Mexíkóflóaferð 2: Tímavélin Havana

Það eru sextán ár síðan að ég kom með bandarískum vini mínum til Havana, höfuðborgar Kúbu. Þá taldi ég að þetta væri síðasta tækifæri mitt til að sjá eyjuna áður en að Fidel Castro myndi deyja og allt breytast. Við vorum saman í eina viku í Havana, þar sem við kynntumst frábærum Kúbverja á bar sem hann vann á og sáum með honum borgina, drukkum á barnum hans og stunduðum partí í heimahúsum fram á nótt. Núna 16 árum síðar er ég hérna tveggja barna faðir með eiginkonu og tvö lítil börn. Jú, ég fæ mér mojito og bjór með matnum, en ekkert á við flösku af rommi blandaða í eina kókdós einsog árið 1998.

Gata í Havana. Búið að mála.
Gata í Havana. Búið að mála.

Að mörgu leyti hefur borgin líka breyst en að ótrúlega mörgu leyti er hún eins. Fidel er orðinn 88 ára gamall og hætti sem hæstráðandi á Kúbu fyrir átta árum og lét litla bróður sínum Raúl eftir völdin. En andi Fídel og hans gömlu vina er auðvitað enn mjög sterkur. Havana er vissulega ennþá einsog tímavél full af hálf hrundum ótrúlega fallegum byggingum og gömlum amerískum bílum frá 1950 ásamt gömlum Fiat og Lödu bifreiðum frá 1980. En ég sé líka talsverðar breytingar. Löggur eru ekki nærri því jafn áberandi á götum úti og aukið frjálsræði í viðskiptum þýðir að úrval veitingastaða hefur margfaldast (síðast borðuðum við hrísgrjón og baunir á götuhorni í næstum hverri máltíð). Habaguanex, stofnunin sem fyrir túristapeninga sér um að endurbyggja miðbæinn, hefur líka gert mikið gagn og miklu fleiri hús hafa verið endurgerð og líta ekki út fyrir að vera við það að hrynja.


Í Havana búa rúmlega 2 milljónir íbúa af þeim ellefu sem búa í heildina á Kúbu. Flestir hlutir sem vekja áhuga ferðamanna eru í gamla miðbænum, Habana Vieja eða Vedado. Borgin er ótrúlega falleg með litríkum húsum og miklu götulífi. Það mest sjarmerandi við Habana Vieja (þar sem við búum á litlu gistiheimili rétt hjá Plaza Vieja) er að borgin er lifandi og full af innfæddum. Ólíkt mörgum gömlum túristaborgum þá býr fólk í Habana Vieja og Habaguanex hefur einmitt gert í því að viðhalda borgarlífinu og gera fólki kleift að búa áfram í miðborginni svo að svæðið verði ekki bara samansafn af hótelum og Airbnb íbúðum. Manni líður líka einsog maður sé öruggur hérna. Fyrir sextán árum fannst mér ég vera öruggur útaf öllum löggunum, en þótt ég sjái þær ekki jafnmikið í dag líður mér enn einsog við séum sæmilega örugg hérna, jafnvel seint um kvöld. Núnva var ég til að mynda að koma heim eftir langan göngutúr í myrkrinu – nokkuð sem ég myndi aldrei nokkurn tímann gera í San Salvador, Mexíkóborg, Caracas eða Bogota.

Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja
Jóhann Orri leikur sér með trébílinn sinn á götu nálægt Plaza Vieja

Ferðamenn borga fyrir allar vörur í CUC, gjaldmiðli sem er jafn bandaríkjadollar, en kúbverjar borga fyrir vörur í Moneda Nacional, sem hefur 10% af verðmæti CUC. Þannig að ég borga 1 CUC (=1 dollar) fyrir vatnsflösku, en kúbverji borgar 10 sinnum minna. Ég labba inná veitingastað og fæ mér bjór og vatn, en kúbverji þarf oft að bíða í biðröð eftir að kaupa einföldustu vörur. Þetta tvöfalda kerfi og miklu meira frjálsræði fyrir kúbverja að stofna fyrirtæki sem höfða til ferðamanna er byrjað að valda auknu misræði á milli borgaranna. Þeir sem vinna nálægt ferðamönnum geta leyft sér að kaupa merkjavöru á meðan að aðrir með hefðbundna vinnu hafa það ekki nærri því jafn gott. Sósíalíska byltingin hans Fídels er ekki alveg að virka að þessu leyti.


Við komum hingað með flugi frá Cancún (þar sem við þurftum að millilenda vegna þess að auðvitað er ekkert beint flug frá Flórída til Kúbu) og gistum á litlu gistiheimili á San Ignacio götunni. Með tvö lítil börn er ferðaskipulagið talsvert öðruvísi. Við heimsækjum minna af söfnum (nema þegar börnin eru sofandi eða þegar söfnin hafa eitthvað sem klárlega er spennandi fyrir Jóhann Orra = BÍLAR) og reynum að nýta daginn sem best í kringum þá tíma sem þau eru vakandi og sofandi. Við höfum notið tveggja daga á rólegu labbi í gegnum gömlu Habana, enda nýtur maður borgarinnar best þannig. Vissulega eru sölumenn miklu ágengari en fyrir sextán árum, en það er auðvelt að labba framhjá þeim og njóta þess að vera í borginni sem iðar af lífi og lifandi tónlist útum allt.

Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.
Che, Fidel og Camilo á Byltingasafninu.

Við höfum heimsótt Byltingarsafnið, þar sem sýningarnar eru sextán árum eldri en síðast, jafn stórkostlega litaðar af áróðri – sem gerir þær bara skemmtilegri – og enn snjáðari og sjúskaðari en fyrir sextán árum. Seinnipartinn í gær löbbuðum við svo um Malecón strandgötuna. Flest húsin við þá götu eru að hruni komin útaf saltmengun og í gær var gatan lokuð bílaumferð þar sem öldurnar skullu á varnargarðinu með svo miklum krafti að sjórinn flæddi yfir. Það er magnað að labba og skoða þessa götu í slíku veðri. IMG_5619 Við höfum svo labbað torganna á milli í Habana Vieja og í morgun gerðum við það túristalegasta af öllu túristalegu í Havana og leigðum okkur bleikan Cadillac blæjubíl frá 1953, sem fór með okkur um þá staði sem við náðum ekki að labba um. Svo sem Vedado, Kínahverfið og auðvitað Byltingartorgið þar sem andlitsmyndin af Che Guevara með Hasta La Victoria Siempre hefur nú fengið félagskap frá Camilo Cienfuegos með sín frægustu ummæli, Vas Bien, Fiedel.

Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.
Ég drekkandi frábært kúbverskt kaffi á Byltingasafninu í Havana með Björgu í poka.

Svo höfum við reynt að borða góðar kúbverskar samlokur (innblásin af myndinni Chef höfum við þó komist að því að góðar kúbverskar samlokur eru sennilega algengari á Miami en í Habana), drukkið frábæra mojitos og Cristal bjór, borðað mikið af hrísgrjónum og svörtum baunum og notið rólegs lífs í þessari frábæru borg. Á morgun tökum við svo bíl til Svínaflóa og þaðan til borgarinnar Cienfuegos. Skrifað í Havana, Kúbu 3.nóvember klukkan 20.02

Mexíkóflóaferð 1: Skemmtigarðar, keðjur og bílar

Fyrir þremur árum skrifaði ég síðasta langa ferðabloggið á þessa síðu þegar að við Margrét ferðuðumst í tvo mánuði um Indland í algjörlega frábærri ferð. Hvað gerðist svo í mínu lífi? Jú, ég gifti mig og við Margrét eignuðumst tvö ótrúlega skemmtileg börn – þau Jóhann Orra (sem er 2,5 ára) og Björgu Elísu (sem er fimm mánaða gömul). Þetta neyðir fólk með ferðaáhuga til að endurskoða aðeins ferðaplönin því það er ekki alveg það sama að ferðast tvö ein með tvo bakpoka í rútu á Indlandi og að vera tveggja smábarna foreldrar í ferðahugleiðingum.

Við erum núna byrjuð á fyrsta langa ferðalaginu síðan á Indlandi og á einhvern hátt erum við að reyna að púsla saman ferðalagi, sem er þægilegt og skemmtilegt fyrir krakkana, en býður líka uppá hluti sem eru krefjandi og skemmtilegir fyrir okkur. Það snýst allt um að hitta eitthvert jafnvægi milli tveggja vikna á Kanaríeyjum og bakpokaferðalagi á Indlandi.

Niðurstaðan var fimm vikna ferðalag um Mexíkóflóa. Við byrjuðum á rúmum tveimur vikum á Flórída, förum svo til Kúbu og að lokum til Yucatan skaga í Mexíkó. Við ferðumst með tvær ferðatöskur, barnavagn og bakpokann minn.


Flórída er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heimi og þar er Orlando miðpunktur ferðamannastraumsins með hlýtt loftslag allt árið og heimsþekkta skemmtigarða, sem laða að sér ótrúlegt magn ferðamanna. Slatti af þeim virðist koma frá Íslandi því á síðustu tveimur vikum hef ég oftar heyrt íslensku úti á götu (eða inni í verslunarmiðstöð) í Orlando en ég geri vanalega í Stokkhólmi.

Ég, Margrét, Jóhann Orri og Björg Elísa höfum verið í Orlando í tvær vikur ásamt fjölskyldu Margrétar í leigðu húsi í einu úthverfi borgarinnar og átt nokkuð hefðbundið Flórída frí með sól, bílaleigubíl, skemmtigörðum verslunarmiðstöðvum og miklum mat.

