Liverpool er besta lið í heimi!

Liverpool eru enskir meistarar. Loksins loksins loksins. Er það ekki ágætis tilefni til að blogga aftur?

Ég hef áður sagt frá því á kop.is og kannski á þessari síðu líka að mínar fyrstu fótboltaminningar tengdar Liverpool eru allar slæmar.

Ég var sjö ára þegar að Heysel völlurinn hrundi og 39 stuðningsmenn Juventus dóu. Ég held að ég hafi haldið meira með Juventus af því að Michal Platini var uppáhalds leikmaðurinn minn árið 1985.

Fjórum árum síðar á ég mjög skýra minningu frá því að horfa á Hillsborough slysið í beinni útsendingu og mánuði síðar þegar að Michael Thomas skorar fyrir Arsenal á síðustu mínútu á Anfield og tryggir Arsenal enska titilinn á kostnað Liverpool. Ég man ennþá að ég henti mér yfir sófaborðið í stofunni heima og öskraði NEIIII, 11 ára gamall. Einsog alltaf var ég einn að horfa á leikinn, þar sem pabbi fylgdist ekki með fótbolta og ég man að mamma kom fram og spurði mig hvað í ósköpunum væri að gerast. Ég man bara að ég var miður mín. Ég veit ekki af hverju ég varð Liverpool aðdáandi – ég bara man ekki eftir öðru.

Minningin um Arsenal leikinn er svo skýr í hausnum á mér að ég hélt nokkrum árum seinna að þarna hefði Liverpool tapað sínu síðasta tækifæri á að vinna deildina. En Liverpool vann deildina árið eftir – ég man bara nákvæmlega ekkert eftir því. Ég man að í herberginu heima voru myndir af Peter Beardsley og John Barnes, en einhvern veginn er þessi síðasti titill Liverpool svona ótrúlega óeftirminnilegar fyrir mig.



Næstu ár fylltist herbergið mitt af plakötum af Gullit, Riikjard og van Basten og AC Milan var mitt lið, þar sem ég horfði meira á ítalska boltann á Stöð 2. Liverpool var áfram mitt lið en Gullit og van Basten voru einfaldlega miklu flottari fyrir 14 ára strák heldur en Dean Saunders, Mark Walters og Don Hutschinson. En eftir að Gullit var seldur til Sampdoria hvarf áhuginn minn á ítölsku deildinni og Liverpool hefur verið númer 1,2 og 3.

Liverpool hafa svo dóminerað áhuga mínum á fótbolta að önnur lið eru dæmd fyrst og fremst út frá Liverpool líka. Ég hélt einu sinni mikið með Barcelona, en eftir dramað í kringum Suárez og seinna Coutinho þá get ég ekki lengur stutt það lið. Ég held ekki með Real Madrid útaf Owen og McMannaman og þess vegna hef ég síðustu ár haft tilfinningar til Atletico Madrid, en þær hurfu þegar að liðið spilaði við Liverpool núna í ár.

Ég hef skipt um lið í merkilega mörgum íþróttum og deildum. Ég hataði Chicago Bulls þegar að Jordan var að spila fyrir þá. Á hverju ári hélt ég með nýju liði sem var svo slátrað af Bulls í úrslitum. Það var ó-þol-andi. Svo flutti ég til Chicago og byrjaði að halda með Bulls akkúrat þegar þeir byrjuðu að vera ömurlegir. Ég hélt með AC Milan á Ítalíu þangað til að þeir seldu Gullit og byrjaði þá að halda með Sampdoria. Ég hélt með Réð Sox áður en ég byrjaði að fíla Cubs og Stuttgart áður en ég byrjaði að fíla Dortmund.

En einu liði hef ég alltaf verið 100% trúr og það er Liverpool.



Árið 2004 stofnuðum við Kristján Atli KOP.is. Síðan var fyrir mig fyrst og fremst staður til að létta á pirringi mínum um Liverpool undir stjórn Gerard Houllier, sem ég lét fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ég man að einu sinni í háskóla lamdi ég sjónvarpið þegar ég sá að Emile Heskey var enn og aftur í byrjunarliðinu, svo mikill var pirringurinn. Öll árin sem ég skrifaði á KOP.is buðu uppá góða og slæma kafla. Ég sá Liverpool vinna í Istanbúl og nokkur tímabil voru frábær (sérstaklega Suárez tímabilið) en það var líka svo mikil neikvæðni og tuð tengd liðinu að ég gafst á endanum upp.

