Ég tók mig til og gerði lista yfir uppáhaldsplöturnar mínar. Hef stundum spáð í þessu, þar sem þetta hefur breyst umtalsvert að unfandörnu, sérstaklega eftir að ég uppgötvaði Dylan. Hann setti eiginlega allt kerfið í köku.
Allavegana, ég ákvað að setja saman 10 uppáhaldsplöturnar mínar. Ég fylgdi tveim reglum í valinu:
* Aðeins ein plata með hverjum flytjanda.
* Horfði aðallega á plötur, sem höfðu breytt einhverju í lífi mínu, eða hafa verið “uppáhaldsplatan mín” á einhverjum tíma.
Jæja, ég vona að þessi listi eigi eftir að breytast oft og mörgum sinnum á minni ævi, því ég er vonandi rétt að byrja að uppgötva góða tónlist.
-
Blonde on Blonde – Bob Dylan. Ég einfaldlega veit ekki um betri plötu. Ég hef reynt að fara í gegnum stóran hluta af Dylan safninu, en alltaf leita ég aftur í Blonde on Blonde. Blood on the Tracks kæmist reyndar líka inná topp 10 hjá mér, en það er eitthvað extra á Blonde on Blonde. Reyndar eru lögin ekki öll fullkmin. Mér finnst Rainy Day Women til dæmis ekkert sérstakt. En það er bara svo einfalt að á þessari plötu eru nokkur af bestu lögum allra tíma. Visions of Johanna, One of us must know, I want you, Stuck inside of Mobile, Just like a woman og Sad Eyed Lady of the Lowlands.
Þetta kemst ansi nálægt því að vera hin fullkomna plata og þrátt fyrir gríðarlega hlustun, þá fæ ég ekki ógeð. Eftir viku hlé er mig farið að langa til að setja hana aftur á. Dylan er snillingur og að uppgötva hann hefur breytt lífi mínu. Ég veit ekki hvað ég var að spá öll þessi ár, sem ég hlustaði ekki á hann. Besta lag: One of Us Must Know (Sooner or Later)
- Pink Floyd – Dark Side of the Moon. Ég hef verið Pink Floyd aðdáandi í um 10 ár, allt frá því að einhver strákur talaði ekki um annað en Pink Floyd í einhverri AFS útilegu. Ég varð svo forvitinn að ég keypti mér Dark Side of the Moon. Og ég varð strax heltekinn. Ég á allar plöturnar og The Wall, Wish you were here, Meddle og fleiri eru allar á meðal minna uppáhaldsplatna. Dark Side of the Moon er samt sú besta að mínu mati, aðeins betri en Wish you were here. Lokalögin tvö, Brain Damage og Eclipse gera það að verkum. Besti endir á plötu í sögunni. Besta lag: Time
- Radiohead – OK Computer. Ótrúleg plata, sem ég keypti mér útí Mexíkó. Hafði aldrei fílað The Bends sérstaklega (þangað til að ég byrjaði að hlusta á hana aftur fyrir nokkrum árum – og þá uppgötvaði ég snilldina). En OK Computer er einfaldlega besta hljómplata síðustu 10 ára. Besta lag: Paranoid Android
- The Smashing Pumpkins – Mellon Colllie and the Infinite Sadness – Þegar ég var í Verzló spilaði ég Bullet with Butterfly wings í hverju einasta partíi og hlaut sennilega gríðarlega vinsældir fyrir. Ég held að ég hafi keypt mér þessa plötu þrisvar vegna þess að ég ferðaðist svo mikið með fyrri eintökin og rispaði þau svo illa. Algjört meistarastykki. Besta lag: Tonight Tonight
- Jeff Buckley – Grace. Ein fyrrverandi kærastan mín gaf mér þessa plötu þegar við skildum. Þess vegna hefur þessi plata alltaf haft sérstaka merkingu í mínum huga. Buckley er ótrúlegur á þessari plötu. Ef einhverjir hafa ekki hlustað á hana, þá mæli ég með því að þeir sömu stökkvi útí búð núna. Besta lag: Last Goodbye
- U2 – The Joshua Tree – Einu sinni þótti mér töff að tala illa um U2. En ég hef vaxið uppúr því. The Joshua Tree er einfaldlega æði. Besta lag: Red Hill Mining Town
- Oasis – (What’s the story) Morning Glory? Jólin 95 fékk ég tvær plötur í jólagjöf. Önnur var The Great Escape með Blur og hin var What’s the Story með Oasis. Ég dýrkaði þær báðar á þeim tíma, en með árunum hefur Oasis platan elst betur. Besta lag: Champagne Supernova og Wonderwall
- Beck – Sea Change. Besta plata Beck og sú, sem kallar fram mestar tilfinningar hjá mér. Besta lag: Golden Age
- The Chronic – Dr. Dre. Einu sinni var ég bjáni, sem hélt að allt Hip-Hop væri drasl. Þökk sé Kristjáni vini mínum þá hef ég vaxið uppúr því. Chronic er einfaldlega besta hip-hop plata allra tíma. Punktur. Besta lag: Wit Dre Day (And Everybody’s Celebratin)
- Weezer – Weezer – Mig minnir að það hafi verið Gunni vinur minn, sem sannfærði mig áður en ég fór til Venezuela að gefa Weezer sjens. Ég keypti mér hana því og tók með út. Platan er með ólíkindum góð. Öll lögin nánast jafnsterk. Besta lag: Only in Dreams.
