Uppsögn

Ég er búinn að segja upp [vinnunni](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) minni.

Um síðustu áramót hafði ég áttað mig á því að ég var ekki sáttur við þá stefnu, sem líf mitt virtist vera að taka. Ég var alltaf nokkuð ánægður í vinnunni minni, en samt var það ekki nóg. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað vantaði, en ég var viss um að ég þurfti að breyta einhverju.

Augljósasta byrjunin var að segja upp vinnunni. Því gerði ég það í kringum áramótin. Þá fékk ég hins vegar að vita að það ætti að selja fyrirtækið og því ákvað ég að doka við og verða áfram þangað til að því ferli væri lokið. Núna er það búið og ég því formlega að hætta þann 30.júní.

Ég er búinn að elska þessa vinnu síðustu 3 ár og hún hefur oft á tíðum ásamt Serrano haldið mér gangandi þegar að hlutir í einkalífinu hafa ekki gengið eins vel og ég hefði óskað. Ég hef ferðast gríðarlega mikið og þrátt fyrir að ég kvarti stundum undan álaginu, sem fylgir öllum ferðalögunum, þá hafa þau svo miklu fleiri kosti en galla. Vinnan hefur líka verið gríðarlega krefjandi og skemmtileg og ég hef kynnst fulltaf skemmtilegu fólki. En núna finnst mér ég hafa náð öllum þeim takmörkum, sem ég setti mér í upphafi og því get ég sáttur skilið við starfið.

* * *

Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið um starfslokin, þar sem ég vil klára vinnutímann vel. En það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að í fyrsta skipti á ævinni *veit ég ekkert hvað ég á að gera*.

Að vissu leyti er það óþægilegt, en að öðru leyti yndislegt. Ég hef strax fengið nokkur gríðarlega áhugaverð tilboð og eru sum lygilega góð. Sum þeirra eru á Íslandi, önnur erlendis. Í raun snýst þetta um meira en bara vinnu, því ég þarf líka að ákveða mig *hvar* ég ætla að vinna.

Ég hef semsagt 8 vikur þangað til að ég hætti hjá Danól. Það eru allavegana spennandi tímar framundan. Óvissan er á margan hátt skemmtileg.

Atvinnuástand

athugasemd: Ég var að fara yfir færslusafnið í Movabletype og sérstaklega færslur, sem ég birti ekki af einhverjum ástæðum. Þessa færslu skrifaði ég í hálfgerðu reiðikasti þegar sem allra verst gekk að ráða á Serrano fyrir nákvæmlega tveim mánuðum, eða 9.nóvember.

Ástandið á Serrano hefur bæst mjög mikið og er í fínu ástandi núna. En pistillinn á svo sem enn ágætlega við. 🙂

* * *

Er það ekki ágætis merki um þetta fáránlega atvinnuástand hér á Íslandi að heimasíður [Burger King](http://www.burgerking.is/) og [McDonald’s](http://www.mcdonalds.is/) eru í raun ekkert nema ein stór starfsumsókn? Ekkert um matinn, bara “viltu plííís vinna fyrir okkur?” *(nota bene, BK síðunni hefur núna verið breytt – hún var áður einsog McDonald’s síðan)*

McDonald’s eru svo farnir að eyða milljónum í að birta bandarískar ímyndarauglýsingar, þar sem fólk er hvatt til að koma og vinna hjá þeim.

* * *

Í síðustu viku var hringt í mig af stéttarfélagi og ég spurður um fyrrverandi starfsmann, sem var að sækja um atvinnuleysisbætur. Ég sagði viðkomandi að ég myndi ráð fyrrverandi starfsmanninn á staðnum, hún þyrfti bara að tala við mig. Ég sagði líka að ég gæti reddað henni sirka 50 vinnum. Konan hjá VR sagði mig indælan, en samt þá gæti hún ekkert gert í þessu, því hún vildi fara á bætur.

