Heim.is

Jæja, kominn heim.  Eftir tvær ferðir til útlanda á tveim vikum skulda ég víst tvær ferðasögur.  Ferðin til Liverpool var tær snilld og ég sá loksins Liverpool vinna á Anfield eftir 3 töp í röð.  Ég gæti svo skrifað heila ritgerð um það hversu mikið álit ég hef á breskum stelpum.  En allavegana, ég reyni að henda inn ferðasögu – en hér eru allavegana komnar inn myndir frá San Francisco og Boston ferðinni. – og hérna eru myndirnar sem slideshow.

Lost byrjar aftur

Í tilefni þess að besti sjónvarpsþáttur í heimi byrjar aftur í Bandaríkjunum annað kvöld, þá eru hér tvö snilldarmyndskeið.

Fyrst snilldarsamsetning á atriðinu þar sem flugvélin hrapar, séð frá sjónarhorni fólksins í flugvélinni og á eyjunni. Eftir því sem ég best veit, þá er þetta myndband klippt af aðdáanda þáttanna, sem hlýtur að vera snillingur:

Og hérna er svo official klippa þar sem farið er yfir allar seríurnar þrjár á 8 mínútum. Frábær upprifjun fyrir aðdáendur þáttanna.

Ég elska þessa þætti. Síðasta senan í seríu þrjú var einhver mesta snilld sem ég hef séð í sjónvarpi.

Strámenn og Mogginn

Ég er svona smám saman að reyna að koma mér inní stjórnmálin hérna heima eftir að hafa misst af öllum látunum á meðan ég var erlendis. Ég horfði á Silfur Egils í gær og hef verið að vinna mig í gegnum bunka af Morgunblöðum frá síðustu dögum. Það er í raun magnað að lesa og horfa á margt.

Fyrir það fyrsta, þá er félögum mínum í UJ gerð upp sú sök að þeir hafi skipulagt mótmæli til þess að reyna að láta heilsu hins nýja borgarstjóra hraka. Hvernig nokkrum andstæðingum okkar í pólitík getur dottið í hug að slík ómenni fylli minn flokk er með hreinum ólíkindum.

Og þó er það kannski ekki skrýtið að sumum detti þetta í hug. Morgunblaðið hefur nefnilega lengi staðið fyrir ótrúlegum áróðri gegn Samfylkingunni. Blaðinu tekst illa að finna eitthvað gagnrýnivert við stefnu flokksins og því grípur það til tveggja ráða til að fá útrás fyrir andúð sína á flokknum. Annars vegar að gefa í skyn að flokkurinn hafi enga stefnu og með því að nær þriðjungur þjóðarinnar séu villuráfandi sauðir, sem sjái ekki stefnuleysið. Hitt ráðið er svo að ráðast persónulega að forystufólki flokksins.

Þær árásir hafa náð hámarki nú síðustu daga þegar gefið er í skyn að helstu forystumenn flokksins breiði út óhróðri um veikindi Ólafs F. Magnússonar. Þessa línu endurtaka svo margir Moggabloggarar og Kjartan Magnússon hélt þessu líka fram í Silfrinu í gær. Þrátt fyrir þetta geta þessir aðilar ekkert dæmi um slíkan óhróður nefnt. Eina dæmið sem að hinn reiði Kjartan Magnússon gat nefnt fyrir þessum “rætnustu árásum á seinni tímum” var það að Björk Vilhelmsdóttir nefndi víst í einhverju viðtali að Ólafur F. mætti ekki fá hita og þá væri meirihlutinn fallinn. Einhvern veginn geta Sjálfstæðismenn fundið útúr þessu eitthvað mynstur rætinna árása á geðheilsu Ólafs.

Þetta er með miklum ólíkindum.

Mogginn og aðdáendur hans vita nefnilega að veikindi Ólafs skipta engu máli þegar að kemur að hneykslun fólks yfir atburðum síðustu daga í borginni.  Þeir vilja hins vegar láta einsog svo sé og munu eflaust halda áfram staðhæfa það að gagnrýni á nýjan meirihluti tengist á einhvern hátt meintum fordómum okkar vinstrimanna gagnvart geðsjúkdómum.  Það er ómerkilegur málflutningur og til þess gerður að reyna að draga athyglina frá því stórkostlega klúðri sem þessi nýji meirihluti íhaldsins er.

