Ágúst Flygering minntist aðeins á grein, sem James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna skrifaði í New York Times um helgina undir heitinu The Right Way to Change a Regime.
Í greininni gagnrýnir Baker þá áætlun GWB að ráðast inní Írak án þess að leita eftir stuðningi fleiri landa. Baker telur nauðsynlegt að fá stuðning Sameinuðu Þjóðanna en ekki bara Ísraels og Bretlands. Hann hvetur Bush til að fá SÞ til að setja Saddam Hussein úrslitakosti. Annað hvort leyfi Saddam vopnaeftirlitsmönnum inní landið án skilyrða eða ráðist verður á Írak. Ef að Saddam leyfir vopnaeftirlit í orði en ekki á borði, þá verði strax gripið til aðgerða.
Þrátt fyrir að þetta sé ekki fullkomið plan hjá Baker, þá er svo sannarlega meira vit í þessu heldur en því að láta Bandaríkjamenn ráðast eina inní landið. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn hafa nægan hernaðarstyrk til að fara í þessa aðgerð einir en þeir verða að brjóta odd af oflæti sínu og leita eftir stuðningi hjá öðrum þjóðum. Annars munu þeir einangrast enn frekar í alþjóðlegum samskiptum.