* * *

Framsóknarflokkurinn er með hugmyndir að þremur álverum. TIL HVERS Í FOKKING ANDSKOTANUM? Ekki getur það hugsanlega verið til að slá á atvinnuleysi. Ef að Halldór Ásgrímsson heldur að það sé eitthvað atvinnuleysi á Íslandi, þá ætti hann að ráða sig sem starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki og reyna að ráða í stöður. Þjóðhagsleg hagkvæmni álveranna er líka vafasöm. Eru framsóknarmenn úr öllum tengslum við íslenskan veruleika?

* * *

Ég talaði við rafvirkja, sem ég þekki vel og hann sagðist hugsanlega getað komið til mín í byrjun desember – eftir fjórar vikur! Ég hef reynt að fá pípara uppá veitingastað í þrjár vikur, en án árangurs. Það talar enginn um það, en ástandið á þessu landi er orðið hreinasti hryllingur.

Ég veit um fullt af fyrirtækjum, þar sem launakostnaður fer uppúr öllu valdi þessa dagana, vegna þess að fyrirtækin eru svo hrædd um að missa fólk. Fyrirtæki halda lélegu starfsfólki af því að þau eru hrædd um að enginn komi í staðinn. Ég þakka allavegana Guði fyrir að vera ekki svo illa staddur með mitt fyrirtæki.

* * *

Á Alþingi segir Menntamálaráðherra að vandamál leikskólanna séu lág laun. Gott og vel, ég get verið sammála því. En það sem vantar inní þessa umræðu er einfaldlega sú staðreynd að það *er ekki nóg fólk á Íslandi*. Ef að fólkið myndi nást inná leikskólana, þá myndi það vanta í aðrar stöður. Við þurfum að auðvelda til muna löggjöf til að fá nýtt fólk inní þetta land. Annars fer þetta allt til fjandans.

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að hvergi í heiminum er jafn erfitt að fá fólk í vinnu og á Íslandi. HVERGI Í HEIMINUM! Ef einhver getur bent mér á verri stað, þá væri það vel þegið.

Ég mun þá ekki opna veitingastaði í því landi.

Nýtt á Serrano – Jibbí

Jæja, mánuði á eftir áætlun, þá erum við búin að uppfæra matseðilinn á Serrano. Staðurinn átti nýlega þriggja ára afmæli og ætluðum við að kynna nokkra nýja rétti í tilefni þess. Sú kynning tafðist þó aðeins, en í dag erum við byrjuð að selja fjóra nýja burrito-a.

Þessi burrito-ar eru ólíkir því, sem við seljum í dag, að því leiti að innihaldið er fyrirfram ákveðið. Það er, að í stað þess að kúnninn velji hráefnið í burrito-inn sinn, þá er hráefnið í þessa nýju burrito-a fyrirfram ákveðið. Það er þó auðvitað hægt að biðja um að breyta frá uppskriftinni.

En allavegana, nýju burritoarnir eru þessir:


**BBQ Burrito**
Kjúklingur, Hrísgrjón, Svartar Baunir, Pico de Gallo Salsa, Maís, BBQ Sósa, Muldar Nachos flögur og Sýrður Rjómi

**Fajitas Burrito**
Kjúklingur, Hrísgrjón, Pico de Gallo Salsa, Steikt Grænmeti, Maís, Ostur og Sýrður Rjómi.

**Grískur Burrito**
Hrísgrjón, Kjúklingur, Pico de Gallo Salsa, Steikt Grænmeti, Kál, Maís, Feta Ostur, Tzatziki Jógúrt Sósa

**Thai Burrito**
Hrísgrjón, Kjúklingur, Pico de Gallo Salsa, Steikt Grænmeti, Maís, Salthnetur, Satay Sósa.


Við höfum verið að prófa þetta að undanförnu á vinum og vandamönnum og höfum fengið gríðarlega góðar viðtökur.

En allavegana, endilega kíkið uppá Serrano í Kringlunni þegar þið klárið jólainnkaupin og prófið nýju réttina. Fyrir ykkur, sem hafið ekki enn prófað, þá hvet ég ykkur auðvitað til að drífa ykkur. Serrano býður uppá ljúffengan og mjög hollan skyndibita. 🙂

Bestu ár ævinnar?

Ég er svo rómantískur að jafnvel þær markaðsherferðir, sem ég stjórna, eru rómantískar. Það kalla ég afrek.


