Serrano 10 ára

Serrano er 10 ára í dag.

Fyrir 10 árum vorum við Emil staddir á Stjörnutorgi að reyna að koma veitingastaðnum okkar stað af stað. Fjórum klukkutímum á eftir áætlun og án þess að ég hafi nokkurn tímann smakkað Serrano burrito þá opnuðum við staðinn. Ég hef rakið sögu þess hvernig staðurinn í þessu bloggi hér.

Þá sögu skrifaði ég fyrir 8 árum og á þessum átta árum hefur auðvitað gríðarlega mikið breyst. Fyrstu árin þá rákum við Emil Serrano í aukavinnu á meðan að við sinntum báðir annarri vinnu. Á því tímabili í mínu lífi lærði ég mikið, en á endanum þá ákvað ég að byrja í fullu starfi á Serrano í lok árs 2006 og Emil byrjaði svo ári síðar.

Ég hafði nægilega trú á konseptinu, mér fannst gaman af því að reka staðinn, ég var stoltur af fyrirtækinu og ég var viss um að Serrano væri það sem ég vildi vinna við allan daginn, alla daga. Það er mikilvægt að hafa trú á því sem maður er að selja í vinnunni og það hef ég í dag.


Það má segja að stærsta árið í sögu Serrano hafi verið 2007 þegar að við opnuðum okkar annan stað á Hringbraut. Sá staður hefur frá opnun verið okkar söluhæsti staður. Við höfum oft verið heppnir á þessum 10 árum. Til dæmis datt fyrsti staðurinn okkar í Kringlunni eiginlega í hendurnar á okkur eftir að við höfðum í marga mánuði verið að bíða eftir stað i í Smáralind, sem ekkert varð úr. Akkúrat á þeim tíma var Popeye’s að hætta á Íslandi og okkur bauðst að kaupa staðinn þeirra í Kringlunni.

Staðurinn okkar á Hringbraut var upphaflega teiknaður fyrir annan skyndibitastað, sem að hætti við. Einhver starfsmaður á arkitektastofunni hafði heyrt um Serrano og í framhaldi af því var haft samband við okkur og við fengum bilið. Eftirá að hyggja var það ótrúleg heppni.

Árið 2007 opnuðum við líka staðinn okkar í Smáralind, sem að við keyptum af WOK bar Nings. Ári seinna keyptum við svo veitingastaðinn Síam og opnuðum þar Serrano stað (og héldum rekstrinum á Síam áfram í einhverja mánuði án árangurs). Sá Serrano staður var lítill í byrjun en hefur með árunum stækkað gríðarlega. Seinna það ár opnuðum við svo Serrano á nýrri N1 bensínstöð á Bíldshöfða. Við hliðiná okkur þar var rekinn Pizza Pronto en á síðasta ári tókum við yfir þann stað og byrjuðum með NAM konseptið.

Svo kom hrun, en árið 2008 var samt sem áður okkar langbesta ár. Og 2009 var aftur okkar söluhæsta ár – met sem við svo toppuðum 2010, 2011 og munum líklega gera á þessu ári líka. Árið 2009 opnuðum við Serrano stað á Höfðatorgi. Svo tókum við okkur frí í þrjú ár frá byggingu á nýjum stöðum á Íslandi þangað til að við opnuðum stað í Spönginni í september.


Auðvitað þarf maður slatta af heppni til að halda úti veitingafyrirtæki í 10 ár. Við hittum á rétt konsept á réttum tíma og við höfum á mörgum tímapunktum verið verulega heppnir með það starfsfólk, sem hefur unnið með okkur.

En við höfum líka alltaf hugsað um matinn og reynt að bæta matinn og upplifunina á staðnum (og þar erum við rétt að byrja!). Við höfum haldið verðlagningunni sanngjarnri (jafnvel þegar að dunið hafa á okkur kostnaðarhækkanir þá höfum við reynt að hagræða í rekstri í stað þess að velta hækkunum útí verðið á matnum) og við höfum gert mikið til að halda okkar besta starfsfólki.

Ég og Emil erum enn bestu vinir eftir 10 ár í þessu samstarfi. Að vísu vinnum við í tveimur löndum, en við þurfum samt að glíma við allar erfiðar ákvarðanir saman, sem okkur hefur tekist að gera þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstrinum í gegnum tíðina.

Þetta hafa verið frábær 10 ár og ég er í dag gríðarlega stoltur af Serrano og því starfi sem við höfum unnið. Við eigum og rekum í dag 12 Serrano staði og þeim mun líklega fjölga nokkuð hressilega á næstunni. Við vitum að við getum gert marga hluti betur og ég get fullvissað alla um að við munum aldrei hætta að leita að hlutum til að bæta matinn, upplifunina og konseptið.

Þið sem hafið unnið með okkur í gegnum tíðina, verið tryggir viðskiptavinir og hjálpað okkur persónulega vil ég bara segja TAKK!

35

Í dag er ég 35 ára. Það eru nákvæmlega 5 ár síðan ég skrifaði þetta á þrítugs afmælinu mínu.