* * *

Ég rakst þó í dag á algjörlega frábæra grein um þessar nýju Moggalygar: Styrmir býr til Strámann – (Ég mæli með greininni fyrir alla – og hún inniheldur m.a. tilvitnanir í þessa leiðara Moggans)

Höfundurinn rekur það hvernig Mogginn hefur gert Samfylkingarfólki upp skoðanir og hittir svo algjörlega á naglann á hausinn hér:

Því verður loks að halda til haga að enginn hefur talað fjálglegar eða velt sér meira upp úr veikindum Ólafs F. Magnússonar en ritstjóri Morgunblaðsins og hans lagsbræður. Enginn hefur nýtt sér veikindi Ólafs í pólitískum tilgangi nema einmitt þeir sjálfir.

Þetta er einmitt mergur málsins. Björgvin Valur bendir líka á þetta á sinni síðu. Þar eru nokkrir bláir pennar að gagnrýna einhverja óskilgreinda vinstri menn fyrir það að ráðast að heilsufari Ólafs. Með þessu eru þeir að reyna að slá pólitískar keilur.

Varðandi Moggann, þá veit ekki hvort ég get réttlætt það lengur að vera áskrifandi að blaðinu. Er það virkilega eitthvað vit í því að kaupa á hverjum degi blað, sem telur mig vera meðlim í flokki sem sé nánast rót alls hins illa á Íslandi? Á ég að borga fyrir það á hverjum degi að ekki sé bara gert lítið úr skoðunum mínum, heldur gefið í skyn að ég, sem og aðrir meðlimir í mínum flokki, hafi engar skoðanir nema þá lífssýn að haga seglum eftir vindi. Á ég að borga á hverjum degi fyrir blað, sem ræðst með svona óvægnum hætti gegn flokksfélögum mínum?

Nei, segja Björgvin, Oddný Sturlu, Dofri og fleiri – og ég hlýt að velta þessu fyrir mér líka.

Grín, er það ekki?

Getur einhver plís sagt mér að þetta sé grín? Að það sé ekki staðreynd að þessir tveir menn ætli að stjórna borginni næstu árin?

Betri ástæðu fyrir því að flytja til útlanda hef ég ekki enn fengið.

Kræst! Íhaldið og Frjálslyndi flokkurinn. Flugvöllurinn áfram og fleiri mislæg gatnamót. Hæ hó jibbí jei.

* * *

Annars höfum við Emil það ljómandi gott í San Francisco. Búnir að borða á fulltaf burrito stöðum, labba um alla borgina og hitta skemmtilegt fólk. Í kvöld er það partí hjá kærustu Dan vinar míns á bar í The Mission.

*Skrifað í San Francisco, Kaliforníu klukkan 18.24*

Út

Ég og Emil erum farnir út.  Eigum flug eftir 3 tíma til San Francisco þar sem við ætlum að eyða 5 dögum áður en við munum eyða 2 dögum í Boston.  Veit ekki hvort ég blogga e-ð frá Bandaríkjunum.

Apple nýjungar

Jæja, kynningin hans Steve Jobs á Macworld er búin. Ég var að klára að horfa kynninguna á netinu. Kynningin var ekki jafn stór og í fyrra (iPhone) enda varla við öðru að búast. Jobs kynnti eftirfarandi:

