Verslunarmannahelgi

Ég er alltaf í hálfgerðum vandræðum með að skrifa á þessa síðu þegar ég er kominn til Íslands. Það er allt öðruvísi að tala um það, sem maður er að gera, þegar allir, sem ég tala um, geta lesið og skilið það sem er skrifað á síðunni.

Allavegana, þá fór ég um helgina með nokkrum vinum í Skaftafell og var það mjög skemmtileg ferð. Ég tók ekki þátt í vali á staðsetningu en Skaftafell varð víst fyrir valinu vegna þess að veðrið átti að vera best þar. Og eftir að ég sá myndir frá Vestmannaeyjum þá verð ég bara að hrósa stelpunum fyrir gott val. Veðrið var nefnilega bara mjög gott alla helgina. Það rigndi í nokkrar mínútur á meðan við vorum að tjalda en eftir það var frábært veður, logn, sæmilega hlýtt og engin rigning. Reyndar hafa veðurstaðlar mínir farið hríðlækkandi, enda taldi ég fyrir einni viku frábært veður vera sól, 30 stiga hita og logn.

Ég var í bíl með Borgþór og Björk og vorum við komin í Skaftafell um níu leytið og settum niður tjöld, grilluðum og drukkum nokkra bjóra. Þótt ótrúlegt megi virðast þá vorum við alveg látin í friði af landvörðum og öðrum gestum á svæðinu, þrátt fyrir að flestir gestir hafi verið útlendingar og fjölskyldufólk.

Á laugardag fór ég svo með Björk, Borgþóri, Önnu og Gústa í smá túristapakka. Við byrjuðum á því að labba uppað Svartafossi og svo keyrðum við að Jökulsárlóni, sem er án efa einn af fallegustu stöðunum á þessari eyju.

Um kvöldið kom svo fleira fólk: Tinna, Davíð, Jóna og PR. Auk þess höfðu Emil og Ella komið með okkur daginn áður en þau voru þó ekki með í túristapakkanum. Við strákarnir spiluðum þá fótbolta við einhverja litla stráka og gekk það bara ágætlega fyrir utan það að Borgþór rotaði næstum einn strákinn.

Eftir boltann var svo grillað og svo sátum við og drukkum og spjölluðum eitthvað fram eftir nóttu. Fórum reyndar í smá ferð að brennunni en mestallt kvöldið sátum við fyrir framan tjöldin okkar. Á meðan að drykkju stóð bættist svo misskemmtilegt fólk í hópinn en það var svo sem alltílagi.

Í gær sátum við á spjalli eitthvað fram eftir degi en ákváðum loks að drífa okkur í bæinn enda virtist veðrið eitthvað vera að versna.

Ég tók fulltaf myndum og ætla að setja eitthvað af þeim inn hér á síðuna þegar ég get.

Kominn heim.is

Þá er ég kominn aftur heim til Íslands eftir hrikalega leiðinlega flugferð, mikið stress og mjög erfiða kveðjustund.

Ég er ennþá að átta mig á hlutunum og er búinn að tala við mjög fáa, enda var ég hálfruglaður í gær. Ferðin frá Chicago tók um 24 tíma enda þurfti ég að stoppa í 11 tíma í Boston. Vegna þess að skrifstofa Flugleiða opnar ekki fyrr en klukkan 4 á Logan flugvelli þurfti ég að bíða flugvellinum allan daginn í stað þess að fara inní Boston.

Ég nýtti þó tímann ágætlega og kláraði 1984 eftir Orwell, auk þess sem ég las Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. Báðar mjög góðar bækur.

Síðustu dagarnir í Evanston voru erfiðir. Það var erfitt að kveðja alla vinina, því ég veit ekkert hvenær ég sé þá aftur. Það er gallinn við að búa í nýjum löndum að maður skilur alltaf eftir fulltaf góðum vinum, sem maður sér kannski aldrei aftur. Bíllinn minn olli mér líka miklu stressi, því enginn vildi kaupa. Loks síðasta kvöldið hringdi stelpa, sem hafði skoðað hann, og vildi kaupa. Við hittumst um 11 um kvöldið og keypti hún bílinn.

Síðusta kvöldið kvaddi ég svo alla vinina og við Katie fórum útað borða á Wolfgang Puck. Á miðvikudag keyrði Katie mig útá Midway, þar sem ég kvaddi hana og tók síðan flug þaðan til Boston.