Þessar plötur voru næst því að komast inn:
Neil Young – Harvest, Blood on the Tracks – Bob Dylan, Pet Sounds – Beach Boys, The Beatles – Abbey Road, Rage against the machine – Rage against the machine, Guns ‘N Roses – Appetite for Destruction, Pink Floyd – Wish you were here, The Streets – A Grand don’t come for free, The Beatles – Sgt. Pepper’s Lynyrd Skynyrd – Pronounced Leh-Nerd Skin-Nerd, Maus – Lof mér að falla að þínu eyra, Sigur Rós – Ágætis Byrjun, Nirvana – Nevermind, De La Soul – 3 feet high and rising, Beastie Boys – Ill Communication
Svona lítur þetta semsagt út. Held að þetta sé ágætt fyrir daginn í dag. Ykkur er velkomið að hneykslast eða dást að tónlistarsmekk mínum 🙂
ég hef aldrei náð að hlusta á dylan af eitthverju ráði, en miðað við rest er þetta allt mjög góðir diskar.
Á ekki að skella sér á dúndurfréttir og horfa á pink floyd og zepplin í stemmara sem á sér engan líkan ?
Kúl listi, mig grunaði einhverra hluta vegna að Dylan væri orðinn #1 hjá þér … nóg talarðu um tónlistina hans á þessari síðu. 😉
Finnst einnig gaman hvernig þú nærð að kóvera rosalega vítt svið – tímalega séð – á aðeins 10 plötum. Blonde on Blonde er elsta platan, örugglega hátt í 40 ára gömul núna, og Sea Change sú yngsta, aðeins þriggja ára. Gaman að sjá svona breiðan hóp af áhrifavöldum … minn listi yrði sennilega öllu yngri en þinn. 🙂
Þessi listi er alveg ótrúlega góður, helmingurinn af þessum plötum eru bókað á topp 10 hjá mér og ég held að Blonde on Blonde hljóti að vera uppáhalds platan mín.
Það er dálítið fyndið að þú skulir tala um að það hafi breytt lífi þínu að uppgötva Dylan því það nákvæmlega sama kom fyrir mig fyrir tveimur árum síðan og mér leið eins hálfvita að hafa ekki kveikt á þessu áður. Síðan þá hef ég verið að sanka að mér Dylan plötum en Blonde on Blonde stendur alltaf upp úr og Sad Eyed Lady of the Lowlands er uppáhalds lagið mitt… ég held það hljóti að vera fallegasta lag í heimi 🙂
ánægður með að sjá Beck þarna inni, ótrúlega sterk plata. Kallar vissulega fram sterkar tilfinningar. Mæli einnig með að þú kynnir þér meistara Bonnie ‘Prince’ Billy og þá helst I see a Darkness.
flottur listi. ég er ánægð með nokkrar þarna.. u2, beck, radiohead. þær væru líklega líka á mínum lista. mér finnst samt vanta að þú finnir þér einhverja góða söngkonu að hlusta á 😉 er engin í uppáhaldi?
Ég er ekki ennþá vaxinn uppúr því að tala illa um U2.
