Indlandsferð 4: Thar eyðimörkin

Í annað skiptið á ævinni er ég núna að drepast í löppunum eftir úlfaldaferð. Ég fór í eftirminnilega ferð á úlfalda í Jórdaníu og núna sitjum við Margrét á veitingastað og jöfnum okkur eftir tveggja daga úlfaldaferð í Thar eyðimörkinni rétt hjá landamærum Pakistan. Við erum að bíða eftir því að kveikt sé á heita vatninu á gistiheimilinu okkar svo við getum loksins farið í sturtu.


Ég skrifaði síðast af þaki gistiheimilsins okkar í Jodhpur með útsýni yfir Mehrangarh virki. Við heimsóttum það síðan á sunnudaginn. Virkið er í dag safn, sem er viðhaldið af kónginum yfir Marwar, sem hefur í dag engin raunveruleg völd. Við fórum um það með audiotúr í eyrunum, sem var skemmtilegur og fræðandi. Mehrangarh virkið er gríðarlega stórt og það er auðvelt að sjá hvers vegna engum óvinaher tókst að sigrast á því. Inní því er konungshöllin, sem er undirstaða safnsins og svo er hægt að labba um virkisveggina, sem bjóða uppá frábært útsýni yfir Jodhpur.

Útsýni yfir bláu borgina, Johdpur

Við vorum hrifin af borginni þótt hún glími vissulega við sömu vandamál og aðrar indverskar borgir – skít, hávaða, umferð og gríðarlega mengun. Gamla borgin er einsog völundarhús af litlum götum og bláum húsum (ansi mörg húsanna í borginni eru máluð blá – það kælir þau og ver þau gegn flugum). Við eyddum ágætum tíma á markaðinum og borðuðum svo bestu máltíð ferðarinnar á frábærum veitingastað og drukkum með henni indverskt rauðvín og viskí.


Frá Jodhpur tókum við rútu hingað til Jaisalmer, sem liggur við Thar eyðimörkina. Öll húsin eru gul, byggð úr sandlitum múrsteinum og líkt og Jodhpur þá er stórt virki miðpunktur borgarinnar. Virkið hérna í Jaisalmer er reyndar miklu minna en í Jodphur, en á móti kemur að í virkinu hér er ennþá búið. Þar búa um 2.000 manns og auk þess eru fjölmörg hótel. Fjöldi hótela hefur valdið vandræðum því að fráveituvatn frá þeim hefur byrjað að síjast oní jörðina undir virkinu og ógnað stöðugleika þess. Ferðahandbækur mæla því sumar gegn því að fólk gisti innan virkisveggjanna.

Fyrsta daginn okkar í Jaisalmer skoðuðum við virkið, safn inní virkinu, markaðinn og keyptum okkur nokkra hluti, sem við þurftum fyrir eyðimerkur-ferðina, svo sem slæður til að verjast sólinni.

Flestir þeir, sem koma hingað til Jaisalmer fara héðan í ferð á úlfalda útí Thar eyðimörkina. Við vildum ekki vera öðruvísi og pöntuðum okkur tveggja daga ferð. Ég mundi það vel eftir Jórdaníu hversu þreyttur ég var eftir þriggja klukkutíma setu á úlfalda, en flestir mældu með þessari lengd á ferð. Við vorum í 6 manna hóp með pari frá Póllandi og pari frá Kanada/USA. Fyrst vorum við keyrð í jeppa að Bada Bagh, þar sem við skoðuðum minnismerki um dána kónga og síðar keyrði jeppinn okkur áleiðis að eyðimörkinni þar sem að hópur úlfalda tók á móti okkur ásamt gædunum okkar.

Margrét á úlfalda

Við tók svo 6 tíma labb inní eyðimörkina á úlfalda, sem var brotið upp með löngum hádegismat undir tré einhvers staðar á leiðinni þar sem við borðuðum hefðbundinn indverskan mat – blómkál, kartöflur og Chapati brauð, sem að sumir Indverjar borða með öllum mat -ekki ósvipað og Mexíkóar gera með tortillur. Um 6 leytið komum við svo að sandgryfjum, þar sem við gistum um nóttina.

