When The Beautiful Game Turns Ugly – Frábær, en um leið sorgleg grein um ótrúlega kynþóttafordóma í ítölskum fótbolta.
Jahars World
Jahars World – góð grein í Rolling Stone um Dzhokhar Tsarnaev, annar af Boston Maraþons hryðjuverkamönnunum.
San Pedro de Sula
Hérna er gott myndasafn á Big Picture frá San Pedro Sula í Hondúras. Ég stoppaði stutt við í þeirri borg fyrir 8 árum á ferðalagi mínu um Mið-Ameríku. Þá var borgin þekkt sem sú borg sem hafði hæst hlutfall alnæmis í Ameríku. Í dag er borgin sú borg í heiminum þar sem ofbeldi er verst.
Ef fólki vantar ástæður til þess að nota ekki ólögleg vímuefni þá er ágætt að skoða þessar myndir og sjá hvernig að eftirspurn okkar vesturlandabúa eftir fíkniefnum er að eyðileggja lönd í Mið-Ameríku einsog Hondúras og Mexíkó þar sem að eiturlyfjagengi ráða öllu og beita hvor aðra og almenning ótrúlega grimmilegu ofbeldi án þess að lögreglan geti neitt gert. Þetta er sorglegt ástand.
Zocalo – Fresh Happy Mex
Núna eru 4 ár síðan að við opnuðum okkar fyrsta Serrano stað í Svíþjóð. Á þeim tíma höfum við lært ansi margt og þetta hefur verið oft á tíðum mjög erfitt, en það hefur líka gengið vel og verið ótrúlega skemmtilegt.
Fyrir um ári fórum við að ræða um möguleika á að breyta konseptinu aðeins og taka mið af því sem við höfum lært á síðustu árum. Munurinn á pantanamynstri á milli Svíþjóðar og Íslands er nokkuð mikill. Flestir heima velja sjálfir sinn mat og fólk kemur inná staðinn á mjög breiðu tímabili yfir daginn. Í Svíþjóð panta hins vegar nánast allir af matseðli og gríðarlega stór hluti af gestunum kemur á mjög stuttu tímabili í hádeginu. Þess vegna vildum við breyta því aðeins hvernig við afgreiðum matinn og byggjum upp staðina.
Við höfum líka verið sannfærð um að það sé hægt að gera matinn betri. Í haust ákvaðum við því að veita Alex Sehlstedt, yfirkokkinum okkar, sem gerði líka Nam konseptið með okkur, fullt frelsi til að endurhugsa algjörlega okkar matarkonsept. Hann fékk nokkra mánuði til að hugsa konseptið alveg frá grunni einsog hann myndi vilja hafa það.
Þriðja breytingin sem við veltum fyrir okkur var svo á nafninu Serrano. Síðasta sumar hófum vinnu með Íslensku Auglýsingastofunni til að vera markvissari í markaðsaðgerðum á Íslandi og í Svíþjóð. Við unnum þá vinnu með frábæru fólki á þeirri stofu og ein spurningin sem kom upp í viðtölum við starfsfólk og kúnna í Svíjþóð var um nafnið Serrano. Málið er að þegar að við opnuðum Serrano á Íslandi þá tengdi fólk orðið ekki við neitt sérstakt og því gátum við eignað okkur það á Íslandi. Serrano er nafnið á mexíkóskum chili pipar en í Evrópu er það líka þekkt sem spænsk skinka.
Og það var svo að í Svíþjóð lendum við sífellt í því að fólk heldur að við séum tapas staður. Þetta er vandamál sem við töldum að myndi aðeins aukast eftir því sem við myndum (vonandi) færa okkur sunnar í álfunni.
Því tókum við ákvörðun í október á síðasta ári að skipta um nafn á Serrano stöðunum í Svíþjóð (staðirnir á íslandi munu áfram heita Serrano). Við fórum nokkra hringi með nöfn. Íslenska auglýsingastofan spreytti sig á verkefninu og ég, Emil og yfirstjórnendur í Svíþjóð reyndum okkur líka. Ég fór yfir punktana frá því þegar við ákváðum Serrano nafnið í upphafi og við fórum í gegnum ansi mörg spænsk orð í leit að einhverju sem mér fannst passa við okkar stað. Ég skoðaði laganöfn og heiti á lestarstöðvum og bæjum í Mexíkó. Eitt laugardagskvöldið fékk ég mér bjór á bar hérna í nágrenninu og þar sannfærðist ég um hvað væri rétta nafnið fyrir nýja staðinn.
Eftir smá samtöl við Emil og stjórnendurna í Svíþjóð urðum við sammála um hið nýja nafn.

