Kæru fjölmiðlar

Kæru fjölmiðlar.

Ég er búinn að fá nóg.

Ég er búinn að fá nóg af viðskiptafréttum, sem hafa ekkert erindi inní aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvanna. Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa að minnast á þetta, en það er einfaldlega *ekki* svo fréttnæmt þegar að hlutabréf skipta um hendur! Það er í besta falli viðskiptafrétt og ætti því heima í sérstökum viðskipablöðum dagblaðanna, eða þá í sjálfu Viðskiptablaðinu, sem að flestir sem að málin varða, lesa.

Fyrir okkur hin, þá skiptir það hins vegar ekki nokkru einasta máli að 80 milljarðar í hlutabréfum hafi skipt um hendur á sunnudaginn. Þetta varðar mig ekki neitt og ég leyfi mér að fullyrða að fyrir utan þessa nokkru menn, sem stóðu í viðskiptunum og fólk, sem lifir og hrærist á hlutabréfamarkaði, þá skiptir þessi frétt fólk nákvæmlega engu máli.

Hvar í veröldinni þykja hlutabréfakaup svo mikið mál að þau verðskuldi á hverjum degi að vera fyrsta eða önnur frétt sjónvarsstöðva? Svona hlutir gerast á hverjum einasta degi. Karl númer 1 selur karli númer 2 hlutabréf á hverjum degi. Annar þeirra er ríkari, hinn fátækari. Húrra! Þannig gengur markaðurinn, en það skiptir okkur hin nákvæmlega engu máli.

Ef að tilgangurinn með þessum fréttum er sá að láta okkur gapa yfir þessum stóru upphæðum, þá er það bæði asnalegt og tilgangslaust. Ég gapi ekki. Það angrar mig ekkert að þessir menn eigi meiri pening en ég. Þeirra auður breytir engu fyrir mig.

* * *

Á sama hátt þá er það er engin frétt að Tom Jones hafi skemmt í einhverju [nýárspartýi](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1847&gerd=Frettir&arg=6) fyrir Íslendinga í London. Hvað varðar mig það þótt að einhverjir bankaplebbar útí London hafi ekki betri tónlistarsmekk en svo? Eigum við að hrópa úh og ah þegar við horfum á fréttirnar? Eigum við að vera öfundsjúk eða hneykslast á því að menn eyði pening í svona lélega tónlist? Hver er tilgangurinn? Eigum við kannski að vorkenna þeim, eða senda þeim geisladiska með betri tónlist?

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að í engu öðru landi er milliuppgjör fyrirtækja jafnoft í fréttum og hér á Íslandi. Hvaða máli skipta milliuppgjörin mig? Af hverju er ekki hægt að fjalla um þau í viðskiptablöðum líkt og fjallað er um Liverpool í íþróttablöðum? Hvað með það þótt að KBBanki hafi grætt mikið? Hverju breytir það? Hluthafar bankans og starfsmenn fylgjast væntanlega með rekstrinum, en þurfum við virkilega sjónvarpsfréttir þar sem menn gapa yfir hagnaðinum?

Þetta allt saman er að ala undir allsherjar geðveiki hér á landi, þar sem allt snýst um peninga. Enginn er maður með mönnum nema hann eigi kauprétt á hlutabréfum og vinni í banka. Menn kaupa flugfélög til að reka þau sem fjárfestingarfélög og skila pappírshagnaði á meðan að flugreksturinn er rekinn með tapi. Af því að fréttirnar hafa kennt okkur að peningurinn verður ekki til í rekstri. Hann verður til með því að kaupa og selja hlutabréf. Þeir, sem leggja sitt undir að stofna lítil fyrirtæki eru í raun bara kjánar, því menn græða ekkert á því að reka fyrirtæki, heldur einungis á því að kaupa og selja bréf í öðrum fyrirtækjum.