Ég er búinn að eyða þremur klukkutímum í gær og í dag í að skrifa eitt bréf. Það er erfitt að skrifa þegar maður er óviss um efnið eða hverju maður vill koma frá sér. Ég er ruglaður í dag…


Í Kastljósi í kvöld var viðtal við strák úr framhaldsskóla. Hann sagði: “Svo vita allir að bestu ár ævinnar eru árin í framhaldsskóla”.

Er það, já, virklega?

Ég átti samtal um þetta mál útí Amsterdam. Var spurður hvort ég teldi að árin mín í háskóla í USA (sem mér fannst reyndar skemmtilegri en framhaldsskóla-árin) yrðu í framtíðinni talin bestu ár ævi minnar. Ég sagði nei, ég væri ákveðinn í því að þau yrðu það ekki. Ég get hreinlega ekki lifað með þeirri hugmynd að skemmtilegustu ár ævi minnar séu liðin og get ekki skilið fólk, sem segir svona hluti.

Er það ekki algjör uppgjöf að sætta sig við slíkt? Að toppnum séð náð með dauðadrukknum krökkum á menntaskólaböllum á Hótel Íslandi?

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég bögga vini mína oft með það að gera hluti. Ég er ekki sáttur við að lifa lífinu í að vinna, slappa af og kaupa nýtt parket. Ég verð eiginlega bara reiður þegar ég heyri þetta um framhaldsskóla árin og er ákveðinn í að afsanna þessa kenningu, þrátt fyrir að framhaldsskólaárin mín (sérstaklega seinni tvö) hafi vissulega verið frábær.

Mér finnst hins vegar fullt af fólki á mínum aldri vera búið að ákveða þetta og sætta sig við. Það er, að þetta hafi verið bestu ár ævinnar og engin leið til að bæta um betur. Það þykir mér sorgleg.

Vinna og tónlist

Ég er gjörsamlega uppgefinn.

Annan daginn í röð hef ég unnið frá 8 um morguninn til 5 í venjulegu vinnunni og svo allt kvöldið á Serrano. Í gær var ég í vinnu frá 8-23 og í dag frá 8-21. Í gær var ég mættur vegna vesens, en við það fékk ég svo mikið af hugmyndum að ég ákvað að vinna í þeim í dag. Sem ég og gerði. Líður vel, þrátt fyrir þreytuna.

Einhvern tímann í háskóla festist ég í tölvuleik, sem mig minnir að heiti Caesar. Dálítið í anda Sim City. Að vissu leyti finnst mér það að reka veitingastað vera dálítið líkt því að spila þennan leik. Málið var nefnilega að í leikjunum einbeitti maður sér að því að laga eitthvert vandamál. Á meðan maður einbeitti sér að því vandamáli, þá spruttu hins vegar upp 10 önnur vandamál. Þegar maður var búinn að laga þau, þá var gamla vandamálið, sem maður hafði leyst, aftur orðið að vandamáli.

Þannig gekk þetta endalaust. Að stjórna veitingastað er ekki ósvipað. Þegar maður einbeitir sér að því að laga eitt vandamál, þá koma önnur upp. Þegar maður lagar þau, þá kemur gamla vandamálið upp aftur. Þessi rekstur getur verið ofboðslega skemmtilegur (og er það að mínu mati 95% tímans), en líka svo ofboðslega frústrerandi þegar að maður þarf að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur og svo kemst maður að því að vandamál, sem maður hélt að væru endanlega leyst, eru aftur orðin vandamál.

En svona er þetta. Merkilegt hvað ég hef þrátt fyrir allt gaman af þessum veitingastað.


Annars, þá var ég á labbi á laugaveginum fyrir einhverjum dögum og rataði inní Skífuna. Ætlaði að kaupa mér Cardigans diskinn (sem verður bæ ðe vei æ meiri snilld með hverri hlustun). Sá diskur var ekki til, en af einhverjum ástæðum fannst mér einsog ég þyrfti að kaupa eitthvað. Við kassann rakst ég á nýja diskinn með Hjálmum og keypti hann.

