Maður

Mikið hljómar það virðulega þegar ég er kallaður [ungur maður](http://www.kjanaprik.is/dagbok/?p=1974) 🙂


Ég hef ekki nennt að skrifa neitt um stjórnmál eða íslensk þrætumál á þessa síðu. Það er kannski merki um hversu lítið hefur gerst undanfarna mánuði. Eeeen, í alvöru talað, er það eitthvað sérstakt [markmið að breyta Íslandi í Búrma](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=50415)? Úr frétt á Vísi.is:

>Ólafur (hluti af mótmælendum á Káranhjúkum – innsk. EÖE) segir ómerktan sendiferðabíl á vegum lögreglunnar hafa verið einungis nokkra metra frá þeim í nótt. Honum mislíkar að svo grannt sé fylgst með þeim og vill meina að brotið sé á rétti þeirra. Hann vill ekki gefa upp hvert ferðinni er heitið og segir að mótmælum verði haldið áfram.

Af hverju álítur Lögreglan mótmælendur vera hættulegasta fólkið á landinu? Þetta er enn eitt bjánadæmið í tengslum við meðhöndlum lögreglunnar á fólki, sem mótmælir aðgerðum þessarar ríkisstjórnar eða ríkisstjórna annarra landa. Allt frá kínverska fimleikafólkinu til þessara umhverfissinna.

Í stað þess að fara með þetta fólk einsog glæpamenn, þá ætti að veita þeim orður fyrir að nenna að húmast í skítakulda uppá hálendi Íslands til að mótmæla heimsku þessarar ríkisstjórnar.

Viva México, cabrones!

Ó fokking jeh!

Ég er að fara til **Mexíkó** í fríið mitt. Ég er búinn að skipta um skoðun sirka 30 sinnum á síðustu dögum, en valið stóð á [milli Suð-Austur Asíu og Mið-Ameríku](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/26/03.12.23). Vinur minn í Tælandi var aðeins uppteknari en hann hélt og það nægði til að ég ákvað að velja Mexíkó í þetta skiptið. Hef vonandi tækifæri til að fara til Tælands seinna.

Og jedúddamía, ég fékk brjálæðislegan fiðring þegar ég loksins ákvað þetta. Mexíkó er svo yndislega æðislegt land! Ég hef reyndar aðeins skoðað þrjár borgir, en fólkið er æði og nánast allt tengt Mexíkó er allavegana í minningunni frábært.


Ég vann eitt sumar í Mexíkó fyrir 8 (úff!) árum. Það var algjörlega æðislegt sumar. Í fyrsta skipti bjó ég einn og þar varð ég líka í fyrsta skipti ástfanginn. Vinnan var ekkert sérstaklega skemmtileg, en kvöldin og helgarnar voru æðisleg.

Ég kynntist stelpunni, Gabrielu, í gegnum vinnuna. Eftir að hafa hitt hana nokkrum sinnum fann ég loksins kjark til að bjóða henni út á stefnumót. Við byrjuðum saman og eftir nokkurra vikna samband bauð hún mér að flytja heim til sín.

Sem var ekkert smá furðulegt. Ég hafði verið að leigja hjá fólki í úthverfi Mexíkóborgar, stutt frá vinnunni minni. En mér samdi ekkert sérstaklega vel við fólkið, sem ég leigði hjá (enda voru þau geðsjúk, öll!). Þannig að ég ákvað að þiggja boðið, enda bjuggum við Gaby þá í sitthvorum enda borgarinnar. Gaby bjó í pínkulítilli íbúð í frekar fátæku hverfi uppí hlíðum Mexíkóborgar, ásamt mömmu sinni, bróður og systur. Þetta er ein yndislegasta fjölskylda, sem ég hef kynnst. Þau vildu allt fyrir mig gera og tíminn þar var ógleymanlegur. Stóri bróðir Gaby var nokkurs konar pabbi á heimilinu og sá til þess að lesa mér lífsreglurnar áður en við Gaby fórum út saman. Mamman var ótrúlegur kokkur og á hverjum degi var veisla á heimilinu.

