Halla og konurnar í Íran

Þessi grein eftir mig birtist í morgun á Vefritinu.

* * *

Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist viðtal við Höllu Gunnarsdóttur. Halla, sem varð þekkt fyrir að bjóða sig fram til formann KSÍ og hefur starfað fyrir VG, lýsir þar reynslu sinni úr ferð til Íran. Viðhorf hennar til munar ástöðu kvenna í Íran og á Íslandi er furðulegt. Í viðtalinu segir Halla meðal annars:

“Hugmynd margra er sú, að fyrir byltinguna í Íran hafi þar verið tiltölulega opið og lýðræðislegt samfélag, svo hafi verið gerð bylting og þá haf allt farið aftur til steinaldar.

Halla vill meina að þetta sé vitleysa og heldur áfram:

“Fyrir byltingunaltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltinguna segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.”

Þessi yfirlýsing er með ólíkinum. Hvernig getur Halla haldið því fram að kúgunin sé eins ef að ein tegund af klæðnaði sé bönnuð og þegar að ALLAR tegundir af klæðnaði í heimi, utan einnar, séu bannaðar? Er ekki munur á því hvort að gallabuxur séu bannaðar og því ef að allar konur yrðu skyldaðar til að vera í gallabuxum alla daga, alls staðar?

Það var vissulega svo að konur börðust fyrir því í írönsku byltingunni að þær mættu klæðast Hijab en hætt er við því að barátta þeirra hefði ekki verið svo öflug ef þær hefðu vitað að Hijab yrði í kjölfarið einu fötin sem þær mættu klæðast utandyra það sem eftir lifði ævi þeirra.

Gleymum því heldur ekki að við erum ekki að tala um gallabuxur heldur Hijab, sem í dag er lagt bann við að klæðast í Tyrklandi. Fyrir þá sem hafa ferðast til Íran og Tyrklands þá hlýtur að vera erfitt að halda því fram að það bann við einni tegund af fötum í Tyrklandi komist nálægt því að vera jafn kúgandi fyrir konur og það að þær séu skyldaðar af yfirvöldum í Íran til að klæðast eingöngu Hijab. Hijab er að mörgu leyti framlenging á þeirri hugsun að konan sé eign eiginmannsins og að enginn eigi að fá að njóta þess að horfa á hana nema eiginmaðurinn. Í Íran og nágrannalöndum eru konur neyddar annaðhvort af yfirvöldum eða karlmönnum í kringum þær til að klæðast Hijab þegar þær hætta sér út meðal annarra karlmanna. Hijab felur vöxt þeirra, hár og í mörgum tilfellum andlit líka.

* * *

Þess utan hef ég ekki heyrt marga halda því fram að staða kvenna í Íran fyrir byltinguna hafi verið góð (man reyndar ekki eftir neinum). Því sé ég ekki hvers vegna Halla þarf að afsaka Klerkastjórnina með því að halda því fram að hlutirnir hafi verið jafn slæmir áður en hún komst til valda. Þetta er sama ömurlega leiðin til réttlætingar á slæmum stjórnvöldum og mörgum vinstri mönnum er tamt að nota í tilfelli Kúbu, þar sem að afleitir stjórnarhættir Fidel Castro eru oft afsakaðir með vísun í það að ástandið hafi jú líka verið svo slæmt undir Batista.

* * *

Halla heldur í þessu stutta viðtali áfram.

“Konur alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það.”

Það er naumast.

Það er semsagt eingöngu stigsmunur á kúgun kvenna á Íslandi og í Íran.

Eflaust hefur Halla heillast af Íran í heimsóknum sínum þangað. Ég er sjálfur nýkominn úr ferðalagi um lönd í nágrenni Íran og verð að játa að ég er gjörsamlega heillaður af fólkinu í þeim löndum. Betra samansafn af vinalegu, gestrisnu og skemmtilegu fólki er erfitt að finna. En þótt að ég hafi fallið kylliflatur fyrir Sýrlendingum og Jórdönum, þá féll ég ekki fyrir því samfélagi sem að þessar þjóðir mynda. Jú, fólkið er yndislegt, en kúgun á kvenfólki er gríðarleg. Jú, fólkið er yndislegt en Sýrland er einræðisríki þar sem að ýtt er undir Gyðingahatur í skólum.

