Veður

Í morgun vaknaði ég í sólskini og 20 stiga hita í Stokkhólmi.

Áðan þegar ég var að keyra uppá Landsspítala til mömmu gat ég hins vegar ekki betur séð en að það snjóaði í Reykjavík!

Allavegana, set inn ferðasögu í kvöld eða á morgun. En fyrst er það parketlögn hjá vini mínum. Parketlagningarhæfileikar mínir eru það stórkostlegir að aðeins nokkrum klukkutímum eftir að ég lendi á Íslandi er ég beðinn um að koma að leggja parket.

Út!

Ég er farinn!

Er á leiðinni í fyrramálið til Svíþjóðar ásamt Emil vini mínum. Þar ætlum við að spóka okkur um í höfuðborg sæluríkis jafnaðarmanna fram á mánudag. Því verður væntanlega ekkert skrifað hér á næstu dögum.

Skrifstofa á kaffihúsi

Ég verð að segja að þeta Risessu dæmi er tær snilld. Ég hef ekki séð svona mikið líf snemma morguns í miðbænum afskaplega lengi.

Eftir að ég byrjaði í fullu starfi á Serrano, þá hef ég ekki haft neina skrifstofu til að vinna á. Í Kringlunni erum við jú með smá skrifstofu, en hún er notuð af verslunar- og rekstrarstjóra Serrano og þar færi maður ekki nægan frið. Þess vegna hef ég kosið að koma mér við gluggann á Kaffitár í Bankastræti á hverjum morgni. Þar drekk ég kaffi, borða ávexti og beyglur og vinn. Hérna er fín net-tenging, engar reykingar og það er eitthvað skringilega róandi við að vinna í þessum klið, sem hér myndast þegar staðurinn er fullur.

Það er líka eitthvað heillandi við það að vinna í kringum miðbæinn. Það er ekkert gaman að keyra á hverjum morgni í bíl inná bílastæði fyrir utan skrifstofubyggingu og hanga þar inni allan daginn. Frekar kýs ég þetta líf. Ég rölti um miðbæinn, sest inná kaffihús og vinn og sinni svo þeim erindum, sem ég þarf um allan bæ eftir hádegi. Ég held að þessi skrifstofa hérna inná Kaffitár sé sú besta, sem ég gæti hugsað mér. Ég vinn allavegana hratt og vel hérna.

En allavegana virðist veðrið og þessi Risessa hafa lífgað uppá mannlífið í miðbænum í dag. Allt í einu er allt fullt af fólki í sumarskapi í góða veðrinu. Meira svona! Ég vildi óska þess að mannlífið væri jafn blómlegt á hverjum degi. Þá væri gaman að búa í Reykjavík.

Sjálfsmyndir

Þetta komment birtist á síðunni hennar Katrínar:

Ég hef bara aldrei náð þessu með sjálfsmyndirnar á bloggunum. Þú og EOE ættuð að stofna eina síðu saman bara með myndum af ykkur, það væri geðveikt.

Nokkuð skemmtilegt, ekki satt?

Annars þá er ég með eina mynd af sjálfum mér á forsíðunni, en Katrín með 10. Því má búast við að ég reyni að setja inn fleiri myndir af mér, svona til að reyna að ná netkærustunni minni. 🙂

Mánudagskvöld

Þetta er svokallað punktablogg

  • Í kvöld tókst mér að sturta í mig hálfri dós af lífrænu jógúrti áður en bragðlaukarnir mínir áttuðu sig á að eitthvað var grunsamlegt við bragðið. Við nánari skoðun kom í ljós að þessi ágæta jógúrt rann út fyrir rúmum þrem vikum. Núna hefði verið gott að búa með síðasta-söludags-stimpla-fasista á heimilinu.
  • Mig langar að skrifa um helgina og djammið, sem ég var á. Við sögu koma samskipti á milli nágranna, Barinn, Vegamót, Prikið, Ben Folds, Q-tip og fleira. En ég veit ekki hvernig ég get gert þá færslu áhugaverða.
  • Og kannski blanda ég inní þá færslu pælingum mínum varðandi sambönd, sem ég var byrjaður á í síðustu viku.
  • Mæli með þessum pistli frá Jensa.
  • Ég verð að koma því líka að að Jóhanna Sigurðardóttir er snillingur. Hún hefði mátt vera meira áberandi í þessari kosningabaráttu og Helgi Hjörvar líka.
  • Nýja Modest Mouse platan er afbragðs góð. Sérstaklega byrjar hún stórkostlega. Tvö fyrstu lögin eru algjörar andstæður, en passa samt svo rosalega vel saman. Dashboard er lag ársins hingað til.
  • Eru menn ekkert að djóka með það hversu mikið drasl Lost þátturinn í kvöld var? Ha?
  • Ég verð að játa það að ég fatta ekki af hverju vinsælasta blogg landsins er vinsælasta blogg landsins. En ég fatta heldur ekki Spaugstofuna, né skil ég af hverju 40% kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða af hverju fólk vill breyta Reykjavík í bandaríska bílaborg, eða hverjir kaupa plöturnar á listanum yfir 30 mest seldu plöturnar í fyrra. Kannski skil ég einfaldlega ekki þessa þjóð.

