Serrano kaupir Síam

Jæja, þar sem að Blaðið fjallar um þessi viðskipti í dag, þá er sennilega kominn tími til að ég bloggi aðeins um það sem hefur (ásamt öðrum spennandi verkefnum) haldið mér uppteknum síðustu vikurnar.

Við á Serrano erum semsagt búnir að kaupa veitingastaðinn [Síam](http://siam.is/) í Hafnarfirði. Þetta er lítill veitingastaður, sem á sér langa sögu. Hann hefur frá upphafi verið rekin af hjónunum, Stefaníu Björnsdóttur og Manit Saifa (sjá mynd af okkur ásamt þeim hjónum við eigendaskiptin). Stefanía hefur séð um afgreiðsluna, en Tim, sem er frá Taílandi hefur frá upphafi séð um eldamennskuna. Staðurinn var fyrst rekinn af þeim hjónum í Síðumúla undir nafninu Bangkok, sem var fyrsti taílenski veitingastaðurinn á Norðurlöndum (stofnaður árið 1985). Síðan hefur staðurinn verið rekinn niðrí miðbæ og núna síðustu 5 árin undir nafninu Síam í Hafnarfirði.

Við Emil (meðeigandi minn á Serrano) höfum lengi verið hrifnir af Síam. Ég hef verið mikill aðdáandi taílensks matar síðustu árin og aðeins fjarlægðin í Hafnarfjörð hefur gert það að verkum að ég hef ekki borðað oftar á Síam. Ég trúi því þó að þrátt fyrir aðra virkilega góða taílenska staði (einsog t.d. Krua Thai, sem er afbragð) þá sé maturinn á Síam besti taílenski maturinn á Íslandi.

Við eigendaskiptin hætta Tim og Stefanía að vinna á staðnum og því höfum við lagt gríðarlega þunga áherslu á að viðhalda öllum vinnubrögðum Tims í eldhúsinu, enda viljum við halda áfram sama gæðastaðli á matnum og hefur verið. Því höfum við verið með nokkra kokka í læri hjá Tim undanfarnar vikur til þess að allar uppskriftir og ferlar haldi sér. Síam hefur í gegnum árin eignast gríðarlega tryggan aðdáendahóp, enda maturinn frábær, og ætlum við að tryggja að þessir tryggu kúnnar muni áfram fá sömu góðu þjónustu og sama frábæra matinn og áður.

Unfanfarnar vikur höfum við líka unnið að talsverðum breytingum á staðnum, sem munu koma í ljós smám saman. Við höfum breytt um logo (gamla logoið má sjá [hér](http://siam.is/siam-gamaltlogo.jpg) og það nýja [hér](http://siam.is/) (logo-ið er hannað af Vatíkaninu). Við munum líka á næstu vikum fjölga borðum í sal, lengja opnunartíma, bæta merkingar á húsi og gera fleiri hluti, sem munu bæta þjónustuna við kúnna staðarins. Einnig munum við bæta við réttum úr smiðju Tim, sem að hafa ekki verið á matseðli, auk þess að kynna staðinn betur.

Seinna í mánuðinum munum við svo lengja opnunartímann. Í dag er staðurinn aðeins opinn frá 18-21 á kvöldin, en afgreiðslutíminn verður lengdur til 11.30-21.30, enda teljum við að það sé mikil eftirspurn eftir góðum mat í hádeginu á þessum slóðum.

Allavegana, ég hvet alla sem að lesa þessa síðu til að prófa Síam. Staðurinn er í Dalshrauni 11 í Hafnarfirði, á móti Gaflinum – í sama húsi og líkamsræktarstöðin Hress.

15 thoughts on “Serrano kaupir Síam”

  1. Til hamingju með þetta.

    Ég hef borðað þarna nokkrum sinnum og maturinn er frábær. Ef hann helst áfram frábær á ég eflaust eftir að koma aftur og aftur.

