Hólí fokking plebbismi

Í Mogganum í gær er einsog vanalega á laugardögum kafli um ferðalög. Þar er m.a. viðtal við Gísla, miðaldra Íslending, sem fór til Istanbúl með íslenskum fararstjóra í pakkaferð í haust. Hver nákvæmlega tilgangur þess að ræða við þennan ferðalang er, átta ég mig ekki almennilega á.

Gísli var ekki ánægður með ferðina til Tyrklands og er frekar fúll yfir því að það skuli vera til öðruvísi fólk utan Íslands. Hann segir m.a.

>Á hverju horni biðu menn eftir að snuða mann. Það setur óneitanlega blett á svona ferð sem auðvitað er lagt upp með að sé skemmtiferð.

Hólí krapp! Hann er semsagt fúll yfir því að götusalar í Istanbúl sýni honum ekki þá tillitsemi að haga sér einsog Íslendingar, á meðan að þessi íslenski hópur hafi verið í *skemmtiferð*. Þvílíkt tillitsleysi!

Hann heldur áfram:

>Borgin er skítug og leiðinleg. Maturinn ekkert sérstakur.

Hvernig fær Gísli þetta út nákvæmlega? Hvað átti borgin að gera til að vera skemmtilegri? Prófaði Gísli að tala við innfædda, reyna að kynnast menningunni? Eða var hann bara í pakkaferð og ráfaði um borgina í fylgd fararstjóra?

Er [AyaSofia](http://www.hillmanwonders.com/hagia_sofia/hagia_sofia.htm#_vtop), ein merkasta kirkja í heimi, leiðinleg? Hvað með Bláu Moskuna? Eða [Topkapi höllin](http://www.hillmanwonders.com/topkapi/topkapi_palace.htm#_vtop)? Er þetta ekki nógu skemmtilegt? Hvað með allt mannlífið? Skemtanalífið? Öll menningin? Bosphorous? Hvað þarf til að gera borgina skemmtilega? Golfvöll eða strönd kannski?


Gísli heldur áfram:

>Veðrið var leiðinlegt, rigning og slydda allan tímann

Ef nafnið gaf það ekki nógu vel til kynna, þá er Gísli Íslendingur. Er það ekki býsna hæpið fyrir okkur Íslendinga að gagnrýna veður í öðrum löndum?

Og áfram:

>Það er einsog mönnum sé það bara heilagt þarna að ræna villutrúarmenn eins og þeim finnst við vera.

!!!

Bíddu nú aðeins hægur! Hvað hefur þetta með trúarbrögð að gera? Heldur Gísli virkilega að múslimar reyni að ræna fólk sérstaklega af því að það er kristið? Er ekki líklegra að fátækir Istanbúl-búar reyni að nýta sér fáfræði erlendra túrista, sem sýna landi þeirra og menningu afskaplega lítinn skilning?

Hvernig veit hann að Tyrkirnir í Istanbúl líti á hann sem villutrúarmann? Lenti hann einhvern tímann í samræðum við Tyrki um trúarbrögð, eða tekur hann þetta bara beint uppúr sjónvarpinu? Reyndi hann einhvern tímann að nálgast Tyrkja til að fræðast um viðhorf þeirra?


Gísli tekur tvö dæmi af því af hverju Istanbúl er svona hræðileg. Í fyrsta lagi er hann rukkaður of mikinn pening fyrir kebab á götuhorni! Í öðru lagi var farið í hliðartösku konu hans og tekið seðlaveski. That’s it! Ég endurtek, það var *seðlaveski* tekið úr *hliðartösku*! Þau hefðu alveg eins getað borið skilti, sem á stóð “rænið okkur, við erum túristar”.


Svo endar Gísli þetta á þessu:

>Ég segi ekki að þetta hafi verið hrein hörmung, en þetta var ekki gaman.

Semsagt, vitlaust verð á kebab og seðlaveski úr hliðartösku eyðilagði skemmtiferð þeirra hjóna. Og fyrir það ákveða þau að hafa samband við Moggann og gefa það í skyn að Tyrkir séu þjófóttir, sem geri í því að herja á “villutrúarmenn”.

