Suð-Austur Asíuferð 9: Saigon til Hué

Það verður nú að segjast að maginn minn er ekki alveg að samþykkja þessa Asíuferð þegjandi og hljóðalaust. Allavegana lætur hann tilfinningar sínar ítrekað í ljós.

Eftir að hafa eytt næstum því heilli viku með niðurgang og eftirköst af því, var ég ágætur í nokkra daga. Það er alveg þangað til á laugardag. Þá borðaði ég nákvæmlega EKKERT óeðlilegt, en veiktist samt og eyddi því öllu laugardagskvöldinu ælandi inná hótelherbergi í Nha Trang. Ég, sem var kominn þangað sérstaklega til að djamma. Og nota bene, ælið tengdist ekki drykkju, enda hafði ég ekki einu sinni byrjað að drekka. Í kjölfarið hafa svo fylgt tveir dagar þar sem maginn er aldrei almennilega sáttur. Ég er alltaf með verk í maganum og hálf svangur – og svo þegar ég borða þá líður mér enn verr. Þetta er fokking óþolandi.

Ég, sem hélt að maginn minn þyldi allt. Ég hef ferðast ansi víða um rómönsku Ameríku og borðað á skrautlegustu veitingastöðum álfunnar. Þegar ég bjó í Venezuela þá kepptumst við vinirnir um að borða hjá sem viðbjóðslegustu götusölunum, því þeir voru oft með besta matinn. Aðeins einu sinni á þeim rúmlega tveim árum, sem ég hef eitt í rómönsku Ameríku, hef ég fengið matareitrun. Það var þegar að ég fékk mér steik í morgunmat í Ekvador (mig minnir að Friðrik eða Borgþór hafi átt hugmyndina að því snilldarbragði).

Ég var búinn að sannfæra mig að ég gæti borðað tacos al pastor hjá ógeðslegustu götusölum í heimi þrátt fyrir að diskarnir væru þvegnir uppúr skólpi. En hérna í Asíu þoli ég bókstaflega ekki neitt og þetta er farið að fara verulega í taugarnar á mér. Drasl magi!


Ég er núna staddur í Hué, sem er nokkurn veginn í miðjunni á Víetnam. Síðustu 7 daga hef ég farið í þrjú 12+ klukkustunda ferðalög (Phnom Penh – Saigon, Saigon – Nha Trang og Nha Trang-Hué) og skiljanlega er ég dálítið þreyttur eftir þetta allt saman. En byrjum á Saigon.

Ég skoðaði allt það helst í Saigon borg. Einhver búddista hof, Sameiningarhöllina, Ho Chi Minh borgar-safnið og Stríðsmynjasafnið. Hofin eru auðvitað svipuð og önnur hof. Það er ofar mínum skilningi hvernig Lonely Planet dettur í hug að telja upp 15 mismunandi hof til að sjá í HCM borg. 1 eða tvö er feykinóg, sérstaklega ef þetta er ekki fyrsta landið manns í Suð-austur Asíu.

Sameiningarhöllin var áhugaverð. Á þeim stað, sem höllin stendur núna, var áður höll, sem hýsti ríkisstjóra Frakka og seinna forsætisráðherra Suður-Víetnama. Í Víetnamstríðinu sprengdu Norður-Víetnamar upp stóran hluta hallarinnar og ákvað því Ngo Dinh Diem (forsætisráðherra S-Víetnam) að það skyldi byggja nýja höll í staðinn. 30. Apríl 1975 réðust svo Norður-Víetnamar inní höllina og náðu þar með endanlega völdum yfir öllu Víetnam. Þeir endurskýrðu höllina "Sameiningarhöllina" og breyttu henni í safn. Í dag er höllin nánast einsog hún var 1975 fyrir utan að nokkrum styttum af Ho Chi Minh hefur verið bætt við, svona rétt til að minna á það hverjir unnu.

Ég skoðaði svo tvö áhugaverð söfn. Annars vegar borgarsafn Ho Chi Minh borgar, sem innihélt bæði formuni og svo muni frá Ameríkustríðinu. Öllu áhugaverðara var Stríðsmynjasafn Saigon. Það ágæta safn hét áður mun beittara nafni, "Safn til minningar um bandaríska og kínverska stríðsglæpi", en því nafni var breytt til að stuða ekki túrista óþarflega mikið.

Þrátt fyrir nafnabreytinguna, þá fjallar safnið aðallega um stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Víetnam. Uppbygging safnsins er afskaplega einhliða, en það er í lagi þar sem maður hefur aðallega séð stríðið frá hlið Bandaríkjamanna, og því gott að fá innsýn inní heim þeirra, sem urðu fyrir mestum þjáningum í stríðinu – almennum borgurum í Víetnam.


Eitt áhrifamesta minnismerki, sem ég hef séð, er minnismerki um þá Bandaríkjamenn sem féllu í Víetnam. Ég hef heimsótt það minnismerki í Washington DC allavegana tvisvar og það er með ólíkindum að sjá öll nöfn þeirra, sem létust í stríðinu. 58.183 bandarískur hermaður lést í stríðinu og nöfn þeirra eru öll á minnismerkinu.

En í Víetnam stríðinu dóu líka yfir 3 milljónir Víetnama, þar af 2 milljónir óbreyttra borgara. Ef það ætti að byggja sambærilegt minnismerki fyrir víetnömsk fórnarlömb, þá þyrfti það minnismerki að vera 52 sinnum stærra. Fórnirnar, sem víetnamska þjóðin þurfti að færa í stríðinu, eru með ólíkindum. Ekki bara dó þessi óheyrilegi fjöldi, heldur lögðu Bandaríkin áherslu á að eyðileggja sem mest í Víetnam. Valtað var yfir akra, hús og skóga. Eldsprengjum varpað til að taka skjól af Viet Cong skæruliðum, en um leið var óheyrilegu magni af skóg- og ræktarlandi eytt. Og ekki má gleyma gríðarlegu magni af "Agent Orange" eitri, sem var spreyjað yfir landið og olli því að þúsundir barna fæddust með alvarlega fæðingargalla í kjölfarið. Eitrinu var spreyjað á yfir 24 þúsund ferkílómetra svæði í Víetnam (alls um 45 milljón lítrar af eitri)!

Og allt til einskins. Norður-Víetnamar sigruðu á endanum hvort eð er eftir að Bandaríkjamenn höfðu gefist upp og farið heim. Stríðsmynjasafnið í HCM borg sýnir á nokkuð áhrifaríkan hátt örlítið brot af þeim ótrúlegu hörmungum, sem dundu yfir óbreytta borgara í Víetnam í stríðinu.

(Ekki það að Viet Cong hafi verið eitthvað skárri. Þeir tóku yfir Hué, borgina sem ég er í núna, í nokkrar vikur árið 1968 í Tet sókninni. Einsog kommúnistar víða um heim, þá voru þeir afskaplega viðkvæmir fyrir gagnrýni og gengu því hús úr húsi í leit að rúmlega 3.000 Víetnömum, sem voru þeim ekki þóknanlegir, og drápu þá.)


Á föstudaginn skoðaði ég svo Cu Chi göngin, sem eru við borgarmörk Saigon borgar. Þetta eru göng, sem Viet Cong hermenn bjuggu til til að verjast loftárásum Bandaríkjamanna. Alls eru göngin um 120 kílómetrar á lengd og ná allt að 8 metra niður í jörðina. Við skoðuðum nokkur op á göngunum og fengum svo að skríða í gegnum þau. Flestir í hópnum gáfust upp eftir smá spotta, en ég og einn þýskur gaur náðum að fylgja víetnömskum gæd alveg til enda, þrátt fyrir að hann færi hratt yfir og að við þyrftum að skríða á fjórum fótum stóran hluta leiðarinnar. Það þurfti ekki langan tíma í göngunum til að sannfæra mig ennfrekar um að starf námuverkamanna hlýtur að vera versta starf í heimi.


Á föstudagskvöld tók ég svo lestina frá Saigon upp til Nha Trang, alls um 14 klukkutíma ferð. Í Nha Trang skoðaði ég rústir hindúa musteris, fór á ströndina og eyddi svo kvöldinu faðmandi klósettið á hótelherberginu. Ástæðan fyrir því að ég er að fara nokkuð hratt yfir í norður-átt er aðallega leit mín að sólskini, en núna er rigningartímabil í Suður-Víetnam og Kambódíu og ég hef lítið séð til sólar. Það hefur heldur betur ræst úr því í Nha Trang og hérna í Hué. Seinni daginn í Nha Trang fór ég í bátsferð um eyjar í nágrenni borgarinnar, þar sem ég kafaði, lá á ströndinni og skemmti mér vel. Tók svo 12 tíma lestarferð hingað til Hué í morgun.

