Ich bin ein kugelschreiber

Það er tvennt, sem ég skil ekki við Þjóðverja. Í fyrsta lagi að þessi 80 milljón manna þjóð skuli hafa getað sætt sig á aðeins eina tegund af rúnstykki, sem er framreidd á öllum hótelum í landinu.

Önnur staðreyndin, sem ég skil ekki, er sú að stór bjór í Köln skuli vera 200 ml, en stór bjór í Frankfurt (sem er um 150 km frá Köln) skuli vera 500 ml. Þetta eru tvær magnaðar staðreyndir, sem hafa haldið fyrir mér vöku undanfarið.

En semsagt, ég er í Þýskalandi, Frankfurt nánar tiltekið. Nánar tiltekið á Sheraton í einhverju business hverfi í suður-Frankfurt. Ljómandi skemmtilegt alveg. Kom frá Köln í gær og er búinn að vera á fundi í dag. Fer svo til Prag á morgun, en hef vonandi tíma til að kíkja eitthvað í bæinn fyrri partinn.

Köln var fín einsog ávallt. Ég var á sýningu og fundum allan daginn, en um kvöldin voru partý í boði ýmissa birgja. Á mánudag var ég t.a.m. á siglingu um Rín og á þriðjudaginn var ég í partýi í boði Pez, þar sem var dansað uppá borðum. Gríðarlega hressandi. Það tekur þó furðu mikið á að vera á sýningu allan daginn og svo í boðum fram á morgun. En ég er ungur og hress, þannig að þetta er minnsta mál. Já, eða eitthvað. Mikið svaf ég samt fáránlega vel í nótt.

Hafði smá tíma til að versla. Mér finnst nefnilega gaman að versla föt undir eftirfarandi skilyrðum: Ég verð að vera einn, og ég verð að vera í útlöndum. Ég get ekki gefið neinar nánari skýringar en svona er þetta. Keypti mér m.a. flottustu skó í heimi. Þið verðið einfaldlega að sætta ykkur við að sama hversu mörg pör af skóm þið kaupið um ævina, þá verða þeir aldrei jafn flottir og mínir. Nema þá að þið kaupið nákvæmlega eins skó og ég keypti, en ég mæli alls ekki með því.

Það flæða ekki beinlínis útúr manni skemmtilegar ferðasögur í svona vinnuferðum, en svona er þetta. Vonandi verður Prag meira spennandi. En þetta er búið að vera skemmtilegt hingað til. Erfitt en gaman.

*Skrifað í Frankfurt kl. 22:01*

Ferðadansmyndband

Þetta [myndband er ÆÐI](http://wherethehellismatt.com/videos/dancing.wmv)!!!
(36 mb. Windows Media).

Mæli með þessu fyrir alla. Mig langaði til að pakka oní ferðatösku og byrja að ferðast um leið og ég kláraði að horfa á þetta. Algjör snilld 🙂 (via [Mefi](http://www.metafilter.com/mefi/39013))

Warszawa


*Auðvitað* eru Pólverjar fínir. Þrír dagar eru nú ekki langur tími til að kynnast þjóð, en það er allavegana byrjun. Fyrir það fyrsta eru allir Pólverjar Pólverjar. Það er, það eru allir eins, allir af sama stofni, allir hvítir. Ekki það að Pólverjar hafi eitthvað á móti innflytjendum, þetta bara er svona. Það var ekki fyrr en á þriðja degi sem ég sá svartan mann og ég sá aldrei neinn frá Asíu eða Mið-Austurlöndum. Dálítið magnað aðeins 300 kílómetra frá Þýskalandi.

Því miður eru stelpurnar ekki jafn huggulegar og í Rússlandi. Þær eiga þó það inni að mér finnst svo yndislega krúttulegt að heyra stelpur tala slavnesk tungumál. Finnst það næstum því jafnflott og að heyra argentískar stelpur tala spænsku. Ég held að ég yrði miklu fyrr hrifnari af stelpu ef hún talaði við mig á rússnesku eða pólsku frekar en einhverju öðru tungumáli.