* * *

Ef marka má frásagnir þeirra ferðamanna, sem ég hef hitt, þá eru Íranir líkt og Sýrlendingar yndislega gestrisið og gott fólk. Það breytir því ekki að, hvort sem það er Klerkastjórninni eða Shah að kenna, þá er kúgun kvenna í Íran meðal annars svo háttað í dag:

  • Baráttukonur fyrir kvenréttindum hafa ítrekað verið handteknar í landinu. Í fyrra komst það í fréttirnar þegar að 26 baráttukonur voru handteknar nokkrum dögum fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna og sátu tvær þeirra í einangrun í 15 daga.
  • Karlmenn eiga að taka allar ákvarðanir inná heimilinu og þeir fá ávallt forræði yfir börnum í skilnaðarmálum. Fóstureyðingar eru nánast allar ólöglegar í Íran, meira að segja þegar um nauðgun er að ræða.
  • Konur eru neyddar til að hylja allan líkama sinn utan andlits og þær mega ekki nota snyrtivörur. Kvenhatur klerkanna hefur gert konur einar að sökudólgi fyrir kynferðislega löngun og því þarf þær að hylja. Konur máttu eftir yfirtöku Klerkastjórnarinnar giftast 9 ára gamlar þótt margir hefðu viljað hækka þann aldur í 14 ár.
  • Ríkisstjórn Ahmadinejad hefur gert margt til að reyna að aðskilja konur og karla enn frekar (í viðbót við að vera til dæmis aðskilin með öllu í skóla), meðal annars með því að setja upp kynjaskiptar lyftur í opinberar byggingar meðan hann var borgarstjóri í Tehran.
  • Í íranska réttakerfinu eru ótal dæmi um það að konur séu taldar óæðri verur. Til að sanna framhjáhald þarf til að mynda vitnisburð tveggja karlmanna eða fjögurra kvenna.

* * *

Einnig segir Halla í viðtalinu af því sögu þegar að eiginmaður í Íran ákvað að svara sjálfur öllum þeim spurningum sem var beint til eiginkonu hans á meðan að eiginkonan bar fram te! Höllu fannst það þó ekki dæmi um “kúgunarsamband” þar sem að konan hafði gifst 15 ára gömul og því hefði sambandið alltaf verið svona!

Þetta er furðulegt dæmi um tilhneigingu margra vinstri manna til að afsaka kúgun kvenna í Múslimalöndum.

* * *

Þess má líka að lokum geta að á Íslandi hlaut Halla sjálf gríðarlega athygli og stuðning þegar að hún bauð sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands.

Þar til fyrir tveim árum máttu konur í Íran ekki einu sinni horfa á fótboltaleiki.

Það væri gaman að sjá hversu langt kúgun á kvenfólki þarf að ganga til að Halla telji að eðlismunur sé á henni og kúgun kvenna á Íslandi. Dæmin í Íran eru öll um kúgun á kvenfólki, sem er sprottin af einstöku kvenhatri og kvenfyrlitningu. Skoðanir sem byggjast á þeirri trú að konur séu líkamlega, gáfulega og siðferðilega óæðri karlmönnum.

Að kalla muninn á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi eingöngu “stigsmun” gerir, af engu tilefni, lítið úr kúgun kvenna í Íran.

Hvar ætlar þú að búa?

Þessi grein eftir mig birtist í gær á Vefritinu

* * *

Kjördæmaskipulagið á Íslandi gerir það að verkum að stjórnmál snúast oft á tíðum um baráttu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Vegna ranglætis í kjördæmaskipulagi og mismunandi vægis atkvæða þá hefur landsbyggðin ávallt haft sterkari rödd á Alþingi okkar Íslendinga.

Ansi margir af þingmönnum landsbyggðarinnar, sem eru flestir komnir yfir fimmtugt (meðalaldur landsbyggðarþingmann er samkvæmt mínum útreikningum 55 ár), virðast líta á það sem sitt helsta hlutverk að stöðva flótta fólks frá þeirra kjördæmum yfir á höfuðborgarsvæðið.