Skrifað í Hué, Víetnam klukkan 18.32

Suð-Austur Asíuferð 8: Nam

Víetnam, maður! Vá!

Ég efast um að það sé nokkur land í þessu heimi (utan Bandaríkjanna og Bretlands) sem ég hef séð jafnmargar kvikmyndir og lesið jafnmargar bækur um og Víetnam. Maður hefur heyrt þetta allt hundrað sinnum: Saigon, Mekong delta, My Lai, Ho Chi Minh, Khe Sanh, Viet Cong og svo framvegis og framvegis. En samt þá er þetta svo ótrúlega framandi, þar sem að langflestar myndirnar og bækurnar fjalla um stutt skeið í sögu þessa lands og þá aðeins með augum utanaðkomandi.

En, Nam! Núna get ég loksins sagt hluti einsog: "Þetta er nú ekkert miðað við það þegar ég var í Nam!

Víetnam er eitt af þessum löndum, sem ég hélt þegar ég var lítill, að ég myndi aldrei komast til. Allt, sem maður hafði lesið um það var að það væri lokað land, endalaus stríð og annað vesen. Þetta var svipað með Sovétríkin og því leið mér svo afskaplega undarlega þegar ég keyrði á taxa inní miðborg Moskvu.

Sama tilfinning kom yfir mig í gær. Ég hafði farið í rútu frá Mekong delta inn til Saigon. Svo á rútustöðinni fékk ég far með litlu mótorhjóli uppað hóteli. Þannig að um miðnætti í gær var ég á fleygiferð, á litlu mótorhjóli í sandölum og stuttbuxum, um breiðstræti Saigon borgar. Og ég fékk þessa æðislegu frelsis-tilfinningu sem ég fæ stundum á ferðalögum. Ég var bara einn og ég var búinn að gleyma öllum áhyggjum og naut þess bara að vera frjáls í algjörlega ókunnri borg. Yndisleg tilfinning.

(Borgin Saigon er í dag kölluð Ho Chi Minh borg, nafn sem a[ Norður-Víetnamar gáfu borginni eftir að hafa sigrað hana. En flestir kalla hana enn Saigon. Ég spurði rútubílsjórann í gær hvort rútan færi alla leið til Ho Chi Minh borgar. Hann sagði nei. Og svo stuttu seinna sagði hann: "en hún fer til Saigon".)


En allavegana, síðast þegar ég skrifaði var ég víst í Kampot í Kambódíu. Ég eyddi laugardagskvöldinu inná hótelherbergi að horfa á enska boltann og lofaði sjálfum mér að þetta yrði síðasta langa inniveran útaf þessum veikindum (sem ég er allavegana núna orðinn hress af). Á sunnudag fór ég svo í túr uppí Bokor þjóðgarðinn. Það var skrautlegt.

Fyrir það fyrsta, þá vissi ég auðvitað að ég ætti ekki að hlusta á blaðrið í sölumanninum, sem sagði eftir að hafa horft á himininn á laugardeginum, að hann ætti ekki von á rigningu daginn eftir. Ég hefði frekar átt að hlusta á skynsama Einar, sem sagði mér að hlusta á veðurfréttamenn, sem voru á sama tíma að segja mér að þessi endalausa rigning í Kambódíu væri útaf fellibyl, sem hafði skollið á strönd Víetnam sama dag og leifar hvers voru að skella á Kambódíu.

Sem þýðir að í túrnum uppí Bokor rigndi stanslaust. Sem væri í lagi ef að.

  1. Við hefðum ekki verið aftan á pallbíl með ekkert þak
  2. Vegurinn hefði ekki verið fullur af sprengigýgum
  3. 90% af sjarmanum við ferðina hefði ekki verið útsýnið, sem skýin gjörsamlega rústuðu.

Við keyrðum á 4 klukkutímum uppá fjall eftir versta vegi, sem ég hef nokkurn tímann keyrt á. Punktur! Í Lonely Planet er talað um vegakerfið í Kambódíu og bókarhöfundum tekst aðeins að finna tvö lönd í heiminum þar sem vegakerfin eru verri: Austur-Kongó og Mósambík. Ég hef ekki upplifað vegakerfin í þeim lönd. En Jedúddamía hvað þau þurfa að vera hræðileg til að toppa Kambódíu.

Vegurinn upp til Bokor er þó í sérklassa. Þegar Víetnamar réðust inní Kambódíu þá héldu Rauðu Khmerarnir sig í Bokor garðinum og komu fyrir sprengjum á veginum, sem ullu því að stór hluti af malbikinu er farinn og í stað þess komnir miklir gýgar á nokkurra metra fresti. Af einhverjum ástæðum hefur ENGUM dottið í hug að laga þetta.

Við sátum á trébekk aftan á pallbíl og hristumst svo svakalega að í lok dags var ég kominn með tvo marbletti á minn annars álitlega rass, og tvo marbletti á mjóbakið. Ég var algjörlega búinn. Þegar við komum uppá fjallið skoðuðum við yfirgefið franskt þorp, sem átti að vera hluti af pakkanum. Okkur var svo tjáð að vegna rigningar væri vegurinn uppað fossi, sem við áttum að skoða, lokaður (je ræt). Við fórum því aftur niður aðra fjóra klukkutíma í rigningunni. Þegar við komum svo niður tjáði gædinn okkur að skipstjórinn, sem ætlaði að sigla með okkur inní Kampot væri veikur (je rææææt) svo við misstum líka af þeim hluta ferðarinnar og vorum því bara keyrð uppá hótel.

Megi þetta túrfyrirtæki rotna í helvíti.


Ég tók svo daginn eftir rútu aftur til Phnom Penh. Kom þangað um eftirmiðdaginn og tékkaði mig inná sæmilegt hótel meðfram Tonlé Sap ánni. Fór svo á netkaffi þar sem ég fór að velta mér uppúr vandamálum heima fyrir og ákvað svo seinna um kvöldið að þar sem ég gæti ekki gert neitt gott með emailum og msn-um, þá myndi ég hætta að hafa áhyggjur af málum á Íslandi og einbeita mér að ferðalaginu mínu hérna. Það er vonandi að það virki. 🙂

Í gær tók ég svo bát frá Phnom Penh inní Víetnam. Þetta var lítill hraðbátur, sem sigldi niður Mekong ána alveg niður að Mekong Delta svæðinu og inní bæinn Chau Doc í Víetnam. Chau Doc er skrautlegur bær. Fyrir það fyrsta virtist vera kviknað í hálfum bænum þegar við sigldu að höfninni.

Þegar ég kom í land pantaði ég mér strax rútuferð til Ho Chi Minh borgar (Saigon). Til að ég gæti náð rútunni þá kom bíll að sækja mig á hótelið, en eftir 10 mínútur fengum við símtal þar sem bílstjórinn sagðist ekki komast. Þess vegna fór einhver strákur með mér í átt að bílnum. Þar blasti við mér undarleg sjón. Stærsta umferðarteppa, sem ég hef séð, og samt ekki einn einasti bíll í sjónmáli. Þetta voru bara mörg hundruð mótorhjól, reiðhjól og gangandi vegfarendur, sem virtust ætla að sameinast á einu torgi, en enginn komst neitt vegna mannmergðar. Mitt í allri þessari hrúgu var svo bíllinn, sem ætlaði að sækja mig, að reyna að bakka útúr þvögunni. Ég stökk uppí bíl og eftir að hafa næstum því keyrt á allavegana þrjú mótorhjól, þá tókst okkur að komast útúr þvögunni og áleiðis til Saigon.


Víetnam er 14. fjölmennasta þjóð í heimi með um 84 milljón íbúa. Breytingin frá Kambódíu er gríðarlega mikil. Víetnam er auðvitað ennþá að nafninu til sósíalistaríki, en þá eingöngu að nafninu til. Það mátti svo sem búast við því að hvað þróun varðar yrði allt skref upp frá Kambódíu, og það er raunin með Víetnam. Hérna er allt umtalsvert nútímalegra, fólk virðist hafa mun meira pening á milli handanna og hlutir einsog rusl á víðavangi eru ekki nærri því jafn algengir í Víetnam og í Kambódíu. Í raun virðist munurinn á þessum löndum vera miklu meiri en tölur um þjóðarframleiðslu gefa til kynna (þjóðarframleiðsla í Víetnam er 43% hærri en í Kambódíu) en þó ber að hafa í huga að ég hef bara skoðað smá hluta af Suður-Víetnam, sem hefur vanalega verið betur stæður en norður hlutinn.

