Brúðkaup eftir tvær vikur

Í þessum mánuði ætlum við Margrét Rós að gifta okkur.

Ég hef áður skrifað á þessu bloggi um það hvernig við trúlofuðum okkur í Róm í ágúst á síðasta ári. Við vissum alltaf að þegar við myndum trúlofa okkur þá vildum við láta brúðkaup fylgja ári seinna og við það ætlum að standa.

Síðustu daga hefur Margrét verið á Íslandi en ég í Svíþjóð. Í heila 10 daga höfum við verið í sitthvoru landinu, hún heima hjá mömmu sinni og ég og Suarez einir í Stokkhólmi. Þetta er svo sem ekki langur tími en í þau þrjú ár sem við höfum verið saman þá höfðum við aldrei verið svona lengi í sundur.

Þessi tími var að mörgu leyti gagnlegur. Ég þurfti engar frekari staðfestingu á því, en mér finnst ekkert rosalega gaman að búa einn. Ég þarf vissulega minn tíma einn. Mér finnst stundum gott að koma heim þegar að enginn er heima, eða fá að hafa hálft kvöld þar sem ég er bara í tölvunni eða gera eitthvað þar sem ég er einn í heiminum. Ég hef alltaf haft þá þörf og mun sennilega alltaf hafa.

En slíkt verður gamalt. Það var gaman fyrstu kvöldin að þurfa ekki að hafa áhyggjur af sumum hlutum og geta eytt kvöldinu í að spila xBox. En eftir 2-3 kvöld var ég alveg kominn með nóg.

* * *

Ég hef ekki skrifað mikið um mínar tilfinningar síðan ég byrjaði með Margréti. Þetta blogg var smá þekkt sem blogg um stelpur og tilfinningar mínar. Mér fannst áður gott að fá útrás fyrir mínar tilfinningar og pirring. En síðustu 3 árin hafa bara verið svo góð að ég hef ekki þurft á því eins mikið að halda. Í stað þess að pirra mig á því að íslenskar stelpur séu svo ómögulegar þá situr við hliðiná mér besta, klárasta og sætasta stelpa sem ég þekki.

Ég var einu sinni örlagatrúar – ég hélt að allt baslið með kvenfólk og öll samböndin sem ég var í myndu á endanum leiða til einhvers góðs. En með árunum hef ég algjörlega hætt að trúa á Guð og ég hef líka hætt að vera örlagatrúar. Ég hef hætt að halda að eitthvað gerist bara af því að maður reyni hundrað sinnum, eða að á eftir erfiði fylgi einhver hamingja bara af því bara.

Það var engin trygging fyrir því að ég myndi finna manneskju einsog Margréti. Ég vann mér það ekkert inn með því að deita fullt af stelpum og lenda í alls kyns basli. Nei, ég hitti hana nánast fyrir tilviljun. Reyndar hefði nokkuð margt í mínu lífi þurft að vera öðruvísi til þess að ég hefði ekki hitt hana, en það var samt tilviljun að við hittumst á hárréttum tíma í okkar lífi. Ef við hefðum hist fyrr hefðum við alls ekki passað saman og hver veit í hvaða stöðu við hefðum verið ef við hefðum hist síðar.

Og það er líka fullt af strákum og stelpum, sem hafa farið í gegnum svona mörg furðuleg sambönd einsog ég og svo ekki endað með hinum fullkomna maka. Ég var bara heppinn að ég náði í mína og ég veit það vel. Ég vann mér ekki inn það að hitta hana, heldur var bara svo heppin að hitta hana og komast að því að henni fannst á endanum ég jafn æðislegur og mér finnst hún. Það er merkilegt og eitthvað sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir.

* * *

Nánast allan tímann, sem við höfum verið saman, hef ég vitað að mig langaði til að giftast Margréti. Mér finnst það hálf ótrúlegt á tímum hversu vel við pössum saman. Að henni finnist ég svona fyndin og að mér finnist hún svo fyndin. Að við höfum svona lík áhugamál. Að mér finnist hún svona klár og áhugaverð og að henni finnist það sama um mig. Að henni finnst ég sætur þegar ég vakna og að mér finnist hún sæt þegar að hún vaknar. Að hún skuli alltaf vita hvað ég er að hugsa. Ég veit bara vel að það eru ekki margar persónur sem myndu passa svona vel fyrir mig.