Aðgerðir þeirra hafa tvenns konar áhrif. Fyrir það fyrsta draga þær meiri pening til landsbyggðarkjördæma til ýmissa verkefna, hvort sem það er til vegaframkvæmda, atvinnuskapandi verkefna, færslna á stofnunum og öðru slíku. Og í öðru lagi felast áhrifin í því að gera höfuðborgarsvæðið meira óaðlaðandi sem kost fyrir fólk til að búa á. Hvort sem að seinni niðurstaðan er ætlunarverk þeirra skal ósagt látið.

Hins vegar hafa aðgerðir síðasta tveggja samgönguráðherra verið nánast fjandsamlegar fyrir Reykjavík. Fyrir það fyrsta þá hafa þessir ráðherrar dregið ótrúlega lengi lagningu Sundabrautar. Þeir virðast engar áhyggjur hafa af þeim gríðarlegu tekjum sem tapast þegar að þúsundir höfuðborgarbúa þurfa að sitja í bílum sínum í mun lengri tíma en væri nauðsynlegur ef að Sundabraut væri staðreynd.

Í öðru lagi hafa þessir tveir ráðherrar gert allt sem í þeirra valdi stendur til að festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í sessi. Byggingarlandið, sem flugvöllurinn liggur á, er verðmætasta byggingarland höfuðborgarinnar. Það sem meira er, þetta land er sennilega okkar besta og hugsanlega síðasta tækifæri til að búa til í Reykjavík heillandi borgarsamfélag og forðast þá niðurstöðu að Reykjavík verði eingöngu samansafn af úthverfum tengd saman með hraðbrautum.

* * *

Ég nefni aldur þingmanna ekki vegna þess að ég hafi eitthvað sérstaklega á móti fólki, sem er komið yfir fimmtugt, heldur eingöngu til að benda á að þingmennirnir upplifðu allt annan raunveruleika á þeirra þrítugsaldri heldur en ungt fólk upplifir í dag. 55 ára gamall þingmaður var 41 árs gamall þegar að EES samkomulagið var gert. Einstaklingur sem var tvítugur árið 1973 stóð frammi fyrir allt öðrum (og færri) möguleikum en tvítugur einstaklingur gerir í dag.

Sennilega var það svo í kringum 1970 að fólk velti því í alvöru fyrir sér hvort það ætti að búa á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Í dag er það hins vegar svo að fæstir þeirra, sem hafa alist upp á höfuðborgarsvæðinu, hugsa til landsbyggðarinnar þegar þeir ákveða hvar þeir skuli búa.

Nei, alþjóðavæðingin og aðild okkar að EES hefur gert það að verkum að ungt fólk í dag horfir til allrar Evrópu þegar að það veltir því fyrir sér hvar það ætli að búa. Vel menntaður ungur Íslendingur getur sótt um vinnu í París, London, Róm, Kaupmannahöfn eða Madrid alveg einsog í Reykjavík. Þessar borgir bjóða uppá hlýrra loftslag, þróaðra borgarsamfélag, betri menntunarstofnanir, öflugra listalíf og svo framvegis og framvegis.

* * *

Því fer fjarri að ég hafi eitthvað á móti landsbyggðinni. Ég er alinn upp í borg og vil einfaldlega búa í borg. Þetta snýst bara um smekk minn. Málið er einfaldlega að þótt landsbyggðarþingmenn haldi enn að valið hjá ungu fólki standi á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, þá tel ég að það standi miklu frekar á milli Reykjavíkur og London, Kaupmannahafnar eða annarra evrópskra stórborga.

Þess vegna ættu stjórnmálamenn að hætta að reyna að spyrna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ættu að greiða götur nauðsynlegra samgöngubóta og þeir ættu að styðja það að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði fjarlægður hið fyrsta og að þar verði gerð tilraun til að byggja upp borgarsamfélag, sem getur veitt öðrum borgum í Evrópu samkeppni.