Reykstofan

Einhvern tímann þarf einhver fróður einstaklingur að útskýra fyrir mér hvernig fólk, sem reykir ekki, getur lifað af inná Ölstofunni í meira en klukkutíma. Eflaust er ég frekar viðkvæmur fyrir sígarettureyk. Aldrei hefði mér dottið það í hug að það að koma inná Vegamót væri frískandi, en ég upplifði það í gær.

Ég var í útgáfupartíi hjá UJ í gær. Vegna [brunans](http://mbl.is/frimg/4/26/426440A.jpg) var partíið fært af Hressó yfir í Landsímahúsið, þar sem Samfylkingin er með kosningaskrifstofu. Þar var ég í bjór með góðu fólki til klukkan 2, þegar við fórum 3 saman uppá Ölstofuna. Þar þraukaði ég í næstum því 2 tíma áður en við fórum yfir á Vegamót. Hitti fulltaf skemmtilegu fólki og þar á meðal vinkonu mína sem ég hef ekki hitt svo hressa á djamminu í mörg ár.

Var samt ekki fullur, enda hefur bjór frekar sljóvgandi áhrif á mig en örvandi. Jú, og ég hafði ekki kjark í mér til að tala við dökkhærðu stelpuna sem ég hef séð þarna í nokkur skipti og mér finnst svo ótrúlega sæt. Furðulegt hvernig sumt fólk hefur áhrif á mann.

Labbaði svo heim, enda var ég nógu skynsamur að vera í þykku úlpunni minni með ipod í vasanum. Það var æðislegt að labba meðfram tjörninni í morgunbirtunni með Postal Service í eyrunum á fyrsta degi sumars. Stundum er Reykjavík einfaldlega yndisleg.

* * *

Í morgun var ég svo vakinn af Emil vini mínum og Serrano meðeiganda (sem finnur það á sér þegar ég er þunnur og hringir umsvifalaust í mig) og svo hálftíma seinna af heilli lúðrasveit, sem var að marsera hérna í Vesturbænum. Ég vildi að ég gæti sagt að það hafi verið hressandi.

Ég er svo heppinn að búa við hliðiná einni vinsælustu ísbúð landsins. Það hljómar ótrúlega spennandi, en er það varla. Það er svo fáránlega mikið að gera í búðinni að ég gefst oftast uppá biðinni. Mér finnst eitthvað stjarnfræðilega vitlaust við það að bíða í biðröð **úti** í frosti eftir því að komast inn og fá ís. En ég fékk mér samt ís í dag, enda er betra þynnkumeðal vandfundið.

Þetta er lítil, skrýtin eyja.

Helgin

Helgin er búin að vera fín…

Fór á Peter, Björn og John tónleikana á föstudagskvöld með Jensa. Þeir voru verulega góðir. Sprengjuhöllin hitaði upp og þar sá ég þá spila Samfylkingarlagið í fyrra skipti af tveimur þessa helgi. Svo kom Pétur Ben, sem minnti mann ansi mikið á Damien Rice á tónleikum.

PB & J voru verulega skemmtilegir. Björn, bassaleikari leit út einsog hann hefði reykt hálft kíló af hassi, í einhvers konar fáránlegri sæluvímu – á meðan að gítarleikarinn virtist vera á spítti allan tímann. Mjög fróðleg blanda.

Þeir tóku að mestu lög af Writer’s Block, sem er fínt, enda er sú plata afbragð. Ég var í afskaplega góðu skapi – og bjórarnir urðu einhvern veginn til þess að mér fannst allt svo yndislegt – stelpurnar svo fallegar, fólkið svo skemmtilegt og tónlistin svo mikið æði. En allavegana var ég voðalega sáttur.

Landsfundurinn var svo góður. Það er víst nóg af fólki á Moggablogginu, sem lýsir yfir ánægju með fundinn, eða talar um það að Samfylkingin sé flokkur djöfulsins, þannig að ég nenni varla að bæta í þann pott.

En tilfinningin við að vera þarna var góð. Ef ég hefði ekki verið viss, þá hefði ég sannfærst á þessum fundi að ég væri á réttum stað í pólitíkinni. Ræðurnar voru margar hverjar mjög skemmtilegar, sérstaklega hjá gestunum um jafnréttismál – og svo hjá framtíðarþingmönnum um hin ýmsu mál – sérstaklega hjá Árna Páli, sem ég held að sé mögulegur framtíðarleiðtogi Samfylkingarinnar.

Deginum í dag hef ég eytt í vinnu að mestu leyti. Sit núna og horfi á Cubs í tölvunni, sem er tengd við sjónvarpið mitt…. og þeir tapa. Þvílík hörmungar íþróttahelgi. Guði sé lof fyrir [ljósið í myrkrinu](http://www.nba.com/bulls/).

