Augl

Ég lýsi því hér með yfir að “heimsborgara” herferðin hjá Iceland Express er gargandi snilld. Ég brosi ennþá að auglýsingum, sem ég hef séð a.m.k. 20 sinnum í HM glápinu mínu.


Af gefnu tilefni vil ég benda á grein, sem ég skrifaði fyrir einu ári: [Leiðinlegasta sumarveður í heimi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41/). Þessi grein á vel við þessa dagana. Ég held að það séu engin takmörk fyrir því hversu ömurlega hryllilegt veðrið er á þessu landi. Ég hata íslenskt veðurfar. HATA ÞAÐ!

Roger Waters í Egilshöll

Jæja, tónleikarnir í gærkvöld voru verulega góðir. Ég fór með [Jens](http://jenssigurdsson.com/) vini mínum og skemmtum við okkur vel. Prógrammið var ekki ósvipað því, sem ég sá í Texas fyrir nokkrum árum, þó með nokkrum skemmtilegum breytingum.

Fyrir það fyrsta var stórt tjald fyrir aftan hljómsveitina, sem var nýtt nokkuð vel með myndefni. Til dæmis kom Perfect Sense vel út með myndband í bakgrunni. Prógrammið var nokkuð svipað og í Texas fyrir utan að Waters tók auðvitað alla Dark Side of the Moon. Svo tók hann líka nýlegt (á mælikvarða Waters) lag, Leaving Beirut þar sem hann notaði líka skjáinn vel til að segja sögu.

Hápunktarnir voru líka svipaðir og síðast. Perfect Sense var frábært og svo var lokakaflinn í Dark Side verulega flottur. Við vorum nokkuð nálægt sviðinu og ég man ekki eftir að hafa upplifað betra hljóð í Egilshöll. Upplifunin mín var þó nokkuð öðruvísi en í Houston fyrir 6 árum. Að vissu leyti vegna þess að ég hef ekki hlustað svo mikið á Pink Floyd efni undanfarin ár. Þegar ég fór á tónleikana í Texas, þá var ég á tímabili þar sem ég hlustaði gríðarlega mikið á Pink Floyd og Waters og öll lögin virtust fersk. Núna hafði hins vegar liðið langur tími síðan ég hafði síðast hlustað á efnið. Var m.a.s. búinn að gleyma textanum að Set the controls… En þetta virkaði sem frábær upprifjun og ég er ekki frá því að það hafi kviknað í mér Pink Floyd áhugi aftur.


Fluginu til Osló hefur verið seinkað og því sit ég núna inná Saga Lounge í Keflavík. Það gerir biðina eftir flugina svo sannarlega bærilegri.

Waters

Jæja, þá eru bara 11 tímar í Roger Waters tónleikana. Ég er orðinn verulega spenntur.

Ég hef einu sinni áður séð Waters á tónleikum. Það var í [Houston árið 2000](https://www.eoe.is/gamalt/2000/06/11/21.41.13/). Þeir tónleikar voru frábærir og eru ásamt Radiohead í Chicago sennilega bestu tónleikar, sem ég hef [farið á](https://www.eoe.is/gamalt/2003/11/06/23.18.29).

Ég hef talsvert lengi verið aðdáandi Pink Floyd og er líka mjög hrifinn af sólóverkum Waters. Það er alltaf draumur minn að sjá þá saman. Það vantar mikið uppá þegar að Gilmour er ekki með til að syngja lög einsog Wish you were here, því hann er talsvert betri söngvari en Waters.

Á tónleikunum í Texas tók hann bara 4 lög af Dark Side of the Moon (Time, Money og síðustu tvö lögin). Núna ætlar hann að taka alla plötuna, sem verður örugglega frábært. Get ekki beðið eftir því að fá gæsahúð við að hlusta á Eclipse. Á morgun flýg ég svo til Osló á fund.

GWB

Þetta er [ótrúlegt](http://onegoodmove.org/1gm/1gmarchive/2006/06/sunday_bloody_s_1.html).


Ef þú veist ekki hvað þú átt að gera við peningana þína, þá er [þetta](http://www.giveusallyourmoney.com/) sniðugt.

LOWEST ENERGY PRICES!!