* * *

Verkefni nútíma stjórnmálamanna er nefnilega það að auka samkeppnishæfni höfuðborgarinnar við aðrar borgir Evrópu. Þeir Íslendingar sem búa í útlöndum verða að hafa einhverjar ástæður til að flytja heim aðra en þá að margir vina þeirra og fjölskyldumeðlima búi hér. Þetta þýðir að mennta- og velferðarkerfið á Íslandi verður að keppa við það besta sem evrópskar borgir bjóða uppá. Ungt fólk þar að geta gengið að bestu leikskólum og skólum, sem völ er á í Evrópu.

En einnig þá dæmir ungt fólk hvar það mun búa út frá því hvað borgarsamfélagið býður uppá. Flestir Íslendingar virðast sækja í gamlar evrópskar borgir fremur en bandarískar bílaborgir. Hvers vegna reynum við þá að byggja upp bílaborg í Reykavík? Af hverju er ekki meiri áhersla lögð á spennandi miðborgarlíf?

Reykjavík hefur í mínum huga marga kosti sem borg. Ég er alinn upp hér og flestir mínir vina búa hér. Hún býður uppá ótrúlega öflugt menningarlíf miðað við stærð, hvort sem það eru heimsklassa veitingastaðir, leikhúslíf eða tónlistarlíf. Það tekur mig einnig aðeins um hálftíma akstur að vera kominn á gott skíðasvæði, hér eru golfvellir innan borgarmarka, það er stutt í fjallgöngur og ótal aðra útivist sem að íbúa í London tæki marga klukkutíma ferðalag að nálgast.

En hún hefur líka á síðustu árum þróast í átt til bandarískrar bílaborgar, sem er ekki heillandi þróun.

Íslenskir stjórnmálamenn ættu að byrja að hugsa það hvernig þeir geti gert borgina að heillandi stað fyrir unga Íslendinga. Ef þeir gera það ekki, þá munu skæru ljós stórborganna í Evrópu verða sífellt meria heillandi fyrir ungt fólk hér á landi og við eiga það á hættu að missa okkar unga og hæfa fólk til stórborga í öðrum löndum.

Barak og Hillary

Þessi grein eftir mig birtist á Vefritinu í dag

Í Bandaríkjunum er oft sagt að Demókratar séu sérfræðingar í að finna leiðir til að tapa kosningum. Fyrir rúmum sjö árum töldu nánast allir að Al Gore ætti auðveldan sigur vísan í forsetakosningum gegn George W Bush. Gore var varaforseti fyrir gríðarlega vinsælan forseta, sem hafði setið yfir tiltölulega friðsælu hagsældarskeiði. Hann gerði hins vegar of mörg mistök í kosningabaráttunni, svo sem með því að reyna að fjarlægjast Clinton vegna mistaka hans í einkalífinu og með því að virka of stífur í baráttunni ólíkt því sem við höfum átt að venjast á síðustu árum, sem urðu til þess að Gerge W Bush sigraði í eftirminnilegum kosningum.

* * *

Fyrir fjórum árum áttu Demókratar líka að vinna auðveldlega, þar sem fyrstu ár George W. Bush sem forseta höfðu alls ekki reynst farsæl. Íraksstríðið var orðið óvinsælt, efnahagurinn ekki í góðum málum og vinsældir Bush litlar. En Demókrötum tókst að finna John Kerry, sem mótmælti aldrei almennilega ótrúlegum árásum fyrrverandi hermanna úr Víetnam stríðinu, sem sökuðu hann um að hafa ýkt afrek sín. Þær árásir urðu til þess að stríðshetjunni Kerry tókst að tapa fyrir George W Bush, sem fékk að fljúga flugvélum í Texas á meðan að Víetnamstríðinu stóð.

Þannig að einhvern veginn tókst George W Bush að sigra Demókrata í bæði skiptin og 8 ára valdatímabili hans er nú að ljúka. Í fyrsta sinn í nokkra áratugi standa Bandaríkjamenn því frammi fyrir kosningum þar sem hvorki sitjandi forseti né varaforseti er í framboði. Bandaríkjamenn eru á fullu í óvinsælu stríði í Írak, efnahagurinn er í slæmum málum, dollarinn veikur, olíverð í hæstu hæðum , George W Bush með ólíkindum óvinsæll forseti og líklegur kandídat Repúblikana verður 72 ára gamall þegar að kjörtímabilið hefst. Hvernig eiga Demókratar að fara að því að tapa núna?

