Grunnbúðir Everest

Facebook var að stríða mér með einhverri minningu um það að fyrir mörgum árum keypti ég Lonely Planet bækur fyrir Nepal og Bhutan og ætlaði að fara í ferðalag þangað. Ég hef aldrei látið verða af því en ég hugsa oft um þessi lönd. Brady Haran, sem er annar umsjónarmanna uppáhalds podcastsins míns Hello Internet, hefur til að mynda dásamað ferðalag sitt til Bhutan. Allavegana, hérna er skemmtileg myndasaga frá gönguferð frá Lukla upp að grunnbúðum Mount Everest í Nepal.

Tveim árum síðar

Ég hef ekki skrifað á þetta blogg í tvö ár.

Ég hugsa stundum um eitthvað voðalega sniðugt sem væri betra að skrifa hér heldur en að skrifa bara á Facebook eða sleppa því einsog gerist oftast.

En svo líður tíminn og alltaf verður lengra frá síðustu færslu og aldrei finn ég eitthvað nógu merkilegt til að skrifa um. Kannski hjálpar þetta.

Áramót 2014

Þvílíkt ár!

Fjölskyldumyndataka 2014

 • Við Margrét eignuðumst okkar annað barn í maí. Björg Elísa er algjör snillingur. Hún er í góðu skapi allan daginn og ég hef aldrei vitað um barn sem er jafn auðvelt að fá til að brosa og hlæja. Jóhann Orri var smá pirraður í upphafi yfir því að vera ekki lengur einn, en eftir smá vesen í byrjun er hann alveg frábær stóri bróðir, sem vill alltaf vera nálægt litlu systir sinni, knúsa hana og halda í höndina á henni. Hinn 2 ára og 8 mánaða gamli Jóhann Orri er svo núna byrjaður að mata 7 mánaða gamla systur sína.

 • Að eiga tvö lítil börn er auðvitað smá erfitt, en það hefur hjálpað ótrúlega mikið hversu auðveld þau hafa verið á þessum tíma. Maður venst þessu merkilega fljótt og í dag finnst mér það vera skítlétt þegar að maður þarf “bara” að sjá um eitt barn.

 • Ég seldi hlut minn í Serrano á árinu. Ég stofnaði Serrano ásamt Emil fyrir 13 árum en eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég alltaf komið minna og minna að rekstrinum heima og því fannst mér þetta vera ágætis tímapunktur til að selja og einbeita mér að því sem ég er að gera í Svíþjóð. Einnig eftir að við breyttum nafninu á stöðunum okkar í Svíþjóð í Zócalo hafa konseptin verið að fjarlægjast hvort annað og því gat ég minna beitt mér í málum tengdum Serrano, enda hvorki auðvelt né æskilegt að stýra þessu frá öðru landi. Og Emil, sem að keypti minn hlut, er auðvitað besti aðilinn til að reka Serrano áfram, þannig að þetta barn mitt er í góðum höndum.

 • Við Margrét keyptum okkur svo inní Spaksmannsspjarir, sem að Björg tengdamamma mín á með okkur. Það er að okkar mati frábært fyrirtæki sem á mikla möguleika. Fyrirtækið hannar og framleiðir hágæða föt, sem að endast lengi og við teljum vera mikla framtíð í fatamerkjum, sem leggja áherslu á sjálfbærni. Það eru líka ný tækifæri í öllum heiminum í kringum netverslun og lítil búð á Íslandi getur auðveldlega selt sína vöru útum allan heim.

 • Við stofnuðum Zócalo stað í Malmö og salan á Zócalo var á árinu 2014 yfir 40% hærri en 2013 og 160% hærri en árið 2012 svo að hlutirnir eru að fara í rétta átt. Á næsta ári munum við opna stað í stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna, Mall of Scandinavia, sem opnar næsta haust – og vonandi einhverja aðra staði líka.

  Þetta hefur alls ekki verið auðvelt ár vinnulega séð, en ég er þó sæmilega sáttur við hvernig staðan er í dag og er bjartsýnn fyrir 2015.

