Tilviljanir

Fyrir einhverjum vikum var ég að tala við vin minn um stelpur. Hann var að segja mér frá því hvernig hann saknaði þess að vera skotinn í stelpu. Hann talaði um hvernig það væri það skemmtilegasta í heimi – að þekkja einhverja stelpu, sem maður væri skotinn í og gæti elst við – og að það versta í sínum kvennamálum væri einfaldlega sú staðreynd að hann hefði enga til að eltast við þessa dagana.

Ástæðan fyrir þessum ummælum hans var sú að ég var að segja frá eltingaleik mínum við eina stelpu. Ég hafði nefnilega verið pínu skotinn í stelpu alveg síðan í júlí. Stelpu, sem ég smám saman kynntist og varð skotnari í. Í margar vikur eltist ég við hana, beið eftir henni þegar hún var erlendis, og reyndi margoft að fá hana á stefnumót með mér.

Sem tókst jú á endanum, en á endanum gekk þetta ekki upp. Það er því dálítið furðulegt að hafa núna ekki lengur neinn til að eltast við.

* * *

Málið er að öll þessi sambandsmál virðast vera svo tilviljanakennd að ég get ekki gert að því að flokka stóran hluta af þeim undir hreinræktaða heppni eða óheppni. Sum samböndin mín virðast spretta uppúr engu. Einu sinni fattaði að ég var bálskotinn í bestu vinkonu minni.  Og eitt besta sambandið mitt spratt uppúr því að stelpa, sem les þessa bloggsíðu, vildi kynna mig fyrir vinkonu sinni. Og svo hafa sambönd byrjað á því að ég hafi bókstaflega rekist á stelpur á skemmtistöðum bæjarins.

Þetta virðist allt svo tilviljanakennt að stundum finnst manni einsog það sé vel mögulegt að hlutirnir muni aldrei ganga upp. Sum kvöld finnst mér allar leiðir standa opnar, önnur kvöld engar. Og þegar ég hitti réttu stelpurnar þá virðist það svo oft vera á vitlausum tíma, í vitlausu landi eða á vitlausu tímabili í þeirra eða mínu lífi. Þetta virðist allt svo tilviljanakennt.

Og það er eflaust ástæðan fyrir því að ég eyði svo miklum tíma í að hugsa um þessi mál. Ég veit að ef ég vinn ötullega í Serrano þá mun staðurinn batna og viðskiptin aukast. Og ég veit að ef ég held áfram að borða rétt og mæta í ræktina klukkan hálf sjö á morgnana, þá mun ég koma mér í það form sem ég vil. Það er einhver lógík í þessum málum.

En með stelpur, þá er lítið sem maður getur gert, nema hugsanlega að bíða eftir því að eitthvað gerist uppúr þurru. Jú, ég get eflaust gert mig að betri manni – og ég er alltaf að reyna það. Ég get reynt að líta betur út, ég get lært meira inná sjálfan mig, ég get lært að dansa, ég get lesið til að öðlast frekari þekkingu, ég get ferðast meira til að eiga fleiri sögur til að segja, ég get endalaust hugsað um það hvernig ég get verið betri maður…

En það er samt engin trygging fyrir því að maður finni réttu stelpuna. Kannski verður þetta bara endalaust samansafn af stuttum samböndum, sem skilja lítið eftir sig. Ég get verið eins góður einstaklingur og ég get, en það verður aldrei nein trygging fyrir því að finna réttu manneskjuna. Það vantar alltaf þetta tilviljanakennda – að einhver kynni mig fyrir nýrri stelpu, að ég sjái eitthvað sem ég sé ekki í dag, eða þá að ég rekist á einhverja stelpu, hvort sem það er á dansgólfinu á Ólíver eða á gistiheimili í einhverju ókunnugu landi. Fyrir svona skipulagðan einstakling einsog mig, þá er oft erfitt að sætta sig við það hversu lífið er tilviljanakennt.