Þessir 10 dagar sem ég hef verið einn á Götgötunni hafa rifjað það upp fyrir mér að mér fannst aldrei neitt frábært að búa einn. Ég átti svo sannarlega frábær ár þegar ég bjó einn á Íslandi. Ég kynntist ótrúlegum vinum, ég átti fjölmörg söguleg djömm og ég mun ávallt eiga frábærar minningar frá því að verið á á Vegamótum eða labbað heim af djamminu og frá partíjum og öðru skemmtilegu. En svo komu alltaf sunnudagskvöldin einn heima í þynnkunni þegar það vantaði alltaf eitthvað og mér fannst erfitt að sofna. Þannig voru þessir síðustu 10 dagar – eintóm sunnudagskvöld. Ég sofnaði oft miklu seinna, þar sem það vantaði alltaf eitthvað um kvöldið – kvöldið var hálf tilgangslaust þegar að Margrét var ekki þarna með mér.

* * *

Eftir rétt rúmar tvær vikur ætlum við að gifta okkur á Íslandi. Við erum búin að bjóða til veislu og bjóða þangað stórkostlegum hópi af vinum og fjölskyldu. Margrét er búin að heiga heiðurinn af skipulagningunni, þótt að ég hafi líka hjálpað til.

Ég get ekki beðið eftir deginum. Ég verð 34 ára í næsta mánuði og ég er ekki neinum vafa um hverjum mig langar til að eyða restinni af ævinni með.

The Annotated Frank Rich – The President’s Failure to Demand a Reckoning From the Moneyed Interests Who Brought the Economy Down — New York Magazine

The Annotated Frank Rich – The President’s Failure to Demand a Reckoning From the Moneyed Interests Who Brought the Economy Down — New York Magazine. – Frank Rich skrifar um það hvernig Obama hefur brugðist kjósendum sínum með því að sækja enga bankamenn til saka fyrir það sem gerðist í aðdraganda bankakreppunnar í Bandaríkjunum.

Api tekur af sér sjálfsmynd í Indónesíu

Black macaque takes self-portrait: Monkey borrows photographer’s camera | Mail Online. – Þetta er einfaldlega of krúttulegt.  Svartur Macaque api nær myndavél af ljósmyndara á Norður Sulawesi í Indónesíu og sér sjálfan sig í glampanum af linsunni (sennilega í fyrsta skipti sem hann sér sjálfan sig) og tekur svo brosandi sjálfsmyndir.  Fyrsta myndin við þessa frétt er einfaldlega yndisleg.  Ég þarf bar að horfa á þessa mynd í smá stund til að komast í gott skap.

Þras um ESB og Samfylkinguna

Af því að ég er löngu hættur að nenna að skrifa um íslenska pólitík á þessa síðu, þá er það næstbesta sem ég get gert að vísa í skrif, sem ég er sammála. Til dæmis þessi pistill hérna: Enn um leiðinlegt ESB þras!. Pistillinn er allur góður og meira að segja eru sum kommentin ágæt. En hérna er meginefnið, sem ég er svo innilega sammála (feitletranir mínar)

>Umræða um gjaldmiðil og fjármögnun atvinnutækifæra virðist komin upp á hillu. Fólk virðist farið að sætta sig við ónýta krónu og AGS sem þrautavarnarlánveitanda um ókomna framtíð. Slíkt er hættulegt, það er vísir að uppgjöf. Í raun má segja að ákveðið sýndarástand ríki á landinu, fólk er farið að velja upphafspunkta fyrir og eftir hrun eftir hentisemi. Hvergi er þetta augljósara en í ESB umræðunni.

>70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning. Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.

>Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun. Og ekki nóg með það, eingöngu er nóg að segja „nei“, ekkert virðist þurfa að hugsa um hvað taki við eftir „nei“, enda er búið að stilla ESB umræðunni þannig upp að aðild er alls ekki partur af efnahagsendurreisn Íslands, heldur einhver hugmyndaleikfimi Samfylkingarinnar. Þannig er ESB aðild orðin að flokkspólitísku þrasi sem allir eru orðnir hundleiðir á. Þetta er auðvita óskastaða „nei“ liðsins því þá þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar, né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS. „Þetta mun reddast einhvern veginn“, virðist sem fyrr, fullkomið svar fyrir meirihluta þjóðarinnar.

>Hér er Ísland á öndverðum meiði við útlönd. Erlendis sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar. Í margra augum eru þetta óaðskiljanlegar undirstöður efnahagsuppbyggingar Íslands. Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma. Þannig verður óvissunni eytt.

