Kvikmyndagagnrýni í dagblöðum

Eitt það besta við bandarísk dagblöð er að á föstudgögum kemur alltaf kvikmyndagagnrýni með öllum nýju myndunum. Ólíkt því, sem gerist á Íslandi, en þar virðist kvikmyndagagnrýnin koma þegar gagnrýnendum hentar að fara í bíó og oft kemur ekki gagnrýni í blöðum fyrr en meira en viku eftir að myndin var frumsýnd.

Allavegana, þá kíkir maður alltaf í kvikmyndablaðið, sem fylgir Chicago Tribune á föstudögum. Samkvæmt blaðinu í dag þá fær nýja Woodie Allen (snillingur) myndin, The Curse Of The Jade Scorpion 3 og hálfa stjörnu. Hins vegar fær nýja Kevin Smith myndin, Jay and Silent Bob Strike Back, eina og hálfa stjörnu. Ég var mjög spenntur fyrir báðum myndunum, enda Smith líka fínn leikstjóri.

Hins vegar er Roger Ebert hjá Chicago Sun-Times frekar ósammála. Hann gefur The Curse Of The Jade Scorpion 2 og hálfa stjörnu og Jay and Silent Bob Strike Back 3 stjörnur.

Hvorum á maður að trúa?

Ég held ég treysti Michael Wilmington hjá Tribune, einfaldlega af því að Woody Allen er snillingur!!!

Notaleg vinna

Eitt af því góða við það að vera að vinna í stað þess að vera í skóla er að maður getur farið heim á kvöldin án þess að hafa samviskubit yfir því að maður sé ekki að læra eða gera eitthvað. Þegar ég er í skóla finnst mér það alltaf vera eitthvað, sem mig vantar að gera. Maður gæti alltaf verið að reikna hagfræðidæmi í stað þess að horfa á sjónvarpið.

Þegar maður er að vinna er þetta öðruvísi. Gott dæmi um það er dagurinn í dag. Núna á ég ekki nema um 15 mínútur eftir af vinnunni og svo tekur við klukkutími í umferðarteppu. Síðan eftir það er ég alveg laus. Ég fór út að hlaupa í morgun og því get ég gert hvað sem mér hentar, án þess að vera með neitt samviskubit.

Það er góð tilfinning.

Sammy Sosa

Ég veit að það eru ekki margir Íslendingar, sem hafa áhuga á hafnabolta. Flestir halda að þetta séu allt einhverjir feitir gaurar, sem geti ekki hlaupið, en það er auðvitað vitleysa. Þetta er mjög skemmtileg íþrótt að horfa á í sjónvarpi og það jafnast ekkert á við það að fara á leiki á völlum einsog Wrigley Field, sem er heimavöllur míns uppáhaldsliðs, Chicago Cubs.

Með Cubs leikur einmitt minn uppáhaldsleikmaður, Sammy Sosa, sem er alger snillingur. Gott dæmi um snilli hans er hér. Sammy Sosa er frá Dómínaska Lýðveldinu, en hafnabolti er einmitt vinsælasta íþróttin á flestum eyjunum í Karabíska hafinu. Sosa er leikmaður, sem getur í raun klárað leik á eigin spýtur en þrátt fyrir það er hann alltaf alveg einstaklega hógvær. Það er erfitt að finna betri og skemmtilegri íþróttamann.

Tiltekt

Ég var í gær að taka til í Entourage, póstforritinu á makkanum mínum. Var að setja inn nýjar addressur og eyða gömlum pósti. Ég hafði þá stefnu að halda aðeins eftir persónulegum pósti, það er bréfum frá vinum og ættingjum.

Allavegana, þá eftir alla tiltektina bæði á Northwestern reikningnum mínum og Hotmail reikningnum hafði ég hent um 1500 skilaboðum. Það finnst mér vera hreinasta geðveiki. Þrátt fyrir að það sé ekki nema svona 6-7 mánuðir síðan ég hreinsaði til síðast.

Einnig er athyglisvert hvað sumt fólk er með margar e-mail addressur, sem það notar. Ég sjálfur nota 4 addressur, 2 hjá Danól, eina hjá Northwestern og eina hjá Hotmail. Auk þess hef ég stofnað einhverja Yahoo! reikinga fyrir rusplóst. Mjög margir í addressubókinni minni eru með 2-3 addressur. Jens slær þó metið því hann var með 6.

Bíómyndir

Við erum búin að vera mjög löt við að fara í bíó undanfarið. Einhvern veginn hafa fáar spennandi myndir verið sýndar undanfarið. Við ætluðum alltaf (og ætlum enn) að fara á Planet of the Apes, og svo hafa myndir einsog American Pie 2 fengið mjög lélega dóma.

Það eru því nær mánuður síðan við fórum síðast í bíó. Þá sáum við hins vegar tvær myndir með stuttu millibili. Sú fyrri var The Score með Marlon Brando, De Niro og Ed Norton og var hún bara mjög fín. Hin myndin, sem við sáum var Legally Blonde.

Sú mynd var alger snilld. Með fyndnari myndum, sem ég hef séð í langan tíma. Reese Witherspoon er alger snilldarleikona. Ég mæli eindregið með því að fólk sjá myndina.

Afmælishelgi

Ég átti afmæli um helgina. Er orðinn 24 ára gamall. Helgin var alveg meiriháttar skemmtileg.

Á afmælisdaginn sjálfan (föstudag, 17.ágúst) bauð Hildur mér út að borða og fórum við á The Stained Glass, sem er í miðbæ Evanston. Þar fengum við alveg geggjaðan mat og vín og sátum við þar heillengi og borðuðum. Síðar um kvöldið röltum við svo yfir á Kaffein, sem er kaffihús, sem er mjög vinsælt hjá Northwestern nemendum, og þar fengum við okkur æðislegan desert.