Það tekur verulega á að sitja á úlfalda svona lengi. Úlfaldar eru það stórir að ístað myndi sífellt nuddast inní þá og því situr maður á úlfalda með hangandi lappir. Það setur gríðarlega pressu á innanverð læri og eftir nokkra klukkutíma verður verkurinn frekar slæmur. Við vorum því verulega þreytt þegar við komum að sandgryfjunum í gærkvöldi. Við borðuðum þar Dahl (linsubaunir) og Chapati í kvöldmat og eftir að hafa setið við varðeld sváfum við á þunnri dýnu á sandinum undir berum og stjörnubjörtum himni. Það var orðið verulega kalt þegar við fórum að sofa – veðrið var ekki það gott um daginn – og því var búið um okkur í svefnpoka og með 3 teppum oná, þannig að okkur yrði ekki kalt.

Thar eyðimörkin

Í morgun vaknaði ég frekar stirður – eyðimörkin er ekki gott rúm – og auk þess var ég stífur eftir úlfaldalabb gærdagsins. Við löbbuðum svo í um 4 tíma í dag í áttina að Jaisalmer. Veðrið var fallegra í dag og á tíma þegar við vorum að labba í gegnum gróðurinn í sólinni, þá var útsýnið ótrúlega magnað. En þreytan í líkamanum var orðin slík að eftir hádegismat þá vorum við alveg komin með nóg af úlföldum. Úlfaldarnir okkar voru nokkuð góðir, fyrir utan það hversu mikið þeir reka við framan í úlfaldann á eftir sér – sérstaklega úlfaldinn hennar Margrétar, sem var á undan mér. Einnig voru úlfaldatemjararnir með einn auka úlfalda, sem þeir voru að þjálfa (hann er sjö ára, hinir sem við vorum á eru 10-12 ára), sem að gaf frá sér mikil öskur þegar þeir voru að fá hann til að setjast niður.


En núna erum við semsagt komin aftur inná hótel dauðþreytt eftir ævintýri síðustu daga, með sand útum allt. Við ætlum að eyða nóttinni hérna í Jaisalmer og seinni partinn á morgun tökum við svo næturlest til Jaipur. Þaðan er planið að heimsækja Ranthambore þjóðgarðinn, þar sem við gerum okkur veika von um að sjá tígrisdýr.

Skrifað í Jaisalmer, Indlandi klukkan 18.20

Áramótaávarp 2010

Klukkutími í áramótapartí og ég hef ekki skrfað á þessari bloggsíðu síðan að ég kom heim.

Jólin hafa verið snilld. Ég og Margrét eigum frábærar fjölskyldur og bestu vini í fokking heimi. Þrátt fyrir að Margrét hafi verið með pestina þá höfum við gert eitthvað skemmtilegt á hverjum einasta degi. Ótal heimboð, kvöldmatarboð, útifótbolti, hádegismatarboð, kaffiboð, Alias spilakvöld, dinnerar á veitingastöðum, snilldar jólapartí, jólaboð, jólabrunchar, tónleikar, trylltur dans útá Granda, póker og Fifa með vinunum og svo framvegis. Þetta hefur verið frábært. Yndislegt.

Þetta ár er líka búið að vera frábært. Þetta er árið, sem við Margrét trúlofuðum okkur á hliðargötu í Róm. Árið sem að okkur leið loksins einsog Serrano myndi meika það í Svíþjóð – við opnuðum þrjá glæsilega staði og unnum virt verðlaun.

Við Margrét eignuðumst köttinn Torres. Við fórum til Egyptalands, sáum píramídana og köfuðum í Rauða Hafinu. Ég bauð Margréti til Íslands á 25 ára afmælinu hennar, sem við fögnuðum með vinum okkar á Kaffibarnum. Við komum líka heim í 70 ára afmæli mömmu og til að labba á Norðurlandi. Við vorum líka í Brekkusöngnum á Þjóðhátíð.

Ótrúlega margir vinir okkar heimsóttu okkur í Stokkhólmi og við ferðuðumst líka um Svíþjóð – fórum í útilegu í Skerjagarðinum, keyrðum til Malmö og heimsóttum vini okkar í Lundi. Keyrðum svo til Köben og hvöttum vin okkar á CrossFit móti.

Á næsta ári ætlum við að fara í langt ferðalag og næsta sumar ætlum við Margrét að gifta okkur. Lífið er fokking frábært og maður áttar sig á því þegar maður kemur heim til Íslands hversu ótrúlega heppin við erum með fólkið í kringum okkur.