Af hverju í ósköpunum er ferðahluti Moggans að birta svona vitleysu? Veit fólk ekki að það eru þjófar í stórborgum í útlöndum? Þarf einhver að segja svona? Af hverju er í frásögn um Istanbúl ekki minnst einu orði á allt hið góða við borgina, en öllu púðri eytt að segja frá óheiðarlegum kebab sala?

Af hverju er ekki frekar talað við fólk, sem hefur farið til Istanbúl einsog alvöru ferðalangar og reynt að kynnast landinu og menningunni? Fólk, sem er víðsýnt og gerir sér grein fyrir að það sé skítur og fátækt í löndum utan Íslands?

Fyrir utan það að það er náttúrulega ekki hægt að gagnrýna borgina, þar sem [merkasti íþróttaviðburður þessarar aldar](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/06/04/ferasaga_istanbl) fór fram 🙂

Amsterdam

Kominn heim frá Hollandi eftir frábæra helgi þar. Veðrið var æði. Amsterdam er æði. Túristaðist einhvern slatta, fórum á Van Gogh safnið, markað í Bewervijk, djömmuðum á Leidseplein, löbbuðum meðfram síkjum, borðuðum indónesískan mat, reyndum að skilja hollensku.

Löbbuðum um Rauða Hverfið og virtum fyrir okkur misfagrar hórur. Var búinn að heyra allt um þetta hverfi, en samt brá mér við að sjá þetta. Drukkum bjór á bekk útá götu.

Amsterdam fyrir fullorðna er talsvert skemmtilegri en sú Amsterdam, sem ég man eftir sem barn. Svona borg sem ég væri alveg til í að heimsækja líka um næstu helgi.

Ég tók örfáar myndir í Amsterdam. Hérna eru þrjár þeirra. Smellið á myndirnar til að fá stærri útgáfu.

Ég við síki í Amsterdam

Ég sá hjól í Amsterdam!

Rauða hverfið

Hugmyndir?

Ok, ég er að fara til Amsterdam um helgina. Á fund í borginni á mánudaginn og ætla að nýta tækifærið og eyða helginni í borginni.

Ég hef ekki farið til borgarinnar síðan ég var 7-8 ára og það eina, sem ég man eftir eru bátar og hús Önnu Frank. Þannig að ég veit lítið um borgina og hef lítið skoðað. Auk þess var ég 7-8 ára og Amsterdam er ekki beinlínis þekkt fyrir barnaskemmtanir.

Allavegana, er einhver með hugmyndir að því hvað við eigum að gera í Amsterdam. Ég verð með stelpu, þannig að hugmyndir einsog að eyða öllum tímanum flakkandi á milli hóruhúsa í Rauða Hverfinu, eru ekki alltof sniðugar. En ég er opinn fyrir öllu.

Oftast eru skemmtilegustu hlutirnir í borgum einhverjir litlir hlutir, sem ferðabækur minnast ekki á. Vitiði um eitthvað slíkt fyrir Amsterdam?

Frá Þýskalandi til Englands

Ferðalög í Evrópu eru talsvert minna spennó heldur en sögur frá Mið-Ameríku. Einhvern veginn er það lítið spennó að segja frá ferð í loftkældum lúxus lestum og öðru slíku. En allavegana, ég er núna staddur á Heathrow, bíðandi eftir flugvél heim. Er orðinn þreyttur á að ferðast, allavegana í bili.

Hef verið í Þýskalandi og Englandi síðustu viku. Var fyrst á sýningu í Köln í þrjá daga. Þaðan fór ég svo yfir til London og þaðan til York, þar sem ég hef átti fund. York er fínn lítill bær. Þar búa um 100.000 manns, en á hverju ári koma þar tvær milljónir túrista, þannig að bærinn er líflegur.

Frá York fór ég svo ásamt tveim vinnufélögum upp til Liverpool, þar sem planið var að fara á leik á Anfield. Ég ætla sennilega að skrifa eitthvað meira um þann leik og mína upplifun á Liverpool bloggið. Liverpool er bara fínasta borg, mun álitlegri en ég hafði átt von á. Hafði heyrt alls konar skrýtna og misgóða hluti um borgina, en hún kom mér skemmtilega á óvart. Það að fara á Anfield var svo auðvitað frábær lífsreynsla.