* * *

En það skiptir svo sem ekki öllu máli. Vandamálið er bara að ég vil fá alvöru fréttir. Fréttir, sem skipta máli. Ég vil vita hvað er að gerast útí heimi. Það er svo margt að gerast útí heimi, sem er fróðlegra og mikilvægara en milliuppgjör Landsbankans. Af hverju er okkur ekki sýnt það? Það myndi eflaust gera okkur öllum gott. Í stað þess að hafa áhyggjur af því að einhverjir græði á pappírskaupum, þá gætum við byrjað að hafa áhyggjur og áhuga á því, sem skiptir í raun máli í þessum heimi. Það væri okkur öllum hollt.

kveðja,

Einar Örn

20 thoughts on “Kæru fjölmiðlar”

 1. hæhæ…. fyrst vil ég þakka fyrir góða síðu og skemmtilegar skoðanir þó ég sé ekki alltaf sammála.. verð samt að segja að ég er fullkomlega sammála þér, bý í Barcelona og ákvað að reyna að fylgjast aðeins með fréttum, er eiginlega hætt að nenna því, horfi frekar á katalónsku fréttirnar,fæ þó allavegna að vita hvað er í gangi í heiminum 🙂 það má alveg fara að endurskoða þarna á klakanum hvað er fréttnæmt og hvað ekki… annars bara gleðilegt ár :biggrin:

 2. æh hvað ég er sammála þér, þetta er ömurlega leiðinlegt og ekki neitt sem skiptir máli. Gætu þau ekki bara haft vikulega viðskiptafréttaskýringaþætti (vá langt orð) fyrir þau sem vilja? Þá gæti maður allavega bara sleppt því að glápa á þá í staðinn fyrir að vera alltaf að hækka og lækka í fréttunum..

 3. Er alveg sámmála því að fréttamennska hér á Íslandi er ekki upp á marga fiska.

  Því miður tel ég að fjölmiðlar hafi smitast af íslensku samfélagi þar sem að gífurleg neysluhyggja ræður ríkjum. Enginn er maður með mönnum nema þeir eigi hlutabréf og vinni í banka eins og þú segir. Fólk veltir miklum vöngum yfir hvað náungin við hliðina á er með í laun og menn eiga erfitt með að samgleðjast náunganum.

  Það er sorglegt að reka heila fréttastöð án þess að geta gert erlendum fréttum þokkaleg skil. Í þau skipti sem ég hef kveikt á NFS í hádeginu þá hefur staðið yfir upplestur úr fréttablöðum dagsins, þar sem farið er yfir viðskipti á fjármálamarkaði á Íslandi.

  Þessar fréttir sem maður les um að maður hafi svipt sig lífi í kjölfar greinar eru mjög sláandi. Það gat svo sem komið af svona válegum atburði þar sem að blaðið hefur lagt sig fram við að eyðileggja mannorð og æru fólks í stað þess að flytja málefnalegar fréttir. Svona fréttamennska er til skammar og ekki til neinna hagsmuna.

 4. Annað sem er hvimleitt við fjölmiðlana er fréttamatið í erlendum fréttum. Þar er tekin línan: ef það þykir fréttnæmt í Bretlandi eða Bandaríkjunum, þá er það fréttnæmt hér.

  Muna menn eftir því fyrir nokkrum árum síðan þegar breska sjónvarpskonan Jill Dando var myrt af óðum manni? Jill Dando stýrði einhvers konar “Ísland í býtið”-þætti í Bretlandi, ENGINN sem ekki hafði búið í Bretlandi þekkti þessa konu. Auðvitað varð þetta gríðarlegt mál þar í landi, á sama hátt og það yrði hér á landi ef einhver af umsjónarmönnum Kastljóssins fyndist í blóði sínu á götu.

  Fyrst í stað rataði morðið ekki inn í fréttirnar hérna, en eftir að allar forsíður höfðu verið undirlagðar í Bretlandi í hálfa viku fóru íslensku fréttamennirnir á taugum og ályktuðu að úr því að The Sun og The Times væru bæði á bólakafi i málinu, þá hlyti það að vera fréttnæmt hér. Og í kjölfarið fengum við reglulega fregnir af framvindu rannsóknarinnar og síðar réttarhaldsins í morðmáli Jill Dando.

  Sami skortur á færni til að greina milli mikilvægra og ómikilvægra upplýsinga veldur því að við fáum endalausar fréttir af fellibyljum í Bandaríkjunum. Vissulega eru 2-3 á ári þess eðlis að þær fregnir séu markverðar út fyrir það landsvæði sem fyrir þeim verður – en hversu fáránlegt er það þegar tuttugasta fréttin birtist af íbúum Flórída sem negla hlera fyrir gluggana hjá sér og eignatjón í nokkrum bæjum, auk þess sem sjaldnast er getið um stórfellt mannfall í sömu hamförum í hinum fátækari ríkjum á svæðinu.

