Yndislegur sunnudagur

Dagurinn í gær var alveg einsog bestu sunnudagar eiga að vera. Ég vaknaði klukkan 10 og fór að horfa á Liverpool – Manchester United, þar sem Liverpool yfirspiluðu United algjörlega og unnu glæsilegan sigur 3-1.

Síðan um eftirmiðdaginn horfði ég á mitt fótboltalið, Chicago Bears vinna Cleveland Browns í ótrúlegum leik. Staðan var 21-7 fyrir Cleveland þegar um þrjár mínútur voru eftir. Ég var því búinn að gefast upp og skipti um stöð. Nokkru síðar hringdi hins vegar einn vinur minn í mig og sagði mér að stilla á CBS. Og viti menn, Bears höfðu jafnað leikinn á síðustu sekúndunni. Bears unnu svo á ótrúlegan hátt í framlengingunni.

Um kvöldið var svo sjöundi leikurinn í World Series, úrslitaleiknum í hafnabolta. Mitt lið Cubs, datt út fyrir nokkru, þannig að eina von mín var að liðið, sem ég hata, New York Yankees myndi tapa. Og viti menn, Arizona Diamondbacks unnu leikinn á ótrúlegan hátt. Þeir voru undir 2-1 í síðustu lotunni og Mariano Rivera, sem er sennilega besti “relief” kastari allra tíma, var að kasta, en á ótrúlegan hátt tókst Rivera að klúðra málunum og tveir gamlir Cubs leikmenn, Grace og Gonzales tryggðu Arizona sigurinn.

Svona eiga sunnudagar að vera. Þrír leikir þar sem mín lið vinna.

Monsters og Star Wars

Við Hildur fórum í gær að sjá Monsters, Inc, nýju tölvuteiknimyndina frá fyrirtækinu hans Steve Jobs, Pixar. Myndin var bara nokkuð góð. Ég veit ekki hvort mér fannst hún betri en Shrek en Monsters var mjög fyndin.

Á undan myndinni var svo í fyrsta skipti sýndur nýr Star Wars trailer, sem var nokkuð flottur.

Síðasta helgi – Purdue football

Ætli það sé ekki merki um að maður hafi haft mikið að gera undanfarið að ég sé að skrifa um síðustu helgi á fimmtudegi. Ég var að klára tvö miðsvetrarpróf í þessari viku og nú ætti að vera frekar rólegt í skólanum næstu viku.

Allavegana, þá fór ég á föstudaginn með Dan vini mínum, Becky og Elizabeth vinkonum mínum til Lafayette í Indiana. Við keyrðum þangað, um þriggja tíma leið, á bílnum hans Dan, sem er ’85 árgerð af Volvo, sem er keyrður meira en 300.000 kílómetra. Í Lafayette gistum við hjá frænku Elizabeth. Ástæðan fyrir þessari ferð okkar var sú að í Lafayette er einmitt Purdue háskóli og Northwestern fótboltaliðið (amerískur fótbolti) var að spila við Purdue.

Við komum til Lafayette um 8 leytið og fórum út að borða og kíktum svo aðeins á campusinn og niður í miðbæ. Við vorum þó ekkert að djamma, því að morguninn eftir vöknuðum við klukkan hálf níu og frænka Elizabeth keyrði okkur út á völl. Þar á bílastæðunum eru svo allir mættir snemma að bandarískum sið fyrir það, sem þeir kalla “tailgating”. Það hittast allir útá bílastæðum, setja þar upp grill og borð og stóla og eru með alls konar mat (og alls konar bjór). Við vorum þarna með frænku Elizabeth og vinum hennar (flest á fimmtugsaldri). Þau buðu uppá allavegana 10 tegundir af snakki, samlokum, hamborgurum og ég veit ekki hvað. Við byrjuðum á að fá okkur kaffi og baily’s og svo bjór og samlokur. Eftir að hafa borðað þarna stanslaust í tvo tíma fórum við svo inná völlinn.

Völlurinn tekur um 70.000 manns og var hann troðfullur. Frænka Elizabeth gaf okkur miða og vorum við Dan í fjórðu röð, á meðal hörðustu Purdue stuðningsmannana. Þetta var ekkert smá gaman. Við náttúrulega reyndum að vera eins háværir og við gátum þegar Northwestern skoruðu og veifuðum Northwestern fánanum okkar. Því miður töpuðu Northwestern leiknum naumlega eftir nokkur aulamistök í síðasta leikhlutanum (Purdue er einn af allra sterkustu skólunum). Purdue aðdáendurnir höfðu líka einstaklega gaman af því að gera grína að okkur þegar að Purdue voru yfir.