Það fyrsta, sem ég tók eftir var þó (surprise!) að víetnamskar stelpur eru miklu mun sætari en stelpur í Kambódíu. Miðað við nágrannalönd þá eru Víetnamar og Kambódíumenn mjög ólíkir þar sem Khmerar í Kambódíu eru líkir Indverjum í útliti en Víetnamar líkari Kínverjum. En hvað sem það er, þá hef ég séð alveg heilan helling af sætum stelpum hérna í Víetnam (þjóðbúningur kvenna hérna er líka æði!). Megi þessi ánægjulega þróun halda áfram. Áfram sætar stelpur!


Það er þó varla hægt að tala um sætar stelpur hérna í Víetnam (og Kambódíu) án þess að tala um gamla kalla í sömu andrá. Það er nefnilega alveg ótrúlegt magn af ungum gullfallegum stelpum hérna (sem gætu margar eflaust verið 16 – ég á mjög erfitt með að greina á milli 16 og 25 ára víetnamskra stelpna), sem haldast í hendur með umtalsvert eldri karlmönnum frá Evrópu eða Bandaríkjunum. Í raun má segja að ferðalangar í Kambódíu hafi verið af þrennu tagi. Í fyrsta lagi hópferðalangar í Angkor Wat, en á öðrum stöðum voru það annars vegar ungir bakpokaferðalangar (sem ég hlýt að tilheyra) og hins vegar kallar með ungum og fallegum asískum stelpum.

Nú er mjög erfitt að berja í mig einhverjum femínisma eða brennandi áhuga á mansali, en þegar maður sér þetta svona á hverjum einasta degi þá hættir þetta að vera sniðugt. Kambódía er sérstaklega þekkt sem land þar sem menn geta nælt sér í stelpur allt niður í 13-14 ára gamlar. Það er hreinn viðbjóður.


Úff, þetta er orðið alltof langt. Ég sit hérna inná netkaffi með ískaldan Tiger bjór, sem hleypir þvílíkum krafti í mig. Verð að bíða með að segja frá labbi um Saigon í dag þangað til næst. Ég verð hérna í Saigon allavegana í tvo daga í viðbót.

Skrifað í Ho Chi Minh borg (Saigon), Víetnam klukkan 19.54)

Suð-Austur Asíuferð 7: Veikindi og kambódískt karókí

Hverjum hefði dottið það í hug að besta internet-tengingin á þessari ferð minni (hingað til allavegana) myndi vera á litlu netkaffi í Kampot, lítt þekktum smábæ í suður-hluta Kambódíu. Og þó, þá sit ég hérna núna með þessa líka ljómandi tengingu.

Úti er rigning og hérna í Kampot er nákvæmlega ekkert að gera – og ég er enn veikur, þannig að ég fékk mér gott herbergi með sjónvarpi og ætla að eyða kvöldinu í fótboltagláp. Síðustu dagar hafa hvorki verið spennandi né skemmtilegir.

Dvöl mín í Sihanoukville stóð ekki alveg undir væntingum. Ég sá fyrir mér í hillingum sól og strendur og djamm, en lítið af því rættist. Ferðin frá Phnom Penh til Sihanoukville var ágæt. Þrátt fyrir að Kambódía sé fátækasta land, sem ég hef heimsótt, þá er rútuflotinn ekki svo slæmur miðað við önnur lönd. Helsti gallinn við rútuferðina (og ég hef heyrt að þetta sé býsna algengt í Víetnam líka) er að á leiðinni var spilaður karókí diskur með kambódískum slögurum. Þvílík hörmung er vandfundin. En samt er það alltaf pínu gott að koma til lands þar sem vinsæl popptónlist er gjörólík því, sem maður á að venjast. Þrátt fyrir að mér finnist þetta hörmung, þá finnst mér það pínulítið jákvætt. Það síðasta, sem heimurinn þarfnast, eru fleiri lönd sem hlusta á James Blunt og Maríu Carey. Á skalanum 1-10 þar sem 10 er Dylan og 1 er mexíkóskt kántrí, þá var þessi kambódíska tónlist sirka 1,5.

Ég kom til Sihanoukville seinni partinn á miðvikudagin eftir að hafa legið í eymd og volæði í Phnom Penh í þrjá daga með slæma matareitrun. Fyrstu tímana leið mér ágætlega og ég hélt að ég væri orðinn góður, en það var skammvinnt og fljótt sá ég að heilsan var alls ekki nógu góð.

Eftir tvær nætur með dúndrandi hausverk, svima, hita, ógleði og svefnleysi á hörðustu dýnu í heimi ákvað ég að þetta myndi ekki ganga mikið lengur. Ég tók saman dótið og tékkaði mig inná betra hótel þar sem nóttin kostar 15 dollara í stað 3 dollara á fyrri staðnum (Monkey Republic – ábyggilega ágætis staður, en kræst hvað rúmið var mikið drasl). Ekki nóg með það, heldur ákvað ég að prófa kambódíska heilbrigðisþjónustu. Miðað við heilsu mína var ég farinn að gera mér upp hugmyndir um að ég væri kominn með malaríu vegna þess að ég hafði verið bitinn illa í Siem Reap, sem er á útbreiðslusvæði (að mig minnir allavegana) og ég hef sjaldan verið svona slappur.

Læknastofan var hálf skrýtin. Hún var algerlega opin útá götu og 5 sjúkrarúm voru við innganginn full af fólki í misalvarlegu ástandi. Læknirinn leit á mig, spurði mig nokkurra spurninga og tók svo hitamæli uppúr pennastatífinu sínu og lét mig setja hann undir handarkrikann. Útúr því prófi fann hann að hitinn minn var 38 gráður og ákvað því að taka blóðprufu. Tveim klukkutímum seinna kom í ljós að ég er ekki með malaríu né aðra hættulega sjúkdóma og lét hann mig því fá einhverjar pillur til að bryðja, sem ég er byrjaður á.

Í gærkvöldi tók ég því rólega inná nýja og yndislega hótelherberginu mínu og flakkaði á milli kambódískra karókístöðva og einhverra bandarískra skemmtistöðva. Að lokum endaði ég á að horfa á bandarísku gamanmyndina [13 going on 30](http://www.amazon.com/Going-30-Special-Gary-Winick/dp/B0002C4JI0/sr=1-1/qid=1159601927/ref=pd_bbs_1/104-3715870-7946341?ie=UTF8&s=dvd), sem er þrekvirki í bandarískri kvikmyndagerð. Það var aðallega þrennt, sem vakti athygli mína við að horfa á þá mynd

1. Jennifer Garner er alveg ótrúlega, *ótrúlega* sæt.
2. Ég man ekki hvað númer 2 var
3. Man ekki hvað númer 3 var heldur, en það hafði eitthvað með það að gera hvað Jennifer Garner er sæt.

Í dag tók ég svo leigubíl hingað til Kampot. Mér líður aðeins betur og er að gæla við að verða orðinn góður fyrir morgundaginn. Ástæðan fyrir veru minni í Kampot er að héðan ætla ég að fara í dagsferð í Bokor þjóðgarðinn.

Það er ótrúlegt hvað svona veikindi draga úr manni allan kraft. Á stundum langaði mig bara að hætta þessu og fara heim í stað þess að liggja í svitabaði í 40 gráðu heitu herbergi. Núna er samt krafturinn smám saman að koma tilbaka. Planið er að fara aftur til Phnom Penh á mánudaginn og svo sigla niður Mekong ána inn til Víetnam á þriðjudag.

*Skrifað í Kampot, Kambódíu klukkan 14:45*

Suð-Austur Asíuferð 6: Guð minn almáttugur – NEI, ég þarf ekki tuk-tuk!!!

Það er ekki á mörgum stöðum þar sem skorti á einstaklings framtaki er lýst sem kosti fyrir land. En í ferðabókum um Laos er þessum skorti lýst sem stórum kosti og flestir sem hafa ferðast um nágrannalöndin skilja afskaplega vel af hverju.

