Mið-Ameríkuferð 7: Ég og Brad Pitt

Það eru nokkrir hlutir sem brenglast við ferðalag í rómönsku Ameríku. Fyrir það fyrsta þá brenglast tónlistarsmekkur minn og ég fer ósjálfrátt að syngja með hræðilega væmnum slögurum, eða þá að hreyfa fæturnar þegar einhver hræðileg danstónlist byrjar. Tímaskyn mitt brenglast, sérstaklega þegar ég er í svona rólegum smábæjum einsog Livingston og hefur ekkert sérstakt að gera nema láta tímann líða í hengirúmi, lesandi bækur.

Svo brenglast auðvitað sjálfsálitið. Allavegana hjá mér. Ef ég ætti að dæma eingöngu af viðbrögðum, kommentum og öðru frá kvenfólki hér, þá lít ég út einsog fokking Brad Pitt. Kannski er það rétt, kannski er ég jafn myndarlegur og hann og virka alveg jafnspennandi og hann fyrir öllu kvenfólki. En misjöfn viðbrögð kvenfólks á Íslandi í gegnum tíðina hafa þó barið inní hausinn á mér þá hugsun að við séum ekki alveg jafnir.

En ég veit þó allavegana að ég mun koma heim til Íslands fullur af sjálfstrausti. Mið-Amerískar og mexíkóskar stelpur hafa séð til þess.


Á ég að nefna nokkur dæmi bara frá síðustu dögum? Það kom uppað mér stelpa í fyrradag og hennar fyrstu orð voru þau að ég væri geðveikt sexí! Bara hæ og svo sexí kommentið. Þegar ég var smá hissa, þá spurði hún hvort ég fílaði ekki svartar stelpur? Ég sagðist fíla stelpur af öllum kynþáttum, en væri að bíða eftir annarri stelpu. Hún gafst þó ekki upp og vildi endilega hitta mig á skemmtistað um kvöldið.

Á skemmtistaðnum um kvöldið voru fjórar stelpur að reyna við mig á fullu (auk tveggja klæðskiptinga – ég er dýrkaður í þeim hópi!). Allt kvöldið! Það hefur ekki verið reynt jafnoft við mig á einu kvöldi frá því að ég fór á hommaklúbb í London.

Í Mexíkó, þá var ég á Museo de la Antropologia þegar að stelpa kemur uppað mér og spyr “puedo tomar foto?” Ég hélt að hún vildi að ég tæki mynd af henni og vinkonu hennar, svo ég sagði: “si, como no”. Nei, þá kemur hún uppað mér og stillir sér upp með mér, á meðan að vinkona hennar tók mynd af *okkur*. Ekki nóg með það, heldur 10 mínútum seinna þá kemur hin vinkonan að mér og vill fá *mynd af sér með mér*. Magnað, ekki satt?

Á síðustu fjórum-fimm dögum (þegar ég hef verið að labba einn, ekki með Anju), þá hafa að minnsta kosti 3 stelpur sagt við mig “Hola bello”, eða “Hola mi amor”. Bara ókunnugar stelpur, sem ég labba framhjá á götunni. Auk svo allra sem bara horfa og brosa. Oftar en einu sinni hef ég gengið framhjá vinkonuhópum, sem hafa byrjað að tala um hvað ég er sætur. Auk þess að gera mig meira heillandi í augum stelpna, þá hefur ljósa hárið líka þau áhrif að allir halda að ég skilji ekki orð í spænsku.

Sumir segja að þetta sé ljósa hárið, en ég segi að þetta hlýtur að vera skeggið. Í fyrsta skipti á ævinni er ég að safna skeggi. Það verður reyndar að viðurkennast að þetta er ekki tilþrifamikil skeggsöfnun, enda hef ég verið meðvitaður um takmarkaðan skeggvöxt minn í gegnum tíðina. En ef þú kemur nálægt mér, þá sérðu að þarna eru hár, svo ég held því fram að það sé ástæðan fyrir þessum vinsældum.

En samt, þá verð ég að viðurkenna að ég hef lúmskt gaman af þessari athygli. Skil ekki stelpur, sem kvarta yfir því að það sé verið að horfa á þær. Geta þær ekki bara tekið þessu sem hrósi?

En ég geri mér þó áfram grein fyrir því að nokkur kvöld á Ólíver, Vegamótum eða álíka stöðum heima mun koma mér kyrfilega niður á jörðina aftur. Þá mun jafnvægi í heiminum vera komið á aftur.

🙂


Hey, ég hef gert svo lítið undanfarna daga (fyrir utan að skemmta mér og lesa) að ég hafði ekkert annað til að skrifa um. Er enn að bíða eftir ferðafélaga mínum og svo er planið að fara í bátsferð upp Rio Dulce ána í fyrramálið. Svo þokast í átt að Tikal og þaðan upp til Belize.

*Skrifað í Livingston, Gvatemala klukkan 11.40*

Mið-Ameríkuferð 6: Garífuna

Gvatemala er nógu stórt land til að rúma ólíka menningarheima. Stærsti hluti landsins eru ladinos, sem eru blanda af afkomendum Spánverja og innfæddra. Innfæddir (K’iche, Kaqchikel og aðrir Maya stofnar) eru svo um 40% þjóðarinnar. Pínkulítill hluti þjóðarinnar tilheyrir svo [Garifuna](http://en.wikipedia.org/wiki/Garifuna).

Garifuna eru svartir afkomendur þræla, sem Spánverjar komu með og settust að á eyjunni St. Vincent. Í dag eru Garífuna fólkið búsett aðallega í Hondúras, Belize og hér í Gvatemala við strendur Karabíska hafsins. Garifúna tala sitt eigið tungumál, sem er stórkostlega skrautleg blanda af ensku, spænsku, frönsku og fleiri tungumálum. Þetta tungumál er gjörsamlega óskiljanlegt jafnvel manni einsog mér, sem þó tala ensku spænsku nokkuð vel.

