Vika í hálf maraþon

Núna er tæp vika í hálf maraþonið hérna í Stokkhólmi. Ég hef verið að undirbúa mig síðustu 10 vikur með því að hlaupa þrískipt prógramm þrjá daga í hverri viku.

Þetta hefur gengið misjafnlega. Prógrammið er semsagt þrískipt:

– Sprettir: 400, 800 eða 1600 metra. Ég hef ekki átt í miklu erfiðleika með þá (400 metra á 90 sekúndum, 800 metra á 3.03 og 1600 metra á 6.27).
– Lengri hlaup á hægu tempói. Þetta eru hlaup frá 10 og uppí 19km á tempói, sem samsvarar 5 mínútum og 7 sekúndum á hvern kílómeter. Þetta hefur ekki verið neitt sérstaklega erfitt.
– Milli-vegalengdir á hröðu tempói. Það eru 6-13km hlaup á tempóinu 4.20 per kílómeter. Ég hef átt í bullandi erfiðleikum með þessi hlaup. Í dag náði ég í fyrsta skipti að klára 10km hlaup nokkurn veginn skammarlaust. Þessi slappi árangur í þessum hlaupum hefur gert mig aðeins stressaðan fyrir sjálft hlaupið næsta laugardag.

Í gegnum þessar vikur þá hef ég haldið utanum allt með því að nota Runkeeper forritið í iPhone símanum mínum. Síminn er með GPS og Runkeeper forritið heldur utanum hlaupaleiðir og tíma. Forritið getur líka hjálpað manni því ég set inní það hraðann sem ég ætla að hlaupa á og forritið lætur mig vita á 500 metra fresti (eða hversu oft sem ég vel) hvernig ég standi mig miðað við hraðann, sem ég ætlaði að hlaupa á. Þetta hefur algerlega haldið mér við efnið í sumar – og ég á bágt með að skilja hvernig ég gat nokkurn tímann hlaupið án forritsins.

Auk þess þá fær maður þessa fínu heimasíðu á Runkeeper.com þar sem maður getur flett upp gömlum hlaupum, teiknað upp og mælt nýjar hlaupaleiðir og fleira. Síðan tekur einnig saman fyrir mann tölfræði um hvað maður hefur hlaupið mikið. Samkvæmt henni þá hljóp ég t.a.m. 140 kílómetra í ágúst. Ég mæli með þessu fyrir alla, sem hafa áhuga á hlaupum.


Annars var í gær Tjejmilen hlaupið í Stokkhólmi, sem er risa kvennahlaup þar sem 26.000 konur taka þátt. Margrét Rós tók þátt og náði léttilega þeim tíma, sem hún hafði ætlað sér að ná. Hún var því klárlega hetja dagsins hérna á Götgötunni.

Róm?

Ég og Margrét erum að fara til Rómar í næstu viku og verðum þar í fjóra daga. Ég veit svona nokkurn veginn hvað við eigum að gera varðandi helstu túristastaði (og við erum búin að panta hótel), en ef einhver er með tips um hvaða staði við eigum að fókusera á og sérstaklega á hvaða veitingastaði við eigum að fara á, þá eru allar tillögur mjög vel þegnar! Takk takk!

Aftur í Stokkhólmi

Ég er kominn aftur til Stokkhólms eftir frábæra Íslandsferð. Afrekaði að fara í sumarbústaðarferð, útilegu og á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina. Fór svo í göngu í Flateyjardal þar sem ég var næstum því fótbrotinn/dauður og djammaði svo á Kaffibarnum til klukkan 2 á laugardaginn, en náði samt að vera mættur í taxa útá BSÍ klukkan 5. Það þykir mér gott.

Mér líður núna einsog ég hafi bætt á mig 5 kílóum á Íslandi eftir ís/nammi/pizzu/lambakjöts-át undanfarinna daga. Núna skal hlaupaprógrammið sett á fullt enda ekki nema mánuður í hálf-maraþonið.

Þras um ESB og Samfylkinguna

Af því að ég er löngu hættur að nenna að skrifa um íslenska pólitík á þessa síðu, þá er það næstbesta sem ég get gert að vísa í skrif, sem ég er sammála. Til dæmis þessi pistill hérna: Enn um leiðinlegt ESB þras!. Pistillinn er allur góður og meira að segja eru sum kommentin ágæt. En hérna er meginefnið, sem ég er svo innilega sammála (feitletranir mínar)

>Umræða um gjaldmiðil og fjármögnun atvinnutækifæra virðist komin upp á hillu. Fólk virðist farið að sætta sig við ónýta krónu og AGS sem þrautavarnarlánveitanda um ókomna framtíð. Slíkt er hættulegt, það er vísir að uppgjöf. Í raun má segja að ákveðið sýndarástand ríki á landinu, fólk er farið að velja upphafspunkta fyrir og eftir hrun eftir hentisemi. Hvergi er þetta augljósara en í ESB umræðunni.

>70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning. Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.

>Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun. Og ekki nóg með það, eingöngu er nóg að segja „nei“, ekkert virðist þurfa að hugsa um hvað taki við eftir „nei“, enda er búið að stilla ESB umræðunni þannig upp að aðild er alls ekki partur af efnahagsendurreisn Íslands, heldur einhver hugmyndaleikfimi Samfylkingarinnar. Þannig er ESB aðild orðin að flokkspólitísku þrasi sem allir eru orðnir hundleiðir á. Þetta er auðvita óskastaða „nei“ liðsins því þá þurfa þeir ekki að gera grein fyrir hvernig staðið verði að efnahagsuppbygginu hér án ESB aðildar, né þurfa þeir að svara spurningum um framtíðargjaldmiðil eða hvernig við losnum við AGS. „Þetta mun reddast einhvern veginn“, virðist sem fyrr, fullkomið svar fyrir meirihluta þjóðarinnar.

>Hér er Ísland á öndverðum meiði við útlönd. Erlendis sjá menn skýra tengingu á milli AGS prógramms og ESB aðildar. Í margra augum eru þetta óaðskiljanlegar undirstöður efnahagsuppbyggingar Íslands. Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma. Þannig verður óvissunni eytt.

Þetta feitletraða finnst mér vera eitt af aðalmálunum. Það sem virðist einkenna umræðu á netinu er óstjórnlegt hatur sumra á Samfylkingunni og sú ályktun þeirra að í þeim flokki séu eintómir snillingar, sem geti stjórnað öllu á Íslandi á bakvið tjöldin. Samkvæmt því er það fólk í Samfylkingunni, sem að snýr uppá hendur VG-liða, sér til þess að Ísland leggist flatt fyrir AGS og ESB og umfram allt sjái til þess að Jón Ásgeir hafi það nú gott. Þessi umræða er orðin svo biluð að Samfylkingarfólk er flest hætt að nenna að svara fyrir hana.

Auðvitað snýst ESB aðildin ekki um hagsmuni Samfylkingarinnar, heldur íslensku þjóðarinnar. Menn gleyma kannski nauðsyn á breytingum í gjaldeyrismálum þegar að við erum með gjaldeyrishöft, sem að flestir þurfa ekki að glíma við dags-daglega. En ef að einhver heldur að núverandi ástand í gjaldeyrismálum sé æskilegt til frambúðar fyrir fyrirtæki á Íslandi, þá eru þeir ansi langt frá raunveruleikanum. Ef menn vilja hafna ESB aðild þá verða þeir þá að koma með aðrar lausnir, ekki bara upphrópanir um hversu almáttug og ill við flokksfólk í Samfylkingunni erum.