Neytendamarkaður fyrir tölvur

Mjög athyglisverð grein á abcnews.com. Í henni er fjallað um það hversu lítið tölvufyrirtæki græða á því að selja beint til neytenda. Hagnaður tölufyrirtækja í dag byggist fyrst og fremst á sölu til fyrirtækja.

Höfundur greinarinnar spáir því að tvö fyrirtæki muni ráða einkatölvumarkaðinum í framtíðinni, Apple og Sony. Athyglisverð ályktun, en samt ekki eins vitlaus og manni virðist í fyrstu. Stærstu fyrirtækin í einkatölvuiðnaðinum, Compaq, Dell og HP hafa verið að færa sig æ meira inná fyrirtækjasviðið. Talað er um að Compaq hafi í huga að hætta algerlega að framleiða tölvur fyrir heimilin. Gateway, sem framleiðir nær einungis fyrir heimilin, hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarið og hafa þeir m.a. verið að loka mörgum “Gateway Country” búðum hér í Bandaríkjunum.

Það er þó ljóst að Apple og Sony þurfa að vinna í því að tengja betur saman tæki einsog lófatölvur við einkatölvuna til að ná góðri stöðu á heimilismarkaðinum. Það er mikið talað um það þessa dagana að Apple hyggist gefa út lófatölvu, en þeir voru einmitt frumkvöðlar á því sviði fyrir nokkrum árum.

AI: Artificial Intelligence

Við Hildur fórum að sjá AI:Artificial Intelligence, nýjustu Steven Spielberg myndina í gær. Það var nokkuð skrítið með þessa mynd að fólk virðist skiptast algerlega í tvo hópa. Til dæmis gaf gagnrýnandi Chicago Tribune myndinni fjórar stjörnur, en fólk sem ég talaði við fannst hún ömurleg.

Allavegana, þá fannst mér myndin hrein snilld. Einstaklega vel gerð og leikin. Ég hef aldrei séð 13 ára krakka leika eins ótrúlega og Haley Joel Osment. Drengurinn er snillingur.

Joe Fagan

Gamli Liverpool þjálfarinn Joe Fagan lést í dag. Þetta eru auðvitað sorgarfréttir fyrir alla knattspyrnunnendur. Joe Fagan stýrði Liverpool liðinu, sem var fyrst allra liða til að vinna þrennu, er þeir unnu deildarbikarinn, deildina og evrópubikarinn árið 1984.

Fagan stjórnaði einmitt Liverpool liðinu í fyrsta Liverpool leiknum, sem ég man eftir. Þá var ég átta ára og horfði á Liverpool-Juventus í úrslitaleik evrópukeppninar. Sá leikur var haldinn á Heysel leikvanginum í Brussel. Sá leikur er ekki þekktur vegna knattspyrnunnar heldur vegna yfir 30 aðdáenda Juventus sem létust. Þetta reyndist síðar verða síðasti leikur Liverpool undir stjórn Fagan. Eftir þann leik hef ég aldrei getað hugsað mér að halda með öðru liði en Liverpool.

Joe Fagan

Gamli Liverpool þjálfarinn Joe Fagan lést í dag. Þetta eru auðvitað sorgarfréttir fyrir alla knattspyrnunnendur. Joe Fagan stýrði Liverpool liðinu, sem var fyrst allra liða til að vinna þrennu, er þeir unnu deildarbikarinn, deildina og evrópubikarinn árið 1984.

Fagan stjórnaði einmitt Liverpool liðinu í fyrsta Liverpool leiknum, sem ég man eftir. Þá var ég átta ára og horfði á Liverpool-Juventus í úrslitaleik evrópukeppninar. Sá leikur var haldinn á Heysel leikvanginum í Brussel. Sá leikur er ekki þekktur vegna knattspyrnunnar heldur vegna yfir 30 aðdáenda Juventus sem létust. Þetta reyndist síðar verða síðasti leikur Liverpool undir stjórn Fagan. Eftir þann leik hef ég aldrei getað hugsað mér að halda með öðru liði en Liverpool.

Blog

Æ, mér leiðist að vera að vitna í aðra bloggera, en Ágúst var að lýsa vanþóknun sinni á hægri-sinnuðum vinstri mönnum. Ætli ég falli ekki í það form. Ásamt Geir Freyss, kannski. Ég veit ekki hvernig á að svara þessu. Ég segi bara að ég þoli ekki menn, sem segjast vera frjálshyggjumenn, en styðja svo íhaldsflokk.

Hvort er betra að vera frjálshyggjumaður, sem styður íhaldsflokk, eða frjálshyggjumaður, sem styður jafnaðarmannaflokk???

Pollstar

Ég var einhvern daginn að skoða Pollstar til að sjá hvaða tónleikum ég væri að missa af í Chicago meðan ég er hérna heima. Þau nöfn, sem ég man eftir eru: Korn, Rage Against the Machine, Korn, Beastie Boys, Roger Waters, Cypress Hill, Limp Bizkit, Eminem, Ice Cube, Dr. Dre, Wu-Tang Clan. Þetta er ekki gott mál

Bloggarar

Bloggið hjá Geir ber af. Enn ein snilldin birtist á síðunni í dag. Ég er sammála nær öllu, sem hann segir. Það eina, sem ég er ósammála er að ég vil einkavæða RÚV. Það eru reyndar engar hugmyndafræðilegar ástæður að baki.

Ég bý í Bandaríkjunum á veturna og er vanur því að hafa almennilega dagskrá. Þegar ég kom heim hefur mér bara blöskrað svo hvað dagskráin á RÚV er með eindæmum leiðinleg. Ef dagskráin væri almennileg þá væri ég sennilega sá fyrsti til að mótmæla öllu tali um einkavæðingu. Ég er bara ekki meiri hugsjónarmaður í þessu málefni.