Glæsilegur listi – 🙂 Getur maður ekki fengið tölvuna þína lánaða til að “óvart” bæta því sem mann vantar inn á sína tölvu…. :biggrin:
Gaman að heyra að Dylan hafi haft sömu áhrif á þig, Kristín. Sad Eyed Lady of the Lowlands er sennilega eitt af mínum uppáhaldslögum með Dylan, ásamt Sooner or Later.
Gunnar, ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt um þennan gaur. Kíki kannski á þetta.
Og Halli, þetta kemur. Hlustaðu svona 2-3svar á Joshua Tree. 🙂
Og Heidi, nei það er engin sérstaklega mikið í uppáhaldi. Hef hlustað talsvert á Björk, PJ Harvey, Dusty Springfield, Carole King og fleiri, en á mér samt ekkert sérstakt uppáhald.
Ætli Dusty in Memphis, Tapestry með Carole King og Post með Björk væru ekki söngkonu-plöturnar, sem væru næst því að komast á listann.
Og Majae, þú ættir að gefa Dylan sjens. Byrjaðu á Blood on the Tracks. Ég skal *lofa* þér að ef þú gefur þeirri plötu sjens og rennir henni í gegn svona 10 sinnum að þú munt aldrei horfa tilbaka 🙂
Og Kristján Atli, það kom mér reyndar pínku á óvart hversu ungur þessi listi minn er. Í raun eru einu plöturnar, sem eru fyrir minn tíma Blonde on Blonde og Dark Side of the Moon.
Hinar er ég allar að uppgötva stuttu eftir að þær koma út alveg frá táningsárum mínum. Chronic er þar undantekning, en hana uppgötvaði ég mörgum árum eftir að hún kom út.
Jamm… þegar ég tengdi almennilega við Dylan þá gjörbreytist diskasafnið mitt. Ég mun væntanlega halda áfram að sanka að mér Dylan diskum í einhvern tíma þar sem þeir eru ekki beint fáir.
Ég verð að taka undir með þér með Blonde on Blonde… ég hvíli hana með vissu millibili en maður snýr sér alltaf fljótlega að henni aftur og finnst snilldin alltaf eins mikið. Ég held ég hafi hlustað svona þúsund sinnum á Visions of Johanna.
Þetta er annars mjög góður listi hjá þér, þ.e. af því sem ég þekki. Hef ekki ennþá komist almennilega inn í Beck en það stendur þó alltaf til. Mælir þú með því að maður byrji á Sea Change eða…?
Strumpakveðjur 🙂
Jamm, ég mæli með Sea Change sem góðri byrjun. Rolling Stone kölluðu hana hans “Blood on the Tracks”. Hann samdi plötuna eftir að hann var nýhættur með kærustunni og það er mjög áberandi á plötunni.
Hún er öll í rólegri kantinum og með kántrí áhrifum. Persónulega finnst mér Beck miklu betri þannig, heldur en þegar hann er í partý fílingnum.
>”Og Kristján Atli, það kom mér reyndar pínku á óvart hversu ungur þessi listi minn er. Í raun eru einu plöturnar, sem eru fyrir minn tíma Blonde on Blonde og Dark Side of the Moon.”
Þú ert þó með tvær á listanum sem komu út fyrir þinn tíma! Ég elska Dark Side og hinar eldri, klassísku plöturnar, en þær eru bara einfaldlega ekki í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og þær sem ég hef fylgst með frá byrjun, upplifað og dýrkað frá því að þær komu út. Ég held það sé þannig með flesta, að tónlist hvers tíma skilgreini þá kynslóð og því sé eðlilegt að maður nái betra sambandi við plötur síns tíma.
Hugsa að það væri engin plata eldri en ’94 á mínum lista, ef ég myndi gera einn slíkan núna. Sem þýðir ekki að ég hlusti ekki á helling af eldra efni, heldur einfaldlega það að ég byrjaði ekki að “upplifa” tónlist fyrr en Nirvana komu fram á sjónarsviðið, og því hefur tónlist gefin út eftir þann tíma miklu meiri merkingu fyrir mér persónulega…
En hvernig er þá með Desire plötuna hans Bob Dylan? Hún er ein þessara gersema “sem breytti lífi mínu”. 🙂
Jamm, en ég ætlaði mér bara að velja eina plötu með hverjum flytjanda.
Ef ég ætti að velja aðra Dylan plötu, þá yrði það ábyggilega Blood on the Tracks. Svo Freewheelin’ og Highway 61. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekki hlustað nema svona 6-7 sinnum á Desire. Hún er frábær.