Á laugardag vaknaði ég eitthvað um hálf átta og keyrði niður í miðbæ Chicago yfir á Fado, þar sem ég horfði á Liverpool-West Ham ásamt nokkrum öðrum gallhörðum Liverpool mönnum. Við Hildur höfðum ætlað að horfa á “Air & Water Show”, sem átti að vera við vatnið, en veðrið var leiðinlegt, þannig að við kíktum bara aðeins í búðir.

Um kvöldið voru það svo tónleikar með Molotov. Þeir voru alveg ótrúleg snilld. Við vorum sennilega eina ljóshærða fólkið meðal 5000 mexíkóskra innflytjenda, enda var starað á okkur og nokkrir spurðu okkur hvaðan við værum, því þeir skildu ekkert í að við skildum fíla þessa tónlist. Allavegana þá komu La Ley fyrst á sviðið og tóku nokkur af sínum bestu lögum og voru þeir mjög góðir, sérstaklega söngvarinn, sem fær 10 fyrir sviðsframkomu.

Svo um hálftíma eftir að La Ley höfðu klárað komu Molotov fram á svið. Þeir byrjuðu fyrst á sinni útgáfu af Bohemian Rapsody, sem er hreinasta snilld. Síðan tóku þeir flest sín bestu lög, einsog Parasito, Voto Latino, Matate-te-te, Gimme Tha Power og enduðu svo á Puto.

Ég hef ekki farið á eins brjálaða tónleika hérna í Bandaríkjunum. Svei mér þá, ég held að ég hafi ekki svitnað eins mikið síðan ég fór á Rage Against the Machine í Kaplakrika. Þetta var alger snilld. Maður hoppaði og söng við tónlistina og stemningin var ótrúleg. Sérstaklega eftirminnilegt var þegar þeir tóku Gimme Tha Power. Það er skrítið að vera meðal 5000 mexíkanskra innflytjenda í Chicago og hrópa “Viva Mexico cabrones“.

Tóm skrifstofa

Það er búið að vera dálítið skrítið hérna í vinnunni í dag. Þannig er að allir í hönnunardeildinni (nema ég) eru staddir í Los Angeles. Þeir eru þar til að kenna nýjum viðskiptavini á kerfið okkar.

Þess vegna er ég hérna einn inní deildinni. Allt í kring eru tóm skrifborð. Það er ekki laust við að maður verði frekar þreyttur á því að sitja svona allan daginn fyrir framan tölvuskjá án þess að eiga nein mannleg samskipti.

RSS Tenglar

Ég var að uppfæra aðeins tengla síðuna mína. Ég hafði ekki lagað þá síðu lengi. Allavegana þá setti ég inn lítinn ramma með RSS uppfærslum. Því koma þar nýjustu fyrirsagnirnar á þeim íslensku síðum, sem ég heimsæki oftast. Einnig uppfærði ég þær erlendu síður, sem ég skoða oft.

Þetta virkar ekki fyrir Netscape 4. Fyrir þá, sem eru að skoða þessa síðu með Netscape 4, í guðanna bænum, skiptið um ‘browser’ eða einfaldlega uppfærið.

Molotov

watcha-0032.jpgÁ laugardaginn erum við Hildur að fara á tónleika með mexíkósku rokk/rappsveitinn Molotov. Ég heyrði fyrst í þessari hljómsveit þegar ég vann sumarið ’97 í Mexíkóborg. Nokkrum mánuðum síðar keypti ég mér diskinn Donde Jugaran Las Niñas?. Sá diskur er hreinasta snilld!

Stuttu eftir að ég keypti diskinn fór ég að spila hann í öllum partýjum, sem ég kom í. Í fyrstu voru nú flestir vinir mínir ekkert voða hrifnir, en smám vöndust menn tónlistinni og nú er það svo að flestir mínir vinir fíla þessa sveit í botn. Enda ekki furða því tónlistin er alger snilld.

Félagarnir eru mjög beittir í textum sínum og beinist gagnrýnin oft að stjórnvöldum í Mexíkó (sérstaklega PRI), en stjórnvöldum í Mexíkó hefur reynst það afskaplega auðvelt að klúðra landsmálum eins mikið og hægt er. Beittasta gagnrýnin er í baráttusöngnum Gimme Tha Power, sem er eitt af mínum uppáhaldslögum

Porque no nacimos donde no hay que comer,
no hay porque preguntarnos cómo le vamos a hacer?
Si nos pintan como unos huevones, no lo somos.
¡Viva México cabrones!

Fyrir um tveim árum fékk ég tækifæri að sjá Molotov í Madrid. Þar voru þeir á tónleikaferðalagi til að fylgja eftir Donde Jugaran Las Niñas?. Hét sú tónleikaferð því skemmtilega nafni: “Fuck you puto baboso” (ég sleppi þýðingunni). Það, sem skemmdi fyrir þeim tónleikum var að ég varð allt í einu veikur af einhverri beikonsamloku, sem ég hafði borðað fyrr um daginn. Því náði ég aðeins að sjá tvö til þrjú lög á milli þess sem ég ældi inná klósetti. Ég beið í raun bara eftir því að þeir tóku “Gimme tha power” þangað til að ég fór heim.

En allavegana þá erum við HIldur að fara að sjá þá félaga spila ásamt hinni frábæru hljómsveit “La Ley” frá Chile. Það verður ábyggilega rosa stuð.

Voto latino de entre las masas
voto latino para la igualdad de razas.