Eflaust gerir minningin hlutina enn frábærari en þeir voru, en ég hef alltaf horft aftur til þessa sumars með hlýhug. Án efa eitt af bestu sumrum, sem ég hef upplifað.


Ég elskaði líka Mexíkóborg. Hún er kannski svipuð Caracas í Venezula (þar sem ég bjó í eitt ár þegar ég var 18 ára) að því leyti að fólk sem staldrar stutt við sér bara traffíkina, mengunina og fátæktina. En þeir, sem búa þar lengur, átta sig smám saman á því hversu heillandi borgin er. Utan Mexíkóborgar heimsótti ég einnig Acapulco og Veracruz. Ég get ekki beðið eftir því að skoða meira af Mexíkó, því í minningunni er allt við Mexíkó frábært:

Stelpurnar (óó!), klúbbar með barra libre (eitt gjald og svo eins mikið áfengi og þú vilt), tónlistin, tekíla, bjórinn, stelpurnar, veðrið, traffíkin og allt brjálæðið í Mexíkóborg – og maaturinn. Besti matur í heiiiimi. Get ekki beðið eftir því að droppa inná einhverja taqueria um miðja nótt eftir djamm og fá mér tacos al pastor. Jesús Kristur hvað mig hlakkar til!


Ég er ekki kominn með dagsetninguna 100% á hreint. Á enn eftir að afgreiða smá í vinnunni, en þetta verður vonandi í lok mánaðarins. Upphaflega planið er að fljúga til Mexíkóborgar, eyða tímanum þar og fara svo suður. Sennilega í gegnum Chiapas (Ya Basta!, PR!), svo til Gvatemala, Belís og El Salvador. Ég er ekki búinn að skipuleggja ferðina nógu mikið, þannig að ég veit ekki hversu mörg lönd ég heimsæki. Þannig að tíminn verður að leiða í ljós hvort ég fari til Hondúras, Níkaragva, Kosta Ríka og Panama.


Ég fékk svo mikið nostalgíukast við að skrifa þessa færslu að ég setti Luis Miguel á fóninn. [Por debajo de la Mesa](http://www.singingfool.com/musicvideo.asp?PublishedID=809926), maður! Er hægt að hafa það væmnara? Ég held ekki. En þetta var uppáhaldslag Gaby og því minnir það mig alltaf á Mexíkó. Hún neyddi mig til að hlusta á þetta aftur og aftur og aftur.

Ó vá, ég fæ gæsahúð. Mig langar út á morgun.

Stelpur í London og Jackson 5

Eitt athyglisvert við London, sem ég veit ekki hvort aðrir strákar hafa tekið eftir: *Allar sætustu stelpurnar í London eru af indverskum uppruna!* Semsagt afkomendur innflytjenda frá Indlandi, Sri Lanka, Pakistan og þeim löndum. Ég held að ég sé alveg ágætlega dómbær um þetta. Hefur einhver annar tekið eftir þessu? Nánast undantekningalaust voru sætustu stelpurnar, sem ég sá í London, af þessum uppruna. Magnað, ekki satt?


Síðan hvenær varð “I want you back” með Jackson Five að skylduspilun á íslenskum skemmtistöðum? Ég held að ég geti fullyrt að þau síðustu fjögur skipti, sem ég hef verið á íslenskum skemmtistöðum á laugardögum (þrisvar Ólíver, einu sinni Vegamót), þá hefur það lag *alltaf* verið spilað, jafnvel oftar en einu sinni á hverju kvöldi.