Það er nefnilega ekki fokking fyndið hversu miklu áreiti maður verður fyrir í Tælandi og Kambódíu (og Víetnam hef ég heyrt líka) frá alls konar sölufólki og leigubílstjórum. Ég má ekki stoppa á götu og líta til vinstri án þess að [tuk-tuk](http://en.wikipedia.org/wiki/Tuk_tuk) bílstjóri komi uppað mér á biðilsbuxum og spyrji: “Do you need a tuk-tuk” – ef ég segi nei, þá þarf ég bara að labba 5 metra til að hitta næsta bílstjóra og ef ég þigg ekki far með honum, þá býður hann mér að kaupa dóp. Áreitið er stöðugt og yfirþyrmandi. Ég er alltaf mjög meðvitaður um það að vera góður og kurteis ferðamaður, en á stundum getur þetta stanslausa áreiti fært mann fram á brúnina.

Ég fékk matareitrun í gær, sem gerði það að verkum að ég var áfram hérna í Phnom Penh í dag. Nóttinni og megninu af þessum degi hef ég eytt nokkurn veginn jafnt í sjálfsvorkunn og svitabaði uppí rúmi og inná klósetti. Það hefur ekki verið skemmtilegt. Ég er þó að gæla við að þetta sé búið, þar sem ég hef núna ekki farið á klósettið í heila 3 tíma. Vonandi að ég geti komist frá borginni á morgun. Þar sem ég vil ekki fara mjög langt frá góðu klósetti þá hef ég því hangið á netinu mikið í dag.

Phnom Penh er skrýtin og dálítið mögnuð borg, sem liggur þar sem Mekong, Bassac og Tonle Sap árnar mætast. Hún er ólík flestu, sem ég hef séð annars staðar. Ég komst reyndar að því Kambódía er fátækasta land, sem ég hef heimsótt. Samkvæmt [þessum lista](http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_GDP_%28PPP%29_per_capita) er landið 135. ríkasta land heims (þjóðartekjur á hvern Íslending eru nærri **15 sinnum** hærri en á hvern Kambódíumann). Lönd einsog Súdan, Ghana, Níkaragva, Hondúras og Kamerún eru t.a.m. með hærri þjóðartekjur á mann en Kambódía. Ég sé reyndar einnig að Laos (sem ég mun heimsækja seinna í ferðinni) er enn fátækara, í 139. sæti.

Fátæktin er augljós öllum, sem heimsækja Kambódíu, sérstaklega í sveitum landsins. Hún er líka áberandi hérna í höfuðborginni. Við Dave löbbuðum fyrsta daginn í gegnum alla borgina og mismunur milli hverfa er sláandi. Jafnvel í miðri borginni eru ómalbikaðar götur, þar sem rykið þyrlast upp yfir fátæklega markaðsbása og nakin börn leika sér. Ef maður labbar svo nokkur hundruð metra kemur maður á flotta veitingastaði við árbakkana þar sem útlendingar og efnaðir heimamenn á Lexus bílum borða.

Umferðin er gríðarleg og þá aðallega af völdum ótrúlegs magns af mótorhjólum. Ef ég ætti að giska, þá myndi ég telja að hérna væru um 5 mótorhjól fyrir hvern bíl. Þessi mótorhjól virðast almennt séð ekki fylgja neinum umferðarreglum og þar sem hérna eru fá umferðarljós, þá geta ferðalög á túk-túkum eða mótorhjólum verið ansi skrautleg.

Ég bý í gistihúsahverfi við lítið vatn í vesturhluta borgarinnar. Þetta er lítið, skrýtið hverfi sem er blanda af gistiheimilum, veitingastöðum og stórkostlegu magni af fíkniefnasölum. Túk-Túk bílstjórarnir virðast allir sinna tvöföldu starfi því þegar maður neitar því að þurfa á fari að halda, þá sannfærast þeir um þeir geti selt manni eiturlyf.

*Skrifað í Phnom Penh, Kambódíu klukkkan 21.56*

Suð-Austur Asíuferð 5: Rauðu Khmerarnir

Það er varla hægt að lýsa þeim hörmungum, sem hafa dunið yfir kambódísku þjóðina síðustu 50 árin. Bæði hafa utanaðkomandi og heimatilbúnar ástæður fært ólýsanlegar hörmungar yfir þessa litlu þjóð.

Borgarastríð geisaði í Kambódíu frá árinu 1967 á milli hægrisinnaðrar ríkisstjórnar Lon Nol og Rauðu Khmeranna. Á sama tíma hafði Kambódía flækst inní Víetnamstríðið þar sem Víetnamar höfðu haft aðsetur í Kambódíu. Bandaríkjamenn dældu því ógurlegu magni af sprengjum á þorp í Austur-Kambódíu. Þessar sprengjuárásir og ótrúlegt ofbeldi beggja aðila í borgarastríðinu varð til þess að milljónir manna úr sveitum flúðu til borganna og þá aðallega Phnom Penh.

17.apríl 1975 marseruðu svo Rauðu Khmerarnir inní Phnom Penh, höfuðborg þessa lands. Fólkið fagnaði þeim upphaflega og sá fram á að borgarastríðinu og öllum sprengingunum myndi ljúka. En stuttu seinna þennan sama dag byrjuðu þeir að skipa fólki að fara útúr borginni. Yfirskinið var að Bandaríkjamenn ætluðu að varpa sprengjum á borgina og því þyrfti fólk bara að taka eigur fyrir þrjá daga. Raunveruleg ástæða brottflutningsins var að Rauðu Khmerarnir ætluðu að flytja alla borgarbúa útí sveitir landsins, þar sem gera átti alla jafna. Þegar fólk byrjaði að labba í átt að sveitunum voru eigur þeirra smám saman teknar af þeim þangað til að allir voru jafnir; allir áttu ekki neitt.

Við tóku þrjú ár þar sem öll þjóðin var gerð að þrælum Rauðu Khmeranna. Pol Pot lýstu því yfir að nú hefðust nýjir tímar, árið var 0 og vinnuvikan samanstóð af 10 dögum með einum frídegi (sem var reyndar sjaldan gefinn). Aðeins allra fátækustu landlausu bændurnir voru taldir hreinir og fullkomnir, en allir sem áttu einhverjar eigur voru taldir óæðri verur, sem þurfti annaðhvort að hreinsa eða útrýma. Fólkið var sent aftur í sveitirnar og Phnom Penh, sem taldi 2,5 milljónir íbúa varð á stuttum tíma að eyðiborg þar sem aðeins nokkrir verksmiðju verkamenn og kommúnistastjórnin fengu að búa. Restin af þjóðinni átti að vinna allan daginn á akrinum. Fjölskyldur voru splundraðar og allt var gert til að gera alla eins. Vélar voru litnar hornauga og fólk því látið vinna við eins frumstæðar aðstæður og hægt er að hugsa sér. Fjölskyldur fengu ekki að borða saman, heldur þurftu að fá matarskammta í stórum eldhúsum. Fólk fékk ekki að giftast þeim sem það vildi, heldur var fólki stýrt saman af Rauðu Khmerunum í risavöxnum fjöldabrúðkaupum.

Talið er að allt að fjórðungur kambódísku þjóðarinnar (allt að 3 milljónir manna) hafi dáið í borgarastríðinu og af völdum stjórnar Rauðu Khmeranna. Eftir að hafa þolað stanslausar sprengjuárásir Bandaríkjamanna þurfti þjóðin nú að þola þrældóm þar sem þeir, sem þóknuðust ekki Rauðu Khmerunum, voru drepnir. Ólýsanlegar pyntingaraðferðir Rauðu Khmeranna og grimmd þeirra er flestum óskiljanleg.

Pol Pot og Rauðu Khmerarnir gerðu ekkert gott. Þeir færðu þjóð sína aftur á steinöld, drápu stóran hluta hennar og færðu óendanlegar hörmungar yfir restina. Allt fyrir fáránlegar hugmyndir um að allir skyldu vera jafnir (ef að allir eiga ekki neitt, þá eru allir jafnir) og að aðeins þeir fátækustu væru þeim þóknanlegir. Fáránleiki hugmyndanna er magnaður og útfærslan var enn verri.

Það að fjórðungur þjóðarinnar hafi látist í þessum hörmungum er nánast ekki hægt að trúa. Þetta samsvarar því að 75.000 Íslendingar myndu látast af völdum hungurs, pyntinga, sprenginga eða annarra hörmunga af manna völdum á aðeins fjórum árum.