 • Það besta við þetta ár vinnulega séð er þó að ég hef ekki þurft að vinna of mikið. Ég fer aldrei í vinnuna fyrir klukkan 9 og er oftast búinn um fjögur. Það þýðir að ég hef geta verið ótrúlega mikið með börnunum mínum og Margréti.

  Að ala upp lítil börn í Svíþjóð með alla fjölskylduna á Íslandi er auðvitað ólíkt því að gera það á Íslandi. Við fáum sjaldan pössun svo að við erum rosalega mikið með börnunum, sem er auðvitað ótrúlega gaman þegar þau eru á þessum aldri. Félagslífið er minna, en ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir það tækifæri að vera svona mikið með krökkunum á þessum aldri.

 • Jóhann talar bæði sænsku og íslensku og skiptir á milli tungumálanna án þess að hugsa um það. Hann er algjörlega frábær strákur, sem er fullur af fjöri og með mikið ímyndunarafl en getur líka setið heilu tímana og leikið sér í Dublo, ekki ólíkt því sem ég gerði þegar ég var lítill.

 • Við ferðuðum slatta á árinu. Áður en Björg kom í heiminn fórum við til Dubai og í haust fórum við til Flórída, Kúbu og Mexíkó einsog ég hef skrifað um á þessa síðu.

 • Við eyddum sumrinu á Íslandi og fórum meðal annars í tvö brúðkaup hjá góðum vinum okkar, héldum nafnaveislu fyrir Björgu, opnuðum Nam veitingastað, fórum í sumarbústaði í nokkrum landshlutum og áttum góða daga í Flatey.

 • Við höfum svo eytt jólunum hérna í Stokkhólmi í fyrsta skipti með allri fjölskyldu Margrétar, sem hefur verið frábært.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þetta ár og þessa litlu fjölskyldu, sem ég á.

Serial

Serial er mest umtalaði podcast þáttur heims þessar vikurnar og ekki furða því þetta er frábær sería. Í Serial er fjallað er um morð á ungri stelpu í Bandaríkjunum, sem fyrrverandi kærasti hennar er dæmdur fyrir. Spennan hefur aðeins dalað í síðustu þáttum, en þeir eru þó yfir heildina verulega góðir.

Mexíkóflóaferð 5: Riviera Maya

Síðustu dagarnir á Kúbu fóru í ferðalög. Frá Trinidad tókum við leigubíl til Havana með smá stoppi í borginni Santa Clara. Þar vann Che Guevara mikinn sigur á hersveit Batista og þess vegna er Santa Clara sá staður þar sem líkamsleifar Che eru geymdar í dag.

Við skoðuðum minnismerki um Che í borginni og safn um hann ásamt því að koma inní herbergi þar sem líkamsleifar hans og annarra uppreisnarmanna, sem voru drepnir með honum í Bólivíu, eru geymdar. Við keyrðum svo áfram til Havana og tókum daginn eftir flug þaðan og til Mexíkó.


Í Mexíkó vorum við í 8 daga á Yucatan skaga. Ferðamannastaðirnir þar minna ekki mikið á Mexíkó frá því að ég bjó í Mexíkóborg fyrir 17 árum. Cancun og Puerto Aventura eru resort bæir sem líkjast Tenerife og Sharm El Sheikh meira en Mexíkó. En kosturinn við bæina í Mexíkó er að þar er boðið uppá mexíkóskan mat.

Við gistum fyrst á fínu hóteli nálagt Playa del Carmen og fórum svo til Cancun þar sem við gistum í nokkra daga til viðbótar. Miðbær Cancun er þó mexíkóskur, ólíkt Zona Hotelera hótelsvæðinu, sem gæti alveg eins verið í Bandaríkjunum. Á Zona Hotelera í Cancun var mér alltaf svarað á ensku þótt ég talaði spænsku við fólk og öll verð eru gefin upp í bandaríkjadollar líkt og að gjaldmiðill mexíkóa sé einhvern veginn ógildur í þeirra eigin landi. Allt virðist vera gert til þess að bandaríkjamönnum líðið hálf partinn einsog þeir séu ennþá heima. NFL er í sjónvarpinu, Budweiser á krananum og allt hægt að borga með dollurum.