Þetta er kannski ástæða þess að það er oft fátt um svör þegar fólk spyr mig af hverju í ósköpunum að strákur einsog ég sé ekki genginn út. Þegar ég fæ næst þessa spurningu (sem verður eflaust einhvern tímann í þessari viku), þá get ég allavegana vísað á þessa færslu. 🙂

Serrano 5 ára

Fyrir 5 árum [skrifaði ég þessa færslu](http://eoe.is/gamalt/2002/11/01/) um fyrsta daginn okkar á Serrano. Þann dag var ég að tapa mér í stresskasti og flest fór úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis. En núna 5 árum seinna hefur það sannast að fall er fararheill. Emil félagi minn sagði í gær að hann trúði því varla að það væru fimm ár síðan að hann vakti alla nóttina til að opna staðnn og síðan að ég gat ekki borðað matinn útaf stressi.

Ég hef áður skrifað á þessari síðu [hvernig Serrano varð til í hausnum á mér](https://www.eoe.is/gamalt/2004/12/13/18.45.13/) fyrir einhverjum 6 árum. Hvernig að upphaflega hugmyndin kom fyrst fram fyrir heilum 9 árum hjá okkur Emil á einhverju rútuferðalagi í Suður-Ameríku. Og það hvernig hugmyndin mótaðist á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum og hvernig maturinn varð til í eldhúsinu okkar Hildar í Chicago.

Það er alveg hreint ótrúlega skemmtileg tilviljun að í dag sé aðeins vika í það að við opnum veitingastað í Smáralind. Því að planið var alltaf að opna Serrano í Smáralind fyrir 5 árum. Þá var okkur hins vegar hafnað og í staðinn var ákveðið að bíða eftir Burger King, sem að lokum opnuðu stað þar. Kringlu- og Stoðamenn höfðu hins vegar meiri trú á okkur og því opnuðum við okkar fyrsta stað í Kringlunni þann 1.nóvember árið 2002. Núna 5 árum seinna er það því ótrúlega sætt að geta opnað í Smáralind og fá tækifæri til að sanna okkur þar.

Fyrir mig er þetta síðasta ár búið að vera alveg einstakt. Ég tók fyrir alllöngu ákvörðun um að hætta í vinnunni minni og einbeita mér að Serrano. Þrátt fyrir að staðurinn væri ekkert rosalega stór, þá sá ég möguleikanna sem að staðurinn ætti inni. Núna hefur Serrano verið mitt aðalstarf í nákvæmlega 12 mánuði og árangurinn hefur verið frábær. Veltan hefur þrefaldast frá því sem hún var fyrir ári og það segir aðeins hluta af sögunni, því að við höfum líka keypt taílenska veitingastaðinn Síam og fullt er að gerast í Serrano málum.

Í næstu viku opnum við svo þriðja Serrano staðinn í Smáralind og það er okkar plan að innan 6 mánuða verði Serrano staðirnir orðnir 5 talsins. Við erum búnir að skrifa undir samninga um húsaleigu í báðum tilfellum og munu framkvæmdir á fyrri staðnum hefjast á næstu vikum. Þetta er því ótrúlega spennandi og skemmtilegur tími í sögu þessa fyrirtækis.

* * *

Ég er búinn að kynnast ótrúlegum fjölda fólks í tengslum við þennan rekstur og ég get sagt að við höfum aldrei verið jafn vel settir með starfsfólk einsog í dag. Staðurinn hefur líka aldrei verið jafn vel rekinn og hann er í dag.

Og það magnaðasta í þessu er að við Emil höfum í gegnum þessi 5 ár haldið áfram að vera bestu vinir. Vissulega höfum við rifist um einstaka hluti í rekstrinum, en það hefur ætíð verið gleymt innan nokkurra klukkutíma. Við hefðum allavegana aldrei getað gert þetta án hvors annars. Þrátt fyrir að einkalífið hjá mér hafi kannski ekki alltaf gengið upp á síðustu árum, þá stendur það samt sem áður eftir að ég get verið stoltur af þessu mexíkóska ævintýri.

Superbad og Leopard

Superbad er algjörlega frábærlega skemmtileg mynd.  Ég hef bara einu sinni hlegið jafnmikið í bíó á þessu ári og það var á Knocked Up.  Fór með vinkonu minni í gær og hló nánast allan tímann.  Við ætluðum fyrst að sjá einhverja rúmenska mynd um fóstueyðingar, en samræður okkar yfir matnum voru á þá leið að við þurftum að sjá eitthvað meira hressandi.

Allavegana, sjáið þessa mynd!  Það er skipun!