Ég hef auðvitað verið Liverpool aðdáandi síðustu 20 árin og á hverju ári eru og ég vinir mínir fullir af áætlunum um að fara á Anfield, en einhverra hluta vegna hefur aldrei neitt orðið úr þeim plönum.

Auk leiksins djömmuðum við svo í gærkvöldi. Fórum á heljarinnar skemmtistaðarölt og ég get núna fullyrt það að það er sko *nóg* af fallegu kvenfólki í Liverpool borg. Djammið í Liverpool er helvíti skemmtilegt fyrir utan það að ég þurfti að röfla í hverjum einasta dyraverði vegna þess að ég var í strigaskóm. Þegar inná staðina var komið reyndust staðirnir vera flottir og uppfullir af fallegum stelpum. Ég dreg hér með alhæfingar mínar um breskt kvenfólk tilbaka.

Í dag er ég svo þunnur, sit hérna í biðsalnum á fokking Heathrow, hárið á mér asnalegt, maginn á mér skrýtinn og sé rúmið mitt í hyllingum.

*Skrifað á Heathrow, London, England kl. 18:50*

= >

Ég er að fara út í fyrramálið. Á sýningu í Köln og svo fer ég yfir til Englands á fund seinna í vikunni.

Ég hef varla getað andað vegna vinnu síðan ég kom heim úr fríinu og því nenni ég varla að fara strax út, en kvarta samt ekki. Verð auðvitað með tölvuna með mér, enda í vinnunni og mun reyna að uppfæra þessa síðu.

Mið-Ameríkuferð 12: Ferðalok

Ég er kominn heim. Kom klukkan 6 í morgun. Fór beint í vinnuna úr fluginu, en gafst upp um 2 leytið vegna þreytu. Er búinn að sofa síðan þá.

Ferðin var **æðisleg**. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir afslöppun í fríunum mínum. Hef aldrei séð sjarmann við það að liggja á strönd í þrjár vikur. Ég vil að fríin mín séu full af ævintýrum, upplifunum og látum. Afslöppunin felst í því að gleyma vinnunni og *lifa* lífinu á öðruvísi hátt í smá tíma. Þannig kem ég heim fullur af sögum og krafti. Það er mín hvíld.

Mér finnst ég vera á ákveðnum tímamótum í mínu lífi og ég gerði mér miklar væntingar um að þessi ferð mín myndi skýra hlutina og gera mér kleift að taka þær ákvarðanir, sem mér finnst ég verða að taka. Að vissu leyti gerði ferðin það, en að vissu leyti flækti hún hlutina líka. Þannig gerast hlutirnir einfaldlega, maður getur ekki hannað atburðarrásina fyrirfram.


Ég hef haft gaman af því að skrifa ferðasöguna og vona að þið hafið haft gaman af því að lesa hana. Það er öðruvísi að gera þetta hérna opinbert á móti því að skrifa ferðasöguna til vina og vandamanna. Aðallega saknaði ég þess að heyra ekkert frá vinum. Það vissu allir hvað ég var að gera, en ég vissi ekkert hvað hinir voru að gera. Það er kannski í lagi í svona tiltölulega stuttu ferðalagi, en á lengra ferðalagi þyrfti ég að skoða hvernig ég gæti haldið út þessari síðu, sem og persónulegu sambandi við mína vini.

En ég hef strax við heimkomu fengið hrós frá fólki, sem ég hafði ekki hugmynd um að læsu þessa síðu, fyrir ferðasöguna og mér þykir verulega vænt um það. Að vissu leyti er feedback-ið það, sem heldur manni við efnið. Mér þykir alltaf gríðarlega skemmtilegt þegar að fólk kommentar á sögurnar mínar og bætir jafnvel við sínum eigin sögum. Það gerir þetta allt skemmtilegra.