Borgþór og Björk vinir mínir eignuðust litla stelpu í gær. Í tilefni af því fórum við barnlausa fólkið úr Verzló vinahópnum út í gærkvöldi. Núna erum við bara sjö eftir barnlaus. Fórum á Ólíver, sem var fínt. Ég held að borðin við hurðina á Ólíver séu bestu borðin í bænum, þar sem að opna hurðin gerir það að verkum að nánast engin sígarettulykt finnst. Ég þefaði af peysunni minni í morgun og fyrir utan Benetton ilmvatnslykt, þá gaf engin lykt það í skyn að ég hefði verið á skemmtistað í gærkvöldi. Yndislegt alveg hreint. Meira svona!


Jæja, seinni hálfleikur af Góðgerðarskildinum að byrja. Ég elska það að vakna á sunnudögum og getað séð fótbolta um leið og ég kveiki á sjónvarpinu. Það er yndislegt!

High Fidelity

Ég skrifaði ferðasöguna til London í gær. Hún var alltof þunglynd. Eitthvað við það hversu yndislega vel mér leið útí London hafði áhrif á mig. Veit ekki hvort ég set hana hingað inn. Ætla að bíða með hana og melta í einhvern tíma.


Útí London las ég þrjár bækur. Merkust af þeim öllum er [High Fidelity eftir Nick Hornby](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295569/qid=1123288275/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020). Flestir hafa sennilega séð myndina, sem er algjör snilld, en ef eitthvað er þá er bókin enn betri. Ég held að ég geti óhræddur sagt að þetta sé ein af uppáhaldsbókunum mínum. Allavegana á topp 5. Ég byrjaði að lesa hana á mánudagsmorgun og hætti ekki fyrr en seint á mánudagskvöld þegar ég var búinn. Las hana úti á Leicester torgi, inná Starbucks í Covent Garden, Starbucks á Oxford street, sem og heima á gistiheimilinu. Ég hef sjaldan farið svona hratt í gegnum bók.

*Ég elskaði bókina*. Hún talaði til mín á svo margan hátt og mér fannst svo margt í söguhetjunni höfða til mín. Svo margt í hans lífi passaði við mitt.

Í grunninn fjallar hún um Rob, sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hann reynir að gera lítið úr þeim sambandsslitum með því að rifja upp eldri sambönd, sem honum finnst hafa endað á verri hátt. Bókin fjallar svo um tilraunir hans til að komast yfir kærustuna og tilraunir hans til að reyna að ná henni aftur. Þetta hljómar kannski allt frekar sorglegt, en þetta er með fyndnustu bókum, sem ég hef lesið. Sambandsslitin verða til þess að Rob fer að hugsa um sína stöðu í lífinu. Hvort hann sé sáttur við vinnuna, vinina, sínar fyrrverandi kærustur og annað.

Þrátt fyrir að John Cusack túlki Rob frábærlega í [myndinni](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/B000055Z8M/qid=1123288307/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), þá fann ég enga samsvörun með honum þegar ég sá myndina fyrst. Kannski var ég bara of ungur og vitlaus. Það var fyrir fimm árum síðan og ég hafði ekki uppgötvað ástarsorg nema einu sinni á ævinni og ég hafði sjálfur endað öll þau sambönd, sem ég hafði verið í. Núna er ég auðvitað eldri og reyndari og hef upplifað fleiri hliðar á samböndum. Sem er gott. (að ég held)

Þrátt fyrir að ég og Rob séum að mjög mörgu leyti ólíkir, þá fannst mér oft einsog þessi bók væri skrifuð fyrir mig. Endalaust oft stóð ég mig að því að brosa og tengja atburði bókarinnar við atburði í mínu lífi. Þetta hefur aldrei gerst jafnoft við lestur á einni bók. Á tímabili langaði mig m.a. að hringja í sumar manneskjur og spyrja viðkomandi af hverju hlutirnir enduðu á þann hátt, sem þeir enduðu. Það hefði allavegana verið fróðlegt. Ég er viss um að ef ég hefði drukkið bjór í stað kaffis með bókinni, þá hefði ég látið verða af því. 🙂

Allavegana, ég mæli með þessari bók, sérstaklega fyrir stráka. Allir strákar, sem eru komnir yfir tvítugt og hafa upplifað fleiri en eina hlið á samböndum ættu að geta fundið einhvern hluta af sjálfum sér í bókinni. High Fidelity er æði. Æði!