Ég hugsaði aðeins hvað ég ætti að skrifa á þessa bloggsíðu við þetta tilefni. Hvar stend ég í dag? Hvernig er mitt líf? Ég gæti skrifað færslu um það að á síðustu fimm árum hef ég ferðast til Mið-Austurlanda, Egyptalands, Indónesíu, Indlands og fleiri landa. Serrano staðirnir, sem voru tveir fyrir fimm árum, verða eftir um mánuð orðnir sjö á á Íslandi og fimm í Svíþjóð. Ég hef flutt til Stokkhólms og bý á frábærum stað í miðri borginni.


En það sem skiptir máli varðandi þessi fimm ár er auðvitað að ég hef kynnst ótrúlega mörgu frábæru fólki. Fólk, sem ég þekkti varla fyrir fimm árum, eru meðal minna bestu vina í dag. Og jú þetta…

17.ágúst 2007 vaknaði ég einn í herberginu mínu á Hagamel. 17.ágúst 2012 var ég vakinn af Margréti Rós. Það að hitta hana fyrir rúmum fjórum árum er það besta sem hefur komið fyrir mig. Við giftum okkur fyrir rúmu ári á besta dagi lífs míns. Og við hliðiná henni lá Jóhann Orri, rétt tæplega 4 mánaða strákur, sem mér þykir alveg ofboðslega vænt um og sem kemur mér á óvart á hverjum degi.

Því þegar að illa gengur í vinnunni, þegar að liðið manns tapar og þegar veðrið er vont, þá skiptir það mestu máli hverjir bíða manns heima. Þau tvö bíða mín og því get ég stoltur sagt að þessi síðustu fimm ár hafi verið frábær og að ég hafi gert ansi margt rétt. Fyrir það er ég þakklátur.

Hvar er Matt? Árgerð 2012

Ég hef áður tengt á myndbönd, sem að Matt Harding hefur gert af sér dansandi á hinum ýmsu stöðum í heiminum.   Allt frá því að hann setti inn fyrsta mydnbandið af sér árið 2005.  Myndböndin eru alls fjögur og staðirnir sem hann dansar á orðnir ansi margir.

Hérna er svo 2012 myndbandið komið og dansarnir eru orðnir aðeins betur þjálfaðir og fleira fólk sem aðstoðar.  Þessi myndbönd koma mér alltaf í gott skap og eru svo sannarlega innblástur fyrir ferðalög.

Ömurlegasta Evrópukeppni sögunnar

Menn geta deilt um gæði fótboltans sem var spilaður á EM 2012. Mér finnst Spánn hundleiðinlegt lið en aðrir eru að missa sig yfir því hvað það er skemmtilegt að horfa á þá senda stuttar sendingar sín á milli í 90 mínútur. Gott og vel.

Það sem er hins vegar óumdeilt er að þetta mót hefur verið sögulega ömurlegt fyrir mig og þau lið, sem ég held með.

Það er ágætt að halda utanum þetta.

Riðlakeppni

Ég hélt með tveim liðum. Holland tapaði hverjum einasta leik í keppninni. Svíþjóð tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var þar með dottið úr leik, en þeir náðu að vinna síðasta leikinn gegn Frakklandi, sem var smá sárabót, en sá leikur skipti engu máli.

Þannig að af leikjum sem skiptu máli þá unnu mín lið ENGAN leik. 0-5 er því staðan í leikjum talið.

8-liða úrslit

Í kjölfar þess að mín tvö uppáhaldslið voru dottin út þá hélt ég með Englandi og lýsti því yfir opinberlega. Fyrir það þá vonaðist ég samt til að Tékkar myndu senda heim Portúgal (sem ég þoli ekki), að Frakkar myndi taka Spánverja (sem ég er kominn með leið á) og ég vonaði frekar að Grikkir myndu taka Þjóðverja til þess að Englendingar gætu átt auðveldari andstæðing í 4 liða úrslitum.

Ekki einn af þessum leikjum fór einsog ég vonaði. 0-4 og því samanlagt 0-9 í leikjum talið fyrir allt mótið.

4-liða úrslit

Þarna vonaðist ég aftur til að Spánn myndi tapa og var kominn í þá furðulegu stöðu að styðja Portúgal með Pepe, Ronaldo, Nani og félaga. Í hinum leiknum var það svo mín helsta von Þýskaland, sem hlaut nú að taka Ítalíu. Ég lýsti því opinberlega yfir stuðningi við Þýskaland.

Niðurstaðan var sú að Spánn grísaðist til að vinna Portúgal í vítaspyrnukeppni og Þýskaland lék einhvern lélegasta leik sem ég hef séð þá spila. 0-2 niðurstaðan og því samanlagt 0-11.

Úrslitin

Óþol mitt fyrir Spánverjum á sér lítil takmörk og ég hélt því með Ítalíu í úrslitunum og lýst því yfir með nokkura daga fyrirvara, svo að aðrir gætu veðjað á Spán. Niðurstaðan var svo auðvitað spænskur sigur og til að toppa allt þá skoraði fokking Fernando Torres eitt mark.

Mér telst til að ég hafi horft á 12 leiki í þessu móti, sem að einhverju skipti fyrir mín lið. MÍN LIÐ UNNU EKKI EINN AF ÞESSUM LEIKJUM. Með öðrum orðum, ég hef ekki horft á einn einasta leik á þessu móti (fyrir utan tilgangslausan Svíþjóð-Frakklands-leik) án þess að verða fyrir vonbrigðum með úrslitin. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að toppa þetta mót.