Svo eftir leikinn var aftur haldið útá bílastæði, þar sem maður borðaði meira en við keyrðum svo aftur til Chicago um kvöldið.

Megi ESPN fara til helvítis

ESPN var eitt sinn ein af mínum uppáhaldsstöðum. Fín íþróttastöð. Ég horfði á Sport Center nær daglega.

Í dag hins vegar var ég næstum því búinn að brjóta sjónvarpið í reiði. Ég komst nefnilega að því að þeir höfðu hætt við að sýna Liverpool-Dortmund á morgun. Djöfull og dauði. ESPN sýna frá Meistaradeildinni en hafa nær eingöngu sýnt leiki með Real Madrid og Manchester United. Ég hef horft á United leikina, því það er gaman að horfa á misgáfaða franska varnarmenn og markmenn gera kjánaleg mistök.

Leikurinn á morgun átti hins vegar að vera fyrsti Liverpool leikurinn, sem þeir sýna frá í Meistaradeildinni. En svo bara allt í einu ákvað einhver spekingur hjá sjónvarpsstöðinni að breyta og setja í staðinn gamla NBA leiki.

Ég er brjálaður!!!!!

New York Yankees

Einn strákur í hagfræði tímanum mínum hefur gengið með New York Yankees húfu hvern einasta dag í haust.

Í dag var hann hins vegar búinn að skipta um húfu.

Ég fagna því auðvitað, því ég hata Yankees!

Ég held að það sé Randy Johnson (sjá mynd) að þakka. Hildi finnst Randy ekki sætur.

Mér finnst hann vera töffari!

Skórinn minn er á brú í Indiana

Um síðustu helgi fórum við strákarnir í fótboltaliðinu í keppnsiferð til Ann Arbour, þar sem við kepptum við U of Michigan og fleiri skóla. Ég ætla ekki að tala um úrslitin, en þess má geta að nemendur í U of Michigan eru um 50.000 á móti um 7.000 í Northwestern.

Við fórum af stað klukkan 2 á laugardagsmorguninn. Klukkan 3, þegar við vorum rétt komnir út úr Chicago þurfti hins vegar einn í bílnum að pissa. Því stoppuðum við á einhverri brú rétt áður en við komum að verksmiðjuhelvítinu Gary Indiana. Ég var hálf sofandi og áttaði mig ekki á því fyrr en ég vaknaði um 6 leytið að þessi félagi minn hafði óvart sparkað öðrum strigaskónum mínum út úr bílnum. Liggur því þessi skór sennilega ennþá á þessari brú í Indiana.

Þetta varð einmitt til þess að ég fór í fyrsta skipti út að borða í takkaskóm.

Núna á eftir er ég að fara með þrem vinum mínum til Indiana. Við ætlum að heimsækja Purdue, þar sem (ameríska) fótboltaliðið okkar er að keppa. Ég veit ekki ennþá hvort ég eigi að stoppa og kíkja á brúna.

Létt geðveiki

Nú er ég búinn með tvö fyrstu miðsvetrarprófin, var í hagfræði í gær og svo stjórnmálafræði í dag. Þessi stjórnmálafræðitími er létt geðveiki. Ég var búinn að lesa allt efnið og vaknaði klukkan 6 í morgun, fimm tímum fyrir próf til að lesa það, sem ég hafði merkt með yfirstrikunarpenna í námsefninu. Við erum búin að lesa eitthvað fáránlegt magn og það endaði með því að fimm tímar voru ekki nóg fyrir mig til að lesa yfir glósurnar mínar. Þrátt fyrir að ég lesi mjög hratt. Og það besta er að við erum bara búin að vera í þessum tíma í fjórar vikur.

Annars var prófið svona létt Northwestern geðveiki. Prófin hérna eru nefnilega alltaf þannig gerð að maður hefur engan tíma. Ég var frægur fyrir það að vera fljótur að klára próf í framhaldsskóla og var oftast fyrstur út. Hins vegar hérna þá er maður að skrifa þangað til að kennarinn rífur blaðið frá manni. Þrátt fyrir að ég skrifi mjög hratt og MJÖG illa.

En núna er fyrsta lotan sem sagt búin og næstu próf eru ekki fyrr en eftir 5 daga.