Gleðilegt ár.

Aftur í Stokkhólmi

Ég er kominn aftur til Stokkhólms eftir frábæra Íslandsferð. Afrekaði að fara í sumarbústaðarferð, útilegu og á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina. Fór svo í göngu í Flateyjardal þar sem ég var næstum því fótbrotinn/dauður og djammaði svo á Kaffibarnum til klukkan 2 á laugardaginn, en náði samt að vera mættur í taxa útá BSÍ klukkan 5. Það þykir mér gott.

Mér líður núna einsog ég hafi bætt á mig 5 kílóum á Íslandi eftir ís/nammi/pizzu/lambakjöts-át undanfarinna daga. Núna skal hlaupaprógrammið sett á fullt enda ekki nema mánuður í hálf-maraþonið.

Hálf maraþon – önnur tilraun

Jæja, ég skráði mig í kvöld í Stokkhólms hálfmaraþonið, sem fer fram 11.september.

Ég prófaði að hlaupa hálfmaraþon í fyrra og fór þá svipaðan hring og er hlaupinn í Stokkhólms maraþoninu á 1 klukkutíma og 51 mínútu. Ég stefni á að fara á 1 klukkutíma og 35 mínútum í þetta skiptið. Ég tel það sæmilega bjartsýnt takmark. Í dag er ég ekki í eins góðu hlaupaformi og ég var í í fyrra, en á móti er ég í mun betra almennu líkamlegu formi eftir að hafa æft CrossFit síðan í september. Hins vegar er enn talsverður tími í hlaupið, svo ég ætti að geta komið mér í betra hlaupaform.

Ég ætla að leggja aðeins meiri áherslu á að hlaupa á jöfnum hraða núna og smám saman byggja upp þol til þess að ég geti klárað þetta á 1.35. Það þýðir að ég þarf að fara hvern kílómeter á sirka 4 og hálfri mínútu, sem er talsvert hraðara en ég er vanur að hlaupa á þegar ég hleyp lengri hlaup. Planið næstu þrjá mánuði er að æfa CrossFit þrisvar í viku og á móti hlaup þrisvar í viku. Ég held að ég sjái svo fljótt hvort ég get klárað þetta á þessum tíma.

10 ár

Ég er frekar slappur í því að halda utanum stóra áfanga á þessu bloggi.  Oftast er það þannig að ég les færslu hjá Gumma Jóh þar sem hann fagnar sínu bloggafmæli og þá man ég að ég hef gleymt bloggafmælinu mínu.  Ég byrjaði nefnilega að blogga nokkrum vikum á undan honum.

Þetta blogg er núna orðið 10 ára gamalt.  Það er ótrúlegt.  Fyrstu færsluna skrifaði ég á þetta blogg 22.apríl 2000.  Þá notaði ég Blogger.com, sem var á þeim tíma nokkuð nýtt tól.  Það voru ekki mörg blogg á Íslandi – ég man að ég las blogg hjá Björgvin Inga og Geir Freys, en mikið fleiri voru þau ekki bloggin á Íslandi þá.  Fyrstu árin var þetta frekar þröngur hópur, sem bloggaði reglulega, mest strákar á milli tvítugs og þrítugs.

Áhugi minn á bloggi hefur komið og farið í gegnum árin.  Í byrjun var þetta rosalega gaman.  Færslurnar á mínu bloggi voru alltaf mjög stuttar, en ég bloggaði á tímum oftar en einu sinni á dag.  Með auknum vinsældum bloggsins hefur áhugi minn aðeins dafnað.  Í dag eru blogg um pólitík alltof áberandi á Íslandi.  Flest bloggin á Mbl og á Eyjunni virðast fjalla nær eingöngu um pólitík og ég les ekki mörg þeirra.  Það vantar blogg frá skemmtilegu fólki, sem hefur frá einhverju áhugaverðu að segja – ekki bara fólk sem hefur skoðanir á öllu, sem er að gerast á Íslandi.  Mér finnst til dæmis ótrúlegt að það skuli ekki vera til fleiri skemmtileg blogg um tónlist, sjónvarp, bíó, íþróttir og svo framvegis.