Hinar bækurnar, sem ég las voru [Lands of charm & cruelty](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0330333879/qid=1123288383/sr=1-1/ref=sr_1_8_1/026-0996360-0266020) og [Fever Pitch](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140295577/qid=1123288416/sr=2-1/ref=sr_2_11_1/026-0996360-0266020), sem er líkt og High Fidelity skrifuð af Nick Hornby. Ég ætla að fjalla um hana í sér færslu. Ég byrjaði svo að lesa [How to be Good](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0140287019/qid=1123288464/sr=1-2/ref=sr_1_10_2/026-0996360-0266020), einnig eftir Hornby.

Brúðkaup

Wedding Crashers er æðislega fyndin mynd. Farðu og sjáðu hana í dag! Ok?

Er það skilið?


Er kominn til Kettering og var að koma úr kvöldverði þar sem ég var sá eini, sem var ekki á bíl, og *þurfti* því að drekka rúmlega hálfa rauðvínsflösku. Ætla að reyna að skrifa hádramatíska ferðasögu um London þegar ég kem heim.

Vildi bara benda fólki á að Wedding Crashers er mjög fyndin mynd. *Mjög!*

London um helgina

Ég er að fara út á laugardaginn. Hef ekki farið til útlanda síðan ég sá Liverpool verða **EVRÓPUMEISTARA** í Istanbúl í maí. Það er auðvitað orðið alltof langt síðan. 🙂

Allavegana, fer til London. Á miðvikudaginn á ég fund í Kettering og sá því fram á að ég myndi ekki mæta í vinnu á þriðjudaginn. Þar sem að vinir mínir eru flestir rólegir um Verslunarmannahelgina, þá fannst mér vera kjörið að nýta ferðina og eyða helginni í London. Pantaði mér því ódýrt hótel nálægt Earl’s Court.

Ætla að reyna að túristast aðeins um London á staði, sem ég hef ekki komið áður. Ætla að fara í [British Museum](http://www.thebritishmuseum.ac.uk/) og eyða allavegna einum degi þar og ætla svo að fara niður til [Stonehenge](http://www.english-heritage.org.uk/stonehenge/). Ætla svo að ryena að hitta systur mína og versla eitthvað.

Veðrið á víst að vera [sæmilegt](http://www.weather.com/activities/travel/businesstraveler/weather/tenday.html?locid=UKXX0085&from=36hr_fcst10DayLink_business). Um 20 stiga hiti og það ætti að sjást til sólar allavegana á mánudag, þannig að ég reyni sennilega að fara til Stonehenge þá.


[Síminn var seldur](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1151232;gid=2352) í dag fyrir 67.000.000.000 krónur. Væri ekki best að borga þetta verð beint út til allra Íslendinga? Það myndi þýða að hver lifandi Íslendingur fengi ávísun uppá 230.000 krónur. Einstæð móðir með tvö börn fengi 690.000 krónur. Það væri ekki slæmt.

En nei, auðvitað verður þessu eytt í eitthvað bull. Þarf ekki örugglega meiri pening í landbúnaðarkerfið? Já, eða fleiri jarðgöng útá landi. Það væri líka æði.

Borgin eða vinnan?