Ég bjó í Bandaríkjunum í yfir þrjú ár í kringum aldamótin. Sú upplifun var ótrúlega ólík því sem maður upplifir í úthverfi á Flórída. Ég bjó í Evanston, úthverfi Chicago sem er að mörgu leyti frábær og óbandarísk borg með skemmtilegum miðbæ þar sem maður getur labbað og borðað á veitingastöðum sem tilheyra ekki risastórum keðjum. Vinir mínir í háskóla voru frekar vinstri sinnaðir og að mörgu leyti líkari Evrópubúm í hugsunarhætti en hægri sinnuðum löndum sínum.

En í úthverfum Orlando þar sem skemmtigarðarnir eru þá er stemmningin öðruvísi. Allt er byggt í kringum bílaumferð, engar gangstéttir eru til staðar né sér maður nokkurn mann á hjóli. Útum allt eru stórir verslunarkassar og fyrir framan þá keðjuveitingastaðir. Ég elska Bandaríkin en ég elska ekki svona bandarísk úthverfi og þá menningu þar sem allt byggist á því að keyra risastóran og loftkældan bíl á milli verslunarkjarna eða á keðjuveitingastaði sem eru þeir sömu og í næstu götu á eftir.

Það er nokkuð erfitt að skrifa ferðasögu eftir tveggja vikna ferð um stað sem svo margir hafa farið á, þannig að ég ætla bara að koma þessu frá mér í punktaformi.

 • Magic Kingdom í DisneyWorld er frábær staður fyrir lítil börn. Jóhann Orri er 2,5 ára gamall og hann algjörlega elskaði Magic Kingdom. Það að við vorum þarna í október gerði flestar raðir þolanlegar og FastPass hjálpaði líka til (FastPass er ókeypis kerfi til að skrá sig fyrifram í viss tæki). Fyrir rúmum 20 árum var ég með foreldrum mínum í Disneyworld þar sem við fórum bara í Epcot, sem var þá skelfilega leiðinlegt en Magic Kingdom er mun skemmtilegra. Fyrir krakka yfir 10-12 ára eru aðrir skemmtigarðar eflaust betri, en fyrir börn undir 10 ára er Magic Kingdom algjör paradís.
 • Unversal Studios og Busch Gardens bjóða uppá talsvert meira fjör (bæði 14 ára gömlum og 37 ára gömlum Einari fannst Busch Gardens skemmtilegasti garðurinn) og báðir eru frábærir fyrir börn, þá sérstaklega Busch Gardens sem býður uppá frábær leiksvæði.
 • Utan þessara skemmtigarða voru leiksvæði, sem við heimsóttum, alveg með ólíkindum léleg. Í verslunarmiðstöðvum voru leiksvæði styrkt af stórfyrirtækjum en voru samt svo léleg að Stokkhólmsbúinn Jóhann Orri (sem er vissulega ótrúlega góðu vanur frá Stokkhólmi) gafst fljótt upp og horfði hálf hissa á eldri krakka leika sér í tækjum sem hann hætti að leika sér í fyrir rúmu ári.
 • Í svona stórum hóp þar sem allir vilja prófa staði sem fólk hefur lesið um eða séð í bíómyndum þá endar maður oftast á því að borða á keðjuveitingastöðum. Skoðanir mínar á þeim flestum hafa ekki breyst mikið frá því að ég bjó í Bandaríkjunum. Af skyndibitastöðum bera Five Guys (hamborgarar) og Chipotle (burrito) enn af. Það er galið að fá sér hamborgara á McDonald’s eða Burger King þegar að Five Guys er líka í sömu borg. Við þá bættist svo Flórída staðurinn Earl of Sandwich, sem var frábær. Af stórum hefðbundnum keðjuveitingastöðum er Fogo de Chao æðislegur og ég elska enn pizzurnar á California Pizza Kitchen, en staðir einsog Friday’s, Chili’s og (verst af öllu) Cheesecake Factory eru oftast með mun betri matseðla en mat.
 • Flórída ríki ofnotar stöðvunarskildu stórkostlega! Ég held að ég hafi varla séð biðskyldumerki á öllu þessu ferðalagi.
 • Hvað myndi ég gera öðruvísi í næsta Flórída fríi með börn? Sennilega eyða meiri tíma í DisneyWorld og taka hlutunum rólegar þar – við kláruðum alltaf hvern garð á einum degi og það er gríðarlegt stress og álag fyrir litla krakka. Í staðinn hefði ég hreinlega verið til í að gista á Disney hóteli og taka garðana á nokkrum dögum. Svo myndi ég leigja hús með garði sem liggur ekki í norður (og hefur því sól í meira en klukkutíma) og helst velja bæ einsog Sarasota þar sem hægt er að labba um, öfugt við úthverfi Orlando.

Annars er ég bara nokkuð sáttur eftir þessar tvær vikur. Við eyddum þeim með frábæru fólki – bæði fjölskyldu Margrétar í lengri tíma og foreldrum mínum í stuttan tíma og það er það sem skiptir máli. Þegar ég á þó að velja mitt draumafrí þá dettur mér samt ekki beint í hug endalausar bílferðir og þunnt Starbuck’s kaffi.

