Áföll í kvennamálum

Ja hérna, það dynja á manni áföllin í kvennamálum.

Fyrst tilkynnti Jens mér það fyrir nokkru að Natalie Imbruglia væri að giftast söngvaranum í Silverchair, sem er áströlsk rokkhljómsveit, sem ég hlustaði einu sinni á. Ég varð yfir mig hrifinn af Natalie þegar ég sá Torn myndbandið fyrst. Vá, hvað hún var mikið æði þá (ekki það að hún líti eitthvað verr út í dag). Þetta er allavegana gríðarlegt áfall fyrir mínar framtíðaráætlanir

Svo komst ég að því fyrir nokkrum dögum að Brooke Burke er líka gift og á m.a.s. tvö börn.

Ok, gott og vel. En ég hef þó allavegana Britney, hugsaði ég. Og þá dynur áfallið yfir. Hún giftir sig í Las Vegas einhverjum lúða með stór eyru. Sem betur fer þá er tilkynnt nokkru seinna að hjónabandið hafi verið ógilt.

Þannig að tæknilega séð á ég ennþá sjens.

Hárið mitt, annar hluti

Ég veit að mörgum lesendum þessarar síðu finnst ég alls ekki tala nóg um hárið á mér. Ég hef einhvern tímann talað um að hárið sé alltaf voða krúttulegt daginn eftir fyllerí, sérstaklega strax þegar ég vakna. Þá er það mun flottara heldur en á djamminu daginn áður. En lesendur hafa bent á að það sé ekki nóg að fjalla um hárið á mér á nokkura mánaða fresti og því ætla ég að bæta úr þessum hárumfjöllunarskorti hér og nú. (ok, viðurkenni að þetta er helber lygi, en mig vantaði bara inngang)

Ég hugsa nefnilega frekað mikið um hárið á mér. Af einhverjum ástæðum, þá er hárið á mér aldrei eins tvo daga í röð. Menn þurfa ekki nema að fara í gegnum myndirnar, sem eru á þessari síðu til að sjá margar mismunandi útgáfur af hárinu mínu.

123456789

Ég er einnig alveg fáránlega latur við að fara í klippingu. Helst fer ég ekki í klippingu fyrr en ég hef upplifað 3-4 daga í röð, þar sem ég get ekki fyrir mitt litla líf greitt mér almennilega. Fyrstu tveim dögunum eyði ég í afneitun og reyni að sannfæra mig um að þetta sé millibilsástand. Á þriðja degi verð ég verulega pirraður og á þeim fjórða panta ég klippingu. Núna fer ég uppá Hótel Sögu í klippingu, sem er mikið upgrade frá SuperCuts, sem ég sótti í Bandaríkjunum. Þar unnu alltaf innflytjendur, sem skildu lítið í ensku og því var það algjör tilviljun hvort klippingin myndi takast.

Vandamálið við hárið á mér er að ég get aldrei sætt mig við stutta klippingu. Ég er alltaf að safna síðara hári. Þetta stjórnast kannski einna helst af áróðri fyrrverandi kærustu og mömmu um það að ég sé svo mikið krútt þegar ég er með síðara hár. Og ég vil ekkert meira í þessum heimi heldur en að vera krútt.

Þess vegna er ég alltaf harðákveðinn í því að komast í gegnum 4 daga af hræðilegu hári, en einhvern veginn þá gugna ég alltaf. Þess vegna næ ég aldrei þeirri sídd, sem ég stefni á (by the way, ég var einu sinni síðhærður og það var hræðilegt. Úff, það geri ég aldrei aftur. Það og að lita hárið á mér svart eru án efa stórkostlegustu mistök á hárferli mínum).

Á nýársdag í hræðilegustu þynnku seinni tíma, þá fékk ég þá snilldarhugmynd að snoða mig. Ég hef gert það nokkrum sinnum á ævinni. Í fyrsta skipti, sem ég gerði það þá var ég snoðaður af félögum mínum í handboltanum í Stjörnunni. Það var hroðaleg lífsreynsla, enda fékk ég nánast taugaáfall þegar ég sá mig í spegli. Síðan þegar ég var svona 20-21 árs þá var ég snoðaður í nokkra mánuði. Það var bara helvíti gaman. Ég hafði aldrei áhyggjur af hárinu og því var þetta mun minna vesen.

Núna stefni ég semsagt að því að snoða mig. Ég er þó ekki alveg ákveðinn og því ætla ég að pæla í þessu í svona viku áður en ég læt verða af þessu. En það er margt sem mælir með þessu. Tveir af uppáhaldssnillingunum mínum eru jú snoðaðir í dag; Michael Owen og Justin Timberlake, þannig að ég verð voðalega inn (eða það vil ég allavegana telja mér trú um 🙂

Ok, ætla aðeins að sofa á þessu.