Þetta er [gríðarlega hressandi](http://64.233.161.104/search?q=cache:FrskP6XfKRkJ:www.alcoa.com/brazil/en/news/whats_new/2005_10_06.asp%253FinitSection%253D1000%2B&hl=is&gl=is&ct=clnk&cd=1&client=firefox-a)!:

Þetta er tekið úr viðtali við forsvarsmann Alcoa í Brasilíu

>But the agreed price — 30 dollars per megawatt-hour — was far from ideal. In Iceland, the company pays half that.

Semsagt, Alcoa borgar helmingi hærra verð fyrir orku í Brasilíu en á Íslandi. Skál fyrir því.

(og þeir borga líka 8 sinnum minna en við Íslendingar borgum fyrir okkar eigin rafmagn)

[via](http://www.malbein.net/pallasgeir/?p=149) (greinininni var eytt útaf neti Alcoa, en Google á [afrit](http://64.233.161.104/search?q=cache:FrskP6XfKRkJ:www.alcoa.com/brazil/en/news/whats_new/2005_10_06.asp%253FinitSection%253D1000%2B&hl=is&gl=is&ct=clnk&cd=1&client=firefox-a).

Helgin

Ja hérna, Halldór [hættur](http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1205686) sem forsætisráðherra!


Helgin er búin að vera verulega góð – eða allavegana kvöldin. Fór útað borða með kærustunni og svo á smá pöbbarölt á föstudaginn og á laugardag fór ég í giftingu til vina minna. Drakk slatta af léttvíni og bjór, en gerði engan skandal, hélt engar ræður og hegðaði mér almennt séð nokkuð vel. Sem er framför frá fyrri brúðkaupum. Kannski hefur kærastan mín þessi áhrif á mig. Eða kannski er ég bara að þroskast.


Horfði á Bachelorette, sem er stórkostleg skemmtun. Annað eins samansafn af örvæntingarfullum karlmönnum er vanfundið. Einhvern veginn er það búið að stimpla inní hausinn á karlmönnum að konur þrái ekkert meira en karlmann, sem vill binda sig niður og eignast 5 börn. Allavegana þurftu flestir strákarnir að koma því að á fyrstu 5 mínútunum að þeir væru tilbúnir í fjölskyldu.

Einn af strákunum er 29 ára og **hreinn sveinn** af því að hann er að bíða framtil brúðkaups. Ég get skilið margt, en þessi ákvörðun er ekki eitt af því, sem ég get skilið.


5 dagar í HM og vika í Roger Waters. Það er gott mál.

Band of Horses

444.jpgÉg hef það fyrir reglu að hlusta alltaf þegar Gunni vinur minn mælir með tónlist. Fyrir einhverjum vikum mældi hann með [Band of Horses](http://www.bandofhorses.com) við mig. Hef rétt núna undanfarnar vikur getað gefið mér tíma til að hlusta á frumraun þessarar sveitar, sem heitir [Everything All the Time](http://www.metacritic.com/music/artists/bandofhorses/everythingallthetime?q=band%20of%20horses).

Einsog mátti kannski vænta, þá heillaði hún mig ekki við fyrstu hlustanir. En núna er hún búin að rúlla 10 sinnum í gegn og ég er gjörsamlega heillaður. Þetta er án efa besta platan, sem hefur verið gefin út á þessu ári. Flaming Lips, The Strokes, David Gilmour og Streets voru vonbrigði, svo ég var að bíða eftir einhverri virkilegra góðri plötu. Og hún er komin. Eina platan, sem kemst nálægt þessari plötu á árinu 2006 er Return to the Sea með Islands.

Band of Horses, allir!!!

Besta lagið: The Funeral.

* * *

Já, og svo er DaVinci Code myndin alls ekki svo slæm. Og Red Hot Chili Peppers platan hljómar vel. Dani California er æðisleg smáskífa og ég held að þarna sé slatti af góðum lögum.

Lögin í spilun fyrir utan Band of Horses

Dani California – Red Hot Chili Peppers
Not Ready to make nice – Dixie Chicks
Song to Say Goodbye – Placebo
Chasing Cars – Snow Patrol
I will see you in far-off places – Morrissey
Never went to church – The Streets