Það er líka ekki auðvelt að skrifa áhugaverðar ferðasögur úr slíku fríi, þótt að það sé á marga vegu frábært. En núna sit ég á flugvellinum í Cancún, nýbúinn að borða Huevos Rancheros og guacamole og við bíðum saman eftir flugi til Havana á Kúbu. Á þeirri eyju ætlum við að eyða næstu 10 dögum í Havana og fleiri bæjum (planið hljómar uppá Havana, Cienfuegos og Trinidag en það kemur í ljós seinna). Eftir það ætlum við að koma aftur hingað til Yucatan skaga og eyða öðrum 10 dögum á Maya rívíerunni.

Skrifað í Cancun, Mexíkó kl 11:49

Dubai ferð 2: Hæsta bygging í heimi

Burj Khalifa er hæsta bygging í heimi. Í raun er alveg kjánalega mikill munur á henni og þeim byggingum sem voru áður hæstar. Pýramídarnir í Giza eru um 150 metra háir og Eiffel turninn rétt yfir 300 metrar. World Trade Center turnarnir voru rétt yfir 400 metra háir og Sears turninn í Chicago er rúmlega 500 metra hár með öllum möstrum.

Ég hef lengi verið heillaður af háum byggingum. Fyrir um 15 árum fór ég uppá efstu hæð í Sears Tower sem var á þeim tíma hæsta bygging heims. Um svipað leyti fór ég svo til Toronto í Kanada þar sem að CN turninn er (sem var þá enn hærri en Sears Tower) og fór þar í utanáliggjandi glerlyftu uppá útsýnispall með glergólfi, sem er svakalegasti útsýnispallur, sem ég hef farið á.

En allavegana, CN turninn er um 550 metrar og var hæsta frístandandi bygging í heimi – það eina sem var hærra en CN turninn var sjónvarpsmastur í Norður Dakota, en því mastri var haldið stöðugu af vírum og því fékk það ekki að vera á listanum yfir hæstu frístandandi byggingar heims. Mastrið er 628 metra hátt.

Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.
Margrét og Jóhann Orri hjá Burj Khalifa.
Semsagt, áður en Burj Khalifa var byggður þá voru hæstu byggingar heims annars vegar 550 hár CN turn og svo 628 metra sjónvarpsmastur, sem var haldið stöðugu af vírum. Og hvað gerðu menn í Dubai? Jú, þeir ákváðu að þetta skyldi toppað. Og til þess að tryggja það að einhverjir aðrir klikkhausar myndi ekki toppa Burj Khalifa strax þá var ákveðið í sjálfu byggingaferlinu að fara enn hærra með bygginguna. Þannig að hún endaði í 828 metrum! Það er sléttum TVÖ HUNDRUÐ metrum hærra en sjónvarpsmastrið. Semsagt, menn tóku hæstu byggingu í heima og bættu oná það jafngildi þriggja Hallgrímskirkna.

Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið
Útsýni úr Burj Khalifa yfir miðbæinn og í fjarlægð má sjá Burj Al Arab hótelið

Þess vegna er smá skrýtið að standa fyrir utan þessa byggingu því maður getur ekki alveg áttað sig á því hversu há hún er án þess að rifja upp staðreyndirnar. Kannski væri þetta enn stórfenglegra ef að 300 metra hár Eiffel turn væri þarna til samanburðar. En við dáðumst að byggingunni, tókum myndir í hæfilegri fjarlægð og fórum svo uppá útsýnispallinn, sem var bæði inni og úti. Hann er þó “eingöngu” á 124. hæð (452 metrar) af um 160 hæðum í byggingunni. Útsýnið er skiljanlega gott yfir þessa furðulegu borg og þar á meðal er fínt útsýni yfir heims-eyjarnar rétt utanvið ströndina.

* * *

Einsog í svo mörgu öðru í Dubai virðist tilgangurinn á bakvið bygginguna vera fyrst og fremst að skapa umtal um Dubai og að laða að ferðamenn. Og það virkaði allavegana á mig því ég hef verið forvitinn um þessa borg þrátt fyrir að ansi margt við uppbyggingu hennar sé mér kannski ekki að skapi.

En það er ekki hægt að neita því að Dubai er að mörgu leyti frábær ferðamannastaður ef maður veit hvað maður vill fá útúr borginni. Ef maður vill sól um miðjan vetur, frábær hótel, frábærar búðir og líka eitthvað spennandi og skemmtilegt að sjá, þá er Dubai klárlega staðurinn. En ókostirnir fyrir ferðafólk eru líka margir. Fyrir það fyrsta er þetta dýr áfangastaður – þó að maður fái vissulega verðmæti fyrir peningana í hótelgistingu og mat. Annar gallinn er sá að áfengi er bara selt á hótelveitingastöðum, sem er ekki lítið pirrandi. Það er leiðinlegt að geta ekki fengið sér einn bjór á veitingastað eftir langan dag.

En eftir 10 daga í borginni get ég allavegana sagt að þessi borg er einstök. Hún er klárlega ekki fyrir alla, en samblandan af veðrinu, einstakri þjónustu og merkilega spennandi hlutum að sjá, gerir hana allavegana að spennandi valkosti.