Ég hef verið síðustu tvo daga hér í Livinston, sem liggur við strönd karabíska hafsins. Gvatemala nær aðeins til Karabíska hafsins á mjög takmörkuðum kafla og er Livingston þekktasti parturinn. Hér í þessum litla bæ býr fólk af Garifuna stofninum. Lífið ber keim af því. Tónlistin, sem Garifuna spila er taktföst og mögnuð og hér má heyra trommuslátt úr öllum áttum á kvöldin.


Anja, þýska stelpan sem ég var að ferðast með, þurfti skyndilega að fara aftur til Hondúras. Stelpa, sem hún ferðaðist áður með, veiktist af dengue og var því föst á sjúkrahúsi í San Pedro Sula. Því ákvað hún að fara og vera með henni í smá tíma. Planið er svo að hún komi hingað til Livingston á mánudag og að við höldum svo áfram ferðalaginu.

Því hef ég þrjá daga til að slappa af hérna í Livingston. Ég held að það sé vart hægt að finna betri stað til að slappa af.


Ég hef þó verið sæmilega aktívur hérna. Gerði reyndar lítið í gær, enda fór rafmagnið af um 8 leytið og ég notaði það sem afsökun til að fara að sofa klukkan 9. Vaknaði snemma í morgun og fór í smá ferð um nágrennið. Labbaði með litlum hóp um bæinn og svo fórum við í kajakferð um eina á hérna nálægt og enduðum á sundi í mjög fallegum fossi. Fullkomin leið til að eyða laugardagseftirmiðdegi.

Planið er svo óljóst. Ætla að kíkja eitthvað á barina og vonandi hlusta á góða tónlist í kvöld og svo ætla ég að taka því rólega í hengirúminu, sem er fyrir utan herbergið mitt og lesa bækurnar mínar í hitanum á morgun og á mánudag. Hljómar sannarlega ekki illa.


Ég er búinn að taka heil ósköp af myndum, en einu myndirnar sem ég get sett inn á síðuna mína eru af fyrsta minniskortinu á litlu vélinni minni – semsagt bara örfáar myndir frá Mexíkóborg og San Salvador. Vonandi get ég sett inn fleiri (og umtalsvert skemmtilegri) myndir seinna. Því miður eru þær ekkert alltof skýrar, sem skýrist af því að myndvinnsluforrit, sem fylgja með Windows eru FOKKING drasl!

Smellið á “lesa meira” til að sjá myndirnar 🙂
Continue reading Mið-Ameríkuferð 6: Garífuna

Mið-Ameríkuferð 5: Bananalýðveldið

Síðustu dagar hafa verið góðir. Í raun hefur þetta skipst í tvennt: Hryllilegar rútuferðir og svo 6 æðislegir dagar á Bay Islands, rétt fyrir utan strönd Hondúras.

Hondúras er náttúrulega hið upprunalega bananalýðveldi. Á síðustu öld réðu 3 bandarísk banafyrirtæki nánast öllu hér í landi. Fyrirtækin áttu allar bananaekrurnar og svo studdu þau öll sinn stjórnmálaflokkinn og réðu í gegnum þá flestöllu í landinu. Í dag er landið gríðarlega fátækt.

Síðast þegar ég skrifaði af alvöru var ég staddur í Marcala í Hondúras. Það er lítið þorp við landamæri El Salvador. Upphaflega ætlaði ég til Tegucigalpa, höfuðborgar Hondúras, en ég ákvað á síðustu stundu að fara frekar beint til Bay eyjanna, sem eru rétt fyrir utan Hondúras í Karabíska hafinu.

Til þess þurfti ég að vakna klukkan 4 um morgun síðasta föstudag. Þar sem ég er ekki með vekjaraklukku, þá þurfti ég að treysta á vekjaraklukkuna í hausnum á mér. Hún var ítrekað slegin útaf laginu af hana, sem galaði alla helvítis nóttina. Mér tókst þó að vakna um kl 4.30 og í einhverju móki ákvað ég að stökkva út og leita að rútustöðinni. Fattaði þegar ég var kominn út að ég hafði ekki hugmynd um það hvar hún væri, en rambaði einhvern veginn inná eitthvað torg, þar sem rútur biðu. Við tóku svo 11 tímar í rútu í frekar slæmum skilyrðum. Fyrst til San Pedro Sula. Rútan þangað fór af stað klukkan 5 um morgun, en það hindraði ekki bílstjórana frá því að blasta mexíkósku kántríi á fullum styrk.

Í San Pedro Sula, sem er víst sú borg í Ameríku þar sem flestir eru með alnæmi, vildi ég ekki stoppa lengi og tók því rútu beint til La Ceiba, sem er við strönd karabíska hafsins. Þar tók ég svo strax ferju yfir til Bay eyjanna.


Ég ákvað að halda mig við Roatan, sem er stærst eyjanna. Þar búa um 90.000 manns, en ég tók ekki eftir mörgum íbúanna. Ég hélt mig við West End, sem er lítið þorp, þar sem flestir bakpokaferðalangarnir halda sig. Á ferjunni hitti ég tvær stelpur frá Englandi og ákváðum við að reyna að finna saman hótelherbergi. Eftir smá leit enduðum við þó á ódýrasta gistiheimilinu í bænum. Þar var fyrir fullt af skemmtilegu fólki og myndaðist þarna frábær hópur, sem hélt sig mikið saman dagana á eyjunni. Flestir þarna voru reyndir ferðalangar og nokkrir voru algjörlega ógleymanlegir. Á svona gistiheimilium, þar sem fólk hittist skapast oft góð stemning og það varð raunin þarna.

West End er pínkulítill bær, eftir honum liggur ein moldargata, þar sem eru nokkrir veitingastaðir, barir og svo köfunarþjónustur. Flestir koma til Roatan til að læra að kafa, auk þess að slappa af. Stemningin í bænum var æðisleg. Allt mjög afslappað og ekki of túristalegt. Flestir, sem voru þarna voru bakpokafólk, en eldra fólk í pakkaferðum heldur sig á öðrum hluta eyjarinnar.