Liverpool bloggið, kop.is – sem í dag er mun vinsælla en þessi síða – er nokkurs konar afsprengi þessa bloggs og bloggsins hjá Kristjáni Atla.  Ég skrifaði alltof mikið um fótbolta á þessa síðu og síðustu mánuðirnir áður en við stofnuðum Liverpool bloggið voru einmitt líka síðustu mánuðir Houllier hjá Liverpool, þannig að pistlar mínir um Liverpool voru ekki beint jákvæðir.  Síðan að við stofnuðum Liverpool bloggið hefur sú síða vaxið gríðarlega í vinsældum og er haldið uppi af frábærum pennum, sem skrifa með mér og Kristjáni, og gríðarlega góðum hópi af málefnalegum og skemmtilegum lesendum.

* * *

Áhuginn minn á þessu bloggi hefur kannski verið meiri í gegnum árin.  Síðustu 2 árin hef ég fært rosalega mikið af því, sem ég hefði einu sinni bloggað um, yfir á Twitter eða Facebook.  Þar fæ ég meiri og fljótari viðbrögð fólksins í kringum mig (auk þess að margir gamlir bloggarar eru vinir mínir á Facebook) og því hef ég oftast meira gaman af þeim miðlum.  Ég hef þó aldrei hætt að blogga hérna – og held að í þessi 10 ár hafi aldrei liðið meira en 2 vikur á milli færslna.  Og mér finnst enn gott að hafa bloggið sem vettvang þegar að ég vil tjá mig um eitthvað.  Heimsóknum á þessa síðu hefur líka eitthvað fækkað í gegnum árin eftir því sem að ég set inn færri færslur.

Áherslurnar hafa líka breyst.  Áður var ég gríðarlega fljótur að blogga um eitthvað, sem ég var pirraður yfir.  Núna bíð ég oftast í talsverðan tíma áður en ég skrifa um eitthvað, sem ég er æstur yfir.  Ég blogga líka mun minna um pólitík og er oftast mun kurteisari en ég var fyrstu árin.  Kannski er það aldurinn og eflaust er það líka að vegna Serrano finnst mér ekki passa að ég sé að æsa mig um of á blogginu mínu.

* * *

Stelpubloggin hafa líka breyst með aðstæðum mínum.  Ég er búinn að búa í þremur löndum, Bandaríkjunum, Íslandi og hér í Svíþjóð og aðstæður í mínu einkalífi hafa líka breyst.  Ég er auðvitað að mestu hættur að skrifa um stelpur, enda tókst mér að finna ástina í mínu lífi.  Ég átti það líka til að blogga meira þegar að mér leið ekki vel og bloggið hjálpaði mér oft mikið.  Í dag er ég svo miklu hamingjusamari en ég var stóran hluta þessara 10 ára, að bloggið þarf að líða fyrir það.  Það er í góðu lagi.

* * *

Ég ætla að halda þessu bloggi áfram vonandi sem lengst.  Ég hef alltaf eitthvað að segja öðru hvoru og ég á vonandi eftir að fara í slatta af skemmtilegum ferðalögum, sem einhverjir hafa gaman af að lesa um.

Ég held örugglega að það sé til fólk þarna úti, sem hefur lesið þetta blogg nánast frá fyrsta degi.  Þeim og öllum öðrum, sem hafa lesið bloggið, þakka ég kærlega fyrir.  Þessi bloggsíða hefur gefið mér margt í gegnum árin og ég er alveg klár á því að líf mitt er miklu skemmtilegra í dag en það hefði verið hefði ég ekki tekið þá ákvörðun fyrir 10 árum að prófa að blogga.  Allt fólkið sem ég hef kynnst í gegnum bloggið og allar samræðurnar sem ég hef átt hafa gefið mér mikið.

Takk.

Fyrsta vikan á Kungsbron

Núna eru 10 dagar síðan að við opnuðum Serrano á Kungsbron. Einsog ég hafði skrifað hérna áður þá er þetta stóra prófið fyrir Serrano hérna í Svíþjóð, því þetta er staður á besta stað í miðbæ Stokkhólms.

