Me gusta la Gasolina!

Ef mér leiðist eitthvað meira en að strauja skyrtur, þá er það að þurfa að éta stór orð.

Í Mið-Ameríku er eitt lag alveg fáránlega vinsælt og hefur verið það undanfarið ár. Allir rútubílstjórar elska lagið, það er spilað á öllum klúbbum, veitingastöðum og í öllum verslunum. Það er hreinlega fullkomlega ómögulegt að losna við þetta lag.

Þegar ég og Anja vorum í einhverri rútunni byrjaði ég að bölva laginu. Hún sagðist þá fíla lagið og að þetta lag hefði verið *ýkt vinsælt í Þýskalandi í allt sumar*. Ég hló og sagði að þetta staðfesti það að Þjóðverjar væru skrýtnir.

Ég hélt því svo fram að Íslendingar væru svo hipp og kúl að þetta lag yrði aldrei vinsælt á Íslandi. Við hefðum betri smekk en svo.

En svo kem ég heim og hvað gerist: Jú, lagið er í brjálaðri spilun á Íslandi! Og ekki nóg með það, heldur þá erum við langt á eftir Þjóðverjum í spilun á laginu. Það er lágmark að ef við byrjum að spila hallærisleg lög, þá ættum við að gera það á undan öðrum löndum. En við virðumst bara lepja upp poppið löngu á eftir þjóðum, sem við höldum að séu hallærislegar. Ef þetta er ekki áfellisdómur yfir Íslandi, þá veit ég ekki hvað er. Semsagt, Þjóðverjar eru kúl, við ekki.

En allavegana, lagið er hið magnaða “**Gasolina**” með Puertó Ríkanum Daddy Yankee (sjá [mynd](http://www.reggaetonline.net/images/reggaeton/fotos/daddy-yankee-13.jpg)). Þetta lag hefur verið fáránlega vinsælt um alla rómönsku Ameríku og er núna orðið vinsælt í Bandaríkjunum, Evrópu og loks á Íslandi. Lagið er fáránlega óþolandi, en einhvern veginn hef ég smá veikan blett fyrir því. Aðallega vegna þess að það minnir mig á plássleysi, loftleysi, predikara og feita sölumenn í rútum í Mið-Ameríku.

Textinn er náttúrulega stórkostlegt afrek í textasmíði. Viðlagið hljómar svona:

>A ella le gusta la gasolina (dame mas gasolina!)
Como le encanta la gasolina (dame mas gasolina)

Eða á íslensku

>Hún fílar bensín (gefðu mér meira bensín)
Já, hún elskar bensín (gefðu mér meira bensín)

Jammm, vissulega snilld.

En fyrir ykkur, sem hlustið ekki á FM957 eða álíka gæðastöðvar, þá ætla ég að gera ykkur þann stórkostlega greiða að bjóða uppá þetta lag, allavegana næstu tvo daga.

[Gasolina – Daddy Yankee](https://www.eoe.is/stuff/gasolina.mp3) – 4,41 mb – MP3

Njótið og hugsið svo hlýlega til mín þegar að þið byrjið að heyra “me gusta la gasolina” í hausnum á ykkur allan daginn.

Ekkert að þakka!

8 thoughts on “Me gusta la Gasolina!”

 1. Fullkominn viðbjóður – og minnir mann skemmtilega á af hverju ekki eigi að stilla á fm957 í eina einustu sekúndu af sínu lífi. Minnir mig reyndar líka á lag sem sungið var í minni sveit um árið:
  Fáum okkur bensín
  Fáum okkur bensín
  Það er gott að fá sér svona bensín af og til
  Við erum ekki bílar
  Við erum ekki bílar
  Við erum ekki bílar og tra lala lala
  🙂

 2. Þetta lag var einmitt suddalega mikið spilað á Spáni í sumar þar sem ég var. Það kom mér einhvernvegin ekki á óvart að þetta yrði vinsælt á FM957 …. fannst það bara vera tímaspursmál.

  En lagið er sársaukafullt. Alveg með ólíkindum að fólk geti hlustað sjálfviljugt á svona drasl.

 3. Mer finnst lagid alveg hraedilegt (adallega af thvi ad eg fae thad svo rosalega a heilann) en gasolina merkir kokain i thessu lagi, textinn meikar thvi adeins meira sens! 😯

 4. Þetta er blátt áfram illa gert að setja svona vont lag í spilun, ég komst alveg í gegnum fyrstu 40 sek og þá ekki meir.

Comments are closed.