Allavegana, ég var rosalega hrifinn af þessu þorpi og þessari eyju. Ég kom þangað til að læra að kafa og fór ég á 4 daga námskeið, sem kostaði mig 15.000 krónur!!! Hvergi í heiminum er jafn ódýrt að læra að kafa og þarna. Námskeiðið samanstóð af kennslustundum innanhús, kennslu á 2 metra dýpi og 8 metra dýpi. Síðustu tvo dagana köfuðum við svo fjórum sinnum niður á allt að 18 metra dýpi. Rétt fyrir utan Roatan eru kóralrif, sem eru partur af næst stærsta kóralrifi í heimi (á eftir Great Barrier Reef í Ástralíu).

Að kafa þarna er stórkostleg lífsreynsla og ég er sannfærður um að ég eigi eftir að kafa oft í framtíðinni. Kóralrifin eru full af lífi, við sáum endalaust magn af fiskategundum, risaskjaldbökum og fleiru. Algjörlega ógleymanlegt.


Mesti tíminn minn á eyjunni fór því í köfun. Á kvöldin tók ég því svo mis-rólega. Fyrsta kvöldið fór ég á djammið á nokkrum stöðum. Djammið var beisiklí labb á milli nokkura bara á ströndinni, drekkandi romm og bjór, spjallandi við skemmtilegt fólk og dansandi á sumum stöðunum. Á einum staðnum hitti ég m.a.s. stelpu frá Íslandi, sem býr á eyjunum. Einn strákurinn af gistiheimilinu hafði kynnst henni og vildi endilega kynna mig fyrir henni. Hún er að læra að verða köfunarkennari og hefur búið á Bay eyjunum í nokkra mánuði.

Allavegana, næstu kvöld var svo kíkt á barina, labbað um og notið lífsins. Ég kynntist stelpu frá þýskalandi þarna eitt kvöldið og eftir nokkra daga á eyjunni ákváðum við að prófa að ferðast saman. Í gær fórum við því saman tvö til meginlandsins með ferjunni. Tókum svo rútu til San Pedro Sula og þaðan til Puetro Cortes, þar sem við gistum í gær. Í morgun tókum við svo rútu, pickup og svo mini-bus hingað til Puerto Barrios í Gvatemala, þar sem við erum núna.

Við ætlum ekki að stoppa hérna, heldur var planið að borða almennilegan mat (ég borðaði bara kex og snakk í rútunum í gær), fara á netið og svo ætlum við á eftir að taka bát til Livingston. Þaðan ætlum við að fara í siglingu í skóginum og svo ferðast meira um Gvatemala og hugsanlega yfir til Belize.

p.s. Gmail og vinnupósturinn virkar ekki, thannig ad eg get ekki svarad tolvuposti.

Skrifað í Puerto Barrios, Gvatemala kl 13.41

Mið-Ameríkuferð 3: Skæruliðar, eldfjöll og rútuferð frá helvíti

Ég ætla ekki að segja að rútuferð dagsins hafi verið versta rútuferð ævi minnar, en hún komst ansi nálægt því. Hafa ber í huga að í verstu rútuferð ævi minnar sat rútan föst í skurði í 12 klukkutíma á meðan að krakki í sætinu fyrir framan okkur vældi nærri stanslaust allan 18 klukkutímana, sem ferðin tók. Sú ferð var í Bólivíu, en ferðin í dag frá Perquin í El Salvador hingað til Marcala í Hondúras var ansi nálægt því að vera jafn slæm.

Einnig ber að hafa í huga að ég er sennilega að vinna með hægustu net-tengingu á jarðríki og þarf auk þess að berja af alefli á suma stafina til að fá þá til að virka, þannig að innsláttarvillur verða eflaust margar. Þessi hæga net-tenging gerir það líka að verkum að ég get ekki einu sinni svarað kommentunum við síðustu færslur, þar sem að tölvan gefst upp áður en síðurnar hlaðast inn.


Allavegana, síðast var ég víst að uppfæra frá Santa Ana í El Salvador. Ég prófaði salvadorkskan bjór það kvöldið (hann var léttur og góður) og daginn eftir fór ég í Cerro Verde þjóðgarðinn. Þar var ætlunin að klífa Volcan Izalco. Vegna fyrri vandræða, þá þarf maður að fara með guide í þá gönguferð auk þess sem að lögreglumenn fylgdu okkur. Í raun voru það *tveir* lögreglumenn og þeir voru líkt og ansi margir í El Salvador vopnaðir afskaplega vígalegum rifflum.

Allavegana, ég fór af stað með þessum þrem og nokkrum brottfluttum Salvadorum. Fyrst fórum við niður 600 metra af Cerro Verde. Eftir þann spöl gáfust Salvadorarnir upp og fóru tilbaka með einni löggunni. Því var hópurinn, sem eftir var: ég, guide og lögga. Guide-inn og löggan höfðu greinilega farið þessa ferð 100 sinnum, og þar sem karlremban í mér leyfir mér ekki að biðja mér vægðar sökum þreytu, þá kláruðum við 4 tíma ferð á 2 tímum og 45 mínútum. Fyrst niður 600 metra, svo upp 500 metra (þá meina ég 500 metra beint upp, sennilega um 1,5 kílómeters labb) og svo niður þá sömu 500 metra og upp aðra 600 metra. Þetta án þess að stoppa. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn uppgefinn.

En þetta var þess virði. Volcan Izalco gaus síðast 1960 en eldfjallið gaus samfleytt í yfir 100 ár. Uppá fjallið er enginn stígur, heldur klifum við upp möl og stórgrýti. En útsýnið yfir Kyrrahafið og Santa Ana eldfjallið (sem er enn mjög virkt) var ótrúlegt.

Frá Santa Ana tók ég svo kjúklingastrætó til San Salvador. Þegar ég kom þangað um kvöldið hitti ég strax nokkra krakka á hostelinu, sem ég kíkti á pöbbarölt með. Á leiðinni heim af einum barnum var: 1 – ráðist á okkur af snarbrjáluðum hundum 2- kastað í okkur glerflöskum (þrisvar) af einhverjum verulega skrýtnum krökkum og 3 – ráðist á okkur af geðveikasta betlara, sem ég hef nokkrum sinni hitt. Ekki mjög gaman, en það var samt gaman á barnum.