Skrifað í Stokkhólmi kl 20.44

Dubai ferð 1: Hin ótrúlega og sturlaða Dubai borg

Hvernig á að lýsa fyrirbærinu Dubai?

Jú, við fjölskyldan erum til að mynda á hóteli við smábátahöfnina í Dubai. Hótelið er staðsett á landi sem er núna eyja, en var hluti af meginlandinu fyrir 11 árum. Sjónum var veitt inní landið og úr því varð skurður, höfn og hluti landsins breyttist í eyju. Þar er núna hótelið okkar ásamt tugum annarra hótela og eftir 1-2 ár er gert ráð fyrir að um 120.000 manns muni búa hérna.

Hótelið okkar samanstendur af tveimur 48 hæða turnum. Það var byggt á tveimur árum frá 2003-2005. Ef maður fer uppá efstu hæð sér maður vel yfir Palm Jumeirah, sem er samansafn af eyjum, sem voru búnar til með því að moka sandi af botni Persaflóa, sem að saman mynda risavaxið pálmatré.

Maður getur tekið sporvagn frá rót pálmatrésins og alveg uppí topp þar sem að fyrir er Atlantis hótelið með sínum 1.537 herbergjum og vatnsrennibrautagarði og sædýrasafni í garðinum. Já og þar sem hægt er að bóka stærstu svítuna í eina nótt fyrir 2,3 milljónir íslenskra króna. Auk Atlantis eru 27 önnur hótel á þessum eyjaklasa, strandlengja þessa pálmatrés er 520 kílómetrar og þetta pálmatré var ekki til fyrir 12 árum! Já, og þetta er ekki eina pálmatréið því að fyrir sunnan er Palm Jebel Ali, sem á þegar það er tilbúið að vera heimili um 250.000 manna. Ef menn finna sér ekki ásættanlegan stað á pálmatrjánum þá er alltaf hægt að kaupa eina eyju í heims-eyjaklasanum, sem að er að mestu leyti tómur rétt utan við miðbæ Dubai.

* * *

Frá hótelinu er líka nokkuð auðvelt að taka metro-lest (sem opnaði fyrir 3 árum) niður í miðbæ Dubai þar sem hægt er að fara uppí hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, eða eyða deginum í stærstu verslunarmiðstöð heims.

Dubai er einsog kapítalisminn að hlaupa sigurhring öskrandi að allt sé hægt með nógu miklum peningum, krafti og olíu.

Þetta er heillandi borg, ekki síst útaf öllum þessu brengluðu andstæðum. Af þeim borgum sem ég hef heimsótt líkist hún mest Las Vegas. Hún á sannarlega nær ekkert sameiginlegt með öðrum múslimaborgum sem ég hef heimsótt fyrir utan konur í hijab og stöku bænaköll.

Dubai er óður til kapítalismans. Hérna er ekki bara hægt að kaupa Rolex, heldur eru öll Rolex úrin með demöntum og úr gulli. Hér er ekki bara hægt að kaupa Fendi og Dior föt, heldur líka Fendi og Dior barnaföt og rúmföt. Ég hef labbað framhjá þremur Vertu búðum (Vertu selja drasl síma sem eru blingaðir upp og seldir fyrir einhverjar milljónir). En í verslunarmiðstöðinni slökknar samt á tónlistinni nokkrum sinnum á dag til að hægt sé að hlusta á bænaköll og réttarkerfið er að vissu leyti byggt á sharia lögum þar sem að vitnisburður kvenna gildir bara 50%.

* * *

Dubai er eitt af hinum sjö furstadæmum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Dubai er stærsta borgin og er ásamt Abu Dhabi (sem er langstærsta furstadæmið að flatarmáli) langmikilvægust furstadæmanna. Hér búa um 2 milljónir manns, en í furstadæmunum öllum búa rúmlega 8 milljónir. Landið liggur á norðausturhluta Arabíuskaga – Dubai er umlukið Abu Dhabi í vestri og suðri og Sharjah furstadæminu í austri – en sjálf Sameinuð Arabísku Furstadæmin eiga landamæri að Sádí Arabíu í suðri og Oman í austri. Fyrir norðan er svo Persaflói og hinum megin við hann er Íran.

Landið er eitt stærsta olíuveldi heims, en yfirvöld hafa beitt sér mikið fyrir því að landið þurfi ekki að treysta eingöngu á olíu og því hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið gríðarlega. Stór hluti af því hefur verið að auglýsa Dubai og Abu Dhabi með alls kyns merkilegum hlutum einsog að byggja hæsta turn í heimi eða að breyta valdahlutföllum í breskri knattspyrnu með því að dæla peningum inní fótboltalið þar. Aðeins um 15% íbúa í Dubai eru innfæddir emíratar (er það orð? ég finn ekki íslenska þýðingu á emirati) á meðan að 74% íbúa koma frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh!

* * *

Það er vissulega auðvelt að slappa hér af á góðu hóteli, sem gæti þess vegna verið á Tenerife eða öðrum evrópskum túristastöðum. En það er einmitt þessar ótrúlegu öfgar í einu og öllu, sem gera Dubai að svo spennandi borg.