Öll árin eyddi ég óstjórnlega miklu púðri í að verja hina ýmsu leikmenn – Kuyt, Lucas, Henderson og fleiri – og umfram allt eyddi ég púðri í að verja núverandi eigendur Liverpool. Furðulega margir stuðningsmenn Liverpool hafa trúað því í gegnum árin að það eina sem gæti bjargað Liverpool væru sykurpabbar frá Mið-Austurlöndum. Ég var alltaf á móti slíkum eigendum því ég vissi að ef enski titillinn myndi vinnast með slíkri aðstoð þá væri það aldrei eins sætt einsog það er núna þegar að titillinn vinnst á því að eigendur Liverpool fjárfesta með skynsemi í réttum mannskap á öllum stöðum í klúbbnum og klúbburinn er sjálfbær.



Ég hætti að skrifa reglulega á KOP.is vorið 2015. Það var síðasta heila tímabilið hans Brendan Rodgers. Suárez var farinn og Liverpool liðið var hræðilega lélegt og endaði í sjötta sæti, 25 stigum á eftir Chelsea. Ég var orðinn þreyttur á að rífast um Henderson og Lucas og Mignolet. Í síðustu leikskýrslunni minni voru Emre Can, Dejan Lovren og Alberto Moreno í vörninni með Joe Allen á miðjunni og Jordon Ibe frammi. Þetta var hörmung. Svo um sumarið fór Sterling og árangurinn varð bara enn verri.

En svo næsta haust kom Jurgen Klopp og síðan þá hefur það verið yndislegt að vera Liverpool stuðningsmaður. Við unnum Meistardeildina í fyrra, en fyrir tímabilið í fyrra var ég samt farinn að telja sjálfum mér trú um að Manchester City yrðu aldrei sigraðir í ensku deildinni. Þeir voru einfaldlega með of gott lið, of góðan þjálfara og of ríka eigendur. En FSG og Klopp hlustuðu ekki á slíkt tuð, heldur bættu allt sem þeir gátu bætt og hérna erum við – Liverpool eru Englandsmeistarar.

Og það með lið sem er svona yndislegt. Hvernig er hægt að elska ekki Jurgen Klopp og þetta stórkostlega samansafn af leikmönnum sem eru hógværir, heiðarlegir og frábærir. Ég hef varla elskað Liverpool leikmann jafnmikið og Mo Salah, en í þessu liði elska ég nánast hvern einasta leikmann. Allison, Trent, Robbo, van Dijk, Gomez, Henderson, Gini, Ox, Milner, Keita, Fabinho, Salah, Firmino og Mane. Shaqiri, Matip, Lovren, Origi og Adrian. Þetta lið var fullkomið og þetta tímabil var fullkomið.

En svo breyttist þetta allt kvöldið sem við töpuðum fyrir Athletico Madrid og heimurinn breyttist útaf Corona. NBA deildinni var hætt og næstu daga beið maður stressaður yfir því sem myndi gerast með ensku deildinni. Fyrst var henni frestað og fljótlega fóru alls konar vitleysingar að krefjast þess að deildinni yrði aflýst. Að það væri á einhvern hátt fáránlegt að spila fótbolta þegar að faraldur væri að geysa í samfélaginu. En sem betur fer þá byrjaði deildin aftur og Liverpool kláraði deildina og stendur núna uppi sem meistari með 99 stig. Í fyrra fengu Liverpool 97 stig og núna 99 stig.

Á síðustu 13 mánuðum hef ég horft á Jordan Henderson lyfta bikarnum í Meistaradeildinni, Super Cup, Heimsmeistarakeppni félagsliða og núna loksins loksins Ensku Úrvalsdeildinni. Ég reyndi að segja krökkunum mínum í fyrradag hversu magnað þetta er en þau skilja auðvitað ekki neitt þótt þau séu auðvitað Liverpool aðdáendur líka. Þetta ár verður sennilega aldrei toppað, en ég vona að krakkarnir mínir muni upplifa eitthvað í líkingu við þetta ár aftur.

YNWA.

Coronakrísa

Þessir síðustu 6 dagar hafa verið svo sturlaðir að það nær ekki nokkurri átt. Síðasta miðvikudagskvöld pantaði ég mér þriðja bjórinn eftir að Firmino skoraði gegn Atletico og var tilbúinn að fagna. En svo skoruðu Atletico mörk og mér líður einsog heimurinn hafi bara hrunið eftir það. Ég kom heim alveg ruglaður og gat ekki sofnað þar sem ég las um bandaríska pólitík á Twitter þar sem allt virtist vera að fara til fjandans.