  • Samblöndu af hörðum diski og Wi-Fi sendi, sem að Apple notendur geta notað til að taka þráðlaust afrit af gögnum á öðrum tölvum með Time Machine. Nokkuð sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 50%
  • Nýjan iPhone hugbúnað með smá breytingum. Fyrir það fyrsta er hægt að ákvarða staðsetningu símans út frá GSM sendum (sem ég veit ekki hvort virki á Íslandi). Svo er iPod hlutinn aðeins bættur og hægt að endurraða táknmyndum á símanum. Kannski ekki alveg nógu merkilegt til þess að ég nenni að uppfæra símann minn. Ég er enn að bíða eftir forritum frá öðrum fyrirtækjum, sem ættu að koma í febrúar/mars.
  • Stærsta tilkynningin var eflaust nýtt Apple TV, sem að mun gera fólki kleift að leigja myndir í stofunni í HD myndgæðum. Þetta virkaði alveg rosalega skemmtilegt, en væntanlega aðeins ef maður er með bandarískan itunes aðgang, sem ég er með. Hægt er að leigja nánast allar nýjar myndir (margar hverjar í HD gæðum) og byrja að horfa á þær nánast strax í gegnum netið í fullum gæðum. Eina sem maður þarf er aðgangur að iTunes, Apple TV, þráðlaus sendir og sjónvarp. Engin tölva nauðsynleg. Virkar alveg rosalega sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 100% (nema að FrontRow verði líka uppfært, þá gæti verið að ég myndi láta mér duga Mac Mini-inn sem ég er með í dag.
  • Svo kynnti Jobs þynnstu fartölvu í heimi, Macbook Air. Þessi tölva er innan við 1,95cm á þykkt þar sem hún er þykkust og 0,4cm þar sem hún er þynnst (Macbook Pro tölvan mín er 2,5 cm). Svo er hún bara 1,36 kg á þyngd á móti 2,45kg á tölvunni minni. Útlitið er líka mjög samt. Eeeen, ég sé samt ekki ástæðu til að uppfæra. Ég elska Macbook Pro vélina mína og þrátt fyrir að ég sé stanslaust með hana á ferðinni (þar sem ég er ekki með neina fasta skrifstofu) þá hefur mér aldrei fundist hún vera of þung eða stór. Líkur á að ég kaupi: 10% – en Apple á samt eftir að moka þessari tölvu út! (hún kostar um 63% meira en ódýrasta Macbook tölvan, en er líka 200 dollurum ódýrari en ódýrasta Macbook Pro tölvan.

Þannig að því miður kom ekkert iPhone þráðlaust sync, en restin af tilkynningunum var mjög í átt við það sem menn höfðu spáð.

Macworld á morgun

Núna er bara rétt rúmur sólahringur í að æðsti prestur okkar Apple nörda mæti á svið í San Francisco og prediki yfir okkur hvað við verðum hreinlega að kaupa á næstu mánuðum. Í fyrra voru menn nokkuð pottþéttir á því að Apple myndi kynna síma, sem og gerðist. Þann ágæta grip eignaðist ég ekki fyrr en í október, sem var auðvitað hræðilega langur tími frá því að ég sá hann í fyrsta skipti.

Í ár bendir flest til þess að Apple kynni nýja og litla fartölvu. Fartölvulínurnar Macbook og Macbook Pro (sem ég á) hafa haldist óbreyttar (fyrir utan aukinn hraða) í langan tíma, sérstaklega Macbook Pro. Hluti af ástæðunni fyrir því var eflaust skiptin yfir í Intel örgjafa, en Apple vildi hugsanlega gera eins lítið úr þeim skiptum og hægt var, þannig að kúnnar yrðu ekki hræddir við að uppfæra. Núna er það hins vegar löngu búið og því talið að Apple muni koma með nýjungar í fartölvulínunnim.

Einnig hlýtur Apple að tilkynna einhverja uppfærslu á iPhone, þar sem það er ár síðan að hann var tilkynntur og Apple er vant því að tilkynna uppfærslur á iPod línunni einu sinni á ári. Einhverjir telja að 3G komi í símana og að geymsluplássið verði aukið.

