Útilega

Við Hildur fórum í smá útilegu um síðustu helgi. Við fórum í Illini State Park, sem er tveggja tíma akstur suð-vestur af Chicago. Það er nokkuð fallegur þjóðgarður.

Það að tjalda í Bandaríkjunum er dálítið öðruvísi en heima. Reglur á tjaldstæðum hér eru allar miklu strangari. Ólíkt því, sem gerist heima, þar sem þúsund manns er troðið á eitt tún, þá er hverju tjaldi gefið ansi mikið pláss. Þannig að ef maður pantar tjaldstæði, þá fær maður stóran túnblett með bílastæði, borði og eldstæði. Einn íslenskur bóndi myndi sennilega selja fyrir 30 tjöld á svipað svæði og við höfðum útaf fyrir okkur.

En allavegana þá var útilegan fín. Veðrið var frábært og við komumst í sund í fyrsta skipti í langan tíma. Svo um kvöldið kveiktum við varðeld og grilluðum sykurpúða að hætti innfæddra.

Ég verð að uppfæra

Af einhverjum ástæðum fannst mér nauðsynlegt að skrifa eitthvað svona rétt fyrir helgina. Við Hildur erum ekki alveg viss hvað við erum að fara að gera. Ætlum jafnvel að reyna að fara í Six Flags skemmtigarðinn. Það er afsláttur þar ef maður kaupir máltíð á Taco Bell.

Það er í raun bara einn galli á því… Taco Bell er viðbjóður. Einn félagi minn í fótboltaliðinu varaði okkur alla við Taco Bell því að vinur hans hafði unnið á einum slíkum stað og þar kom nautahakkið víst í gegnum slöngur inní eldhúsið.

Burtséð frá því þá er maturinn á Taco Bell einfaldlega vondur og til að útkljá allan misskilning, þá á maturinn á Taco Bell ekkert skilt við alvöru mexíkóskan mat. Eina mexíkóska við Taco Bell er talandi Chihuahua hundurinn sem auglýsir fyrir þá.

Djamm og dýragarður

Veðrið var ekki neitt voðalega skemmtilegt um helgina. Á laugardag höfðum við Hildur ætlað að fara í Six Flags Great America skemmtigarðinn en okkur leist ekkert alltof vel á veðrið. Það var skýjað og rakinn var alveg hrikalegur. Það var ólíft inní íbúðinni okkar enda hitinn yfir 30 gráður og rakinn alveg fáránlegur. Síðar um daginn byrjaði svo að rigna. Þannig að við kíktum bara í tvær verslanamiðstöðvar, þar sem við gátum hreyft okkur í loftkældum verslunum. Um kvöldið fórum við svo út að djamma niðrí miðbæ.

Í gær fórum við svo í Lincoln Park dýragarðinn og skoðuðum garðinn og næsta nágrenni. Við komumst að því í gær að fólk frá Mið- og Suður Ameríku er alveg einstaklega hrifið af dýragörðum. Þesas ályktun drógum við vegna þess að 90 prósent af öllum gestum garðsins voru spænskumælandi. Heillandi staðreynd, ekki satt?

Vikan

Þar sem það er kominn föstudagur er ágætt að segja frá því hvað við Hildur höfum verið að gera síðustu viku, en þetta er búin að vera mjög skemmtileg vika.

Síðasta föstudag fórum við í partí heim til Ryan, Kate og Liv, en þau eru vinir okkar, sem voru að flytja út úr íbúðinni sinni. Þau ákváðu því að halda partí, því leigusalinn gat lítið kvartað eftir að þau voru flutt út. Allavegana var partíið skemmtilegt en það endaði niðrá Northwestern ströndinni þar sem nokkrir ofurhugar fengu sér sundsprett í Michigan vatni.

