Mín skoðun

2939001103_62b0ce4b47Það er smá skrýtið að fylgjast með kosningabaráttunni heima á Íslandi úr fjarlægð. Þrátt fyrir að ég búi í öðru landi, þá finnst mér ég hafa verið virkur þáttakandi í þessari baráttu. Fjarlægðin við Ísland breytir því þó ekki að mér er mjög annt um úrslit þessara kosninga.

Margrét og ég kusum í sendiráðinu í Stokkhólmi í síðustu viku. Valið var á endanum ekki erfitt, þótt ég viðurkenni það fúslega að á þessu stutta kjörtímabili hef ég haft mínar efasemdir um minn flokk (sjá hérna færsluna sem ég skrifaði fyrir kosningarnar 2007).

* * *

Ég er jafnaðarmaður og því kýs ég Samfylkinguna. Ég tel að flokkurinn hafi gert mörg mistök og prófkjörin, sem voru haldin í síðasta mánuði voru ekki öll eftir mínu höfði. En ég tel hins vegar að á því liggi ekki nokkur vafi að Samfylkingin er besti kosturinn fyrir þessar kosningar.

Ég vona að eftir þessar kosningar verði áfram vinstri stjórn. Ég tel að Íslendingar hafi fengið nóg af hægri stjórnum undanfarinna 18 ára og að nú sé tími til þess kominn að við reynum að nálgast það stjórnkerfi, sem tíðkast á Norðurlöndunum og fjarlægjumst þá tilraun til Ameríku-væðingar sem að Sjálfstæðismenn hafa staðið fyrir síðan ég fermdist.

Ég tel margt gott vera við Vinstri-Græna og margt í þeirra flokkstarfi og áherslum, sem að Samfylkingin mætti taka sér til fyrirmyndar. En fyrir mér snúast þessar kosningar fyrst og fremst um eitt mál, *Evrópusambandsaðild*.

Vissulega eru fjölmörg önnur vandamál í íslensku samfélagi sem að Evrópusambandsaðild mun ekki laga. Til að leysa þau vandamál tel ég vinstri stjórn vera besta kostinn.

* * *

Þeir, sem vilja láta reyna á aðildarviðræður við ESB hafa í raun einungis einn kost í þessum kosningum og það er að kjósa Samfylkinguna. Við ESB sinnar þurfum á því að halda að Samfylkingin verði stærsti flokkurinn í þessum kosningum til þess að hann geti leitt ríkisstjórnarsamstarf, sem muni gera aðildarsamning að forgangsmáli. Semjum um aðild og leggjum svo samninginn í dóm kjósenda.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að okkar gjaldmiðill er nánast ónýtur. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft og verðbætur þá veit samt enginn hvert raunverulegt verðmæti krónunnar er. Við greiðum gríðarlega háa vexti af öllum okkar lánum vegna þess að við erum með krónuna og gjaldeyrishöftin halda sennilega uppi óeðlilega háu gengi krónunnar akkúrat núna. Höftin halda uppi þeirri blekkingu að krónan geti áfram verið okkar gjaldmiðill.

Enginn annar flokkur hefur lagt fram trúverðuga stefnu um það hvernig við eigum að skipta um gjaldmiðil, nema Samfylkingin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fyrir löngu tapað trúverðugleika sínum í gjalmiðilsmálum, enda hafa þeir skipt um stefnu oft *á þessu ári*. Stefnan sem þeir tóku upp tveim vikum fyrir kosningar er með eindæmum [vitlaus](http://arnipall.is/grein.php?id_grein=157).

* * *

Það er alveg ljóst að eina leiðin til að koma okkur útúr fjötrum krónunnar, verðbætna, okurvaxta og ótrúlegra gengissveiflna er að sækja um aðild að ESB. Um leið og við sækjum um mun það senda skilaboð útí heim að okkur sé alvara og að við höfum raunhæfa leið til að ná okkur útúr þessum vandamálum. Einsog gamall Krataleiðtogi skrifaði:

>Einmitt af því að það tekur tíma að semja um Evrópusambandið og að ávinna okkur rétt til að taka upp evru – einmitt þess vegna þurfum við að sækja um strax. Löng ferð byrjar á fyrsta skrefinu. Sá sem aldrei stígur fyrsta skrefið, fer aldrei í ferðalagið.

Fyrsta skrefið í átt að aðild í ESB er að veita Samfylkingunni stuðning í þessum kosningum. Ég hvet alla til að gera það.