En allavegana, fyrir utan vinnu gat ég skoðað smá hluta af Varsjá, bæði í leigubíl og gangandi. Ég keypti mér Lonely Planet bók um Pólland og las um sögu þessa lands á leiðinni. Ég er ákveðinn að koma aftur til Póllands og fara þá niður til Kraká og skoða þá borg sem og Auschwitz.

Varsjá ber þess á ýmsan hátt merki hversu illa borgin varð úti í Seinni Heimsstyrjöldinni. Aðeins 50% íbúanna lifðu af Heimsstyrjöldina og aðeins 15% bygginganna stóðu þegar að Nasistarnir höfðu lokið sér af. Ég hafði engin tækifæri til að fara þar sem Gettó-ið var áður og sjá minnismerki um hetjulega baráttu Gyðinga og Pólverja, en ég er harðákveðinn í að gera það næst þegar ég kem til Varsjár. Það er svo ótrúlegt hvað þessi þjóð hefur mátt þola í gegnum tíðina enda hafa fáar þjóðir verið jafn einstaklega óheppnar með nágranna.

Sú staðreynd að svona fáar byggingar lifðu styrjöldina af veldur því að borgin er ansi lituð af arkitektúr áranna eftir Heimsstyrjöldina og eru byggingarnar þá undir áhrifum frá Sovétríkjunum og þeim arkitektúr sem þar var vinsæll. Til að mynda er hæsta byggingin, Palace of Culteres nánast alveg einsog systurnar sjö, sem Stalín lét byggja í Moskvu. Palace of Cultures var jú gjöf Sovétmanna til Pólverja og voru nokkuð skýr skilaboð um það hver stóri bróðir væri, því lengi vel var bannað að byggja hærri byggingar í Varsjá.

Gamli miðbærinn hefur að hluta til verið endurreistur einsog hann var, en einnig að hluta til einsog hann var ekki. Sumar byggingar eru byggðar einungis svo þær líti út fyrir að vera gamlar. Bærinn er þó sjarmerandi, þótt að matsölustaðurinn, sem við borðuðum á fyrsta kvöldið í miðbænum hafi verið lygilega slappur. Innblásinn af Lonely Planet bókinni pantaði ég Bigos af matseðlinum, sem er víst það pólskasta af öllu pólsku í pólskri matagerðarlist. Þetta var ofsoðið kál borið fram í óætu brauði. Bragðaðist jafnvel verr en það hljómar.

Svo er Pólland auðvitað orðið mekka kapítalismans og með hreinum ólíkindum hvað það er hægt að opna marga KFC og McDonald’s staði á ekki lengri tíma. Þarna eru Kringlur útum allt og allir súpermarkaðirnir eru í eigu Carrefour og Tesco. KFC, H&M, Pizza Hut, Zara og McDonald’s á hverju götuhorni. Þetta ætti ekki að koma mér á óvart eftir veru mína í Rússlandi, en stundum getur maður ekki annað en gapað yfir ógnarkrafti kapítalismans.

Myndavélin mín varð batteríslaus á versta tíma, þannig að ég tók engar myndir. Ég held einmitt að myndavélin fái þráðlaust rafmagn úr íbúðinni minni. Hún virðist alltaf vera fulllhlaðinn heima hjá mér, en um leið og ég tek hana útúr húsi, þá verður hún batteríslaus. Helst reynir hún að vera batteríslaus þegar að hleðslutækið er í öðru landi. Ég verð því bara að taka myndir næst.

Uppáhalds borgirnar mínar

Þegar maður er veikur í fimm daga verður maður að finna sér eitthvað til dundurs. Ég ákvað að taka saman þennan lista yfir uppáhaldsborgirnar mínar.

Ég vona svo innilega að þessi listi muni breytast á næstu árum og ég finni nýjar borgir, sem heilli mig meira en þær á listanum.

