Rangfærslur

Stjórnarformaður KB-Banka [segir](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1191139):

>Kaupþing banki hefur aldrei verið sterkari en nú, og eina hættan sem að honum steðjar og hann hafi ekki verið viðbúinn eru rangfærslur eða misskilningur á bankanum sem skjóta upp kollinum aftur og aftur. Þetta sagði Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, m.a. í ræðu sinni á aðalfundi bankans sem haldinn var í dag.

Mikið væri ég til í að eiga fyrirtæki, þar sem að “eina raunverulega hættan” gagnvart rekstri er sú að fólk útí bæ misskilji fréttir af rekstrinum. Það hlýtur að vera ljúft.

Ferð til Barca og Liverpool

Ég fór í stutta ferð til Barcelona og Liverpool í síðustu viku. Upphaflega tilefnið var boð Chupa Chups, sem er fyrirtæki sem ég sé um að markaðssetja vörur fyrir hér á Íslandi. Árið 2005 var metár í sölu á Chupa og Smint á Íslandi og í tilefni þess var mér ásamt tveim öðrum frá fyrirtækinu mínu boðið í ferð til Barcelona.

Við eyddum þriðjudeginum í Barcelona á fundum og í ferðum um verksmiðjur í nágrenni borgarinnar. Aðalmálið var þó leikur Barcelona og Chelsea á þriðjudagskvöldinu.

Hótelið okkar var um hálftíma labb frá Nou Camp og lögðum við því af stað tveim tímum fyrir leik og löbbuðum að vellinum, stoppandi í bjór á leiðinni. Um klukkutíma fyrir leik var ég svo kominn að vellinum. Ég hef farið 3-4 sinnum á Nou Camp, en þá alltaf á leiki í spænsku deildinni. Ég var verulega spenntur fyrir Chelsea leiknum, þar sem það var greinilegt að fólk í Barcelona er verulega illa við Jose Mourinho og Chelsea liðið. Leigubílstjórinn, sem keyrði okkur af flugvellinum, kallaði hann t.d. hálfvita og flestir í borginni virtust sammála því áliti.

Um hálftíma fyrir leik var ég kominn í sætið mitt og horfði á upphitunina. Mourinho kom aðeins inná völlinn og var púað duglega á hann. Stuttu fyrir leik settu svo einhverjir snillingar upp borða þar sem á stóð: **Mourinho = Túlkur**. Mjög fyndið.

* * *

Leikurinn var fínn. Barcelona liðið virtist vera frekar rólegt. Chelsea sóttu aldrei almennilega á þá, og því hafði maður á tilfinningunni að leikmenn Barcelona væru aldrei að reyna neitt sérstaklega á sig. Þeir sýndu þó á tíðum frábær tilþrif og þá sérstaklega Ronaldinho, sem er einfaldlega besti leikmaður, sem ég hef séð spila fótbolta.

Stemningin á leiknum var góð. Dálítið öðruvísi en maður er vanur frá Englandi. Stuðningsmenn Barca syngja aðeins eitt lag ítrekað. Það lag er hins vegar á katalónsku, þannig að ég skildi ekki orð en gat alltaf hrópað “Barca, Barca, Baaaaarca!” í enda þess. Þegar að 98.000 mannns taka sig til og hrópa *Barca* saman, þá er það ótrúlegt því Nou Camp er frábær völlur.

Ronaldinho skoraði svo auðvitað frábært mark og stuttu seinna birtu nokkrir aðdáendur eftirfarandi borða: **Mourinho, túlkaðu þetta: “Adios Europa”!”**

Chelsea fékk svo auðvitað ódýra vítaspyrnu í lokin, en það breytti engu nema að það gaf Mourinho einhverjar gerviástæður til að monta sig. En eftir allt saman, frábær leikur og yndislegt að sjá Barca taka Chelsea í kennslustund.