Svo fór ég með krakkana í skólann daginn eftir og mætti svo uppá skrifstofu þar sem ég settist fyrir framan rekstrarstjórann á Zócalo og slæmu fréttirnar dældust yfir okkur. Almennt smit var byrjað í Stokkhólmi og á einum sólarhring höfðu nánast allir Zócalo staðir tæmst af fólki. Sérstaklega þeir í stærstu borgunum á Norðurlöndunum, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Svo hringdi leikskólinn og sagði mér að Einar Friðrik væri ekki nógu brjálæðislega hress til að fá að vera á leikskólanum útaf nýjum kröfum. Þannig að ég fór og sótti hann og reyndi að vinna í símanum á meðan að ég lék við hann.

Svo hefur þetta bara orðið verra og verra. Aðgerðirnar í Danmörku hafa smám saman þrengt að staðnum okkar þar og salan minnkaði um 85% á milli vikna. Í kvöld er Zócalo eini staðurinn sem enn er með opið í Tivoli Food Hall, þar sem voru fyrir viku 15 staðir opnir. Við seljum bara mat til að taka með. Enginn má sitja á staðnum. Það er eflaust ekki langt í að við lokum.

Í Stokkhólmi eru okkar stærstu staðir annars vegar í verslunarmiðstöðvum einsog Mall of Scandinavia, þar sem fáir vilja vera, eða í miðbæ Stokkkhólms þar sem við treystum á viðskipti frá fólki sem vinnur í nágrenninu. Aðalskrifstofur Spotify erum við hliðiná einum staðnum og þegar Spotify yfirmenn tóku þá skiljanlegu ákvörðun að hvetja alla til að vinna heima þá hrundi salan hjá okkur. Núna vilja sænsk yfirvöld að allir vinni heima og því má búast við að salan hrynji enn meira.

Við höfum reynt að gera okkar besta – fókusera á take-away og heimsendingar, en það hefur takmarkað gagn þegar að flestir þurfa að komast að stöðunum með almenningssamgöngum einsog lestum, sem margir vilja ekki snerta þessa dagana.

Og svo hef ég ekki hugmynd um hvað þetta endist lengi. Veira hefur fullkomlega kippt öllum rekstrargrundvelli undan veitingastöðum, sem voru allir reknir með hagnaði á síðasta ári, eru fullir af frábæru starfsfólki og reknir af sérleyfishöfum sem hafa lagt sína peninga, hjarta sitt og sinn tíma í að reka Zócalo staði.



Það að reka veitingastað er að mörgu leyti hálf sturlað. Á hverjum degi byggir maður reksturinn sinn á því að 100-400 manns velji þann daginn að koma inná nákvæmlega þennan stað af öllum þeim hundruðum staða sem hægt er að velja um. Þetta þýðir að bransinn er aldrei leiðinlegur, en það þýðir líka að þegar að fólk hættir allt í einu að koma þá fer allt í fokk strax.

Ég er ekki að kvarta – það eru bransar sem hafa það enn verra. Ég myndi ekki vilja skipta á djobbi við framkvæmdastjóra SAS eða Norwegian akkúrat núna (þrátt fyrir að launin myndu margfaldast) eða reka hótel, bar eða næturklúbb. Þá er skárra að eiga skyndibitastað.

Þar sem Margrét er að klára ritgerðina sína þá hef ég séð um krakkana að langmestu leyti síðustu daga. Alla þessa viku hefur að minnsta kosti Einar Friðrik verið veikur og því hef ég þurft að vinna þegar hann sefur og svo á kvöldin þegar allir eru sofnaðir og maður er hálf uppgefinn eftir að hafa skemmt, eldað fyrir og svæft þrjá krakka. En kannski hefur þetta líka hjálpað við að komast í gegnum þetta. Bankahrunið á Íslandi var barnaleikur á Serrano miðað við þetta ástand.

Það er búið að vera ótrúlega furðulegt að vera svona mikið heima með krakkana á meðan að það er algjört hrun á veitingastöðunum. En kannski er það ágætt að verða að hugsa um krakkana stóran hluta dagsins í stað þess að velta sér endalaust uppúr veltutölum og fréttum. Það gefur eflaust smá betri yfirsýn í lok dags. 