  1. Chicago: Auðvitað er ég sérstaklega hrifinn af Chicago vegna þess hversu miklum tíma ég eyddi þar. En borgin er æði. Fyrir það fyrsta er hún fallegasta borg Bandaríkjanna. San Fransisco er á fallegri stað, en Chicago er fallegri borg. Fallegri byggingar, hreinni og svo framvegis. Chicago hefur allt, sem maður þarf á að halda. Bestu veitingastaðir, sem ég hef farið á, frábært næturlíf, strönd og svo framvegis. Og það, sem mestu skiptir, hún hefur æðislegasta íþróttavöll í heimi, Wrigley Field. Ég get ekki nefnt margt, sem mér hefur fundist skemmtilegra um ævina en að eyða eftirmiðdegi í sólinni á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball. Það er ógleymanleg lífsreynsla.
  2. Buenos Aires: Besta næturlíf í heimi. PUNKTUR! Ég var með þremur vinum mínum í þrjár vikur í Buenos Aires og við gerðum nánast ekkert nema að djamma þar. Næturlífið er á fullu, sama hvort það er á mánudegi eða laugardegi. – Vissulega er borgin skítug, ekkert alltof heillandi á köflum, umferðin er sturlun og svo framvegis. En það er eitthvað við þessa borg, sem heillaði mig alveg uppúr skónum þegar ég var þar. Borgin hefur einhvern sjarma, sem erfitt er að lýsa.
  3. Moskva: Frábær borg. Einhver ótrúlegur kraftur og geðveiki tengd þessari blöndun á leifum kommúnismans og brjálæðis kapítalismans, sem hefur gripið borgina. Fólkið æði, stelpurnar eru í pilsum sama hvernig veðrið er, frábært næturlíf og endalaust af ferðamannastöðum til að heimsækja.
  4. Mexíkóborg: Margir, sem hafa komið til Mexíkóborgar eru ekki hrifnir. Mengunin er fáránleg, borgin er ótrúlega stór og virkar kannski ekki heillandi við fyrstu sýn. En ég varðástfanginn þegar ég bjó þar. Besti matur í heimi, án nokkurs vafa, yndislegt fólk og einstakt næturlíf. Jafnast ekkert á við það að drekka tequila og bjór fram eftir allri nótt og fá sér svo tacos á 500 manna veitingastað, sem er troðfullur klukkan 6 að morgni. Í Mexíkóborg upplifði ég í fyrsta sinn umferðaröngþveiti klukkan 4 að morgni. Það segir ansi mikið um þessa borg, bæði næturlífið og umferðina.
  5. Caracas: Svipað og með Mexíkóborg. Margir, sem hafa komið þangað fíla borgina ekki. En ég bjó þarna náttúrulega í ár og hef séð ansi margt. Sennilega fáar borgir, sem ég tengi jafn skemmtilegum minningum og Caracas. Æðisleg borg. Já, og þar býr líka fallegasta kvenfólk í heimi.
  6. Las Vegas: Af borgunum á listanum hef ég dvalið styst í Las Vegas. En borgin er ótrúleg. Það er í raun ekki hægt að lýsa henni fyrir fólki. En eftir að ég kvaddi borgina leið varla dagur án þess að mig langaði ekki aftur.
  7. Barcelona: Fallegasta borg, sem ég hef komið til. Ótrúlegur arkítektúr, frábær matur, frábært næturlíf og einstakt götulíf. Ein af þessum borgum, sem mig hefur alltaf langað til að verða eftir í.
  8. Havana: Draumur minn er að ég verði sjötugur og geti þá flutt til Havana. Þar myndi ég svo eyða eftirmiðdögunum drekkandi romm, reykjandi vindla og spilandi dominos við vini mína. Það væri indælt. Havana er æði. Það slæma við hana er hversu óheppnir Kúbverjar eru með leiðtoga, en það er líka auðvitað viðskiptabanninu að hluta til að þakka hversu sjarmerandi borgin er í dag.
  9. New York: Sú borg, sem mig langar hvað mest að búa í. Það er eitthvað yndislega heillandi við allan mannfjöldann, allar byggingarnar og alla geðveikina.
  10. New Orleans: Ef að Buenos Aires er með besta næturlíf í heimi, þá er New Orleans ekki langt undan. Ég eyddi þarna spring break með vinum mínum og því djammi mun ég seint gleyma. Áfengi er selt á götum úti einsog svaladrykkir og það eru allir í brjáluðu stuði, hvort sem það er útá götum eða inná stöðum í franska hlutanum. Ótrúlegt að þessi borg skuli vera í Bandaríkjunum, vo ótrúlega ólík öllu öðru í landinu.

