Þessi grein eftir mig birtist í morgun á Vefritinu.
* * *
Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist viðtal við Höllu Gunnarsdóttur. Halla, sem varð þekkt fyrir að bjóða sig fram til formann KSÍ og hefur starfað fyrir VG, lýsir þar reynslu sinni úr ferð til Íran. Viðhorf hennar til munar ástöðu kvenna í Íran og á Íslandi er furðulegt. Í viðtalinu segir Halla meðal annars:
“Hugmynd margra er sú, að fyrir byltinguna í Íran hafi þar verið tiltölulega opið og lýðræðislegt samfélag, svo hafi verið gerð bylting og þá haf allt farið aftur til steinaldar.
Halla vill meina að þetta sé vitleysa og heldur áfram:
“Fyrir byltingunaltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltinguna segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.”
Þessi yfirlýsing er með ólíkinum. Hvernig getur Halla haldið því fram að kúgunin sé eins ef að ein tegund af klæðnaði sé bönnuð og þegar að ALLAR tegundir af klæðnaði í heimi, utan einnar, séu bannaðar? Er ekki munur á því hvort að gallabuxur séu bannaðar og því ef að allar konur yrðu skyldaðar til að vera í gallabuxum alla daga, alls staðar?
Það var vissulega svo að konur börðust fyrir því í írönsku byltingunni að þær mættu klæðast Hijab en hætt er við því að barátta þeirra hefði ekki verið svo öflug ef þær hefðu vitað að Hijab yrði í kjölfarið einu fötin sem þær mættu klæðast utandyra það sem eftir lifði ævi þeirra.
Gleymum því heldur ekki að við erum ekki að tala um gallabuxur heldur Hijab, sem í dag er lagt bann við að klæðast í Tyrklandi. Fyrir þá sem hafa ferðast til Íran og Tyrklands þá hlýtur að vera erfitt að halda því fram að það bann við einni tegund af fötum í Tyrklandi komist nálægt því að vera jafn kúgandi fyrir konur og það að þær séu skyldaðar af yfirvöldum í Íran til að klæðast eingöngu Hijab. Hijab er að mörgu leyti framlenging á þeirri hugsun að konan sé eign eiginmannsins og að enginn eigi að fá að njóta þess að horfa á hana nema eiginmaðurinn. Í Íran og nágrannalöndum eru konur neyddar annaðhvort af yfirvöldum eða karlmönnum í kringum þær til að klæðast Hijab þegar þær hætta sér út meðal annarra karlmanna. Hijab felur vöxt þeirra, hár og í mörgum tilfellum andlit líka.
* * *
Þess utan hef ég ekki heyrt marga halda því fram að staða kvenna í Íran fyrir byltinguna hafi verið góð (man reyndar ekki eftir neinum). Því sé ég ekki hvers vegna Halla þarf að afsaka Klerkastjórnina með því að halda því fram að hlutirnir hafi verið jafn slæmir áður en hún komst til valda. Þetta er sama ömurlega leiðin til réttlætingar á slæmum stjórnvöldum og mörgum vinstri mönnum er tamt að nota í tilfelli Kúbu, þar sem að afleitir stjórnarhættir Fidel Castro eru oft afsakaðir með vísun í það að ástandið hafi jú líka verið svo slæmt undir Batista.
* * *
Halla heldur í þessu stutta viðtali áfram.
“Konur alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það.”
Það er naumast.
Það er semsagt eingöngu stigsmunur á kúgun kvenna á Íslandi og í Íran.
Eflaust hefur Halla heillast af Íran í heimsóknum sínum þangað. Ég er sjálfur nýkominn úr ferðalagi um lönd í nágrenni Íran og verð að játa að ég er gjörsamlega heillaður af fólkinu í þeim löndum. Betra samansafn af vinalegu, gestrisnu og skemmtilegu fólki er erfitt að finna. En þótt að ég hafi fallið kylliflatur fyrir Sýrlendingum og Jórdönum, þá féll ég ekki fyrir því samfélagi sem að þessar þjóðir mynda. Jú, fólkið er yndislegt, en kúgun á kvenfólki er gríðarleg. Jú, fólkið er yndislegt en Sýrland er einræðisríki þar sem að ýtt er undir Gyðingahatur í skólum.
* * *
Ef marka má frásagnir þeirra ferðamanna, sem ég hef hitt, þá eru Íranir líkt og Sýrlendingar yndislega gestrisið og gott fólk. Það breytir því ekki að, hvort sem það er Klerkastjórninni eða Shah að kenna, þá er kúgun kvenna í Íran meðal annars svo háttað í dag:
- Baráttukonur fyrir kvenréttindum hafa ítrekað verið handteknar í landinu. Í fyrra komst það í fréttirnar þegar að 26 baráttukonur voru handteknar nokkrum dögum fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna og sátu tvær þeirra í einangrun í 15 daga.
- Karlmenn eiga að taka allar ákvarðanir inná heimilinu og þeir fá ávallt forræði yfir börnum í skilnaðarmálum. Fóstureyðingar eru nánast allar ólöglegar í Íran, meira að segja þegar um nauðgun er að ræða.
- Konur eru neyddar til að hylja allan líkama sinn utan andlits og þær mega ekki nota snyrtivörur. Kvenhatur klerkanna hefur gert konur einar að sökudólgi fyrir kynferðislega löngun og því þarf þær að hylja. Konur máttu eftir yfirtöku Klerkastjórnarinnar giftast 9 ára gamlar þótt margir hefðu viljað hækka þann aldur í 14 ár.
- Ríkisstjórn Ahmadinejad hefur gert margt til að reyna að aðskilja konur og karla enn frekar (í viðbót við að vera til dæmis aðskilin með öllu í skóla), meðal annars með því að setja upp kynjaskiptar lyftur í opinberar byggingar meðan hann var borgarstjóri í Tehran.
- Í íranska réttakerfinu eru ótal dæmi um það að konur séu taldar óæðri verur. Til að sanna framhjáhald þarf til að mynda vitnisburð tveggja karlmanna eða fjögurra kvenna.
* * *
Einnig segir Halla í viðtalinu af því sögu þegar að eiginmaður í Íran ákvað að svara sjálfur öllum þeim spurningum sem var beint til eiginkonu hans á meðan að eiginkonan bar fram te! Höllu fannst það þó ekki dæmi um “kúgunarsamband” þar sem að konan hafði gifst 15 ára gömul og því hefði sambandið alltaf verið svona!
Þetta er furðulegt dæmi um tilhneigingu margra vinstri manna til að afsaka kúgun kvenna í Múslimalöndum.
* * *
Þess má líka að lokum geta að á Íslandi hlaut Halla sjálf gríðarlega athygli og stuðning þegar að hún bauð sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands.
Þar til fyrir tveim árum máttu konur í Íran ekki einu sinni horfa á fótboltaleiki.
Það væri gaman að sjá hversu langt kúgun á kvenfólki þarf að ganga til að Halla telji að eðlismunur sé á henni og kúgun kvenna á Íslandi. Dæmin í Íran eru öll um kúgun á kvenfólki, sem er sprottin af einstöku kvenhatri og kvenfyrlitningu. Skoðanir sem byggjast á þeirri trú að konur séu líkamlega, gáfulega og siðferðilega óæðri karlmönnum.
Að kalla muninn á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi eingöngu “stigsmun” gerir, af engu tilefni, lítið úr kúgun kvenna í Íran.