Bikar!

dudek_worthington.jpgJa hérna, haldiði ekki að Liverpool hafi bara unnið bikar um helgina. Þetta var dálítið skrítin upplifun að horfa á leikinn, því ég horfði á hann með Emil og við höfum nokkurs konar þögult bandalag um að monta okkur ekkert alltof mikið af sigurgöngu okkar liða en hann heldur með United. Ég stökk því ekki nema einu sinni upp þegar Liverpool skoruðu mörkin og dansaði engan stríðsdans. Ég sleppti líka að öskra alltof mikið í leikslok.

En mikið afskaplega var þetta nú gaman. Loksins eitthvað til að fagna. Ég held að ég hafi ekki fagnað raunverulega í leikslok í marga mánuði.

Og yndislegast af öllu var náttúrulega að Jerzy Dudek var maður leiksins. Þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt nær alla leikmenn Liverpool undanfarið þá datt mér aldrei í hug að gagnrýna Dudek, því ég er fullkomlega sannfærður um að hann sé besti markvörður í heimi. Ég man að þegar hann kom aftur inní markið á móti Crystal Palace þá fékk maður aftur þessa gömlu öryggistilfinningu, sem maður hafði misst í leikjunum í nóvember.

Dudek er náttúrulega snillingur en honum var enginn greiði gerður með að hafa hann í liðinu í desember því hann var greinilega ein taugahrúga. Núna er hann hins vegar búinn að ná sé og það er frábært.

Og Diouf var bara góður líka. Ja hérna. Hann tók Silvestre hvað eftir annað í bakaríið. En náttúrulega var Emile Heskey lélegur einsog ávallt. Það var lygilega mikil breyting þegar Baros kom inná. Eftir nokkrar mínútur var hann búinn að rekja boltann upp allan völlinn, draga að sér þrjá menn og gefa svo sendingu á Gerrard í dauðafæri. Vonandi að Houllier átti sig bara á því einhvern daginn að Baros er mun betri en Heskey. Ekki nóg með það heldur er Baros líka 4 árum yngri.

Og víst maður hefur skammað Houllier oft, þá verður maður líka að hrósa honum þegar gengur vel. Núna lagði hann leikinn upp á besta hátt og setti í raun það lið, sem ég hefði sett inná (fyrir utan Heskey og Carragher). Það er ljóst að Houllier er ekki á leiðinni burt, þannig að maður verður bara að vona að hann átti sig á mikilvægi þess að liðið spili sókarbolta. Ég þoli ekki fleiri tímabil af þessari varnarknattspyrnu. Meira að segja Michael Owen er búinn að fá nóg.

Bikar!

dudek_worthington.jpgJa hérna, haldiði ekki að Liverpool hafi bara unnið bikar um helgina. Þetta var dálítið skrítin upplifun að horfa á leikinn, því ég horfði á hann með Emil og við höfum nokkurs konar þögult bandalag um að monta okkur ekkert alltof mikið af sigurgöngu okkar liða en hann heldur með United. Ég stökk því ekki nema einu sinni upp þegar Liverpool skoruðu mörkin og dansaði engan stríðsdans. Ég sleppti líka að öskra alltof mikið í leikslok.

En mikið afskaplega var þetta nú gaman. Loksins eitthvað til að fagna. Ég held að ég hafi ekki fagnað raunverulega í leikslok í marga mánuði.

Og yndislegast af öllu var náttúrulega að Jerzy Dudek var maður leiksins. Þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt nær alla leikmenn Liverpool undanfarið þá datt mér aldrei í hug að gagnrýna Dudek, því ég er fullkomlega sannfærður um að hann sé besti markvörður í heimi. Ég man að þegar hann kom aftur inní markið á móti Crystal Palace þá fékk maður aftur þessa gömlu öryggistilfinningu, sem maður hafði misst í leikjunum í nóvember.

Dudek er náttúrulega snillingur en honum var enginn greiði gerður með að hafa hann í liðinu í desember því hann var greinilega ein taugahrúga. Núna er hann hins vegar búinn að ná sé og það er frábært.

Og Diouf var bara góður líka. Ja hérna. Hann tók Silvestre hvað eftir annað í bakaríið. En náttúrulega var Emile Heskey lélegur einsog ávallt. Það var lygilega mikil breyting þegar Baros kom inná. Eftir nokkrar mínútur var hann búinn að rekja boltann upp allan völlinn, draga að sér þrjá menn og gefa svo sendingu á Gerrard í dauðafæri. Vonandi að Houllier átti sig bara á því einhvern daginn að Baros er mun betri en Heskey. Ekki nóg með það heldur er Baros líka 4 árum yngri.