Á laugardag fórum við Hildur niður á Oak Street Beach, þar sem við lágum í smá tíma og röltum svo niður í Grant Park þar sem Taste of Chicago hátíðin stendur yfir. Þessi hátíð er alger snilld. Yfir hundrað veitingastaðir frá Chicago eru með mat til sölu, allt frá Chicago-style deep-dish pizzum til afrískra hrísgrjóna. Við Hildur löbbuðum á milli staða og smökkuðum alls kyns mat. Allur garðurinn er yfirfullur af fólki og fyrir utan matinn var hægt að hlusta á fullt af tónleikum.

Eftir matinn fórum við svo á tónleika með frönsku sveitinni Air, sem voru haldnir í The Vic. Tónleikarnir voru snilld. Reyndar byrjuðu þeir á því að einhver franskur krakkhaus, Sebastian Tellier framdi einhverja tónlistargjörninga. Hann var þó fljótur að drífa sig í burtu og snillingarnir í Air komu svo fram. Þeir byrjuðu á lögum af nýjustu plötunni og tóku svo lög af þeirri plötu í bland við lög af Moon Safari. Þessir tónleikar voru frábærir og mörg lögin þeirra (einsog Electronic Performers) hljóma jafnvel enn betur “live” heldur en á plötu.

Á 4.júlí var náttúrulega þjóðhátíðardagur Bandaríkjamanna. Við byrjuðum því 3.júlí að fara með nokkrum vinum okkar niður í Grant Park þar sem aðalflugeldasýningin var haldin. Þar var alveg fáránlega mikið af fólki til að fylgjast með dýrðinni og hlusta á sinfoníutónlist í takt við sýninguna. Á sjálfan 4.júlí vorum við Hildur ýkt dugleg og línuskautuðum meðfram vatninu alveg frá Belmont niður í Grant Park, sem er um 2 klukkutíma ferð. Í Grant Park horfðum við á tónleika með Wilco, sem voru nokkuð góðir og svo fengum við okkur fullt gott að borða.

Helgin

Síðasta helgi var mjög skemmtileg. Á föstudag fórum við á nýlistasafnið með nokkrum vinum okkar en þar var verið að opna sólstöðuhátíð, en sumardagurinn fyrsti var einmitt á föstudag. Við sáum þar m.a. mjög athyglisverða kvikmyndasýningu.Á laugardag fórum við svo niður í miðbæ Evanston, þar sem var útimarkaður með fullt af listaverkum og slíku.

Eftir það keyrðum við niður á Soldier Field, þar sem við ætluðum að sjá knattspyrnuliðið hérna í Chicago, Chicago Fire spila við New England Revolution.Ein ástæðan fyrir því að við völdum þennan leik var sú að fyrir leik gátu allir fengið að taka mynd með uppáhaldsleikmanninum sínum. Með Chicago Fire leikur einmitt Hristo Stoichkov, sem var einn af uppáhaldsleikmönnunum mínum þegar hann lék með Barcelona.

Leikurinn var ágætur, sérstaklega seinni hálfleikur. Fire voru mun betra lið, en samt endaði leikurinn 1-1.Leikurinn var ekki búinn fyrr en um 10 og fórum við þá heim, skiptum um föt og fórum svo niður á Rush, sem er ein af aðalbargötunum í Chicago. Þar flökkuðum við á milli bara og skemmtum okkur konunglega allt kvöldið.

Vinna

Það er allt í rugli varðandi tölvuna mína hérna í vinnunni, þannig að í morgun hef ég fengið borgað fyrir að skoða Wall Street Journal og flakka um netið. Ætli ég noti ekki tækifærið og segi aðeins frá vinnunni minni.