En allavegana, San Salvador nær í mínum huga þeim merka áfanga að vera geðveikasta borg, sem ég hef komið til. Ég var þarna bara í tæpan sólahring, en lætin, draslið, traffíkin og öll geðveikin var nóg til að gera mig hálf sturlaðan á þeim tíma, sem ég var þar. Ég labbaði aðeins um miðborgina og spjallaði heillengi við tvo Salvadora um stjórnmál og annað.

Ég ákvað svo að síðasta stoppið mitt í El Salvador yrði Perquin, lítill bær nálægt landamærunum við Hondúras. Perquin var áður höfuðustöðvar FMLN, skæruliðana sem börðust við stjórnvöld í El Salvador í borgarastríðinu. Það þarf ekki mikið til að í mér vakni smá vinstri-maður þegar ég kem aftur hingað til rómönsku Ameríku. Mis-skiptingin er svo svakaleg að meira segja í landi einsog El Salvador, sem er best komið af öllum Mið-Ameríkulöndunum, er manni fljótt misboðið. Í sumum hlutum San Salvador er allt fullt af bandarískum keðjum, flottum alþjóðlegum fatabúðum og slíku, en á sama tíma þá dóu 7 manns á þriðjudaginn vegna þess að það rigndi svo mikið í borginni að húsin þeirra hrundu, þar sem þau eru byggð utan í hæðir, þar sem að smá rigning getur valdið skriðum.

Þess vegna má maður ekki setja alla skæruliðahópa í sama flokk. Flest lönd í Mið- og Suður-Ameríku hafa upplifað vopnaðar uppreisnir, en niðurstöðurnar hafa verið misjafnar. FARC skæruliðarnir í Kólumbíu eru t.a.m. í dag lítið meira en eiturlyfjasmyglarar, sem lesa Marx, og árangur þeirra skæruliða, sem hafa komist til valda er misjafn. Sandínistar í Níkaragva drápu endanlega niður slæman efnahag landsins, en þeir minnkuðu þó ólæsi úr 50% niður í 13% og dreifðu landi til landlausra bænda.

En allavegana, það er ekki erfitt að gera sér grein fyrir því hvað fær menn útí vopnaða baráttu, þegar maður skoða lönd þeirra. [FMLN](http://en.wikipedia.org/wiki/FMLN) skæruliðarnir í El Salvador byrjuðu sína baráttu vegna þess að þeim ofbauð slæmt ástand bænda og almennings í landinu og hvernig stjórnvöld höfðu barið niður mótmæli. Árið 1981 byrjuðu þeir árásir gegn stjórnvöldum. Bandaríkin studdu hægri sinnuð stjórnvöld og þjálfuðu hermenn. Ítrekað var reynt að lýsa FMLN sem hryðjuverkasamtökum, en fátt studdi það viðhorf. Hins vegar þá beitti Salvadorski herinn og hægri sinnaðir contra-skæruliðar oft hörmulegum aðferðum gegn FMLN og meintum stuðningsmönnum.

Einn hræðilegasti atburður borgarastríðsins gerðist akkúrat stutt frá Perquin þegar að hermenn réðust inní lítinn bæ. Þar lugu hermenn að bæjarbúum og sögðu að þeir myndu hlífa þeim, sem yrðu eftir, en handtaka þá, sem reyndu að halda til fjalla. Þegar að hersveitirnar komu, þá drógu þeir fólkið útúr húsunum. Karlmenn voru drepnir strax, en konum og börnum var safnað saman í hópa, þar sem þau voru drepin. Fallegustu konurnar voru teknar til hliðar, þeim nauðgað ítrekað og þær síðan drepnar. Alls voru um 900 bæjarbúar drepnir.


Ég kom til Perquin með kjúklingarútu um 7 leytið þegar það hafði byrjað að dimma. Upphaflega ætlaði ég að gista í San Miguel, borg sutt frá, en ég hitti bandaríska stelpu, sem var sjálfboðaliði stutt frá og sýndi mér hvar ég ætti að fara. Allavegana, ég sagði bílstjóranum hvað gistiheimilið héti og hann lét mig fara út þar. Rútan rauk síðan af stað. Þegar hún var farin fyrir hornið áttaði ég mig á því að ég hafði ekki hugmynd um hvar gistiheimilið væri. Það var algjört niðamyrkur og ég sá ekki neitt – auk þess heyrði ég þrumur í fjarska. Ekki langt frá sá ég smá ljós og ég labbaði þangað. Sá þar einhverja stráka og spurði hvort þetta væri gistiheimilið. Þeir hlógu að mér, en buðust til að labba með mér þangað.

Við löbbuðum af stað, en eftir smá stund sá strákurinn tvo kalla labba rétt hjá okkur, svo hann stoppaði og sagði: “vont fólk, vont fólk!” Ég fraus alveg því að kallarnir stoppuðu um leið og við stoppuðum. Ég hugsaði með mér: plís, ekki láta mig vera drepinn af einhverjum skæruliðum – ég er einn af góðu gaurunum. En strákurinn greip í mig og leiddi mig aftur að húsinu sínu. Við tókum svo aðra leið og fundum loks gistiheimilið. Ég komst þar inn rétt áður en rigningin byrjaði. Ég var svo rétt kominn inní herbergi þegar að rafmagnið fór af öllu húsinu, sennilega vegna eldingar. Þannig að eina, sem ég gat gert var að læsa herberginu mínu og fara að sofa.


Daginn eftir í Perquin skoðaði ég safn, sem var sett upp til minningar um borgarastríðið. Þar fylgdi mér í gegn bóndi, sem barðist með FMLN. Eftir safnið fór ég síðan uppá fjall þar nálægt, þar sem sáust sprengjugígar (herinn varpaði nokkrum sprengjum á Perquin) og skotgrafir. En einnig var þar stórkostlegt útsýni yfir Perquin og alveg yfir til Hondúras. Í raun var með ólíkindum að hugsa sér að á þessum friðsæla og fallega stað hafi geisað borgarastríð fyrir aðeins 13 árum. En núna er þarna allt rólegt og FMLN eru orðnir að stjórnmálaflokk, sem naumlega tapaði síðustu kosningum.