Ef ég ætti að velja mér óskalista núna, þá væri hann svona fyrir hluti sem ég tel líklegt að Jobs kynni:

  • Þráðlaust sync á iPhone. Þannig að þegar ég breyti einhverju í iCal, þá sync-i það sjálfkrafa við símann minn, líkt og það gerir á milli Makkanna minna. Þetta myndi vera gríðarlega mikilvægt.
  • Ég þarf í raun bara tvö forrit fyrir iPhone, en Jobs mun eflaust sýna einhver iPhone forrit á morgun. Ég vil endilega sjá almennilegan diktafón fyrir iPhone og svo OmniFocus (sem myndi auðvitað líka sync-a sjálfkrafa). OmniFocus á iPhone myndi umturna vinnunni minni til hins betra.
  • Litla Macbook Pro fartölvu (Macbook Air). Mun þynnri en Macbook Pro og án DVD drifs (sem enginn þarf hvort eð er). Með Flash minni, þannig að startup tíminn verði hraðari. Og einhvers konar endurskoðun á því hvernig við hugsum músina / Trackpad á fartölvum. Ég trúi varla að Apple komi með fartölvu með snertiskjá, en ég hef samt trú á að trackpad-inn verði stækkaður og gerðir að multi-touch eða eitthvað slíkt. Það verður allavegana einhver endurhugsun á því hvernig við notu fartölvur.

En allavegana, ég get ekki beðið.

Skipulagsmál

Ég legg til að ALLIR horfi á Silfur Egils þáttinn frá því í dag (endursýndur klukkan 23.05 og ætti að birtast á netinu seinna í dag). Innslagið um skipulagsmál var frábært. Í raun frábært og grátlegt í senn. Frábært því það sýndi hvað við Reykvíkingar gætum gert úr miðbænum (sem var stutt með frábærum dæmum frá þýskalandi) og grátlegt vegna þess að síðan að ég man eftir mér hefur svo einstaklega lítið verið gert til að bæta miðbæinn. Samanburðurinn við Georgetown fannst mér til dæmis afskaplega góður, en það bæjarhverfi í Washington DC er afskaplega heillandi.

Ég hef trú á því að ansi margir af þeim sem sitji í borgarstjórn (borgarstjóri þar á meðal) vilji sjá svo miklu sterkari miðbæ, en þeir þurfa bara að fara að gera eitthvað í því. Og nei, háar byggingar í Skuggahverfi eru ekki lausnin.

ps. ég skrifaði aðeins lengri pælingu um þetta hér.

Veikindi á laugardagskvöldi

Hérna sit ég uppí sófa, veikur á laugardagskvöldi.  Er búinn að vera ferlega slappur í dag eftir kvef og vesen alla vikuna.  Dreif mig reyndar í fótbolta í morgun, en haltraði útaf velli eftir um hálftíma.  Kom heim, afboðaði það sem ég hafði lofað mér í í dag og lagðist uppí sófa, þar sem ég hef legið í allan dag.

Horfði á öööömurlegan fótboltaleik.  Núna er ég kominn í allavegana tveggja vikna frí frá Liverpool leikjum þar sem ég ætla að sleppa því að horfa á Luton leikinn og svo er ég að fara til Bandaríkjanna á föstudaginn þannig að ég missi af leiknum um næstu helgi.  Er að spá í að horfa ekkert á liðið þangað til að ég mæti á Anfield með 5 vinum mínum þann 2. febrúar.  Það er eins gott að eitthvað hafi skánað fyrir þá ferð.

Svo kláraði ég Bioshock á Xbox360, sem er sennilega einn af allra bestu leikjum sem ég hef spilað um ævina.  Ég hef eytt ótal klukkutímum fyrir framan sjónvarpið í niðamyrkri með bullandi gæsahroll yfir einhverjum ófögnuði sem er að ráðast á mig.  Frábær leikur.

* * *

Fór í bíó í gær á I’m not there, sem er ansi skringileg mynd sem fjallar um Bob Dylan.  Beisiklí gengur hún útá það að Dylan er túlkaður sem 5 mismunandi karakterar í myndinni, sem eru leiknir af ólíku fólki og heita ólíkum nöfnum.  Á þetta auðvitað að sýna hversu mótsagnakenndur persónuleiki Dylans getur verið.  Tónlistin er  stórkostleg í myndinni, en yfir höfuð var ég ekkert alltof hrifinn.  Sumir partar voru frábærir, aðrir nánast óbærilega leiðinlegir.  Til að mynda fannst mér Richard Gere kaflinn hryllingur á meðan að kaflinn þar sem Cate Blanchet leikur Dylan er frábær.  Sá hluti bjargar eiginlega myndinni, en hennar hluti hefst á tónleikum þar sem Dylan rafvæðist.