* * *

Ef einhver er að spá í því, þá er Serrano í Smáralind ekki að opna á morgun.  Við þurftum að fresta því um eina viku og MUNUM því opna næsta fimmtudag, 8.nóvember.

* * *

Ég er búinn að nota Leopard, nýja stýrikerfið frá Apple síðan um helgina og kann alveg frábærlega við það.  Það er enginn einn nýr fídus, sem hefur breytt lífi mínu en í stað þess eru milljón litlir hlutir, sem breyta ótrúlega miklu, einsog Quick Look.

Svo er póstforritið Mail.app og iCal, sem ég nota um hundrað sinnum á dag miklu betri og hraðari, sem hefur bætt geðheilsu mína umtalsvert.  Ég myndi allavegana mæla með þessari uppfærslu fyrir alla Apple notendur, mér fannst hún peninganna virði.

Staksteinar

Einn aðalkosturinn við borgarstjórnarskiptin var sá að Morgunblaðið og aðrir Sjálfstæðismenn náðu aftur áttum.  Þeir hata nefnilega Samfylkinguna einsog pláguna og því var það gríðarlega óþægilegt fyrir þetta lið þegar að Samfylkingin fór í ríkisstjórn með þeirra ástkæra flokki.  Menn vissu ekki hvað þeir áttu að gera.  Áttu þeir að tala vel um Samfylkinguna eða halda skítkastinu áfram?  Maður sá beinlínis tilvistarkreppuna, sem Mogginn lenti í.

En eftir borgarstjórnarskiptin er einsog Mogginn sé frjáls úr prísundinni.  Núna geta ritstjórar Moggans glaðst og varpað innum lúguna hjá okkur á hverjum degi níð um okkur Samfylkingarfólk alveg einsog í gamla daga.   Jafnvægi er því aftur komið á í heiminum.

* * *

Annars hlýtur [Staksteinapistill dagsins](http://morgunbladid.blog.is/blog/morgunbladid/entry/350325/) að hafa verið skrifaður af 10 ára krakka.  Það lætur enginn fullorðinn blaðamaður á fullum launum svona vitleysu frá sér.  Er það nokkuð?

* * *

Annars eyddi ég helginni í sumarbústað með félögum, sem var fínt.  Ég hafði ekki komið út fyrir bæinn í margar vikur, þannig að þetta var góð tilbreyting.  Komst í bústaðinn á sumardekkjunum.  Ég er staðráðinn að standa þessa snjókomu af mér án þess að skipta um dekk.

Plús mínus

Það sem fer í taugarnar á mér

  • Þegar maður borgar greiðsluseðil uppá eina komma eina milljón en þarf samt að borga seðilgjald uppá 290 krónur.
  • Húsasmiðju-Gospel lagið
  • Phil Neville
  • Að Sýn skuli bara sýna ensk lið í Meistaradeildinni.
  • Að ýta á eftir fólki (líf mitt virðist snúast um það þessa dagana)
  • Það að ég geti aldrei tengst netinu á Kaffitár í Bankastræti
  • Að dagskrárgerðarmenn Sýnar skuli ekki þekkja neinn sem heldur ekki með Manchester United
  • Að lenda óvart á skíðavél fyrir framan sjónvarp sem er að sýna Teletubbies á morgnana.

Það sem er gott:

  • Kaffibollinn minn í morgun
  • Burrito á Serrano. Eftir síðustu smávægilegu breytingar á Serrano (aðallega breytingar á pico de gallo) þá fæ ég hreinlega ekki leið á uppáhaldsburrito-inum mínum: Hrísgrjón, Kjúklingur, maís, svartar baunir, mild salsa (pico de gallo), kál, sýrður rjómi og bbq sósa.
  • Office þættirnir eru núna rúmar 40 mínútur í stað 20 mínútna áður. Ég tárast nánast af gleði þegar ég hugsa um þessa breytingu.
  • Nýji Bruce Springsteen diskurinn – hann er frábær.
  • My legendary girlfriend – eftir Mike Gayle, sem er bókin sem ég er að lesa núna.
  • Að vera á hlaupabretti í World Class fyrir framan sjónvarp sem sýnir þetta og þetta myndband. Ég er enn að bíða eftir sjónvarpsstöð, sem sýnir bara myndbönd með Nelly Furtado og Nicole Scherzinger. Sú stöð væri fullkomin. Eigendur stöðvarinnar gætu m.a.s. sparað peninga með því að hafa ekkert hljóð.