Við Margrét og Jóhann Orri höfum verið hérna í viku og notið tímans. Við Margrét eigum von á okkar öðru barni í maí og því vildum við stað þar sem við gætum slappað af en einnig séð eitthvað spennandi. Því hefur ferðin verið blanda af hangsi við sundlaug og því að skoða alla geðveikina sem er Dubai. Hér er um 28 stiga hiti, sem er talsvert þægilegra en þegar ég millilenti hérna í 43 stiga hita fyrir nokkrum árum.

Við höfum labbað mikið en þrátt fyrir að borgin hafi byggst upp á allra síðustu árum og allt sé frekar miðstýrt þá er ótrúlega lítið hugsað fyrir gangandi ferðamönnum. Það er dálítið einsog borgin sé hönnuð með það að sjónarmiði að maður geti farið úr bíl inní loftkæld hús án viðkomu á gangstétt.

Þetta höfum við rekið okkur á nokkrum sinnum þegar við höfum hundsað ráð hótelstarfsmanna og ákveðið að labba í stað þess að taka leigubíl þegar við ætlum að fara á staði sem virðast ekki vera nema nokkur hundruð metra frá hótelinu. En þar sem að borgin er hönnuð fyrir bíla með 13 akreina hraðbrautum í gegnum hana endilanga, þá getur það reynst erfitt. Kannski er þetta ágætt þegar að hitinn er svo óbærilegur að allt lífið snýst um að fara úr einu loftkældu boxi í annað, en þegar að hitinn er jafn þægilegur og núna þá er það hálfger sóun.

Og það er reyndar ákveðinn rauður þráður í gegnum þetta allt að einhvern veginn sé maður partur af einhverju vandamáli með því að vera hérna. Það er ekkert vit í því að byggja skýjakljúfa úr stáli, steypu og gleri í miðri eyðimörkinni. Og auðvitað eiga ekki að vera ferskvatnssundlaugar 100 metra frá Persaflóa og hvað þá að hér eigi að vera gras á golfvöllum. Yfirvöld eru að reyna að breyta og bæta þetta með metnaðarfullum verkefnum, sem að vonandi hjálpa til. Þegar ég sá innanhús skíðabrekkuna í dag þá fannst mér þetta allt í einu vera komið skrefi of langt. Ég gat ekki eytt pening í það að skíða í loftkældu húsi í eyðimörkinni.

En það er einmitt öll þessi klikkun sem gerir þetta allt svo spennandi og skemmtilegt. Allavegana í nokkra daga.

Skrifað í Dubai, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum klukkan 00.15

Áramót 2013

Þetta ár hefur verið magnað.

 • Jóhann Orri hefur breyst úr smábarni í lítinn og ótrúlega skemmtilegan strák á árinu. Hann er í dag 20 mánaða gamall, hleypur útum allt, klifrar uppá allt (þó það tímabil sé reyndar eitthvað að líða undir lok í bili allavegana) og getur sagt fulltaf orðum og skilið flestallt sem við segjum við hann auk þess sem hann hefur sjúklega mikinn áhuga á lyklum og bílum.

  Hann er nánast alltaf í góðu skapi og fer létt með að heilla ömmur, afa og heilu boðin full af fólki með því að vera hress, skemmtilegur, forvitinn og áhugasamur um annað fólk.

 • Við opnuðum Zócalo á árinu. Við breyttum 5 Serrano stöðum í Zócalo á tveim vikum í apríl og opnuðum svo 3 nýja staði síðasta sumar, alla í miðbæ Stokkhólms. Það eru núna 3 stærstu staðirnir okkar. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt en lika skemmtilegt. – Zócalo hefur fengið góðar viðtökur, salan er meira en tvöfalt meiri í nóvember en hún var í mars, svo að við getum ekki verið annað en ánægð. Við fengum svo í september verðlaun sem skyndibitastaður ársins í Svíþjóð samkvæmt FastFood Magazine. Við fengum einnig inn tvo sænska fjárfesta í fyrirtækið.
 • Þetta ár hefur því verið algjör rússibanaferð vinnulega séð. Plús það að við opnuðum Serrano stað á Akureyri og í byrjun næsta árs munum við opna Serrano og Nam staði. Þannig að á einu ári verðum við búnir að opna 11 veitingastaði.
 • Kottke segir að bloggið sé dautt. Ég hef skrifað þrisvar sinnum á þessa síðu á árinu, þannig að hvað mig varðar hefur hann nokkuð rétt fyrir sér.
 • Við höfðum uppi stór plön með frí. Fyrir árið vorum við ákveðin að fara í brúðkaupsferð á árinu og í sumar vorum við ákveðin að ferðast um Alpana. En hvorugt varð að veruleika, aðallega vegna anna í vinnu. Við eyddum þó góðum tíma á Íslandi og fórum þrjú saman til Istanbúl um páskana. Það er algjörlega frábær borg, sem ég mæli hiklaust með. Ég var í Istanbúl 2005 og sá besta fótboltaleik allra tíma, en hafði lítinn tíma til að skoða borgina. Núna gátum við Margrét og Jóhann Orri hins vegar notið borgarinnar. Skoðuðum Topkapi höllina, Aya Sofia, Bláu moskuna, nutum mannlífisins og borðuðum ótrúlega góðan mat. Frábær borg.
 • Það sem er þó besta við þetta ár var alltaf að sækja Jóhann Orra á leikskólann. Að sjá hann lifna við og hlaupa í áttina til mín þegar ég kom og sótti hann er einfaldlega eitt það allra magnaðasta við það að vera pabbi. Ég elska þessar stundir okkar.
 • Og það er líka ótrúlega frábært að eftir erfiða daga í vinnunni að geta komið heim til bestu eiginkonu í heimi, sem er alltaf til í að hlusta á mig kvarta um það sem hefur gengið illa eða gleðjast þegar að vel gengur. Ég er óendanlega heppinn að eiga Margréti Rós og Jóhann Orra.
 • Og til að bæta oná þetta allt þá eigum við Margrét Rós svo von á okkar öðru barni í maí. Það verður fjör. Lífið er gott og aldrei betra en í kringum jólin þegar við eyðum hverjum degi og hverju kvöldi með okkar vinum og fjölskyldu hérna heima á Íslandi.