Ágæt mynd, sem ég myndi þó ekki mæla með fyrir neinn nema Dylan aðdáendur, sem að þekkja sögu hans ágætlega.  Ég get ekki ímyndað mér að aðrir geti haldið þræði yfir þessari mynd.

Aðdáun mín á rusl-sjónvarpi

flavor.jpegVarúð: Þessi færsla inniheldur mjög mikla “spoiler-a” fyrir sjónvarpsþættina “Shot At love”, “Rock of Love” og “Flavor of Love”, þar sem ég tala um sigurvegarana í öllum þáttunum.

Ég hef aldrei reynt að fela það sérstaklega að ég er verulega veikur fyrir drasl-raunveruleikasjónvarpi. Af einhverjum ástæðum (greindarskorti, athyglisbresti?) þá hef ég sjaldan þolinmæði til að fylgjast með dramatískum leiknum þáttum, en hef hins vegar nánast takmarkalausa þolinmæði þegar að kemur að raunveruleikasjónvarpi um ástarsambönd fólks.

Eftir að ég reddaði mér aðgangi að iTunes versluninni á síðasta ári, þá hef ég getað keypt mér fullt af sjónvarpsefni. Ég er með litla Apple tölvu tengda við sjónvarpið og á henni get ég horft á efnið sem ég kaupi. Ég hef notað tækifærið og keypt fullt af skemmtilegu sjónvarpsefni. Ég ætla að fjalla lauslega um þrjá af þeim þáttum, sem ég hef horft á.

* * *

Þetta eru þrír stefnumótaþættir í anda Bachelor þáttanna, en þó mun óformlegri. Allir þættirnir eiga það sameiginlegt að ein semi-fræg persóna fær að velja úr stórum hópi fólks, sem að dýrka og dáir viðkomandi. Fyrst horfði ég á Rock of Love þar sem að Bret Michaels, hinn 44 ára fyrrverandi söngvari í Poison, var að velja sér konu. Síðan horfði ég á Flavor of Love þar sem að Flavor Flav, hinn 48 ára gamli fyrrverandi rappari í Public Enemy, var að velja sér konu – og svo að síðustu Shot at Love, þar sem hin 26 ára gamla Tila Tequila velur sér maka úr hópi bæði stráka og stelpna (hún er að eigin sögn tvíkynhneigð, þó aðrir haldi öðru fram).

Umgjörðin í öllum þáttunum er svipuð. Fólkið sem sækir um í þættinum veit hver verður “bachelor-inn” í þættinum og því veljast oft í þættina fólk sem að eru miklir aðdáendur viðkomandi. Í þáttunum er reynt að gera mikið úr ferli þessara aðila, sem eru á hraðri niðurleið í tilfelli Michaels og Flav og óskiljanlegir í tilfelli Tequila (sem er aðallega fræg fyrir að eiga 2,5 milljónir vina á MySpace, sem er einmitt mun minna en ég). Allt það mest heillandi við það að deita rokk-stjörnu er dregið fram og lífstíll bachelor-sins gerður eins sjarmerandi og mögulegt er.

* * *

Ég hafði mun meira gaman af fyrri tveimur þáttunum (Flavor og Rock), sennilega að hluta til vegna þess að báðir karlarnir eru orðnir þokkalega desperate og voru í raun að leita sér að hinni sönnu ást, sem maður efaðist um í tilfelli Tilu. Þrátt fyrir að Breat og Flavor séu orðnir 44 og 48 ára, þá voru keppendurnir nær allir undir þrítugu. Þetta var sérlega pínlegt í tilfelli Flavor, sem lítur ekki út fyrir að vera degi yngri en hann er. Það var augljóst frá fyrstu stundu að allmargar stelpurnar í þáttunum voru þarna eingöngu til að hljóta frægð, en ekki vegna aðdáunnar þeirra á miðaldra poppstjörnum.

