Gore vs Bush

Þetta eru án efa þær mögnuðustu kosningar, sem ég hef fylgst með. Ég var byrjaður að fagna í gær, þegar Gore var búinn að vinna Michigan, Florida og Pennsylvania, en svo hrundi þetta allt þegar að, stuttu eftir að Bush var í viðtali, CNN dró spá sína um Florida tilbaka. Ég ákvað því um miðnætti að fara bara að sofa og sjá úrslitin í morgun. Svo náttúrulega vakna ég og sé að menn séu enn að bíða eftir atkvæðum frá Florida.

Í skólanum í dag var það fyrsta sem ég sá þyrla, sem var að sveima yfir skólalóðinni. Ég hugsaði náttúrulega hvort Al Gore hefði tekið valdið í sínar hendur og fengið herinn í lið með sér og framið valdarán. Mikið rosalega hefði það verið spennandi. Fyrir um ári var ég staddur í Paragvæ aðeins nokkrum dögum áður en forsetinn flúði. Þá var ástandið þannig að enginn var úti á götum, nema við Íslendingarnir tveir. Okkur þótti það voða spennandi.

Annars er málið, í sambandi við atkvæðaseðlana í Florida, alger skandall. Málið er að nafn Al Gore var annað nafnið á listanum en til að kjósa hann þurfti fólk að merkja við þriðja boxið. Ef menn völdu annað boxið, sem hefði nú verið lógískt þá kusu þeir Pat Buchanan. Þess vegna fékk Pat Buchanan 3200 atkvæði í sýslu, sem er mjög sterk fyrir Demókrata. Það hefði mátt búast við því að Buchanan fengi um 300 atkvæði. Þannig er ljóst að nær 3000 manns greiddu Buchanan atkvæði óvart. Ef Demókratar fengju þessi atkvæði þá væri það nóg til að vinna Florida.