Jamm

Helgin og bækur

Ég á það til að taka bókalestur í kippum og lesa svo ekkert í margar vikur. Eftir [Skotlandsferðina](http://eoe.is/gamalt/2007/08/09/20.42.53/) talaði ég víst um það að ég ætlaði að skrifa um þær bækur sem ég las þar. Það varð eitthvað lítið úr því.

En allavegana, ég las nokkrar bækur en þetta var það skemmtilegasta sem ég las í Skotlandsferðinni:

[How to talk to a widower](http://www.amazon.com/How-Talk-Widower-Jonathan-Tropper/dp/0385338902/ref=pd_bbs_sr_1/105-8985785-3863669?ie=UTF8&s=books&qid=1192989432&sr=8-1) eftir Jonathan Tropper er frábær. Hún fjallar um strák á mínum aldrei, Doug Parker, sem missir eldri eiginkonu sína í flugslysi. Hann á í erfiðleikum með að hefja líf sitt á ný, sem felur það með sér að ala upp unglingsstrák, sem að eiginkona hans átti. Hann skrifar vinsæla pistla í tímarit um vandamál sín en á samt í vandræðum með að gera eitthvað annað í lífinu en að syrgja eiginkonu sína.

Smám saman neyðir þó systir hans hann til að reyna að hitta aðrar konur og hefja líf sitt á ný. Að mínu mati frábær bók, einstaklega skemmtileg. Ég lánaði vinkonu minni bókina og var ekki alveg viss um það hvort stelpa hefði jafn gaman af henni, en hún var alveg jafn ánægð með hana. Mæli með þessari bók.

[Dead Famous](http://www.amazon.com/Dead-Famous-Ben-Elton/dp/0552999458/ref=pd_bbs_sr_2/105-8985785-3863669?ie=UTF8&s=books&qid=1192988188&sr=1-2) eftir Ben Elton. Elton er klárlega einn af mínum uppáhaldshöfundum, held að ég hafi ekki enn verið óánægður með bók eftir hann.

Þessi fjallar um það þegar að morð er framið í raunveruleikasjónvarpsþættinum Big Brother. Einn af keppendunum er drepinn í beinni útsendingu og lögreglan þarf að komast að því hver framdi morðið á meðan að tökum á þættinum er haldið áfram. Gríðarlega skemmtileg “whodunnit” saga.

* * *

Í gær hélt ég matarboð þar sem þemað var bandarískir veitingastaðir. Það reynist mér alltaf frekar erfitt að halda sjö manna matarboð hérna heima sérstaklega þar sem ég byrja aldrei að plana hlutina fyrr en klukkan 4 og þá á ég vanalega eftir að elda, taka til og leggja á borð. Í gær tókst það auðvitað ekki á tíma, en einhvern veginn tókst mér samt að búa til pasta og hrísgrjónarétt, samlokur og tvær tegundir af pizzum. Ég á í dag afganga, sem gætu fætt fótboltalið.

Ég fór ekki á Airwaves þar sem að ég kann greinilega ekki að kaupa hluti á netinu. Hélt að ég hefði keypt miðann en þegar ég ætlaði að finna kvittunina og prenta hana út þá komst ég að því að því að ég hafði ekki klárað kaupin á miðunum. Þannig að helgarplanið fór í algjört fokk, en ég var búinn að plana það að fara á hátíðina með góðu fólki. Það fór víst í algert rugl. En svona er þetta.

Amy

Það er vel þess virði að benda fólki á að þessi plata er meiriháttar!

 * * *

Þessi helgi er búin að vera verulega góð hingað til.  Ég er í smá átaki, sem átti að felast í því að ég færi nokkrum sinnum á djammið án þess að drekka.  Það hefur gengið misvel.  Þetta gekk eftir um síðustu helgi þegar ég var edrú og fór heim úr partíinu snemma til að horfa á Cubs skíta á sig.  Það verður þó ekki annað sagt en að vinir mínir séu duglegir í að hvetja mig til að fá mér í glas.  Í gær hitti ég svo ansi skemmtilega manneskju, sem lagði gríðarlegan metnað og vinnu í að fá mig til að fá mér í glas á Ölstofunni þar sem ég var eftir afmælispartí.  Það tókst að lokum.  En samt í svo litlu magni að ég vaknaði hress í morgun og gat nýtt daginn í eitthvað semi-gáfulegt.