* * *

Á miðvikudeginum fók ég svo flug beint til Liverpool. Úr 15 stiga hita og sól yfir í 5 stiga hita og típíska enska rigningu. Ég var eitthvað þreyttur og fór því bara beint inná [skrýtnasta hótel í heimi](http://www.britanniahotels.com/hotel_home.asp?Page=45). Hótelið var svo magnað að í herberginu mínu (sem var btw ekki ódýrt) var engin sturta, heldur aðeins baðkar. Verulega frumlegt.

Þegar að nær dró leik kom ég mér að Anfield og fór í biðröð til að komast inná *The Park* barinn. Það gekk eitthvað erfiðlega, en að lokum komst ég inn. Stemingin þar inni var auðvitað frábær. Staðurinn stappaður og allir syngjandi. Ég var þar inni í einhvern tíma, en fattaði svo að ég hafði gleymt gleraugunum uppá hóteli, svo ég þurfti að fara tilbaka og ná í þau.

Á Anfield var ég með sæti í Lower Centenary, við markið sem Liverpool sótti á í fyrri hálfleik. Það vita auðvitað allir hvernig leikurinn fór. Liverpool klúðraði sirka grilljón færum og eftir smá tíma var maður orðinn vonlítill á því að Liverpool myndi skora.

Stemningin var þó ótrúlega mögnuð. Stuðningsmenn Liverpool sungu allan tímann og studdu við sitt lið, þrátt fyrir að liðið væri að tapa. Þegar að Benfica skoraði annað markið og Liverpool á leið útúr keppninni hrópuðu stuðningsmennirnir nafn Rafa Benitez og sungu svo *You’ll Never Walk Alone*. Einsog ensku blöðin bentu á daginn eftir, þá er hvergi hægt að finna slíka aðdáendur, sem að styðja liðið og þjálfarann jafn ákaft á erfiðum stundum. Stuðningsmenn Liverpool *eru* bestu stuðningsmenn í heimi. Ég var sannfærður um það eftir Istanbúl og þessi leikur styrkti mig í þeirri trú.

* * *

En það var fúlt að sjá Liverpool tapa og detta útúr Evrópukeppninni. En maður getur ekki bókað eintóma gleði í svona fótboltaferðum og því verður maður víst að sætta sig við vonbrigðin. En allavegana, núna krefst ég þess að Barcelona *rústi* Benfica í næstu umferð Meistaradeildarinnar.

1+7=1


Ég veit ekki með ykkur, en ég á voðalega erfitt að treysta banka, sem kann ekki einu sinni einfalda stærðfræði. Ég hélt að banka-auglýsingar ættu að vera traustvekjandi.

Kannski þarf ég að skipta um banka.

Fótboltaferð

Ég er að fara út í fyrramálið í massíva fótboltaferð. Vona að hún verði jafn vel heppnuð og [síðasta fótboltaferð](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/06/04/21.34.16/).

Planið er semsagt að fara út á morgun til Barcelona. Þar verð ég á þriðjudag á fundum hjá fyrirtæki, sem ég sé um að markaðssetja hér á landi, og svo um kvöldið fer ég í boði þess fyrirtækis á **Barcelona-Chelsea** á Nou Camp!

Þetta er náttúrulega leikur ársins hingað til og ég er orðinn alveg fáránlega spenntur. Ég hef séð Barcelona spila 3svar áður á Nou Camp, en aldrei í jafnstórum leik og núna.

Á miðvikudaginn á ég svo flugmiða frá Barcelona til Liverpool. Þar mun ég á miðvikudagskvöld vera mættur í Kop stúkuna til að horfa á **Liverpool-Benfica**. Þar þarf Liverpool að vinna upp eins marks tap frá fyrri l eiknum og er ég bjartsýnn á að það gerist. Ég er einnig nokkuð viss um að Robbie Fowler mun skora sitt fyrsta mark í þeim leik. Gott ef það verður ekki bara beint fyrir framan nefið á mér. 🙂

Allavegana, býst ekki við að uppfæra fyrr en ég kem heim.

Ál-þjóð

Já, ég veit að efnahagsástandið útá landi er sennilega á mörgum stöðum ekki jafngott og hér í bænum.