Hérna í Kambódíu hef ég reynt að lesa mig til um sögu landsins. Á bátnum til Phnom Penh kláraði ég [ævisögu Pol Pot](http://www.amazon.com/Pol-Pot-Anatomy-Nightmare-MacRae/dp/B000HOMU4I/sr=8-1/qid=1159091915/ref=sr_1_1/104-3467456-4338305?ie=UTF8&s=books) eftir Philip Short, algjörlega frábæra bók, sem einblínir ekki eingöngu á Pol Pot heldur alla sögu Rauðu Khmeranna og þær aðstæður, sem þeir urðu til við. Bókin er einstaklega spennandi og fræðandi og mæli ég hiklaust með henni fyrir alla! Ég hef einnig lesið nokkrar sögu fórnarlambanna og þeirra best er [First they killed my father eftir Loung Ung](http://www.amazon.com/First-They-Killed-Father-Remembers/dp/0060931388/sr=1-1/qid=1159092291/ref=pd_bbs_1/104-3467456-4338305?ie=UTF8&s=books) sem segir sögu sína, en hún var fimm ára gömul þegar fjölskyldu hennar var skipað útúr Phnom Penh af Rauðu Khmerunum.

Það er líka magnað til þess að hugsa að nánast *allir eldri en 35 ára* hérna í Kambódíu eiga einhverja sögur af hörmungum Rauðu Khmeranna. Bara örfáir voru ekki reknir útúr bæjunum og örfáir þurftu ekki að vinna þrælavinnu. Allir þekkja einhverja, sem voru drepnir. Núna 31 ári eftir að Rauðu Khmerarnir komu inní höfuðborgina hafa enn fæstir þeirra þurft að taka út refsingu fyrir glæpi sína. Pol Pot dó í friði og flestir hinir hafa aldrei þurft að svara fyrir glæpi sína. Sumir sitja enn í áhrifastöðum í Kambódíu. Það eitt og sér er glæpur.

Á bátnum til Phnom Penh kynntist ég Dave, írskum strák, sem deilir með mér fanatískri aðdáun á Liverpool. Við skoðuðum á laugardaginn borgina saman og sátum svo ásamt áhugasömum innfæddum og horfðum á fótbolta um kvöldið, m.a. á glæsilegan [sigur Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/09/23/13.38.45/) á meðan við drukkum laóskan bjór.

Á sunnudaginn fórum við svo og skoðuðum tvö helstu minnismerki um Rauðu Khmeranna hérna í Phnom Penh. Fyrst skoðuðum við drápsakrana í Choeung Ek. Þar var allskonar andstæðingum (raunverulegum og ímynduðum) Rauðu Khmeranna safnað saman eftir yfirheyrslur í S-21 fangelsinu. Í Choeung Ek var fólkið tekið og drepið um leið og það kom og líkunum hent í fjöldagrafir. Fjöldi fórnarlambanna var stundum svo yfirþyrmandi að böðlarnir höfðu ekki við að drepa alla samdægurs heldur þurfti fólkið að bíða yfir nótt eftir að vera drepið. Á þessum stað hafa alls um 9.000 lík verið grafin upp og í minnismerki á staðnum eru geymdar hundruðir rotnandi hauskúpna af fórnarlömbunum.

Ef að drápsakrarnir eru átakanlegir, þá jafnast þeir samt ekki á við S-21 öryggisfangelsið, sem var næsti áfangastaður okkar. Fyrir sigur Rauðu Khmeranna var S-21 barnaskóli, en þeir breyttu skólanum í fangelsi þar sem ímyndaðir óvinir voru teknir inn. Alls fóru um 20.000 manns í gegnum fangelsið á þeim þrem árum sem þeir réðu og talið er að enginn hafi lifað dvölina af. Fólk á öllum aldri var tekið og pyntað þangað til að það hafði viðurkennt að það væri CIA njósnarar (og oft öll fjölskyldan líka) – þá fór fólkið að drápsökrunum þar sem það var drepið. Lítil börn voru tekin af fólkinu um leið og það kom og þau drepin í sjálfu fangelsinu. Fæstir lifðu meira en mánuð í fangelsinu í eins fermetra klefum þar sem fólk var hlekkjað við gólfið, svo það gæti ekki einu sinni staðið upp. Það fékk þrjár skeiðar af hrísgrjónasúpu þrisvar á dag í klefann og þurfti að gera allar sínar þarfir inní sjálfum klefanum.

Í dag er í S-21 safn um þessar hörmungar og ég efa það að nokkur maður geti farið þarna í gegn án þess að verða fyrir miklum áhrifum. Við Dave fengum kambódíska konu til að fylgja okkur eftir þarna og hún sagði okkur sögur fólksins á meðan maður skoðaði myndir af litlum börnum, sem voru teknar nokkrum mínútum áður en þau voru drepin. Grimmdin er óútskýranleg.

Á þeim tíma sem þessar hörmungar stóðu yfir studdu fjöldi landa Kambódíu. Kínverjar og Bandaríkjamenn studdu stjórn Rauðu Khmeranna af þeirri einni ástæðu að þeir voru á móti Víetnömum (sem að steyptu að lokum stjórn Rauðu Khmeranna með innrás sinni). Af þeim löndum, sem voru á móti stjórninni voru flest kommúnistaríki (undir stjórn Sovétríkjanna) sem voru á móti stjórn Rauðu Khmeranna – ekki útaf þeim hörmungum sem hún færði yfir kambódísku þjóðina, heldur eingöngu vegna þess að þessar þjóðir studdu Víetnam. Það er svo ótrúlegt að lesa sig til um þetta – að maður verður oft orðlaus. Það eru fæst lýsingarorð of sterk til að lýsa grimmdinni og mannfyrirlitningunni, sem að Rauðu Khmerarnir sýndu þjóð sinni.

Í dag höfum við Dave eytt tíma okkar á rússneska markaðinum hérna í Phonm Penh, þar sem við skoðuðum alls konar drasl. Planið er að eyða eftirmiðdeginum hérna niðri við ána. Á morgun fer hann til Bangkok, en ég ætla að fara niður til Sihanoukville.

*Skrifað í Phnom Penh, Kambódíu – klukkan 14.00*

Suð-Austur Asíuferð 4: Angkor

N.B. – hérna [eru komnar nokkrar myndir úr ferðinni](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157594294825321/)

Jæja, þá er ég búinn að eyða þrem dögum í að skoða Angkor fornleifarnar hérna í nágrenni Siem Reap í Kambódíu.

Angkor er *frekar* mikið mál í hugum Kambódíumanna. Ekki ólíkt og Tikal er fyrir Gvatemalabúa, þá er Angkor uppspretta gríðarlegs stolts. Fátæk þjóð í dag getur bent á mikilfengleika forfeðranna og sagt: “Sjáiði, *við* byggðum þetta”. Rauðu Khmerarnir notuðu Angkor t.a.m. sem dæmi um það hversu langt kambódíska þjóðin kæmist. Angkor er útum allt í Kambódíu. Angkor Wat er á fánanum, mest seldi bjórinn heitir Angkor og annaðhvert hótelnafn inniheldur Angkor.

Enda kannski ekki furða því Angkor er ótrúlegt fyrirbæri. Frá árinu 900-1200 var veldi Khmeranna stýrt frá Angkor og á þeim tíma byggðu þeir margar af mögnuðustu byggingum heims. Alls eru á svæðinu um 72 meiriháttar musteri. Eitt slíkt væri nóg til að gera heila þjóð stolta, en ef maður margfaldar það stolt með 72 þá verður auðvelt að skilja mikilvægi Angkor fyrir þessa litlu þjóð.

Umfang Angkor er slíkt að ég stóð sjálfan mig að því að hjóla í rólegheitunum framhjá musterum, sem alls staðar annars staðar í heiminum hefðu verið næg ástæða langrar heimsóknar. Slíkt er umfangið og magnið af stórkostlegum byggingum á svæðinu að það er ekki nokkur leið að gera þeim öllum skil. Alveg einsog maður fær leið á kirkjum í Rússlandi, þá get ég einfaldlega ekki skoðað musteri endalaust.