  Urr!

 5. Sprettur þetta ekki á endanum upp úr sömu firringunni? Ef manneskjan týnist í hlutabréfunum þá fáum við fréttamennsku sem er sama um manneskjur.

 6. Mikið ótrúlega er ég sammála þér, Einar! Skekkt mat á gildi frétta hérna heima er algjörlega fáránlegt.

  Tek einnig undir það sem SHIFT-3 sagði, íslenskir miðlar elta línu Bandaríkjamanna og Breta allt of mikið. Fyrir mér náði það hámarki fyrir einhverjum tæpum þremur árum, þegar Columbus-geimferjan fórst. Þá var fréttaflutningur á flestum miðlum eitthvað á þessa leið:

  “Syrgjum öll hina látnu geimfara! Dagur þjóðarsorgar er runninn upp um heim allan … já, og by the way, þá létust tíu þúsund Nígeríubúar í lestarslysi í gær. En harmleikur geimferjunnar …”

  Reyndi að finna frétt sem gæti sýnt fram á hvað ég á við, en fann enga á netinu. Man samt alltaf eftir fréttaflutninginum – vissulega var sprengingin í geimferjunni mikið áfall fyrir NASA og heiminn allan, þar sem geimkönnun er mikið mál fyrir framtíðina, en umfjöllun af þessu eina slysi fékk svona 95% af öllum fréttaflutningi á þessum tíma, en lestarslysið í Nígeríu var nánast hunsað fyrir vikið.

  Eitt enn – hvað er málið með þessa tréhesta sem NFS og Ríkissjónvarpið eru farnir að troða inn í fréttatímana sína til að ræða gengishækkanir og verðbréfaviðskipti? Þessir gæjar vita miklu, miklu, miiiklu meira um þetta en ég en ég er samt viss um að ég gæti gert því betri skil fyrir framan myndavélarnar. Er virkilega ekki hægt að finna einn vel máli farinn viðskiptafræðing á Íslandi?

 7. Ég er svo sammála þessu. Á tímabili var ég farin að velta fyrir mér hvort ég væri eina manneskjan á Íslandi sem ekki ætti hlutabréf í banka eða flugfélagi. Svo virðist fjölmiðlum ekki nóg að greina frá kaupum og sölum heldur eru séð og heyrt menn viðskiptanna fengnir til að spá fyrir um “hugsanlegan” gang mála hjá þessum köllum.

 8. Þessar viðskiptafréttir eru einn allsherjar misskilningur. Þeir sem hafa raunverulegan áhuga á efninu hneykslast á yfirgripsmikilli vanþekkingu fréttamanna og hinir hafa engan áhuga. Fréttir fyrir engan.

  Það er hending að réttu áherslurnar séu teknar. Þetta eru undantekningarlaust fréttir “unnar” beint upp úr tilkynningum. Aldrei neinar ályktanir. Ef svo undarlega vill til að ályktanir eru dregnar eru þær nánast alltaf eitthvað bull.

  Held að það sé algjör misskilningur að “sérfræðingarnir” sem mæti í útsendingu viti eitthvað. Þetta eru sérfræðingar-of-last-resort. Það eru ekki nema 2-3 sem fást til að mæta og þeir eru út um allt – aðrir verja tímanum í annað.

  Það væri hugsanlegt að einhver hefði af þessum fréttum gagn eða gaman – nema hvort tveggja væri ef þetta væru þá alla vega alvöru fréttir.

  Það að einhver kaupi/selji (verður annar ríkari og hinn fátækari Einar? :S) eða hvort að eitthvað hækk/lækki um x% eru ekki fréttir – bara suð.

  Annars eru fréttirnar í sjónvarpi algjörlega óþörf tímaeyðsla. NFS sýnir manni vel hvað þetta er fáránlega ómerkilegt allt saman.

 9. Nákvæmlega, herra Ónefndur! Þú náðir þessu saman í einni góðri setningu:

  >Þeir sem hafa raunverulegan áhuga á efninu hneykslast á yfirgripsmikilli vanþekkingu fréttamanna og hinir hafa engan áhuga. Fréttir fyrir engan.