Leiðir að góðu djammi

Fór á óvænt djamm í gær. Óvænti parturinn er einmitt það, sem gerir djamm geðveikt skemmtilegt. Við vinirnir vorum að kveðja Genna og Söndru vini okkar. Ég átti ekki von á því að djamma en einn bjór á Sólon varð að nokkrum fleiri (sjá myndir 1 2 og ekki má gleyma gellunni á næsta borði)

Hópurinn minnkaði smám saman þegar leið á kvöldið en þeir allra hörðustu enduðu á Hverfisbarnum, þar sem ég hitti fulltaf skemmtilegu fólki. Gaman gaman. Og svo vaknaði ég í morgun klukkan 10 og var ekki með neina þynnku. HÆ hó jibbí jei. Hef ekki tekið eina hausverkjapillu! Hef bara hellt mér uppá nokkra kaffibolla vegna svefnleysis.


Er núna búinn með season 4 af Cold Feet og á bara það síðasta eftir. Þetta eru alveg magnaðir þættir. Þarf að finna mér eitthvað nýtt áhugamál þegar ég er búinn með þetta season, því þessir þættir eru búnir að einangra sjónvarpsgláp mitt undanfarna daga. Er reyndar búinn að kaupa fyrsta season af Six Feet Under, sem mig hlakkar til að horfa á. Og svo má 24 fara að byrja. Bíð mjööög spenntur, enda elska ég þá þætti.

uppfært: Ég var að fatta að þessi titill á færslunni meikar nákvæmlega ekkert sense. Þetta átti að vera eitthvað um nokkrar leiðir að vel heppnuðu djammi. Til dæmis að djammið væri óvænt, það væri engin þynnka daginn eftir, maður hitti sætar stelpur og skemmtilegt fólk o.s.frv. En svo varð úr bara hálf ómöguleg færsla um sjónvarp og upptalning á djammi. Oh well…

Áramótin

Hólí fokking krapp hvað þetta Áramótaskaup var lélegt!!! Dr. Gunni skrifar góða gagnrýni um skaupið hér. Ég veit ekki hvort einhverjum á landinu fannst þetta fyndið en í boðinu, sem ég var í var fólk frá 6-63 og ENGUM fannst þetta fyndið. Ef það hefði verið eitt atriði í viðbót með Ingibjörgu Sólrúnu, þá hefði ég fríkað út. Ég vil fá skattpeningana mína tilbaka, takk.

Annars var kvöldið frábært. Fór á brennuna í Garðabæ og dó næstum því úr kulda af því að spekingunum, sem sáu um brennuna, tókst bara að kveikja í svona 10% af henni.

Annars þá fór ég í tvö fjölskylduboð og svo í partí með Friðrik, Thelmu og þessum snillingum. Fórum síðan á Stuðmenn á Nasa. Systir mín gerði grín að mér og sagði að ég væri orðinn gamall víst ég væri að fara á Stuðmenn, en ég hlusta ekki á svona bull. Sama hvað verður sagt um þessa hljómsveit, þá eru fáar hljómsveitir, sem ég vildi frekar hlusta á eftir 6 vodka glös. Allavegana, þá var þetta meiriháttar gaman. Í annað skiptið á hálfu ári, sem ég hef farið á Stuðmenn á Nasa og þetta var alveg jafn skemmtilegt og síðast.

Ég labbaði síðan heim og var næstum því dottinn svona fimm sinnum, jafnvel þótt ég hefði fengið lánaða skó hjá pabba. En semsagt, frábær áramót. Kannski ennþá betri af því að klukkan 5 í gær hafði ég ekki hugmynd hvort ég myndi gera eitthvað skemmtilegt.

Jólafærslan

Jólin eru búin að vera fííín. Hefðbundin jólaboð, sem hjá minni fjölskyldu er fá en góð. Setti sennilega met í nammiáti á jóladag, sem ég mun seint slá.

Fékk góðar gjafir, en það skringilega er að mér finnst núna í alvöru skemmtilegra að gefa gjafir en þiggja. Veit ekki hvenær það gerðist í mínu lífi, en allavegana var ég mun spenntari að sjá viðbrögð þeirra, sem ég var að gefa, heldur en þegar ég var að taka upp mínar gjafir.

Allavegana, fékk fínar gjafir frá fjölskyldunni og var mjög sáttur. Á jóladag og annan í jólum eyddi ég mestum tímanum fyrir framan sjónvarpið, sem var afskaplega þægilegt. Í gær og í dag þurfti ég að vinna uppá veitingastað, þar sem við vorum svo indælir að gefa kokkinum okkar frí á milli jóla og nýárs.