En þessir þrír dagar hérna hafa verið frábærir. Einsog ég talaði um [áður](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/20/14.16.58/) eyddi ég fyrsta deginum á mótorhjóli um fjarlægustu musterin. Ég var ekki alveg sáttur við að hafa smá tilfinningu í rassinum og ákvað því næst að leigja mér reiðhjól. Til að gera þetta aðeins meria krefjandi ákvað ég (eða hjólaleigan ákvað það reyndar fyrir mig) að leigja lélegasta hjól *í heimi*. Það var eins gíra, 15 ára gamall ryðklumpur. Ég gat ekki beygt stýrið án þess að það gæfi frá sér skerandi ískur. Þó vandist ég þessu nokkuð fljótt enda var ég hjólandi allan daginn og fór sennilega langleiðina með að hjóla einhverja 40 kílómetra (í morgun gat ég varla staðið upp vegna harðsperra í lærum).

Ég byrjaði á [Angkor Thom](http://en.wikipedia.org/wiki/Angkor_Thom) borginni, skoðaði þar [Bayon](http://en.wikipedia.org/wiki/Bayon) musterið og minni musteri í kring. Síðan fikraði ég mig norðar og skoðaði [Preah Kahn](http://en.wikipedia.org/wiki/Preah_Khan) og nágrenni.

Í dag ákvað ég að sjálfspyntingin myndi taka enda og því leigði ég mér túk-túk fyrir daginn. Um 5.30 var ég því mættur til að sjá sólarupprás við stærstu trúarbyggingu í heimi, hið magnaða [Angkor Wat](http://en.wikipedia.org/wiki/Angkor_Wat). Það er býsna erfitt að lýsa mikilfengleika Angkor Wat, en trúið mér – þetta er stórkostleg bygging. Angkor Wat var byggt fyrir Suryavarman II konung og til heiðurs hindúa guðum (en var svo síðar vippað yfir í búddista musteri). Ég eyddi megninu af morgninum inní og við Angkor Wat, klifraði upp turnana, sat og virti fyrir mér útsýnið og reyndi að njóta þess sem best að vera staddur á þessum magnaða stað. Það er einfaldlega ekki hægt að lýsa Angkor Wat. Allavegana er ég ekki nógu góður penni til að gera því góð skil.

Eftir þetta fór ég svo yfir í [Ta Prohm](http://en.wikipedia.org/wiki/Ta_Prohm) musterið, sem er einna merkilegast fyrir þær sakir að þar hefur náttúran tekið yfir ótrúlega stóran hluta af musterinu. Risavaxnar (og þá meina ég *risavaxnar* trjárætur hafa þar á sumum stöðum teygt sig yfir stóra hluta af musterinu. Stærðin sést kannski best á [þessari mynd af mér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/249656077/) fyrir framan eitt tréið, sem hafði smeygt sér utanum byggingu. (Hin stórkostlega lélega mynd Tomb Raider var að hluta til mynduð inní Ta Prohm).

Og það var það. Hérmeð er þá musterahluta þessarar ferðar lokið í bili. Búinn að sjá *Temple of the emerald Buddha* og *Angkor Wat* á innan við viku. Það telst ágætis árangur. Eldsnemma í fyrramálið er planið að fara með báti niður [Tonlé Sap](http://en.wikipedia.org/wiki/Tonle_Sap) niður til höfuðborgarinnar Phnom Penh, þar sem ég ætla að eyða helginni og næstu dögum. Þaðan ætla ég svo að halda á ströndina í [Sihanoukville](http://www.canbypublications.com/sihnoukville/ksbeaches.htm).

(p.s. Já, og bara svo það sé á hreinu: Miðað við vefnotkun mína hérna í Kambódíu undanfarna daga, þá eru eftirfarandi síður bannaðar í Kambódíu:

[Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan), [Sverrir Jakobss](http://kaninka.net/sverrirj) og [Morgunblaðið](http://www.mbl.is)

Furðuleg blanda.)

*Skrifað í Siem Reap, Kambódíu klukkan 19.47*

Suð-Austur Asíuferð 3: Mótorhjól og valdarán

Hvurslags eiginlega er þetta?

Akkúrat sama dag og ég fer frá Bangkok, þá fremur tælenski herinn [valdarán](http://news.bbc.co.uk/2/hi/asia-pacific/5362698.stm)!!! Ég er orðinn nokkuð vanur þessu mynstri. Tveim dögum eftir að ég fór frá El Salvador í fyrra byrjaði eldfjall að gjósa þar, aurskriður skóku Gvatemala eftir brottför mína og þegar ég flaug frá Cancun var byrjuð rigning, sem var upphafið af fellibylnum, sem eyðilagði Cancun.

En valdarán! Vá! Ég hélt að svoleiðis gerðist bara í gamla daga. Það var reyndar augljóst öllum að Thaksim var verulega óvinsæll í Tælandi og að kóngurinn var manna vinsælastur. Kóngurinn er að fagna 60 ára valdaafmæli þessa dagana og því gekk annarhvor borgarbúi um í gulum bol, sem átti að sýna stuðning við hann. Í fréttum hefur verið talað um að kóngurinn sé ekkert sérstaklega mikið á móti þessu valdaráni, en hann á ennþá eftir að tjá sig um málið.

En þetta er allt saman mjög magnað.

Og mamma, ég er semsagt heill á húfi í öðru landi.

Ég kom semsagt til Kambódíu (*by the way, mér finnst Kampútsea vera fallegra nafn en Kambódía! – skil ekki alveg lógíkina á bakvið að breyta þessum hluta nafnsins þegar að Alþýðulýðveldis-titillinn var fjarlægður*) í gær. Fór snemma um morguninn með rútu frá Bangkok til landamærabæjarins Aryana Prathet. Þar rölti ég yfir landamærin og hitti strax par frá Quebec, sem ég deildi svo með 4 klukkutíma taxa frá landamærunum til borgarinnar Siem Reap (nafnið þýðir “Siam sigrað!” – skemmtilegt nafn fyrir borg svo nálægt landamærunum við Tæland), þar sem ég er núna.

Breytingin frá Tælandi yfir í Kambódíu var nokkuð mögnuð. Ekki ósvipuð því að færa sig frá Suður-Ameríkulandi til Mið-Ameríkulands. Um leið og við fórum yfir landamærin hríðversnuðu göturnar, skíturinn jókst og fátæktin var augljóslega meiri. Hérna í Kambódíu eru um 95% íbúanna Khmerar, sem eru dekkri á hörund en íbúar nágrannaríkjanna. Þeir tala tungumálið Khmer, sem mér sýnist allavegana svona fyrir heimskan túrista einsog mig, virka aðeins auðveldara en tælenska (ég get allavegana sagt “takk” á khmer-máli).

Fáar þjóðir hafa verið jafn einstaklega óheppnar með leiðtoga einsog Kambódíu…(*hvað segir maður eiginlega? Maður gat notað Kampútsear, en hvað notar maður um fólk frá Kambódíu? Kambódar? Kambódíumenn?*). Svona af fyrstu dögunum að marka er þetta einstaklega gott fólk. Hérna tala talsvert fleiri ensku en á Tælandi (sem kom mér talsvert á óvart) og fólk tekur vel á móti gestum. Ég er allavegana heillaður eftir þessa tvo fyrstu daga.

Síðasti dagurinn minn á Tælandi var frábær. Ég hitti Friðrik og Thelmu, sem eru í brúðkaupsferðinni sinni, og eyddum við deginum saman. Við byrjuðum á því að skoða Wat Arum hofið og löbbuðum svo aðeins um það hverfi. Síðan fórum við uppá Khao San, þar sem við eyddum kvöldinu saman á veitingastað. Ljómandi fínt alveg hreint.

Ef að rassinn á mér gæti talað þá myndi hann eflaust þakka mér (með kaldhæðnislegum tón) fyrir mótorhjólaferðina, sem ég fór með honum í dag.

Ég er semsagt í Siem Reap til að skoða [Angkor fornleifarnar](http://www.hillmanwonders.com/angkor_wat/angkor_wat.htm#_vtop), sem eru með merkustu fornleifum í heimi. Ég ætla að taka mér 3 daga í það að skoða þær. Lonely Planet mælir með heilli viku en þeir, sem skrifa þær bækur, eru hálf tregir og taka sér alltaf alltof mikinn tíma á söfnum og við fornleifar.

