Hálfmaraþon

Fyrir um ári var ég í sögulegri útilegu í Úthlíð og var þar tæklaður af vini mínum svo illilega að ég gat ekki hlaupið í marga mánuði. Um jólin fór ég í fótbolta með nokkrum strákum og var þá svo slappur að ég sagði við Margréti þegar ég kom heim að ég yrði eitthvað að gera í málinu. Ég var vissulega í ágætis formi, enda hafði ég lyft reglulega, en það var alveg ljóst að hlaupaformið var orðið afleitt.

Janúarmánuður fór í að opna Serrano hérna í Stokkhólmi, en í byrjun febrúar byrjaði ég svo að hlaupa eftir prógrammi, sem að Margrét lét mig fá. Þetta er 13 vikna prógramm sem átti að undirbúa mann undir hálf maraþon. Ég byrjaði 4. febrúar og hljóp þá í 36 mínútur. 1 mínúta hlaup, 2 mínútur labb – 12 sinnum. Ég hljóp þetta á hlaupabretti og ætli ég hafi ekki farið um 3-4 kílómetra.

Prógrammið hélt svo áfram þrisvar í viku, alltaf blanda af labbi og skokki. Til að byrja með voru þetta vanalega 3-6 kílómetrar í hvert skipti. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé frá prógramminu. Ég fór í ferðalag til Frakklands í viku og svo fékk ég auðvitað heilablóðfall í lok mars. Síðasta hlaupið fyrir heilablóðfall var nokkrum dögum fyrir það og í kjölfarið tók ég mér um mánuð í frí samkvæmt læknisráði. Þegar ég byrjaði hins vegar aftur að hreyfa mig eftir heilablóðfallið þá var hlaup það fyrsta sem ég gerði, nokkru áður en ég byrjaði til að mynda að lyfta lóðum.

Það tók mig smá tíma eftir heilablóðfallið að ná fyrra þoli, en það hefur smám saman komið og ég hef smám saman farið að hlaupa vegalengdir sem ég hafði aldrei áður hlaupið. Áður en ég byrjaði á þessu prógrammi þá hef ég sennilega hlaupið mest einhverja 10 kílómetra á bretti, en síðustu vikur hef ég nokkrum sinnum náð að bæta það og lengst hljóp ég einhverja 12,2 kílómetra í gríðarlegum hita. Síðustu vikur hafa hlaup uppá 6-8 kílómetra verið afskaplega létt.

Í dag var svo síðasti dagurinn á þessu plani og planið var einfalt: 21,1 kílómetri. Það mesta sem ég hef hlaupið hingað til var 12,2 kílómetrar þannig að ég var ekki alveg viss um að ég gæti þetta. Ég sagði því engum nema fólki sem var hér í matarboði í gær. Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega, nema að ég borðaði talsvert meira af brauði í gær en ég geri vanalega. Í morgun vaknaði ég um 2 tímum fyrir hlaup, fékk mér að borða, hitaðið smá upp og byrjaði að hlaupa. Og þetta tókst.

half-marathon

Sjá kort hér á Google Maps.

Leiðin sem ég fór var mjög svipuð og er hlaupin í Stokkhólmsmaraþoninu (það er tveir hringir). Ég byrjaði reyndar hérna á Söder (vanalega er byrjað á Ólympíuleikvanginum), hljóp yfir Vesturbrúna yfir á Kungsholmen, þaðan niður í miðbæ, svo uppá Odengatan og Valhallarvägen. Þar eftir kemur sennilega leiðinlegasti kafli leiðarinnar þegar hlaupið er að Frihamnen og þaðan niður á Strandvägen á Östermalm. Strandvägen var svo frekar erfiður kafli leiðarinnar þar sem ég var kominn með slæman sting í bakið, auk þess sem þar var rosalega mikið af fólki, sem var að borða ís og njóta dagsins. Þaðan hljóp ég svo framhjá Konungshöllinni á Gamla Stan og þaðan aftur yfir á Slussen þar sem ég kláraði.

Tíminn: 1:51:56

Ég er nokkuð sáttur við það. Eina takmarkið hjá mér í þetta skiptið var að klára hlaupið og gera það helst á undir tveimur tímum. Það tókst. Það er aðeins verra að gera þetta einn. Maður hefur enga hvatningu og ég þurfti að halda á vatninu allan tímann. Auk þess þurfti ég stundum að bíða á rauðu ljósi, en það skipti ekki neinu svakalegu máli. Núna eru um tveir tímar síðan ég kom heim og ég er að sötra einhvern prótínsjeik og reyna að jafna mig í löppunum sem eru afskaplega þreyttar. Mér fannst aldrei reyna sérstaklega á lungun í hlaupinu, en þegar ég kom heim þá hóstaði ég mikið sem er búið að lagast núna. En það sem hefur verið að bögga mig fyrst og fremst í hlaupum að undanförnu hefur verið að lappirnar þreytast verulega. Það var þó ekki jafn mikið vandamál í dag og ég bjóst við.

