Fyrir um ári var ég í sögulegri útilegu í Úthlíð og var þar tæklaður af vini mínum svo illilega að ég gat ekki hlaupið í marga mánuði. Um jólin fór ég í fótbolta með nokkrum strákum og var þá svo slappur að ég sagði við Margréti þegar ég kom heim að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Ég var vissulega í ágætis formi, enda hafði ég lyft reglulega, en það var alveg ljóst að hlaupaformið var orðið afleitt.
Janúarmánuður fór í að opna Serrano hérna í Stokkhólmi, en í byrjun febrúar byrjaði ég svo að hlaupa eftir prógrammi, sem að Margrét lét mig fá. Þetta er 13 vikna prógramm sem átti að undirbúa mann undir hálf maraþon. Ég byrjaði 4. febrúar og hljóp þá í 36 mínútur. 1 mínúta hlaup, 2 mínútur labb – 12 sinnum. Ég hljóp þetta á hlaupabretti og ætli ég hafi ekki farið um 3-4 kílómetra.
Prógrammið hélt svo áfram þrisvar í viku, alltaf blanda af labbi og skokki. Til að byrja með voru þetta vanalega 3-6 kílómetrar í hvert skipti. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé frá prógramminu. Ég fór í ferðalag til Frakklands í viku og svo fékk ég auðvitað heilablóðfall í lok mars. Síðasta hlaupið fyrir heilablóðfall var nokkrum dögum fyrir það og í kjölfarið tók ég mér um mánuð í frí samkvæmt læknisráði. Þegar ég byrjaði hins vegar aftur að hreyfa mig eftir heilablóðfallið þá var hlaup það fyrsta sem ég gerði, nokkru áður en ég byrjaði til að mynda að lyfta lóðum.
Það tók mig smá tíma eftir heilablóðfallið að ná fyrra þoli, en það hefur smám saman komið og ég hef smám saman farið að hlaupa vegalengdir sem ég hafði aldrei áður hlaupið. Áður en ég byrjaði á þessu prógrammi þá hef ég sennilega hlaupið mest einhverja 10 kílómetra á bretti, en síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum náð að bæta það og lengst hljóp ég einhverja 12,2 kílómetra í gríðarlegum hita. Síðustu vikur hafa hlaup uppá 6-8 kílómetra verið afskaplega létt.
Í dag var svo síðasti dagurinn á þessu plani og planið var einfalt: 21,1 kílómetri. Það mesta sem ég hef hlaupið hingað til var 12,2 kílómetrar þannig að ég var ekki alveg viss um að ég gæti þetta. Ég sagði því engum nema fólki sem var hér í matarboði í gær. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega, nema að ég borðaði talsvert meira af brauði í gær en ég geri vanalega. Í morgun vaknaði ég um 2 tímum fyrir hlaup, fékk mér að borða, hitaðið smá upp og byrjaði að hlaupa. Og þetta tókst.
Leiðin sem ég fór var mjög svipuð og er hlaupin í Stokkhólmsmaraþoninu (það er tveir hringir). Ég byrjaði reyndar hérna á Söder (vanalega er byrjað á Ólympíuleikvanginum), hljóp yfir Vesturbrúna yfir á Kungsholmen, þaðan niður í miðbæ, svo uppá Odengatan og Valhallarvägen. Þar eftir kemur sennilega leiðinlegasti kafli leiðarinnar þegar hlaupið er að Frihamnen og þaðan niður á Strandvägen á Östermalm. Strandvägen var svo frekar erfiður kafli leiðarinnar þar sem ég var kominn með slæman sting í bakið, auk þess sem þar var rosalega mikið af fólki, sem var að borða ís og njóta dagsins. Þaðan hljóp ég svo framhjá Konungshöllinni á Gamla Stan og þaðan aftur yfir á Slussen þar sem ég kláraði.
Tíminn: 1:51:56
Ég er nokkuð sáttur við það. Eina takmarkið hjá mér í þetta skiptið var að klára hlaupið og gera það helst á undir tveimur tímum. Það tókst. Það er aðeins verra að gera þetta einn. Maður hefur enga hvatningu og ég þurfti að halda á vatninu allan tímann. Auk þess þurfti ég stundum að bíða á rauðu ljósi, en það skipti ekki neinu svakalegu máli. Núna eru um tveir tímar síðan ég kom heim og ég er að sötra einhvern prótínsjeik og reyna að jafna mig í löppunum sem eru afskaplega þreyttar. Mér fannst aldrei reyna sérstaklega á lungun í hlaupinu, en þegar ég kom heim þá hóstaði ég mikið sem er búið að lagast núna. En það sem hefur verið að bögga mig fyrst og fremst í hlaupum að undanförnu hefur verið að lappirnar þreytast verulega. Það var þó ekki jafn mikið vandamál í dag og ég bjóst við.
Ég er afskaplega ánægður með þetta. Ég er dálítill nörd og ég verð að játa að það sem hefur haldið mér gangandi í gegnum þetta hefur verið að halda utanum árangurinn. Það að prenta út prógrammið og skrifa á það tíma og vegalengdir eftir hvert hlaup hefur hjálpað mér. Einnig er það að nota GPS tækið í iPhone-inum gríðarlega skemmtilegt þar sem maður hefur eitthvað til að keppa við. Ég er viss um að ég hefði ekki enst jafnlengi í þessu ef ekki hefði verið fyrir það. Einnig er Stokkhólmur alveg einstaklega falleg borg og hérna er alveg frábært að hlaupa. Hérna er endalaust af fallegum leiðum og það sem hjálpaði mér klárlega í dag var að ég var að hlaupa alveg nýja leið. Hafði t.a.m. aldrei hlaupið yfir Vesturbrúna, sem er algjörlega æðisleg.
Ég er sáttur.