Allir (og ömmur þeirra) hafa verið að dásama þessa hljómsveit. Furðulegustu vinir mínir hafa talað um hana og fyrsta diskinn þeirra. Þetta lof fannst mér hálf skrítið, því ég sá ekki alveg appealið við sveitina. En á Snoop Dogg tónleikunum, þá heyrði ég 3 lög með þeim og varð bara nokkuð hrifinn.

Allavegana, mér fannst það nóg til að kaup diskinn og ég verð að játa að mér finnst hann virkilega góður. Diskurinn er búinn að renna í gegn (skv. iTunes) 10 sinnum hjá mér og ég hef haft hann líka í bílnum og þetta er góð tónlist. Frekar rólegt, en grípandi reggí. Nánast öll lögin hafa smogið inní hausinn á mér á einn eða annan hátt. Ég held að ég geti mælt með honum fyrir alla, sem hafa ekki uppgötvað þessa sveit enn sem komið er.

Litli staðurinn okkar þriggja ára

Það er nánast lygilegt að hugsa til þess, en Serrano, litla barnið okkar Emils er orðinn þriggja ára gamall.

Fengum kort frá öllu starfsfólkinu í gær, sem mér þótti geðveikt vænt um. Annars var lítið gert í tilefni afmælisins. Við ætluðum að breyta alveg fullt af hlutum á staðnum, en sökum gríðarlegar þenslu á atvinnumarkaðinum, þá hafa starfsmannamál ekki reynst jafn auðveld og við hefðum óskað.

En breytingarnar munu koma, vonandi aðeins seinna í þessum mánuði. Ég mun kynna þær á þessari síðu, so stay tuned!

Stórt afmælispartý verður líka að bíða, þar sem að Emil er farinn til útlanda og verður úti í mánuð. Ég ætla því bara að halda lítið starfsmannapartý heima hjá mér á laugardaginn. Ég hef ekki djammað á Íslandi í margar, margar vikur, þannig að það verður ábyggilega gaman.

Annars, þá er hérna fyrir þá sem ekki sáu hana í fyrra, Saga Serrano. Í þeirri grein rek ég það hvernig Serrano varð til. Skrifaði söguna fyrir tveggja ára afmælið okkar.

En allavegana, til hamingju með afmælið. Öll þið, sem verslið við okkur reglulega: Takk!

Laust starf í eldhúsi á Serrano

Mér leiðist að nýta þessa síðu sem auglýsingatæki, en ég er í vandærðum. Okkur á Serrano vantar *starfsmann í eldhús*.

Þetta er semsagt vinna frá klukkan 9-5 alla virka daga. Viðkomandi sér um eldhúsið á staðnum. Starfsmaðurinn þarf ekki að vera lærður neitt, en það hjálpar ef viðkomandi hefur reynslu af eldhússtörfum.

Serrano er skemmtilegur vinnustaður, þar vinnur fullt af ungu og skemmtilegu fólki. Vinnutíminn er góður, launin samkeppnishæf og yfirmennirnir eru algjörir snillingar. 🙂

Ef þú hefur áhuga, eða veist um einhvern sem hefur áhuga, láttu mig endilega vita. Okkur vantar starfsmann, sem getur byrjað að vinna strax. Þú getur sent mér tölvupóst og spurt nánar útí starfið og þú getur einnig komið og kíkt á staðinn. Við erum helst að leita okkur að framtíðarstarfsmanni, en við myndum einnig skoða ráðningu í styttri tíma.

Semsagt, okkur vantar starfsmann strax. Ef þú veist um einhvern, eða hefur sjálf(ur) áhuga, endilega sendið email á mig: einarorn@gmail.com, eða hringið í mig í síma 896-9577 eftir klukkan 18 á morgun þriðjudag eða aðra daga í þessari viku.

Vinna

Ég er kominn heim úr vinnunni klukkan korter í fimm!!

Kraftaverkin gerast enn.

Ég ætla að leggjast útá svalir. Er orðinn vel undirbúinn fyrir heimsókn frá [Chupa Chups](http://www.chupachupsgroup.com/) á morgun, svo ég er ekki með vott samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt merkilegra en að liggja í sólinni og hlusta á De La Soul.