Ég er afskaplega ánægður með þetta. Ég er dálítill nörd og ég verð að játa að það sem hefur haldið mér gangandi í gegnum þetta hefur verið að halda utanum árangurinn. Það að prenta út prógrammið og skrifa á það tíma og vegalengdir eftir hvert hlaup hefur hjálpað mér. Einnig er það að nota GPS tækið í iPhone-inum gríðarlega skemmtilegt þar sem maður hefur eitthvað til að keppa við. Ég er viss um að ég hefði ekki enst jafnlengi í þessu ef ekki hefði verið fyrir það. Einnig er Stokkhólmur alveg einstaklega falleg borg og hérna er alveg frábært að hlaupa. Hérna er endalaust af fallegum leiðum og það sem hjálpaði mér klárlega í dag var að ég var að hlaupa alveg nýja leið. Hafði t.a.m. aldrei hlaupið yfir Vesturbrúna, sem er algjörlega æðisleg.

Ég er sáttur.

ESB hringavitleysa

Stundum fallast mér hreinlega hendur þegar að kemur að málefnum tengdum ESB á Íslandi.

Síðan ég man eftir mér hefur vart mátt tala um ESB umsókn. Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar hafi viljað sækja um aðild, þá hafa stjórnmálaflokkarnir ekki geta klárað þetta mál og aldrei komið til greina að hlusta á almenning. Núna þegar allt er hrunið og við kjósum til þings og flokkar, sem vilja ESB aðild, ná meirihluta á þingi, þá virðist lausn andstæðinga aðildar vera sú að halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Til að tefja það enn frekar.

Bjarni Benediktsson hlýtur að fara að setja eitthvað met í fjölda skoðanna á ESB aðild. Hann vildi sækja um aðild í [desember](http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item241823/), svo vildi hann ekki sækja um aðild eftir landsfund og fyrir kosningar, en núna vill hann halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hver ætli skoðun hans verði á morgun? Það verður spennandi að sjá.

Þvílík vitleysa.

Hitabylgja

Hér í Stokkhólmi er heitt. Og hérna hefur fullt skemmtilegt gerst síðustu daga.

  • Við skrifuðum á föstudaginn undir samning um leigu fyrir Serrano stað númer tvö í Svíþjóð. Sá staður er í nýrri byggingu í Sundbyberg, sem er úthverfi Stokkhólms – þó talsvert nær miðbænum heldur en staðurinn í Vallingby. Þetta verður stór og flottur staður, sem við stefnum á að opna í síðasta lagi í janúar á næsta ári. Staðurinn er í nýrri skrifstofubyggingu, sem liggur við lestarstöðina sem er bæði neðanjarðarlestarstöð (T-Bana) og almenn lestarstöð (pendeltåg), þannig að þarna er líf og fjör.
  • Ég var að skipta um skrifstofu. Ég þurfti að leita í talsverðan tíma eftir að hafa misst skrifstofu rétt hjá Östermalmstorg. Ég er núna að leigja með öðru fyrirtæki á Drottninggatan, sem er í miðbæ Stokkhólms. Frábær staðsetning með fullt af skemmtilegum veitingastöðum og slíku í kring. Eini gallinn er að skrifstofan er svo heit þessa dagana að þar er varla líft eftir hádegi.

    Því þarf ég vanalega að koma heim tiltölulega snemma, skipta úr vinnugallanum yfir í stuttbuxur og klára vinnuna svo heima í eldhúsi þar sem hitinn er aðeins minni.

    Það er ágætt að hafa svona hita í útlöndum þegar maður er að ferðast, en þegar maður vill vera sæmilega klæddur í vinnunni útaf fundarhöldum og slíku þá getur þetta verið aðeins erfitt.

  • Hérna heima er íbúðin að komast í lag eftir að við vorum með iðnaðarmenn að klára nokkra hluti. Við fáum víst teppi á svefnherbergið á morgun og eftir það þá er þetta farið að líta helvíti vel út.
  • Margrét er svo í fríi um helgina. Það verður ábyggilega gaman.

Jæja – ég er orðinn sveittur á því að sitja fyrir framan tölvuna, ég ætla að drífa mig út að hlaupa.

Hæ,

Ég hef afskaplega lítið að segja. Það eina sem ég hef skrifað undanfarið utan vinnu eru einhver skilaboð á Facebook til vina minna og svo nokkuð löng grein um vinstri menn og Ísrael, sem mun birtast í næsta eintaki af Herðubreið.

Hvað þetta blogg varðar, þá get ég lítið gert nema að biðjast velvirðingar á því hversu slappt það er þessa dagana. Einsog svo oft áður, þá verða gæði (og umfang) þessa bloggs þeim mun minni því betur sem mér líður.

Í dag er ég ótrúlega hamingjusamur. Ég hef mikið að gera, veðrið er æðislegt og lífið er skemmtilegt. Og því fækkar bloggfærslunum.