Og já, ég veit að fólkið þar er sennilega þreytt á því að hinir í bænum séu að flytja suður.

En samt, þá á ég erfitt með að skilja og mér þykir í raun afar sorglegt að sjá það þegar að fólk safnast saman í samkomuhúsi viðkomandi bæjar til að [fagna](http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=1002&progId=12315&itemId=11672) því að bandarískt risafyrirtæki hafi ákveðið á fundi á Manhattan að byggja enn eina risa-ál-verksmiðju hér á landi.

Og enn sorglegra þykir mér að ráðherrar þessa lands mæti á fundi á Manhattan og bíði þar ofurspenntir á biðilsbuxum eftir því að eitthvað bandarískt álfyrirtæki komi og bjargi kjördæminu sínu.

En ég er víst í minnihluta hér á landi og seint mun ég skilja hvernig allir hugsa.


Sjá einnig [hér](http://maggabest.blogspot.com/2006/03/ri-okkur.html).

Tónlistarblogg: Girl from North Country

B0000024UM.01._AA240_SCLZZZZZZZ_.jpgAf einhverjum ástæðum, sumum skiljanlegum, öðrum ekki, hefur áhug minn á þessari vefsíðu dofnað að undanförnu. Það er ekki svo að líf mitt hafi verið viðburðarlítið, laangt því frá. En einhvern veginn hef ég minni þörf fyrir að deila reynslu minni hér.

Það kann þó að breytast og oftast þegar áhuginn á þessari síðu hefur dottið niður, þá hefur hann vaknað fljótlega aftur.

En ég ætla að taka hérna upp nýjan fídus á þessa síðu, það er smá tónlistarblogg. Ég ætla að fjalla um lög, sem ég elska – af hverju ég elska þau og skýra frá því ef ég tengi þau við ákveðna atburði í mínu lífi. Ég veit ekki hversu oft ég mun gera þetta, en þetta mun gerast öðru hvoru.

Allavegana, hérna er fyrsta lagið:

[Girl from the North Country – Johnny Cash og Bob Dylan](https://www.eoe.is/stuff/girl-north-country.mp3) – Mp3 skjal, 5,3mb

Ég hef fílað Johnny Cash í nokkur ár. Byrjaði að fíla hann áður en það varð jafn hipp og kúl og það er í dag. Ekki það að ég sé að gera lítið úr athyglinni á Cash í dag, því hann á hana svo sannarlega skilið, enda snillingur. Cash er sennilega fyrsti kántrí listamaðurinn, sem ég byrjaði að fíla. Tengdi hann eiginlega ekki við kántrí í upphafi, þar sem ég byrjaði fyrst að hlusta á American plöturnar fyrir mörgum árum.

En Cash hefur svo sannarlega hjálpað mér að yfirstíga vanþóknun mína og fordóma á kántrí tónlist. Já, fulltaf kántrí tónlist er hreinasta drasl. En það þýðir ekki að það megi flokka alla tónlistina undir einn hatt. Það er einfaldlega til hellingur af frábærri kántrí tónlist, sem ég er bara rétt að byrja að læra að meta.

Dylan uppgötvaði ég hins vegar ekki fyrr en miklu seinna. En í þessu lagi eru þeir samankomnir tveir snillingarnir, Cash og Dylan. Dylan með röddina í skrýtnum kántrí-ham og Cash með sína ótrúlega mögnuðu rödd og syngja saman þennan frábæra dúett í lagi eftir Dylan. Þetta lag er langt frá því að vera mitt uppáhaldslag með Dylan, en það að þeir syngi saman gerir það sérstakt.

Lagið er tekið af Nashville Skyline, sem Dylan tók upp í Nashville og er sennilega hreinræktaðasta kántrí platan, sem hann hefur tekið upp.

Endalok uppboðsins

oa_logo.gifJæja, uppboðinu er lokið. Það tók yfir tvo mánuði að klára öll mál tengd þessu átaki mínu.