Staðurinn hefur gengið gríðarlega vel fyrstu dagana. Það hefur verið biðröð útá gangstétt í hverju einasta virka hádegi síðan að við opnuðum og við þurftum að beina biðröðinni í annan farveg til þess að það gerðist ekki alltaf. Við vorum líka með stóran event á 5.maí, sem er hátíðsdagur í Mexíkó. Þá dreifðum við miðum um allan miðbæinn þar sem fólk gat fengið ókeypis burrito. Það er skemmst frá því að segja að úr því varð ein allsherjar geðveiki. Við afgreiddum á staðnum á Kungsbron fleira fólk en við afgreiddum í Kringlunni tveim dögum fyrir síðustu jól (sem var stærsti söludagurinn okkar hingað til).

Fyrir mig persónulega þá hafa þetta verið skemmtilegir dagar. Í fyrsta skipti í langan tíma hef ég unnið mikið sjálfur á staðnum í afgreiðslunni. Ég hef verið að taka á móti kúnnum við tortilla grillið og tekið við pöntunum frá fólki. Þetta hefur verið skemmtilegt og maður kemst í betri tengsl við staðinn og viðskiptavinina. Anders rekstrarstjóri hefur svo verið mikið í salnum að spjalla við kúnnana og það er óhætt að segja að viðbrögðin við matnum og staðnum hafi verið frábær hjá kúnnum. Þannig að við erum mjög bjartsýn fyrir framhaldið.

Hérna eru nokkrar myndir af staðnum:

Goseyjan og afgreiðslan á staðnum.
Salurinn
Salurinn.
Staðurinn að utan
Staðurinn að utan.

Einir heima – ég og Torres

Margrét er í Kaupmannahöfn um helgina. Það eru kannski ekki merkilegar fréttir, en þetta er samt sem áður í fyrsta skipti síðan við fluttum til Svíþjóðar í janúar 2009 sem við erum ekki saman. Núna um helgina höfum við því bara verið tveir hérna á Götgötunni, ég og kötturinn Torres.

Já, við Margrét fengum okkur nefnilega kött. Þetta er hreinræktaður british shorthair, sem er núna um 3,5 mánaða gamall. Margrét hafði mjög lengi reynt að tala mig inná þá hugmynd að kaupa gæludýr fyrir heimilið og eftir nokkra mánuði féllst ég á þá hugmynd og þessi köttur varð fyrir valinu. Við keyptum hann af konu, sem ræktar ketti rétt fyrir utan Västerås, vestur af Stokkhólmi. Ég fékk að velja nafnið á köttinn og varð Torres fyrir valinu, í höfuðið á mínum uppáhalds knattspyrnumanni.

Torres hefur búið hjá okkur í tvær vikur og það er ekki hægt að segja annað en að sá tími hafi komið mér skemmtilega á óvart. Ég hef jú aldrei átt gæludýr áður og því er þetta ný reynsla fyrir mig. Torres er einstaklega ljúfur köttur. Hann hefur nánast bara verið inni síðan að hann flutti til okkar (fyrir utan smá tíma á Nytorget um síðustu helgi) og þar flakkar hann á milli þess að vera í tryllingslegum eltingaleikjum við flugur um alla íbúð yfir í það að vilja liggja oná maganum mínum eða á milli lappanna minna og kúra. Hann er enn dálítið fyrir það að sjá hvað honum leyfist og hann stekkur ítrekað uppá eldhúsborð þrátt fyrir að hann viti greinilega að hann megi ekki gera það.

Það verður svo að segjast að það lífgar talsvert uppá íbúðina að hafa kött hérna, sérstaklega þegar að annaðhvort okkar er eitt heima. Það er gaman að vita til þess að kötturinn taki á móti manni þegar að maður kemur heim. Ég ætla þó að bíða með frekari yfirlýsingar um ágæti kattaeignar þangað til að Torres hefur búið hjá okkur aðeins lengur. En byrjunin lofar góðu.

* * *

Annars hefur þetta verið fín helgi. Á föstudagskvöldið kíkti ég með nokkrum strákum útað borða hérna á Södermalm og svo í afmæli til vinar míns í Saltsjö-Boo, þar sem var mjög gaman. Ég eyddi svo öðrum laugardeginum í röð í þynnku heima, en hef verið talsvert hressari í dag. Ég byrjaði á vorhreingerningum í morgun með fólkinu í húsinu og svo hljóp ég um miðbæinn.

Eitt það besta við að búa svona miðsvæðis í Stokkhólmi er hversu auðvelt það er að finna góðar hlaupaleiðir. Í dag hljóp ég um Gamla Stan, framhjá höllinni, yfir á Skeppsholmen og svo tilbaka framhjá Riksdag þinghúsinu. Veðrið var æðislegt og borgin lifnar ótrúlega við um leið og veðrið verður þolanlegt.