Og víst maður hefur skammað Houllier oft, þá verður maður líka að hrósa honum þegar gengur vel. Núna lagði hann leikinn upp á besta hátt og setti í raun það lið, sem ég hefði sett inná (fyrir utan Heskey og Carragher). Það er ljóst að Houllier er ekki á leiðinni burt, þannig að maður verður bara að vona að hann átti sig á mikilvægi þess að liðið spili sókarbolta. Ég þoli ekki fleiri tímabil af þessari varnarknattspyrnu. Meira að segja Michael Owen er búinn að fá nóg.

Djammmmm

Fyrir einhverjum tíma ákvað ég að skrifa ekki um djamm á þessari síðu. Núna langar mig hins vegar rosalega að skrifa eitthvað á netið og ég nenni ekki að skrifa þennan langa reiðipistil um Davíð Oddson, sem er að gerjast í hausnum á mér eftir að hafa horft á Kastljós.

Allavegana þá djammaði ég um helgina tvo daga í röð í fyrsta skipti síðan um Verzlunarmannahelgi. Á föstudag fór ég í opnun á Vöruhóteli Eimskips. Þar var markvisst reynt að hella fólk fullt og auk þess var allt aðgengi að mat skert til muna, þannig að það gat bara endað á einn veg. Ekki batnaði ástandið þegar fiskikari fullu af Tuborg var parkerað beint fyrir framan mig.

Ég fór svo með nokkrum strákum frá Danól inní Hafnafjörð, þar sem við fórum að horfa á kvennahandboltaleik, en ég held að það sé fyrsti leikurinn af þeirri gerð, sem ég hef séð í einhver 5 ár. Svo var haldið í partí og að lokum niður í bæ, þar sem við enduðum á Sólon. Reyndar byrjuðum við á því að fara á Hverfisbarinn, þar sem ég tapaði nærri því vitinu í biðröðinni. Þessi biðröð er fúl, sérstaklega þar sem ég er nokkuð virkur gestur á þessum blessaða bar. En ég meina hei.

Á Sólon er maður hins vegar treataður einsog hetja, því þar þekki ég einn dyravörðinn. Sólon er líka skemmtilegur staður.

Allavegana, á laugardag þá ákváðum ég og Björgvin Ingi að skella okkur á Maus tónleika. Það var nokkuð skemmtilegt að Björgvin hafði komist að því eftir lestur þessarar síðu að við áttum við svipað vandamál að stríða, það er að við eigum báðir enga vini sem fíla Maus. Við ákváðum því bara að drífa okkur saman. Fórum fyrst á Sólon og svo á Hverfisbarinn því við héldum að tónleikarnir ættu að byrja fyrr en þeir gerðu. Á Hverfisbarnum var mun skemmtilegra en kvöldið áður, hittum m.a. einhvern gaur úr Breiðholtinu sem hélt uppi fjörinu.

Anyhoo, fórum á Maus og þeir voru snilld. En ekki hvað? Það er þó ljóst að fjöldi fallegra stelpna á djamminu í Reykjavík er í öfugu hlutfalli við gæði tónlistar. Þannig var mun meira af fallegum stelpum á Sólon og Hverfisbarnum (þar sem ég heyrði lag með Whitney Houston, hvorki meira né minna) heldur en á GrandRokk. Maus byrjuðu á nýju lögunum og svo fóru þeir yfir í gömlu slagarana, enduðu svo á besta lagi í heimi, Poppaldin.

Við fórum svo á Sólon, þar sem var geðveikt gaman. Ég vil þó að lokum leggja til að stelpur, sem eru á föstu, verði kyrfilega merktar á skemmtistöðum landsins. Það myndi spara manni ómælda vinnu.

Hagfræði og Írak

Á Múrnum í dag er grein um Írak. Þar segir meðal annars:

Stríðið í Írak snýst nefnilega ekki um að Saddam Hussein sé vondur maður sem George Bush og Halldór Ásgrímsson segja að hafa drepið barnabörn sín (ætli Bush sé heimild Halldórs fyrir því?). Það snýst um að Bandaríkjastjórn vill fara í stríð við einhvern. Hún vill vígvæðingu til að mala gull fyrir hergagnaframleiðendur og önnur stórfyrirtæki sem komu henni til valda. Hún vill líka auka vinsældirnar heima fyrir og taka eins lítið tillit og unnt er til málfrelsis og mannréttinda.

Trúir greinarhöfundur því virkilega að Bandaríkin séu að fara útí stríð bara til að geta gefið hergagnaframleiðendum meira að gera?

Allavegana, samkvæmt þessum tilgátum Ármanns þá er það eina, sem Bandaríkjastjórn þarf, góður hagfræðingur.