Eina markverða sem við gerðum fyrir utan að liggja á sundlaugarbakka var að sjá Tulum rústirnar, sem liggja við ströndina rétt fyrir sunnan Playa del Carmen. Tulum bætast þá í hóp með Tikal í Guatemala, Lanaima í Belize og Chichen Itza í Mexíkó yfir Maya rústir sem ég hef séð og held ég því að þeim hring sé ágætlega lokað.


Ég var nokkuð spenntur fyrir því að smakka aftur mexíkóskan mat í Mexíkó. Í Cancun prófuðum við nokkra ólíka hluti – allt frá fine dining stöðum fullum af túristum yfir á litla sölubása í almenningsgarði fulla af innfæddum Cancun búum. Fínu staðirnir voru ekkert spes, en skemmtilegasta upplifunin var í Parque de las Palabas þar sem við gátum hoppað á milli sölubása sem seldu Tacos al pastor, gringas, alambre og allt hitt sem gerði mig ástfanginn af mexíkóskum mat fyrir 17 árum og breyttu lífi mínu.

Mér finnst maturinn ennþá frábær, en ég hef líka breyst. Bragðlaukarnir breytast með árunum – mér finnst Bud Light ekki lengur besti bjór í heimi og ég get borðað osta, sem mér fannst ógeðslegir fyrir nokkrum árum. Eins þá er ég ekki alveg jafn hrifinn af mexíkóskum götumat og ég var einu sinni. Margt er of feitt og oft finnst mér of mikil áhersla á kjöt og tortillur í matnum. Að mörgu leyti fannst mér maturinn sem við seljum á Zócalo í Svíþjóð vera betri en sá sem við borðuðum á götumarkaði í Cancun. Eflaust eru margir ósammála mér, en svona líður mér í dag.


Þessu fimm vikna ferðalagi okkar fjölskyldunnar lauk svo með flugi til Orlando og þaðan heim til Íslands. Það að ferðast svona lengi með 2,5 ára og 6 mánaða krökkum var sannarlega lífsreynsla og auðvitað gríðarlega ólíkt því þegar við Margrét vorum ein að ferðast.

Ég myndi þó segja að þetta var að mörgu leyti léttara en ég átti von á. Þau tvö eru á ólíkum stað í lífinu, vaka, sofa og borða á ólíkum timum, en það tókst merkilega vel að samræma það. Ég hef sagt við fólk, sem hefur spurt mig um hversu erfitt þetta hefur verið, að það að vera með tvö lítil börn allan sólahringinn í fimm vikur er erfitt, punktur. Þá skiptir ekki svo miklu máli hvort við hefðum eytt þessum fimm vikum á ferðalagi um Svíþjóð eða Kúbu. Það er erfitt að halda 2,5 ára strák við efnið þegar að eina dótið sem hann er með eru 10 litlir bílar þegar hann er auðvitað vanur miklu meiru.

Maturinn var ekkert vesen fyrir Jóhann Orra, enda er maturinn í allri Ameríku nokkuð einfaldur og góður. Mikið um hrísgrjón, grænmeti og kjúkling sem honum finnst gott.

Það sem þessar fimm vikur gáfu okkur voru líka að fá að vera með þessu börnum svona mikið án truflana frá leikskóla, vinnu eða öðrum skyldum. Ég hef kynnst Björgu svo miklu betur – ég get svæft hana á mettíma núna og fengið hana til að hlæja hvenær sem er. Maður hefur ekki endalausan tíma með þessum börnum og það er, þrátt fyrir allt vesen og umstang, einstakt að geta verið með þeim svona mikið í svona langan tíma. Það er samt alltaf gott að komast aftur heim í hversdagsleikann.