Aðrar borgir, sem komu til greina: Rio de Janeiro – Brasilía, Salvador de Bahia – Brasilíu, San Fransisco – USA, St. Pétursborg – Rússland, Montreal – Kanada. Ég hef ekki komið til Asíu, Afríku og Eyjaálfu auk þess sem ég hef ekki heimsótt evrópskar borgir einsog Prag, París, Róm og Berlín.

p.s. látið mig vita ef þið lendið í vandræðum með að kommenta. einarorn (@) gmail.com – ég er nefnilega að prófa nýtt til að verjast kommenta spami.

Bandaríkjaferð 10: Vegas!

Það eru orðnar nokkrar vikur síðan ég kom heim og ég hef alltaf frestað því að klára að skrifa ferðasöguna. Ég var nokkuð duglegur við að skrifa frá Bandaríkjunum, en þó vantar Las Vegas, Los Angeles, San Fransisco og New York. Byrjum á Las Vegas


Las Vegas var æði!

Það er eiginlega erfitt að lýsa þessari borg, en hún er allt, sem ég óskaði eftir. Hávær, litrík, björt, full af fallegu stelpum, spilavítum og áfengi. Sin City er svo sannarlega rétt nafn fyrir borgina.

Við Dan gistum á [Luxor](http://www.luxor.com), sem er riiiisastórt hótel í laginu líkt og píramíði. Gistingin í Las Vegas er frekar ódýr, enda búast hótelin við að maður eyði peningunum á spilavítinu. Á Luxor var risastórt spilavíti, um 10 veitingastaðir, bíó, um 20 verslanir og kirkja. Já, allt þetta inná hótelinu. Eftir aðalgötunni í Las Vegas eru um 30 svona risahótel, öll troðfull af fólki.

Við vorum komnir þarna til að gambla og þiggja frítt áfengi fyrir. Báðir höfðum við sett okkur hófleg takmörk fyrir því, sem við vorum tilbúnir að tapa. Það er skemmst frá því að segja að þetta byrjaði ekki vel fyrir okkur.

Fyrst kvöldið höfðum við ætlað okkur að byrja að spila um kl. 9 (eftir langan göngutúr eftir “The Strip”. Við plönuðum að spila til svona 1 og fara þá á klúbba. Jæja, það gekk ekki alveg eftir. Við settumst jú við borðin kl. 9, en aftur á móti fórum við ekki útúr spilavítinu fyrr en um kl. 4. Þetta var bara alltof skemmtilegt til að hætta. Við spiluðum mest BlackJack og einnig rúllettu. Þetta gekk hræðilega í byrjun og við vorum næstum búnir að eyða öllu því, sem við ætluðum okkur að eyða.

En heppnin snérist smám saman og vorum við komnir á mjög gott ról undir það síðasta. Spilavítin virka þannig að maður fær endalaust ókeypis áfengi svo lengi sem maður sé að gambla. Við nýttum okkur það ágæta tilboð.

Við enduðum svo kvöldið á að fara á næturklúbb, enda voru hefðbundnir klúbbar þá lokaðir og vorum þar til um 7.

Seinni dagurinn var líkur þeim fyrri. Við vorum í sólbaði og Dan veðjaði á baseball. Um kvöldið ákváðum við þó að labba yfir á [Hard Rock Hotel](http://www.hardrockhotel.com). Það var virkilega snjöll ákvörðun. Fyrir það fyrsta var tónlistin betri, ókeypis drykkirnir stærri, þjónustustelpurnar mun sætari og kvenfólkið almennt séð alveg lygilega myndarlegra.