Í kvöld ætla ég svo að gera aðra tilraun til þess að fara í bæinn án þess að drekka.  Svo fer ég að láta af þessari tilraun.

* * *

Auk Amy Winehouse þá hef ég verið að hlusta á nýja Springsteen diskinn, sem er afbragð.  Er ekki enn búinn að kaupa mér Radiohead diskinn, en það er á dagskrá á næstu dögum.

* * *

Í gær missti ég iPhone-inn minn í gólfið í fyrsta skiptið.  Það var hræðileg lífsreynsla.  Hræðileg, segi ég og skrifa.

Okay, band meeting!

Helgin mín var ljómandi skemmtileg. Ég fór á reunion með gamla Verzló árganginum mínum á laugardaginn, sem var mjög hressandi. Þetta var reyndar ekki árgangurinn, sem ég útskrifaðist með, heldur sá sem ég byrjaði með (ég útskrifaðist ári á eftir þar sem ég var útí Venezuela). Hitti fullt af fólki, sem ég hef varla hitt síðan ég hætti í Verzló. Svaraði svona 20 sinnum að ég væri single og í veitingarekstri.

Fór svo með tveimur vinum mínum í bæinn. Fyrst á Vegamót, sem var slappt, og svo á Ólíver. Sá staður hefur batnað umtalsvert síðan ég var þar síðast. Skemmtilegra fólk og umtalsvert betri tónlist heldur en áður. Kvöldið þar var mjög skemmtilegt.

Eitt fannst mér fyndið við dvölina á Ólíver. Ég eyddi mestöllum tímanum þar með 4 mjög myndarlegum stelpum. Það sem kom mér á óvart var hversu karlar yfir fertugt eru ótrúlega bjartsýnir. Það voru allnokkrir á þeim aldri, sem voru að reyna við þessar stelpur, sem eru jú um 20 árum yngri. Þeir virtust engar áhyggjur hafa af því hversu takmarkaða möguleika þeir áttu, heldur reyndu við þær af krafti. Ég er að velta því fyrir mér hvort að með aldrinum hætti maður að stressa sig á líkum á árangri og láti bara vaða og reyni við allar sætu stelpurnar, hvort sem maður eigi þá möguleika eður ei? Vonandi þarf ég ekki að komast til botns í því máli sjálfur.

* * *

Ég algjörlega elska Flight of the Conchords. Þessir þættir eru stórkostlegir. Umboðsmaður strákanna, Murray, er ásamt Ari Gold í Entourage, fyndnasti karakter í sjónvarpi í dag. Lögin sem þeir félagar syngja eru líka frábær, ekki síst þetta hér.

* * *

Annars hef ég eytt umtalsverðum tíma að undanförnu í að spila Bioshock á Xbox 360. Það gerist svona 2-3svar á ári að ég festist í einhverjum tölvuleik og það er að gerast núna. Gallinn við þennan leik er að ég get bara spilað hann í svona klukkutíma því þá fæ ég í magann. Þessi leikur fer alveg með mig. Ég sit sveittur með stanslausa gæsahúð og hef svo bara úthald í klukkutíma áður en ég gefst upp. Bölvaður aumingjaskapur.

* * *

Og að lokum smá Murray. Og þetta. Ó, ég elska Murray!

Það besta sem…

Mikið afskaplega er *Viðrar vel til Loftárása* æðislegt lag.

Ég var að koma úr matarboði hjá mömmu og pabba og þegar ég kom heim þá kveikti ég ekki á tölvunni (sem er vanalega mitt fyrsta verk við heimkomu), heldur setti bara *Ágætis Byrjun* með Sigur Rós á og byrjaði á einhverri svakalegustu tiltekt seinni tíma.

Fékk skyndilega þörf til að hreinsa í kringum mig. Losa mig við óþægilega hluti, slæmar minningar og annað sem hefur angrað mig. Stundum þarf ég bara að gera þetta, byrja uppá nýtt. Henti öllum rúmfötum, slatta af bókum, öllum tímaritunum mínum, gömlum bréfum og hellingi af öðru drasli.