Fyrir það fyrsta, þá má ekki taka þessari færslu sem enn einum “mig langar út”© pistli frá mér! Ok? 🙂

Allavegana, ég rakst á einhverjar umræður á netinu um svipað mál. En mig langaði að fá input frá fólki, sem les þessa síðu:

*Hvort myndir þú heldur vilja búa í æðislegri borg og vinna leiðinlega vinnu…*

*eða*

*Búa í leiðinlegri borg í æðislegri vinnu?*

Að því gefnu þá að við tökum út vini og fjölskyldu. Segjum bara að þú ættir að velja milli tveggja borga í Evrópu. Önnur borgin er tiltölulega ljót, með litlu mannlífi og leiðinlegu veðri. Hin borgin er falleg, með iðandi mannlífi og góðu veðri. Þú gætir fengið algjöra draumavinnu í leiðinlegu borginni, en þyrftir að vera í leiðinlegri vinnu í skemmtilegu borginni. Hvort myndir þú velja?

Og einsog ég sagði áður, þá á þetta *ekki* við um mig. En fólk virðist vera tilbúið að flytjast á ótrúlegustu staði fyrir draumavinnuna sína. Langar að heyra hvort þetta sé algengt hjá fólki.

Ströndin

Meðan ég var andvaka í gær gerði ég svosem ýmsa hluti. Ég horfði á Cubs vinna baseball leik í beinni útsendingu frá Chicago og lét mig dreyma um að vera á þriðjudagskvöldi á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball.

Kláraði einnig að lesa [The Beach eftir Alex Garland](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/1573226521/qid=1122383936/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846). Þegar ég [spurðist](http://ask.metafilter.com/mefi/20387) fyrir um bækur tengdar Suð-Austur Asíu, þá var mælt með þessari bók. Ég hafði einhvernt tímann horft á myndina með Leo DiCaprio, en ég gafst uppá þeirri mynd eftir um klukkutíma. Bókin er umtalsvert betri. Samt öðruvísi en ég átti von á. Aðeins rólegri en ég átti von á miðað við allar lýsingarnar.

Þegar ég byrjaði að láta mig dreyma um ferðalög keypti ég fulltaf Suðaustur-Asíu tengdum bókum. Næst á dagskrá er [Lands of Charm and Cruelty : Travels in Southeast Asia](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0679742395/qid=1122384292/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846) og svo [The Things they carried](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767902890/qid=1122384541/sr=8-1/ref=pd_bbs_sbs_1/102-5988735-5526567?v=glance&s=books&n=507846)

Andvaka

Ég get ekki sofnað! Drakk of mikið af kaffinu hjá Jensa og Þórdísi.

Fokk!


Búinn að panta mér flug til London um næstu helgi. Sameina bissness og vonandi ánægju. Fundur næsta miðvikudag, þannig að ég hef laugardag-þriðjudag í London. Ég þarf virkilega á þessu að halda. *Reyna að hreinsa hausinn á mér.* Síðustu vikur og mánuðir hafa verið of skrýtnir, of flóknir. Of mikið vesen.

Er líka búinn að ákveða að fara út í fríið mitt í lok ágúst. Var ekki alveg viss, en er viss núna. Fékk smá bakþanka með að fara til Suð-Austur Asíu. Langar dálítið að fara til Mið-Ameríku. Tala spænsku borða tacos, dansa salsa og reyna við sætar, mexíkóskar stelpur.

Mexíkó eða Tæland? Mið-Ameríka eða Suðaustur-Asía. Ég verð að fara að ákveða mig. Held bara að ég þurfi að fara út sem allra fyrst. Reyna að byrja uppá nýtt. Gera hlutina öðruvísi. Hreinsa hugann. Gleyma öllu hérna heima, setja á mig bakpokann og fara á flakk. Hitta nýtt fólk á hverjum degi. Detta í’ða einhvers staðar þar sem enginn þekkir mig og ég þekki engann. Þar sem ég rekst ekki á neinn. Dansa við ókunnugar stelpur, heimsækja nýja staði. Láta mér leiðast á lestarstöðum og í rútum. Anda að mér mengun í stórborg. Sjá nýja hluti. Verða skotinn í stelpu í nokkra klukkutíma í ókunnugri borg.

Mig langar út….