Eftir safnið fékk ég mér sundsprett í litlum læk þar nálægt og ákvað svo að drífa mig yfir til Hondúras. Til þess tók ég rútu.


Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa rútuferðum hér í Mið-Ameríku. Ég hélt að þær væru svipaðar ferðum í Suður-Ameríku, en munurinn er nánast óbærilega mikill. Rúturnar hérna eru nær allar gamlir skólabílar frá Bandaríkjunum. Það þýðir þrennt: Fyrir það fyrsta eru engir demparar á rútunum, í öðru lagi eru rúturnar að minnsta kosti 30 ára gamlar og í þriðja lagi þá voru rúturnar hannaðar *fyrir börn*. **Börn!** Ekki fullorðið fólk! Það þýðir að á milli sæta eru sirka 20 sentimetrar, sem fyrir mann einsog mig er hreinlega ekki nóg. Ég er um 180 sentimetrar, sem telst nú ekkert sérstaklega mikið á Íslandi, en hérna er ég nánast risi.

Eitt er það, sem að bílstjórar þessara rúta hafa þó eytt peningum sínum í að bæta: Nefnilega hljómflutningstækin. Allar rúturnar eru með geislaspilara, kraftmikla hátalara og magnara, sem er með treble stillt á hæstu mögulegu stillingu. Þessir sömu bílstjórar hafa svo nánast undantekningalaust *versta tónlistarsmekk í heimi*. Byrjið á að ímynda ykkur leiðinlegustu kántrítónlist, sem þið getið hugsað ykkur. Ok, þegar við tölum um *mexíkóskt* kántrí, þá má margalda þá hörmung með 50. Allir virðast þessir bílstjórar elska mexíkóskt kántrí. Það er stórkostleg hörmung. Ég get svo svarið það, að ég myndi frekar vilja hlusta á sírenuvæl heldur en Tigres del Norte eða aðrar jafn stórkostlegar sveitir.

Þegar að bandaríkjamenn reyndu að svæla Manuel Noriega útúr einhverju sendiráði, þá notuðu þeir háværa rokktónlist til að gera alla geðveika. Ef einhver þarf einhvern tímann að pynta mig, þá þyrfti sá hinn sami einingis að spila mexíkóskt kántrí í nokkra klukkutíma og þá væri ég fúslega tilbúinn að viðurkenna að börnin mín væru að starfa með Al-Kaída.

Semsagt, rútuferðin frá El Salvador til Hondúras var 5 klukkutímar. Það eftir malarveg í demparalausri rútu (stanslaus hristingur *allan* tímann), með 20 sentimetra fyrir lappirnar mínar og mexíkóskt kántrí á hæsta styrk *allan tímann*. Jesús almáttugur hvað þetta var slæmt.


En núna er ég kominn til Marcala, smábæjar mitt á milli landamæranna og Tegucigalpa. Er kominn með lítið hótelherbergi á krúttulegasta hóteli í heimi. Eigendurnir eru búnir að bjóða mér í mat og litla stelpan þeirra (sem er að ég held fallegasta barn í heimi) labbaði með mér alla leið hingað á þetta netkaffi til að ég myndi ekki villast.

Í fyrramálið ætla ég svo að fara til höfuðborgar Hondúras, Tegucigalpa.

*Skrifað í Marcala, Hondúras klukkan 19.36*

Mið-Ameríkuferð 2: Mexíkó og El Salvador

Ok, ég fíla El Salvador. Hef bara verið hérna í nokkra klukkutíma, en þetta hefur gerst:

* Gaurinn í innflytjendaeftirlitinu sagði: *Bienvenido a El Salvador*! Ég hef aldrei heyrt einhvern í vegabréfaskoðun bjóða mig velkominn. ALDREI!
* Einsog er vaninn í mörgum löndum, þá þarf maður að ýta á takka í tollaeftirlitinu. Maður ýtir á takkann og fær annaðhvort grænt ljós (maður má fara) eða rautt ljóst (tollarar skoða farangurinn). Ég lenti á rauðu ljósi, en hitti þar án efa yndislegasta tollvörð í heimi. Hann nennti mestlítið að skoða bakpokann minn, heldur byrjaði að forvitnast um hvað ég ætlaði að gera. Svo dásamaði hann náttúru El Salvador. Þegar hann var búinn sagði hann stoltur: *Bienvenido a mi pais*. Yndislegt alveg hreint
* Ég kom mér svo hingað til Santa Ana, lítillar borgar rétt hjá Cerro Verde þjóðgarðinum, þar sem ég ætla að labba uppá eldfjall á morgun. Ég var með hausverk og fór í apótek til að kaupa lyf. Við hliðiná mér stóð maður, sem gekk uppað mér og byrjaði að nudda á mér gagnaugað! Hann bauðst svo til að nudda á mér hausinn. Ég veit að þetta hljómar illa, en þetta var bara svo yndislega vinalegt. Hann nuddaði á mér gagnaugað og sagði að ég væri of stressaður og eitthvað. Hausverkurinn lagaðist talsvert og kallinn tók í höndina á mér og kvaddi. Ég meina, hvar annars staðar gerast svona hlutir?
* Fólkið á hótelinu er *án efa* vinalegasta hótelstarfsfólk, sem ég hef hitt. Ég hef gist á hótelum, þar sem herbergin kosta 400 dollara, en aldrei hef ég fengið jafn vinalega þjónustu og á þessu 12 dollara hóteli hér í El Salvador.

Maginn á mér gerði hálfgerða uppreisn í gær. Veit ekki hvort hann fékk loksins nóg af tacos al pastor, eða hvort þetta voru malaríu töflurnar, sem ég byrjaði að taka í gær. En allavegana, er skárri núna.

Flaug í dag frá Mexíkóborg til El Salvador. Breytingin var mikil. Hérna er allt skógi vaxið og hitinn er gríðarlegur. Samkvæmt mælinum er hitinn 34 gráður, en samkvæmt hausnum á mér er hitinn 79 gráður. Ég get labbað svona 5 metra án þess að byrja að svitna einsog Borgþór.