Annars verður þessi vika ábyggilega spennandi. Við munum opna Serrano á Kungsbron á fimmtudaginn og kvöldið áður verðum við með partí auk þess sem það er von á gestum frá Íslandi. Það er fátt skemmtilegra í þessum bransa en síðustu dagarnir fyrir opnun nýs staðar.

Egyptalandsferð 4: Rauða Hafið

Við Margrét sitjum hérna inná hóteli núna þegar að aðeins nokkrir tímar eru eftir af fríinu okkar. Klukkan 11 í kvöld eigum við flug til Kaíró og þaðan til Amsterdam og svo til Stokkhólms þar sem við eigum að lenda á hádegi á morgun.

Við höfum verið hérna í Sharm El-Sheikh í 5 daga og þetta hefur verið frábær tími. Tímanum hefur verið skipt á milli sólbaðs og köfunnar. 2,5 dagar í sólbaði og 2,5 dagar í köfun. Þessi tími í sólbaði er svo sannarlega nógu langur fyrir mig – ég mun seint skilja hvernig fólk endist mikið lengur í fríi við sundlaugarbakka.

Hápunktarnir hérna hafa klárlega verið kafanirnar hérna í Rauða Hafinu. Við höfum kafað sex sinnum hérna. Fyrsta köfunin var bara tékk-köfun, sem maður þarf oftast að fara ef langt er liðið síðan að maður kafaði síðast, þar sem við köfuðum bara við lítið rif hérna rétt hjá hótelinu. Við höfum svo farið í tvær dagsferðir þar sem við höfum kafað í þjóðgörðum hérna í nágrenni Sharm. Í fyrra skiptið vorum við í hinum fræga Ras Mohammed garði þar sem við köfuðum tvisvar og í gær köfuðum við þrisvar í Strait of Tiran.

Bæði skiptin voru stórkostleg. Ég hef farið í um 16 kafanir um ævina og það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega skemmtilegt þetta sport er. Bara það að geta verið á 20 metra dýpi í nánast algjöru þyngdarleysi og svifið þar um er nógu skemmtilegt. Þegar maður svo bætir við jafn stórkostlegu dýra- og plöntulífi einsog er hérna í Rauða Hafinu og þá eru fáar upplifanir sem að jafnast við það. Í gær vorum við með strák, sem tók myndir af okkur í köfununum og þær segja kannski meira en mörg orð og ég mun reyna að setja myndirnar inn þegar við komum heim en dýralífið var ótrúlegt. Við sáum endalaust magn af fiskum og skjaldbökum.

Ég hef núna kafað við strendur Belize, Indónesíu og Egyptalands og ég verð að segja að Rauða Hafið hefur vinninginn. Við erum þó bara búin að kafa á nokkrum af þeim fjölmörgu frábæru stöðum sem eru hérna í nágrenninu og seinna stefnum við á að koma aftur og kafa þá meðal annars í frægu skipsflaki, sem liggur hér nálægt.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 17*

Egyptalandsferð 3: You're a lucky man

Það er dálítið skrýtið að ætla að skrifa um Egyptaland hérna á hóteli í Sharm El-Sheikh. Mér líður einsog við höfum ekki bara flogið yfir Suez skurðinn og yfir á Sínaí skaga, heldur til annars lands.

Sharm El-Sheikh er jú þessi típíski sumardvalarstaður sem að ég hef böggast útí allt mitt líf. Hann gæti alveg eins verið á Taílandi eða á Spáni – hér er ekkert sem bendir frekar til að maður sé á Egyptalandi fyrir utan það að við sundlaugina eru nokkrar stelpur í fullum klæðum í sólbaði í stað þess að vera á bikiní.

* * *

Annars hafa Egyptar komið mér fyrir sjónir (fyrir SES) sem talsvert meiri frjálslyndir heldur en til dæmis Sýrlendingar. Þeir eru gríðarlega opnir og hafa áhuga á okkur Margréti – karlmennirnir hafa sennilega aðeins meiri áhuga á Margréti en mér, en þeir eru þó ófeimnir við að lýsa því yfir að ég sé heppnasti maður í heiminum.