Við eyddum kvöldinu í blackjack og okkur gekk mjög vel. Við ákváðum um 1 leytið að fara í biðröð á klúbbnu á hótelinu. Þrátt fyrir að ég hafi ALDREI á ævinni séð jafn mikið af fallegum stelpum fara inná skemmtistað, þá gáfumst við að lokum uppá röðinni (sem var sú lengsta, sem ég hef séð) því við ákváðum að það væri mun skemmtilegra að spila BlackJack. Því gerðum við það alveg þangað til að Dan var orðinn svo fullur að hann vissi ekki hvaða spil hann var með. Þá ákvað ég að draga hann heim á hótel 🙂

Ég varð eiginlega algjörlega ástfanginn af Las Vegas og mig langar strax að fara aftur. Dan var þarna líka í fyrsta skipti, og hann var álíka hrifinn. Ég er allavegana harðákveðinn í að fara einhvern tímann aftur þangað. Þetta var allavegana ein skemmtilegasta helgi ævi minnar.

Bandaríkjaferð 9: Almost over

Er kominn til Brooklyn, NY. Gisti hja Ryan, fyrrverandi herbergisfelaga minum og Kate kaerustu hans, sem bjo i sama dormi og eg i haskola.

Er buinn ad taka thvi frekar rolega her i Brooklyn. Gisti fyrstu nottina a vidbjodslegasta hoteli i heimi a Manhattan. Bjost fastlega vid thvi ad finna dauda horu i sturtuklefanum.

Sidan tha hef eg eytt tima minum i Brooklyn, sem er aedislegt hverfi, a labbi med Ryan og Kate. Forum a helviti skemmtilegt pobbarolt i gaer og svo horfdum eg og Ryan a fokking Yankees vinna Boston Red Sox. Ja, og svo bordadi eg besta mexikoska mat, sem eg hef bordad sidan eg bjo i Mexiko. Nammi fokking namm!

A enn eftir ad skrifa um Las Vegas og San Fransisco, sem verdur ad bida betri tima. A thridjudaginn a eg flug heim fra Baltimore.

[Ja, og svo er thad Liverpool – Man Vidbjodur a morgun](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/09/20/00.57.44/) 🙂

*Skrifad i Brooklyn, New York klukkan 19.13*

Bandaríkjaferð 8: Grand Canyon og Sedona

Héðan úr höfuðborg vinstri manna í Bandaríkjunum, San Fransisco, er allt gott að frétta. Ég fæ að gista hjá kærasta Grace, vinkonu minnar. Þau eru vinstri sinnaðasta par í heimi. Bæði “vegan” (ekki bara grænmetisætur, heldur borða þau engar vörur, sem nota dýr – mjólk, egg, os.frv.), leigja saman í kommúnu, mótmæla ranglæti í heiminum einu sinni í viku og hjóla í vinnuna. Yndislegt par.

En ég ætla að bíða með San Fransisco sögur aðeins. Ætla að rifja upp síðustu viku.


Semsagt, þá skrifaði ég síðast almenilega frá Flagstaff í Arizona. Þar eyddi ég þrem heilum dögum. Á þeim fyrsta fór ég með 6 krökkum af gistiheimilinu í ferð um [Grand Canyon](http://www.nps.gov/grca/). Við skoðuðum gilið frá Suður-brúninni og löbbuðum mestallan daginn um stíga niðrí gljúfrinu.

Ég á bágt með að lýsa reynslunni, sennilega munu myndirnar gera það betur. En þetta er sú almagnaðasta náttúrufegurð, sem ég hef á ævinni séð. Það var stórfengleg sjón að sjá þetta í fyrsta skipti og gönguferðirnar okkar gerðu það að verkum að við sáum staði, sem fáir sjá (vegna þess hversu erfið gangan eftir stígnum, sem við fórum niður, er).