Skrifað í flugi til Svíþjóðar 24.nóvember klukkan 9.24

Mexíkóflóaferð 4: Trinidad

Trinidad er sennilega með fallegri borgum sem ég hef komið til á öllum mínum ferðalögum. Í kringum 1850 fylltist þessi borg af frökkum, sem voru að flýja uppreisn á Haiti og þökk sé sykurökrum þá varð borgin rík og gullfallegar byggingar voru reistar í miðbænum sem standa enn í dag. Borgin er líka á heimsminjaskrá Unesco og vinsæl af ferðamönnum, þannig að húsin hafa verið fullkomlega varðveitt.

Gata í Trinidad
Gata í Trinidad

Hitinn hérna er gríðarlegur, svo að við höfum ekki endalaust þol til að labba um göturnar með tvö börn í burðarpoka eða vagni (sem erfitt er að draga á steinóttum götum) en það þarf ekki langan tíma til að meta fegurð borgarinnar. Við höfum verið hérna síðustu þrjá daga, skoðað borgina og notið lífsins á Ancón ströndinni, bestu strönd Kúbu við karabíska hafið, sem er stutta bílferð frá Trinidad.


Þetta er leigubíllinn sem keyrði okkur á Ancón ströndina í nágrenni Trinidad í gær.

Margrét í leigubílnum
Margrét í leigubílnum

Lada, árgerð 1980 og eitthvað myndi ég giska á. Ansi margir bílar hérna eru annaðhvort gamlir bandarískir bílar frá Batista tímanum eða Lödur, innfluttar á Sovéttímanum. Sumar þeirra eru lygilega vel farnar og hafa sennilega verið gerðar upp nokkrum sinnum (og ég verð að viðurkenna að mér finnst þessar Lödur dálítið flottar) en sumar Lödurnar eru gjörsamlega að hruni komnar en einhvern veginn þrauka þær ennþá. Einsog leigubíllinn í gær sem var með gati í gólfinu og gati á milli hurðar og sætis, sem leit út einsog bíllinn væri að liðast í sundur. En samt komst hann á áfangastað og tilbaka.

Ókosturinn við þessa gömlu og sjarmerandi bíla er samt að þeir eyða enn bensíni einsog það væri árið 1960. Kolsvart sót spýtist úr bílunum og loftið á götu á Kúbu með tveimur bílum er margfalt verra en loftið á hraðbraut á Flórída þar sem 50 bílar keyra framhjá þér á mínútu.

(Hér gefst ágætt tækifæri til að lýsa því enn yfir hversu fullkomlega galið viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu er árið 2014. Þvílík endemsi vitleysa.)


Í Trinidad gistum við aftur í Casa Particular, sem er sér kúbverskt fyrirbrigði. Í raun býr maður í heimahúsi hjá fólki og er smá partur af fjölskyldunni. Í Trinidad vísaði herbergið okkar útað garði þar sem Jóhann getur leikið sér og meðlimir fjölskyldunnar eru dugleg við að passa hann og Björgu enda eru þau (líkt og flestir Kúbverjar) algjörlega trylltir í þessi litlu ljóshærðu og rauðhærðu börn okkar.

Þessi Casa Particular eru svo margfalt persónulegri en hótelherbergi og gera upplifunina á Kúbu enn betri. Á því Casa Particular sem við gistum núna borgum við um 30 dollara fyrir herbergi fyrir okkur 4. Lúxusinn er takmarkaður, en okkur líður vel hérna og Jóhann getur leikið um og maturinn er frábær. Það er nóg.

Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.
Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.

Ég sit hérna á ruggustól með bjór í hendi, horfi yfir garðinn og pikka þetta inn á tölvuna mína. Internet aðgangur á Kúbu er verulega takmarkaður. Í hverjum bæ eru einhver internet kaffihús, en tölvurnar eru margra ára gamlar og tengingin hæg, þannig að litlu er hægt að koma í verk. Wi-Fi er svo bara til staðar á fínustu hótelunum. Ég ákvað því að hvíla mig bara algjörlega á netinu í þessa 10 daga sem við erum á eyjunni. Fá hvíld frá vinnu, Twitter, Liverpool úrslitum, íslenskum stjórnmálum og öllu öðru sem maður fylgist með á netinu. Pikka þess í stað inn þessa ferðasögu á tölvuna mína og setja hana á netið þegar við komum aftur til Mexíkó.