Í Egyptalandi (utan SES) eru nánast allar stelpur með slæðu. Munurinn þó á Egyptalandi og til dæmis Sýrlandi er að hérna eru langflestar með litríkar slæður yfir hárinu, en svo klæðast þær annars bara venjulegum fötum. Mjög fáar eru hér í svörtum kuflum miðað við hvernig þetta var í Sýrlandi, Jórdaníu og Palestínu, þótt þær séu vissulega nokkrar. Einhvern veginn finnst manni einsog slæðan sé bara til málamynda – hún er bara einsog tísku fylgihlutur einsog hattur væri á Vesturlöndum. Ég hafði svo sem lesið um það áður að Egyptar væru afslappaðari og frjálslyndari en múslimar í hinum Mið-Austurlöndunum sem ég hef heimsótt og ég get ekki annað en samþykkt það ef ég á að dæma af þessari stuttu heimsókn.

* * *

Margrét náði sér að lokum af magapestinni og við náðum að skoða Alexandríu vel á miðvikudaginn. Við löbbuðum um alla borgina á þeim degi og skoðuðum helstu hluti, svo sem safn þar sem haldið var utanum glæsilega sögu þessarar borgar. Borgin var jú í mikilli lægð í hundruði ára og það olli því að hennar frægustu minnismerki hurfu og liggja í dag annaðhvort undir hafsbotni eða undir nýbyggingum. Þannig er Vitinn í Alexandríu löngu horfinn þó að við höfum heimsótt þann stað þar sem hann var sennilega einu sinni. Og bókasafnið brann fyrir hundruðum ára, þó að í dag sé í Alexandríu nýtt og glæsilegt bókasafn.

Það síðasta markverða sem við gerðum svo í Alexandríu var að borða ljúffengan fisk á litlum grill-fiskistað áður en við tókum svo flugið hingað til Sharm El-Sheikh.

Hérna lærðum við það strax á flugvellinum þegar ég lét Margrét prútta niður leigubílaverð að verðlag er hérna með allt öðru móti. Hérna er allt margfalt dýrara en á öðrum stöðum í Egyptalandi. En hérna er líka yndislegur hiti (í Alexandríu var kalt á kvöldin) og hérna fyrir utan ströndina eru kóralrif og dýralíf sem margir segja að sé með því magnaðasta í þessum heimi. Það er einmitt á planinu okkar á morgun að kafa í Rauða Hafinu.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 18.10*

Egyptalandsferð 2: Píramídarnir

Þá erum við Margrét komin að strönd Miðjarðarhafsins í Alexandríu. Þessari ótrúlega sögufrægu borg, sem hefur þó því miður ekkert að sýna fyrir frægustu staðina. Vitinn er löngu hruninn og bókasafnið löngu brunnið. En í stað þess er Alexandríu nokkuð falleg stórborg, sem er talsvert ólík Kaíró.

Hér í úthverfunum blöstu strax við falleg hús, sem eru ólík hinum endalausu rauðu múrsteins húsum, sem við sáum í Kaíró. Um leið og við vorum komin út fyrir miðbæ Kaíró blöstu við okkur *alls staðar* byggingar, þar sem að hæðir og burðarbitar voru steyptir en veggir hlaðnir úr rauðum múrsteinum. Þannig var þetta útum allt, þúsundir bygginga, sem voru nákvæmlega eins. Flestallar ókláraðar, annaðhvort alveg ókláraðar eða þá að efsta hæðin var ókláruð með vírum sem stóðu uppúr. Ég las einhvers staðar að það væri vegna skattamála, það er víst eitthvað ódýrara að klára ekki byggingarnar alveg. Slíkt veldur því að fyrir utan elsta hlutann í Kaíró er allt ókláraðar rauðar byggingar.

Þetta var nokkuð áberandi þegar við keyrðum á milli píramída í gær. Alveg einsog í Kambódíu var ekki laust við að manni finndist hálf sorglegt að sjá, í bland við stórkostlegar ævafornar byggingar, ömurlegar byggingar nútímans. En Kaíró hefur auðvitað þanist út svo stórkostlega síðustu ár og þangað flytur aðallega fátækt fólk, sem hefur ekki efni á öðru. Þannig að þróunin er kannski skiljanleg þó hún sé sorgleg.

