilbúnu eldflaugar Palestínumanna eru ekki það námkvæmar að þeir geti miðað á ákveðin hús heldur senda þeir eldflaugarnar aðeins eitthvert inn á svæði landránsmanna