Þetta feitletraða finnst mér vera eitt af aðalmálunum. Það sem virðist einkenna umræðu á netinu er óstjórnlegt hatur sumra á Samfylkingunni og sú ályktun þeirra að í þeim flokki séu eintómir snillingar, sem geti stjórnað öllu á Íslandi á bakvið tjöldin. Samkvæmt því er það fólk í Samfylkingunni, sem að snýr uppá hendur VG-liða, sér til þess að Ísland leggist flatt fyrir AGS og ESB og umfram allt sjái til þess að Jón Ásgeir hafi það nú gott. Þessi umræða er orðin svo biluð að Samfylkingarfólk er flest hætt að nenna að svara fyrir hana.

Auðvitað snýst ESB aðildin ekki um hagsmuni Samfylkingarinnar, heldur íslensku þjóðarinnar. Menn gleyma kannski nauðsyn á breytingum í gjaldeyrismálum þegar að við erum með gjaldeyrishöft, sem að flestir þurfa ekki að glíma við dags-daglega. En ef að einhver heldur að núverandi ástand í gjaldeyrismálum sé æskilegt til frambúðar fyrir fyrirtæki á Íslandi, þá eru þeir ansi langt frá raunveruleikanum. Ef menn vilja hafna ESB aðild þá verða þeir þá að koma með aðrar lausnir, ekki bara upphrópanir um hversu almáttug og ill við flokksfólk í Samfylkingunni erum.

Punktar um HM

Hérna eru nokkrir punktar í kjölfar HM.

  • Mínir menn töpuðu í úrslitaleiknum.  Ef ég hefði samt getað valið einhverja mynd í heiminum, þá hefði sennilega engin mynd geta glatt mig jafnmikið í kjölfar leiksins og þessi hér.  Fernando Torres með HM styttuna og Liverpool trefil?

    torresHM.jpg

  • Mér fannst Spánverjar leika hundleiðinlegan bolta á HM.  Þeir voru án efa með besta liðið og besta mannskapinn.  En að menn haldi því að þeir spili skemmtilegan bolta og að “knattspyrnan hafi unnið” er bara bull.  Ég horfði á flesta leiki Spánar og get ekki sagt að neinn þeirra hafi verið skemmtilegur.
  • Það að Spánn hafi tapað fyrir Sviss og svo unnið alla hina leikina með einu marki er glatað.
  • Fólk vælir ótæpilega yfir leik Hollendinga og hversu grófir þeir voru.  Ég er eflaust með litaðar skoðanir, en mér fannst þetta ekki vera jafn slæmt og margir vilja meina.  Vissulega eru Van Bommel og De Jong grófir leikmenn og hefðu geta fengið fleiri spjöld, en ég get ekki séð af hverju menn vilja dæma hollenska liðið svona hart.  Þeir unnu alla leiki í undankeppninni og uppað úrslitaleiknum.  Þeir voru vissulega heppnir með sjálfsmörk andstæðinganna, en yfir allt var ég nokkuð sáttur við mína menn.
  • Fernando Torres er minn uppáhalds knattspyrnumaður og það var slæmt að sjá hversu illa hann náði sér á strik í keppninni.  Þó er ágætt að benda á að samkvæmt tölfræði Fifa var mesti hraði, sem að Torres náði í keppninni sami hraði og Gareth Barry náði.  Það er klárt mál að meiðsli háðu honum.  Hann kórónaði svo óheppnina með að meiðast aftur í úrslitaleiknum.
  • Mér fannst þessi HM keppni ekki sérstaklega skemmtileg.  Ég heyrði einhvers staðar að þegar að Þýskaland komst yfir gegn Úrúgvæ hafi það verið í fyrsta skiptið í keppninni, sem að bæði liðin höfðu haft forystu í sama leiknum.  Það er hreint ótrúleg staðreynd.  Ég hafði frekar takmarkaðan áhuga á þessari keppni.  Kannski að þetta síðasta tímabil hjá Liverpool hafi minnkað áhuga minn á fótbolta aðeins.
  • En aðal vonbrigðin eru að Spánn hafi ekki spilað almennilega skemmtilega í neinum leik.  Það er með ólíkindum að lið, sem er að kjarna til sama lið og Barcelona skuli spila svona leiðinlegan fótbolta á meðan að Barca spilar svona skemmtilegan.  Ég veit að það vantar Messi í liðið, en samt.