  2. “…aðeins fjarlægðin í Hafnarfjörð…”

    Þú ert aumingi. Í alvöru. Þú getur ferðast alla leið til Asíu til að borða hundamat en kvartar yfir tuttugu mínútna akstri til Hafnarfjarðar? Ég bý á Holtinu í Hafnarfirði og fór í fjögur ár í Háskóla Íslands. Samúð mín er engin þótt það sé “laaaangt” hingað upp í sveitina. 😉

    Samt, til hamingju með þetta. Tælenskur matur er góður og ég hlakka til að venja komur mínar á Síam. Eins mun ég láta alla í vinnunni vita vita af þessum stað, þar sem menn þar eru vanir að fara á Nings í Kópavoginum í hádeginu til að fá sér take-away. Nú þarf ekki að sækja langt yfir betra. 🙂

    Til hamingju aftur!

  3. Gaman að heyra, Gummi. Við munum gera okkar besta til að gæðin haldist þau sömu.

    Og KAR, það er umtalsvert lengra að keyra úr RVK í Hafnarfjörð en úr Hafnarfirði í Reykjavík. 🙂

    Og segðu endilega sem flestum. Mundu bara að við opnum ekki í hádeginu fyrr en seinna í mánuðinum (sennilega í kringum 17.sept).

  4. Jájá ég man það. Þegar það gerist dett ég inn einhvern daginn og kaupi hópmáltíð og fer með niður í vinnu. Býð mönnum upp á smakk og þá ætti að aukast hjá þér örtröðin í hádeginu framvegis. Við erum að tala um hóp fólks sem kemur til mín til að borða hádegismat, þar sem við höfum aðstöðu fyrir fólk til að matast.

  5. Frábært! Næsta skref er þá Serrano á Skagann!!! Right? 🙂 Fólki finns einmitt ÓTRÚLEGT að ég skuli koma frá Akranesi alla morgna til að fara í skólann.. mér finnst það ekkért mál!

  6. Til hamingju með þetta.

    Vildi beina til ykkar varúðarorða og vísa til Mekong staðarins í því hvernig á ekki að standa að því að taka yfir rekstur á stöðum sem þessum.

    Allt í einu voru komnir nýir eigendur, búið að hreinsa allt til, merkja staðinn með Pepsi og lengja opnunartímann. Hækka alla rétti um 300 kr og minnka gæðin. Og með því eyðilögðu þeir topp stað.

    Ég hef fulla trú þó að því að þið vitið hvað þið eruð að gera. Er bara ennþá svekktur yfir falli Mekong.

    Til hamingju aftur.

    Kv,
    BFI

  7. Takk öll. 🙂

    Marella, þetta er móttekið. Ef ég hefði oftar erindi uppá Skaga, þá myndi ég kannski vera æstari í að opna stað þar. Það er þó allt mögulegt. 🙂

    Og BFI, þetta eru mjög góðir punktar og við Emil höfum oft rætt um þann stað. En ég er búinn að vera í þessum bransa í 5 ár og tel mig vita eitthvað um hvað gengur og hvað gengur ekki. Það er til að mynda glapræði að breyta hlutunum einsog var gert á Mekong.

    Við munum EKKI fara í að hækka verðin um 300 kall, við munum ekki byrja að selja hamborgara, kjúklinganagga eða franskar, við munum ekki merkja staðinn með Pepsi og við munum alls, alls ekki minnka gæðin. Við vitum hvað við erum að kaupa og fyrir hvað staðurinn stendur og við munum halda góðu hlutunum við staðinn (aðallega maturinn og þjónustan) og bæta svo ofaná það því sem við erum færir í.

  8. Sem Hafnfirðingur skammast ég mín fyrir að hafa aldrei heyrt um eða tekið eftir þessum stað. Alveg ljóst að maður á eftir að kíkja þangað einhvern tímann.

    En hvernig staður er þetta? Er þetta fyrst og fremst veitingastaður sem maður fer “út að borða” á eða er þetta staður sem er hægt að fá “take away” mat?

  9. Þröstur, þetta er svona semi-fínn veitingastaður þar sem þú getur sest niður í huggulegu umhverfi og borðað matinn þinn. Þetta er auðvitað matur sem er best að borða í hópi (Taílendingum finnst hræðilegt að borða einir), þannig að það er skemmtilegt að koma með fólki og deila réttunum á borðinu. Bjóðum svo uppá vín og slíkt.

    En svo er þetta líka take-away. Það er hægt að hringja á undan og taka réttina með sér.

    Endilega kíktu við. Það er opið 18-21 alla daga vikunnar núna, en í lok mánaðarins munum við lengja opnunartímann.

Comments are closed.