Zocalo er heitið á stærsta torginu í Mexíkóborg. Það er staður þar sem fólk hittir sína vini og fjölskyldumeðlimi, skemmtir sér og borðar góðan mexíkóskan mat. Alveg einsog veitingastaðurinn okkar.
Hér er heimasíða Zocalo og hér erum við á Facebook.
Frá og með 10.apríl munum við því gera breytingar á veitingastöðunum hér í Svíþjóð. Allir munu þeir loka í einhverja daga og þá munum við breyta afgreiðslunni. Á Zocalo pantar fólk við kassa af matseðli, borgar og fær bíper. Um leið og maturinn er tilbúinn þá pípir bíperinn og þú getur sótt matinn hjá eldhúsinu. Þannig forðumst við þær löngu raðir sem hafa myndast í hádeginu á stöðunum hérna úti. Í stað þess að eyða hádeginu í röð þá geturðu beðið í sætinu þínu og spjallað við þá sem þú ætlar að borða með.
Við munum líka breyta ytra útliti staðanna – við málum þá í ljósari litum og lýsum upp staðina. Við bætum inná stærstu staðina stórum listaverkavegg með mynd af Zocalo torgi, máluðu af sænskum listamanni Nina Wennersten.

Matseðilinn mun síðan breytast talsvert. Við gerum réttina einfaldari, tökum suma rétti út, lögum aðra og bætum við nýjum hlutum. Stærsta breytingin er að við bætum við tacos á matseðilinn okkar og einnig flóknari réttum á kvöldin. Staðirnir okkar hafa verið miklir hádegisstaðir en takmark okkar er að fá inn miklu fleira fólk á kvöldin. Því munum við byrja með fajitas og mexíkóska smárétti, sem við bindum miklar væntingar við.
Það er líka mikið að gerast í sjálfu fyrirtækinu okkar. Stærstu fréttirnar er að við erum komin með stóran sænskan fjárfesti með okkur í lið, en það er Gavia Food Holding, sem að átti áður Santa Maria vörumerkið. Það er gríðarlegur styrkur og viðurkenning fyrir okkar vinnu að fá svo sterkan sænskan fjárfesta í lið með okkur.
Við munum einnig á næstu þremur mánuðum opna þrjá frábæra staði í miðbæ Stokkhólms. Það að finna góðar staðsetningar fyrir veitingastaði í miðbæ Stokkhólms er eiginlega ómögulegt. Í þessi fjögur ár hefur ekki liðið sá dagur að ég hafi ekki leitað á einhvern hátt að staðsetningum. Ég hef fundað með ábyggilega vel flestum stórum fasteignaeigendum í Stokkhólmi og skoðað flesta veitingastaði í borginni. Vegna þess hversu sterkur réttur leigjenda er þá er nánast ómögulegt að fá pláss á góðum stað án þess að borga fyrir það mjög háar upphæðir í lyklagjald.
Því eru þessir staðir hreint stórkostlegir fyrir okkar konsept. Það er að vissu leyti tilviljun að allir þessir staðir skuli opna með svo stuttu millibili en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera algjörar AAA staðsetningar í miðbæ Stokkhólms. Við opnum fyrst um miðjan apríl á Kungsgatan 25 í nýju food-courti – K25 – þar sem ung og flott veitingastaðakonsept eru samankomin. Auk okkar eru þar Vigårda (sem hin sterka F12 grúppa á), Yoi, Panini, Beijing 8 og fleiri flottir staðir.
Í maí munum við svo opna okkar stærsta og flottasta stað á Klarabergsgatan 29, alveg við Sergels Torg. Meira miðsvæðis er ekki hægt að vera í Stokkhólmi. Sá staður mun vera með um 150 sæti á einni fjölförnustu götu Stokkhólms. Og í sumar munum við opna á Regeringsgatan 20, einnig mjög miðsvæðis aðeins 50 metrum frá Kungsträdgården. Við teljum að allir þessir staðir muni verða stærri en okkar stærsti staður í dag.
Þannig að næstu vikur verða spennandi. Það hefur verið mikið að gera í að undirbúa þetta allt og það er auðvitað mikið eftir, en við gætum ekki verið spenntari fyrir komandi vikum.
The 46 Places to Go in 2013 – NYTimes.com
The 46 Places to Go in 2013 – NYTimes.com. – The New York Times fjallar um 46 spennandi staði til að ferðast tilá þessu ári. Það er erfitt að fá ekki ferðafiðring.