Þrátt fyrir þetta voru báðir karlarnir alveg einstaklega miklir aular þegar kom að því að lesa stelpurnar og áhuga þeirra á þeim. Svo fór að báðir völdu yngstu og sætustu stelpurnar í staðinn fyrir kvenkosti sem væru líklegri til að reynast þeim vel. Sem sýnir nokkuð vel hversu voðalega veikir við karlmenn erum fyrir útliti. Í báðum tilfellum þá höfðu þeir fulltaf tækifærum til að velja stelpur um og yfir þrítugt, sem virtust tilbúnar í það að finna sér ævifélaga, en í báðum tilfellum þá völdu þeir stelpurnar sem voru sætastar. Hinn 48 ára gamli Flav valdi sér hina 24 ára gömlu, Hoopz (sjá MæSpeis), á meðan að hann hafnaði stelpum sem virtust dýrka hann og dá og hefðu sennilega enst lengur með honum. Það fór líka svo að þau Hoopz og Flav hættu saman eftir nokkra daga.

Þessir þættir virka þannig að þeir eru allir teknir upp á 2-3 vikum. Svo þegar að Bachelor-inn hefur valið sér sína draumadís þá hafa þau 2-3 daga til að vera saman í felum eftir að upptökum lýkur. Þá tekur hins vegar við 2 mánaða tímabil þar sem viðkomandi mega ekki hittast á meðan verið er að klippa þættina og sýna þá í sjónvarpi. Svo er haldinn reunion þáttur þar sem þau fá að hittast aftur. Sambandið milli Flav og Hoopz náði ekki einu sinni að endast fram í reunion þáttinn.

* * *

Bret Michaels gerði nákvæmlega sömu mistök og Flavor Flav. Hann gat valið á milli fullt af stelpum, sem pössuðu ágætlega við hann og dýrkuðu hann og dáðu – en í staðinn þá valdi hann hina 23 ára gömlu Jes, sem var jú (að mínu mati allavegana) sætasta stelpan á svæðinu – og 21 ári yngri en hann.

Jes sagði Bret hins vegar upp nokkrum dögum eftir að slökkt var á myndavélunum. Því ætlar Bret að freista gæfunnar aftur í Rock of Love 2, sem að byrjar í þessum mánuði. Flavor Flav ætlar líka að freista gæfunnar í þriðja skipti í Flavor of Love 3, sem að verður sýndur í næsta mánuði. Það er spurning hvort að þeir verði eitthvað skynsamari í þessi skiptin.

* * *

Shot at Love með Tilu Tequila var svo slappasti þátturinn. Þar ætlaði Tila Tequila víst að finna út hvort hún væri hrifnari af stelpum eða strákum með því að velja úr hópi 15 lesbía (ein lesbían gefur upp þennan prófíl: Amanda is a tall, busty blonde who embraced being a lesbian after she realized she was bored with men) og 15 stráka. 14 lesbíanna voru varalita-lesbíur (einsog Tila kallaði þær lesbíur sem eru mjög kvenlegar), á meðan að ein var mjög strákaleg. Það fór svo að í lokaþættinum valdi hún á milli strákalegu-lesbíunnar og eins strákanna. Hún endaði á því að velja strákinn.

Eftir að þátturinn var búinn og Tila hafði virkað mjög spennt í reunion þættinum, þá lýsti Tila því yfir tveim vikum seinna að hún væri hætt með stráknum. Strákurinn hélt því hins vegar fram á MæSpeis síðunni sinni að hann hefði aldrei heyrt frá frú Tequila og að hann hefði ekki einu sinni geta fengið símanúmerið hennar. Þannig að ekki var nú áhuginn mikill, en það hefur þó ekki stoppað hana frá því að tilkynna það að Shot at Love 2 verði kominn í framleiðslu innan skamms.

Guði sé lof fyrir Bandaríkin.