Talandi um Borgþór, þá sakna ég þess að hafa hann sem ferðafélaga hér í Ameríku. Hann hafði þann einstaka kost að allar flugur löðuðust að honum og því gátum við hinir sofið rólegir á meðan að flugurnar hökkuðu Borgþór í sig. Þar sem ég nýt ekki krafta hans hérna, þá þarf ég að spreyja mig hátt og lágt, þar sem ég er vanalega vinsælt skotmark hjá flugum.

En allavegana, ég veit ekki almennilega hvað ég á að gera hérna í Santa Ana í dag. Þetta er bara lítill bær með sætu torgi og kirkju. Ekki mikið að gera svosem. Ætli ég kíki ekki bara á krána, sem er við hliðiná hótelinu í kvöld og prófi El Salvadorskan (þetta getur ekki verið orð!) bjór.

Á morgun ætla ég að fara yfir í Cerro Verde þjóðgarðinn og labba uppað [Izalco eldfjallinu]( http://volcano.und.nodak.edu/vwdocs/volc_images/south_america/el_salvador/izalco.html) – eða þá uppá það. Veit ekki almennilega hversu langt maður á að komast. Því næst er stefnan tekin á San Salvador, þar sem ég ætla aðeins að stoppa í nokkra klukkutíma eða mesta lagi einn dag. Ef það er eitthvað, sem ég lærði á síðasta ferðalagi um Suður-Ameríku, þá er það að eyða ekki of miklum tíma í borgum. Maður endar á því að gera það sama: Skoða kirkju, torg og svo byrjar maður að eyða tímanum í að versla eða einhverja aðra vitleysu, sem maður gæti gert heima hjá sér. Þess í stað ætla ég að eyða sem mestum tíma skoðandi náttúruperlur eða fornminjar. Það er mun meira gefandi heldur en borgaráp.

Frá San Salvador ætla ég til Perquin, smábæjar sem var einu sinni höfuðstöðvar FMLN skæruliðanna, sem börðust við stjórnvöld hér í landi. Þaðan mun ég svo koma mér yfir til Honduras.

*Skrifað klukkan 17.32 í Santa Ana, El Salvador*

Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor

Ég veit aldrei almennilega hvernig ég á að lýsa Mexíkóborg. Ég hef komið víða, en það nálgast samt engin borg, sem ég hef séð, þá geðveiki sem Mexíkóborg er. Mexíkóborg er næst fjölmennasta borg jarðar á eftir Tókíó í Japan og það er ekki erfitt að trúa því þegar maður hefur búið eða dvalið hérna í einhvern tíma.

Fyrir það fyrsta, þá er aðflugið að borginni stórkostlega magnað. Flugvöllurinn er nálgægt miðbænum og í aðfluginu flýgur maður yfir hálfa borgina. Þegar styttist í flugvöllinn er alveg einsog vélinni sé ætlað að lenda í miðju íbúðarhverfi, sem fyrir hálf-flughræddan mann einsog mig, er ekkert sérstaklega aðlaðandi. Ólíkt Tókíó, þá eru hérna nánast engir skýjakljúfar, heldur eru flest húsin um 4-5 hæðir. Ég held að hæsta byggingin hérna sé Torre Latinoamericano, sem ég heimsótti akkúrat áðan, en sú bygging er 44 hæðir.

Í stað þess, þá er borgin óendanlega víðfem. Heildarsvæðið undir borginni er yfir 5.000 ferkílómetrar (meira en 4 sinnum stærri en New York – og meira en tvöfalt stærri en Tókíó). Borgin er byggð í dal, umlukt eldfjöllum, sem veldur því að mengunin af gömlum bílum verður en verri en ella og veldur því að það er nánast ómögulegt að sjá fjöllin, sem umlykja borgina, nema í sérstökum skilyrðum.

…En ég elska þessa borg. Öll geðveikin, allt fólkið, gerir þetta að yndislega heillandi stað. Ég efa það ekki að fulltaf fólki mun ekki sjá sjarmann við mengunina, götusalana og öll lætin, en ég elska þetta. Þegar ég bjó hérna varð ég stundum þreyttur á því að þurfa að berjast fyrir því að komast inní lest, eða hoppa yfir götusala, eða láta kolbilaða bílstjóra næstum því keyra mig niður. En núna þegar ég er hérna í nokkra daga, þá virkar allt þetta alveg dásamlagt.


Ég er búinn að vera hérna síðan á fimmtudag, kom hingað með flugi frá Baltimore. Ég gisti á gistiheimili nálægt Zocalo, sem er aðaltorgið hérna. Til að byrja með var ég með tveimur stelpum í herbergi, sem eru án efa ó-spéhdræddustu stelpur, sem ég hef kynnst, sem væri svo sem í lagi ef þær hefðu slakað aðeins á mataræðinu undanfarna mánuði. Þær yfirgáfu hins vegar herbergið í gær vegna þess að þær sáu kakkalakka. Ég ákvað hins vegar að harka þetta af mér (enda hef ég gist á talsvert viðbjóðslegri stöðum) og var í gær verðlaunaður með þremur þýskum herbergisfélögum. Enginn þeirra hrýtur, sem er mikill mannkostur.

Ég gerði eina tilraun til að hafa uppá fyrrverandi kærustunni minni, en komst strax að því að upplýsingarnar, sem ég hafði, væri ekki nægar til að hafa uppá henni. Þannig að ég ákvað að sinna bara hinni mexíkósku ástinni minni, mexíkóska matnum…

Ég get ekki lýst því hvað ég elska götumatinn í Mexíkóborg. Einhverjir ferðalangar hafa haldið því fram við mig að götumaturinn í Bangkok sé svipaður af gæðum, en ég hef hvergi fengið jafngóðan mat. Tacos Al Pastor, sem eru litlar korn tortillur, fylltar með sterku svínakjöti, lauk, kóríander og sósu, eru *himneskur matur*. Ég hef algerlega borðað yfir mig á þessum fáu dögum, sem ég hef verið hérna. Um leið og ég finn að það er hugsanlega eitthvað smá pláss í maganum, þá hef ég rokið inná næstu taquería og fengið mér fleiri tacos. Ég er ákveðinn að halda þessari iðju áfram til morguns, sama hversu miklum mótmælum maginn minn heldur uppi.