Þessi hagfræðingur gæti í fyrsta lagi sagt Bush að það væri mun sniðugara að styrkja hergagnaframleiðendur beint. Það væri miklu hagkvæmara en að fara í stríð, því þá myndu sparast ótal vinnustundir, mannslíf, eldsneytiskostnaður og slíkt. Hergagnaframleiðendur væru alveg jafn vel settir en Bandaríkjastjórn myndi spara á öðrum sviðum.

Þessi sami hagfræðingur gæti svo frætt Bush að vinsældir hans væru alveg feykinógar til að halda honum í sessi eftir næstu kosningar. Hann gæti minnt hann á það að pabbi hans tapaði sínum kosningum ekki útaf stríði heldur útaf efnahagsmálum.

Þessi sami hagfræðingur gæti sagt Bush að það að fara útí stríð væri að öllum líkindum mjög þjóðhagslega óhagkvæmt (hann gæti svo líka fengið hann til að hætta við skattalækkanir handa þeim ríkustu). Ef að Bush myndi hlusta á hagfræðinginn myndi efnahagurinn vænkast og Bandaríkjamenn yrðu mun ánægðari með forsetann, því að langflestir kjósa eftir því hvernig efnahagsástandið er.

Já, heimurinn yrði betri ef að allir hlustuðu á hagfræðinga.

Where did it all go wrong?

Það er vissulega alveg hrikaleg hlutskipti að vera Liverpool aðdáandi þessa dagana. Þetta eru alveg ólýsanleg vandræði hjá þessu liði. Ég bara skil ekki hvernig þetta hefur allt gerst. Fyrir tæpum tveimur árum skrifaði ég þessa færslu.

Hvað hefur gerst? Hvað veldur því að ég hef ekki lengur trú á manninum, sem ég hélt að væri fremsti knattspyrnuþjálfari í heimi? Hvernig gerðist það að mér verður nánast óglatt þegar ég sé suma Liverpool leikmenn mæta til leiks?
Continue reading Where did it all go wrong?

Úfff, sunnudagur

Mikið óskaplega geta sunnudagar verið erfiðir dagar. Á dögum sem þessum sakna ég alveg ofboðslega þess tíma þegar ég varð aldrei þunnur.

Fyrst þegar ég byrjaði að drekka áfengi drakk ég ávallt vodka. Ég mætti alltaf í partí með flösku af Stolla og Brazza. Drakk minn skammt, varð voða hress og vaknaði svo daginn eftir alveg eldhress. Varð aldrei þunnur, enginn hausverkur, engin magapína, ekki neitt.

Núna drekk ég hins vegar bjór. Helst bandarískan bjór, meira að segja helst Light bjór (btw, ekki með minna áfengi, heldur færri kalóríur). Núna verð ég hins vegar alltaf þunnur. Ég fæ alltaf hrikalegan hausverk, sem mér tekst aldrei að losa mig við. Í dag hef ég til að mynda tekið 6 Excedrin töflur, en ekkert virkar.

Reyndar minnkaði hausverkurinn eitthvað við það að ég fór í fótbolta. Þar var ég laminn (reyndar óvart) af fyrrverandi sjónvarpsstjóra Skjás Eins og því er ég nú með þetta flotta glóðarauga. Ég þó losnaði við hausverkinn í dágóða stund en núna er hann eiginlega kominn aftur. Vá, ég held að ég hafi ekki verið með glóðarauga síðan ég var 10 ára.

Play some Skynyrd!

Ó já, ég er kominn í helgarstuð og nenni ekki að skrifa um pólitík. Gæti skrifað um fótbolta en þeir pistlar breytast alltaf útí eitthvað skítkast útí Emile Heskey (sem er by the way, lélegasti framherji, sem hefur spilað fyrir Liverpool).

Þannig að ég ætla bara að gefa lesendum kost á að ná sér í frábært lag fyrir helgina. Þetta lag er með eðalrokksveitinni Lynyrd Skynyrd. Reyndar er þetta ekki mitt uppáhaldslag með hljómsveitinni, en þetta lag er svakalega gott: Tuesday’s Gone (MP3 – 8.63MB). Frábært lag. Samt á maður auðvitað ekki að hlusta á Skynyrd nema að maður sé inná bar einhvers staðar í Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Slys á næturklúbbi

Mér brá mjög þegar ég heyrði þessa frétt í útvarpinu áðan. Þegar ég kom heim var náttúrulega það fyrsta sem ég gerði að skoða hvort þetta væri klúbbur, sem að vinir mínir sækja.

Svo reyndist ekki vera. Það dóu 21 í troðningi á næturklúbbi í Suðurhluta Chicago. Einhver dyravörður notaði mace til að brjóta upp slagsmál en þá greip um sig ótti á staðnum og fólk reyndi að komast út um dyr, sem voru læstar. Í troðningum létust svo 21. Þetta er náttúrulega alveg ótrúlegt að svona skuli geta gerst. Um 1500 til 2000 manns voru í klúbbnum.