Fyrir 4 árum skrifaði ég pistil á þessa síðu, sem vakti talsverða athygli: “[Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/)”. Þá var ég tiltölulega nýfluttur til Íslands og hafði lent í því nokkrum sinnum að reyna við stelpur á skemmtistöðum, sem reyndust vera á föstu (og reyndar líka lent í því að stelpur sem voru á föstu voru að reyna við mig). Ég fór því að velta því fyrir mér hvort það væru actually einhverjar stelpur á lausu á Íslandi.
Meðal þess sem ég skoðaði og skrifaði um þá, var hlutfall keppenda í Ungfrú Ísland keppninni það árið, sem voru á lausu. Niðurstaðan á þeirri “rannsókn” var sú að **67% stelpnanna í keppninni voru á föstu**.
Nú var ég á föstu í fyrra þegar þetta fegurðarsamkeppnistímabilið stóð yfir og því var ekkert skrifað um þær keppnir á þessari síðu – aðallega til þess að forðast beittar háðsglósur frá minni fyrrverandi. Nú er ég hins vegar á lausu aftur og get því skrifað einsog mig lystir.
* * *
Fyrir tveim árum skrifaði ég reyndar ekki heldur um það hversu margar stelpur í keppninni væru á föstu, heldur [fókuseraði ég á hugmyndaleysi keppenda þegar að kom að því að lýsa hinu fullkomna laugardagskvöldi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/). Þá voru megin niðurstöðurnar þær að sjónvarpsgláp væri nokkurn veginn það mest spennandi, sem keppendur gætu hugsað sér að gera á laugardagksvöldi.
Ég fékk í síðustu viku í hendurnar blaðið *Flass Magazine*, þar sem stelpurnar í Ungfrú Reykjavík eru teknar i viðtal. Þar eru þær allar spurðar sömu spurninga og ein þeirra er: “[Ertu] Á lausu?” Stelpurnar í þessari keppni eru allar nema ein á aldrinum 18-21 (ein er 22 ára). Mér fannst því alveg tilvalið að skoða hvernig ástandið er á sambandsmálum keppenda árið 2007. Og hverjar eru niðurstöðurnar?
Jú, **67% keppenda í Ungfrú Reykjavík eru á föstu**!
Finnst engum þetta jafn magnað og mér? Semsagt, 12 af 18 stelpum eru á föstu. Ein er reyndar í vafa, svarar “hægt er að deila um það” – en ég gef mér að hún sé líka á föstu.
Er þetta tilviljun, eða er þetta eitthvað stórundarlegt náttúrulögmál að 67% íslenskra stelpna á þessum aldri séu alltaf á föstu? Þetta er allavegana mjög dularfullt.
🙂
* * *
Önnur spurning sem vakti athygli mína er það hvaða stjórnmálaflokk stelpurnar ætla að kjósa í vor. Niðurstöðurnar í þeirri skoðanakönnun eru athgyglisverðar
Frjálslyndi flokkurinn: 1 atkvæði
Vinstri Grænir: 1 atkvæði
Óákveðnir eða vilja ekki svara: 16 atkvæði
Jammmm…