Þannig að tímanum hingað til hef ég mestmegnis eytt í labb og mat. Fór í gær á Museo de Antropologia, sem er eitt merkasta safn rómönsku Ameríku, þar sem er rakin saga Maya, Azteca og annara frumbyggja Mexíkó. Mjög skemmtilegt safn. Enn skemmtilegra var þó fólkið, sem ég hitti fyrir utan.

Því það eina, sem stenst matnum hér snúning, er fólkið sjálft. Mexíkóar eru algjörlega yndislegir. Ég var ekki búinn að sitja lengi í sólinni, þegar að nokkrir háskólakrakkar voru byrjuð að rabba við mig. Það endaði með því að ég labbaði með þeim mestallan daginn í leit að götumat, sem ég hafði ekki prófað áður. Ég veit ekki hvar annars staðar en í Ameríku maður getur eignast vini bara á því að sitja á bekk í almenningsgarði.


Á föstudagskvöld fór ég með nokkrum stelpum frá Englandi á [mexíkóska fjölbragðaglímu](http://www.cmll.com). Það var stórkostleg snilld. Fyrir þá, sem hafa séð ameríska fjölbragðaglímu, þá er sú mexíkóska helmingi verri. Allar sögurnar eru helmingi verri og karakternarir enn ýktari, auk þess sem þeir eru allir með grímur. Þetta var besta skemmtun, en því miður mátti ég ekki taka myndir þar inni.

Restinni af tímanum hef ég svo eytt á labbi um borgina, borðandi mat og virðandi fyrir mér einstakt mannlífið hérna. Verð hérna þangað til á morgun, en í fyrramálið á ég flug til San Salvador, höfuðborgar El Salvador. Ætla að eyða 4 dögum í El Salvador og fara svo yfir til Honduras.

*Skrifað í Mexíkóborg, Mexíkó klukkan 13.32*

Ferðalag á morgun

belize-12.jpg

Ok, ferðalag á morgun. Er kominn með í magann. Er ekki búinn að pakka ennþá, var í vinnunni til klukkan 7 í kvöld og hef hreinlega ekki haft tíma. Ætla að gera það á eftir.

Planið er flug til Baltimore seinnipartinn á morgun og svo flug til Mexíkóborgar gegnum Miami á fimmtudagsmorgun. Ef allt gengur eftir ætti ég að vera kominn til Mexíkóborgar um 2 leytið á fimmtudaginn.

Annað er ekki planað nema að ég á flug til Baltemore frá Gvatemala borg 1.október. Þannig að ég hef einn mánuð til að koma mér frá Mexíkóborg til Gvatemala borgar. Ég veit ekki alveg hvernig ég geri það og í hversu stórum skrefum. Ég hef bara búið til í hausnum lauslegan lista yfir þá staði, sem mig langar til að sjá. Þeir eru t.d.

* [Tikal í Gvatemala](http://www.rutahsa.com/Tikal-6.jpg)
* [Lago Atitlan í Gvatemala](http://www.smartishpace.com/files/guate/lago_atitlan8.jpg)
* [Caye Culker](http://www.beautifulbelize.com/images/photo_gallery/cayecaulker_thesplit1.jpg) í Belize eða [Bahia eyjar í Hondúras](http://images.google.com/imgres?imgurl=http://www.fthfoundation.org/images/book.jpg&imgrefurl=http://www.fthfoundation.org/bay_islands_of_honduras.htm&h=265&w=300&sz=17&tbnid=yx0JyULRTlcJ:&tbnh=98&tbnw=111&hl=en&start=3&prev=/images%3Fq%3Dbay%2Bislands%26svnum%3D100%26hl%3Den%26lr%3D%26c2coff%3D1%26client%3Dsafari%26rls%3Dis-is%26sa%3DN), þar sem eg ætla að reyna að læra að kafa
* [San Cristobal de las Casas í Chiapas, Mexíkó](http://www.mexonline.com/sccasas.htm)
* Canon del Sumidero í Chiapas, Mexíkó

Ég veit ekki hvort ég kemst á alla staðina né hvað mun bætast við eða hversu lengi ég ætla að vera á hverjum stað. Það kemur bara í ljós.

En ég stefni allavegana á að uppfæra þessa síðu reglulega á meðan á ferðalaginu stendur.

Ferðaplan

Ég fæ engin verðlaun fyrir það að vera skipulagður í ferða undirbúningnum mínum. Er eiginlega búinn að vera of busy í vinnu til þess að klára hlutina og skipuleggja.

Var að raða ofaní minningarkistuna mína þegar ég sá allt í einu bólusteningarskírteinið mitt og fattaði að ég steingleymdu að láta bólusetja mig. Gulu sprautan er orðin 10 ára gömul og eitthvað annað var útrunnið. Hringdi því og grátbað konuna á símanum um að redda mér tíma. Sem hún og gerði. Þvílíkt yndi. Þannig að á morgun ætla ég að láta sprauta mig fullan af einhverjum viðbjóði. Vona bara að ég sé ekki inná malaríu-svæðum, svo ég þurfi ekki að taka hryllings-malaríutöflurnar, sem allir tala svo illa um.

Svo hérna heima eftir Liverpool leikinn, þá fór ég að pæla í flugum frá Washington til Mið-Ameríku. Ég ákvað með Genna að það væri betra að við myndum hittast á heimleiðinni og því ætla ég að reyna að fljúga beint til Mexíkóborgar án stopps í Washington og fljúga svo á bakaleiðinni frá Guatemala borgar til Washington og heimsækja Genna og Söndru í tvo daga.