* * *

Píramídarnir eru auðvitað aðalástæða fyrir því að flestir túristar koma til Egyptalands. Sól og píramídar. Gærdagurinn hjá okkur var ágætis blanda af því tvennu.

Píramídarnir í Giza eru á meðal um 100 píramída, sem að enn standa í Egyptalandi. Við leigðum okkur í gær leigubíl, sem keyrði okkur um þá helstu í nágrenni Kaíró. Fyrstur var “Step Pyramid“, sem var byggður fyrir faróann Djóser árið 2.630 fyrir Krist og er talinn vera elsta stóra steinbygging í heiminum. Píramídarnir í Gíza spruttu ekki upp fullskapaðir, heldur voru í Egyptalandi byggðir þónokkrir píramídar fyrir þann tíma. Smám saman tókst arkitektunum að fullkomna listina. Eftir það skoðuðum við leifar borgarinnar Memphis og þaðan fórum við að Rauða og skakka píramídunum. Sá skakki er skakkur vegna þess að arkitektarnir áttuðu sig þegar að verkið var hálfnað að þeir höfðu verið full bjartsýnir og þurftu því að minnka hallann á efsta hlutanum. Sá Rauði er svo þriðji stærsti píramídinn í Egyptalandi. Við fórum inní þann píramída, sem var nokkuð spennandi. Við klifruðum niður löng göng þangað til að við stóðum inní miðjum píramídanum í litlu plássi.

Allir þessir píramídar voru góð upphitun fyrir Píramídana í Gíza. Þeir eru auðvitað aðalmálið. Ég hafði heyrt alls konar hryllingssögur af því hvernig svæðið þar væri, en það var alls ekki jafn slæmt og ég hélt. Svæðið er þó smá einkennilegt því að ólíkt því sem ætla mætti af myndum, þá eru píramídarnir í raun inní miðri borg. Gíza borgin er komin alveg uppað píramídunum og það gerir upplifunina skrýtna. Svo er þar auðvitað fullt af sölumönnum og úlfaldaköppum, en þeir voru ekkert jafn ægilegir og okkur hafði verið sagt.

Píramídarnir eru auðvitað (það þarf varla að taka það fram) stórkostlegir.

Ég var ekki alveg viss hverju ég ætti að búast við. Ég hef jú séð flesta af hinum merkilegustu píramídum heims (Teotihuacan og Chichen Itza í Mexíkó og Tikal í Gvatemala). En þeir í Egyptalandi eiga þó klárlega vinninginn. Sérstaklega þegar að maður tekur það með í reikninginn að þeir voru gerðir sirka 2.300 fyrir Krist, sem er um 2.700 árum áður en að píramídar Maya-nna voru gerðir. **2.700 árum áður**.

Á þessum 4.300 árum, sem að píramídarnir hafa staðið þarna í Giza hefur auðvitað barið á þeim. Þeir eru um 10 metrum lægri en þeir voru í upphafi (í kringum 150 metrar í dag) og efsta laginu af þeim hefur nánast öllu verið stolið (fyrir utan toppnum á minni píramídanum). Í fjarlægð virka þeir fullkomnir, en það er í raun enn magnaðara að sjá þá nálægt þegar að maður sér hversu mikið sést á þeim. Þetta eru stórkostlegar byggingar og sennilega fátt í heiminum, sem jafnast við þá upplifun að sjá þá í fyrsta skiptið. Fyrir framan þá situr svo Sfinxinn, sem er minni en allir halda að hann sé, en samt magnaður. Skeggið er jú á British Museum og nefið var dottið af fyrir 1.000 árum, en hann stendur samt fyrir sínu.

* * *

Eftir þennan píramída-túr þá eyddum við síðasta kvöldinu í Kaíró á Abu Simbel, frábærum egypskum veitingastað. Í morgun vaknaði Margrét þó með magapest og kölluðum við á lækni fyrir hana. Hún er auðvitað ekki alveg jafn vön ferðalögum og ég og maginn hennar virðist ekki samþykkja matinn alveg eins auðveldlega og minn magi. Við keyrðum þó samt hingað til Alexandríu þar sem við erum búin að koma okkur fyrir á hóteli við Corniche strandgötuna. Margrét er uppá herbergi og hún verður vonandi orðin nógu hress á morgun til þess að halda áfram fjörinu.

*Skrifað í Alexandríu, Egyptalandi klukkan 20.18*