Við gistum eina nótt í viðbót hérna í Trinidad, en tökum á morgun leigubíl til Santa Clara og þaðan áfram til Havana, þar sem við eigum flug eftir tvo daga til Cancun.

Skrifað í Trinidad, Kúbu 8.nóvember kl 16.43

Mexíkóflóaferð 3: Svínaflói, Cienfuegos og Havana Club

Seinni árin mín í framhaldsskóla, eftir að ég hafði búið eitt ár sem skiptinemi í Venezuela og svo eitt sumar í Mexíkó, elskaði ég að tala um suður-amerísk stjórnmál. Á árinu mínu í Venezuela fór ég frá því að vera ungur Sjálfstæðismaður talsvert yfir til vinstri og það ferðalag hélt áfram sumarið í Mexíkó. Ég var heillaður af Che og suður-amerískum vinstri mönnum og mér blöskraði yfir því hversu margt í Venezuela og Mexíkó var gjörsamlega galið.

Svo með aldrinum varð ég minna róttækur – það verður minna spennandi að ræða stóru línurnar í pólitík heimsins þegar maður er ekki tvítugur lengur. En á Kúbu kemst ég ekki hjá því að hugsa um stjórnmálin og allt sem þeim tengist. Castro er vondi kallinn í huga svo margra og Kúba á að vera kommúnistaríki sem hrundi á sama ári og Sovétríkin hrundu, þar sem bílarnir eru áratuga gamlir og allt í rúst. Allt er hrikalegt undir stjórn Castro á Kúbu.

En er ástandið á Kúbu svo slæmt? Fólkið virðist af öllu vera mjög hamingjusamt, það er lítið um greinilega eymd (ég labba framhjá fleiri betlurum í Stokkhólmi á hverjum degi en ég geri hér) og fólkið hefur aðgang að menntun og heilbrigðiskerfi sem eru með þeim betri í Suður-Ameríku.

Svo sannarlega virðist margt vera betra hér en í mörgum löndum Suður-Ameríku, sem ég hef heimsótt. Raúl Castro virðist líka vera á margan hátt betri en Fídel. Ofsóknum á samkynhneigðum hefur verið hætt, pólitískir fangar eru flestir lausir og það er mikið um aukið frjálsræði – sérstaklega þegar að kemur að hlutum sem eru augljósir ferðamönnum einsog verslun, veitingar og gistiþjónsuta.

Fyrir saklausan túrista, sem hefur enga sérstaka þekkingu á innviðum landsins þá lítur þetta allt bara ágætlega út. Það er ekki sami æsingur í að selja manni vöru og fólk keyrir gamla bíla og á gamla síma, en er það virkilega það sem öllu máli skiptir? Er ekki betra að fólk geti gengið um götur sæmilega óhrætt um líf sitt ólíkt ástandinu í El Salvador, Venezuela og Mexíkó.

Leigubílaröð í Cienfuegos
Leigubílaröð í Cienfuegos

Ég veit ekki. Já, það er ansi margt sem ekki er í lagi á Kúbu – landi sem hefur haft sömu bræður við völd í 55 ár, en einhvern veginn finnst mér ástandið vera betra en það var hérna fyrir 15 árum síðan. Viðskiptabann Bandaríkjanna lætur Kúbu alltaf líta illa út því við sjáum svo oft hlutina með augum Bandaríkjanna. Castro er sósíalisti og hann er vondi kallinn og því líður manni smá einsog maður verði að útskýra að þetta lítur bara ekkert svo illa út fyrir ferðamann einsog mig. Kúbverjar eru glatt og yndislegt fólk, sem virka ágætlega sáttir með ástandið.