Ég er að vinna hjá fyrirtæki, sem heitir CSTech. Þetta er lítið hugbúnaðarfyrirtæki, sem sérhæfir sig í að hanna lausnir fyrir “supply-chain management” á markaðsefnum fyrir Fortune 500 fyrirtæki. Ég vinn í netdeild fyrirtækisins. Hlutverk mitt er að hanna og endurbæta útlit vefsins. Ég er nokkurn veginn búinn að hanna sjálft útlitið og þegar tölvan mín kemst í lag þá fer ég í það að breyta öllum HTML kóðanum í forritinu, sem er heljarinnar verk, sem mun sennilega taka það sem eftir er sumars.Það að leita sér að vinnu hérna í Bandaríkjunum var mikið ævintýri. Ég sótti um á nokkrum stöðum, en það er frekar erfitt fyrir útlendinga að fá “internship” (eða sumarvinnu) vegna þess að flest fyrirtæki, sem eru að ráða í sumarvinnu hafa í huga að bjóða námsmönnunum vinnu eftir að þeir útskrifast. Þar sem ég er með mjög takmarkað atvinnuleyfi gerir það manni erfiðar fyrir.

En allavegana, þá fór ég í viðtöl hjá nokkrum fyrirtækjum, bæði í gegnum síma og á staðnum. Ég fór m.a. í viðtal hjá Leo Burnett, Shell og var auk þess boðið í viðtal hjá Morningstar, en gat ekki farið því ég var búinn að taka starfinu hjá CSTech. Ég var mjög spenntur fyrir þessari vinnu eftir seinna viðtalið hérna og ákvað að taka starfið. Aðal vandamálið var að þessi vinna er talsvert langt frá íbúðinni minni, þannig að á hverjum morgni þarf ég að keyra í um klukkutíma. En hins vegar vegur það á móti að ég fæ borgað fyrir þessa vinnu, en mörg “internship” eru einmitt óborguð.

Maður er búinn að læra talsvert á þessum tíma, bæði varðandi að sækja um vinnur og maður hefur kynnst ýmsum hliðum á atvinnumarkaðnum. Samkeppnin er gríðarleg, sérstaklega vegna þess að fyrirtækin, sem ég sótti um hjá, auglýstu störfin einungis fyrir Northwestern nemendur. Þannig að flestir, sem sóttu um voru mjög hæfir. Maður er því nokkuð stoltur af því, sem maður hefur náð fram, því það eitt að komast í viðtal er ákveðið hrós því það eru tugir umsækjenda um flestar vinnurnar, sem eru auglýstar í skólanum.

Traffic update

Ég var ýkt sáttur þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni, því allt í einu var engin umferð við hringtorgið, þar sem allt er vanalega stopp. Ég hélt að ég myndi núna fljúga heim á 40 mínútum. En nei nei, fimm mínútum seinna lenti ég í annari umferðarteppu, þannig að heimferðin tók klukkutíma og 10 mínútur.Ég er ekki alveg að fíla þessa umferð.

Árekstur

Þegar mamma og pabbi voru hérna um helgina lentum við í árekstri á leiðinni niður í bæ. Við vorum í leigubíl, föst í umferðinni flegar tveir bílar klesstu aftan á okkur. Stelpan, sem var í aftari bílnum var ekki með ökuskírteini.

Auk þess var bíllinn ótryggður og bremsurnar voru bilaðar. Ég fékk í dag bréf frá tryggingafyrirtækinu, þar sem ég var beðinn um að vera vitni. Kannski hefði maður átt að gera sér upp hálsmeiðsli og svo kært stelpuna. Ætli ég sé ekki alltof heiðarlegur.

Feitir Kanar

Eg var ad kaupa mer ithrottaboli um helgina, sem er svo sem ekki merkilegt. Eg lenti hins vegar enn einu sinni i thvi ad finna ekki retta staerd a mig. Malid er nefnilega ad herna i Bandarikjunum er allar staerdir miklu staerri en heima. Thess vegna tharf eg ad kaupa oll fotin min “small”.

Mer finnst thetta nokkud furdulegt, thar sem eg lit ekki a mig sem litinn mann. Eg er 180 cm. a haed og er um 73 kg. Thad er hins vegar oftast mjog erfitt ad finna “small”. Thad er litid mal ad finna Large og XL og allt uppi XXXXL (med fjorum X-um), en thad getur reynst ansi erfitt ad finna small. Thetta er skritid land.