Gleðilegt ár.

San Pedro de Sula

Hérna er gott myndasafn á Big Picture frá San Pedro Sula í Hondúras. Ég stoppaði stutt við í þeirri borg fyrir 8 árum á ferðalagi mínu um Mið-Ameríku. Þá var borgin þekkt sem sú borg sem hafði hæst hlutfall alnæmis í Ameríku. Í dag er borgin sú borg í heiminum þar sem ofbeldi er verst.

Ef fólki vantar ástæður til þess að nota ekki ólögleg vímuefni þá er ágætt að skoða þessar myndir og sjá hvernig að eftirspurn okkar vesturlandabúa eftir fíkniefnum er að eyðileggja lönd í Mið-Ameríku einsog Hondúras og Mexíkó þar sem að eiturlyfjagengi ráða öllu og beita hvor aðra og almenning ótrúlega grimmilegu ofbeldi án þess að lögreglan geti neitt gert. Þetta er sorglegt ástand.

Zocalo – Fresh Happy Mex

Núna eru 4 ár síðan að við opnuðum okkar fyrsta Serrano stað í Svíþjóð. Á þeim tíma höfum við lært ansi margt og þetta hefur verið oft á tíðum mjög erfitt, en það hefur líka gengið vel og verið ótrúlega skemmtilegt.

Fyrir um ári fórum við að ræða um möguleika á að breyta konseptinu aðeins og taka mið af því sem við höfum lært á síðustu árum. Munurinn á pantanamynstri á milli Svíþjóðar og Íslands er nokkuð mikill. Flestir heima velja sjálfir sinn mat og fólk kemur inná staðinn á mjög breiðu tímabili yfir daginn. Í Svíþjóð panta hins vegar nánast allir af matseðli og gríðarlega stór hluti af gestunum kemur á mjög stuttu tímabili í hádeginu. Þess vegna vildum við breyta því aðeins hvernig við afgreiðum matinn og byggjum upp staðina.

Við höfum líka verið sannfærð um að það sé hægt að gera matinn betri. Í haust ákvaðum við því að veita Alex Sehlstedt, yfirkokkinum okkar, sem gerði líka Nam konseptið með okkur, fullt frelsi til að endurhugsa algjörlega okkar matarkonsept. Hann fékk nokkra mánuði til að hugsa konseptið alveg frá grunni einsog hann myndi vilja hafa það.

Þriðja breytingin sem við veltum fyrir okkur var svo á nafninu Serrano. Síðasta sumar hófum vinnu með Íslensku Auglýsingastofunni til að vera markvissari í markaðsaðgerðum á Íslandi og í Svíþjóð. Við unnum þá vinnu með frábæru fólki á þeirri stofu og ein spurningin sem kom upp í viðtölum við starfsfólk og kúnna í Svíjþóð var um nafnið Serrano. Málið er að þegar að við opnuðum Serrano á Íslandi þá tengdi fólk orðið ekki við neitt sérstakt og því gátum við eignað okkur það á Íslandi. Serrano er nafnið á mexíkóskum chili pipar en í Evrópu er það líka þekkt sem spænsk skinka.

Og það var svo að í Svíþjóð lendum við sífellt í því að fólk heldur að við séum tapas staður. Þetta er vandamál sem við töldum að myndi aðeins aukast eftir því sem við myndum (vonandi) færa okkur sunnar í álfunni.