Núna verður maður að halda í vonina að eitthvað breytist. Við fjölskyldan erum bara hress. Við Margrét hjólum alltaf yfir á Södermalm, þannig að við sleppum við almenningssamgöngur, og ég hef unnið smá á skrifstofunni og þegar ég er heima þá lærir hún þar. Krakkarnir tala mikið um Coronavírusinn, en þau fá ennþá að fara í skóla og í dag gat Einar Friðrik loksins mætt aftur á leikskólann. Ætli hann fái ekki að fara í nokkra daga og svo verði öllu lokað. Ég vona að þið séuð öll hress – þvoið á ykkur hendurnar og hugsið vel um hvort annað.  ❤️😄

Framkvæmdastjórar sem mæta snemma

David Heinemeier Hansson um mítuna um ótrúlega duglega framkvæmdastjórann.

So let me spell it out: Having to get up at 4am to get real work done is broken. Busted. Kaput.

And it isn’t any less broken because a fawning business media keeps exalting the virtues of your morning routine or strict regiment. Quite contraire.

You know what’s cool? Getting to work at 9, putting in eight solid hours, and then being done by 5. There’s nothing stodgy or uncool about having reasonable work day that allows for a workout at 7:30am or playing with your kids at 5:30pm.

There’s no prize for being the first to rise. You’re not a fucking bird and there ain’t no fucking worm. So chill

Grunnbúðir Everest

Facebook var að stríða mér með einhverri minningu um það að fyrir mörgum árum keypti ég Lonely Planet bækur fyrir Nepal og Bhutan og ætlaði að fara í ferðalag þangað. Ég hef aldrei látið verða af því en ég hugsa oft um þessi lönd. Brady Haran, sem er annar umsjónarmanna uppáhalds podcastsins míns Hello Internet, hefur til að mynda dásamað ferðalag sitt til Bhutan. Allavegana, hérna er skemmtileg myndasaga frá gönguferð frá Lukla upp að grunnbúðum Mount Everest í Nepal.

Tveim árum síðar

Ég hef ekki skrifað á þetta blogg í tvö ár.

Ég hugsa stundum um eitthvað voðalega sniðugt sem væri betra að skrifa hér heldur en að skrifa bara á Facebook eða sleppa því einsog gerist oftast.

En svo líður tíminn og alltaf verður lengra frá síðustu færslu og aldrei finn ég eitthvað nógu merkilegt til að skrifa um. Kannski hjálpar þetta.

Áramót 2014

Þvílíkt ár!

Fjölskyldumyndataka 2014

  • Við Margrét eignuðumst okkar annað barn í maí. Björg Elísa er algjör snillingur. Hún er í góðu skapi allan daginn og ég hef aldrei vitað um barn sem er jafn auðvelt að fá til að brosa og hlæja. Jóhann Orri var smá pirraður í upphafi yfir því að vera ekki lengur einn, en eftir smá vesen í byrjun er hann alveg frábær stóri bróðir, sem vill alltaf vera nálægt litlu systir sinni, knúsa hana og halda í höndina á henni. Hinn 2 ára og 8 mánaða gamli Jóhann Orri er svo núna byrjaður að mata 7 mánaða gamla systur sína.

  • Að eiga tvö lítil börn er auðvitað smá erfitt, en það hefur hjálpað ótrúlega mikið hversu auðveld þau hafa verið á þessum tíma. Maður venst þessu merkilega fljótt og í dag finnst mér það vera skítlétt þegar að maður þarf “bara” að sjá um eitt barn.

  • Ég seldi hlut minn í Serrano á árinu. Ég stofnaði Serrano ásamt Emil fyrir 13 árum en eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég alltaf komið minna og minna að rekstrinum heima og því fannst mér þetta vera ágætis tímapunktur til að selja og einbeita mér að því sem ég er að gera í Svíþjóð. Einnig eftir að við breyttum nafninu á stöðunum okkar í Svíþjóð í Zócalo hafa konseptin verið að fjarlægjast hvort annað og því gat ég minna beitt mér í málum tengdum Serrano, enda hvorki auðvelt né æskilegt að stýra þessu frá öðru landi. Og Emil, sem að keypti minn hlut, er auðvitað besti aðilinn til að reka Serrano áfram, þannig að þetta barn mitt er í góðum höndum.