Fyrir ykkur, sem eruð að spá í einhverju svona ferðalagi, en finnið alltaf ástæður til að gera það ekki, þá hef ég bara eitt að segja: *Þetta er ekkert mál!*

Ef ég tek ekki með flugferðir í dæmið, þá má ætla að ég hafi eytt um 30 dollurum á dag á ferðalaginu. Dýrasta hótelið, sem ég gisti á var í Cancun og þar borguðum við 30 dollara fyrir herbergið, eða 15 dollarar á mann. Fyrir utan það, þá fór hótel eða gistiheimila kostnaður ALDREI upp fyrir 10 dollara á nótt, eða um 600 krónur. Auk gistingar, þá voru rútuferðir um 2 dollarar á dag og matur kannski um 14-15. Samtals, þá áætla ég að ég hafi eytt undir 30 dollurum á dag. Það gera 1800 krónur á dag, eða 54.000 fyrir heilan mánuð.

Flugin kostuðu mig 50.000 (reyndar var Flugleiðaflugið á frímiða), þannig að ferðin kostaði mig samtals um 105.000 krónur. Ég leyfi mér að *fullyrða* að Íslendingur á Mallorca í tveggja vikna ferðalagi þar sem hann gistir á sömu ströndinni og eyðir tíma í sömu sundlauginni í tvær vikur, eyðir meiri peningi en ég á mínu mánaðarferðalagi um 5 lönd Mið-Ameríku.

Auðvitað þarf maður að færa fórnir, en það er *hluti* af ævintýrinu. Ég hef gist í gistiheimilum fullum af kakkalökkum og flugum. Fyrir utan Cancun gisti ég aldrei á hóteli með loftkælingu, þrátt fyrir gríðarlegan hita. Ég ferðaðist með ódýrum rútum og borðaði á ódýrum veitingastöðum. En það að ferðast og lifa einsog fólk býr í þessum heimshluta er mikilvægur hluti af upplifuninni. Það er ekkert gaman að ferðast um þessa staði og skoða þá útum glugga á loftkældri risarútu, ofverndaður af íslenskum fararstjóra og með gistingu á lúxushóteli. Kannski er það í lagi þegar maður eldist, en í dag get ég ekki hugsað mér annað en að gera þetta á ódýra mátann. Gisting á ódýrum gistiheimilum er líka frábær leið til þess að kynnast fullt af skemmtilegu fólki.

Þannig að verðmiðinn ætti ekki að hindra fólk. Þá er bara að berja í sig kjark, kaupa Lonely Planet bók um svæðið, sem þig langar að heimsækja, og drífa þig af stað. Það er EKKERT mál að feraðst einn. Kostirnir eru ótal margir og þú átt eftir að kynnast fullt af fólki, sem er á svipuðu róli og þú. Ég er búinn að kynnast fleira fólki á þessum mánuði heldur en á Íslandi allt síðasta ár.


En allavegana, ég vona að þið hafið haft gaman af ferðasögunni. Ég hef haft gaman af að skrifa hana og ef ég hef kveikt hjá einhverjum löngum til ferðalaga, þá er það *frábært*. Takk fyrir mig.

p.s. myndin er tekin uppá stærsta píramídanum í Chichen Itza, Mexíkó.

*Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur*

Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin

Jæja, ferðin er nokkurn veginn búin. Er kominn til Bandaríkjanna og á morgun á ég flug heim til Íslands.

Tíminn í Cancun var fínn. Ströndin þar er æði og liturinn á sjónum er sá fallegasti, sem ég hef séð lengi. Ég borðaði svo tvisvar alambre de pollo með osti og beikoni, sem ég held að sé uppáhaldsmaturinn minn í öllum heiminum. Ólýsanlega gott.

Anja og ég fórum á djammið í Cancun, á stað sem heitir Mambo Cafe. Þar var brilliant 14 manna salsa band frá Kólumbíu, sem spilaði fyrir dansi. Við dönsuðum því salsa og eitthvað af merengue langt fram á morgun. Ég komst ekki nægilega oft útað dansa á þessum tíma í mið-Ameríku, en þetta djamm bætti upp fyrir það. Hún kann ekki að dansa og ég er kominn verulega úr æfingu, þannig að þetta var ekki eins smooth og vanalega. Í minningunni er ég nefnilega frábær salsa dansari, en það má sennilega þakka því að ég var alltaf leiddur af innfæddum gellum, sem gátu dregið mig áfram um allt gólfið. Ég er ekki alveg nógu fær til að leiða. Þyrfti að fá einhverja kennslu.