Continue reading Barak og Hillary

Ó, Villi

Það sem mér dettur í hug eftir daginn:

  • Blaðamannafundurinn áðan hlýtur að vera tilgangslausasti blaðamannafundur sögunnar. Þvílíkt anti-climax eftir tæplega tveggja tíma bið.
  • Röksemdafærslan um að Villi hafi nú þegar axlað ábyrgð útaf því að klúðrið hans sprengdi gamla meirihlutann er með hreinum ólíkindum. Ég hlýt eiginlega að álykta að maðurinn viti ekki hvað það að axla ábyrgð þýðir. Spurning um að halda námskeið uppí Valhöll.
  • Villi “lenti” í þessu REI máli álíka mikið og fólk “lendir” í því að halda framhjá maka sínum.- Ég verð að viðurkenna að ég hef gaman af því að sjá Sjálfstæðismenn klúðra málunum trekk í trekk. Það hlakkar í hluta af mér því ég er sannfærður um að Samfylkingin mun vinnas stórsigur ef að Villi verður í framboði fyrir næstu kosningar, en svo er hluti af mér gráti nær yfir því að Ólafur F. og Villi muni stjórna borginni næstu tvö árin. Þetta verður ekki framfaraskeið.
  • Eru Sjálfstæðismenn alveg hættir að tala um glundroðakenninguna? 🙂
  • Talandi um Ólaf F, þá hefur Villa tekist hið ómögulega. Honum hefur tekist að gera Ólaf F að betri kost þegar að kemur að vali á borgarstjóra. Ef ég á að velja milli Villa og Ólafs, þá lítur Ólafur F ekki jafn hræðilega út og áður.
  • En niðurstaðan er samt sem áður sú að það er svo ótrúlega sorglegt að þessari ágætu borg, sem við búum í, skuli nú vera stjórnað af þessu fólki.

Við eigum betra skilið.

Strámenn og Mogginn

Ég er svona smám saman að reyna að koma mér inní stjórnmálin hérna heima eftir að hafa misst af öllum látunum á meðan ég var erlendis. Ég horfði á Silfur Egils í gær og hef verið að vinna mig í gegnum bunka af Morgunblöðum frá síðustu dögum. Það er í raun magnað að lesa og horfa á margt.

Fyrir það fyrsta, þá er félögum mínum í UJ gerð upp sú sök að þeir hafi skipulagt mótmæli til þess að reyna að láta heilsu hins nýja borgarstjóra hraka. Hvernig nokkrum andstæðingum okkar í pólitík getur dottið í hug að slík ómenni fylli minn flokk er með hreinum ólíkindum.

Og þó er það kannski ekki skrýtið að sumum detti þetta í hug. Morgunblaðið hefur nefnilega lengi staðið fyrir ótrúlegum áróðri gegn Samfylkingunni. Blaðinu tekst illa að finna eitthvað gagnrýnivert við stefnu flokksins og því grípur það til tveggja ráða til að fá útrás fyrir andúð sína á flokknum. Annars vegar að gefa í skyn að flokkurinn hafi enga stefnu og með því að nær þriðjungur þjóðarinnar séu villuráfandi sauðir, sem sjái ekki stefnuleysið. Hitt ráðið er svo að ráðast persónulega að forystufólki flokksins.

Þær árásir hafa náð hámarki nú síðustu daga þegar gefið er í skyn að helstu forystumenn flokksins breiði út óhróðri um veikindi Ólafs F. Magnússonar. Þessa línu endurtaka svo margir Moggabloggarar og Kjartan Magnússon hélt þessu líka fram í Silfrinu í gær. Þrátt fyrir þetta geta þessir aðilar ekkert dæmi um slíkan óhróður nefnt. Eina dæmið sem að hinn reiði Kjartan Magnússon gat nefnt fyrir þessum “rætnustu árásum á seinni tímum” var það að Björk Vilhelmsdóttir nefndi víst í einhverju viðtali að Ólafur F. mætti ekki fá hita og þá væri meirihlutinn fallinn. Einhvern veginn geta Sjálfstæðismenn fundið útúr þessu eitthvað mynstur rætinna árása á geðheilsu Ólafs.