Hef ekkert djammað um jólin, aldrei þessu vant. Spilaði með vinum mínum á annan í jólum og var þá í tapliði í Trivial Pursuit í fyrsta skipti í laaangan tíma.


Horfði á The Two Towers og ég verð að játa að sú mynd olli mér dálitlum vonbrigðum. Þetta eru góðar myndir, en ég er ekki sammála þessum yfirgengilegu yfirlýsingum hjá sumum um hversu ofboðslega frábærar þær eru. Mjög góðar myndir, en eiga ekki alveg skilið þetta ómælda hrós, sem þær hafa fengið. Held í raun að engar myndir geti staðið undir þessum hrósum, sem maður hefur heyrt um myndirnar.


Íbúðin mín er hreeeeein, sem er yndislegt. Held að það sé í fyrsta skipti, sem þessi íbúð er hrein síðan ég hóf niðurrifsstarfsemi einhvern tímann í september


Já, og by the way, veit einhver um sniðugan ókeypis teljara? Annaðhvort á netinu, eða sem maður setur upp sjálfur (ég er með Windows IIS). Ef teljarinn er virkilega góður má hann jafnvel kosta eitthvað smá.

Jólakort

Gleðileg Jól!

Ok, þetta er jólakortið, sem ég sendi ekki út. Ég er búinn að fá fullt af jólakortum frá vinum og fæ alveg geðveikt samviskubit yfir því hvað ég er slappur í skrifunum.

Ég keypti meira að segja jólakort og byrjaði að skrifa eitt en gafst einhvern veginn upp á endanum. Ætla ekki að reyna að afsaka mig neitt. Segi bara sorrí, ég skal vera duglegri næst.

Allavegana, ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla! Vona að allir hafi það sem bestu um jólin.

Takk fyrir allt! 🙂

Deiglujól

Vá, hvað þessi grein á Deiglunni er mikil snilld: Einhleyp(ur) um jólin. Án efa besta grein, sem ég hef lesið á Deiglunni. Ég stó mig að því að skella uppúr nokkrum sinnum.

Jólin miðast nefnilega við þetta snargeggjaða parasamfélag þegar á fullorðnisár er komið. ,,Það er allt breytt vegna þín, þú komst með jólin með þér…úúúú….ég vil eiga jólin með þéééér!!!” Eða þá ´Blue Christmas´ sem gengur út hvað jólin séu ömurleg ef maður er ekki með maka sér við hlið. Það er aldrei sungið um hvað það sé frábært að vera einhleypur um jól, enda er það ekkert frábært.

Þegar haldið er svo til dæmis í jólaboðin komum við einhleypu oftar en ekki í bíl með foreldrum okkar og sitjum aftur í spennt niður í sætin eins og börn. Pörin koma hins vegar saman á litlum Toyota Corolla-bílum skælbrosandi og sæl.

Vá, hvað þetta er fyndin grein. Þið verðið að lesa hana It’s so funny because it’s true. Ég upplifið það í fyrra að fara í jólaboð single eftir að hafa verið með sömu stelpunni í þessum boðum í fjögur ár. Það var martröð líkast. Í útlöndum væru menn farnir að ókyrrast yfir því að vera ekki giftir um 35, en hérna gerist það þegar fólk verður 22. Jedúddamía…

Annars eru jólin allt öðruvísi þegar maður er single. Einhvern veginn nenni ég ekki að eyða neinum tíma í jólagjafainnkaup, heldur rýk inn og út úr verslunum á mettíma. Einnig sé ég mig ekki standa í miðri stofunni, skreytandi jólatréið. Fyrr held ég að ég myndi gráta mig í svefn heldur en að standa í slíkum stórræðum.

Annars ætla ég bara að njóta þeirra kosta, sem fylgja því að vera single um þessi jól, það er að geta legið uppí sófa og spilað í xbox án þess að hafa neitt samviskubit yfir því að ég sé ekki að gera eitthvað skemmtilegt með hinum aðilanum.

En varðandi jólin þá er ég ekki einn um að ganga í gegnum yfirheyrslu, augngotur og vorkunn. Þess vegna legg ég til að við einhleypu stofnum með okkur samtök, og tökum upp hentistefnusambönd um jól. Kaupum e-ð handa okkur sjálfum sem okkur hefur lengi langað í og skrifum á jólakortin ,,Til mín frá þér.” Tækjum fullan þátt í hátíðarhöldunum og yfirborðssamræðunum með hinum pörunum, sem þá hafa misst öll vopn úr hendi sér og slítum síðan samvistum á Nýársdag. Þá verðum við aftur frjáls og öfundarefni kófsveittra joggingpara sem hafa misst eina tækifærið til að láta okkur hafa það. Einhleyp…pörum okkur saman um jólin og lýsum yfir stríði á hendur þessu geggjaða parasamfélagi. Sameinuðu stöndum vér, sundruð djömmum vér!