(Ég var líka heillaður af Sýrlendingum og fannst þeir yndislegir og hamingjusamir árið 2008 á ferðalagi mínu þá, þannig að það má taka þessar túristavangaveltur með fyrirvara)


Frá höfuðborginni Havana tókum við fjölskyldan á þriðjudaginn leigubíl að Gíron ströndinni í Svínaflóa. Þangað er um tveggja tíma akstur frá Havana á stærstu hraðbraut landsins, sem er samt full af holum og örfáum bílum sem voru ekkert mikið yngri en bandarísku fornbílarnir í Havana. Gíron er nálægt þeim stað sem Svínaflóainnrásin misheppnaða var gerð árið 1961 þegar að 1400 kúbverjar í útlegð réðust á Kúbu með aðstoð CIA og samþykki Kennedy forseta. Fidel komst að innrásinni áður en hún var gerð og það hjálpaði Castro og félögum að gjörsigra innrásarliðið. Það leiðist Kúbverjum ekki að monta sig af á hinum fjölmörgu skiltum sem blasa við manni á leiðinni til Svínaflóa.

Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.
Jóhann Orri kemst á land í Svínaflóa.

Við stoppuðum á ströndinni, borðuðum ótrúlega góðan fisk og leyfðum Jóhanni að baða sig í karabíska hafinu.

Frá Giron hélt leigubíllinn svo með okkur áfram til borgarinnar Cienfuegos, borg sem var stofnuð af frönskum innflytjendum. Við gistum í miðbænum, skoðuðum þar litrík hús, löbbuðum um göturnar og meðfram ströndinni og borðuðum frábæran mat. Á svona labbi er skortur á kapítalisma á Kúbu afar greinilegur. Í 30 stiga hita og glampandi sól labbandi á strandgötu við karabíska hafið var enginn að reyna að selja okkur ís eða gos. Þarna voru bara við og búðirnar voru til staðar ef við þurftum á þeim að halda, en þá þurftum við að finna þær, sem getur verið erfitt þar sem þær eru oft nánast ómerktar. Veitingastaðurinn sem við borðuðum á í gær var í heimahúsi – borðið okkar við hliðiná bílskúrnum.

Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.
Prado gatan í Cienfuegos við strönd karabíska hafsins.

Maturinn hérna er að mörgu leyti frábær. Eftir tvær vikur í Bandaríkjunum með allri þeirri matartengdu sturlun sem það land býður uppá, þá er að mörgu leyti gott (fyrir heilsuna) að komast í talsvert meiri einfaldleika hérna á Kúbu. Því það er smá einsog allur matur sé ákveðinn á fundi einhverrar nefndar í Havana. Til að mynda höfum við núna borðað morgunmat á þremur gistiheimilum en hann er samt alltaf sá sami – egg, ávaxtadjús (mangó eða guyaba), hvítar brauðbollur með smjöri og einhverju ávaxtamauki og svo skornir ferskir ávextir sem eru ananas, guayaba, bananar og papaya. Allar aðrar málíðir virðast svo fylgja eftirfarandi formúlu: Prótín (fiskur, sem er frábær, svínakjöt eða kjúklingur), hrísgrjón, svartar baunir, steikt plantain eða yuca og svo grænmetisblanda, sem er alltaf hvítkál, avokadó, grænar baunir, agúrka og tómatar. Ótrúlega hollt og gott.

Che skilti í Cienfuegos
Che skilti í Cienfuegos

Drykkirnir eru líka yndislegir. Mojito, sem ég hef aldrei fílað sérstaklega í Evrópu, er mun bragðsterkari hér og sterkt rommbragð skín í gegn, sem er yndislegt. Gott Havana Club romm er eitthvað sem ég hef lært að meta í þessari ferð.

Já, og kaffið. Kaffið er stórkostlegt. Eftir tvær vikur af þunnu Starbuck’s kaffi (þar sem að í Orlando virðast gilda þau lög að ÖLL kaffihús þurfi að vera Starbuck’s) þá er ótrúlega gott að fá rótsterkt kúbverskt kaffi.


Eftir frábæran mat í Cienfuegos tókum við svo í gærkvöldi leigubíl áfram hingað til Trinidad. Hérna verðum við næstu daga áður en við höldum aftur til Havana með stoppi í Santa Clara.

Skrifað í Trínídad, Kúbu 6.nóvember kl 21.24