Þetta er með miklum ólíkindum.

Mogginn og aðdáendur hans vita nefnilega að veikindi Ólafs skipta engu máli þegar að kemur að hneykslun fólks yfir atburðum síðustu daga í borginni.  Þeir vilja hins vegar láta einsog svo sé og munu eflaust halda áfram staðhæfa það að gagnrýni á nýjan meirihluti tengist á einhvern hátt meintum fordómum okkar vinstrimanna gagnvart geðsjúkdómum.  Það er ómerkilegur málflutningur og til þess gerður að reyna að draga athyglina frá því stórkostlega klúðri sem þessi nýji meirihluti íhaldsins er.

* * *

Ég rakst þó í dag á algjörlega frábæra grein um þessar nýju Moggalygar: Styrmir býr til Strámann – (Ég mæli með greininni fyrir alla – og hún inniheldur m.a. tilvitnanir í þessa leiðara Moggans)

Höfundurinn rekur það hvernig Mogginn hefur gert Samfylkingarfólki upp skoðanir og hittir svo algjörlega á naglann á hausinn hér:

Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.

Þetta er einmitt mergur málsins. Björgvin Valur bendir líka á þetta á sinni síðu. Þar eru nokkrir bláir pennar að gagnrýna einhverja óskilgreinda vinstri menn fyrir það að ráðast að heilsufari Ólafs. Með þessu eru þeir að reyna að slá pólitískar keilur.

Varðandi Moggann, þá veit ekki hvort ég get réttlætt það lengur að vera áskrifandi að blaðinu. Er það virkilega eitthvað vit í því að kaupa á hverjum degi blað, sem telur mig vera meðlim í flokki sem sé nánast rót alls hins illa á Íslandi? Á ég að borga fyrir það á hverjum degi að ekki sé bara gert lítið úr skoðunum mínum, heldur gefið í skyn að ég, sem og aðrir meðlimir í mínum flokki, hafi engar skoðanir nema þá lífssýn að haga seglum eftir vindi. Á ég að borga á hverjum degi fyrir blað, sem ræðst með svona óvægnum hætti gegn flokksfélögum mínum?

Nei, segja Björgvin, Oddný Sturlu, Dofri og fleiri – og ég hlýt að velta þessu fyrir mér líka.

Grín, er það ekki?

Getur einhver plís sagt mér að þetta sé grín? Að það sé ekki staðreynd að þessir tveir menn ætli að stjórna borginni næstu árin?

Betri ástæðu fyrir því að flytja til útlanda hef ég ekki enn fengið.

Kræst! Íhaldið og Frjálslyndi flokkurinn. Flugvöllurinn áfram og fleiri mislæg gatnamót. Hæ hó jibbí jei.

* * *

Annars höfum við Emil það ljómandi gott í San Francisco. Búnir að borða á fulltaf burrito stöðum, labba um alla borgina og hitta skemmtilegt fólk. Í kvöld er það partí hjá kærustu Dan vinar míns á bar í The Mission.

*Skrifað í San Francisco, Kaliforníu klukkan 18.24*

Skipulagsmál

Ég legg til að ALLIR horfi á Silfur Egils þáttinn frá því í dag (endursýndur klukkan 23.05 og ætti að birtast á netinu seinna í dag). Innslagið um skipulagsmál var frábært. Í raun frábært og grátlegt í senn. Frábært því það sýndi hvað við Reykvíkingar gætum gert úr miðbænum (sem var stutt með frábærum dæmum frá þýskalandi) og grátlegt vegna þess að síðan að ég man eftir mér hefur svo einstaklega lítið verið gert til að bæta miðbæinn. Samanburðurinn við Georgetown fannst mér til dæmis afskaplega góður, en það bæjarhverfi í Washington DC er afskaplega heillandi.

Ég hef trú á því að ansi margir af þeim sem sitji í borgarstjórn (borgarstjóri þar á meðal) vilji sjá svo miklu sterkari miðbæ, en þeir þurfa bara að fara að gera eitthvað í því. Og nei, háar byggingar í Skuggahverfi eru ekki lausnin.

ps. ég skrifaði aðeins lengri pælingu um þetta hér.