Salsa update

Jæja, ég kláraði salsa námskeiðið á föstudagskvöld. Er búinn að vera á því í sex vikur og þetta er búið að vera verulega skemmtilegt. Stelpan sem ég dansa með hafði aldrei prófað salsa, en ég hafði lært það mjööög óformlega í Venezuela. Samt var ég aldrei góður í salsa, þar sem í Venezuela dönsuðum við aðallega merengue. En þetta gekk bara nokkuð vel hjá okkur og í síðustu tveimur tímunum var þetta farið að smella verulega vel saman.

Í gærkvöld fórum við svo saman á salsa kvöld á Kaffi Kúltúra. Þar var Carlos, salsa kennarinn okkar, DJ og spilaði hann blöndu af salsa, merengue og einhverri annarri tónlist frá Suður-Ameríku. Þetta var verulega skemmtilegt, fyrir utan kannski þá staðreynd að aldurstakmarkið á staðnum er sennilega 15 ár og því var dansgólfið samblanda af fólki sem var að dansa salsa og fullum unglingum.

En það er allt öðruvísi að dansa salsa á skemmtistað en í danstíma. Maður gleymir því að hafa áhyggjur af sporunum og nýtur þess bara að dansa. Í gærkvöldi fékk ég smá nostalgíukast þar sem þarna var fullt af fólki frá Suður-Ameríku og tónlistin og dansinn minntu mig aðeins á Suður-Ameríku. Það vantaði bara að ég gæti gengið út í 30 stiga hita og fengið mér tacos al pastor eða Caracas hamborgar og þá hefði þetta verið næstum því alveg eins. 🙂

(Barna)klám

Ég nenni varla að blanda mér í umræðuna um þessa blessuðu klámráðstefnu. En þetta finnst mér [fullkomlega fáránlegt](http://www.visir.is/article/20070216/FRETTIR01/70216077) af borgarstjóra okkar:

>Borgarstjóri hefur óskað eftir að lögregla rannsaki hvort þátttakendur á klámráðstefnu kunni að vera framleiðendur barnakláms, eða annars ólögmæts klámefnis

Er þetta framtíðin? Á að kanna aðra ráðstefnuhópa líka? Það gætu reynst morðingjar á ráðstefnu sportveiðifélagsins. Hvað með næstu NATO ráðstefnu? Ætlar borgarstjóri að láta rannsaka hvort að ráðstefnugestir þar hafi eitthvað á samviskunni? En næsta friðar-ráðstefna? Þar gætu leynst hryðjuverkamenn. Eigum við ekki bara að skoða alla sem hingað koma?

Skemmtilegar nornaveiðar í boði hins [fjölskylduvæna](https://www.eoe.is/gamalt/2007/01/06/14.21.04/) borgarstjóra.

While we’re on the subject, finnst engum nema mér skrýtið að hægt sé að kalla klám með 15 ára stelpu barnaklám og klám með 5 ára stelpu líka barnaklám? Eða að flokka barnaníðinga í sama flokk sama hvort þeir leiti á 5 ára krakka eða 15 ára?

Verkir

Í vikunni byrjaði ég að lyfta aftur eftir að hafa einbeitt mér að hlaupum í ræktinni að undanförnu. Afleiðingar þess eru einhverjar fáránlegustu harðsperrur sem ég hef fengið.

Einnig hef ég farið tvisvar í fótbolta í vikunni og uppskorið tvær kúlur. Svona til að skjalfesta þetta, þá [bjó ég til þessa mynd](http://www.flickr.com/photos/einarorn/391373333/).

🙂

Ferð

Kristján Atli er [búinn að skrifa á Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/02/14/21.23.32/) um ferðina sem ég er að fara í núna eftir tvær vikur. Ég er semsagt að fara með hinum Liverpool bloggurunum (mínus Aggi) til Liverpool þar sem ég mun sjá uppáhaldsliðið mitt keppa við hið andstyggilega lið Manchester United og svo þrem dögum seinna við hitt uppáhaldsliðið mitt, Barcelona.

Bara svo að það sé alveg á hreinu, þá mun ég halda með Liverpool í báðum leikjunum. Ég stefni svo á að fá mér einn, jafnvel tvo, þrjá eða fleiri bjóra á pöbbum og skemmtistöðum Liverpool borgar. Ég hef ekki farið til útlanda síðan ég kom heim frá Asíu, sem er náttúrulega alveg ferlegt. 🙂

Bílastæðakvabb

Ég tel mig nú ekki vera mikið fyrir það að kvarta yfir því sem miður fer hjá öðru fólki í þessu þjóðfélagi. Þó er til sá þjóðfélagshópur, sem fer í taugarnar á mér. Það er fólk sem kann ekki að leggja í stæði. Eða öllu heldur fólk sem virðist ekki gera sér grein fyrir því að hvar það leggur getur haft áhrif á **annað fólk**.

Það virðist vera sérstaklega algengt meðal jeppaeigenda að þeir telja sig hafa einhvern guðdómlegan rétt til að leggja einsog þeim sýnist – og þess vegna að taka tvö stæði fyrir fína bílinn sinn.