Við fórum svo og skoðuðum Chichen Itza, sem var fínt. Vorum eiginlega komin með nóg af Maya rústum, þar sem við höfðum heimsótt Lamanai í Belize og Tikal í Gvatemala á innnan við 10 dögum og auk þess er Tikal umtalsvert merkilegri rústir heldur en Chichen Itza, þannig að þetta var hálfgert anti-climax. En samt ágætt.

Flaug svo hingað til Washington í gær og gisti hjá vinum mínum. Fór á djammið í gær með nokkrum Íslendingum. Skemmti mér verulega vel á hefðbundnu bandarísku bara-fylleríi. Var því fáránlega þunnur í dag. Fórum á bar og horfðum á [hörmungina](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/10/02/17.13.55/) í morgun. Það lagaði ekki beint þynnkuna. Er í raun ennþá hálf þreyttur. Kíktum svo yfir í Georgetown og borðuðum kvöldmat frá uppáhalds pizza [staðnum](http://www.cpk.com/) mínum.

Kíkti á netið og sá að Santa Ana eldfjallið í El Salvador, sem ég var nálægt fyrir um [þremur vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/index.php) er byrjað að [gjósa](http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1161286). Á sama tíma er lítill fellibylur að fara [yfir Yucatan og norður-Belize](http://news.xinhuanet.com/english/2005-10/03/content_3577493.htm), þar sem ég var í síðustu viku. Anja, sem er enn í Cancun segir að þar hafi rignt stanslaust síðan að ég fór. Magnað.

Ég á svo flug heim annað kvöld. Ætla að reyna að ljúka þessari ferðasögu þegar ég kem heim. Já, og set inn myndir. Þetta er búin að vera yndisleg ferð…

Skrifað í Washington D.C., Bandaríkjunum klukkan 22:50

Mið-Ameríkuferð 10: Cancun

Jei, kominn til Cancun. Komst aldrei hingað í spring break í háskóla. Það næsta, sem ég komst var Panama City Beach á Florida. Lonely Planet bókin mín er samt algjörlega á móti Cancun og segir að það sé hallæris-staður með fullt af blindfullum bandarískum krökkum! Hvenær hefur það nú talist ókostur, spyr ég?

Allavegana kom hingað klukkan 3 í gærnótt. Anja er eitthvað að vesenast í banka (mín ráðleggging: Ekki fá ykkur kreditkort hjá Deutche Bank, þau eru drasl. Íslandsbanki er miklu betri!) og því hef ég ekki ennþá komist á ströndina þrátt fyrir að veðrið sé æði. Hef líka núna verið í Mexíkó í meira en **12 klukkutíma** án þess að fá mér tacos al pastor. Það er hneyksli. HNEYKSLI!


Komst ekki í bláu holuna. Fólkið, sem átti pantað með okkur í ferðina veiktist og því varð að fresta ferðinni um tvo daga. Við Anja fórum þess í stað í köfun útí kóralrifin rétt fyrir utan Caye Caulker. Sáum risa skjaldböku og fullt af dýralífi, en því miður enga hákarla. Verður að bíða betri tíma.

Vippuðum okkur svo yfir til meginlandsins og til Orange Walk, sem er bær útí rassgati í Belize. Þaðan tókum við svo 2 tíma bátsferð í gegnum regnskóginn til Lamanai, Maya borgarinnar. Nokkuð interesting, þrátt fyrir að Tikal hafi jú verið talsvert áhrifameira. En bátsferðin var skemmtileg, þrátt fyrir að þýsku fuglaskoðararnir hafi látið fararstjórann stoppa óþarflega oft. Ég get hreinlega ekki tapað mér yfir fuglaskoðun, sama hvað ég reyni.

Þetta var jú í gær og um kvöldið keyrðum við að landamærunum og svo í ískaldri glæsirútu (jamm, við erum komin í siðmenninguna í Mexíkó) alveg hingað til Cancun. Á leiðinni var svo sýnd Shaolin Soccer á spænsku. Það er mikið þrekvirki í kvikmyndagerð.

