« Bandaríkjaferð 1: Washington DC | Aðalsíða | Bandaríkjaferð 3: Chicago, annar hluti »
Bandaríkjaferð 2: Cheek-a-gah
Þá er ég kominn til Chi-town. Það er ekkert eðlilega skrítið að vera kominn hingað aftur. Það eru ekki nema tvö ár síðan ég kláraði háskólann, en stundum er einsog það séu 20 ár síðan ég fór síðast frá Chicago.
Þá var ég alveg í öngum mínum yfir því að skilja eftir bandaríska kærustu mína og var alls ekki viss um að ég vildi fara aftur til Íslands, því að síðustu tveir mánuðirnir sem ég eyddi í Chicago eru sennilega með bestu mánuðum ævi minnar. En ég var búinn að ákveða að opna Serrano og því fór ég heim. Það er því skrítið að vera kominn aftur, því mér finnst ég lítið hafa breyst.
Ég gisti núna hjá Dan, besta vini mínum frá því í háskóla. Hann heimsótti mig til Íslands í fyrra, en hina vini mína hef ég ekki hitt síðan ég útskrifaðist. Dan býr í stúdíóíbúð í Wrigleyville, rétt hjá æðislegasta íþróttavelli í heimi, Wrigley Field. Þetta er æðislegt hverfi, sennilega einn skemmtilegasti hluti Chicago.
Ég kom frá Washintgon í gær. Síðasti dagurinn í DC var fínn. Ég tók þennan típíska minnismerkja rúnt, byrjaði hjá Jefferson minnismerkinu, svo Roosevelt, Lincoln, Kóreustríðið, Víetnamstríðið og að lokum seinni heimsstyrjöldin. Kíkti svo aðeins fyrir framan Hvíta Húsið. Fyrir 11.september var hægt að fara í túr um Hvíta Húsið að innan, en líkt og ansi mörgum byggingum er búið að loka Hvíta Húsinu fyrir ferðamönnum. Hvernig það eykur öryggi þessara bygginga skil ég ekki alveg.
Ég ætla að eyða næstu vikunni hér í Chicago. Ég hef náttúrulega séð allt í þessari borg, enda bjó ég hér í þrjú ár. Því ætla ég bara að taka hlutunum rólega, hitta alla vinina og heimsækja þá staði, sem ég hef saknað.
Einn af þessum stöðum er auðvitað Wrigley Field. Ég fór þangað í gær og sá snillinginn Mark Prior kasta á móti Houston Astros. Cubs unnu glæsilegan sigur í 45 gráðu hita og 300% raka. Ég hef aldrei á ævinni svitnað jafn mikið við það að sitja á sama stað í 3 klukkutíma. Sem betur fer voru sölumenn duglegir við að færa mér ískaldan Bud Light (já, og engin niðrandi komment um Bud Light drykkju, takk)
Eftir leikinn hitti ég svo Dan og kærustu hans og við fórum niðrí miðbæ Chicago. Ef að Dan er snillingur í einhverju þá er það að finna ókeypis áfengi. Auk þess er enginn í heiminum jafn fyndinn og Dan þegar hann fær sér í glas. Allavegana, við fórum á einhverja viskí kynningu, sem Chivas Regal hélt á Sofitel hótelinu í Chicago.
Kynningin snérist í grundvallaratriðum um það að einhver Skoti reyndi að telja okkur trú um að viskí væri gott á bragðið og að besta viskíið kæmi frá austuströnd Skotlands. Well, this just in: Viskí er ENNÞÁ viðbjóður. Sama hvað ég reyndi og hversu miklu vatni ég bætti við viskíið, þá var þetta allt ódrekkandi. Eina leiðin til að drekka þetta var að bæta Ginger Ale útí viskíið. Dan tókst þó að drekka sinn skammt og því var hann talsvert hressari en ég í lok kynningarinnar.
Núna er helgin framundan og ég er virkilega farinn að njóta þess að vera í fríi. Ætla að sjá annan Cubs leik eftir tvo klukkutími (og þann þriðja á sunnudaginn) og ætla svo að skella mér á djammið í kvöld og annað kvöld.
Ég elska Chicago og elska að vera kominn aftur hingað. Á vissan hátt líður mér einsog ég hafi aldrei farið frá borginni.
Og að lokum, spurning dagsins: Af hverju geta ekki allir verið einsog ég og pantað venjulegt kaffi á Starbucks í stað kaffidrykkja með fjórtán sérhljóðum í nafninu. Það myndi stytta biðröð á þessum stöðum til mikilla muna.
Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 12.56
Ummæli (8)
Helvítis Starbucks snobb fíflunum er ekki viðbjargandi. Hjartanlega sammála þér með þessa djöfulsins snobbdrykki, þoli heldur ekki að þeir geti ekki haft small, medium og large………. Það er ennþá Bud light inní ískápnum hjá mér síðan að þú komst….. WASTE OF SPACE
Jammm, þetta Tall, Grande Venti dæmi er líka fokking djók. Það ætti í raun að skjóta alla, sem koma þarna inn og biðja um “grande moccha vanilla frappuchino with an extra shot of espresso”.
Og Genni, þú mátt eiga Bud Light flöskurnar. Aldrei að vita nema þú byrjir að fíla Bud Light.
Önnur spurning dagsins: Af hverju ætti fólk yfir höfuð að versla við Starbucks?
Og nú eru þeir hjá Starbucks búnir að tilkynna að þeir ætli að hækka verðin í vetur.
Eins og Starbucks er leiðinlegt snobbfyrirtæki þá eru þeir FYRST OG FREMST FYRIRTÆKI!!!! Þeir eru í viðskiptum til að græða peninga, og ef fólk er nógu heimskt til að borga 5 dollara fyrir bolla af einhverju sem ég get ekki borið fram, þá er það bara þannig.
Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu
Fyrst að ég má ekki gagnrýna Bud Light drykkjuna þína…
And this just in: Þér er ekki viðbjargandi