Núna líður mér betur.

* * *

Ég held að ég hafi aldrei farið yfir niðurstöður uppboðsins, sem ég hélt síðasta desember hérna á síðunni.

Allavegana, um jólin söfnuðust 200.000 krónur í uppboðinu (eða nálægt því, ég námundaði upp). Auk þess þá bað ég fólk um að gefa til Oxfam í stað afmælisgjafa í síðasta afmæli og þannig söfnuðust 100.000 krónur. Þannig að samtals gaf ég fyrir hönd lesenda þessarar síðu og þeirra sem mættu í afmælið mitt (þessir hópar skarast væntanlega all mikið) 300.000 krónur til Oxfam. Þetta er kannski ekki milljarður, en þetta er allavegana mitt framlag.

* * *

Annars var fundurinn með umhverfisráðherra mjög góður og skemmtilegur. Það er einmitt fullt sem mig langar til að skrifa um pólitík og umhverfismál á þessari síðu, en einsog svo margt annað þá verður það að bíða.

* * *

Fór með vinkonu minni á Veðramót á mánudaginn.  Sú mynd er nokkuð góð.  Kannski ekki alveg 4 stjörnu mynd, en samt mjög góð.  Mér leið afskaplega skringilega allt kvöldið eftir myndina.

Franz Ferdinand, hvítvín, Cubs og Síam

Þetta blogg er orðið með ólíkindum dapurt. Ég hef svo sem fáar hugmyndir til að bæta það.

Ég get nefnt fullt af hlutum sem mig langar til að skrifa um, einsog t.d. þá staðreynd að ég er oftar beðinn um pening í miðbæ Reykajvíkur þessa dagana heldur en ég var nokkurn tímann beðinn um í Chicago. Einnig að mér finnst að þessi flugvöllur eigi að fara strax og hversu mikið það fer í taugarnar á mér að sjá fólk, sem hefur ekki farið á djammið í mörg ár, tjá sig um næturlífið í Reykjavík einsog það stundi það um hverja helgi.

En ég er bara of latur til að skrifa eitthvað.

Þetta hefur þó verið góð helgi. Var í matarboði með vinum mínum á föstudagskvöldið. Þar var botnlaus uppspretta hvítvíns, enda gestgjafarnir snillingar, og því drakk ég kannski aðeins meira en meðal-skynsamur einstaklingur hefði gert, því ég var búinn að ákveða að vakna snemma daginn eftir. Sem ég og gerði.

Fór svo á Franz Ferdinand tónleikana á Organ með vini mínum í gær. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer á Organ, en síðast þegar ég vissi þá var á sama stað rekinn rónabar. En þetta er fínn staður fyrir svona tónleika. Franz Ferdinand voru verulega skemmtilegir og þetta voru mjög góðir tónleikar. Það var hressandi að sjá svona frábæra hljómsveit á svona rosalega litlum stað. Þáttaka manns verður auðvitað mun meiri þegar maður getur hoppað á fullu fimm metrum frá hljómsveitinni í stað þess að sitja uppí stúku.

Kíktum svo á Boston á eftir og enduðum kvöldið á dapri pizzu.

Annars hef ég verið svona rétt mátulega busy í vinnunni. Það er ótrúlega gaman að koma Síam í það ástand, sem ég vil sjá staðinn í. Skemmtileg tilbreyting frá Serrano þó það sé margt spennandi að gerast þar líka.

Cubs eru í efsta sæti í sinni deild í hafnaboltanum þegar það eru bara nokkrir leikir eftir.  Það er vissulega snilld.  Ætla einmitt að horfa á leik með þeim í dag.  Liverpool eru svo í öðru sæti í ensku deildinni.  Ástandið hefur svo sannarlega verið verra.  Nú þarf bara KR að halda sér uppi.

Annars er ég bara þokkalega hress, mér finnst ég vera að gera eitthvað af viti og er ánægður með það hvernig hlutirnir hafa þróast að undanförnu. Það verður kannski ósjálfrátt til þess að ég bloggi minna þar sem að þörfin fyrir að blogga virðist minnka eftir því sem skapið batnar. 🙂