Í dag: Ströndin.
Á morgun: Chichen Itza og djamm.
Á laugardagsmorgun: flug til Miami og þaðan til DC. Jammmmmm!

*Skrifað í Cancun, Mexíkó klukkan 12:48*

Mið-Ameríkuferð 9: Caye Caulker (uppfært)

[Belize](http://en.wikipedia.org/wiki/Belize) er lítið, skrítið land. Síðan að Mið-Ameríkulýðveldið lagðist undir lok og ríkin skildu, hefur Gvatemala aldrei sætt sig almennilega við fyrirbærið Belize. Á landakortum í Gvatemala er Belize oft sett inn sem hluti af Gvatemala, þrátt fyrir að það sé í dag sjálfstætt land.

Bretar réðu yfir Belize aðallega vegna þess að enginn annar nennti að ráða yfir þessu fámenna landi, sem bjó ekki yfir miklum náttúruauðæfum. Gvatemalar sömdu svo um að láta Bretum þetta land eftir með því loforði að Bretar myndu byggja veg á milli Belize borgar og Gvatemala borgar. Semsagt, land fyrir hraðbraut. Málið er að vegurinn var aldrei byggður og því hafa Gvatemalar aldrei sætt sig við Belize, þrátt fyrir að landið sé núna sjálfstætt.

Belize er eitt af fáum löndum, sem ég hef heimsótt, sem er fámennara en Ísland en hér búa um 260.000 manns. Flestir tala ensku, eða ansi skrítnar mállískur af ensku, sem ég get ómögulega skilið.

Lífið hérna á Caye Caulker hefur verið ansi rólegt og nice. Við höfum tekið því afskaplega rólega hérna undanfarna daga á ströndinni eða í hengirúminu fyrir utan hótelið okkar. Áttum að fara í köfun í dag, en ekki hafa fengist nægilega margir í hópinn, þar sem að túristatímabilið er ekki byrjað og því afskaplega fáir túristar á eyjunni.

Vonandi komumst við þó á morgun eða á miðvikudag. Ef við komumst ekki að kafa Bláu Holuna, þá munum við kafa að kóralrifum, sem eru nær Caye Caulker. Allavegana ættum við að fá að sjá einhverja hákarla þar.

Ég þarf að breyta flugmiðanum heim, þar sem að flugið mitt er frá Gvatemala borg. Ætla í staðinn að kaupa mér miða frá Belize borg, þar sem að rólegheit undanfarna daga hafa ekki gert mig neitt sérstaklega spenntan fyrir 25 tíma rútuferð í gegnum Gvatemala. Ég ætla því að breyta plönunum mínum nokkuð. Kemst vonandi á morgun að kafa Bláu Holuna, en á miðvikudag ætlum við Anja að fara til Lamanai. Á fimmtudag ætlum við svo að ferðast alla leið upp til Cancun. Á föstudag ætlum við svo að skoða [Chichen Itza](http://www.hillmanwonders.com/chichen_itza/chichen_itza.htm#_vtop) rústirnar. Því næst ætlum við að DJAMMMMMMA í CANCUN á föstudags- og laugardagskvöld og svo fer ég til Genna og Söndru í Washington D.C. á sunnudag. Jibbbí jei! 🙂

*Skrifað á Caye Caulker, Belize klukkan 11:05*

Mið-Ameríkuferð 8: Tikal

Síðustu dagar eru búnir að vera aðeins viðburðarríkari en vikan þar á undan. Ég slappaði af 4 daga í Livingston, á meðan að Anja heimsótti veika vinkonu sína í Hondúras.

Um leið og hún kom til Livingston, fórum við í bátsferð upp á að Izabal vatni og bæjarins Rio Dulce. Nokkuð skemmtileg ferð með fallegu landslagi alls staðar í kring. Þegar við komum til Rio Dulce fórum við svo strax í smá gönguferð um vatnið og kíktum m.a. á San Felipe kastalann, sem er virki sem Spánverjar byggðu til varnar árásum sjóræningja. Svo sem ekki sérlega merkilegt.

Anyhow, næsta dag fórum við í dagsferð uppað fossi, þar sem við gátum synt í ágætlega fallegu umhverfi. Seinna um daginn tókum við svo chicken bus til Flores.