Annan daginn í Flagstaff gerði ég lítið merkilegt nema að kíkja í búðir, en á þeim þriðja fór ég í túr til [Sedona](http://www.sedona.net/index.cfm?go=Photos), sem er bær skammt frá Flagstaff. Þar í kring er fullt af ótrúlega mögnuðum fjöllum og skógum. Við eyddum mestöllum deginum á labbi um náttúruna. Hápunkturinn var þriggja tíma gönguferð uppað [Cathedral Rock](http://www.wildnatureimages.com/Sedona%204.htm) þar sem við borðuðum hádegismat (við löbbuðum uppað gatinu á milli toppanna tveggja, sem sjást þá [þessari mynd](http://www.wildnatureimages.com/images%202/040206-002..jpg)). Við enduðum svo daginn á sundsprett í á nálægt fjallinu.

Einsog áður sagði, þá munu myndirnar lýsa þessu mun betur en ég get gert núna. Frá Flagstaff fór ég síðan síðsta föstudag með rútu til Las Vegas.

Já, og svo er þetta verulega fyndið: [The Borat Doctrine](http://www.newyorker.com/talk/content/?040920ta_talk_radosh)

*Skrifað í San Fransisco klukkan 17:44*

**Uppfært**: Hérna eru [myndirnar frá Grand Canyon og Sedona](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/11/18.57.37/)

Bandaríkjaferð 7: Enginn tími

Grand Canyon: Ótrúlegt!
Las Vegas: ÆÐI ÆÐI ÆÐI ÆÐI ÆÐI

Er núna í Los Angeles og er í tölvu heima hjá Grace vinkonu minni.

Hef ekki tíma til að skrifa. Ætlum að skoða Hollywood á morgun og annað kvöld ætlum við að keyra upp til San Fransisco. Ég skrifa meira um Vegas, L.A. og Arizona þegar ég hef betri tíma.

*Skrifað í Los Angeles, Kaliforníu kl. 23:43*

Bandaríkjaferð 6: "Okkar kynslóð á Dylan, ykkar ekki neitt!"

*(Kominn á betri tölvu, þannig að ég held áfram á því, sem ég byrjaði á [í gær](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/06/03.12.20/))*

Fullkomið!

Það er eina orðið, sem getur lýst tónleikunum á laugardaginn. 30 stiga hiti og sól á baseball leikvangi í Kansas. 15.000 aðdáendur á tónleikum, sem löngu var uppselt á. Og tveir snillingar, Bob Dylan og Willie Nelson í banastuði. Þvílík og önnur eins snilld! Ég fór á þessa tónleika sem Bob Dylan aðdáandi og fór heim af þeim, sem ennþá meiri Dylan aðdáandi og auk þess mikill Willie Nelson aðdáandi.

Willie kom fyrstur á svið með 7 manna sveit og bandaríska fánann í bakgrunni (sem var svo skipt út fyrir ríkisfána Texas eftir nokkur lög). Willie var æði. ÆÐI! Hann sýnir okkur öllum að kántrí er ekki bara rusl. Kallinn er 71 árs gamall, en samt var hann brosandi allan tímann og söng og spilaði einsog engill öll sín frægustu lög. Allt frá “On the Road Again”, “Bobby McGee”, “Beer for my horses” og svo stórkostlega útgáfu af “Always on my mind”. Þvílíkur snillingur!

Dylan kom svo á svið með 4 manna hljómsveit og hann var frábær. Magnaður! Stórkostlegur! Tónleikarnir voru mjög rokkaðir og hljómsveitin tók fullan þátt í öllum lögunum. Hann fór listilega í gegnum nokkur [frábær lög](http://bobdylan.com/live/summer2004setlists.html#20040904). Byrjaði á “Maggie’s Farm”, tók svo “Stuck inside of Mobile”, Highway 61″, “Trying to get to heaven” og fullt af fleiri lögum. Hann endaði svo auðvitað á “Like a Rolling Stone” og Hendrix-legri útgáfu af “All along the watchtower”. Auðvitað sleppti hann fullt af lögum, sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér, en maðurinn hefur líka samið svo endalaust mikið af lögum að það var varla við öðru að búast. Ég hefði ekki slegið hendinni á móti því að fá nokkur róleg lög, einsog Forever Young, Simple Twist of Fate og fleiri. En allt, sem hann spilaði var snilld.