Því tókum við ákvörðun í október á síðasta ári að skipta um nafn á Serrano stöðunum í Svíþjóð (staðirnir á íslandi munu áfram heita Serrano). Við fórum nokkra hringi með nöfn. Íslenska auglýsingastofan spreytti sig á verkefninu og ég, Emil og yfirstjórnendur í Svíþjóð reyndum okkur líka. Ég fór yfir punktana frá því þegar við ákváðum Serrano nafnið í upphafi og við fórum í gegnum ansi mörg spænsk orð í leit að einhverju sem mér fannst passa við okkar stað. Ég skoðaði laganöfn og heiti á lestarstöðvum og bæjum í Mexíkó. Eitt laugardagskvöldið fékk ég mér bjór á bar hérna í nágrenninu og þar sannfærðist ég um hvað væri rétta nafnið fyrir nýja staðinn.

Eftir smá samtöl við Emil og stjórnendurna í Svíþjóð urðum við sammála um hið nýja nafn.

Zocalo Fresh Happy Mex
Zocalo Fresh Happy Mex

Zocalo er heitið á stærsta torginu í Mexíkóborg. Það er staður þar sem fólk hittir sína vini og fjölskyldumeðlimi, skemmtir sér og borðar góðan mexíkóskan mat. Alveg einsog veitingastaðurinn okkar.


Hér er heimasíða Zocalo og hér erum við á Facebook.

Frá og með 10.apríl munum við því gera breytingar á veitingastöðunum hér í Svíþjóð. Allir munu þeir loka í einhverja daga og þá munum við breyta afgreiðslunni. Á Zocalo pantar fólk við kassa af matseðli, borgar og fær bíper. Um leið og maturinn er tilbúinn þá pípir bíperinn og þú getur sótt matinn hjá eldhúsinu. Þannig forðumst við þær löngu raðir sem hafa myndast í hádeginu á stöðunum hérna úti. Í stað þess að eyða hádeginu í röð þá geturðu beðið í sætinu þínu og spjallað við þá sem þú ætlar að borða með.

Við munum líka breyta ytra útliti staðanna – við málum þá í ljósari litum og lýsum upp staðina. Við bætum inná stærstu staðina stórum listaverkavegg með mynd af Zocalo torgi, máluðu af sænskum listamanni Nina Wennersten.

Zocalo Mural
Zocalo Mural

Matseðilinn mun síðan breytast talsvert. Við gerum réttina einfaldari, tökum suma rétti út, lögum aðra og bætum við nýjum hlutum. Stærsta breytingin er að við bætum við tacos á matseðilinn okkar og einnig flóknari réttum á kvöldin. Staðirnir okkar hafa verið miklir hádegisstaðir en takmark okkar er að fá inn miklu fleira fólk á kvöldin. Því munum við byrja með fajitas og mexíkóska smárétti, sem við bindum miklar væntingar við.


Það er líka mikið að gerast í sjálfu fyrirtækinu okkar. Stærstu fréttirnar er að við erum komin með stóran sænskan fjárfesti með okkur í lið, en það er Gavia Food Holding, sem að átti áður Santa Maria vörumerkið. Það er gríðarlegur styrkur og viðurkenning fyrir okkar vinnu að fá svo sterkan sænskan fjárfesta í lið með okkur.

Við munum einnig á næstu þremur mánuðum opna þrjá frábæra staði í miðbæ Stokkhólms. Það að finna góðar staðsetningar fyrir veitingastaði í miðbæ Stokkhólms er eiginlega ómögulegt. Í þessi fjögur ár hefur ekki liðið sá dagur að ég hafi ekki leitað á einhvern hátt að staðsetningum. Ég hef fundað með ábyggilega vel flestum stórum fasteignaeigendum í Stokkhólmi og skoðað flesta veitingastaði í borginni. Vegna þess hversu sterkur réttur leigjenda er þá er nánast ómögulegt að fá pláss á góðum stað án þess að borga fyrir það mjög háar upphæðir í lyklagjald.

Því eru þessir staðir hreint stórkostlegir fyrir okkar konsept. Það er að vissu leyti tilviljun að allir þessir staðir skuli opna með svo stuttu millibili en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera algjörar AAA staðsetningar í miðbæ Stokkhólms. Við opnum fyrst um miðjan apríl á Kungsgatan 25 í nýju food-courti – K25 – þar sem ung og flott veitingastaðakonsept eru samankomin. Auk okkar eru þar Vigårda (sem hin sterka F12 grúppa á), Yoi, Panini, Beijing 8 og fleiri flottir staðir.

Í maí munum við svo opna okkar stærsta og flottasta stað á Klarabergsgatan 29, alveg við Sergels Torg. Meira miðsvæðis er ekki hægt að vera í Stokkhólmi. Sá staður mun vera með um 150 sæti á einni fjölförnustu götu Stokkhólms. Og í sumar munum við opna á Regeringsgatan 20, einnig mjög miðsvæðis aðeins 50 metrum frá Kungsträdgården. Við teljum að allir þessir staðir muni verða stærri en okkar stærsti staður í dag.

Þannig að næstu vikur verða spennandi. Það hefur verið mikið að gera í að undirbúa þetta allt og það er auðvitað mikið eftir, en við gætum ekki verið spenntari fyrir komandi vikum.