The NFL’s Secret Drug Problem – MensJournal.com
The NFL’s Secret Drug Problem – MensJournal.com. – Mögnuð grein um það hversu margir fyrrverandi NFL leikmenn eru algjörlega háðir sterkum verkjalyfjum jafnvel mörgum árum eftir að þeir hætta að spila í deildinni. Ég get ekki horft lengur á NFL þegar ég hugsa um hversu algengt er að menn fái heilaskaða og þetta gerir það ekki beint líklegra að ég byrji að horfa.
Qualcomm’s insane CES 2013 keynote in pictures and tweets | The Verge
Qualcomm’s insane CES 2013 keynote in pictures and tweets | The Verge. Þetta er umfjöllun The Verge um kynningu Qualcomm á CES, sem er stórkostlega vandræðaleg.
Áramótaávarp 2012
Dálítið seint þar sem ég hafði engan tíma á gamlársdag
2012 hefur verið ótrúlegt ár.
- Við Margrét eignuðumst lítinn strák í apríl, sem við nefndum Jóhann Orra.
- Jóhann Orri er snillingur og nánast allt í okkar lífi hefur breyst við komu hans. Á þessum átta mánuðum sem hann hefur verið með okkur hafa tilfinningar mínar í hans garð bara orðið sterkari og sterkari. Mér þótti vænt um hann frá því að ég sá hann á spítalanum í Danderyd. En með mánuðunum þá hafa tilfinningarnar mínar breyst. Þegar hann fór að brosa til mín, fatta hver ég var og sýna viðbrögð þá urðu tilfinningarnar svo miklu sterkari.
- Jóhann Orri situr við hliðiná mér þegar ég skrifa þetta. Hóstar af því hann er veikur, lítur svo upp og brosir til mín. Þetta barn!
- Sonur okkar hefur kúkað í klósett síðan hann varð 6 mánuða gamall. Það er algjörlega fáránlegt hversu ótrúlega miklu stolti maður getur fyllst við að sjá strákinn sinn kúka í klósett. Að vera pabbi er svo ótrúlega gefandi útaf öllum þessum litlu sigrum.
- Gaurinn sem endar steggjapartí niðrá Hlölla á Lækjartorgi talandi við vini sína um hversu æðisleg barnið sitt er – það er núna ég.
- Við Margrét prófuðum að vera fullorðin og fara í frí til Tenerife og gista á all-inclusive hóteli. Sú tilraun misheppnaðist. Við erum ekki tilbúin í þann pakka. Næsta ferðalag verður frumlegra.
- Ég fór í tvær frábærar ferðir til Liverpool og sá Liverpool ná heilu stigi útúr þeim tveimur leikjum. En ferðirnar snérust um frábæra vini miklu frekar en þetta blessaða fótboltalið sem hefur gert mér lífið leitt á árinu.
- Við Margrét seldum gömlu íbúðina okkar í Stokkhólmi og fluttum í nýja íbúð, sem hentar betur fólki með lítið barn, barnavagn og því sem tilheyrir. Við búum enn á eyjunni Södermalm af því við erum enn ung og hipp og kúl. En samt orðin mamma og pabbi og vöknum klukkan 8 á laugardagsmorgnum og allt það.
Við enduðum árið 2012 á Íslandi þar sem ég afrekaði á 14 dögum að fara í tvær 15 klukkutíma langar steggjanir, tvö frábær brúðkaup, innflutningspartí, tvö matarboð, vera þunnur eftir tvö brúðkaup, innflutningspartí og tvær steggjanir, fara í boð á aðfangadag, jóladag og annan í jólum. Fara í partí á annan í jólum, spila pool með vinum, horfa á Liverpool með vinum mínum og fara í löng brunch-boð þrisvar sinnum. Svona eru þessar Íslandsferðir – þvílík dagskrá – en þær eru samt alltaf frábærar.
Á árinu 2013 verður mikið nýtt að gerast í tengslum við Serrano í Svíþjóð og við Margrét stefnum á að fara loksins í brúðkaupsferð. Það verður fjör.
Gleðilegt ár!
Nýtt útlit
Nýtt ár, nýtt útlit á þessari bloggsíðu sem hefur lifað betri tíma.
Ég eyddi út slatta af dóti, sem mér fannst vera truflandi og setti inn mjög mínímalíska útfærslu af síðunni. Kannski aðallega undir áhrifum frá Marco Arment og þessari færslu frá Paul Stamatiou.
Vonandi verð ég duglegri við að halda þessari síðu uppi á þessu ári.
Photo Essay: When a Kid’s Bedroom Isn’t a Room | Mother Jones
Photo Essay: When a Kid’s Bedroom Isn’t a Room | Mother Jones. – Myndir af unglingaherbergjum í ólíkum löndum.