Til að sjá ekki allt þetta flottasta og stærsta fyrst, ákvað ég að leigja mér mótorhjól með dræver og keyra að fjarlægustu rústunum, Kbal Spean, Banteay Srei og [Beng Mealea](http://www.cambodianonline.net/angkorwat530.htm). Við byrjuðum á því að hossast á lítilli vespu í ausandi rigningu og drullu í sirka 90 mínútur og komum þá að Banteay Srei. Ekki var ég fyrr búinn að moka mestu moldina framan úr andlitinu á mér þegar að uppað mér keyrði loftæld rúta full af japönum, sem smeygðu sér á undan mér inní musterið (ég er ekki að skálda þetta!).

Ég lét þetta þó ekki á mig fá og við tóku aðrar 90 mínútur á vespunni, núna á versta vegi sunnan alpafjalla, svo fullum af pollum að við gátum ekki farið á meira en 15 kílómetra hraða. Við stoppuðum stutt hjá Kbal Spean og héldum svo í áttina til Beng Mealea þar sem við vorum komnir (ég og Hong, dræverinn) um 2 leytið. Á þeim tíma höfðum við verið á vespunni meira og minna frá því um 7 um morguninn og ég næstum því hættur að hafa tilfinningu í rassinum.

Hong þóttist vita allt um Beng Mealea musterið og því fylgdi ég honum þangað inn. Ég á varla til orð að lýsa því hversu mikil snilld þetta var. Beng Mealea musterið var byggt í kringum 1150 en er núna nánast algerlega þakið skógi, sem hefur lagt musterið í rúst. Því er þetta samansafn af heilum hlutum og hlutum þar sem að rætur trjáa hafa algerlega splundrað byggingunum og því liggja risa steinar sem hráviði útum allt. Þetta (og fjarlægðin frá Siem Reap) gerir það að verkum að nánast engir túristar koma þangað. Við Hong vorum til að mynda einir nánast allan tímann.

Á tímum leið mér einsog ég væri í Indiana Jones mynd að kanna áður óþekkt musteri. Við þurftum að passa okkur verulega vel að detta ekki á sleipum steinunum þegar að við reyndum að feta okkur á milli rústanna og ég fór langleiðina með að snúa á mér ökklann þegar ég reyndi að hoppa hetjulega á milli sumra steinanna. Það er hálf erfitt að lýsa þessu á spennandi hátt, en myndirnar muna sennilega gera þessu betri skil. Ekki minnkaði það spennuna að Hong villtist inní einhverjum göngum (hann viðurkenndi þá að hafa aðeins komið þarna einu sinni) og reyndi svo að gefa mér hjartaáfall með því að kasta steini í leðurblökur, sem héngu inní einum myrku göngunum. Vá hvað þetta var gaman.

Við enduðum svo í stuttri heimsókn hjá fjölskyldu Hong, þar sem við átum skrýtinn ávöxt og ég gerði í því að hræða yngsta barnið á heimilinu (aðallega með því (að ég held) að vera hvítur, ljóshærður og ókunnugur). Fjölskyldan hans býr einsog flestar fjölskyldur virðast búa hérna í nágrenni Siem Reap, í mikilli fátækt. Húsin eru einfaldir kofar, byggðir ofan á staurum til að lenda ekki undir vatni þegar að það flæðir yfir hrísgrjónaakrana. Flestir virðast hafa nóg að borða, en ekki mikið meira en það. Ólíkt fátækrahverfum til að mynda í Mið-Ameríku, þá er ekki einu sinni rafmagn á húsunum. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir miklar umbætur á síðustu árum að Kambódía á enn langt í land með að jafna sig á hörmungunum, sem Rauðu Khmerarnir færðu yfir þetta land.

*Skrifað í Siem Reap, Kambódíu klukkan 21.16*

Suð-Austur Asíuferð 2: Bangkok

Ég er svona rétt um það bil að venjast Bangkok núna þegar ég er á leið frá borginni.

Í nótt var ég vakinn klukkan 1 við að ég heyrði æluhljóð og hélt í smástund að einhver nágranni minn hefði smeygt sér inná klósettið mitt til að æla nokkrum glösum af Singha bjór. En eftir að hafa hugsað málið í smá stund fattaði ég að næfurþunnir veggir væru ástæðan fyrir þessari upplifun minni. Ég er með þá kenningu að þessir veggir séu samansettir úr gömlum dagblöðum, sem hafi verið máluð með hvítum lit. Þetta auðveldar ekki svefn.

Í gær fór ég og skoðaði helstu túristastaðina í Bangkok, sem eru allir samankomnir í Ko Ratanakosin hverfinu, sem var áður aðsetur konunga. Þetta hverfi er í göngufjarlægð frá Khao San en það var sko ekki fræðilegur möguleiki á því að ég myndi labba þangað. Ástæðan fyrir því er að til að heimsækja musterin þarf maður að vera í buxum (ekki stuttbuxum) og í langerma skyrtu. Þegar við bætum því inní jöfnuna að það var 35 stiga hiti í Bangkok í gær og sól, þá hvarf allt í einu löngun mín í langar gönguferðir í gallabuxum og skyrtu.

Allavegana, ég byrjaði á [Wat Phra Kaew](http://www.hillmanwonders.com/temple_emerald_buddha/temple_emerald_buddha.htm#_vtop), sem er merkast hofanna á svæðinu. Það hof geymir pínulitla styttu af Búdda, sem hefur mikla þýðingu fyrir Tælendinga þar sem talið var að hún væri úr eðalsteini og henni var stolið af Laos búum í einhverju léttu flippi fyrir mörg hundruð árum. Það var svo Taksin konungur, sem náði styttunni tilbaka til Tælands og utan um hana var byggt þetta stórkostlega hof. Ég meina vá. Hofið er svo sannarlega meðal þeirra allra fallegustu bygginga, sem ég hef séð um ævina.

Þarna í kring er svo konungshöllin, sem er ekki síður æðisleg og allskonar minni hof, sem gera þetta svæði algjörlega ógleymanlegt. Ég ráfaði þarna um í svitabaði, uppfullur af aðdáun fyrir mikilfengleika þessara bygginga.

Stuttu sunnar heimsótti ég svo Wat Pho hofið. Þar inni er hvorki meira né minna en stærsta liggjandi stytta af Búdda, alls um 46 metrar á lengd. Hún á að tákna dauða Búdda og för hans inní Nirvana.

Eftir þetta var ég orðinn svo sveittur að ég ákvað að nóg væri komið og dreif mig heim. Restinni af deginum eyddi ég svo á ráfi um Khao San og nágrenni, keypti mér nokkrar bækur um Kambódíu og kláraði að lesa [Long Way Down](http://www.amazon.com/Long-Way-Down-Nick-Hornby/dp/1573223026) eftir Nick Hornby, sem er vissulega mikil snilld einsog við var að búast.

Um kvöldið ákvað ég svo að gera mig að fífli inná bar með látum mínum yfir [þessum fótboltaleik](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/09/17/14.23.57/). Ég held að fólk á staðnum hafi verið farið að vorkenna mér ákaflega mikið í lok leiks og einn gaur (sem leit út og var klæddur einsog afrískur galdralæknir) sagði mér að hafa ekki áhyggjur því að leikurinn myndi fara 1-1. Við það róaðist ég aðeins enda leit hann út fyrir að vita eitthvað um framtíðina, en allt kom fyrir ekki. Svei mér þá, ég held að hitinn á barnum hafi gert mig enn æstari en vanalega.

En allavegana, ég ætla að drífa mig þar sem ég á að hitta Friðrik og Thelmu eftir smá stund. Svo eldsnemma í fyrramálið er það rútuferð til Kambódíu.

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 12.51*

Suð-Austur Asíuferð 1: Phát Thai

Úffff, Bangkok maður!

Ég hef upplifað margar stórborgir, en samt þá býr mann ekkert almennilega undir geðveikina í Bangkok. Öll þessi fáránlega umferð, endalausu læti og endalaust áreiti gera það að verkum að maður er hálf uppgefinn þegar maður skríður inná hótelherbergi í lok dags.

Ferðalagið hingað til Tælands var langt, en samt bærilegt. Ég byrjaði ferðalagið á miðvikudagsmorgun með því að labba með bakpokann minn útá Hótel Sögu rétt fyrir klukkan 5. Og því lauk þegar ég tékkaði mig inná hótel í Bangkok klukkan 21 á fimmtudagskvöldinu. Semsagt 31 tímar á ferðalagi og 7 klukkutíma tímamismunur. Ég stoppaði í 8 tíma í London og ákvað að eyða þeim tíma bara í rólegheitunum á Heathrow, þar sem ég lenti á Stansted og þurfti að koma mér yfir á Heathrow. Eftir þá bið tók svo við flug með Emirates, fyrst til Dubai og þaðan til Bangkok.