Landsfundur

Ég gerði heiðarlega tilraun til að mæta á landsfund okkar jafnaðarmanna í dag. Ætlaði að stoppa örstutt á Serrano í leiðinni til að sækja gleraugun mín. Það stopp reyndist vera nærri því tveir tímar og því missti ég af öllu prógramminu. Stefni því á að fara á morgun.

Annars hlýtur það að vera innihaldslausasta sjónvarpsefni að taka viðtöl við flokksbundið fólk um niðurstöður skoðanakannana. Hefur einhven tímann einhver komið með eitthvað sérstaklega gáfulegt eða frumlegt svar við slíkum spurningum? Nú má vel vera að einhverjir telji þetta bara vera röfl í mér af því að ég tilheyri núna 3. stærsta flokki landsins. Og mér er eiginlega nokk sama. Tölum um eitthvað sem skiptir mig máli. Til dæmis það að Samfylkingin vilji fara inní ESB! Það er nú fjör.

Annars í kvöld eru það hinir sænsku snillingar Peter, Björn og John – sem ég og Jens ætlum að fara á á Nasa. Svíþjóð er einmitt í ESB og þess vegna verða þetta góðir [tónleikar](http://www.last.fm/event/126527).

Og já, ég er með hausverk þriðja daginn í röð. Þetta fer að verða pirrandi. Stefni á að fá mér bjór á eftir til að reyna að losna við þennan óþverra. Tveir bollar af grænu te-i með ginseng hafa ekki virkað, þannig að bjórinn er mitt síðasta úrræði.

Hausverkur

Ég vil leggja fram opinbera kvörtun yfir því að ég skuli vera með fáránlegan, dúndrandi hausverk annan daginn í röð. Ranglæti heimsins er óendanlegt.

67% íslenskra stelpna á föstu?

Fyrir 4 árum skrifaði ég pistil á þessa síðu, sem vakti talsverða athygli: “[Eru allar stelpur á Íslandi á föstu?](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/)”. Þá var ég tiltölulega nýfluttur til Íslands og hafði lent í því nokkrum sinnum að reyna við stelpur á skemmtistöðum, sem reyndust vera á föstu (og reyndar líka lent í því að stelpur sem voru á föstu voru að reyna við mig). Ég fór því að velta því fyrir mér hvort það væru actually einhverjar stelpur á lausu á Íslandi.

Meðal þess sem ég skoðaði og skrifaði um þá, var hlutfall keppenda í Ungfrú Ísland keppninni það árið, sem voru á lausu. Niðurstaðan á þeirri “rannsókn” var sú að **67% stelpnanna í keppninni voru á föstu**.

Nú var ég á föstu í fyrra þegar þetta fegurðarsamkeppnistímabilið stóð yfir og því var ekkert skrifað um þær keppnir á þessari síðu – aðallega til þess að forðast beittar háðsglósur frá minni fyrrverandi. Nú er ég hins vegar á lausu aftur og get því skrifað einsog mig lystir.

* * *

Fyrir tveim árum skrifaði ég reyndar ekki heldur um það hversu margar stelpur í keppninni væru á föstu, heldur [fókuseraði ég á hugmyndaleysi keppenda þegar að kom að því að lýsa hinu fullkomna laugardagskvöldi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/05/13/22.39.35/). Þá voru megin niðurstöðurnar þær að sjónvarpsgláp væri nokkurn veginn það mest spennandi, sem keppendur gætu hugsað sér að gera á laugardagksvöldi.

Ég fékk í síðustu viku í hendurnar blaðið *Flass Magazine*, þar sem stelpurnar í Ungfrú Reykjavík eru teknar i viðtal. Þar eru þær allar spurðar sömu spurninga og ein þeirra er: “[Ertu] Á lausu?” Stelpurnar í þessari keppni eru allar nema ein á aldrinum 18-21 (ein er 22 ára). Mér fannst því alveg tilvalið að skoða hvernig ástandið er á sambandsmálum keppenda árið 2007. Og hverjar eru niðurstöðurnar?

Jú, **67% keppenda í Ungfrú Reykjavík eru á föstu**!

Finnst engum þetta jafn magnað og mér? Semsagt, 12 af 18 stelpum eru á föstu. Ein er reyndar í vafa, svarar “hægt er að deila um það” – en ég gef mér að hún sé líka á föstu.

Er þetta tilviljun, eða er þetta eitthvað stórundarlegt náttúrulögmál að 67% íslenskra stelpna á þessum aldri séu alltaf á föstu? Þetta er allavegana mjög dularfullt.

🙂

* * *

Önnur spurning sem vakti athygli mína er það hvaða stjórnmálaflokk stelpurnar ætla að kjósa í vor. Niðurstöðurnar í þeirri skoðanakönnun eru athgyglisverðar

Frjálslyndi flokkurinn: 1 atkvæði
Vinstri Grænir: 1 atkvæði
Óákveðnir eða vilja ekki svara: 16 atkvæði

Jammmm…