Ég nenni varla að fara mörgum orðum um þá rútuferð, né rútuferðina til Belize, þar sem ég vil ekki láta einsog að hryllilegar rútuferðir séu hápunktur Mið-Ameríku, sem er auðvitað langt frá sannleikanum…

*EN…*

Þessi rútuferð náði þó hámarki í vitleysunni. Fyrir það fyrsta, þá var lifandi hæna fyrir aftan mig. Á þakinu voru svín, en þau voru sem betur fer uppá þaki, en ekki inní rútunni. Ég er orðinn vanur því að um 100 sölumenn komin inní rútuna og reyni að selja manni allt frá steiktum bönunum til vítamína. En í rútunni í gær kom hins vegar… **Prestur!** Hann vippaði sér upp, stillti sér upp við hliðiná mér og byrjaði að predika. Og þetta stóð yfir í rúmar 45 mínútur. Hann predikaði og predikaði, hélt á Biblíunni og hrópaði yfir alla rútuna. Algjör snilld.

Flores er ekki merkilegur bær og flestir, sem eru þar eru þar aðeins í stuttu stoppi áður en haldið er til merkustu Maya rústanna, borgarinnar [Tikal](http://en.wikipedia.org/wiki/Tikal).

Tikal var helsta borg Mayanna. Byrjað var að byggja þar í kringum árið 400 og Mayar bjuggu í borginni til ársins 900 þegar að veldi Mayanna fór skyndilega að hrynja (hugsanlega vegna hungursneyðar eða of-fjölgunnar). Á helstu áhrifatímum Tikal, þá er talið að um 200.000 manns hafi búið í borginni, en þeir síðustu yfirgáfu borgina um 950 og í um 1000 ár var borgin týnd og grafin undir skógi, sem þakti öll musterin og píramídana.

Allavegana, við heimsóttum Tikal rústirnar á fimmtudaginn. Vorum mætt um 6 leytið og vorum því fyrsta fólkið inná svæðið ásamt tveim ítölum. Fyrsta klukkutímann höfðum við því aðaltorgið alveg útaf fyrir okkur. Tikal í dag samanstendur af um hundruðum bygginga, en aðeins hluti af þeim hefur verið grafin unan skógi. Merkust eru um 10 risastór musteri, sem hafa verið grafin undan skóginum að hluta til eða alveg. Aðaltorgið er alveg bert af skógi, en til að fara til hinna musteranna þarf að fara í gegnum þéttan skóg (Tikal er hluti af sama skóglendi og er notað til að taka upp nýjustu seríuna af Survivor).

Rústirnar eru gríðarlega áhrifamiklar og við eyddum um 8 klukkutímum í að klífa upp og niður píramídana. Rústirnar jafnast ekki á við Tetiouhuacan eða Machu Picchu, en eru engu að síður merkasti parturinn á þessari ferð minni um Mið-Ameríku.

Frá Flores í Gvatemala héldum við svo í gær í átt til Belize. Tókum rútu að landamærunum, svo aðra rútu að höfuðborginni Belize City og þaðan bát hingað útá [Caye Culker](http://www.gocayecaulker.com/). Planið er að slappa hér af í nokkra daga og kafa í [Bláu Holunni frægu](http://www.ambergriscaye.com/pages/town/greatbluehole.html). Auk þess ætlum við að heimsækja [Lamanai](http://en.wikipedia.org/wiki/Lamanai) rústirnar. Eftir það fer ég svo til Bandaríkjanna í tvo daga og svo heim.

p.s. Er það eðlilegt fyrir mig, hamingjusaman á eyju í Karabíska hafinu, með frábærri stelpu, í sól, 35 stiga hita og með tæran sjóinn um 50 metra frá mér, en…

**…Samt sem áður…**

… Verð ég brjálaður yfir því að Liverpool skuli hafa gert [jafntefli](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/09/24/14.11.58) við Birmingham í dag. Mér nokk sama um allt, sem er að gerast í heiminum…. nema um gengi Liverpool. Þetta helvítis lið hefur alltof mikil áhrif á mig.

*Skrifað á Caye Caulker, Belize klukkan 12:56*