Þessi Guðfinnur ætti að skrifa oftar á Deigluna!

Eeeeeeh

Mér tókst að fara á djamm í gærkvöldi. Tveir miklir snillingari sáu til þess. Fórum á Sólon og Felix og skemmtum okkur frábærlega. Ætluðum fyrst inná Hverfis, en biðröðin þar klukkan 1 var fáránleg. Því enduðum við á Sólon, þar sem var engin biðröð.

Inná Sólon dönsuðum við heillengi, en vorum á endanum orðnir þreyttir, svo við fórum á Felix, sem er afskaplega skrítinn staður. Ég hætti mér varla á hliðargangana, enda er fólk í hinum misjöfnustu athöfnum þar samkvæmt myndasíðunni á staðnum.

Eyddi mestum tíma á dansfólfinu, sem er skrítinn staður. Uppá sviðinu dansaði hópur af Könum, sem virtust kunna lög, sem ég hef aldrei heyrt áður, utanbókar. Stelpurnar voru ekki jafn sætar og á Sólon en þær virtust þeim mun meira vera á þörfinni. Allavegana var klipið heldur oft í rassinn á mér á þessum stutta tíma, sem ég var þarna inni.

Annars þá var kvöldið frábært. Alger snilld! 🙂


Sá magnaði atburður gerðist í gær að í íbúðinni minni var enginn bjór til. Þess vegna drakk ég rauðvín í gær, alveg þangað til að ég fór inná skemmtistaðina þegar ég skipti yfir í vodka (er það ekki full gay að drekka rauðvín inná bar?). Allavegana, í dag var ég ekkert þunnur! Yndislegt, alveg hreint. Kannski er rauðvín bara málið.

Jólastúss

Dagurinn i dag átti að vera ótrúlega gagnlegur í jólastússi. Ég var búinn að ákveða að byrja (og klára) jólagjafainnkaup í dag.

Þau plön fuku útí buskann þegar hitaborðið á Serrano í Hafnarstrtæti fór yfirum. Við tók stress við að redda viðgerðarmanni á laugardegi. Okkur var tjáð að það væri ekki hægt að laga borðið um helgi, svo við þurftum að fá lánað annað borð hjá heildsalanum, sem kom nú fyrir stuttu.

Samt tókst mér eitthvað að versla. Þessi jól eru önnur jólin í röð, sem ég er ekki með stelpu, þannig að ég slepp alveg við erfiðustu gjöfina. Það hefur sína kosti og galla, þar sem maður sleppur við þann hausverk að finna eitthvað frumlegt og sniðugt, en aftur á móti þá fannst mér það alltaf nokkuð skemmtilegt að pæla í þeirri gjöf.

Allavegana, þá eru þetta aðallega gjafir handa foreldrum, yngri systur minni og svo gjafir handa börnum eldri systkina minna. Ég er alltaf langbestur í gjöfum handa litlu krökkunum, því mér þykir ennþá gaman að fara inní dótabúðir.

Fór í fyrsta skipti inní Accessorize í Kringlunni og stóð þar einsog álfur í nokkrar mínútur, þar til ég fékk eina stelpu til að hjálpa mér að finna gjöf. Sú búð er ekki gerð fyrir stráka, það get ég sagt ykkur!

Annars langar mig að djamma í kvöld, en það lítur svo sem ekkert alltof vel út.

Hmmm… og var í Byko áðan og spáði í því hvort ég ætti að kaupa mér jólaskraut fyrir íbúðina mína en hætti við. Ég er alveg ferlega slappur í skreytingastússi. Er ekki með neitt, sem minnir á jólin hérna í íbúðinni.

Jú, nema smákökurnar sem mamma bakaði. Þær eru reyndar að vera búnar, sem gæti stafað af tvennu: Mamma bakaði of lítið, eða ég hef borðað of mikið.

Svoooooo þunnur

Djamm í gær, þynnka í dag.

Þegar ég sat með stelpum, sem ég þekki, í hornsófanum niðri á Hverfisbarnum, þá áttaði ég mig á merkilegum hlut: Það er alveg óhemju mikið af sætum stelpum á Íslandi oooooog það er alveg óhemju mikið af glötuðum gaurum á þessu landi.

Annars skemmti ég mér alveg stórvel með góðum vinum.

Ef maður getur dæmt stað af myndum, þá virðist Felix vera alveg ferlega sjúskaður staður. Djamm myndirnar af þeim stað eru magnaðar. Sérstaklega þessi