Dylan og Willie komu svo saman á svið og sungu saman “Heartland”, sem var algjörlega ógleymanlegt. Ef þetta eru ekki bestu tónleikar, sem ég hef farið á, þá eru þeir allavegana helvíti nálægt því.

Eftir tónleikana lenti ég svo með [Luke Wilson](http://www.imdb.com/name/nm0005561/) í leigubíl! Málið var að það voru engir leigubílar á tónleikasvæðinu, þannig að ég plataði leigubílstjóra, sem var að bíða eftir tveim strákum, til að taka mig með líka. Svo þegar strákarnir komu, þá voru það Luke Wilson og vinur hans, sem höfðu komið frá L.A. gagngert til að horfa á tónleikana. Við spjölluðum aðeins um tónleikana og voru þeir álíka hrifnir og ég.

*How does it feeeeeeel*

p.s. Já, og titillinn er kvót í pabba vinar míns, sem sagði þessu fleygu orð á góðri stund. Það er eiginlega honum að þakka að ég varð svona forvitinn yfir Dylan til að byrja með 🙂


Einhvern veginn fannst mér tilhugsunin við 22 tíma lestarferð ekki vera svo galin. Ég veit ekki alveg hvað ég var að hugsa, en þó var þessi 24 tíma lestarferð frá Kansas til Flagstaff í Arizona alls ekki svo slæm. Þetta er þó langt frá metinu mínu, sem er 30 tímar í rútu í Chile.

Ferðin var bara nokkuð fín. Ég svaf í gegnum Kansas en eyddi tímanum mínum í útsýnisvagninum í gegnum Colorado, Nýju Mexíkó og Arizona. Við fórum í gegnum Indjána byggðir, stoppuðum í Albaquerque og sáum mikið af mögnuðu landslagi. 24 tímar var þó fullmikið, sérstaklega þar sem mér tókst herfilega illa að sofna við hliðiná sveittri og leiðinlegri kellingu, sem leit alltaf á mig með illu augnaráði.

Núna er ég kominn til Flagstaff í Arizona og er á mjög fínu gistiheimili í herbergi með 4 strákum frá Englandi. Ætla að eyða næstu dögum í Grand Canyon og nágrenni.


Auk tónleikanna gerði ég lítið af viti í Kansas. Labbaði um, skoðaði gosbrunna (sem borgin er víst fræg fyrir) og las [bók](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0805073396/qid=1094536009/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/103-3882271-9826214?v=glance&s=books&n=507846), sem ég ætla að skrifa um síðar.

Síðustu klukkutímarnir í Chicago voru erfiðir, mjög erfiðir. Fannst ég þurf að klára ákveðin mál, sem ég hafði kannski ekki klárað nógu vel áður. En ég tala af reynslu þegar ég segi að það er auðveldara að vera særður heldur en að særa þá, sem manni þykir vænt um. Allavegana voru síðustu tímarnir með þeim erfiðari, sem ég hef upplifað á ævinni. En svona er þetta…

*Skrifað í Flagstaff, Arizona klukkan 22:42*

Bandarikjaferd 5: Lestarstod i Kansas

Fullkomid.

Thad er eina ordid, sem getur lyst tonleikunum i gaer! Willie Nelson og Bob Dylan voru storkostlegir!!!

Eg er staddur a Union Station lestarstodinni i Kansas og er ad pikka thetta a faranlegasta lyklabord i heimi, thannig ad thetta verdur stutt.

Uti er thrumuvedur, ad sogn einhverjir angar af fellibylnum sem fer yfir Florida. Allavegana lenti eg i faranlegustu rigningu allra tima a leidinni hingad og er enn rennblautur. Framundan er 22 tima lestarferd i gegnum Kansas, Colorado, Nyju Mexiko og Arizona allt til Flagstaff i Arizona, stutt fra Grand Canyon, thar sem eg aetla ad eyda naestu 4 dogum.