Serrano á Bíldshöfða

Síðasta eitt og hálfa árið á Serrano eru búnir að vera ansi skrautlegir. Við opnuðum okkar annan stað á N1 Hringbraut í lok janúar, við keyptum Síam í ágúst, opnuðum í Smáralind í nóvember og svo í Dalshrauni í Hafnarfirði í apríl. Salan er á þessum sama tíma búin að margfaldast.

Núna á þriðjudaginn opnum við svo fimmta Serrano staðinn á nýrri N1 stöð á Bíldshöfða (hinum megin við götuna við N1 Ártúnshöfða). Við höfum frábæra reynslu af því að vinna með N1 á þeirra stöðvum og erum bjartsýn á að þessi staður verði jafn vinsæll og sá á Hringbraut.

(mynd tekin í gær, fjórum dögum fyrir opnun – sjá fleiri myndir hér)

Það skrýtna við þessa opnun er að ég hef ekki komið nærri því jafnmikið nálægt henni og fyrri opnunum. Í tengslum við síðustu opnanir hef ég skráð nokkuð nákvæmlega allt, sem þarf að gera til að opna nýjan stað og nú er það svo að þær upplýsingar eru allar til taks á einum stað. Ég var löngu búinn að klára öll teikningamál af stöðinni með N1 og arkitektunum, en á meðan að ég var úti í ferðalaginu mínu, þá sá Emil, sem á staðinn með mér, nær algjörlega um skiplagninguna á opnun staðarins.

Þannig að ég hef sloppið við mesta stressið við opnunina. Þó ég viðurkenni fúslega að stressið við að opna nýjan stað er eitt það allra skemmtilegasta stress, sem ég upplifi. Við höfum aðeins haft 2-3 daga inná stöðinni til að undirbúa okkur, en þetta lítur samt ágætlega út. Stærstu tækin komu inn núna áðan og þegar ég var uppá Bíldshöfða fyrir smá stundu, þá litu hlutirnir nokkuð vel út. Við opnum svo á þriðjudaginn næsta, 1.júlí.

* * *

Emil er búinn að taka við af mér sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og ætla ég að einbeita mér á næstunni að öðrum verkefnum í fyrirtækinu, sem koma aðallega að þeim mögleika að opna Serrano stað í Skandinavíu. Ég mun eflaust skrifa mun meira um það þegar að að því kemur. En ég er allavegana búinn að draga mig að miklu leyti útúr daglegum rekstri hérna heima.

Serrano staðurinn á Bíldshöfða verður semsagt sá fimmti í röðinni og við erum nú þegar búnir að skrifa undir samning um að opna sjötta staðinn, en hann verður þó ekki opnaður fyrr en um mitt næsta ár.

8 thoughts on “Serrano á Bíldshöfða”

 1. Væri nú fínt að fá Serrano stað á Akureyri áður en þið farið úr landi með hann 🙂

 2. Stórglæsilegt, þið hafið gert frábæra hluti með þessum stöðum.

  Hollt, og mjög sanngjarnt verð.

  Hlakka til að sjá hvernig útrásin gengur.
  Kv. Stígur

 3. Til hamingju með alla velgengnina, þetta er stórglæsilegt og Serrano langbesti skyndibiti í heimi!
  Ég vil svo trompa Akureyrarhugmyndina og biðja vinsamlega um að þið komið með Serrano til Egilsstaða.

Comments are closed.