Þrátt fyrir að Emirates flugfélagið hafi stutt bjánalið einsog Chelsea og Arsenal, þá var ég fljótur að fyrirgefa þeim það þar sem þeir voru með sjónvarp í sætinu þar sem ég gat valið um einhverjar 300 bíómyndir “on-demand”. Það var snilld og náði ég því að horfa á “Inconvenient Truth” – sem er snilld og “Thank you for smoking” – sem var ekki svo mikil snilld. Eini gallinn á fluginu var sá að dúbaísk börn virðast vera þeim kosti gædd að geta grátið stanslaust í 6 tíma og 15 mínútur, sem er akkúrat sá tími sem að fyrra flugið tók.

Hérna í Bangkok gisti ég á litlu “hóteli” á frægustu bakpokaferðalanga-götu í heimi, *Khao San*. Þessi gata er auðvitað kapítuli útaf fyrir sig. Hérna eru samankomin hundruðir af bakpokaferðalöngum, sirka 2.000 götusalar – sem selja allt frá Phat Thai (ég hef verið einstaklega duglegur við að styrkja þá sölumenn) til sólgleraugna og svo um 100 Túk-Túk bílstjórar. Úr þessu verður svo til alveg yndislega hallærisleg blanda, sem ég held að ég þoli ekki í mikið meira en þá fjóra daga, sem ég ætla mér að vera hérna.

Ég er ekki búinn að gera mikið hérna í Bangkok. Ferðalagið og tímamunurinn situr ennþá eitthvað pínu í mér, allavegana hef ég sofið í 14 og 15 tíma fyrstu tvær næturnar hérna. Þó er ég nokkuð viss um að það er ekki þægilegu rúmi eða rólegu umhverfi að þakka. Gærdeginum eyddi ég á labbi um borgina og reyndi aðeins að fá tilfinningu fyrir lífinu hérna í nágrenninu. Það að fara í göngutúr í Bangkok er þó ekki auðvelt. Fyrir það fyrsta er mengunin sennielga nóg til að fá lungnakrabba innan nokkura daga. Auk þess þá er umferðin stórhættuleg. Nú hef ég upplifað umferðina í borgum einsog Buenos Aires, Istanbúl og Mexíkóborg þar sem menn virðast ekki hafa fyrir því að fara í ökuskóla. En Bangkok nær að toppa þessar borgir, mest vegna fjölbreytileika ökutækja. Því auk hefðbundinna bíla eru hér milljón mótorhjól og eitthvað annað eins af Túk-túk töxum, sem geta sveigt sér í allar þær mögulegu eyður, sem venjulegir bílar skilja eftir sig.

Bætum svo því við að hérna eru nánast aldrei umferðarljós við göngubrautir og því verður þetta háspennuleikur í hvert skipti, sem maður þarf að labba yfir götu. Bangkok búar virðast ekkert kippa sér upp við þetta – en ég er ennþá að venjast þessu. Á labbi niðrí Kínahverfið var stoltið mitt þó aðeins sært þegar að gömul kona leit á mig, þegar ég hafði staðið einsog hræddur álfur við götuna í sirka mínútu, og stökk svo útá götu beint fyrir leigubíl sem stoppaði fyrir henni. Ég hugsaði með mér að ef hún væri ekki hrædd við að deyja, þá væri ég það ekki heldur og stökk á eftir henni en hélt mig þó hægra megin við hana svo að hún myndi fá mesta skellinn ef að brjálaður Túk-túk bílstjóri myndi keyra okkur niður.

Þessir túk-túk bílstjórar eru algjörar dúllur, því þeir taka hverja handahreyfingu sem viljayfirlýsingu um að maður vilji fá far með þeim. Hérna þarf ekki að kalla á þá, það er nóg einfaldlega að taka upp kort eða stoppa og horfa í kringum sig í 10 sekúndur. Í gær var ég að glápa á einhverja sæta stelpu, sem labbaði í veg fyrir Túk-túk bílstjóra, sem varð um leið sannfærður um að ég væri að horfa á hann og bauð mér því undireins far á afar góðu tilboðsverði.

Ég kíkti svo útá djammið hérna á *Khao San* í gærkvöldi. Kynntist stelpu frá Hollandi og strák frá Argentínu og sátum við saman á *Center Khao San* barnum. Seinna um kvöldið hittum við svo þrjár sænskar stelpur, sem við fórum með á dansklúbb hér nálægt. Þökk sé hinum gríðarlega óvinsæla forsætisráðherra Tælands, Thaksin Shinawatra, (sem ætlaði einu sinni að kaupa Liverpool FC), þá mega barir ekki vera opnir til lengur en 1, þannig að ég hafði ekki drukkið nema einhverja 10 Singha bjóra þegar að tónlistin stoppaði og allt var búið.

Deginum í dag hef ég svo eytt í Kínahverfinu í Bangkok. Kínahverfið er einsog önnur hverfi hérna í miðborg Bangkok, nema að það er bara *aðeins* geðveikara – og götumaturinn *aðeins* ógirnilegri. Þetta var þó skemmtilegt hverfi ég ég keypti mér m.a. úr og gæða sólgleraugu fyrir samtals 350 krónur.

Ég ætla að vera hérna í Bangkok fram á þriðjudagsmorgun. Á morgun er von á Friðrik og Thelmu (sem eru í brúðkaupsferð) hingað til Bangkok og ætlum við að hittast á mánudagskvöld í kvöldmat. Ég ætla að eyða morgundeginum í að skoða musterin hérna í Bangkok og svo stefni ég að fara á þriðjudaginn áleiðis til Siem Reap í Kambódíu, sem verða grunnbúðir fyrir ferðir til *Angkor Wat* musteranna.

(p.s. getur einhver snjall einstaklingur sagt mér af hverju forsíðan á eoe.is birtist með tælenskum stöfum, en ekki einstakar undirsíður)?

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 19.05*

Lokaundirbúningur

Úfff, ég trúi því varla að ég sé að fara út í fyrramálið. Ég er ekki einu sinni byrjaður að pakka.

Síðustu dagar hafa verið skemmtilegir, en líka fullir af stressi. Hápunkturinn var án efa brúðkaup Friðriks og Thelmu, sem var haldið á laugardaginn. Fyrir það hafði ég auk vinnustress verið að stressa mig á því að búa til myndasýningu fyrir brúðkaupið, sem og að semja ræðu.

Brúðkaupið var í alla staði frábært. Ég skemmti mér ótrúlega vel og allt heppnaðist frábærlega. Ég hélt ræðu og svo vorum við æskuvinirnir með myndasýningu, þar sem við sýndum myndir frá því þegar við vorum litlir. Vá hvað þetta var skemmtilegt.


Annars hafa síðustu dagar bara farið í að kára nokkur vinnutengd mál á síðustu stundu. Er í raun ekkert búinn að skipuleggja ferðina mína. Veit bara að ég ætla að pakka myndavélum og smá fötum í kvöld og kaupa svo bara það sem ég þarf þegar ég kem á staðinn og finn á mér hvað ég þarf. Síðast tók ég alltof mikið af dóti í bakpokann og þurfti að senda dót heim nánast strax.

Ég á svo flug í fyrramálið til London og svo um kvöldið með Emirates til Dubai og þaðan til Bangkok. Fer væntanlega að heiman klukkan 4.45 miðvikudaginn 12.september og ef allt gengur að óskum þá lendi ég í Bangkok klukkan 18.30 þann 13.september að staðartíma. Þetta er massíft ferðalag. Er búinn að panta mér semi-gott hótel á Khao San þar sem ég nenni ekki að hlusta á hrjótandi Þjóðverja fyrstu nóttina. Vil getað náð úr mér mestu þreytunni með svefni i almennilegu herbergi fyrstu nóttina. Fyrir utann það er ekkert planað nema að ég hef grófa hugmynd um að byrja ferðina með því að fikra mig til Kambódíu.

En allavegana, ég stefni á að skrifa reglulega frá þessari ferð minni. Vonandi getur það verið áhugavert fyrir einhverja. Stefni líka á að uppfæra Flickr síðuna með myndum.

Fyrir vini og vandamenn, endilega **sendið mér póst** 🙂