  • Við Margrét keyptum okkur svo inní Spaksmannsspjarir, sem að Björg tengdamamma mín á með okkur. Það er að okkar mati frábært fyrirtæki sem á mikla möguleika. Fyrirtækið hannar og framleiðir hágæða föt, sem að endast lengi og við teljum vera mikla framtíð í fatamerkjum, sem leggja áherslu á sjálfbærni. Það eru líka ný tækifæri í öllum heiminum í kringum netverslun og lítil búð á Íslandi getur auðveldlega selt sína vöru útum allan heim.

  • Við stofnuðum Zócalo stað í Malmö og salan á Zócalo var á árinu 2014 yfir 40% hærri en 2013 og 160% hærri en árið 2012 svo að hlutirnir eru að fara í rétta átt. Á næsta ári munum við opna stað í stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna, Mall of Scandinavia, sem opnar næsta haust – og vonandi einhverja aðra staði líka.

    Þetta hefur alls ekki verið auðvelt ár vinnulega séð, en ég er þó sæmilega sáttur við hvernig staðan er í dag og er bjartsýnn fyrir 2015.

  • Það besta við þetta ár vinnulega séð er þó að ég hef ekki þurft að vinna of mikið. Ég fer aldrei í vinnuna fyrir klukkan 9 og er oftast búinn um fjögur. Það þýðir að ég hef geta verið ótrúlega mikið með börnunum mínum og Margréti.

    Að ala upp lítil börn í Svíþjóð með alla fjölskylduna á Íslandi er auðvitað ólíkt því að gera það á Íslandi. Við fáum sjaldan pössun svo að við erum rosalega mikið með börnunum, sem er auðvitað ótrúlega gaman þegar þau eru á þessum aldri. Félagslífið er minna, en ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir það tækifæri að vera svona mikið með krökkunum á þessum aldri.

  • Jóhann talar bæði sænsku og íslensku og skiptir á milli tungumálanna án þess að hugsa um það. Hann er algjörlega frábær strákur, sem er fullur af fjöri og með mikið ímyndunarafl en getur líka setið heilu tímana og leikið sér í Dublo, ekki ólíkt því sem ég gerði þegar ég var lítill.

  • Við ferðuðum slatta á árinu. Áður en Björg kom í heiminn fórum við til Dubai og í haust fórum við til Flórída, Kúbu og Mexíkó einsog ég hef skrifað um á þessa síðu.

  • Við eyddum sumrinu á Íslandi og fórum meðal annars í tvö brúðkaup hjá góðum vinum okkar, héldum nafnaveislu fyrir Björgu, opnuðum Nam veitingastað, fórum í sumarbústaði í nokkrum landshlutum og áttum góða daga í Flatey.

  • Við höfum svo eytt jólunum hérna í Stokkhólmi í fyrsta skipti með allri fjölskyldu Margrétar, sem hefur verið frábært.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þetta ár og þessa litlu fjölskyldu, sem ég á.

Serial

Serial er mest umtalaði podcast þáttur heims þessar vikurnar og ekki furða því þetta er frábær sería. Í Serial er fjallað er um morð á ungri stelpu í Bandaríkjunum, sem fyrrverandi kærasti hennar er dæmdur fyrir. Spennan hefur aðeins dalað í síðustu þáttum, en þeir eru þó yfir heildina verulega góðir.

Mexíkóflóaferð 5: Riviera Maya

Síðustu dagarnir á Kúbu fóru í ferðalög. Frá Trinidad tókum við leigubíl til Havana með smá stoppi í borginni Santa Clara. Þar vann Che Guevara mikinn sigur á hersveit Batista og þess vegna er Santa Clara sá staður þar sem líkamsleifar Che eru geymdar í dag.

Við skoðuðum minnismerki um Che í borginni og safn um hann ásamt því að koma inní herbergi þar sem líkamsleifar hans og annarra uppreisnarmanna, sem voru drepnir með honum í Bólivíu, eru geymdar. Við keyrðum svo áfram til Havana og tókum daginn eftir flug þaðan og til Mexíkó.


Í Mexíkó vorum við í 8 daga á Yucatan skaga. Ferðamannastaðirnir þar minna ekki mikið á Mexíkó frá því að ég bjó í Mexíkóborg fyrir 17 árum. Cancun og Puerto Aventura eru resort bæir sem líkjast Tenerife og Sharm El Sheikh meira en Mexíkó. En kosturinn við bæina í Mexíkó er að þar er boðið uppá mexíkóskan mat.