Ég seldi nánast allt geisladiska- og dvd safnið mitt ásamt alls konar dóti, sem ég hafði litla þörf fyrir í mínu lífi.

Íbúðin og geymslan mín eru aðeins tómlegri en fyrir, en þó finn ég ekki mikið fyrir því´að þetta dót sé farið. Sem segir ansi mikið um það hversu mikið af drasli manni tekst að safna saman í gegnum árin.

Ég fékk einnig frjáls framlög frá fólki í kringum mig og fólki, sem les þessa síðu og einnig gaf ég sjálfur aðeins meira en 15% af desember laununum mínum.

Niðurstaðan? Jú, ég safnaði samtals:

500.000 krónum

Það er svo miklu, miklu meira en ég átti von á í upphafi. Viðbrögðin voru miklu meiri en ég vonaðist eftir og ég hef haft ótrúlega gaman af því að standa í þessu. Ég hef talað við fullt af skemmtilegu fólki útaf þessu og þetta hefur víða vakið athygli.

Ég vil þakka öllum, sem tóku þátt í þessu. Sérstakt hrós fær Ólöf frænka mín, sem gaf peninga sem hún safnaði með því að safna saman dósum í hverfinu sínu. Ég þakka öllum, sem keyptu hluti á uppboðinu og sem lögðu sína peninga í þetta átak með mér. Ég er viss um að peningnum okkar er vel varið hjá Oxfam.

Peningurinn allur (um 7.500 dollarar) mun allur fara til hjálparstarfs Oxfam í Mið-Ameríku, þar sem hálf milljón króna er mikill peningur. Ég millifærði peningana til Oxfam síðasta föstudag og ég treysti Oxfam mjög vel til þess að koma þessum peningum í góðar hendur. Ég mun setja inn hérna staðfestingar frá Oxfam fyrir peningagjöfinni þegar þær koma.

Jafnrétti?

Ekki það að ég hafi minnsta vit á málinu (eða það komi mér hið minnsta við), en af hverju í ÓSKÖPUNUM gera menn strax ráð fyrir því að kyn þáttakenda hljóti að [skipta einhverju máli í nýsköpunarverðlaunum forsetans](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060224/FRETTIR01/60224018/1091).

Halda menn því virkilega fram að það séu líkur á því að dómnefndin hafi hafnað konum vegna kyns þeirra? Þetta er hreinlega ofar mínum skilningi, en kannski horfi ég bara of barnalega á hlutina. Ég á bara bágt með að trúa því að menn láti kyn þáttakenda hafa áhrif á sig, sérstaklega þegar um verðlaun forsetans er að ræða.

Er ekki nær lagi að [gagnrýnendurnir](http://www.runolfur.is/?p=165) séu að reyna að slá sér upp til riddara, sem einhvers konar jafnréttishetjum?

Barca!

Hólí sjitt hvað [Barcelona er gott lið](http://www.uefa.com/Competitions/UCL/FixturesResults/Round=2202/match=1102843/report=RP.html)! Það er yyyyndislegt að sjá Chelsea liðið tekið í nefið og það er ekki leiðinlegt þegar það er annað af upphaáldsliðunum mínum, sem á í hlut.

Lionel Messi er 18 ára! Hann er fæddur 1987. Eru menn ekkert að grínast? Þvílíkur ótrúlegur snillingur.

Barca átti 23 skot á mark Chelsea í leiknum í kvöld. 23 skot á móti CHELSEA! Á útivelli. Já, þeir voru einum fleiri en það skýrir ekki allt. Ég segi það óhræddur að Barcelona er besta knattspyrnulið í heimi í dag. Held að aðeins Juventus gæti stöðvað þetta Barcelona lið í Meistaradeildinni.

Ég er búinn að vera hálf þunglyndur útaf Liverpoo [tapinu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/02/21/21.47.04/) í gær, en Barca tókst að koma mér aftur í gott skap. Húrra fyrir því. Og húrra fyrir því að ég verð á Nou Camp eftir tvær vikur til að horfa á seinni leikinn! HÚRRA! Já, og húrra fyrir fótbolta!