Um helgina lítur svo út fyrir það að ég sé á leiðinni í Skaftafell með vinum mínum. Það verður ábbygilega gaman. Verst að það er ekki til Bud Light í Ríkinu. Spurning hvað ég á að kaupa í staðinn…

GWB

Þegar að allt er að verða vitlaust í Ísrael, hlutabréfamarkaðir eru í uppnámi og viðskiptaheimurinn er í uppnámi vegna spurninga um siðferði stjórnenda fyrirtækja ákveður George W. Bush forseti Bandaríkjanna að …

fara í mánaðarlangt frí

Þess má geta að flestir Bandaríkjamenn fá um tveggja vikna langt frí á hverju ári. George W. er engum líkur.

Endurtekið efni um alþjóðavæðingu

Stefán Pálsson endurtekur gamla grein sína á Múrnum. Núna heitir greinin Alþjóðavæðing og fótbolti en hún hét áður Alþjóðavæðing fyrir byrjendur.

Þarna er Stefán aftur að benda á tölur um vöxt í Suður-Ameríku, sem rök gegn alþjóðavæðingu. Ég svaraði síðustu greininni í þessum pistli.

Athyglisverð pæling hjá Geir Á.

Síðustu dagarnir

Þá eru aðeins örfáir dagar þangað til að ég á flug heim til Íslands. Síðustu daga er ég búinn að vera á fullu við að reyna að ganga frá mínum málum.

Svo er ég að reyna að borða á öllum uppáhaldsstöðunum mínum í síðasta skipti. Fór í gær á Olive Mountain, sem er uppáhaldsstaðurinn minn hér í Evanston og svo þarf ég að fara einu sinni í viðbót á uppáhaldspizzustaðinn minn, CPK.

Við Katie erum að fara til Winnebago, sem er lítill bær vestur af Chicago, þar sem við ætlum að vera um helgina. Annars vona ég bara að mér takist að redda öllum mínum málum hér en ég á flug til Boston á miðvikudag.

Ferdinand, Campbell og Hyppia

Þá er Manchester United búið að kaupa nýjan varnarmann á 30 milljónir punda og allir eru farnir að spá þeim titlinum. Menn gleyma oft að hinir þrír mennirnir í vörninni, Neville, Silvestre og Brown eru ekki nema meðalleikmenn og markvörðurinn Barthez er trúður, sem gerir alltof mörg mistök.

Philip Cornwall á Football365 ber saman þrjá bestu varnarmennina í enska boltanum: Sami Hyppia, Sol Campbell og Rio Ferdinand. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Hyppia sé besti varnarmaðurinn í enska boltanum og er ég honum hjartanlega sammála. Þess má geta að Hyppia kostaði tíu sinnum minna en Ferdinand.

Þess má einnig geta að öll vörnin hjá Liverpool (sem var sú besta á Englandi í fyrra) kostaði helmingi minna en bara Ferdinand. Dudek (besti markvörður í enska boltanum) kostaði 5 milljónir punda, Henchoz og Hyppia samtals 6 milljónir, Babbel var ókeypis og Riise kostaði 4 milljónir. Samtals gerir þetta 15 milljónir punda, sem er sama og hálfur Ferdinand.

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir enska boltanum en hann byrjar að rúlla eftir nokkrar vikur. Ég er ánægður með nýju mennina hjá Liverpool (Diouf gæti verið svakalega góð kaup) en enn vantar, að mínu mati, mann á hægri vænginn. Ég hefði verið til í að sjá Lee Bowyer þar, en ekkert varð úr því. Fyrir utan hægri vænginn þá er ég ánægður með liðið. Danny Murphy er þó sterkur og eins hef ég alltaf haft trú á Smicer, þrátt fyrir að hann sé afskaplega óáreiðanlegur.

Ferdinand, Campbell og Hyppia

Þá er Manchester United búið að kaupa nýjan varnarmann á 30 milljónir punda og allir eru farnir að spá þeim titlinum. Menn gleyma oft að hinir þrír mennirnir í vörninni, Neville, Silvestre og Brown eru ekki nema meðalleikmenn og markvörðurinn Barthez er trúður, sem gerir alltof mörg mistök.