  Þetta er allt málið. Jafnvel þótt að ég hafi sennilega miklu, miklu meiri áhuga á viðskiptum en gengur og gerist, þá finnst mér þessar fréttir vera algjörlega gagnslausar. Einnig:

  >(verður annar ríkari og hinn fátækari Einar? :S)

  Já, ég vissi að einhver myndi kommenta á þetta. 🙂 Nema að bréfin standi nákvæmlega í stað í verði þá hlýtur annar að verða ríkari og hinn fátækari heldur en fyrir kaupin. Er það ekki annars? 🙂

  Varðandi USA/UK gildismat á fréttum þá er ég, ótrúlegt en satt, mjög sammála. Þetta fer kannski minna í taugarnar á mér en öðrum, þar sem ég hef svo gríðarlega mikinn áhuga á Bandaríkjunum.

  Þrátt fyrir að geimferjudæmið sé að mínu mati slæmt dæmi (dauðsföll nær okkur munu alltaf verða stærri fréttir en dauðsföll í Afríku), þá eru þessar stanslausu fellibyljafréttir frá USA frábært dæmi um hversu brengluð við erum af þessum eina sjónarhorni.

  Önnur góð dæmi eru til dæmis OJ Simpson, sem var frægur ruðningskappi og því alls ekki þekktur á Íslandi nema vegna umfjöllunnar USA pressunnar. Það sem bætir ofaná þetta er svo að hafa drasl einsog Jay Leno og Letterman í sjónvarpinu á hverjum degi, en til að finnast þeir brandarar fyndnir verðum við auðvitað að vera alveg up-to-date í öllu merkilega og ómerkilegu, sem gerist í Bandaríkjunum.

 10. Já, ég vissi að einhver myndi kommenta á þetta. 🙂 Nema að bréfin standi nákvæmlega í stað í verði þá hlýtur annar að verða ríkari og hinn fátækari heldur en fyrir kaupin. Er það ekki annars?

  Vil nú ekki eyða miklum kröftum í að kommenta á þetta til að eyðileggja ekki taktinn í umræðunni.

  Menn verða nú alveg álíka ríkir milli daga. Hvað gerir svo sá sem selur við peningana. Þær breytingar ríkari/fátækari eru bara suð (orð dagsins). Þetta atriði
  skiptir svosem engu.

 11. Þegar hlutir skipta um hendur verður hvorugur einstaklingur ríkari eða fátækari á viðskiptunum. Það sem breytist er eignasamsetning.

  Hvað gerist síðan í kjölfarið er allt annað mál.

 12. Já já já já. Þið þurfið ekki að þræta við þetta um mig, kæru hagfræðingar. 🙂

  En gengi hlutabréfa breytist væntanlega við kaupin og því hlýtur annar að vera fátækari en hinn ríkari. En þetta skiptir engu máli. Þetta fer bara hvort við lítum á hlutinn á því sekúndubroti sem kaupin fara fram, eða yfir aðeins meiri tíma.

  En ég held að þessi umræða okkar nái því jafnvel að vera leiðinlegri en sjálfur fréttaflutningurinn, sem færslan snérist um. 🙂

 13. Þetta hlýtur líka að skrifast á endalaust áhuga- og metnaðarleysi (getuleysi?) íslenskra fréttamanna við að skrifa sjálfir alvöru fréttir sem skipta máli og leitast við að skýra málin, Það er jú miklu tímafrekara og erfiðara heldur en að endurbirta einhvern leirburð almannatengslafulltrúa stórfyrirtækja útíbæ.
  Það væri hægt að leysa ansi marga fréttamenn af með einhverju góðu forriti sem færir fréttatilkynningar úr inboxinu beint í fréttahandritið. J.Gruber hitti naglan á höfuðið þegar hann kallaði helstu mainstream fjölmiðla í sínu landi “press release clearing houses”.

 14. Einar, er ekki auðveldara að horfa bara á erlendar fréttastöðvar (Cnn, Sky, etc.).

  Eða sleppa að horfa á fréttir, og horfa bara á 24! 😯

 15. Jú, Kristján, þetta er hárrétt hjá þér.

  Og Hagnaður, ég er ekki með erlendar stöðvar. Nógu andskoti dýrt að borga Sýn og Enska boltann. Ég hef forgangsröðunina á hreinu 🙂

 16. Ég er með kenningu: Hlutabréfaviðskipti og fréttir af viðskiptaelítunni koma í stað frétta af konungsfjölskyldum í öðrum Evrópulöndum. Við eigum engana aðal á Íslandi, svo við verðum að láta okkur duga Hannes Smárason í staðinn.

Comments are closed.