Þar sem ég er vanalega í Kringlunni svona tvisvar á dag og legg bílnum mínum líka í miðbænum nánast daglega þá verð ég ítrekað var við þetta. Í Kringlunni í dag tók ég smá rúnt um starfsmannastæðin. Ákvað að taka myndir frá staðnum þar sem ég lagði að staðnum þar sem ég labbaði inní sjálfa Kringluna.

Í dæmi eitt sýnir bílstjórinn til vinstri hvernig á EKKI að leggja í stæði. Menn eiga ekki að leggja yfir hvítu línuna, heldur halda sig innan línanna. Bílstjórinn til hægri (ÉG!) sýnir hvernig á að gera þetta:

Á næstu mynd sjáum við annað dæmi um þetta:

Þessi mynd skýrir sig sjálf

Og að lokum er það KLASSÍSKT dæmi um jeppaeiganda sem tekur sér tvö stæði. Viðkomandi leggur það langt frá súlunni til hægri að það er ómögulegt m.a.s. fyrir smábílaeiganda einsog mig að leggja í stæðið vinstra megin.

Óþolandi!

Ok, þetta var meinhorn dagsins. Næst mun ég hringja inn á Útvarp Sögu. 🙂

Vekjaraklukka

Í þessari viku byrjaði ég á því að mæta í ræktina klukkan 7.30 á morgnana. Þetta hefur tekist þrjá daga í röð með miklum pælingum. Ég hef til dæmis stillt vekjaraklukkuna mína og svo líka stillt vekjarann á símanum mínum. Svo hef ég sett símann fram á gang, þannig að ég geti ekki slökkt á honum í svefnu.

En ég held að lausnin væri einfaldlega að fá sér almennilega vekjaraklukku. Og sú besta sem ég hef séð er [þessi hér](http://www.engadget.com/2007/02/13/the-dangerbomb-alarm-clock-wake-or-go-boom/). Algjör snilld!

Kastljósið

[Kastljósþátturinn í kvöld](http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301727) er með fyndnara sjónvarspefni, sem ég hef horft á á Rúv lengi. Þvílík snilld!

Þetta minnti dálítið á það þegar að Steve Carrell og Steven Colbert duttu í það í Daily Show þætti, sem ég horfði á þegar ég var útí háskóla. Ég held að ég hafi sjaldan hlegið jafnmikið og yfir því myndbroti. Verst að ég finn ekki það myndskeið á YouTube. Ef einhver getur fundið það myndskeið þá býð ég viðkomandi í brúðkaupið mitt

Snillingar Davíðs

*(Þessi færsla birtist líka á [Kratablogginu](http://nykratar.blog.is/blog/kratabloggid/))*

Við Íslendingar njótum þeirra “forréttinda” (kaldhæðni að hætti Davíðs) að hafa sennilega pólitískasta Seðlabankastjóra í heimi. Í flestum öðrum löndum er embætti Seðlabankastjóra virðingarstaða þar sem menn sitja sem njóta virðingar innan fjármálaheimsins, sem og meðal almennings. Oftast reyna menn að ráða í þetta starf menn sem eru yfir dægurþras hafnir og geti því gefið Seðlabanka landsins trausta ímynd.

Á Íslandi er þetta embætti hins vegar notað til að koma gömlum stjórnmálamönnum í þægilegar stöður. Gallinn við það fyrirkomulag er sá að seðlabankastjóri verður aldrei yfir dægurþras hafinn og traust almennings á bankanum verður minna. Nú er það til að mynda svo að núverandi Seðlabankastjóri getur lítið gagnrýnt hagstjórn einsog slíkir stjórar ættu að gera, án þess að gagnrýna um leið þá stefnu sem hann skapaði.

Davíð Oddson er líka enn stjórnmálamaður og sýna [afskaplega barnaleg ummæli hans í kvöldfréttum í gær](http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338035/3) það greinilega. Davíð segir:

>Það er nú bara þannig að sumir hafa verið að segja að við verðum að taka upp evru, annars verði hagvöxtur minni – ég hef heyrt suma snillingana segja það.

Þetta er alveg afskaplega hallærislegt. Fyrir þá sem heyrðu ekki viðtalið og geta ekki lesið kaldhæðnina útúr textanum, þá var það augljóst að með “snillingum” þá átti Davíð við að þarna væru vitleysingar að tala. Gleymum því hversu kjánalegt það er að Seðlabankastjóri skuli láta svona útúr sér og einbeitum okkur fyrst að því sem hann segir “snillingana” hafa sagt. Það er, að upptaka evru sé til að auka hagvöxt.

Nú hef ég fylgst ansi vel með umræðunni, en ég man hreinlega ekki hvar það er minnst á það að upptaka evru geti aukið hagvöxt.

Getur einhver bent mér á það hvaða “snillingur” sagði það og við hvaða tilefni?

Það er ekkert mál að vinna rökræður ef menn gera andstæðingum sínum upp skoðanir. Hagfræðingar hafa bent á ótal rök fyrir upptöku evru – og Davíð ætti frekar að eyða tíma sínum í að andmæla þeim í stað þess að gera þeim upp nýjar skoðanir.

Liðleiki

Ég sat inní eldhúsi þegar ég heyrði auglýsingu fyrir nýjar myndir á næstu leigu. Ein myndin var auglýst svo:

>Fyrirtaks afþreying þar sem kattliðugar ofurgellur fara á kostum.

Þarf eitthvað meira til að sannfæra mann?