Philip Cornwall á Football365 ber saman þrjá bestu varnarmennina í enska boltanum: Sami Hyppia, Sol Campbell og Rio Ferdinand. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Hyppia sé besti varnarmaðurinn í enska boltanum og er ég honum hjartanlega sammála. Þess má geta að Hyppia kostaði tíu sinnum minna en Ferdinand.

Þess má einnig geta að öll vörnin hjá Liverpool (sem var sú besta á Englandi í fyrra) kostaði helmingi minna en bara Ferdinand. Dudek (besti markvörður í enska boltanum) kostaði 5 milljónir punda, Henchoz og Hyppia samtals 6 milljónir, Babbel var ókeypis og Riise kostaði 4 milljónir. Samtals gerir þetta 15 milljónir punda, sem er sama og hálfur Ferdinand.

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir enska boltanum en hann byrjar að rúlla eftir nokkrar vikur. Ég er ánægður með nýju mennina hjá Liverpool (Diouf gæti verið svakalega góð kaup) en enn vantar, að mínu mati, mann á hægri vænginn. Ég hefði verið til í að sjá Lee Bowyer þar, en ekkert varð úr því. Fyrir utan hægri vænginn þá er ég ánægður með liðið. Danny Murphy er þó sterkur og eins hef ég alltaf haft trú á Smicer, þrátt fyrir að hann sé afskaplega óáreiðanlegur.

Mugabe

Þeir í ritstjórn The Economist eru ekki ýkja sáttir við það að fréttaritara þeirra var vikið frá Zimbabwe. The Economist reynir að bjóða uppá hlutlausan fréttaflutning, sem útskýrir allar hliðar, en það er erfitt þegar um Robert Mugabe er að ræða. Einn af leiðurum blaðsins byrjar á þessum orðum:

FOR the sake of balance, here are some of Robert Mugabe’s virtues. He dresses stylishly. He is sincerely fond of cricket. His government is less crooked than Liberia’s, and less murderous than Sudan’s. After 22 years under Mr Mugabe, Zimbabwe is in better shape than Congo or Angola. But there ends the list, and also the part of this article that could be published in Zimbabwe without fear of prosecution.

Hermenn og hamborgarar

Síðustu dagar hérna í Evanston eru búnir að vera góðir. Veðrið er frábært og ég er ekkert alltof busy í vefmálum, þannig að ég hef haft mikið af frítíma. Annars fer þessu nú að ljúka og ég er sennilega á leið heim til Íslands í næstu viku.

Helgin var góð. Á föstudaginn vorum við Dan með grillveislu, þar sem Dave og Daria komu ásamt fleira fólki. Dave þessi er nýkominn aftur til Evanston, en hann var með okkur í Northwestern fyrsta árið. Síðustu þrjú ár hefur hann verið í ísraelska hernum. Dave er fæddur í Bandaríkjunum en pabbi hans, sem er mjög trúaður flutti með honum til Ísraels þegar hann var á menntaskólaaldri. Dave ákvað að taka upp tvöfaldan ríkisborgararétt, þrátt fyrir að hann hafi vitað að það myndi þíða að hann gæti þurft að ganga í herinn.

Við spjölluðum aðeins um veru hans í hernum og ástandið í Ísrael, en þær samræður voru þó hálf brenglaðar vegna bjórdrykkju. Dave er nokkuð vinstrisinnaður (hver í ósköpunum er ekki vinstrisinnaður í þessum blessaða skóla) en hann kaus samt Ariel Sharon í síðustu kosningum. Það er dálítið skrítið að tala við hann um þessi málefni, þar sem ég veit augljóslega harla lítið um Ísrael og Palestínu og því erfitt fyrir mig að fara mikinn í röksemdafærslu fyrir palestínsku ríki.

Allavegana, þá var Dave heppinn að vera klár, því honum tókst að mestu að forðast bardaga, því klárari hermenn eru oftast settir í stöður, sem henta þeim betur.

Á laugardaginn gerði ég nú ekki mikið. Við Katie kíktum smá í Old Orchard, sem er verslunarmiðstöð hér rétt hjá og keypti ég mér eitthvað af fötum. Á sunnudag fórum við svo í grillveislu heim til systur Katie, þar sem var boðið uppá hamborgara og steikur og læti. Ég er búinn að borða yfir mig af grilluðum hamborgurum síðustu daga.