* * *

Um síðustu helgi átti ég enn eina frábæra sumar-helgi. Þessar helgar í júlí mánuði voru allar með tölu fáránlega skemmtilegar. Ég man hreinlega ekki eftir að hafa upplifað skemmtilegri mánuð á Íslandi. Að minnsta kosti hefur það ekki gerst í mörg ár. Það er hreinlega fáránlegt að bera saman júlí mánuð í ár við júlí mánuð í fyrra og hitteðfyrra, sem voru báðir hálf ömurlegir.

Um næstu helgi er ég svo á leið á Þjóðhátíð með einstaklega skemmtilegu fólki og ég er orðinn verulega spenntur.

* * *

Allavegana, þessi færsla var aðallega til að losa mig við samviskubit yfir því hversu lélegur bloggari ég er þessa dagana. Njótið sumarsins á þessum fáu góðviðrisdögum á Íslandi – ég er farinn út að borða.

Myndir frá Sýrlandi – Fyrri hluti

Ég er búinn að setja inn fyrri hlutann af myndum frá Sýrlandi. Ég reyndi að takmarka fjöldann sem ég setti þetta inn, svo þetta væri sæmilega áhugavert.

Hérna er albúmið og hérna er hægt að horfa á þetta sem slide show.

Þarna er ég með Fatimah, sýrlenskri stelpu uppá virkinu í Aleppo í norður-hluta Sýrlands

Í þessum albúmum eru myndir frá Aleppo, Apamea, Krak des Chevaliers, Rasafa, Efrat ánni og einhverju fleira. Hérna eru ferðasögurnar, sem að þessar myndir eiga við: Guði sé lof fyrir Nescafé og Sýrland.

iPhone 2.0

Ég er búinn að uppfæra iPhone símann minn í kerfi 2.0. Þökk sé Tobba, sem hafði þolinmæði í að ganga í gegnum hvert skref með mér í uppfærslunni. Þetta var ekki svo flókið, en þó festist ég alltaf í sama hlutanum.

Þessi uppfærsla breytir ansi miklu. Fyrrir það fyrsta, þá uppfærast dagatöl og kontaktar nú sjálfkrafa á milli tækjanna minna. Ég vinn á Macbook Pro fartölvu í vinnunni, á iMac borðtölvu heima og svo á iPhone þegar ég er á ferðinni. Núna uppfærast þessir hlutir á milli tækjanna sjálfkrafa, sem er gríðarlega þægilegt. Um leið og ég skrái einhvern atburð á dagatalið í símanum mínum, þá uppfærist dagatalið í tölvunum mínum sjálfkrafa.

(svona lítur síminn út eftir uppfærsluna)

Í öðru lagi, þá býður 2.0 kerfið uppá að maður geti keypt sér forrit í símann. Ég er strax búinn að setja inn nokkur skemmtileg forrit. Fyrst var auðvitað OmniFocus, sem að gerir mér kleift að sync-a OmniFocus listana mína á milli tölva og símans. OmniFocus á iPhone er einnig ótrúlega sniðugt því það veit hvar ég er stadur. Þannig að þegar ég er á skrifstofunni minni, þá veit forritið (af því að ég er búinn að kenna því hvar ég er) hvaða hluti ég á að gera þar. Þetta er nánast ólýsanlega þægilegt.

Auk OmniFocus sett ég inn Texas Hold Em póker leik frá Apple, sem er snilld og svo minni forrit einsog Remote frá Apple, sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í tölvunni úr símanum og svo forrit fyrir Twitter og Facebook.

* * *

Helgin var algjörlega frábær. Fór útað borða á æðislegum stað, fór í sund í sólinni, borðaði ís, grillaði með vinum mínum, fór í frábært partí og á djammið, borðaði þynnkumat með vinum og eitthvað fleira. Þessi júlí mánuður er búinn að vera svo fáránlega skemmtilegur að það er með hreinum ólíkindum. Ég er búinn að setja nokkrar myndir frá helginni inn á Facebook.

* * *

Af fimm vinsælustu fréttunum á mbl.is, þá fjallar ein um Jessicu Simpson, önnur um stolið hjólhýsi og sú þriðja um Mercedes Club. Ég veit ekki hvort mér finnst þetta fyndið eða sorglegt.

* * *

Ég verð að játa að ég er alvarlega að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Mín EOS 20D er orðin fjögurra ára gömul og þótt að hún sé vissulega enn frábær vél, þá fæ ég samt smá græjulosta við að skoða nýjustu Nikon vélarnar, hvort sem það er D300 eða D700. Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við mína vél er hversu illa hún höndlar það að taka myndir í lítilli birtu. Það virðist vera einn af helstu kostunum við Nikon vélarnar hversu vel þær glíma við litla birtu.

Ég hef alltaf notað Canon, en er svo sem ekki fastur í mikilli fjárfestingu í því merki. Á ekkert flass og eina linsan sem ég á aukalega er 50mm linsa. Svo er ég á leið til Bandaíkjanna í ágúst og það gæti verið kjörið tækifæri fyrir slík græjukaup.

Hefur einhver reynslu af þessum Nikon vélum og veit hvernig þær eru miðað við mína vél?