Við gistum fyrst á fínu hóteli nálagt Playa del Carmen og fórum svo til Cancun þar sem við gistum í nokkra daga til viðbótar. Miðbær Cancun er þó mexíkóskur, ólíkt Zona Hotelera hótelsvæðinu, sem gæti alveg eins verið í Bandaríkjunum. Á Zona Hotelera í Cancun var mér alltaf svarað á ensku þótt ég talaði spænsku við fólk og öll verð eru gefin upp í bandaríkjadollar líkt og að gjaldmiðill mexíkóa sé einhvern veginn ógildur í þeirra eigin landi. Allt virðist vera gert til þess að bandaríkjamönnum líðið hálf partinn einsog þeir séu ennþá heima. NFL er í sjónvarpinu, Budweiser á krananum og allt hægt að borga með dollurum.

Eina markverða sem við gerðum fyrir utan að liggja á sundlaugarbakka var að sjá Tulum rústirnar, sem liggja við ströndina rétt fyrir sunnan Playa del Carmen. Tulum bætast þá í hóp með Tikal í Guatemala, Lanaima í Belize og Chichen Itza í Mexíkó yfir Maya rústir sem ég hef séð og held ég því að þeim hring sé ágætlega lokað.


Ég var nokkuð spenntur fyrir því að smakka aftur mexíkóskan mat í Mexíkó. Í Cancun prófuðum við nokkra ólíka hluti – allt frá fine dining stöðum fullum af túristum yfir á litla sölubása í almenningsgarði fulla af innfæddum Cancun búum. Fínu staðirnir voru ekkert spes, en skemmtilegasta upplifunin var í Parque de las Palabas þar sem við gátum hoppað á milli sölubása sem seldu Tacos al pastor, gringas, alambre og allt hitt sem gerði mig ástfanginn af mexíkóskum mat fyrir 17 árum og breyttu lífi mínu.

Mér finnst maturinn ennþá frábær, en ég hef líka breyst. Bragðlaukarnir breytast með árunum – mér finnst Bud Light ekki lengur besti bjór í heimi og ég get borðað osta, sem mér fannst ógeðslegir fyrir nokkrum árum. Eins þá er ég ekki alveg jafn hrifinn af mexíkóskum götumat og ég var einu sinni. Margt er of feitt og oft finnst mér of mikil áhersla á kjöt og tortillur í matnum. Að mörgu leyti fannst mér maturinn sem við seljum á Zócalo í Svíþjóð vera betri en sá sem við borðuðum á götumarkaði í Cancun. Eflaust eru margir ósammála mér, en svona líður mér í dag.


Þessu fimm vikna ferðalagi okkar fjölskyldunnar lauk svo með flugi til Orlando og þaðan heim til Íslands. Það að ferðast svona lengi með 2,5 ára og 6 mánaða krökkum var sannarlega lífsreynsla og auðvitað gríðarlega ólíkt því þegar við Margrét vorum ein að ferðast.

Ég myndi þó segja að þetta var að mörgu leyti léttara en ég átti von á. Þau tvö eru á ólíkum stað í lífinu, vaka, sofa og borða á ólíkum timum, en það tókst merkilega vel að samræma það. Ég hef sagt við fólk, sem hefur spurt mig um hversu erfitt þetta hefur verið, að það að vera með tvö lítil börn allan sólahringinn í fimm vikur er erfitt, punktur. Þá skiptir ekki svo miklu máli hvort við hefðum eytt þessum fimm vikum á ferðalagi um Svíþjóð eða Kúbu. Það er erfitt að halda 2,5 ára strák við efnið þegar að eina dótið sem hann er með eru 10 litlir bílar þegar hann er auðvitað vanur miklu meiru.

Maturinn var ekkert vesen fyrir Jóhann Orra, enda er maturinn í allri Ameríku nokkuð einfaldur og góður. Mikið um hrísgrjón, grænmeti og kjúkling sem honum finnst gott.

Það sem þessar fimm vikur gáfu okkur voru líka að fá að vera með þessu börnum svona mikið án truflana frá leikskóla, vinnu eða öðrum skyldum. Ég hef kynnst Björgu svo miklu betur – ég get svæft hana á mettíma núna og fengið hana til að hlæja hvenær sem er. Maður hefur ekki endalausan tíma með þessum börnum og það er, þrátt fyrir allt vesen og umstang, einstakt að geta verið með þeim svona mikið í svona langan tíma. Það er samt alltaf gott að komast aftur heim í hversdagsleikann.

Skrifað í flugi til Svíþjóðar 24.nóvember klukkan 9.24