Ég fór svo að hugsa með mér áðan…. heimsækja Genna og Söndru… hhmmmmm… Washington… hmmmm……. *Hólí sjitt*, þau búa í Bandaríkjunum og ég er með gamalt vegabréf. Þannig að núna þarf ég að redda mér nýju (DAMN you, Osama!) vegabréfi og þarf að fá sérstaka flýtimeðferð, sem þýðir að ég þarf að borga 10.000 kall. Ég er ekki sáttur, því ég elska vegabréfið mitt. Ég fékk það einmitt útí Mexíkó vegna þess að því gamla var rænt af mér á lestarstöð í Mexíkóborg fyrir 8 árum.

En vegabréfið mitt er svo uppfullt af gömlum stimplum (í vegabréfinu eru stimplar frá Guayana, Argentínu (2 stk), Chile, Uruguay, Kúbu, Kólumbíu, Ekvador, Perú, Venezuela, Paragvæ, Tékklandi, Póllandi (2stk), Bandaríkjunum (10 stk), Bólivíu, Tyrklandi og Kanada), sem ég verð aldrei þreyttur á að fletta í gegnum þegar ég er að bíða eftir flugi á leiðinlegum viðskiptaferðalögum. Stimplarnir vekja alltaf upp skemmtilegar minningar. En svona er þetta nú, ég verð víst að fá mér nýtt vegabréf og byrja að safna stimplum uppá nýtt.

Viva México, cabrones!

Ó fokking jeh!

Ég er að fara til **Mexíkó** í fríið mitt. Ég er búinn að skipta um skoðun sirka 30 sinnum á síðustu dögum, en valið stóð á [milli Suð-Austur Asíu og Mið-Ameríku](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/26/03.12.23). Vinur minn í Tælandi var aðeins uppteknari en hann hélt og það nægði til að ég ákvað að velja Mexíkó í þetta skiptið. Hef vonandi tækifæri til að fara til Tælands seinna.

Og jedúddamía, ég fékk brjálæðislegan fiðring þegar ég loksins ákvað þetta. Mexíkó er svo yndislega æðislegt land! Ég hef reyndar aðeins skoðað þrjár borgir, en fólkið er æði og nánast allt tengt Mexíkó er allavegana í minningunni frábært.


Ég vann eitt sumar í Mexíkó fyrir 8 (úff!) árum. Það var algjörlega æðislegt sumar. Í fyrsta skipti bjó ég einn og þar varð ég líka í fyrsta skipti ástfanginn. Vinnan var ekkert sérstaklega skemmtileg, en kvöldin og helgarnar voru æðisleg.

Ég kynntist stelpunni, Gabrielu, í gegnum vinnuna. Eftir að hafa hitt hana nokkrum sinnum fann ég loksins kjark til að bjóða henni út á stefnumót. Við byrjuðum saman og eftir nokkurra vikna samband bauð hún mér að flytja heim til sín.

Sem var ekkert smá furðulegt. Ég hafði verið að leigja hjá fólki í úthverfi Mexíkóborgar, stutt frá vinnunni minni. En mér samdi ekkert sérstaklega vel við fólkið, sem ég leigði hjá (enda voru þau geðsjúk, öll!). Þannig að ég ákvað að þiggja boðið, enda bjuggum við Gaby þá í sitthvorum enda borgarinnar. Gaby bjó í pínkulítilli íbúð í frekar fátæku hverfi uppí hlíðum Mexíkóborgar, ásamt mömmu sinni, bróður og systur. Þetta er ein yndislegasta fjölskylda, sem ég hef kynnst. Þau vildu allt fyrir mig gera og tíminn þar var ógleymanlegur. Stóri bróðir Gaby var nokkurs konar pabbi á heimilinu og sá til þess að lesa mér lífsreglurnar áður en við Gaby fórum út saman. Mamman var ótrúlegur kokkur og á hverjum degi var veisla á heimilinu.

Eflaust gerir minningin hlutina enn frábærari en þeir voru, en ég hef alltaf horft aftur til þessa sumars með hlýhug. Án efa eitt af bestu sumrum, sem ég hef upplifað.


Ég elskaði líka Mexíkóborg. Hún er kannski svipuð Caracas í Venezula (þar sem ég bjó í eitt ár þegar ég var 18 ára) að því leyti að fólk sem staldrar stutt við sér bara traffíkina, mengunina og fátæktina. En þeir, sem búa þar lengur, átta sig smám saman á því hversu heillandi borgin er. Utan Mexíkóborgar heimsótti ég einnig Acapulco og Veracruz. Ég get ekki beðið eftir því að skoða meira af Mexíkó, því í minningunni er allt við Mexíkó frábært:

Stelpurnar (óó!), klúbbar með barra libre (eitt gjald og svo eins mikið áfengi og þú vilt), tónlistin, tekíla, bjórinn, stelpurnar, veðrið, traffíkin og allt brjálæðið í Mexíkóborg – og maaturinn. Besti matur í heiiiimi. Get ekki beðið eftir því að droppa inná einhverja taqueria um miðja nótt eftir djamm og fá mér tacos al pastor. Jesús Kristur hvað mig hlakkar til!


Ég er ekki kominn með dagsetninguna 100% á hreint. Á enn eftir að afgreiða smá í vinnunni, en þetta verður vonandi í lok mánaðarins. Upphaflega planið er að fljúga til Mexíkóborgar, eyða tímanum þar og fara svo suður. Sennilega í gegnum Chiapas (Ya Basta!, PR!), svo til Gvatemala, Belís og El Salvador. Ég er ekki búinn að skipuleggja ferðina nógu mikið, þannig að ég veit ekki hversu mörg lönd ég heimsæki. Þannig að tíminn verður að leiða í ljós hvort ég fari til Hondúras, Níkaragva, Kosta Ríka og Panama.


Ég fékk svo mikið nostalgíukast við að skrifa þessa færslu að ég setti Luis Miguel á fóninn. [Por debajo de la Mesa](http://www.singingfool.com/musicvideo.asp?PublishedID=809926), maður! Er hægt að hafa það væmnara? Ég held ekki. En þetta var uppáhaldslag Gaby og því minnir það mig alltaf á Mexíkó. Hún neyddi mig til að hlusta á þetta aftur og aftur og aftur.

Ó vá, ég fæ gæsahúð. Mig langar út á morgun.